Fótbolta kjaftæði

Þessi frétt er af Vísi.is, þeim merka fréttavef,

Góður sigur hjá Liverpool

Liverpool vann í morgun góðan sigur á Englandsmeisturum Manchester United, 2-0. Greinilegt var strax frá byrjun að United-menn myndu ekki gefa allt í leikinn, bæði vegna stöðu sinnar í deildinni en þó aðallega vegna komandi viðureignar gegn Bayern Munchen í Meistaradeild Evrópu. Í því skyni voru þeir Jaap Stam, Mickael Silvestre, Andy Cole og Paul Scholes allir hvíldir.

Liverpool komst yfir með frábærum marki frá Steven Gerrard á 13. mín, þrumuskot af um 30m færi. Robbie Fowler kom heimamönnum í 2-0 fjórum mín. fyrir leikhlé. Danny Murphy var svo vikið af leikvelli á 69. mín. en það kom ekki að sök og sigurinn var öruggur.

Þvílíkt kjaftæði. Kvótið “greinilegt var strax frá byrjun að United-menn myndu ekki gefa allt í leikinn” er mesta kjaftæði, sem ég hef heyrt. Þvílíkt bull. United spiluðu sínu besta liði. Geta Liverpool menn ekki allt eins sagt að þeir hafi hvílt Michael Owen, Nicky Barmby og Igor Biscan. Ég þoli það ekki, þegar menn eru með svona afsakanir.

Liverpool á líka leik í vikunni, gegn Barcelona á Nou Camp. Ég myndi nú segja að Barcelona og Bayern Munich væru svipuð af styrkleika. Liverpool hefur sýnt það í báðum leikjunum gegn United að þeir hafa fulla burði til að yfirspila United, sérstaklega einsog þeir gerðu í fyrri hálfleik. Þetta var frábær leikur hjá Liverpool. Steven Gerrard er snillingur!

Mac OSX

Thetta er fyrsta faerslan skrifud ur Mac OS X. Engir islenskir stafir, en styrikerfid lofar svo sannarlega godu.

Napster

Það er orðið aðeins erfiðara að finna lög á Napster, eftir að þeir settu alla þessa filtera á. Aðalmálið er að til að komast fram hjá filterunum, þá þurfa menn að breyta aðeins nöfnunum á listamönnunum. Til dæmis ætlaði ég að ná mér í lag með snillingunum í Destiny’s Child en flest lögin þeirra eru undir Destiny’s 1Child, eða Destiny SChild. Þetta er aðeins snúið, en samt ekkert voða erfitt.

Nýjir tímar

Ég er byrjaður í skólanum aftur og líst mér bara ágætlega á hagfræðitímana tvo, sem ég var í í dag, international trade og corporate finance theory. Þó mér til mikillar skelfingar komst ég að því að ég er í tveim tímum með mest óþolandi gaur í heimi. Þessi strákur var með mér í strærðfræði og tekst það sjaldgæfa afrek að fara í taugarnar í mér á hverjum degi.

Annars er ég með einn bandarískan prófessor, einn rúmena, einn þjóðverja og svo er hagfræðitími í annað skipti í röð kenndur af kínverskri konu. Ég er byrjaður að kaupa bækur og er nánast engin bók undir 95 dollurum, sem er um 8000 kall. Ég veit ekki hvernig þetta er heima, en mér finnst þetta helvíti mikið.

Spring Break

Ég er aðeins að ná mér eftir fríið. Þetta var alveg snilldar spring break.

Ég fór með flugi til Baton Rouge seinasta sunnudag. Þar var ég svo ásamt PR og Jónu heima hjá Genna og Söndru, sem búa í íbúð í Baton Rouge, nálægt skólanum þeirra, LSU. Við vorum í Baton Rouge í 4 daga. Borgin er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir, þar sem það er ekki mikið líf fyrir utan háskólann. Við skoðuðum aðeins campusinn og svo miðbæinn, sem var alveg dauður.Við bættum þó upp fyrir þetta með heljarinnar djammi, öll kvöldin. Á miðvikudag leigðum við okkur bíl og náðum í Hildi. Á fimmtudeginum vorum við svo að rúnta með Genna um næsta nágrenni, Genni fór með okkur um túr um nálægan “trailer park”, sem var náttúrulega mjög fróðleg sjón.

