Mið-Austurlandaferð 6: Íslam

Ég er búinn að vera í Damaskus í rúman sólahring og verð að segja að ég er alveg heillaður af þessari borg. Ég er eiginlega bara staddur á internet-kaffihúsi til að kæla mig aðeins niður, enda sólin sterk og veðrið gott. Hérna á netkaffihúsinu hljómar How am I supposed to live without you með Michael Bolton og ég er umkringdur Sýrlendingum, sem keðjureykja. Sannkallaðar kjör-aðstæður!

Ég kom hingað með rútu frá Aleppo í gær og er búinn að eyða deginum í dag í labb um gamla bæinn. Ég gisti á gistiheimili í kristna hverfi gamla bæjarins, rétt hjá Decumanus götu (Straight Street) þar sem að Páll Postuli á að hafa verið skírður eftir að hafa snúist til Kristni á veginum til Damaskus. Hið skemmtilega gistiheimili sem ég bý á er rekið af Palestínumanni, sem hefur búið í Ástralíu lengi en er nýfluttur til Damaskus.

* * *

Í dag skoðaði ég þriðju helgustu mosku múslima (á eftir Mekka og Medina), Umayyad moskuna í Damaskus. Sú bygging er einfaldlega stórkostleg, sannarlega með fallegri byggingum, sem ég hef séð á ævinni. Ég eyddi megninu af fyrri part dagsins inní moskunni. Í henni er m.a. bænasalur þar sem haus Hussein (barnabarns Múhameðs) er geymdur. Sá staður er helgur fyrir Shía múslima. Þegar ég kom þangað inn var þar stór hópur af grátandi fólki í miðjum bænum.

Ég verð að játa það að ég hef alltaf átt erfitt með að muna hvernig skiptin á milli súnní og sjía eru. Ég ákvað því eitt kvöldið að byrja að krota í stílabókina mína töflu til að hjálpa mér við að læra þetta í eitt skipti fyrir öll. Og deili henni hér með ykkur (með fyrirvara um villur, sem þið megið endilega leiðrétta, þar sem ég er enginn fræðimaður í þessum málefnum). Tel þarna til lönd þar sem hvor hópur er í meirihluta og karaktera (flestir miður góðir, enda fréttaflutningur af íslam sjaldnast góður) úr fréttum.

Sjía (15%) Súnní (85%)
Trúa Trúa því að eftir dauða Múhameðs hefði Ali, tengdasonur hans átt að taka við sem leiðtogi múslima (Imam). Viðurkenna ekki áhrif kosinna leiðtoga í íslam, en trúa þess í stað á röð af leiðtogum, sem þeir telja að hafi verið skipaðir af Múhameð eða Guði sjálfum. Trúa því líka að þessir leiðtogar geti ekki gert mistök þar sem þeir séu skipaðir af Guði. Imamarnir hafa því kennivald. Telja að rétt hafi verið að kjósa leiðtoga múslima (Imam) eftir dauða Múhameðs úr hópi hæfra manna (einsog var gert). Telja að leiðtogarnir þurfi að vinna sér inn stöðu sína og ef að þeir standi ekki undir væntingum sé hægt að svipta þá titlinum. Imamarnir hafa því ekki kennivald.
Orðið þýðir Stytting á Shia-t-Ali, eða “Flokkur Ali”. Sá sem fylgir hefðum Spámannsins
Lönd Íran, Írak (65% þjóðarinnar), Bahrain, Azerbaijan, Líbanon (stærsti trúarhópurinn, þó í minnihluta) Sádí Arabía, Palestínumenn, Tyrkland, Sýrland, Jórdanía, Afghanistan, Pakistan, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin, Egyptaland, öll önnur múslimaríki sem ekki eru talin upp meðal Sjíalandanna.
Fólk Khomeini (Íran), Muqtada al-Sadr (Írak), Ali Al-Sistani (Írak), Ahmadinejad (Íran), Hassan Nasrallah (Líbanon) Rafik Hariri (Líbanon), Saddam Hussein (Írak), Osama Bin Laden (Sádí Arabía), Ayman Zawahiri (Egyptaland), Yasser Arafat (Palestína)
Samtök Hezbollah, Mahdi herinn Hamas, Al-Qaeda

Vonandi að þetta hjálpi einhverjum. Ég ætla að nota Damaskus sem bækistöð næstu daga, enda kann ég vel við mig á gistiheimilinu meðal skemmtilegs fólks. Ég er að spá í því að fara til Palmyra á morgun og hugsanlega til Golan hæða seinna í vikunni, með stoppum í Damaskus á milli. Þegar ég er búinn að skoða þá staði og allt sem ég ætla að sjá í Damaskus þá mun ég halda til Jórdaníu.

Skrifað í Damaskus klukkan 18.13

Mið-Austurlandaferð 5: Sýrland

Svona bakpokaflakk snýst auðvitað að mörgu leyti um að skoða helstu túristastaðina. Skoða helstu moskurnar/hofin/kirkjurnar í hverri borg, helstu náttúruperlur og gera það sem að allir pakkatúristarnir gera á sínum ferðum.

En svo snýst þetta flakk líka um daga einsog daginn í dag, sem hefur verið nánast fullkominn. Daga þar sem maður getur kynnst innfæddum, daga þar sem maður hefur ekkert betra að gera en að sitja á torgi, stara útí loftið og spjalla við fólkið á götunni. Setjast svo á kaffihús, horfa á mannlífið, lesa góða bók og spila fótbolta við krakka útá götu. Dagar sem að fulltaf litlum, óvæntum og skemmtilegum hlutum gera svo frábæra. Svoleiðis dagar eru líka ótrúlega mikilvægir.

* * *

Sýrland hefur ekki beint á sér gott orðspor. Ég man ekki eftir að hafa lesið neitt gott um þetta land í fréttum áður en ég kom hingað. Landinu hefur í nærri því 40 ár verið stjórnað af al-Assad feðgum, fyrst Hafez al-Assad, sem komst til valda í valdaráni hersins árið 1970 og stjórnaði landinu alveg til dauðadags árið 2000 þegar að sonur hans Bashar al-Assad tók við. Hér búa um 20 milljónir manns, langflestir Súnní múslimar.

