La Carrera Asombrosa

Jibbí, þá er uppáhaldsraunveruleikasjónvarpsþátturinn (er þetta lengsta orð í heimi?) minn, Amazing Race, byrjaður.

Ætli það sé ekki ástríða mín af ferðalögum, sem geri það að verkum að ég held svona mikið uppá þennan þátt. Allavegana fer mig alltaf að dreyma um að heimsækja staðina, sem verið er að keppa á.

Keppendurnir virtust sæmilega athyglisverðir. Skrítnastir voru án efa par, sem hafði verið saman í 12 ár án þess að hafa stundað kynlíf. Alveg magnað. Það stóð líka alltaf á skjánum þegar þau komu: “Dating 12 years / Virgins”. Sennilega þurfa þau að kynnast betur áður en þau giftast eða prófa að sofa saman.

Annars er makalaust hvað sjónvarpið hérna heima er leiðinlegt. Það virðist vera bannað að sýna fleiri en einn góðan þátt á kvöldi. Í gærkvöldi var til dæmis ekki einn skemmtilegur þáttur. Frasier finnst mér fúll þáttur og svo er Survivor ekkert voðalega skemmtilegur. Á miðvikudögum er nánast ekkert (fyrir utan Meistaradeildina). Fimmtudagarnir eru skástir með Atvinnumanninn, Bachelor og Sex & the City. Á föstudögum er það svo bara The Simpsons, á laugardögum ekki neitt og svo ekkert á sunnudögum (allavegana þangað til að 24 byrjar aftur).

Röndótt djamm

Er það bara ég, eða er röndótt í tísku?

Af einhverjum ástæðum finnst mér voðalega gaman að fletta í gegnum myndasöfn skemmtistaðanna eftir helgar. Ég veit ekki alveg hvað það er sem höfðar til mín.

Jú, það er gaman að skoða sætar stelpur, en þær eru flestar frekar fullar, svo myndirnar eru oft ekkert alltof góðar. Svo virðast ljósmyndarar sumra staða reyna að taka myndir án þess að neinn sjái. Þannig að fólk verður alltaf ýkt asnalegt og hissa á myndunum.

Og svo skoðar maður þetta líka til að sjá hvort stelpur (eða stelpan), sem maður er skotinn í, voru á djamminu og þá getur maður svekkt sig yfir því að hafa verið á vitlausum stað.

Myndirnar eru líka afskaplega villandi. Til dæmis eru alltaf sætustu stelpurnar á þessum myndum á Vegamótum. Það finnst mér hins vegar ekki vera raunin þegar ég er á staðnum. Fyrir því geta verið 3 ástæður:

  1. Sætu stelpurnar eru ekki þarna þegar ég er á staðnum
  2. Ljósmyndarinn á Vegamótum er betri í að finna fallegar stelpur en ljósmyndarar annarra skemmtistaða.
  3. Það er alltaf svo troðið á Vegamótum að maður sér aldrei lengra en á manneskjuna, sem er beint framan í andlitinu á manni.

Ég aðhyllist aðallega kenningu 3.

Er það óeðlilegt að hlakka til næstu helgar strax á mánudagskvöldi??

Flugur

Ég hef einhvern tímann minnst á það en mér líður sjaldan jafn skringilega og á sunnudagskvöldum eftir að ég er búinn að ná þynnkunni úr líkamanum.

Einhvern veginn virðast allar tilfinningar, áhyggjur, gleði og svo framvegis margfaldast. Dálítið skrítin tilfinning. Mér langar svo oft að skrifa eitthvað stórkostlegt um líf mitt, reyna að fanga einhvern veginn hvernig mér líður. Það er sennilega ástæðan fyrir því að ég skrifa alltaf langmest í persónulegu dagbókina mína á sunnudagskvöldum.


Annars var ég í geðveikt skemmtilegu partíi í gær. Með skemmtilegri partíum í nokkurn tíma. Ein af ástæðunum var sennilega sú að við ákváðum nokkuð snemma að fara ekki niður í bæ og því var ég fullkomlega sáttur við að vera bara í partíinu allt kvöldið. Málið er nefnilega að þegar maður er síngúl einsog ég er, þá finnst manni maður alltaf þurfa að kíkja í bæinn.

En allavegana, þetta var tvöfalt afmæli haldið í Kópavoginum og var alveg hellingur af skemmtilegu fólki. Enginn var þó skemmtilegri en eldra afmælisbarnið, sem fór gjörsamlega á kostum, sérstaklega þegar tók að líða á partíið.

Mjög gaman að þá komst ég að því að Justin Timberlake er orðinn mun vinsælli meðal fólks á mínum aldri en ég hélt. PR viðurkenndi m.a. að hann væri aðdáandi. Dálítið fyndið að við tveir, sem höfum (að okkar mati) verið þekktir fyrir vandaðan tónlistarsmekk skulum hafa verið mest áberandi JT aðdáendurir á staðnum. 🙂


Já, og það er alveg nauðsynlegt að hlusta á Galapogos að minnsta kosti einu sinni á sunnudagskvöldum. Ég hlustaði á það á iPodinum mínum á meðan ég labbaði útá Snæland að leigja mér DVD disk áðan og var með gæsahúð nær allt lagið. Æðislegt lag.


Ef þessar tvær húsflugur, sem hafa verið að gera mig geðveikan undanfarna daga, lesa þetta blogg þá vil ég segja ykkur eitt.

Varið ykkur! Þið munið eiga von á hroðalegum dauðdaga um leið og ég næ ykkur. Þið getið ekki flúið endalaust!!

