Af því að ég get ekki komið orðum að því sem mig langar að blogga um, þá set ég bara in smá myndband svo að fólk haldi ekki að ég sé hættur að blogga
Árni Páll gjöriðisvovel:
Af því að ég get ekki komið orðum að því sem mig langar að blogga um, þá set ég bara in smá myndband svo að fólk haldi ekki að ég sé hættur að blogga
Árni Páll gjöriðisvovel:
Veit einhver hvar ég get séð leiki Chicago og Miami í úrslitum NBA? Samkvæmt Sýn þá byrjar úrslitakeppnin í dag þrátt fyrir að ég geti svarið fyrir það að Chicago Bulls unnu Miami í úrslitakeppninni [í gær](http://sports.espn.go.com/nba/dailydime?page=dailydime-070422). Af hverju í ósköpunum var sá leikur ekki sýndur á Sýn? Efast einhver um að Chicago Bulls eru vinsælasta NBA liðið á Íslandi?
* * *
Tilbúin frétt ársins var í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld: Íbúar vilja ekki flugvöll í sitt hverfi!!!
Þar var tekið viðtal við íbúa í Grafahrolti og þeir spurðir hvort þeir vildu fá flugvöll í nágrennið. Ótrúlegt en satt, þá voru margir á móti því! Ja hérna!
* * *
Svo fær fréttastofa Stöðvar 2 hrós dagsins fyrir að tefla fram fréttamanni, sem kann að bera fram frönsk mannanöfn.
Orð gærdagsins: Verðbólguskot.
Orð dagsins í dag: [Verðbólgukúfur](http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4301778/0).
Hvaða orð ætli Sjálfstæðismenn myndu nota yfir það, þegar að verðbólga er yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka í 55 af 72 mánuði? Þegar að þeir hafa ákveðið hvaða orð þeir myndu kalla það, þá væri ekki úr vegi að þeir byrjuðu að nota það orð yfir þá staðreynd að síðan 2001 hefur verðbólgan á Íslandi verið yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans í 55 af 72 mánuði.
Allir góðir menn lesi [þetta plagg](http://xs.is/media/files/Jafnv%E6gi%20og%20framfarir.pdf). Ágætis sönnun á því að Íhaldsmönnum er ekki treystandi fyrir ríkisfjármálum. Bush hefur sannað það í Bandaríkjunum og Sjálfstæðisflokkurinn er að gera það hér.
Í kvöld var rætt um utanríkismál í málefnaþætti á RÚV. Það sýnir nú berlega hversu einangruð við á Íslandi erum, að einu málin sem þóttu þess virði að ræða, voru innflytjendamál á Íslandi og svo ESB aðild Íslands. Önnur utanríkismál þótti óþarft að ræða. Þeir sem þekkja mig vel vita auðvitað að það mál, sem [Evrópusinninn Einar Örn](http://www.flickr.com/photos/einarorn/222786388/in/set-72157594248324733/) hefur mestan áhuga á, er aðild Íslands að ESB.
Það sem vekur ítrekað furðu mína varðandi ESB umræðu á Íslandi er hversu lokaðir allir stjórnmálaflokkar, utan Samfylkingarinnar, virðast vera fyrir því að skoða ESB aðild Íslands. Allir flokkar utan Samfylkingarinnar virðast ekki hika við að halda því fram að allt sé ómögulegt í samningaviðræðum við ESB, án þess þó að hafa nokkuð fyrir sér í þeim efnum . VG virðast vera á móti ESB af því að þá getum við ekki verslað við Suð-Austur Asíu (einsog Árni Þór sagði) – alveg einsog að ESB þjóðir versli ekkert við lönd utan ESB. Aðrir flokkar virðast aðallega vera á móti ESB aðild vegna þess að þeir gefa sér þær forsendur að við munum ávallt ná mjög slæmum árangri í samningaviðræðum um aðild að ESB.