Í fréttum hefur Sýrland aðallega verið tengt vandamálum í nágrannaríkjunum. Ríkisstjórnin hefur verið með puttana í málefnum Líbanons, landið hefur staðið í landamæradeilum við Ísrael mjög lengi, ríkisstjórnin var að mati Bandaríkjamanna ekki nógu dugleg við að loka landamærunum að Írak (svo að vígamenn gætu ekki komið inní Írak frá öðrum Arabalöndum) og svo framvegis og framvegis. Í 24 þáttunum eru hryðjuverkamenn frá Sýrlandi og ég man ekki eftir að hafa séð sýrlenskan karakter í bandarísku afþreyingarefni öðruvísi en hann væri tengdur hryðjuverkum. George W Bush tilnefndi svo Sýrland sem einhvers konar viðbótarmeðlim í möndulveldi hins illa ásamt Kúbu og Líbíu.

En ef það er eitthvað sem ég hef lært af ferðalögum mínum um heiminn, þá er það að skilja frá aðgerðir ríkisstjórna og álit mitt á þegnum viðkomandi lands. Ég get til að mynda vel elskað Bandaríkin og þegna þess lands þrátt fyrir að aðgerðir GWB séu mér ekki að skapi og þótt að ég viti að í því landi séu hópar sem mér líkar ekki við.

Þetta er frekar langur fyrirvari að því að koma því frá mér að Sýrlendingar eru með yndislegasta fólki sem ég hef kynnst. Ég veit að ég hef bara verið hérna í 4 daga, en aldrei áður hef ég kynnst jafnmikilli gestrisni. Aldrei hefur mér liðið jafnvel í nýju og ókunnu landi. Aldrei hefur jafnmikið af fólki komið uppað mér á götu og boðist til að hjálpa mér. Ólíkt mörgum fátækari löndum sem ég hef komið til þá eru þessi almmennilegheit algjörlega ótengd því að verið sé að reyna að selja manni eitthvað. Fólkið býður mann einfaldlega velkominn úti á götu af engri auðsýnilegri ástæðu. Mér hefur verið boðið heim til fólks í te, fólk brosir sífellt til mín úti á götu og hvert sem ég fer heyri ég fólk hrópa “Hello!” og brosa til mín. Þetta er með hreinum ólíkindum. 🙂

* * *

Ég er núna staddur í Aleppo, næst stærstu borg Sýrlands í norðurhluta landsins. Hingað kom ég um hádegisbilið í dag með rútu frá Hama. Þeir sem að taka vel eftir ættu að hafa áttað sig á því að planið mitt hefur breyst. Ég ætlaði upphaflega að fara til Palmyra á sunnudaginn, en á laugardagskvöldið ákvað ég að breyta planinu. Þess í stað fór ég á sunnudaginn (sem var einmitt í gær – VÁ hvað tíminn líður oft hægt á svona ferðalögum – Yndislegt!) í ferð um austurhluta Sýrlands.

Hótelið mitt í Hama skipulagði þennan túr, sem fólst í því að leigja leigubíl með arabísku-mælandi bílstjóra og segja honum hvert átti að fara. Við byrjuðum á að skoða Rasafa rústirnar, sem eru magnaðar rústir borgar í miðri eyðimörkinni. Þar var ég einn einsog við flestar fornminjar á þessari ferð minni og það var frábært. Síðan keyrðum við að Efrat ánni, sem rennur í gegnum Tyrkland, Sýrland og Írak. Þar sem við komum að ánni er risastórt uppistöðulón fyrir virkjun, sem var reist af stjórn al-Assad á sjöunda áratugnum. Sú virkjun er mikið þjóðarstolt í Sýrlandi. Hjá lóninu skoðuðum við svo eitt virki í viðbót. Á leiðinni aftur til Hama skoðuðum við svo fleiri rústir og það var eiginlega orðið svo í gær að ég var kominn með nett leið á að skoða gamla steina í eyðimörkinni, enda hafa síðustu dagar verið uppfullir af slíku.

Ég ákvað því að hætta við að fara til Palmyra (sem eru frægustu fornminjar Sýrlands) í bili og tók þess í stað rútu hingað til Aleppo. Hérna er ég svo búinn að eiga frábæran dag. Eftir að ég hafði komið dótinu mitt inná hótel, sem er í miðju hverfi dekkjaverkstæða, þá labbaði ég niður að gamla miðbænum í Aleppo. Þar er hinn frægi markaður, sem er furðu skemmtilegt að labba í gegnum. Aðallega vegna þess að markaðurinn er (ólíkt t.d. Grand Bazar í Istanbúl) ekki mikill túristamarkaður. Þetta er fyrst og fremst markaður þar sem að borgarbúar koma til að kaupa sínar nauðsynjar. Allt frá kindaheilum til kjóla.

Eftir að hafa labbað í gegnum markaðinn og skoðað aðalmoskuna í Aleppo fór ég uppí virkið sem gnæfir yfir borginni. Þar skoðaði ég mig um í smá tíma og settist svo niður á torgi í miðju virkinu. Úr því varð hin besta skemmtun því uppað mér komu strax nokkrar stelpur, sem byrjuðu að spjalla við mig. Þær töluðu nokkuð góða ensku og vildu sennilega æfa enskuna. En svo vildu þær líka taka mynd með mér. Stelpan sem var með mér á myndinni var í litríkum hijab, sem var því fínt tækifæri fyrir mig að ná mynd af slíkum klæðnaði.

Þegar ég var svo sestur aftur og þær farnar settust hjá mér þrjár aðrar stelpur. Ég spjallaði heillengi við þær líka, sem og mömmu þeirra og frænku sem komu síðar. Þegar ég var að fara vildu þær líka fá að taka mynd af mér með sér. Önnur þeirra var í algerlega svörtum hijab með allt hulið nema augun (einsog á þessari mynd efst til hægri), en fyrir myndatökuna tók hún niður blæjuna sem var fyrir andlitinu. Þá var bróðir þeirra mættur á svæðið með eiginkonu sína (sem var gull gull gullfalleg stelpa, sú fallegasta sem ég hef séð á þessari ferð minni) en hann bannaði henni að vera með á myndinni, þrátt fyrir að hann virtist þess utan vera ótrúlega skemmtilegur og líbó gaur. En svona geta hlutirnir verið skrýtnir.

Hérna í Aleppo er einsog í hinum borgunum mismunandi hversu mikið stelpurnar hylja andlit og líkama. Ég hef séð slatta af stelpum, sem hylja allt nema augun, en eru samt sem áður í þunnum hijab sem að sýnir að mörgu leyti vöxt þeirra (og sumar þeirra eru líka í litríkum og fallegum skóm, sem er það eina sem aðgreinir þær). Svo eru ansi margar sem eru í þykkum hijab, sem er einsog þykkur frakki og hylur allan vöxt – svo mikið að maður getur ekki einu sinni greint hvort að undir er ung stelpa eða eldri kona.

