Star Wars

Roger Ebert gefur Star Wars bara tvær stjörnur. Það er frekar lélegt.

Hann segir m.a.

But most of that first hour consists of dialogue, as the characters establish plot points, update viewers on what has happened since “Episode I,” and debate the political crisis facing the Republic. They talk and talk and talk. And their talk is in a flat utilitarian style: They seem more like lawyers than the heroes of a romantic fantasy.

og

“Episode II– Attack of the Clones” is a technological exercise that lacks juice and delight. The title is more appropriate than it should be.

Hljómar ekki vel

Ó já, meiri baseball

Núna er 25 stigi hiti úti, sem er frekar svekkjandi akkúrat þessa stundina, þar sem ég er að vinna í tölvuverkefni.

Hins vegar er ég að fara í kvöld á baseball leik. Það er fátt skemmtilegra í svona góðu veðri en að horfa á góðan leik. Í kvöld eru Cubs að taka á móti Cardinals og er ég að fara með Dan vini mínum.

Cardinals eru einmitt erkifjendur Cubs og er þetta fyrsti leikurinn á milli þessara liða í ár. Ég keypti líka miða í “bleachers”, sem eru sætin, þar sem aðal stuðningsmennirnir eru. Þessir miðar kostuðu 20 dollarar hver en á Ebay voru þeir að seljast fyrir meira en 200 dollara.

Ég er bjartsýnn á leikinn í kvöld, enda er besti kastarinn hjá Cubs, Jon Lieber, að kasta. Þetta ætti að verða gaman.

Er kominn mánudagur?

Þessi vika er búin að vera skemmtileg geðveiki. Ég er á fullu að reyna að klára þessa ritgerð mína og er ég því búinn að vera að forrita í Stata, sem er ekki alveg jafnspennandi og það hljómar.

Anyways, við Hildur erum búin að gera fullt skemmtilegt síðustu daga fyrir utan að læra. Á föstudag fór ég með Dan og Marie á Cubs leik. Sáum þá spila við Dodgers. Leikurinn fór þannig að annað liðið vann. Um kvöldið fórum við í co-op partí. Var þetta partí hjá sósíalistunum til styrktar skóla í Gvatemala. Sennilega ágætis málefni. Stelpa, sem var með mér í tíma fór þarna í spring break og hún var að segja mér sögur af raunum sínum. Tónlistin var hins vegar frekar há, svo ég man ekki mikið.

Ég man hins vegar eftir því að það var einhver gaur, sem vildi giftast Hildi vegna þess að hún vissi hver Michael Schumacher er. Málið er nefnilega að Formula 1 er álíka vinsæl hérna í bandaríkjunum og íslenskur handbolti. Þessi gaur var víst einhver voðalegur formula 1 aðdáandi. Hann reyndi svo að telja mér trú um að það væri gaman að horfa á þau ósköp en ég veit betur. Ég hélt því fram að það væri jafnleiðinlegt að horfa á Formula 1 og Nascar. Ég hélt að það myndi líða yfir hann þegar ég sagði það. Hann reyndi svo að skýra út fyrir mér að í Nascar keyrðu bílarnir í hringi en í Formula 1 keyrðu þeir líka í hringi en með fleiri begyjum. Svo eru líka viðgerðarhlé, sem eru víst voða spennandi. Sennilega álíka spennandi og horfa á hnjaskvagninn á HM í fótbolta.

Já, og svo hitti ég líka fullt af fólki, sem ég hef ekki hitt lengi og það var voða gaman. Ég ákvað víst að hitta eina stelpu í Mexíkó þegar við ætlum að ferðast þangað í sumar. Veit ekki hvort ég muni efna það loforð.

Laugardagurinn var furðu atburðalítill. Við Hildur ætluðum í bíltúr en það gekk ekki vel. Málið er nefnilega að rúðuþurrkurnar á bílnum okkar eru bilaðar. Þar sem mikil rigning var úti þurftum Hildur alltaf að fara út á öllum ljósum til að þurrka rúðurnar. Þetta gekk fyrstu 5 mínúturnar en svo gáfumst við upp. Meira gerðist ekki á þeim degi.