Root root root for the Cubbies

Ok, ég ætla að fjalla um hafnabolta. Hér er megin reglan á þessari síðu þegar fjallað er um hafnabolta. Það er stranglega bannað að koma með einhverjar alhæfingar um hafnabolta, svo sem einsog: “uh, þetta er leiðinleg íþrótt” eða “uh, það eru bara einhverjir feitir kanar, sem spila þetta”. Æji, kannski væri bara sniðugara að skrifa PR email, þar sem hann er sennilega sá eini, sem hefur áhuga á þessu.

Núna er bara rúm vika eftir af baseball tímabilinu í Bandaríkjunum og ég er gersamlega að farast úr spenningi. Mitt lið, Chicago Cubs eru í öðru sæti í sínum riðli, tveim leikjum á eftir einhverjum viðbjóð frá Texas.

Cubs spiluðu tvo leiki við Pittsburg í gærkvöldi og sat ég spenntur fyrir framan sjónvarpið (tölvuna) og fylgdist með. Þeir unnu annan leikinn en töpuðu hinum. Houston er hins vegar að spila við St. Louis Cardinals, sem eru erkifjendur Chicago. Margir halda að St. Louis ætli að tapa leikjunum viljandi útaf hatri þeirra á Chicago Cubs. Scott Lange skrifar m.a. snilldar opið bréf til St. Louis. Mjög fyndið.

Annars er Mark Prior mesti snillingur í heimi. Hann lét hafa eftir sér við Tribune: “I dislike the Cardinals so much that I will not even root for them. I hope that Houston beats their brains in and just sends them all the way back to whoever is in fourth place now.” Snilld!!!! Og hann er bestur í heimi og bara 23 ára og hann spilar fyrir Cubs. Hæ hó jibbí jei!

Jei! Og svo unnu Liverpool í dag.

Liverpool sigur = Einar Örn í góðu skapi

Annars er ég ekki að meika það að fara á Players að horfa á þessa leiki. Ég er með hausverk vegna þess hversu þungt loftið er þarna inni. Það væri gaman að fara á djammið og fara bara á staði, þar sem reykingar væru bannaðar. Ég er pottþéttur á því að þynnkan væri helmingi minni daginn eftir.

Vekjaraklukka

Ef þig vantar góða vekjaraklukku til að sjá til þess að þú fáir aldrei að sofa út um helgar þá geturðu gert tvennt: 1. Eignast barn eða 2. Stofnað skyndibitastað.

Starfsfólk skyndibitastaðarins mun nefnilega sjá til þess að þú fáir alltaf skemmtileg símtöl snemma á laugardagsmorgnum um að það vanti lykla, hráefni eða eitthvað annað. En annars, þá er það pínku ljúft að vakna svona snemma á laugardegi, sérstaklega þegar veðrið er svona leiðinlegt. Er búinn að lesa fullt af Moggum frá því í síðustu viku yfir morgunmatnum.


Annars hefur sá merkisatburður í mínu lífi gerst að mér hefur tekist að halda íbúðinni tandurhreinni í heila viku, alveg síðan ég hélt fjölskylduboð hérna á sunnudaginn. Á þessari viku hafa ekki safnast saman fatahaugar, né haugar af óhreinum diskum. Ég hef alltaf gengið frá Weetabixinu inní skáp eftir notkun og svo hef ég tekið upp sóp tvisvar í vikunni. Ég er viss um að mamma myndi tárast af gleði ef hún myndi lesa þessa færslu.

Mikið er ég ánægður með Djibril Cisse. Það er sko fótboltakappi að mínu skapi.

Já, og þetta er gott blogg.

The Bachelor – Hágæða sjónvarspefni

Þá er nýjasta serían af The Bachelor byrjuð. Vandaðara sjónvarpsefni er varla hægt að finna. Framleiðendum þáttanna finna stöðugt upp nýjar leiðir til að teygja sem allra mest úr því efni, sem þeir hafa. Þannig var ég til að mynda að ljúka við að horfa á þátt, þar sem nákvæmlega ekki neitt gerðist.

Annars voru gellurnar í þættinum ekkert voðalega miklar gellur (bæ the vei, getur einhver útskýrt fyrir mér muninn á gellu og pæju?). Frekar mikið af alveg stórkostlega væmnum amerískum stelpum, sem litu út fyrir að vera 30 ára þrátt fyrir að þær væru bara 21 árs.

Ein fær reyndar 5 stjörnur fyrir að vaska upp í síðkjól og með kórónu, sem hún vann fyrir einhverja fegurðarsamkeppni í einhverjum smábæ. Alger snilld! Ég er að spá í að byrja að vaska upp í takkaskóm og með medalíuna, sem ég fékk þegar ég varð Íslandsmeistari í 5. flokk í fóbolta. Það væri sko æði.

Annars fannst mér gaurinn ekkert sérstaklega myndarlegur, allavegana þegar hann var ómeikaður. EN, ég verð að viðurkenna að ég er sennilega ekki besti maðurinn til að dæma um það. Það er þó bókað að gellurnar eiga algerlega eftir að tapa sér. Enda er það staðreynd að stelpur fríka út þegar þær eiga í samkeppni við aðrar stelpur um karlmenn fyrir framan myndavélar. Það sannar til að mynda þessi þáttur (já, og btw, af hverju sýnir engin íslensk stöð Elimidate? Betra menningarefni er ekki hægt að fá. Það leyfi ég mér að fullyrða).

Jei, svo byrjar Amazing Race næsta þriðjudag. Þá verður gaman.

Djöfull er Tiny Dancer gott lag.