Seinna um daginn tókum við svo rútu inní New Orleans.Borgin er alger hreinasta snilld. Hún er ólík öllu því, sem ég hef áður upplifað. Við gistum á hosteli á Canal stræti, sem var smá spöl frá Franska hlutanum, sem er aðalhverfið í New Orleans og eyddum við nær öllum tímanum okkar þar. Á daginn skoðuðum við hverfið, sem býr yfir gríðarlega skemmtilegum arkitektúr, ólíkur öllu, sem gerist í Bandaríkjunum. Á kvöldin var svo djammað alla nóttina á Bourbon Street, sem er sennilega frægasta djammgata í heimi. Gatan er ekkert slor. Öll kvöldin var gatan full af fólki og allir barir voru líka fullir. Ég hef aldrei séð annað eins framboð af áfengi. Það voru barir á svona fimm metra fresti og allir seldu ódýrt áfengi. Flestir voru að selja Hurricane, sem er stórhættulegur drykkur, sem er uppruninn í New Orleans, einhver blanda af Tequila, rommi, vodka og einhverjum ávöxtum.

Allir barir voru fullir af fólki alla nóttina og margir voru með “live” tónlist, þrátt fyrir að enginn hafi viljað spila Freebird, sem ég vildi ólmur heyra. Úti á götu var svo fullt af fólki að rölta á milli bara eða stelpur að sýna á sér brjóstin, þannig að það vara alltaf nóg að gerast. Veðrið var svo líka frábært, þannig að ég held að þessi ferð hafi verið eins góð og mögulegt er.

Útlit

Ja hérna, ég er búinn að breyta um útlit aftur.

Annars var spring break í New Orleans geðveiki. Þvílík snilld. Meira um það síðar.

Liverpool-Porto

Ég var að horfa á Liverpool-Porto áðan. Þetta var bara nokkuð góður leikur, Liverpool hafði algera yfirburði í leiknum. Porto áttu einhver tvö skot á markið og Westerveld varði þau nokkuð örugglega. Annars þakka ég bara Guði fyrir að við erum komin með Fox Sports World, því það eru búnir að vera leikir með Liverpool í hverri viku undanfarinn mánuð. Sannkölluð knattspyrnuveisla hér við Simpson stræti.

Weezer

Ég verð aðeins að skrifa um tónleikana, sem við Hildur fórum á síðasta föstudag. Þetta voru tónleikar með Weezer. Ég vissi í raun ekki hverju ég átti að búast við. Eftir allt, þá eru fimm ár síðan þeir gáfu út síðasta disk, Pinkerton. Ég fílaði þann disk ekki í upphafi en núna er ég á því að þessi diskur sé hreinasta snilld.

Eftir tvær upphitunarsveitir birtust Weezer á sviðinu um klukkan 10. Stemningin hjá áhorfendum var ótrúlegt, allir voru m.a.s. að syngja með lögunum, sem voru spiluð af bandi á undan Weezer. Þannig var síðasta lagið áður en þeir komu á svið, Bohemian Rapsody og þá var stemningin orðin rosaleg. Sviðsmyndin var eins og á “prom” balli, báðum megin við hljómsveitina voru körfuboltaspjöld. á spjöldin var svo varpað myndum af hljómsveitinni, en allir voru með videovél beint fyrir framan sig.

Sveitin byrjaði á því að taka My Name is Jonas, svo Come Undone. Síðan tóku þeir nokkur ný lög, sem voru öll frábær, sjaldan sem maður fílar svona ný lög á tónleikum alveg strax. Þeir tóku svo öll sín bestu lög eins og Good Life (þeirra besta lag), Buddy Holly, El Scorcho og fleiri. Þeir enduðu svo á Say it Ain’t So og stórkostlegri útgáfu af Only in Dreams.

Stemningin meðal áhorfenda var alveg ótrúlega góð. Hún var m.a.s. mun betri en á bæði Metallica og Smashing Pumpkins tónleikunum, sem ég hef séð hérna nýlega. Allir kunnu öll lögin. Það má segja að aðdáendur Weezer séu alveg ótrúlega traustir, því það er svo langt síðan þeir gáfu eitthvað út.Hljómsveitin er líka einstaklega skemmtileg á sviði. Þeir eru svo ótrúlega ólíkir þeirri ímynd, sem maður hefur af rokk bandi.

Eftir að þeir voru klappaðir upp tóku þeir svo In The Garage og svo frábæra útgáfu af Surfwax America. Þvílík snilld. Þetta eru ábyggilega einir af bestu tónleikum, sem ég hef séð.

Jackass

Það er enginn vafi að lang lang besti þátturinn í bandarísku sjónvarpi er Jackass, sem sýndur er á MTV. Þessi þáttur gengur út á það að hópur af strákum gera eitthvað ótrúlega heimskulegt í hverri viku. Í síðasta þætti var m.a. einn strákurinn, sem lét gata (e. piercing) á sér rasskinnarnar saman. Það eru í raun engin takmörk fyrir því hvað þeir taka sér fyrir hendur en vanalega endar það í ótrúlega fyndnum atriðum.