Á mánudaginn fórum við svo með Marie, Ryan, Becky og Dan niðrí Wrigleyville á einhvern “írskan” bar. Reyndar fannst mér barinn ekkert vera neitt voðalega írskur og við drukkum flest Bud Light. En ég meina hei. Þetta var fínt, þótt Dan og Marie hafi orðið dálítið drukkin eftir því, sem leið á kvöldið.

Á þriðjudag fórum við svo útað borða með nokkrum vinum mínum á Las Palmas, sem er mexíkóskur veitingastaður. Þessi staður var gríðarlega vinsæll á tímabili því allir gátu keypt sér margarítu án þess að sýna skilríki. Þeir voru hins vegar teknir fyrir það og núna er eiginlega engin ástæða fyrir að fara þarna, því maturinn er frekar vondur. Við fórum samt að gömlum vana og það var bara fínt.

Hugo Chavez

Atburðir síðustu daga í Venezuela hafa verið afar áhugaverðir. Ég ætlaði að skrifa um valdaránið en áður en ég komst í stuð hafði Hugo Chavez náð aftur völdum. Það kom á daginn að yfirmennirnir í hernum voru ekki mikið klárari í valdaránum en Hugo sjálfur.

Ég bjó í Venezuela, sem skiptinemi, árin 1995-1996. Síðan þá hef ég heimsótt landið einu sinni og fylgst með atburðum í gegnum netið og með bréfaskriftum við vini í Caracas.

Þegar ég bjó í Caracas var Rafael Caldera forseti. Caldera hafði verið forseti rúmum tuttugu árum áður en þá var hann frambjóðandi COPEI, aðal hægriflokksins í Venezuela. Á undan Caldera hafði Carlos Andres Perez, frambjóðandi AD, vinstriflokks, verið forseti.

Perez breytti nokkuð um stefnu eftir að hann var kosinn í seinna skiptið. Í stað þess populisma, sem hann predikaði í kosningabaráttunni þá tók hann u-beygju, svipað og Carlos Menem og Alberto Fujimori höfðu gert og tók upp frjálsa markaðsstefnu. Menem og Fujimori urðu gríðarlega vinsælir fyrir markaðsstefnu sína en ekki gekk eins vel hjá Perez. Mikið var um spillingu, sem leiddi á endanum til þess að Perez var látinn segja af sér.

Eftir að Perez sagði af sér átti arftaki hans, Rafael Caldera, í miklum erfiðleikum með að stjórna efnahaginum í landinu. Gengi bólivarsins féll á hverjum degi og því fylgdi óðaverðbólga, sem Caldera hafði enga stjórn á, þrátt fyrir tilraunir til að stjórna genginu með því að láta ríkið ákveða gengið. Þetta gekk þó lítið því fólk skipti peningum á svarta markaðnum, þar sem gengið jókst á hverjum degi og því þurfti Caldera að fella gengið reglulega.

Flokkakerfið í Venezuela

Flokkarnir tveir í Venezuela, COPEI og AD höfðu deilt með sér völdunum í fjóra áratugi eftir að þeir gerðu samkomulag, þekkt sem Punto Fijo. Þetta samkomulag var gert eftir að deilur flokkanna höfðu leitt til þess að herinn hrifsaði til sín völdin um miðja síðustu öld. Flokkarnir sömdu um að þeir skyldu deila með sér völdunum, sama hver ynni í kosningum. Þannig að ef COPEI ynni forsetakosninagrnar, þá yrði AD lofað sætum í ríkisstjórninni og svo framvegis.

Þetta samkomulag leiddi náttúrulega af sér mikla spillingu og takmörkun á lýðræði í Venezuela. Þessi spilling og getuleysi flokkanna í efnahagsmálum gerðu uppgang Hugo Chavez mögulegan.

Venezuela er næst stærsti olíuframleiðandi í heimi. Þrátt fyrir það lifa yfir 80% af þessari rúmlega 20 milljóna þjóð undir fátækrarmörkum. Hvernig stjórnmálamönnum hefur tekist að klúðra þessum olíuauðæfum er hin mesta ráðgáta. Flestir íbúar Venezuela telja sig þó vita svarið. Þeir telja að spillingu stjórnmálamanna sé um að kenna. Margir eru nefnilega sannfærðir um að þeirra bíði gull og grænir skógar ef spillingu stjórnmálamanna væri eytt og olíauðæfunum skipt bróðurlega á milli allra íbúanna.

