Hversu margar plánetur þarft þú?

Ég er nú á móti öllum þessum prófum, sem bloggerar birta sí og æ á síðum sínum. Ég rakst hins vegar á mjög athyglisvert próf á BBC vefnum. (via Metafilter)

Þar er manni boðið að fá upplýsingar um það hversu margar margar plánetur jarðarbúar þyrftu ef að allir byggju einsog ég. Samkvæmt því prófi þyrftu jarðarbúar á 5.2 plánetum að halda. Þetta vekur mann náttúrulega til umhugsunar.

Það er ljóst að það yrði stórkostlegt mengunarvandamál ef að allir jarðarbúar myndu lifa við skilyrði, sem við álítum sjálfsögð. Mig minnir til dæmis að ég hafi séð einhvers staðar að Bandaríkjamenn séu 4% jarðarbúa en þeir eigi sök á 25% alls rusls, sem er hent í heiminum. Ég efast um að við Íslendingar séum skárri.

Ahhh, djamm á Íslandi

Ég átti afmæli í gær og er ég núna orðinn 25 ára gamall. Í tilefni dagsins var ég með partí hérna í Garðabænum. Þetta verður ábyggilega eitt af síðustu partíjunum, sem ég held hér í foreldrahúsum enda er ég búinn að kaupa mér íbúð, sem ég flyt í í byrjun október.

Allavegana, þá var partíið mjög skemmtilegt. Allir mættu um 9 leytið, sem var mjög skrítið, þar sem vinir mínir hafa ekki verið þekktir fyrir það að vera stundvísir. Svo var farið í bæinn um eitt leytið. Ég fór með nokkrum krökkum á Hverfisbarinn. Þar reddaði Gunnar Narfi okkur inn, fram fyrir langa röð. Það er greinilegt að vinir mínir eru með eindæmum sjóaðir í næturlífinu, því Emil tókst að koma okkur fram fyrir röð á Nasa um síðustu helgi.

Allavegana, þá var ég að fara í fyrsta skipti á þennan stað og líkaði mér bara nokkuð vel. Hitti eitthvað af fólki, og meðal annars engan annan en Gumma Jóh. Hann er náttúrulega svo frægur í Blogg heimum að manni leið einsog maður væri að hitta Björgvin Halldórs.

Kvöldið endaði svo á stórskemmtilegan hátt, það er í leit að leigubíl. Ég blótaði því að vera ekki kominn með nýju íbúðina enda hefði ég þá getað labbað heim. Það var ekki glæta að fá leigubíl og því komst ég ekki heim fyrr en um 6 leytið.

Í morgun las ég svo þessa frétt (via Óla). Samkvæmt henni vilja menn fækka leigubílum í Reykjavík. Ég get ekki gert annað en hrósa mönnum fyrir tímasetninguna. Það er mjög líklegt að fólk fagni fækkun leigubíla daginn eftir menningarnótt.

Elvis

Ef ég skildi einhvern tímann gleyma því hvenær ég á afmæli, þá er ég alltaf minntur á það daginn áður. Það er nefnilega svo að Elvis Presley dó aðeins nokkrum klukkutímum áður en ég fæddist.

Þessi grein í The Guardian talar um hvernig Elvis Presley varð frægur á því að stela tónlist frá svertingjum. Athyglisverðar umræður á Metafilter.

Chuck D. sagði:

Elvis was a hero to most
But he never meant shit to me, you see
Straight up racist that sucker was, simple and plain
Motherfuck him and John Wayne

Eminem sagði:

No, I’m not the first king of controversy
I am the worst thing since Elvis Presley to do black music so selfishly
and use it to get myself wealthy

Það er spurning hvort ekki sé of mikið gert úr því að hann sé “konungur rokksins”? Hann samdi ekki einu sinni lögin sín sjálfur.

