GooOS

Mjög [athyglisverðar pælingar hjá Kottke](http://www.kottke.org/04/04/google-operating-system) um Google og hvert þeir stefna.

Maður hefur heyrt fullt af samsæirskenningum um Google, en þessi pistill hjá Kottke (og pistillinn, sem hann [vísar á](http://blog.topix.net/archives/000016.html)) eru mjög athyglisverðir.

GB, Metallica og djamm

Var í Serrano starfsmannapartý í gær, sem var skemmtilegt einsog öll partý tengd þeim ágæta veitingastað. Eftir partýið fór ég með nokkrum í bæinn. Gegn minni betri sannfæringu ákvað ég að fylgja fólki og fara á Felix. Álit mitt á þeim stað óx svo sem ekki í þetta skiptið. Aldurstakmörk virðast engin vera, allavegana þekkti ég 16 ára stelpur sem voru þarna inni. Magnað. Samt mjög skemmtilegt kvöld. Ætlaði að labba heim, en skipti um skoðun þegar ég lenti í mestu rigningu Íslandssögunnar.


Á leiðinni í partýið hlustaði ég á Gettu Betur. Sú keppni er hroðalegasta útvarspefni í heimi. Ég vissi aldrei almennilega hver var að svara hvaða spurningu. Emil kom útí bíl þegar lokaspurningarnar voru í gangi. Við vissum ekki almennilega hvort liðið var að svara í Þríþrautinni. Mjög óþægilegt og ég var að deyja úr spennu.

En mikið rooooosalega var gaman að Verzló skyldi vinna. Verzlóhjartað slær í manni á svona stundum. Get rétt ímyndað mér að það sé gaman í skólanum núna þegar þeir eru búnir að vinna Morfís og Gettu betur. Ekkert smá sætt að taka verðlaunin af MR. 🙂


Mikið er ég ánægður með að Metallica séu að koma til Íslands. Ég sá þá ásamt Dan vini mínum í Allstate Arena í Chicago fyrir fjórum árum. Það voru frábærir tónleikar. Verst að maður þarf að fara í Grafarvoginn til að sjá tónleikana.

Chevé Chevé Chevé Chevé

Jei, föstudagur. Ég ætlaði að vera snjall og skipuleggja mig þannig að ég yrði búinn snemma í dag. Það endaði á því að ég sat 3 fundi eftir klukkan 2 og var ekki kominn heim fyrr en hálf sjö. Ég er snillingur!

Var næstum því lentur í árekstri á leiðinni heim, því það var svo sæt stelpa sem sat í strætóskýli á leiðinni. Minnir mig á einhverja umræðu fyrir nokkrum árum um að það mættu bara vera ákveðið margir litir í auglýsingum á bílum, því of margir litir myndu trufla aðra vegfarendur og gætu ollið slysum. Einhver sagði þá að mun gáfulegra væri að banna sætar stelpur í umferðinni.

Ég á erfitt með að greina andlit, sem eru svona 20 metra frá mér. Þetta veldur því að mér þykir frekar óþægilegt að mæta fólki á götu. Ég átta mig nefnilega aldrei fyrr en að ég er kominn uppað fólkinu hver það er. Stundum eru síðustu metrarnir ekki nóg til að átta sig á því hver þetta er, svo það heldur sennilega fullt af fólki, sem ég þekki lítið, að ég sé dónalegur og heilsi ekki fólki á götu úti. Það er ekki rétt. Ég er einfaldlega stundum ekki nógu fljótur að fletta uppí minninu. 🙂

Þess vegna ef ég sé sæta stelpu nálgast útá götu, þá lít ég vanalega undan en lít svo aftur upp þegar hún er komin nógu nálægt til að sjá hvernig hún lítur út. Þetta er dálítið skrítinn siður, en sennilega betri en að stara á manneskjuna allan tímann meðan viðkomandi nálgast.

Og já, ég á gleraugu, en nenni ekki að vera með þau.


Svona aðeins til að draga úr því góða skapi, sem ég er búinn að vera í í dag, er ekkert betra en að lesa nokkur komment frá meistara Houllier (Sorrí, Jens). Fyrst úr [þessari grein](http://www.walkonlfc.com/news/apr04/gerard_houllier.htm)

>I am quite happy with our form and we have a good record of attempts at goal which shows you we do try and score goals.

Hjúkket! Ég hélt nefnilega að hann vildi ekki að liðið myndi skora mörk. Reyndar gæti maður haldið það á stundum. Getur líka einhver sagt þessum bjána að síðustu 8 deildarleikirnir til að ná FJÓRÐA sætinu eru EKKI bikarúrslitaleikir.

[Einnig](http://www.walkonlfc.com/news/apr04/houllier_henchoz.htm)

>It is a good thing he wants to play but he knows why he is not playing. We have kept three clean sheets in our last three Premiership games so he will have to bid his time.

Nú hugsar einhver: Frábært! Halda hreinu þrjá leiki í röð! Og jú, þangað til að maður skoðar á móti hvaða liðum þetta var: Leicester, Wolves og Portsmouth. Þau lið eru einmitt í 17., 18. og 20. sæti. Stórkostlegur árangur!