Karlmenn klæða sig einsog karlmenn á Vesturlöndum.

* * *

Eftir þessar skemmtilegu samræður og myndatökur fór ég svo útúr virkinu og spilaði á torginu fyrir utan fótbolta með nokkrum krökkum í smá tíma. Svo rölti ég í átt að hótelinu mínu og fann á leiðinni þetta frábæra netkaffihús. Í kvöld ætla ég að vera ótrúlega frumlegur og fá mér kjöt á spjóti eða þá shawarma. Það væri skemmtileg tilbreyting. 🙂

Á morgun fer ég svo með rútu suður til Damaskus.

Skrifað í Aleppo, Sýrlandi klukkan 19.36

Mið-Austurlandaferð 4: Guði sé lof fyrir Nescafé!

Ég er búinn að setja inn eitthvað af myndum inná Flickr síðuna mína frá Líbanon. Vandamálið er að ég tek flestar myndirnar á EOS vélina mína í RAW og get því ekki sett þær inná Flickr af net-kaffihúsum. Ég get því bara sett inn myndir sem ég tek með litlu vélinni minni. Vanalega er ég með litlu vélina í borgum og þá stóru á stærri túristastöðunum.

Ég í miðbæ Beirút

Á þessari mynd er ég nánast aleinn á aðaltorginu í miðbæ Beirút. Nokkrum dögum áður en svo allt varð vitlaust.

* * *

Ég veit varla hvernig ég á að lýsa óþverranum sem manni er boðið uppá undir merkjum kaffis hér í Sýrlandi. Þetta er einhver ógeðsleg leðja, sem að fólk blandar í með sirka 4 sykurmolum til þess að það verði drykkjarhæft. Í gær var ég fastur hérna í Hama, þar sem að ég nennti ekki að fara í sýnisferð um nágrennið í rigningu. Það sem ég fattaði ekki fyrirfram var að það var föstudagur (ég er lygilega fljótur að gleyma því hvaða vikudagur það er á ferðalögum) og því voru allar verslanir og flestir veitingastaðir lokaðir.

Þannig að ég hafði heilan dag til að eyða í bókalestur. Og með því þurfti ég kaffi. ÉG ÞURFTI KAFFI! Nauðsynlega! Eftir smá labb tókst mér að finna tvö kaffihús, sem voru opin en þau buðu bara uppá arabískt kaffi, en ekki Nescafé einsog margir staðir gera. Ég gerði því dauðaleit að búð sem að seldi Nescafé. Og það var ekki fyrr en um eftirmiðdaginn í gær að ég fann vin í eyðimörkinni sem að seldi Nescafé. Ég keypti krukku fagnandi, hljóp heim á hótel einsog illa haldinn fíkill og sauð vatn. Þvílík sæla. Ég hef aldrei á ævinni verið jafn feginn að drekka bolla af instant kaffi.

* * *

Hama er víst ein íhaldssamasta borgin í Sýrlandi. Það var hér sem að bræðralag múslima reyndi uppreisn árið 1982 gegn Assad fyrrverandi Sýrlands forseta. Assad réðst þá á borgina án misskunnar og nánast jafnaði hana við jörðu og talið er að herinn hafi drepið allt að 25.000 manns í borginni. Þegar maður ferðast út fyrir borgina verður klæðaburður kvenna til að mynda miklu frjálslegri en hérna í Hama. Þessi hernaður Assads gerði það líka að verkum að gamli bærinn er algjörlega farinn og því lítið merkilegt að sjá hér. Ég sat því útá svölum mestallan daginn og las tvær æðislegar bækur, annars vegar kláraði ég Abstinence Teacher eftir Tom Perrotta (sem er höfundur sem ég dýrka og dái) og svo byrjaði ég á The Corrections eftir Jonathan Franzen

Ég er búinn að eyða deginum í dag á rosalegum sight-seeing túr um nágrenni Hama. Ég byrjaði morgunin í Apamea, þar sem eru sennilega næst merkustu fornleifar Sýrlands (á eftir Palmyra sem ég fer til á morgun). Apamea eru aðallega rústir eftir rómverska borg, sem var uppá sitt besta í kringum árið 200. Einsog í Baalbek og Byblos þá var ég aleinn. Það er varla hægt að lýsa því hversu mikið betra það er að vera á svona stórkostlegum stöðum einn frekar en umkringdur túristum. Ímyndið ykkur bara að vera á Akrapolis í Aþenu á fallegum vordegi ein, alein. Allir sem hafa upplifað vinsælar fornminjar ættu að geta ímyndað sér hversu miklu ánægjulegri upplifunin er þegar að þú ert ekki umvafin túristahópum.

Leigubílstjórinn fór svo með mig til Mosyaf, þar sem ég borðaði fáránlega góða falafel samloku og skoðaði borgarvirkið þar. Og svo endaði ég daginn í Krac des Chevaliers kastalanum. Sá er sennilega merkasti Krossfarar-kastalinn í Mið-Austurlöndum. Ekki er talið að hinir hræðilegu Krossfarar hafi byggt kastalann, en þeir tóku hann yfir í kringum árið 1150 og gerðu hann að alvöru virki. Í dag eru rústirnar ótrúlega heillegar og ég eyddi næstum því tveim klukkutímum að skoða mig um alla króka og kima í kastalanum. Einsog flest annað þá er þessu sennilega betur lýst með myndum sem ég mun setja hingað inn eftir að ég kem heim.

* * *

Þannig að framundan er laugardagskvöld í Hama. Jibbí jei! Það verður væntanlega lítið fjör, enda engir barir hér í borg og lítið að gerast. Ég mun sennilega bara taka því rólega því ég er uppgefinn eftir daginn og á morgun er ég svo að fara í rútu til Palmyra klukkan hálf sjö um morguninn. Í Palmyra ætla ég að vera í tvo daga og svo fer ég til Damascus.

Skrifað í Hama, Sýrlandi klukkan 16.39

Mið-Austurlandaferð 3: Stríðsyfirlýsing

Það er alveg magnað við þessi ferðalög mín að ég á það til að skilja eftir mig sviðna jörð. Ég flaug frá Cancun daginn fyrir fellibyl, eldfjall fór að gjósa þegar ég keyrði framhjá því í El Salvador og daginn sem ég var á leiðinni yfir landamærin til Kambódíu, þá var framið valdarán í Taílandi og Thaksin var steypt af stóli.

