Magnað: Leit.is ætlar að taka upp gjald til fyrirtækja til að þau haldist inní leitargrunninum (via Katrínu)
Nokkuð athyglisverð orðaskipti inná “Hjalinu” milli höfundar þeirrar síðu og vefstjóra leitar.is. Ég sendi inn eftirfarandi ummæli:
Ég verð að segja að mér finnst þessi gjaldtaka á leit.is með ólíkindum. Fólk notar leit.is af því að fær upplýsingar um það, sem það óskar sér. Ef þessar upplýsingar verða aðeins takmarkaðar við fyrirtæki, sem borga, þá er hætt við því að áreiðanleiki þessarar leitarvélar minnki enn frekar.
Ég hef nokkrum sinnum talað um hversu gríðarlega óáreiðnaleg leitarvél leit.is er. Hvernig stendur til dæmis á því að þegar fólk leitar að Stalín, þá kemur mín síða fyrst upp? Á síðunni minni er ein mynd af styttu af Stalín! Eina trixið hjá mér er að setja orðið í titil pistils og þá er ég (nánast) án undantekningar kominn með efstu mönnum á leit.is?
Ég held úti tveim fyrirtækjavefjum og er alls ekki sáttur við þessa gjaldtöku. Fyrir mér er þetta nánast fjárkúgun: Borgaðu gjaldið, eða við tökum þig útúr gagnagrunninum. Þú segir:
Þau fyrirtæki sem ekki borga (og vilja þar af leiðandi ekki vera inn í leitargrunninum, detta úr leitargrunninum).
Hvernig geturðu fullyrt það að skortur á vilja til að borga jafngildi ósk um að vera ekki í leitargrunninum?? Ég vil gjarnan vera inní þessum leitargrunni, en ég er ekki tilbúinn að borga fyrir það. Ég borga ekkert til Google og sé því ekki ástæðu til að borga leit.is.
Mun gáfulegra væri að taka upp textaauglýsingar til hliðar við leitarniðurstöður, líkt og Google gerir. Það er mun sanngjarnari leið til tekjuöflunar.