Umræður um ESB hjá öðrum flokkum virðast algjörlega taka mið af því að þeir flokkar gefa sér þær forsendur að við munum engum árangri ná með okkar mál í aðildaviðræðum við ESB. Allir eru sannfærðir að aðildaviðræður verði einhver algjör einstefna, þar sem ESB fær öllu fram, kvótinn verði ákveðinn frá Brussel og svo framvegis. Aðeins einn flokkur vill **láta á það reyna hvað aðildaviðræðurnar skila okkur**. Það er Samfylkingin. Ég bara get ekki fyrir mitt litla líf skilið af hverju fólk er á móti þeirri stefnu Samfylkingarinnar. Í stað þess að gefa sér eilíft neikvæðar forsendur fyrir árangri að aðildarviðræður, þá vill Samfylkingin **láta á það reyna**. Í stað þess að tala bara stanslaust um neikvæðu hliðarnar á ESB aðild, þá vill Samfylkingin **láta reyna á það hvaða jákvæðu áhrif ESB aðild getur haft fyrirÍsland.
Takið eftir því að stefnan Samfylkingarinnar er ekki að ganga inní ESB. Stefnan er að skilgreina það, sem við viljum ná útúr aðildaviðræðum, fara í þær, sjá hvaða árangri við náum útúr þeim **og leggja svo niðurstöðurnar fyrir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu**.
Hvað er að þessu?
Ef allt verður ómögulegt, þá einfaldlega fellum við samninginn. Ef við hins vegar getum náð árangri með okkar mál og menn telji að það sé til dæmis hagstæðara að vera með evru í stað krónu, þá samþykkjum við aðildina. Þetta er ekki svo flókið.
Er það ekki gáfulegra að Íslendingar fái að sjá hverju aðildaviðræður geta skilað okkur? Er það okkar í hag að besservisserar í öllum hornum reyni að skálda það upp hvað ESB mun segja í aðildaviðræðum? Væri það ekki frekar þjóðinni til hagsbóta að sjá hvað við fáum í raun útúr aðildaviðræðum?
27 Evrópuþjóðir eru hlutar af ESB, þar á meðal allar stærstu þjóðirnar. Flestar aðrar þjóðir vilja innöngu. Af hverju ekki Íslendingar? Af hverju erum við svona spes?
Já, en horfið á Noreg öskra þá andstæðingar ESB. Já, horfum á Noreg. Þar **fékk fólkið að ákveða** hvort það vildi aðgang að ESB. Þar fór ríkisstjórnin í aðildaviðræður og lagði svo það í dóm kjósenda hvort að hag Noregs væri betur borgið innan ESB eða utan. Nákvæmlega það sama og t.d. Svíar og Finnar gerðu. **Svíar og Finnar sögðu já – Norðmenn nei**. Af hverju fá Íslendingar einir þjóða ekki einu sinni að ákveða hvort þeir vilji vera í ESB?
Af hverju þurfum við að láta stjórnmálamenn hafa vit fyrir okkur? Af hverju getum við ekki treyst þjóðinni til að ákveða svona gríðarlega stórt mál? Það er fráleitt að láta þetta ráðst eftir flokkalínum. Hægri- og vinstrimenn vilja aðild að ESB. Þeir hægri menn, sem vilja þó aðild (einsog gríðarlega margir í viðskiptalífinu) geta hins vegar ekkert gert þar sem að flokkurinn hefur ákveðið að vera á móti ESB.
Eina lausnin á þessum deilum er að fara í aðildaviðræður, sjá hvaða árangri við náum og leyfa svo þjóðinni að ákveða. Alveg einsog hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa haft tækifæri til. Við Íslendingar eigum það líka skilið.
* * *
(Ég kenni svo aumingjunum í Roma um það að ég skuli að vera að skrifa um pólitík í stað þess að vera að horfa á fótbolta einsog ég ætlaði mér.)
* * *
(Hér á eftir fylgir röfl um atvinnuleysistölur í ESB – kannski ekki neitt gríðarlega áhugavert fyrir flesta).