Núna í morgun keyrði ég með 5 sýrlenskum verkamönnum og bílstjóra yfir landamærin frá Líbanon yfir til Sýrlands. Og hvað gerist sama dag?  Jú, Hezbollah hafa lýst yfir stríði í Líbanon. Einsog ég hafði skrifað um í fyrri pistlum var það augljóst að ástandið í Líbanon var mjög eldfimt og það var verulega furðulegt að vera í Beirút í þessu ástandi með verkföllum og fjölda hermanna á götum úti. Í fyrradag í Trípolí var okkur tjáð að það væri verið að skipuleggja mikil mótmæli í Beirút og Trípolí og þegar ég fór útúr húsi snemma í gærmorgun var herinn mættur á aðaltorgið í Trípolí, tilbúinn fyrir allt.

Ég eyddi deginum ásamt svissneskum strák, Roman, í ferð um Qadisha dalinn austur af Trípolí. Þegar við komum heim úr ferðinni var augljóst af kvöldfréttunum að ástandið var að versna. Flugvellinum hafði verið lokað og ástandið á götunum var orðið mjög slæmt. Í gær ákvað svo ríkisstjórnin að stöðva símakerfi sem er rekið af Hezbollah og við það varð allt vitlaust. Nasrallah, leiðtogi Hezbollah, kom fram í sjónvarpi og lýsti yfir stríði á hendur stjórnvöldum.  Í dag og í kvöld hafa svo staðið yfir bardagar á milli súnníta og shíta í borginni.

Það er vonandi fyrir þessa blessuðu þjóð að þetta sé ekki upphafið á einhverju slæmu.

* * *

Einsog ég nefndi áður þá eyddi ég síðasta deginum í Líbanon í ferðalagi um Qadisha dalinn. Þetta er helgur dalur fyrir Maróníta, sem er Kristinn trúhópur, sem hefur ráðið mestöllu í Líbanon frá sjálfstæði landsins. Dalurinn er ótrúlega fallegur. Við ferðuðumst um hann allan með góðum leigubílstjóra, sem fór með okkur allt að Cedar skíðasvæðinu í um 2.500 metra hæð. Þar var snjórinn bráðinn, enda komið vor, en við gátum samt skoðað skóg af ævafornum cedar (hvernig þýðir maður “cedar” tré?) trjám, sem eru tákn (og á fána) Líbanon. Við skoðuðum svo ótrúlega falleg klaustur og borðuðum í Bcharré, sem er aðallega þekktur fyrir að vera fæðingarbær Khalil Gibran, sem að íslensk fermingabörn ættu að kannast við.

Í morgun fór ég svo yfir landamærin. Þar var furðu lítið vesen, þótt að landamæraverðirnir vissu ekki í byrjun hvað Ísland væri. Fór með leigubílnum að Homs, hvaðan ég tók rútu hingað til Hama. Hérna gisti ég á ágætis hóteli, sem ég sit inná núna. Internet-tenginin er ljómandi góð en þó er sýrlenska ríkisstjórnin svo tillitsöm að blokka algerlega á nokkrar síður, þar með talið Facebook og Youtube. Ljómandi alveg hreint!  Framleiðni Sýrlendinga hlýtur að vera mun betri fyrir vikið.

Ég fór svo í dag í ferðalag að kastalarústum hér í nágrenninu, sem ég man ekki hvað heita og drakk svo te í moldarhúsum sem líkjast býflugnabú-um (sjá hér)

* * *

Sýrland er öðruvísi en Líbanon. Þetta eru mjög ólík lönd. Hér er ekkert vestrænt. Engir KFC staðir og það fæst ekki einu sinni Coca Cola, sem ég hef bara upplifað áður á Kúbu. Hér er líka lítið um kristið fólk, því um 90% íbúanna eru múslimar. Það er líka augljóst af klæðaburði kvenna að íhaldssemin er umtaslvert meiri. Allar konur ganga í einhvers konar kufli og flestar sýna mjög takmarkað af andlitinu. Allar eru með slæður um hárið, en svo má segja að um 50% sýni allt andlitið á meðan að hinn hlutinn sýni bara augun. Semsagt í svörtum kufli frá toppi til táar með smá op fyrir augun. Ég hef reyndar líka séð talsvert mikið af stelpum sem eru með allt andlitið hulið – og sjá þá væntanlega bara vegna þess að svarta efnið er hálf gagnsætt. Það er ansi magnað að sjá þetta á götum úti.

En fólkið er líka ótrúlega vinalegt. Ég ætla ekki að fella neina dóma um Sýrland fyrr en ég hef verið hérna lengur, en fyrstu kynni lofa afskaplega góðu. Já, og svo er það hressandi að geta labbað á milli götuhorna án þess að sjá hermenn vopnaða AK-47 rifflum á nokkurra metra fresti.

Skrifað í Hama, Sýrlandi klukkan 21.11

Mið-Austurlandaferð 2: Frá Beirút til Tripoli

Þá er ég kominn til Tripoli í norður Líbanon. Ég er staddur á hryllilegu internet kaffihúsi með stífasta lyklaborði í heimi og verstu tengingu sunnan Alpafjalla, þannig að þetta verður sennilega stutt færsla. Ég reyni að skrifa eitthvað á meðan að tölvan tekur sér 50 sekúndur í að opna hvern einasta tölvupóst sem ég hef fengið. Svo virkar ritvinnsluforritið bara frá hægri til vinstri, sem flækir hutina enn frekar

Síðustu dagar hafa verið frábærir. Tíminn í Beirút var ágætis upphitun fyrir hin löndin því að borgin er mun Vestrænni en þær borgir sem ég mun heimsækja seinna í ferðinni. Allavegana, á sunnudaginn fór ég til Baalbek. Ég fékk ljótan, leiðinlegan og svikulan leigubílstjóra til að keyra með mig frá Beirút til Baalbek. Sú borg er í dag aðallega þekkt fyrir að vera helsta vígi Hezbollah hreyfingarinnar, sem var nokkuð augljóst því útum allt voru myndir af leiðtogum Hezbollah og fyrir utan fornleifarnar voru sölumenn að selja boli með merki Hezbollah. Nú er það yfirlýst takmark mitt að láta ekki fyrri stjórnmálaskoðanir mínar hafa áhrif á þetta ferðalag, heldur fara í það með opnum huga, en ég efast um að undir það umburðarlyndi falli fjárstuðningur til Hezbollah. Auk þess sem að ég efast um að ísraelskir landamæraverðir yrðu alltof hrifnir við það að finna slíka boli í bakpokanum mínum.