Hugo slær í gegn

Hugo Chavez gerði sér fyllilega grein fyrir þessu og því var hans aðalbaráttumál að berjast gegn spillingunni, sem tengdist stjórnmálaflokkunum tveim. Kosningabaráttan 1998 var hin furðulegasta. Til að byrja með var Irene Saez, fyrrum ungfrú alheimur fremst meðal frambjóðenda. Hún gerði hins vegar mistök með að samþykkja að verða frambjóðandi COPEI. Um leið og hún var orðin tengd öðrum af hinum gerspilltu stjórnmálaflokkum hrundu vinsældir hennar. Það varð úr að hvorki AD né COPEI buðu fram í kosningunum heldur lýstu þeir báðir yfir stuðningi við mótframbjóðenda Hugo Chavez. Það breytti þó litlu því Chavez vann yfirburðarsigur.

Síðan hann var kosinn hefur Chavez reynt að breyta mörgu í Venezuela. Hann lagði niður þingið og bauð síðan til kosninga, þar sem ný stjórnarskrá var samþykkt. Það kom þó andstæðingum hans dálítið á óvart að hann virti ávallt fjölmiðlafrelsi og vilja meirihlutans. Hvað það varðar þá hefur hann verið mjög ólíkur stórvini sínum og baseball félaga, Fidel Castro. Svo ég vitni nú í sjálfan mig úr ritgerð, sem ég skrifaði fyrir rúmum mánuði (vá, hvað ég er góður spámaður).

In Venezuela, the future of democracy depends on Hugo Chavez. Up until now he has followed the will of the majority, but he really has not been tested because of his majority support. Today, however, he is supported by less than 40% of the population. The question is, whether he will continue to respect the will of the majority. If he does, then democracy should be relatively safe. If he does not, he risks military intervention and the end of Venezuelan democracy.

Í efnahagsmálum hefur Hugo Chavez þó mistekist algerlega, þrátt fyrir að hann hafi fylgt Múrsskólanum varðandi efnahagsstefnu. Hann hefur tekið upp stjórnmálasamband við Írak, Lýbíu og aukið samstarf við Kúbu. Hann hefur hafnað ráðum frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum og Bandaríkjunum og þess í stað hefur hann til að mynda reynt að ná völdum í stærsta olíufyrirtækinu í Venezuela. Þessar aðgerðir Chavez hafa þó nánast ekkert hjálpað hans helstu stuðningsmönnum, sem eru þeir allra fátækustu í Venezuela.

Þrátt fyrir það, þá nýtur Hugo í dag töluverðs stuðnings. Stuðningur hans hefur þó minnkað úr yfir 60 prósentum niður fyrir 35 prósent. Hans hörðustu stuðningsmenn halda þó tryggð við hann einfaldlega vegna þess að þeir sjá ekki að neinn annar muni sinna þeirra vandamálum eða sé jafn annt um þeirra vandamál einsog Chavez. Fyrir þeim þá var valdaránstilraunin tilraun til þess að færa sig aftur í tímann, aftur til þess tíma þegar flokkarnir tveir réðu öllu. Þetta fólk hefur enga ástæðu til að þrá afturhvarf til þess tíma.

Valdaránið

Í nýlegri ritgerð, sem ég skrifaði hélt ég því fram að lýðræðið í Suður-Ameríku væri á viðkvæmu stigi en þrátt fyrir það væri það sterkara en oftast áður. Besta dæmið um það er ástandið í Argentínu. Þrátt fyrir hrikalegt ástand þá óttaðist fólk aldrei að herinn myndi taka við völdum. Fyrir 15 árum hefði verið öruggt að herinn hefði gripið inní. Því kom það manni auðvitað dálítið á óvart að herinn skyldi grípa inní í Venezuela. Það mátti þó búast við þessum atburðum því yfirmenn í hernum hafa verið ósáttur í meira en ár. Aðalmálið fyrir þá var að hermenn voru látnir vinna í vegavinnu og í að hjálpa þeim fátæku. Einnig hafði Hugo Chavez stutt skæruliða í Kólumbíu, sem gerði ástandið við landamærin erfitt.