Continue reading Af hverju ekki ESB?
Í morgun vaknaði ég svona rétt sæmilega hress, klæddi mig í íþróttagalla og hljóp niðrá Rauðarástíg þar sem ég sótti bílinn minn, sem ég hafði skilið þar eftir í gærkvöldi þar sem starfsfólkið á Serrano var að skemmta sér.
Allan þennan tíma, sem ég var að hlaupa, gerði ég mér enga grein fyrir því að samkvæmt einhverjum í þjóðfélaginu, þá upphófst stórkostleg hnignun í íslensku samfélagi í gær.
Jú, sjáið til – Hafnfirðingar ákváðu að leyfa ekki gríðarlega aukningu á stóriðju í sínu bæjarfélagi. Þeir ákváðu að þeir hefðu það ágætt og að ekki væri endalaust hægt að fórna náttúru landsins og öðrum lífgsæðum fyrir peninga. Þeir ákváðu að það væru aðrir hlutir sem þyrftu að huga að, þegar að stórar ákvarðanir eru teknar, fyrir utan fjármagn, hagvöxt og hag erlendra stórfyrirtækja.
Ég er ekki endilega að segja að ég sé sammála Hafnfirðingum. Ég frekar andvígur fleiri álverum, en þó hefur mér fundist þessi stækkun í Hafnarfirði vera einna skynsamlegust af þessum fjölmörgu álkostum, sem hafa verið í umræðunni, þar sem að í Hafnarfirði er um að ræða fyrirtæki sem hefur starfað hér lengi og væntanlega hagstæðara að hafa færri og stærri álver.
En Hafnfirðingar sögðu nei og ég skil það að mörgu leyti. Þeim var sagt að bærinn fengi 500 milljónir – um 300.000 á hvern íbúa – en þeir sögðu nei takk. Þeir ákváðu að það væri annað, sem væri mikilvægara. Þetta virðast sumir ekki geta skilið – þeir geta ekki skilið af hverju fólk ætti að kjósa útaf einhverju öðru en buddunni.
* * *
Svo virðist vera sem að fylgismenn ríkisstjórnarflokkanna séu alveg bandbrjálaðir útaf þessari höfnun. Ég veit ekki hvort að margir þeirra hafi verið að drekkja sorgum sínum í Campari í gærkvöldi, en ummælin á [moggablogginu](http://www.blog.is) eru mörg hver hreint mögnuð. Ég tók saman nokkur komment (feitletranir mínar).
* Já nú getur hnigunin hafist. Það verður aldrei neitt “alræði öreiganna” nema auka fátækt almennilega.
* En það góða er að nú geta Hafnfirðingar einbeitt sér að grænni framtíð í formi prjónaskapar og álíka iðnaði
* Stjórnmálamenn eru kosnir til þess að stjórna. Þegar þeirra nýtur ekki lengur við tekur múgur götunar að sér stjórnina.
* Nú hefur **lýðurinn** takið afstöðu og meirihlutinn vill ekki samþykkja stækkun álversins í Straumsvík. Mikið slys, líklega bara umhverfisslys.
* Sá hópurinn sem helst barðist **gegn** stækkuninni, sér heiminn rétt eins og félagi Davíðs fyrir westan. Sá heitir George Dobbljú Bush
* **þetta er svartasti dagur Íslandssögunar.**
* Jæja þá er það nú loksins staðfest að rétt rúmlega helmingur Hafnfirðinga eru Hálfvitar ef marka má þessa niðurstöðu úr álverskorsningunum.
* Að mínu mati er þetta mjög svo svartur dagur fyrir Hafnfirðinga því að þetta hefur ekki bara áhrif á álverið heldur MÖRG önnur fyrirtæki í HFJ sem að fara líklega á hausinn og **þetta gæti orðið til þess að Hafnarfjörður verði draugabær…**
* Þetta náttúrlulega gekk ekki lengur. Endalaus velmegun, vöxtur og hagsæld öllum til handa. Atvinnuleysistölur langt undir ?eðlilegum? mörkum. Það varð bara að koma böndum á framþróunina og það tókst. Til hamingju Hafnfirðingar!