Allavegana, þá var Baalbek eitt sinn ein merkasta borgin í rómverska heimsveldinu. Helstu hlutar rústanna sem enn standa eru annars vegar risastórar súlur, sem tilheyrðu Júpiter hofinu. Aðeins sex af þessum súlum standa enn, en þær eru hæstu súlur sinnar tegundar í heiminum, alls 23 metra háar. Það er erfitt að lýsa þessu öllu nema á myndum, sem ég mun birta seinna. Hinn merkasti hluti Baalbek er svo hof til heiðurs Bakkus. Það er ótrúlega heillegt og fallegt hof, sem er stærra en Parthenon í Aþenu. Það besta við að skoða þessar rústir í Baalbek var að ég var EINN. Algjörlega EINN. Bara ég og þessar ótrúlegu rústir. Eftir að hafa skoðað fornleifar sem eru algjör túristagildra einsog t.d. Chichen Itza, þá var það alveg stórkostlegt að vera þarna algjörlega í friði. En ætli myndir geri þessu ekki betur skil. En Baalbek var stórkostleg upplifun!

* * *

Á leiðinni aftur til Beirút stoppuðum við svo við sirka 10 varðstöðvar þar sem að herinn stoppaði bíla, áður en við stoppuðum í Zachlé, þar sem ég borðaði. Daginn eftir fór ég svo frá Beirút upp til Byblos. Byblos er ein þeirra borga í heiminum, sem hafa verið lengst samfellt í byggð. Talið er að þar hafi verið búið allt frá því 5.000 árum fyrir Krist. Höfnin í Byblos er talin vera elsta höfn í heimi og margir segja að nútíma stafrófið hafi verið fundið upp þar. Fyrir borgarastríðið var Byblos svo vinsæll ferðamannastaður og Hollywood stjörnur komu þar til að slappa af.

Í dag eru í bænum samansafn af fornleifum, sem eru allt frá því að vera 6.000 ára gömul hof uppí 13.aldar kastala. Líkt og Baalbek gat ég skoðað þetta svæði algerlega einn. Um kvöldið borðaði ég svo kvöldmat á einum af sögufrægu veitingastöðunum í borginni ásamt pari frá Kanada, sem ég hafði kynnst fyrr um daginn.

* * *

Eftir að hafa sólað mig aðeins við MIðjarðarhafið í morgun tók ég svo rútu hingað upp til Tripoli. Hérna er ég búinn að skoða gamla miðbæinn, sem er meira í átt við það sem ég bjóst við á þessu ferðalagi, fullur af þröngum götum og mannmergð og lítil vestræn áhrif ólíkt Beirút. Á morgun ætla ég að fara með svissneskum strák sem ég kynntist á hótelinu í ferð uppí fjöllin fyrir austan borgina og svo er planið að fara yfir til Sýrlands á fimmtudaginn.

Skrifað í Tripoli, Líbanon klukkan 17.00

Mið-Austurlandaferð 1: Beirút

Beirút! Alveg frá því að ég var lítill hefur þetta nafn aðeins staðið fyrir hörmungar. Ef einhver segir að borgarhlutar líti út einsog Beirút, þá vita allir hvað um er rætt. Nafnið á borginni er orðinn samnefnari fyrir hörmungarnar, sem hér hafa dunið yfir undanfarna áratugi.

Það eru 18 ár síðan að borgarastríðinu í Líbanon lauk og minna en tvö ár síðan að Júlí stríðið við Ísrael stóð yfir og því er hálf furðulegt að ganga um stræti Beirút. Við fyrstu sýn virðist flest vera eðlilegt. Í Hamra hverfinu þar sem ég gisti (og sit nú inná netkaffi í) þá er allt eðlilegt. Hverfið er mjög vestrænt og hérna verslar fólk í Vero Moda og drekkur Starbuck’s kaffi einsog ekkert sé. Sá hluti sem ég hef séð af Beirút er mjög vestrænn. Hlutfall kristinna er hærra hér í borginni en í öðrum hlutum landsins og klæðaburður og útlit fólks er mjög vestrænt.

En svo getur maður farið í ferðir einsog ég fór í í dag. Ég fékk leigubíl til að keyra mig að Þjóðminjasafni Líbanons. Þar ber að líta samansafn af mögnuðum fornmunum, sem spanna gríðarlega langa sögu búsetu í þessu landi. En á leiðinni sá maður líka að hérna í borginni er ástandið ekki eðlilegt. Hvað eftir annað þurfti leigubílstjórinn að breyta útaf leiðinni, þar sem að vegir voru lokaðir af hernum. Ég sá örugglega um 10 skriðdreka í varðstöðu og tugi hermanna með Ak-47 riffla gæta ákveðinna borgarhluta.

Ástandið er enda býsna ótryggt. Það má segja að landsmenn skiptist í tvo hópa. Annars vegar þá sem styðja ríkisstjórnina, sem er hlynnt Vesturlöndum (Kristnir, Súnníar og Drúsar) og samanstendur af stjórnmálaflokkum, sem eru á móti Sýrlandi. Hins vegar stjórnarandstöðuna, sem er leidd af Hezbollah (shítar) og studd af Sýrlandi og Íran.

Stjórnarandstæðingar hafa haft sig til í tjöldum nálægt miðborginni þar sem mótmæli þeirra hafa staðið yfir í nær tvö ár. Ástandið er slíkt að landið hefur verið án forseta í marga mánuði, þótt að vonir standi yfir að hann verði kosinn 13.maí. Þessi mótmæli stjórnarandstæðinga hafa hins vegar gert það að verkum að hinn gullfallegi miðbær Beirútar (sem var kölluð París suðursins fyrir einhverjum áratugum vegna miðbæjarins), sem var eyðilagður í borgarastríðinu og endurbyggður eftir það, stendur nú auður. Ég fór þangað í dag eftir safnaferðina og þar blasti það sama við. Það var leitað á fólki til að komast að aðaltorginu, Nejmeh, og það torg var nánast tómt. Allir túristarnir farnir og flestum kaffihúsum hefur verið lokað. Auk mín og örfárra annara Líbana og túrista voru aðallega vopnaðir hermenn. Þvílík synd að enginn skuli njóta þessa ótrúlega fallega miðbæjar lengur.

