Þetta er tekið af Pressunni, þar sem þeir lýsa mögulegum borgarfulltrúa:
Málefnin í fyrirrúmi!
Annars vaknaði ég klukkan 5 í morgun til að læra hagfræði. Hefði ég sleppt þessari tölvupásu hefði ég alveg eins getað vaknað klukkan korter yfir fimm.
Þetta er tekið af Pressunni, þar sem þeir lýsa mögulegum borgarfulltrúa:
Málefnin í fyrirrúmi!
Annars vaknaði ég klukkan 5 í morgun til að læra hagfræði. Hefði ég sleppt þessari tölvupásu hefði ég alveg eins getað vaknað klukkan korter yfir fimm.
Eftir að hafa lesið Múrinn undanfarna daga hef ég komist að þeirri niðurstöðu að Bandaríkin eru uppspretta alls ills í heiminum. Reagan hafði rangt fyrir sér. Bandaríkin eru í raun “The Evil Empire”.
Ég og Hildur fórum í gær á Kaffi Victor, þar sem við sáum Jón Baldvin tala fyrir fullum sal.
Að þessu sinni einbeitti hann sér að því að tala um bandaríska heilbrigðiskerfið og skort á almennum sjúkratryggingum í því kerfi. Þetta var nokkuð athyglisverður fyrirlestur fyrir mig, sérstaklega þar sem einn tíminn minn í skólanum á þessari önn fjallaði einmitt mikið um bandaríska kerfið. Stjórnmálafræðikennarinn minn, Peter Swenson, hefur einmitt búið í Svíþjóð og heillast svo mikið af kerfinu á Norðurlöndum að hann hefur skrifað um það margar bækur, auk þess að kenna þennan tíma. Á lokaprófinu mínu í þessum tíma skrifaði ég stutta ritgerð um þetta málefni og ætla ég aðeins að skrifa núna um hvað mér finnst um bæði íslensku og bandarísku kerfin.
Bandaríska kerfið er nefnilega, hvað sem þeir hjá Frelsi.is segja, meingallað. Ég trúi því að ríkið eigi að afnema öll höft og hætta í öllum rekstri. Hinsvegar trúi ég því að ríkið eigi að sjá fyrir sjúkratryggingum fyrir alla. Bandaríska leiðin, þar sem atvinnurekendur skaffa tryggingarnar er meingölluð. Þannig fá þeir, sem eru atvinnulausir litlar bætur og einnig þeir, sem vinna í verktakavinnu. Einnig þeir, sem vinna í láglaunavinnustörfum, svo sem á McDonald’s.
Bandaríkjamenn hafa líka ákveðið að stjórna ekkert framboði á heilbrigðisþjónustu. Þeir rökstyðja það sem svo að almenningur eigi að vera skynsamur neytandi á heilbrigðisþjónustu alveg einsog þeir eru skynsamir þegar þeir kaupa sér kaffi. Málið er bara ekki svo einfalt, því að almenningur hefur lítið vit á að bera saman heilbrigðisþjónustu og þegar fólk þarf á þjónustunni að halda hefur það oftast lítinn tíma til að velta því fyrir sér hvar best sé að beina viðskiptum sínum.
Það að Bandaríkjamenn stjórna ekki framboðinu hefur orðið til þess að það er gríðarlegt offramboð af rúmum á sjúkrahúsi. Mörg sjúkrahús ná sjaldan yfir 50% nýtingu á rúmum. Ekki það að það sé skortur á sjúklingum, heldur er mörgum sjúklingum neitaður aðgangur vegna þess að þeir eru ekki (eða illa) tryggðir. Þannig að mörg sjúkrahús kjósa að láta fremur rúm standa auð frekar en að hjálpa fólki.
Með bandaríska heilbrigðiskerfinu hefur ójöfnuður aukist gríðarlega. Þeir sem hafa efni á þjónustunni geta notið afbragðsþjónustu, sem er án efa sú besta sem gerist í heiminum. Það eru hins vegar aðeins þeir efnameiri, sem geta nýtt sér þessa þjónustu.
Vandamál heilbrigðiskerfisins snýst um þrjá hluti: Að þjónustan sé sem best, Að þjónustan sé sem ódýrust, Að sem flestir geti notað þjónustuna. Það er hinsvegar ómögulegt að sameina þessa hluti. Þetta snýst einfaldlega að finna kerfi, sem getur hámarkað þessa þrjá hluti.
Bandaríska kerfið stendur sig ömurlega varðandi hlutina þrjá. Reyndar er þjónustan sú besta í heimi. Hins vegar eyða Bandaríkjamenn langmest allra þjóða (sem hlutfall af landsframleiðslu) í heilbrigðiskerfið. Þrátt fyrir það, þá eru tugmilljónir manna, sem fá enga þjónustu.