* Álverið tapaði – fólkið í landinu tapaði.
Þetta er magnað. Ólíkt því sem hefur verið haldið fram á mörgum bloggsíðum, þá var ekki kosið um “framfarir” í gær. Það var kosið um **stækkun á álverksmiðju**. Fjölmargar aðrar þjóðir hafa búið við “framfarir” án þess að hafa til þess möguleika á að selja rafmagn á lágmarksverði. Þetta fólk hefur stuðlað að framförum með því að mennta íbúana og með því að búa svo í haginn í efnahagslífinu að heillandi sé fyrir einstaklinga að stofna fyrirtæki.
En á Íslandi virðast margir hægri menn telja að eina leiðin áfram sé með álbræðslu. Eina leiðin til “framfara” er sú að ríkið búi til einhverjar stórar hugmyndir um hvernig eigi að leysa öll vandamálin með pennastriki. Umræðin er orðinn einsog einhvers konar “bizarro world” þar sem upp er niður og hægri menn berjast fyrir stalinískum stóriðju”lausnum” á meðan að vinstri menn reyna að stoppa þá.
Þetta kemur líka að einhverju leyti fram hjá ungu fólki í dag. Það vilja allir vinna í bönkum, allir hjá stórfyrirtækjum. Ólíkt því sem er í Bandaríkjunum þar sem allir vilja sjálfstætt og “small business owner” er kóngur, þá er stórfyrirtækjum hampað á Íslandi. Það er hálfpartinn hallærislegt að vinna að einhverju litlu, og orðið athafnamaður hefur í margra huga frekar neikvæðar merkingar.
* * *
Það allra furðulegasta við þetta er þó sú krafa frá mörgum Sjálfstæðismönnum að aðrir flokkar skýri það út **hvað** eigi að koma í staðinn fyrir álver. Það er einsog að þetta fólk geri sér ekki grein fyrir því að það er ekki hlutverk stjórnmálaflokka í markaðshagkerfi, að finna upp atvinnugreinar til að skapa atvinnu útum allt land. Það er hlutverk ríkisvaldsins að skapa bestu hugsanlegu aðstæður til þess að einka-aðilar geti stofnað fyrirtæki og skapað atvinnu á landinu, en ríkið á ekki að búa til fyrirtækin og atvinnuna.
Það sem þetta fólk gleymir líka er að skýra út er hvað eigi að gera á eftir Húsavík. Ok, reddum Húsvíkingum með álveri. Þá erum við búin að redda tveim sveitarfélögum með álverum. En hvað eigum við svo að gera? Hvernig verksmiðjur eigum við að reisa þegar það koma upp vandamál á Ísafirði og á Höfn? Loðdýrarækt kannski?
Staðreyndin er auðvitað sú að það að nota nánast alla virkjanlega raforku á Íslandi í aðgerðir til að bjarga litlum sveitarfélögum útá landi er stórkostlega skammsýnt – og það að vera á móti því er ekki það sama og að vera á móti “framförum”. Nei, ég er ekki með neinar patent lausnir á þessum málum, enda hefur það enginn einn maður. Lausnin er að skapa hérna aðstæður til að fólkið geti bjargað sér sjálft. Að skapa hér aðstæður til þess að **einstaklingurinn** geti blómstrað. þar sem að lítil fyrirtæki geti tekið lán á **eðlilegum vöxtum** til þess að þeir geti komið hugmyndum sínum í framkvæmd. Meira að segja Davíð Oddson áttar sig á því að ef við viljum halda þessari þensluhvetjandi stóriðjustefnu áfram, þá mun það bitna á annarri uppbyggingu í landinu.