Þrátt fyrir að margir séu hræddir um að stjórnmálaástandið hérna versni enn frekar, þá eru líka margir sem vonast til þess að Líbanir hafi lært af fyrri reynslu og að ástandið leiði ekki frekari hörmungar yfir þessa þjóð.

* * *

Það reyndist ekkert alltof auðvelt að komast hingað til Líbanon. Ég hafði skipulagt flugin mín mjög þétt og þegar ég frétti á Keflavíkurflugvelli að ég gæti ekki tékkað farangurinn minn alla leið var ljóst að það væri mjög hæpið að ég myndi ná fluginu til Beirút. Ég lenti á Heathrow um 50 mínútum áður en flugvélin til Beirút átti að leggja af stað. Ég fékk að skipta um sæti og var því fremst í velinni þegar að hún lenti og hljóp í gegnum flugvöllinn, í gegnum vegabréfatékkið og að farangursbandinu. Þaðan stökk ég svo uppá næstu hæð að BMI desk-inu þar sem mér var sagt að ég væri of seinn. Ég spurði þá hvort að ég gæti tekið bakpokann minn með sem handfarangur og mér var sagt að það væri sjens. Þannig að ég hljóp með stand-by miða í átt að öryggistékkinu.

Þar sem þetta var um kvöld var ekki mikið að gera. Bakpokinn var alltof stór til að komast fyrir í grind sem er notuð til að mæla stærðir sem eru leyfðar í handfarangur. En einhver ótrúlega vinalegur starfsmaður rétti mér þá poka, sem ég gat notað til að taka stærstu hlutina úr pokanum, svo að ég gat troðið honum í grindina. Mér var svo hleypt í gegn og þá tók við 5 mínútna spretthlaup útað hliðinu, þar sem ég komst á einhvern merkilegan hátt rétt áður en fluginu var lokað.  Ég naut sennilega góðs af því að vera ljóshærður því að ég var ekkert sérlega traustvekjandi kófsveittur með fjóra poka í fanginu, þar af einn glæran plastpoka fullan af vökvum.

* * *

Ég lenti Beirút klukkan 5 um morguninn og eftir að hafa dílað við flugvallar-leigubílstjóra (sem eru einhver al-leiðinlegasta stétt manna í fátækari löndum heimsins) þá komst ég inná hótel í Hamra hverfinu í vestur Beirút.

Gærdaginn notaði ég svo í labb um Hamra hverfið og Corniche, sem er gatan sem liggur meðfram Miðjarðarhafinu alveg niður að Pigeon Rocks, þar sem ég slappaði af og tók myndir.

Um kvöldið ákvað ég svo að rannsaka það sem margir Beirútar-búar eru stoltir af, það er djammið.  Ég tók leigubíl niður að Gemayzah hverfinu, þar sem ég rölti á milli pöbba.  Fór svo uppá Rue Monot, sem er frægasta djamm-gatan í Beirút og eftir smá pöbbarölt þar fór ég svo aftur niður á Gemayzah, þar sem ég endaði inná bar sem var blessunarlega laus við hallærislega bandaríska tónlist og spilaði þess í stað dúndrandi arabískt popp.  Þar sötraði ég á Almaza bjór og spjallaði við innfædda.  Endaði svo kvöldið á því að láta barþjón hella yfir mig bjór, sem olli því að ég fékk allan bjórinn frítt.

Á morgun ætla ég svo til Baalbek, sem er um tvo tíma frá Beirút.  Ég ætla svo að gista hér í Beirút aðra nótt og halda svo norður í átt til Tripoli.

Skrifað í Beirút, Líbanon klukkan 19.23

Aftur af stað!

Vegna ýmissra ástæða í mínu lífi hef ég ekki farið í frí mjög langan tíma. Síðasta ár var ár mikils uppgangs hjá Serrano og ákveðin starfsmannamál þar gerðu mér ómögulegt um að fara í frí. Fyrir utan stuttar ferðir til Liverpool og Edinborgar, þá má segja að ég hafi ekki farið í frí síðan ég fór í ferðina til [Suð-Austur Asíu](http://eoe.is/ferdalog/#sud-a-asia) í september-október 2006.

Sú ferð var bæði góð og slæm. Ég var nýkominn útúr mjög erfiðum sambandsslitum og ég var að reyna að ná mér af þeim mestalla ferðina – og í raun má segja að ferðin hafi verið farin til að komast yfir þau. Það reyndist hins vegar oft erfitt. Ég var jú einn á ferðalagi og ég veiktist nokkrum sinnum illa og því var partur af ferðinni uppfullur af sjálfsvorkunn, ælandi inná einhverjum ódýrum hótelum í Phom Penh og öðrum álíka borgum.

En ferðin var líka æðisleg. Ég sá Bangkok, hið stórkostlega Angkor og Ha Long Bay í Víetnam. Ég borðaði hundakjöt, stakk mér til sunds í Tonkin flóa og lét [apa ráðast á mig](http://www.flickr.com/photos/einarorn/274461853/in/set-72157594326242587/). Ég djammaði í Vientiane, Bangkok, Phnom Penh og Saigon, kynntist fulltaf fólki og fræddist um ótrúlega sögu þessara landa.

En ég var líka ákveðinn í því að fara ekki aftur í svona ferð einn. Allavegana ekki ef að öll mín mál væru jafn óleyst og þau voru þá.

* * *

En núna 18 mánuðum síðar er ég á leið út aftur.

Ég ætla að ferðast einn í 6 vikur en ég tel samt að mín mál séu í miklu betri stöðu núna og ég geti einbeitt mér að því að njóta lífsins í ókunnugu landi án þess að hafa áhyggjur af því sem er að gerast heima á Íslandi.

líbanskar stelpurEftir 10 daga mun ég fljúga til London og þaðan til Beirút í Líbanon. Ég ætla svo að eyða 6 vikum á ferðalagi um Líbanon, Sýrland, Jórdan og Ísrael. Upphaflega planið mitt var að fara til Mið-Ameríku, en fyrir tveimur vikum ákvað ég að mæta niðrí Eymundson með opnum hug og ákveða þar hvert mig langaði að fara. Þegar ég tók upp bókina um Ísrael og Palestínu fékk ég strax fiðring í magann og síðan þá hef ég vart hugsað um annað en þessi lönd.

