Fótbolti, tónlist og vinna

Liverpool Bloggið: [Eins og rottur á sökkvandi skipi…](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2004/10/29/19.11.21/)

Okkar álit á Chelsea og Adrian Mutu.


Þessi vika er búin að vera hreinasta geðveiki. Vinnan hefur engan enda tekið. Það var því ótrúlega mögnuð þegar ég var að fara útúr vinnunni um 6 leytið í dag að sjá tómt skrifborð. Ég var búinn að klára mín mál, get byrjað nýja viku með hreint borð. Mikið er það þægileg tilfinning eftir alla geðveikina.

Ætli ég sinni ekki [hinni vinnuni](http://www.serrano.is/) um helgina.


Keypti mér nýju Quarashi plötuna í vikunni og AUÐVITAÐ er hún snilld. Hún er búin að halda mér á floti í líkamsræktinni síðustu daga.

Payback er besta rokklag, sem þeir hafa gert, Stars, Dead Man Walking og Stun Gun eru öll fáránlega grípandi og það má reyndar sama segja um Straigt Jacket. Fokk, öll lögin eru snilld. Þetta er snillingar. Snillingar! Tiny er frábær. Hann er kannski enginn texta snillingur einsog Eminem, en flæðið er nánast jafngott og hjá Eminem og það er magnað. Hann smellpassar inní bandið.

En ég mæli semsagt með Guerilla Disco fyrir alla. Það er hreinlega ekki hægt að finnast platan ekki skemmtileg. Ég bara trúi því ekki.

Kerry og Víetnam

Mæli sterklega með þessari síðu: [Never Forget](http://www.internetvetsfortruth.org/). Nokkur frábær myndskeið um John Kerry og Víetnam.

[Kerry talar fyrir þingnefnd](http://www.internetvetsfortruth.org/m/upriver/upriver-congress.mov)
[Mótmæli gegn stríðinu þegar hann kemur heim](http://hume.multipattern.com/mirror/2004/movies/upriver/upriver-medals.mov)

Svo eru þarna einnig á síðunni ummæli frá félögum hans á bátum í stríðinu. Samt er lang athyglisverðast að sjá hvernig stríðið breytir honum. Hvernig hann sannfærist um rangmæti þess og þorir að standa upp gegn stríðinu aðeins 27 ára gamall. Það er augljóst að hann gerir sér betur grein fyrir því hversu stór ákvörðun það er að fara útí stríð en Bush. Bush, sem var að leika sér í Texas og hinir “chicken hawks” í stjórninni hans væru ekki svona æstur í stríðsrekstur ef þeir hefðu upplifað það sama og Kerry.

Red Sox unnu!

Red Sox unnu! Þeir eru [meistarar eftir 86 ára bið](http://sports.espn.go.com/mlb/fallclassic/columns/story?columnist=stark_jayson&id=1911156)!

Ímyndið ykkur að búa í borg, sem er fjögurra klukkutíma akstur frá þekktustu borg heims og að allir íbúar nágrannaborgarinnar séu fáránlega uppteknir af borginni sinni og hvað hún sé mikið æði.

Bætið því svo við að [hafnaboltaliðið í nágrannaborginni](http://newyork.yankees.mlb.co) er besta hafnaboltalið allra tíma. Ykkar lið hefur hins vegar ekki unnið titilinn í 86 ár. Bætið því svo við að liðið ykkar [seldi liðinu í stóru borginni besta hafnaboltaleikmann allra tíma](http://www.bambinoscurse.com/whatis/) og að síðan þá hafi liðið ykkar ekki unnið.

Bætið því svo við að liðið ykkar hafi oft komið skuggalega nálægt því að vinna, en alla ævi ykkar hafi þeir getað valdið ykkur vonbrigðum. Þeim tókst m.a.s. að tapa úrslitaleik vegna þess að leikmaður missti boltann [í gegnum klofið](http://www.sportingnews.com/baseball/25moments/8.html).

Þá kannski er hægt að átta sig á því [hvernig það er að styðja Boston Red Sox](http://sports.espn.go.com/espn/page2/story?page=simmons/041028). Það hefur ekki verið auðvelt. Tveir af bestu vinum mínum eru Boston búar og Red Sox aðdáendur. Þeir hafa aldrei upplifað að Red Sox hafi orðið meistarar. Ekki heldur pabbar þeirra. Ekki heldur afar þeirra. Þangað til núna. TIl hamingju!

Frábært! Núna VERÐA [Chicago Cubs](www.cubs.com) að vinna á næsta ári!