Íslenska kerfið er mun betra. Þar er þjónustan á mjög háu stigi, hún er tiltölulega ódýr og allir Íslendingar geta nýtt sér þjónustuna, sama hvað þeir heita eða gera.
Sennilega mun reynast erfitt að breyta bandaríska kerfinu. Þegar Bill Clinton varð forseti hafði kostnaður fyrirtækja af heilbrigðistryggingum starfsmanna aukist gríðarlega. Þess vegna studdu mörg stórfyrirtæki það átak, sem Clinton ætlaði að gera í tryggingamálum. Þegar hins vegar stóru hagsmunaaðilarnir sáu þetta, þá gerðu þeir sitt besta í að lækka kostnaðinn við tryggingar. Þeim tókst það og því minnkaði stuðningur stórfyrirtækjanna við Clinton og umbætur hans urðu að engu. Síðan hefur komið á daginn að eftir að Clinton planið misheppnaðist hefur kostnaðurinn aftur byrjað að vaxa á gríðarlegum hraða.
Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að Jón Baldvin var á fundinum í gær mjög gagnrýninn á bandaríska kerfið. Reyndar var fyrirlestur hans mjög svipaður því, sem maður hefur fengið að heyra frá prófessorinum mínum.
Jón Baldvin benti réttilega á að það bandarískt þjóðfélag mun ekki endalaust sætta sig við það lýðræði, sem er í gangi í landinu. Sögunni er ekki lokið einsog margir halda.
Athyglisverð grein á Múrnum um nýlega skoðanakönnun. Þar segir m.a. í lok greinarinnar:
Og þeim mun fjölga þegar kreppan skellur á.
Með öðrum orðum, fylgi VG mun aukast því meiri, sem kreppan er á Íslandi.
Mikið hlýtur það nú að vera óþægileg staða fyrir Vinstri Græna. Ætli þeir á Múrnum vonist til að kreppan aukist? Ef ástandið er bara nógu slæmt, þá hlýtur fylgi VG að rjúka uppúr öllu.
Ég man einhvern tímann að einhver stjórnmálaskýrandi var spurður hver hann héldi að yrði forseti Bandaríkjanna árið 2004. Hann sagði að þrátt fyrir að honum væri meinilla við George W Bush, þá vonaðist hann til að Bush yrði endurkjörinn, því að það hlyti að þýða að landinu hefði vegnað vel undir stjórn hans.
Ætli stjórnmálamenn, sem tapa kosningum, vilji innst inni að hagkerfinu gangi illa, bara til að þeir geti komið fjórum árum seinna og sagt: “Þið hefðuð átt að kjósa mig.”?
Flest, ef ekki allt, í þessari grein er einsog talað frá mínu hjarta.
Ég vil fá gamla Alþýðuflokkinn aftur. Ekki Samfylkingarsamsuðu, fulla af gömlum sósíalistum. Ég vil almennilegan hægrikrata flokk, sem myndi vinna saman með Sjálfstæðisflokki. Það er nefnilega þannig að Framsóknarflokkurinn dregur fram allt það versta í fari Sjálfstæðisflokknum (svo sem ríkisstyrki í landbúnaði).
Hægri krataflokkur myndi hins vegar draga fram allt það besta í Sjálfstæðislfokknum (frjáls markaður, lægri skattar, minni ríkisafskipti).
Samfylkingin er ávallt að hamra á því að hún sé höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins. Þýðir það þá að hún sé höfuðandstæðingur minnkandi ríkisafskipta og lægri skatta, sem Sjálfstæðisflokkurinn segist styðja. Samfylkingin leggur áherslu á mennta- og velferðarmál, en málið er að Sjálfstæðisflokkurinn er sammála þeim í helstu atriðum. Helsti andstæðingur minn í stjórnmálum væru Vinstri-Grænir enda er stefna þeirra (fyrir utan suma ágæta spretti í einstaka utanríkismálum) gamaldags og afturhaldssöm.
Ef Samfylkingin heldur áfram að hamra á því að Sjálfstæðisflokkurinn sé höfuðandstæðingurinn, þá eiga þeir flokkar vart samleið í ríkisstjórn. Það þýðir að eina leiðin fyrir Samfylkinguna er að vinna með Vinstri grænum og Framsókn (guð hjálpi okkur).
Ég held að skárri kostur væri bara fyrir okkur hægri krata að halda okkur til í sér stjórnmálaflokk, þótt sá flokkur næði ekki nema 10-15 prósentum einsog Stefán talar um í greininni.
Geir bendir á þessa grein af Sellunni, sem er vefrit.
Þar skrifar Geir Guðjónsson um ÁTVR.