Liverpool, Arsenal og Man United

Enski boltinn er að byrja um helgina og mig er farið að hlakka mikið til. Það er ljóst að þrjú bestu liðin eru Liverpool, Arsenal og Manchester United. Það er gaman að velta sér fyrir liðunum og því hverjir hafa bestu leikmennina í hverri stöðu.

Ég geri ráð fyrir því að liðsuppstillingarnar verði á eftirfarandi veg:

Liverpool: Dudek, Carragher, Hyppia, Henchoz, Babbel, Riise, Hamann, Gerrard, Diouf, Heskey, Owen

Arsenal: Seaman, Cole, Keown, Campbell, Lauren, Pires, Vieira, Ljungberg, Wiltord, Henry, Bergkamp

Manchester United: Barthez, Silvestre, Ferdinand, Brown, Neville, Giggs, Keane, Veron, Beckham, van Nilsteroy, Solskjaer

Það er gaman að velta sér upp hverjir séu bestir í sinni stöðu.

Markmaður: Það er enginn vafi að Jerzy Dudek er besti markmöðurinn í ensku úrvalsdeildinni. Seaman er gamall og Barthez er alltof mistækur.

Vinstri bakvörður: Þar er Cole, að mínu mati, sterkastur. Carragher er betri varnarmaður en hann, en Cole er mun betri þegar hann kemur með boltann fram á völlinn. Silvestre hefur aldrei heillað mig

Miðvörður nr.1: Þarna eru samankomnir þrír bestu varnarmennirnir í deildinni. Að mínu mati er Campbell sístur af þeim þremur. Hyppia hefur vinninginn núna, vegna þess að hann er fyrirliði liðsins og mikill leiðtogi. Það er þó ljóst að Ferdinand gæti orðið besti varnarmaður heims í framtíðinni.

Miðvörður nr.2: Þetta er einn af veiku pörtunum í United liðinu. Fyrir utan Ferdinand, þá eru Blanc og Brown að berjast um stöðuna og hvorugur þeirra er nógu góður. Henchoz nær ótrúlega vel saman við Hyppia og þeir mynda því saman öflugasta miðvarðaparið. Hins vegar er Keown að mínu matri sterkari.

Hægri bakvörður: Það er dálítið erfitt að fullyrða um þá stöðu. Að mínu mati er Markus Babbel betri en Neville og Lauren en hins vegar er Babbel búinn að vera lengi frá. Ég treysti því þó að hann sé búinn að ná sér og verði besti hægri bakvörðurinn í deildinni.

Vinsri kantur: Þarna er enginn vafi á því að Pires er talsvert betri en Riise og Giggs.

Miðjumaður nr.1: Þarna eru saman komnir þrír bestu miðjumenn í enska boltanum, geðsjúklingarnir Keane og Vieira ásamt Gerrard. Það er ljóst að í framtíðinni getur Gerrard orðið einn allra besti miðjumaðurinn í heimi. Núna er það hins vegar Vieira, sem er bestur.

Miðjumaður nr.2: Veron olli gríðarlegum vonbrigðum á síðasta tímabili. Ég hef þó enn trú á því að hann nái að sýna sig enda er hann einn af bestu miðjumönnum í heimi. Að mínu mati mun hann vera sterkari en Ljungberg og Hamann.

Hægri kantur: Þetta er auðvelt val, alveg einsog með vinstri kantinn. Beckham er betri en Diouf og Wiltord. Diouf er þó aðeins tvítugur og hann gæti komið töluvert á óvart á tímabilinu.

Sóknarmaður nr.1: Þrír bestu framhjernarir í enska boltanum eru Owen, Henry og van Nilsteroy. Ég er á því að Owen sé bestur af þeim. Henry er alltaf að koma sér í vandræði og hann brennir af of mörgum dauðafærum. Van Nilsteroy skorar mikið en honum tókst hins vegar ekki að skora neitt í undankeppni HM og því komst Holland ekki á HM. Fyrir það fyrirgef ég honum ekki.