Mikið hefur verið gert úr þátti Bandaríkjanna í hinni misheppnuðu valdaránstilraun fyrr í þessum mánuði. Þeir á Múrnum gengu svo langt að líkja stuðningi Bandaríkjanna við valdarán, sem framin voru gegn Allende í Chile og Arbenz í Guatemala. Það er þó fáránlegur samanburður. Í þeim tilfellum var CIA öflugur þáttakandi í valdaránunum. Í Venezuela var hins vegar eina sök Bandaríkjamanna að fordæma ekki strax valdaránið. Ég skal þó taka fram að þrátt fyrir að ég verji Bandaríkjamenn í flestu, sem þeir Múrsmenn gagnrýna þá fyrir, þá fannst mér viðbrögð Bandaríkjamanna í þetta skiptið ekki vera til fyrirmyndar. Þeir hefðu auðvitað átt að taka strax fram að þeir myndu ekki viðurkenna valdaránið.

Það er þó ljóst að dagana fyrir valdaránið brást Hugo Chavez þegnum sínum. Í fyrsta skipti voru mótmæli barin niður og fjölmiðlum var lokað. Mótmælin fyrir og eftir valdarán sýna augljóslega hversu gríðarlega mikið bil er á milli stuðningsmanna og andstæðinga Chavez. Hann gerir sér þó grein fyrir því í dag að hann er ekki nærri því jafnvinsæll og hann var fyrir fjórum árum.

Hugo Chavez hefur mistekist að bæla niður spillingu eða bæta efnahaginn. Því hefur hann algjörlega brugðist stuðningsmönnum sínum. Það er ljóst að ef að ástandið breytist ekki fljótlega í Venezuela munu jafnvel hörðustu stuðningsmenn Chavez yfirgefa hann.

Aaaarrgghhh!!

Jamm, Cubs töpuðu í gær. Bere klúðraði málunum einsog ég hafði spáð fyrir. Reyndar vann Sosa einvígið við Bonds, þar sem Sosa náði einu Home Run í sjöttu lotu.

Klukkan 9.11 var mínútu þögn til að minnast þeirra, sem dóu 9.11.

Í miðri 7. lotu sungu svo allir “Take me out to the ball game” einsog vanalega. Hildur er búin að læra textann við lagið. Það þýðir augljóslega að ég hef horft of mikið á Cubs í sjónvarpinu.

Annars fórum við eftir 7. lotu. Við ákváðum að enda kvöldið einsog flestir aðrir Cubs aðdáendur, drekkjandi okkar sorgum inná næsta bar.

Sosa og Bonds

Yesss!!! Við Hildur erum að fara á baseball leik í kvöld. Ég er viss um að lesendur þessarar síðu eru strax orðnir spenntir.

Í kvöld erum við að fara að sjá Chicago Cubs vinna San Fransisco Giants.

Það er reyndar dálítið kalt úti en það skiptir ekki máli, því tveir bestu leikmennirnir í baseball í dag verða á vellinum í kvöld.

Þetta eru auðvitað Sammy Sosa og Barry Bonds.

Bonds verðu sennilega í stuði, þar sem lélegasti kastarinn hjá Cubs, Jason Bere mun byrja. En ég meina hei. Sammy mun samt taka Bonds í nefið. Sammy er líka svo nice gaur, en Bonds er alger leiðindapúki.

Gaman gaman!!

El fin de semana

Helgin var fín. Samt ekki eins góð og hjá þessum Northwestern nemanda, sem fékk 1 milljón dollara þegar hann skrifaði undir hjá Oakland Raiders í NFL deildinni.

Dan og Becky vinir mínir gerðu heiðarlega tilraun til að hafa matarboð heima hjá Dan. Þar voru um 30 manns og við borðuðum pasta og drukkum kokteila. Allavegana, var þetta fínt og ekki sniðugt að vera að fara út í einhver smáatriði.