Nei, hugmyndir Ómars um eldfjallagarð eða einhver prjónastofa í Hafnarfirði, eða lítið fyrirtæki í ferðaþjónustu á Höfn, munu ekki koma í stað fyrir álver ein og sér. En ef að ríkið skapar aðstæður fyrir þessu fyrirtæki til að vaxa og dafna, þá getum við skapað hér fjölbreytt og áhugavert atvinnulíf, sem við getum verið stolt af. Atvinnulíf þar sem við getum ekki bara skilað hagsæld til næstu kynslóða, heldur líka stórum hluta af ósnertri náttúru landsins. Það væru svo sannarlega framfarir, sem við gætum öll verið stolt af.
<Moggablogg>Heldur þetta fólk í Íslandshreyfingunni *virkilega* að einhverjir Sjálfstæðismenn muni kjósa þau?
Samfylkingarmaður sem féll í prófkjöri, kona sem féll í varaformannskjöri hjá Frjálslyndum og Ómar Ragnarsson! Á þetta fólk að vinna til sín fylgi frá Sjálfstæðismönnum?! Og svo er stefnuskráin nánast einsog þau hafi ljósritað stefnuskrá Samfylkingarinnar. Allavegana sé ég ekki muninn.
Geir HH og vinir eru eflaust að tapa sér af gleði yfir þessu framboði, sem mun ekkert gera nema taka fylgi af vinstriflokkunum og auka líkurnar á að þessi ríkisstjórn haldi velli<⁄Moggablogg>
Biðst velvirðingar á leiðinlegustu færslu allra tíma. Vont veður og [þreyta](http://www.flickr.com/photos/einarorn/430462088/) hefur sennilega haft áhrif á mig. Núna eftir 1 bolla af Pickwick grænu tei með ginseng, þá er ég allur miklu betri. Sem er ágætt því ég á víst að vera mættur á Vegamót eftir klukkutíma.
Jæja, Ingvi Hrafn [er vaknaður](http://hrafnathing.blog.is/blog/hrafnathing/#entry-145535)
>Þið liggur við að fylgisaukning vinstri grænna sé hætt að vera fyndin og allt í einu setji að manni hroll við tilhugsun um að þetta fólk gæti komist til áhrifa í þjóðfélaginu og kallað yfir okkur kjarnorkuvetur í efnahagsmálum.
Hvenær ætli aðrir Sjálfstæðismenn hætti að gleðjast yfir fylgistapi hjá frjálslyndum jafnaðarmannaflokki og byrji að átta sig á því að næst stærsti flokkur landsins er sósíalistaflokkur, sem er eins ósammála þeim í efnahags-, varnar- og utanríkismálum einsog hægt verður að komast?
Af vef [Samfylkingarinnar á Akureyri](http://web.hexia.net/roller/page/akureyri/Weblog/samstiga_um_stodnun_og_einangrun) þar sem fjallað er um þá mögnuðu stórfrétt að VG og xD hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu um að vera á móti ESB aðild Íslands:
>Nú virðast þessir flokkar á ysta kanti íslenskra stjórnmála vera að ná saman um einangrun landsins til framtíðar. Það er alvarlegt umhugsunarefni. Tæplega þrjátíu þjóðir í Evrópu hafa nú sameinast í ESB og fleiri vilja komast inn. Það er aðeins tímaspursmál hvenær Noregur sækir um inngöngu þó svo staða þeirra sem vellauðugrar þjóðar sé allt önnur en okkar.
>Það er því þessi staðreynd sem blasir við. VG og Sjálfstæðisflokkurinn hafa náð saman um einangrun landsins til framtíðar þó svo ég trúi því að það sé á ólíkum forsendum. Sjálfstæðismenn af því pólitískt ofurvald flokksins á þjóðfélagið mundi rýrna en VG bara af því eru þröngsýnn og óraunsær sócalistaflokkur með torfkofavinkil á Íslenskt samfélag.