Ég hef lengi haft gríðarlega mikinn áhuga á stjórnmálum á þessu svæði og þá sérstaklega í Líbanon og Ísrael. En það er ekki bara stjórnmálin, sem gera þessi lönd heillandi því þau eiga sér gríðarlega merkilega sögu og fyrir ferðamenn er ótrúlegur fjöldi merkra staða til að sjá. Nægir þar að nefna Baalbek í Líbanon, Damascus í Sýrlandi, Jerúsalem og Petra í Jórdaníu.

Einsog áður hef ég ekki ákveðið nákvæmlega hvernig ferðin á að vera, en þó er beinagrindin tilbúin. Þá á bara eftir að ákveða hversu lengi ég verð á hverjum stað og hvaða staði utan helstu staðanna ég fer á. Þegar ég er á þessum bakpokaferðalögum mínum vil ég geta breytt áætlunum á staðnum eftir því hvort ég kann vel við staðina eða ekki.

Allavegana, ég ætla að byrja í Beirút. Samkvæmt áætlun ætti ég að lenda í Beirút á föstudagsmorgni 2.maí og get því vonandi kynnt mér hið fræga næturlíf í Beirút. Svo er planið að sjá allavegana Tyre, Tripoli, Byblos og Baalbek í Líbanon. Þaðan yfir til Sýrlands, til Damascus og upp til Aleppo áður en ég fer svo suður til Bosra og þaðan yfir til Jórdaníu. Þar ætla ég að stoppa sutt í Amman og skoða svo Dauða Hafið og svo auðvitað niður til Petra og Wadi Rum. Þaðan svo yfir til Eilat í Ísrael og baða mig í Rauða Hafinu. Svo upp til Jerúsalem, Tel Aviv og Haifa. Svo vil ég líka reyna að ferðast eitthvað um Vesturbakkann, en ég veit ekki almennilega hvernig ástandið er fyrir ferðamenn þar. Það er sennilega eitthvað sem ég mun skoða þegar ég kem til Jerúsalem.

Ég ætla svo sennilega að fljúga til London aftur frá Tel Aviv.

* * *

Einsog áður, þá væri frábært að heyra frá fólki, sem hefur farið á þessa staði og getur mælt með því hvað ég eigi að gera.

Kvöld í Stokkhólmi

And through it aaaaaaaaaaaaall she offers me protection…

Þetta lag á sennilega það sem eftir er að minna mig á ákveðna stund á ákveðnum stað í Liverpool borg með vinum mínum. Mjög skondið móment, sem rifjaðist upp fyrir mér yfir kvöldmatnum þegar þetta var spilað á veitingastaðnum.

* * *

Þegar ég ferðast einn, þá geri ég oft fulltaf hlutum sem ég elska en geri samt aldrei á Íslandi. Fínt dæmi er gærkvöldið. Þá fór ég útað borða á sæmilegum veitingastað, pantaði mér steik og hálfa rauðvín og drakk flöskuna með matnum um leið og ég las nokkra kafla í frábærri bók. Þetta var æðislegt!

Heima á Íslandi geri ég aldrei svona hluti. Stundum finnst mér æðislegt að vera einn með sjálfum mér, en heima er maður af einhverjum ástæðum hræddur við að vera einn utan heimilisins. Kannski vill maður ekki líta furðulega út. En það er samt sem áður staðreynd að kvöld einsog gærkvöldið eru svo miklu skemmtilegri en sum kvöldin sem maður á heima hjá sér, liggjandi í leti fyrir framan sjónvarpið.

* * *

Var að lesa Bush Falls eftir Jonathan Tropper, sem skrifaði líka How to talk to a widower. Einsog sú bók er Bush Falls æði. Uppáhalds-samtalið mitt í bókinni er milli Joe, söguhetjunnar (34 ára) og Jared, 18 ára frænda hans. Joe byrjar:

>What about the window girl?
Kate.
Kate. You think you’ll talk to her anytome soon?
I don’t know. As frustrating as it is, there’s something nice about this stage.
She doesn’t know you exist. I don’t think you can legally call that a stage.
I know. But I haven’t fucked anything up yet.
Point taken.

Jamm.

* * *

Í kvöld var ég á pöbb og horfði á bæði Arsenal og Man U komast áfram í Meistaradeildinni. Ég er með ofnæmi fyrir báðum liðum. Ég hefði frekar átt að vera heima, baðandi sjálfan mig í sýrubaði fullu af nöglum, hlustandi á Celine Dion.

Það hefði verið skemmtilegra.

Ferðasaga: San Francisco

Ég er á því að ferðasögur á þessu bloggi séu langbestar þegar ég skrifa þær á staðnum. Þegar ég kem heim, þá gleymist ferðin, stemningin dettur úr sögunni, almenn leti kemur yfir mig og á endanum verða þær stuttar og slappar.

Núna er svo farið að styttast ískyggilega í næstu ferð, sem verður til Stokkhólms í byrjun mars.

Þannig að ég gefst upp á því að skrifa spennandi og skemmtilegar ferðasögur um síðustu tvær ferðir og skelli þessu öllu saman í eina færslu.

* * *

Ég og Emil fórum semsagt í vikulanga ferð til Bandaríkjanna. Við flugum til New York með Icelandair með tilheyrandi þrengslum og slæmum mat. Við lentum alltof seint og því leit út fyrir að við myndum missa af tengifluginu til San Francisco. Okkur tókst að sannfæra einhverja starfsmenn á flugvellinum um að hleypa okkur í Bandaríkjamannaröðina í vegabréfseftirlitinu og náðum í töskurnar á mettíma.

VIð tók síðan æsilegt spretthlaup á milli terminal-a á JFK. Þegar við komum hinsvegar að JetBlue deskinu komumst við að því að flugið var farið. Okkur tókst samt að komast í flug til Oakland, sem er einmitt næsta borg við San Francisco. Við tók yndislegt flug til Oakland. Hér er skemmtilegur samanburður á JetBlue og Icelandair.

Lengd flugs:
Icelandair: 4171 kílómeter
JetBlue: 4133 kílómetrar

Valmöguleikar í myndefni:
Icelandair: 1 gömul bíómynd
JetBlue: 40 gervihnattastöðvar og svo 5 nýjar bíómyndir on-demand (gegn 5 dollara gjaldi)

Pláss fyrir lappir
Icelandair: Hóflegt fyrir 5 ára börn og dverga
JetBlue: Mjög gott

Verð
Icelandair: 55.500
JetBlue: 20.644

Skál fyrir Icelandair og íslenskri einokun!!!