Veitingahúsarýni Einars

Þar sem að eldhúsið er að komast í lag og ég eldaði mínu fyrstu máltíð í langan tíma í kvöld, þá er ekki úr vegi að gera upp veitingastaðaflakk mitt á síðustu 3 vikum.

Ég er kannski að fara útá hálan ís, þar sem ég á sjálfur veitingastað en so be it. Tel mig vera ágætlega hæfan til að segja álit mitt á veitingastöðum, þrátt fyrir hagsmunatengsl 🙂

**Indókína**: Helvíti góður matur. Pantaði mér karrí eitthvað og núðlur. Núðlurnar voru sirka 300 sinnum betri en á Nings. Mæli með því

**Shalimar**: Ágætu indverskur matur, en samt ekki nógu gott. Eitthvað ódýrara en Austurlandahraðlestin, en verðmunurinn er ekki nógur til að vega upp gæðamuninn.

**Austurlandahraðlestin:** Æði. Rosalega dýrt, en það breytir litlu. Eina pirrandi er að það er ekki heimsending.

**McDonald’s**: Ég elska McDonald’s, en nýja Caprice samlokan er djók. Fáránlega lítil og ekki góð á bragðið. Svei mér þá ef þetta er ekki eini vondi rétturinn á McDonald’s, fyrir utan fiskborgara.

**Eldsmiðjan**: Pollo Loco pizzan er æði. ÆÐI! Besta pizza á Íslandi.

**Krua Thai**: Uppgötvun síðustu vikna. Fór þarna á leiðinni heim úr vinnu og keypti tvo rétti, sem ég man ekki nafnið á, en þeir voru báðir snilld.

**Pret-A-Manger**: Tók með mér samloku af Heathrow og ætlaði að borða í flugvélinni, en endaði á því að borða hana hérna heima, þannig að það telur með. Frábærar samlokur

**Quizno’s**: Fór þangað í fyrsta skipti í 3 ár. Umtalsvert betra en í minningunni. Bestu skyndibita samlokur á Íslandi, segi ég og skrifa.

**Salatbar 10-11**: Borðaðið þarna 4-5 sinnum. Fínt. Prófaði einnig nýjar Júmbó samlokur, sem voru góðar.

**Subway**: Veit ekki almennilega af hverju ég dýrkaði einu sinni Subway. Jú, þetta eru ágætis samlokur, en samt ekkert stórkostlegt. Kannski fékk ég bara leið. Allavegana, finnst Quizno’s núna betra.

**Serrano**: Ókeypis matur, sem er alltaf plús. Einhvern veginn þá fæ ég ekki leið á matnum á Serrano. Fyrir utan utanlandsferðir hafa aldrei liðið meira en 3 dagar á milli máltíða minna á Serrano. Alltaf jafngott 🙂

**Apótekið**: Frábær staður. Fékk lax og kálfakjöt. Snilld.

**Vox á Nordica**: Snilld. Með betri máltíðum, sem ég hef fengið á Íslandi.

Þannig er nún það. Fyrir þá, sem hafa ekki prófað þá, þá mæli ég með Hraðlestinni og Krua Thai.


Ágætis ástæða [til að kjósa John Kerry](http://www.ivillage.com/ivillage/election2004/pages/0,,613975_632829,00.html?arrivalSA=1&cobrandRef=0&arrival_freqCap=2):

>Favorite movie of the past year: Old School

[Old School](http://www.imdb.com/title/tt0302886/) er ekkert eðlilega fyndin mynd.


Skjár Einn er í ónáð hjá mér, þar sem þeir hafa þrjár vikur í röð lofað nýjum Queer Eye en svo sýnt gamla þætti. Legg til að við förum í kröfugöngu útaf þessu hræðilega óréttlæti.

Sjö tannburstar og sex rakvélar

O.C. er snilldarþáttur.


Þessi helgi var frekar róleg. Fór í afmæli hjá vinkonu minni og þaðan á Vegamót. Samt, frekar edrú þar sem ég þurfti að vinna daginn eftir. Vakti langt fram eftir á laugardeginum til að horfa á Boston Red Sox vinna viðbjóðinn frá St. Louis í úrslitum hafnaboltans. Staðan er núna 2-0 fyrir Boston.