Þetta minnir mig á spurningu, sem ég hef ennþá ekki fengið svar við: “Af hverju eru Vinstri Grænir á móti inngöngu í ESB?”
Ég skil af hverju xD eru á móti (þeim finnst (oft af furðulegum ástæðum) þetta vera sósíalistabákn) en ekki af hverju Vinstri Grænir eru á móti. Getur einhver skýrt þetta út fyrir mér?
Ég trúi því varla að fólk sé að tapa sér yfir ummælum Steingríms J. um að hann vilji stofna netlöggu til að fylgjast með netumferð landsmanna. Ég meina, það er ekki fræðilegur möguleiki á að honum hafi verið alvara með þessu? Er það nokkuð? Ha? Þetta er svo vitlaus hugmynd að það er nánast ólýsanlegt.
Hvað þýðir það að fólki sé meinuð gisting á Hótel Sögu? Er ég einn um að finnast það viðbjóðslegt að slíkt skuli gerast á landi sem á að teljast frjálst?
Hversu langt ætlum við að ganga? Haldiði ekki að fyrrverandi eyturlyfjasalar hafi gist á Hótel Sögu? Menn sem hafa lamið konurnar sínar hafa gist á Hótel Sögu, sem og aðrir ofbeldismenn. En hingað til hefur enginn spurt væntanlega gesti um sakavottorð, enda erum við komin ansi langt þegar að hótel er farið að taka að sér að refsa fyrir hegðun sem því er á móti skapi. Ætla femínistar að mótmæla því næst þegar að dæmdur glæpamaður reynir að fá gistingu á tjaldstæði á Íslandi?
Við erum með refsikerfi, sem á að sjá um að refsa fólki fyrir ólöglega hegðun. En hótel, flugfélög eða veitingastaðir eiga ekki að standa í að refsa fólki fyrir sína iðju. Þetta er virkilega ósmekklegt og þegar að hysterían deyr niður þá munu eflaust margir átta sig á því hversu langt menn hafa gengið í vitleysunni.
—
Vegna þess að femínistum finnst felast kvenfyrirlitning í sumu klámi, þá hafa þær (þau) ákveðið að reyna með öllum ráðum að gera alla klámframleiðslu tortryggilega og engu nær en að þau haldi að öll framleiðsla á klámi sé unnin með 12 ára gömlum pólskum þrælum. Það er í góðu lagi að mótmæla klámi með því að í því felist kvenfyrirlitning (sem er vissulega rétt í ansi mörgum tilfellum), en það er ekki í lagi að gera öllum framleiðendum þess efnis upp þær sakir að þeir stundi mansal og barnaníðingar.
Þetta snýst ekki um að vera með eða á móti klámi, heldur það að vera með eða á móti frelsi. Það hefur ekki verið sannað á þetta fólk að það stundi mansal eða barnaníðingar, enda eru þær iðjur bannaðar í heimalandi fólksins. Þess vegna getum við ekki tekið að okkur að dæma fólkið fyrir þær sakir **án allra sönnunargagna**. Ef að stærsta sök þessa fólks er að framleiða efni uppfullt kvenfyrirlitningu þá má mótmæla efnistökum, en ekki meina því að koma til landsins eða um gistingu.
Svo þorir enginn að standa uppi og verja frelsi þessa fólks til að koma, nema eiga það á hættu að vera merktir sem einhverjir klámsjúkir perrar (einsog ég hef ítrekað lesið á bloggsíðum), sem er álíka ómálefnalegt og ómerkilegt og að kalla alla femínista ljóta og kynlífsskerta.
Ég sé að eini flokkurinn sem talar gegn þessari hysteríu eru ungliðar í Sjálfstæðisflokknum. Það er spurning hvort ég eigi meiri samleið með þeim flokki en þeim sem ég er skráður í núna.
Annars bendi ég á [þetta](http://mengella.blogspot.com/2007/02/sweet-home.html) og [þetta](http://blog.kristjanatli.com/2007/02/22/personufrelsi).