* * *

Allavegana, við komumst til San Francisco og lentum þar um 2 leytið um morgun og herjuðum strax inná uppáhalds-hamborgarastaðinn minn, Carl’s Jr og fengum okkur yndislega hamborgara og fórum svo að sofa.

Á laugardeginum hittum við Grace vinkonu mína. Við Grace vorum góðir vinir þegar við vorum bæði skiptinemar í Venezuela. Hún býr í L.A. en kíkti á okkur á laugardeginum. Við eyddum mestum deginum á rölti um Mission hverfið, sem er hverfi innflytjenda frá Suður- og Mið-Ameríku. Um kvöldið borðuðum við svo á frábærum fínum mexíkóskum stað.

Á sunnudeginum hittum við svo Dan vin minn. Hann var minn besti vinur á háskólaárunum mínum og höfum við hist nokkrum sinnum síðan ég útskrifaðist. Við ákváðum að hittast á bar fullum af New England stuðningsmönnum og horfa á úrslitin í Ameríkudeildinni í NFL fótbolta, sem að New England vann.

* * *

Tilgangurinn með ferðinni til San Francisco var tvíþættur. Í fyrsta lagi að fara í ákveðna stefnumótunarvinnu fyrir Serrano. HIns vegar var planið að skoða slatta af veitingastöðum. Burrito er auðvitað upphaflega mexíkóskur matur, en sá matur sem við seljum á Serrano er ekki fáanlegur í Mexíkó, heldur er hann útgáfa af þeim mat sem að mexíkóskir innflytjendur byrjuðu að selja á taquerias stöðum í Mission hverfinu.

Í því hverfi eru því tugir af stöðum sem selja burritos og við gerðum góða tilraun til að borða á sem allra flestum stöðunum. Við það fengum við slatta af hugmyndum og einhverjar breytingar munu verða á Serrano í kjölfarið á þessari ferð okkar.

* * *

Á þriðjudagskvöldinu fögnuðum við svo afmæli Carrie, kærustu Dan á bar í Mission hverfinu þar sem við gátum fylgst með fullum Dan, en hann er einmitt ásamt Borgþóri vini mínum, allra fyndnasti maður á fylleríi sem ég þekki.

Á miðvikudeginum flugum við svo til Boston. Þar kíktum við á nokkra veitingastaði, versluðum og löbbuðum um borgina. Á fimmtudagskvöldinu kíktum við á djammið með Jenu, stelpu sem að gisti hjá mér í gegnum Couchsurfing síðasta sumar. Fluginu okkur heim var seinkað um einn dag þannig að við nýttum tækifærið og fórum á leik með Boston Celtics þar sem þeir unnu Minnesota Timberwolves í fínum leik.

Æ, þetta varð eiginlega lengra en ég ætlaði. Ég skrifa um Liverpool ferðina seinna.

Skotlandsferð

Það er furðulegt hversu mikið stuttar kveðjur eða samtöl í upphafi ferðar geta haft mikil áhrif á viðhorf manns til viðkomandi lands. Ég verð til að mynda alltaf fúll þegar tekið er á móti mér á Íslandi með því að tollarar skoði ALLTAF töskurnar mínar. Og það má segja að viðhorf mitt til El Salvador hafi verið markað að miklu leyti á skemmtilegasta tollara í heimi. Hann bað um að skoða töskurnar mínar, baðst velvirðingar á trufluninni og sagði svo: [Bienvenido a mi pais](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/05/23.32.43/) af innlifun. Hann kom mér strax í gott skap og þessi stutta kveðja gerði það að verkum að ég varð sjálfkrafa jákvæðari gagnvart Salvadorum. Þeim tókst að láta mig líða einsog ég væri velkominn til El Salvador, þess frábæra lands.

Í Skotlandi um síðustu helgi hafði ég bara staðið útá götu í rúmlega hálfa mínútu með kort í hendi þegar að Skotar komu upp að mér og spurðu hvort þeir gætu hjálpað. Það er merki um gott fólk og gerði það að verkum að ég varð miklu jákvæðari gagnvart Skotum en ég hefði sennilega verið fyrir.  Það eru alltaf þessir litlu hlutir sem skipta máli.

Ferðin til Skotlands var vel heppnuð. Ég eyddi 3 dögum í Edinborg og einum degi í Glasgow. Munurinn á þessum borgum er gríðarlegur. Sennilega er hann hvergi jafn augljós og þegar maður kemur útaf lestarstöðvum í þessum borgum. Í Glasgow kemur maður útí  húsasund þar sem maður sér ljótar byggingar í allar áttir. Í Edinborg kemur maður útá miðja götu þar sem við manni blasir Edinborgarkastali uppá hæðinni og aðalverslunargatan til hliðar. Það er varla hægt að byrja borgarferð með betra útsýni.

Ég náði að túristast einhvern slatta í Edinborg. Ég heimsótti vitanlega Edinborgarkastala, sem er helsta tákn Edinborgar. Hann situr uppá hæð í miðri borginni. Í kastalanum eru geymd konungsdjásn Skota og [Örlagasteinninn](http://en.wikipedia.org/wiki/Stone_of_Scone) auk þess sem þar eru nokkur söfn. Einnig er úr kastalanum frábært útsýni yfir Edinborg. Ég labbaði svo Royal Mile og skoðaði staði í kringum þá götu auk þess sem ég kíkti á skoska þinghúsið og einhver söfn.

En mestum tímanum eyddi ég inná kaffihúsum eða útá bekkjum lesandi bækur. Ég las nokkrar góðar bækur, sem ég ætla að fjalla um í sér færslu. Ég þurfti nefnilega bara að slappa af. Það hefur verið mikið að gera hjá mér í vinnunni (og margir spennandi hlutir sem ég get væntanlega talað um hérna á næstunni) þannig að það var fínt að slappa af. Fyrir mér þá er það frábært frí að geta slökkt á símanum, sest inná kaffihús með svart kaffi og lesið bækur.

Í Glasgow gerði ég ekki marga merkilega hluti. Verslaði einhvern slatta af fötum og labbaði um helstu staði í miðri borginni. Veðrið þar var líka leiðinlegra en í Edinborg og sennilega hefur það haft einhver áhrif. Ég tók nokkrar myndir og þær eru [hér](http://www.flickr.com/photos/einarorn/sets/72157601332575033/)