Fox

Jens PR minnti mig á að í dag var Vicente Fox svarinn í embætti eftir 71 árs valtatíma PRI.

Þetta eru vissulega gleðitíðindi, því PRI (Partido institutionario revoluciónal) hefur hindrað allar tilraunir í lýðræðisátt. Ég ber mikla virðingu fyrir Ernesto Zedillo, fráfaranda forseta Mexíkó. Hann á heiður skilinn fyrir að sjá til þess að síðustu kosningar fær fram á heiðarlegan hátt. Það er vonandi að Fox verði gæfusamur í embætti því Mexíkó veitir sannarlega ekki af góðum forseta.

Þetta er góður dagur fyrir Ameríku.

Skúbb

Eru menn ekki alltaf að tala um þegar vefleiðararnir eru á undan íslensku fréttasíðunum? Ok, þá ætla ég að skúbba að hæstiréttur í Florida hefur úrskurðað að handtalningin skuli halda áfram. Þannig að Gore á enn möguleika.

Gore vs Bush

Þetta eru án efa þær mögnuðustu kosningar, sem ég hef fylgst með. Ég var byrjaður að fagna í gær, þegar Gore var búinn að vinna Michigan, Florida og Pennsylvania, en svo hrundi þetta allt þegar að, stuttu eftir að Bush var í viðtali, CNN dró spá sína um Florida tilbaka. Ég ákvað því um miðnætti að fara bara að sofa og sjá úrslitin í morgun. Svo náttúrulega vakna ég og sé að menn séu enn að bíða eftir atkvæðum frá Florida.

Í skólanum í dag var það fyrsta sem ég sá þyrla, sem var að sveima yfir skólalóðinni. Ég hugsaði náttúrulega hvort Al Gore hefði tekið valdið í sínar hendur og fengið herinn í lið með sér og framið valdarán. Mikið rosalega hefði það verið spennandi. Fyrir um ári var ég staddur í Paragvæ aðeins nokkrum dögum áður en forsetinn flúði. Þá var ástandið þannig að enginn var úti á götum, nema við Íslendingarnir tveir. Okkur þótti það voða spennandi.

Annars er málið, í sambandi við atkvæðaseðlana í Florida, alger skandall. Málið er að nafn Al Gore var annað nafnið á listanum en til að kjósa hann þurfti fólk að merkja við þriðja boxið. Ef menn völdu annað boxið, sem hefði nú verið lógískt þá kusu þeir Pat Buchanan. Þess vegna fékk Pat Buchanan 3200 atkvæði í sýslu, sem er mjög sterk fyrir Demókrata. Það hefði mátt búast við því að Buchanan fengi um 300 atkvæði. Þannig er ljóst að nær 3000 manns greiddu Buchanan atkvæði óvart. Ef Demókratar fengju þessi atkvæði þá væri það nóg til að vinna Florida.

Kosningar

Ég á enn eftir að klára hagfræðina en það er erfitt að slökkva á sjónvarpinu núna. CNN, Fox og MSNBC eru með stanslaus viðtöl við hina ýmsu spekinga. Ég er afskaplega veikur fyrir pólitík og hef alltaf gaman af því að fylgjast með.

Núna eru ekki nema um einn og hálfur tími þar til að fyrstu kjörstaðir loka. Kjörstaðirnir í Illinois, þar sem ég bý, loka hins vegar eftir tvo tíma. Demókratar hafa verið mjög duglegir hérna undanfarna daga við að koma upp skiltum í görðunum hjá sér og að dreifa hinum ýmsu upplýsingum. Ég hef ekki séð eins mikið af Repúblikunum, þótt þeir auglýsi einsog geðsjúklingar í sjónvarpinu.

Megi Al Gore vinna.

Kosningarnar í Bandaríkjunum

Það er með eindæmum gaman að lesa pistla Águsts Flygering um Bandaríkin og málefni þessa ágæta lands. Águst, sem kallaði bandarískan almenning einfaldan fyrir nokkru, fer aftur á kostum í umfjöllun sinni um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í tveim pistlum. Ég er með nokkrar athugasemdir:

Það er til marks um vanþekkingu Bush á utanríkismálum að hann kýs ávallt að varpa ábyrgðinni á aðra. Ef að utanríkisilðið hans er svona gott, af hverju eru þeir ekki í framboði? Já, og “svarta konan” er Condoleze Rice.

Varðandi fóstureyðingar þá getur Bush ekki bannað þær. Hann getur (og mun) hins vegar skipað hæstaréttardómara, sem eru að sínu skapi (menn einsog Clarence Thomas). Næsti forseti getur nefnilega skipað nokkra hæstarettardómara og ef Bush verdur vid völd getur hann náð meirihluta í hæstarétti og sá meirihluti getur fellt Roe/Wade úrskurðinn úr gildi og þar með bannað fóstureyðingar.

Varðandi Al Gore, þá HEFUR hann barist fyrir sínum málum undanfarin 8 ar. Það, sem Águst virðist ekki gera sér grein fyrir er að í Bandaríkjunum hefur þingið völd (ólikt því, sem gerist á Íslandi). Þar sem Repúblikanir hafa verið með meirihluta í þinginu í 6 ár hafa þeir fellt mikið af baráttumálum Clinton og Gore.