Sóknarmaður nr.2: Ég er ekki mesti aðdáandi Emile Heskey og að mínu mati er Solskjaer ekkert neitt sérstaklega góður. Bergkamp var lengi vel (áður en hann fór til Arsenal) einn af mínum uppáhaldsleikmönnum og ég held að hann verði betri en hinir tveir.

Þannig að ef stöðurnar eru bornar saman, þá eru 4 leikmenn frá Liverpool: Dudek, Hyppia, Babbel og Owen. 5 leikmenn frá Arsenal: Keown, Cole, Pires, Vieira og Berkamp. 2 leikmenn frá Manchester United: Beckham og Veron.

Ferguson

Skemmtileg grein um Alex Ferguson og eilífar afsakanir hans.

Annars hefur það gerst, að ég held að Arsene Wenger fari meira í taugarnar á mér en Ferguson. Það þykir mér merkilegt. Wenger er sífellt að væla. Nú síðast var það yfir því að Steven Gerrard tæklaði geðsjúklinginn Vieira í leiknum síðasta sunnudag.

Roy Keane

Ég hef lengi haldið því fram að Roy Keane sé geðveikur.

Hann virðist nú hafa sannað þá kenningu mína með því að rita um það í ævisögu hvernig hann vísvitandi reyndi að meiða Alf Inge Haaland í leik í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta mál byrjaði allt með því að Keane reyndi að brjóta á Haaland þegar Norðmaðurinn lék með Leeds. Keane tókst ekki betur upp en það að hann meiddist sjálfur. Haaland rauk upp og messaði yfir Keane og skammaði hann fyrir að vera að gera sér upp meiðsli. Keane var hins vegar illa meiddur og missti af öllu keppnistímabilinu.

Keane fyrirgaf Haaland aldrei það að hafa staðið yfir honum og því var hann ákveðinn í að hefna sín. Hann hefur nú viðurkennt að hafa vísvitandi ætlað að meiða Haaland þegar þeir mættust rúmu ári síðar. Keane, sem átti engan möguleika að ná boltanum sparkaði þá í hné Haaland, sennilega eitt ljótasta brot, sem sést hefur.

Keane segir í bókinni um brotið

I’d waited long enough. I f****** hit him hard. Take that you c***

Eftir þessa tæklingu, sem átti sér stað fyrir tæpum tveim árum hefur Haaland nánast ekkert getað spilað fótbolta.

Það er augljóst að menn, sem gera svona hluti eiga ekkert erindi í efstu deild enska fótboltans. Að mínu mati ætti að útiloka Keane frá keppni það sem eftir er tímabilsins, svipað og var gert fyrir hinn geðsjúklinginn hjá United, Eric Cantona.

Þar sem Keane spilar fyrir Manchester United verður þó sennilega ekkert gert í málinu.

Hér er pistill á Soccernet um málið

Sagan í myndum á BBC

Aðlögun

Ég er í stökustu vandræðum með að ákveða hvað ég á að skrifa nú þegar ég er fluttur heim. Mér fannst áður sjálfsagt að tjá mig um allt, sem ég var að gera. Núna þegar ég er kominn heim finnst mér þetta allt vera miklu meira prívat mál og ég er hræddur um að vera að tala um fólk, sem ég ætti kannski ekki að tala um. Eða að skrifa um atburði, sem ég mun kannski sjá eftir.

Allavegana, þá ætla ég að halda áfram að halda einhvern veginn dagbók á síðunni. Ég held þó að þetta muni færast meira út í skrif um stjórnmál. Það er erfitt fyrir mig að vita hvað fólk, sem sækir síðuna, vill lesa. Kannski er fólk bara hérna af því að það rakst inn í smá stund og nennir svo ekkert að lesa. Ég veit að það eru nokkrar síður á Nagportal, sem ég skoða oft, en nenni svo aldrei að lesa.