En nei, læt Houllier ekki koma mér í vont skap.

Ok, starfsmannapartí Serrano í kvöld. Gaman gaman. Er búinn að vera að hlusta á The Darkness síðustu mínúturnar og maður kemst alltaf í stuð við að hlusta á þá.

>Monday rowing
Tuesday badminton
Dancing on a Friday night
I got ping pong on Wednesday
Needlework on Thursday
Dancing on a [Friday night](http://www.lyricstime.com/lyrics/60461.html)

Nákvæmlega! Góða helgi!

Heimaræktað spaghettí

Ég vísaði reyndar á þessa síðu í fyrra, en þetta hefur breyst eitthvað: Top 100 April Fool’s Day Hoaxes of All Time. Toppsætið er æði! BBC var með frétt um það að vegna milds vetrar hefði spaghettí uppskeran í Sviss verið óvenju góð. Það er meira að segja hægt að horfa á vídeó-ið með þessari frétt. Mjög fyndið!

“For those who love this dish, there’s nothing like real home-grown spaghetti.”

Mun fyndnara en það að ___________ sé á Íslandi og sé að fara að ___________ í kvöld. Það má alveg fara að hvíla þann brandara.

Fyrrverandi SUS-arar og gleymdar hugsjónir

Rosalega er það magnað að sjá gamla SUS-arann Guðlaug Þór verja það að atvinnurekendur geti tekið [lífssýni](http://www.althingi.is/vefur/utandagskrar.html?ddagur=01/04/2004) úr starfsfólki þegar þeim hentar. Hugsjónin um réttindi einstaklingsins er fljót að gleymast hjá Íhaldsmönnum.

Það er svo sem ekki nýtt að SUS-arar gleymi málefnunum um leið og þeir nálgast völd, en er þetta ekki toppurinn á öllu? Að fyrrverandi hægrimenn séu að verja það að atvinnurekendur njósni um starfsmenn sína. Sorglegt en satt. Þetta hefur kannski ekki mikil áhrif strax, en þetta setur hættulegt fordæmi.

Er það bara ég, eða er þessi ríkisstjórn smám saman að auka eftirlit með okkur? Þetta er allt gert í nafni aukins öryggis. Þessi lífssýnataka á að auka öryggi í einhverjum kerskálum og bla bla bla. Það er alltaf rosalega auðvelt að afsaka skerðingu á frelsi einstaklingsins með þeim rökum að við séum að auka öryggi hinna? Þvílíkt bull!

Ágúst Ólafur er töffari!

Leiðinlegar fréttir

Ó Dísus Kræst! Er þetta Hannesar Hólmsteins – Halldórs Laxness mál komið aftur í fréttirnar? Er einhverjum öðrum en Hannesi og bókmenntafræðingum ekki drullusama um þetta allt?

Kræst!

Ó Dísus, næsta fréttin um hvalveiðar. Hvar endar þetta?

Annars finnst mér reyndar magnað að Hannesi hafi ekki tekist að kenna annaðhvort Jóni Ólafs eða Jóni Ásgeir um þessa herferð gegn sér.

Ísmolabox frá Helvíti

moli.jpgEinsog alltaf á þriðjudagskvöldum horfði ég á Queer Eye. Í miðjum þættinum voru Thom og Ted að versla í IKEA. Skyndilega fékk ég hroðalegt flashback. Þegar þeir voru á leiðinni út ákvað Ted að kaupa ísmolabox, sem honum fannst voða sætt. Það sem Ted vissi hins vegar ekki er að þetta ísmolabox er hannað af Satan!

Þegar ég bjó með Hildi útí Bandaríkjunum keypti Hildur svona ísmolabox. Henni, líkt og Ted, fannst ýkt krúttulegt að eiga ísmola í alls konar lögum. Þetta ísmolabox var nálægt því að vera það eina, sem við gátum verið ósammála um. Ég hataði það meira en pláguna. Mér er reyndar til efs um að ég hafi hatað neinn hlut á jafn mikið á ævinni. Kannski að kraninn í eldhúsinu hérna á Hagamel komist nálægt því, því hann hefur einstakt lag á að byrja að leka þegar ég er að horfa á sjónvarpið.

Ísmolaboxið er nefnilega úr gúmmíi. Það veldur því að í stað þess að losna þegar maður ýtir á þá, þá loða ísmolarnir við IKEA boxið. Þannig að til að ná einum stjörnu- eða hjartalaga ísmola þarf maður að beygja boxið fram og tilbaka í 2 mínútur. Þetta hljómar kannski ekki of erfitt, en þetta ísmolabox komst ansi nálægt því að gera mig sturlaðan.

Ég elska IKEA en þessi ísmolabox eru af hinu illa! Satan hannaði samstæðuna í stofunni minni og ísmolaboxin hjá IKEA.

Annars var Queer Eye góður. Ég held að mér finnist Thom núna vera fyndnari en Carson. Þeir eru snillingar.