Varðandi netið þá sagði Al Gore ALDREI að hann hefði fundið upp internetið. Staðreyndin er hins vegar sú að Gore átti hins vegar mikinn þátt í því að í þinginu fóru í gegn lög, sem auðvelduðu uppbyggingu netsins.

Gore er ekki á móti því að fólk geti valið um skóla. Lausn Bush er sú að ef skólarnir eru lélegir, þá eigi fólk að fá “voucher”, sem þeir geti notað, svo barnið fari i einkaskóla. Þessi stuðningur nægir þó aðeins fyrir hluta af skólagjoldunum. Því verða þeir fátækustu alltaf eftir. Það, sem Gore vill gera er að ef skólarnir standa sig ekki, þá vill hann loka þeim og opna aftur með nýju starfsliði. Þannig verður enginn skilinn eftir.

Gore er umhverfisverndarsinni, en ekki umhverfisverndarofstækismaður, það er alltof neikvætt orð til ad lýsa honum. Í staðinn fyrir að eyðileggja nátturuperlur í Alaska fyrir olí, eins og Bush vill, þá vill Al Gore frekar eyða peningum í rannsóknir á öðrum orkulindum. Kosningarnar i Bandarikjunum snúast ekki um hvalveiðar, en ég er þó fullviss að bæði Gore og Bush eru á móti þeim.

Að mínu áliti snúast kosningarnar í Bandaríkjunum um hvor sé klárari og betri leiðtogi. Á því leikur enginn vafi. Al Gore er rétti maðurinn.

Kappræður

Annars var ég að horfa á kappræðurnar milli Bush og Gore á þriðjudaginn. Það er alveg makalaus að Bush skuli hafa forskot í baráttunni. Al Gore sýndi það hvað eftir annað að hann hefur yfirburðar þekkingu á öllum málefnum.

Bush svaraði mörgum spurningum með lélegum bröndurum, eða með einhverju rugli. Til dæmis þá kom ein spurning um landbúnað og þá kom berlega í ljós að Bush veit ekki neitt um það mál. Það sem hann svaraði var eitthvað á þessa leið: “Ég vil að bandarískir bændur séu áfram þeir bestu í heimi, því án þeirra þá fáum við ekkert að borða”. Þvílík ótrúleg speki. Ég er heldur ekki ennþá farinn að trúa því hvað hann var stoltur yfir því að þrír menn hefðu verið líflátnir í Texas. Það er eins og þetta sé bara allt einn stór leikur fyrir hann.

Gore tók loksins almennilega á Bush, og hann sýndi það að hann er einfaldlega mun gáfaðri en Bush.

Gore og Bush

Ég var að horfa á kappræðurnar milli Gore og Bush. Þær voru í sjónvarpinu áðan og var stjórnað af hinum mikla snillingi, Jim Lehrer. Að mínu mati þá tók Gore Bush í nefið. En kannski á ég örlítið erfitt með að vera hlutlaus. Ég held þó að flestir myndu vera sammála um að Gore var mun öruggari og hann vissi meira um málefnin. Og afstaða hans til flestra málefna höfðar einfaldlega meira til mín.

Einnig var Al Gore ávallt með allar tölur á hreinu. Bush gat aldrei svarað fyrir sig og neitaði aldrei tölum Gore, heldur reyndi að vera fyndinn og sagði að Gore hefði fundið upp reiknivélina. Gore var með allt á hreinu, en Bush var alltaf í vörn.

Bush klúðraði svo endanlega öllu, þegar hann var kominn út í horn og byrjaði þá að ráðast á persónu Al Gore. Hann fór eitthvað að tala um Clinton og svo búddhista musterið. Al Gore leysti þetta á einfaldan hátt. Hann sagði einfaldlega að hann vildi ekki tala um persónur, heldur málefni. Nákvæmlega!

Bandaríkin

Ég var að lesa grein á heimasíðu Ágústs F. Hún endaði á þessum orðum:

Maðurinn sem lifði í eigin veröld. Maðurinn sem var, einsog bandarískur almenningur, einfaldur.Maður er nefndur… Ronald Reagan.

Það er gaman að sjá að Ágúst Flygering hefur fullkomnan skilning á bandarískum almenningi og á auðvelt með að alhæfa um Bandaríkjamenn.

Annars fer fátt fleira í taugarnar á mér en þegar misfrótt fólk er að fullyrða svona um fólkið, sem býr í sama landi og ég. Ég spyr Ágúst, hvaðan koma fötin þín, hvaðan eru bíómyndirnar, sem þú horfir á eða sjónvarpsefnið. Hvaðan eru vefsíðurnar, sem þú lest eða tölvuleikirnir, sem þú spilar eða tölvuforritin, sem þú notar? Hvernig getur þjóð, sem er svona voðalega einföld haft svona mikil áhrif jafnt á stjórnmálasviðinu, sem og á því menningalega?

Bandaríkin er frábær þjóð. Þjóð, sem laðar að sér gáfaðasta og hæfasta fólk í heiminum. Þar búa margir af hæfustu prófessorum, íþróttamönnum og listamönnum í heimi. Víst er fullt af fólki, sem er ekki ýkja frótt um alheiminn, en taka verður tillit til þess að Bandaríkin er það stórt land að utanríkismál eru ekki jafnmikilvæg fyrir Bandaríkjamenn og Íslendinga.

Það er gott að búa í þessu ágæta landi.