Allavegana, þá er ég ennþá að koma mér fyrir hérna heima og hefur það gengið misvel. Ég er búinn að vera eitthvað frekar slappur á kvöldin og ég hundskammast mín fyrir að hafa ekki talað við neina. Það eru meira að segja vinir, sem ég hef ekki hringt í einu sinni eftir að ég kom heim. Ég veit ekki hvað veldur. Það er búið að ganga svo mikið á hjá mér síðustu vikurnar að ég var í hálfgerðu sjokki þegar ég kom heim.

Skæruliðar í Kólumbíu og Venezuela

Að sögn BBC hafa skæruliðar í Kólumbíu sprengt þrjár sprengjur í Bogota í dag, en í dag mun Alvaro Uribe taka við sem forseti landsins. Einnig er á BBC frétt um það hvernig vinstisinnaðir skæruliðar hafa fært sig yfir til Venezuela.

Uribe hafði það á stefnuskrá sinni að ráðast gegn skæruliðunum, en síðasti forseti Kólumbíu, Andres Pastrana reyndi allt hvað hann gat til að semja við FARC skæruliðana, sem og aðra hópa skæruliða, sem tilheyra bæði hægri og vinstri væng stjórnmálanna.

Ljóst er að Pastrana mistókst gjörsamlega ætlunarverk sitt, því ofbeldið hefur sjaldan verið verra og nú hafa skæruliðar að miklu leyti flutt starfsemi sína til stóru borganna, þar sem þeir geta gert mun mannskæðari árásir.

Það er erfitt að sjá nokkra lausn á vandamálum Kólumbíu aðra en lausn Uribes, það er að ráðast með fullu valdi á skæruliðana. FARC hefur hins vegar alltaf notið stuðnings furðulega margar vinstrimanna á Vesturlöndum. Það skýrist kannski helst af því að margir (og ég er kannski ekki alsaklaus af því) líta með rómantískum augum til Guevara, Cienfuegos, Castros og annarra ungra skæruliða, sem hétu því að berjast gegn óréttlæti í Suður-Ameríku. Í dag er það hins vegar ljóst að FARC eiga ekkert skylt við gömlu hugsjónir Ché Guevara og félaga heldur eru þetta morðingjar, sem gera allt, sem þeir geta til að hrella kólumbískan almenning.

Þrátt fyrir þetta þá var til dæmis FARC ávallt boðið að sitja ráðstefnur á vegum vinstrisinnaðra samtaka, svo sem World Social Forum (sem Múrsmenn hafa lofað í greinum sínum) sem telja sig vera mótvægi við samtök sem lofa alþjóðavæðingu að hætti vesturlanda. Reyndar þá hættu World Social Forum að bjóða FARC á ráðstefnu sína í fyrra, ekki vegna þess að þeir væru á móti morðum á saklausu fólki, heldur vildi samkoman ekki líta illa út eftir atburðina 11. september. (sjá grein í The Economist).

Önnur ástæðan er sú að margir vinstrimenn hafa varið aðgerðir FARC með þeim rökum að einnig séu til hægrisinnuð skæruliðasamtök, sem eru að mati margra (og efa ég það ekki) í mörgum tilfellum mun verri en FARC. Þetta er álíka gáfulegt og að styðja Stalín af því að Hitler var enn verri.

Það er hins vegar ljóst að það verður gríðarlega erfitt verk fyrir Uribe að uppræta skæruliðasamtökin. Bandaríkin hafa reyndar heitið honum stuðningi (ekki vegna þess að þeim sé annt um kólumbíska borgara heldur vilja þeir minnka útflutning á eiturlyfjum frá Kólumbíu). Hins vegar eru skæruliðarnir margir búnir að búa síðustu 10-20 árin (eða jafnvel lengur) í frumskógum landsins og þekkja því vel til allra aðstæðna. Einsog Bandaríkjamenn hafa fengið að kynnast þá getur verið erfitt að yfirbuga skæruliðasamtök.

Uppfært: Í dag segja BBC að 15 manns hafi látist og hafi flestir verið fátækir íbúar Bogota, sem er einmitt sá hópur, sem skæruliðar þykjast vera að hjálpa. Sjá myndir.