Þegar þetta er skrifað er árið 2001 og svona menn ganga lausir á Íslandi.
Ég á varla orð yfir þessari hræðslu Íslendinga við Anthrax. Hér í Bandaríkjunum, sem er nota bene EINA landið, þar sem anthrax hefur fundist undanfarið, er nær hætt að fjalla um þessi mál í fréttum.
Einu tilvikin, sem hafa sannast hafa verið árásir á fréttastofur og ríkisbyggingar hér í Bandaríkjunum. Því spyr ég, af hverju í ósköpunum heldur fólk að Ísland sé næsta skotmark???
Til dæmis er núna frétt á forsíðu mbl.is um hjón í HAFNARFIRÐI
, sem halda að þau séu með Anthrax. Einnig sá ég að póstmiðstöð Íslandspóst hefði verið lokað í meira en sólarhring vegna ótta við sýkingu. Þetta er ótrúlegt.
Á innlendum fréttum eru, þegar þetta er skrifað, eftirfarandi fyrirsagnir:
Þetta gera þrettán (já 13) fréttir. Sú elsta er frá því klukkan 16, 6.nóv og sú nýjasta kl 21, 7. nóvember. Þannig að á rétt rúmum sólarhring eru þrettán fréttir um miltisbrand á Morgunblaðinu.
Íslendingar eru alltaf að gera grín að Bandaríkjamönnum og hvernig þeir bregðast við hinum ýmsu hlutum. Ég held samt að bæði fjölmiðlar og almenningur hér í Bandaríkjunum hafi tekið á þessum hlutum með mun meiri ró og skynsemi heldur en á Íslandi.
Hér í Bandaríkjunum kemur The Economist ekki í umslagi, þannig að það var ekkert hvítt duft á mínu blaði. Gaman gaman!
Alveg magnað hvað þessi hræðsla hefur breiðst út. Ég hélt að Bandaríkjamenn væru slæmir, en Íslendingar eru sennilega alveg jafn “paranoid”. Datt engum Íslending í hug að hugsa aðeins um það hvort Ísland yrði næsta skotmark á eftir Bandaríkjunum? Mér finnst það vera frekar ólíklegt.
Nær allar “anthrax” sendingarnar hér hafa verið til frægs fólks í New York eða Washington. Því er það dálítið fyndið að einhverjir spekingar í Kansas séu að fríka út vegna póstsendinga.
Ég las einhverja grein í Wall Street Journal, þar sem var fjallað um hvaða nafni sjónvarpsstöðvarnar hafa kallað atburðina undanfarna daga. CNN kallaði þetta í byrjun “America’s New War” og mig minnir að Fox hafi kallað sitt efni “War on Terror”.
Á Comedy Central er besti “late night” spjallþátturinn í bandarísku sjónvarpi, The Daily Show. Þeir kalla umfjöllina sína því nafni, sem mér finnst passa best, “AMERICA FREAKS OUT”.
Það virðast flestir vera sammála um það að Múrinn sé vel skrifað vefrit. Menn, sem tala um ritið hrósa því vanalega fyrir það að þar skrifi klárir menn, sem séu góðir pennar. Ég efast ekki um það.
Það er hins vegar alveg makalaust hvað sumar greinarnar á ritinu eru kjánalegar. Til að mynda greinin: Íslensku milljarðamæringarnir — in memoriam. Í þessari grein er Ármann Jakobsson að gleðjast yfir því að þeir, sem höndli hlutabréf á Íslandi hafi tapað miklum fjárhæðum undanfarið. Ég skil í raun ekki svona hugsanahátt. Ekki myndi ég gleðjast ef ég frétti að ævisparnaður kennara myndi hverfa á hlutabréfamarkaðnum og ég efa að Ármann myndi kætast. Einhvern tímann var mér nefnilega kennt að það væri ljótt að gleðjast yfir óförum annarra.
Alveg hreint makalaust vitlaus grein á Múrnum: 11.september.
Vissulega er það gott mál hjá þeim að rifja það upp fyrir fólki að það séu mun meiri þjáningar annars staðar í heiminum.
Hins vegar er loka setningin, þar sem alþjóðavæðingu er kennt um hungursneyð í þriðja heiminum alveg með ólíkindum vitlaus. Maður á bágt með að trúa að vel menntað fólk skuli geta verið svona grunlaust um áhrif alþjóðavæðingar á hagkerfið.
Ég nenni varla að fara að skrifa um þetta, enda er auðveldara fyrir þessa menn að lesa bara svo sem eitt eintak af The Economist, því þar skrifa menn, sem eru hæfari en ég.
Ef Múrinn er á móti kapítalisma, hver er þá lausn þeirra fyrir hungraða alþýðu?