Fékk einhverja flensu í gær og ákvað að taka til á baðinu. Hreinsaði úr öllum skápum í fyrsta skipti eftir að ég flutti inn. Hvað fann ég svo í baðherbergisskápunum, sem mér hefur einum tekist að fylla á þessum tveim árum, sem ég hef búið hérna í Vesturbænum? Jú:

  • 30 Evrur
  • 7 (SJÖ) tannbursta fyrir utan rafmagnstannburstann, sem ég nota alltaf
  • 6 (SEX!!!) Gillette rakvélar. Ég nota bara þá nýjustu.
  • 8 tegundir af rakspíra og ilmvötnum.
  • 5 tannkremstúbur

Hvað í andskotanum ég er að gera við allt þetta drasl er ofar mínum skilningi. Til dæmis hef ég varla þann skeggvöxt að ég þurfi 6 mismunandi rakvélar til að halda honum niðri. Ekki það að ég vilji ræða skeggvöxt minnn ítarlega, en ég get þó sagt að ég hef ávallt verið þakklátur fyrir þá staðreynd að alskegg er ekki í tísku.


Borðaði á Apótekinu í gær með útlending. Ji hvað ég elska Apótekið. Án efa uppáhalds veitingastaður minn á Íslandi fyrir utan alla mexíkóska skyndibitastaði í Kringlunni.

Ræðan mín á politik.is

Ljómandi skemmtilegt! Ræðan, sem ég hélt í Valhöll fyrir viku, var birt á pólitík.is. Sjá hér: [Forsetakosningar í U.S.A.](http://www.politik.is/?id=965).

Ætli maður sé ekki orðinn frægur núna víst það eru farnar að birtast eftir mann greinar á pólitískum vefritum? Ég sé fyrir mér hvernig að hópur af æstum stelpum munu ráðast á mig á Vegamótum, öskrandi: “Aaaaaaa, váá! Einar Örn, ógisslega var þetta flott ræða þarna á politik.is. Ég elssssska svona gæja, sem eru að pæla í stjórnmálum”

Jammmmm. Ég þarf að fara að komast heim úr vinnunni. Er svooo ekki að nenna þessu.

TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN

Í DAG, 22.OKTÓBER ER [ALÞJÓÐLEGUR CAPS LOCK DAGUR](http://www.derekarnold.net/capslockday/)!!!

Í DAG ER ÞVÍ SKYLDA HVERS OG EINS AÐ SKRIFA ÖLL E-MAIL OG ÖNNUR SKILABOÐ MEÐ STÓRUM STÖFUM. EINNIG EIGA ALLAR FÆRSLUR Á INTERNET(UNUM) AÐ VERA MEÐ STÓRUM STÖFUM.

TAKK FYRIR OG TIL HAMINGJU.

JÁ, OG SVO ERU ÞETTA NÁTTÚRULEGA STÓRTÍÐINDI: [#](http://kaninka.net/stefan/011077.html)

Ó leit.is, þú ert mögnuð leitarvél

Ég er búinn að röfla nógu oft um Leit.is á þessari síðu. Ég verð þó að bæta enn við þetta. Fyrir stuttu skrifaði ég [stutta færslu](https://www.eoe.is/gamalt/2004/10/13/11.55.36/), þar sem ég benti á dópsala síðuna, sem var fjallað um í fjölmiðlum.

Síðan þá hef ég sennilega fengið um 500 leitar fyrirspurnir af Leit.is (sjá [hala af fyrirspurnum](https://www.eoe.is/gamalt/2004/10/13/11.55.36/) í sjálfri færslunni). Ef leitað er að “Dópsalar” á leit.is, þá kemur *mín* síða fyrst upp. Ef hins vegar er leitað á Google kemur rétta Dópsala síðan hins vegar fyrst upp.

Ég er svo sem ekkert alltof hrifinn af þessari traffík á þessa einu færslu hjá mér. [Sumir](https://www.eoe.is/gamalt/2004/01/07/07.12.10/#3098) virðast hreinlega halda að ég sé [þessi pabbi, sem birtir nöfn dópsalanna](https://www.eoe.is/gamalt/2004/01/07/07.12.10/#3098). Það er orðið ansi slæmt ef fólk fattar ekki muninn á að vísa í viðkomandi síðu og að hafa í raun staðið fyrir síðunni.

Það er líka merki um hversu slöpp leitarvél Leit.is er, að á meðal þeirra 23 leitarniðurstaðna, sem sú síða fann, þá var *ekki ein* niðurstaðan rétt niðurstaða. Það er ansi magnað afrek. Ég geri ráð fyrir að 98% þeirra, sem hafi leitað að orðinu “dópsalar” hafi verið að leita að lista síðunni. Sennilega hafa flestir fundið hana í gegnum mína síðu, en það er náttúrulega ekki ásættanleg niðurstaða.

Það tókst!!!

Það tókst!!! [Red Sox unnu](http://sports.espn.go.com/mlb/playoffs2004/columns/story?columnist=caple_jim&id=1906383)

Ég er þreyttur, verulega þreyttur. En mikið er þetta nú yndislegt.