Á laugardag fórum við Hildur að versla og í fyrsta skipti í sögu okkar Hildar þá verslaði ég en hún ekki. Um kvöldið vorum við frekar löt og sátum bara heima og horfðum á nokkra þætti af Queer as Folk, sem fjallar um homma í Pittsburg. Mjög góðir þættir, jafnvel fyrir gagnkynheigða.

Á sunnudag spilaði ég svo fótbolta í þriggja stiga hita. Alveg stórkostlegar hitabreytingar hérna síðustu viku. Á síðasta sunnudag var 28 stiga hiti en í gæt var þriggja stiga hiti, rigning og rok. Þetta minnti mig á að spila á mölinni í Faxaflóamótinu þegar ég var lítill.

Í gærkvöldi fórum við svo ásamt tveim vinkonum hennar Hildar niðrí Greektown. Þar var kærasti Victoriu að syngja grísk þjóðlög. Grísk þjóðlagatónlist er að mínu mati álíka skemmtilegt og mexíkósk kántrí tónlist en þetta var þó fróðlegt. Við ákváðum þó að fara þegar að heilu fjölskyldurnar voru komnar dansandi upp á svið.

Guns 'n Roses og alþjóðavæðing

Ég er núna að klára heljarinnar verkefni í einum viðskiptatímanum mínum. Með því lýkur mikilli verkefnahrinu, sem hefur staðið yfir síðustu daga. Ég er að hlusta á Appetite For Destruction með Guns ‘N Roses. Þvílík eðaltónlist, sem kemur mér svo aldeilis í lærdómsstuð. Þessi diskur á sér nokkuð merkilega sögu því ég lánaði Gunnari vini mínum hann þegar ég var svona 14 ára og fékk hann ekki tilbaka fyrr en ég var kominn með stúdentspróf.

Annars fékk ég email áðan þar sem mér var boðið á fyrirlestur, sem heitir Globalization of Trade is great! …but the World Bank and IMF are not. Það eru frjálshyggjumenn í Northwestern, sem standa fyrir þessu. Af einhverjum ástæðum er ég á póstlista hjá þeim. Einnig er ég á póstlista hjá Cato Institute, en fyrirlesari frá þeim verður aðalræðumaður á morgun. Ekki veit ég hvernig ég lenti á þessum lista hjá Cato. Þetta er allt hið dularfyllsta mál.

Helgin, Hugo og misskilningur Stefáns P.

Ja hérna, ég er að fara í skólann á stuttbuxum í fyrsta skipti á þessu ári. Jibbííí. Veðrið í gær var líka alger snilld. Ég var að keppa í fótbolta og það var svo heitt að ég var nánast örmagna eftir leikinn. Mér tókst þó að pota inn einu marki með vinstri og við unnum 2-0.

Það er alltaf jafn gaman að labba um campusinn þegar veðrið er gott. Þá fyllast allir grasblettir af fólki. Northwestern nemendur eru þó ávallt sömu nördarnir því allir eru með bók og yfirstrikanapenna í hönd.

Annars fórum við Hildur í sittvhoru lagi á djammið á föstudag. Hildur fór á barhopp meðan ég fór í partí til einnar vinkonu minnar, sem var fínt.

Svo horfði ég á Liverpool, Cubs og Bulls vinna leiki og við Hildur fórum í bíó og sáum Changing Lanes, sem var fín.

Já, og svo á meðan ég naut góða veðursins komst félagi Chavez aftur til valda. Ég ætla í þessari viku að skrifa smá pistil um hann. Stefán Pálsson minnist á endurkomu Chavez og segir sögur um fylgishrun Chavez vera komnar til vegna áhrifa frá hægrisinnuðum bandarískum fjölmiðlum. Má ég benda á þá staðreynd að þegar Chavez var kosinn studdu 57% landsmanna hann en í nýlegri könnun, sem El Universal (dablað í Caracas) tók þá fékk Chavez aðeins stuðning 35% kjósenda. Þetta var þó áður en fylgismenn hans byrjuðu að myrða saklausa mótmælendur.