Indlandsferð 17: Ferðalok

Hjá Taj Mahal

Hjá Taj Mahal

Þá er þessi Indlandsferð búin. Tveir mánuðir í þessu brjálaða og yndislega landi. Ég hefði alls ekki viljað hafa ferðina styttri því dagsrkáin var mjög þétt nánast allan tímann, en eftir tvo mánuði er maður líka búinn að fá sinn skammt af Indlandi.

Því Indland getur verið lygilega frústrerandi á tíðum. Það er ekki erfitt að verða ástfanginn af Indlandi og Indverjum, en það er ekki heldur erfitt að verða brjálaður útí landið og fólkið. Það er hluti af því sem gerir þetta land svo magnað.

Ég verð líka að játa að eftir að ég fékk magapestina hef ég átt einstaklega erfitt með að borða ekta indverskan mat. Ég ældi tandoori kjúklingi og eftir það langaði mig ekki í tandoori. Því var ég alveg einstaklega varkár í mataræði síðustu vikurnar og maturinn, sem hafði verið stórkostlegur í Rajastan, varð frekar óspennandi síðustu vikurnar – steikt hrísgrjón og slíkt.

* * *

Síðasta vikuna í ferðinni vorum við á Havelock eyju. Við kláruðum Advanced Open Water kúrsinn, sem gerir okkur kleift að kafa á fleiri stöðum í framtíðinni. Það er gott að hafa lokið því af því að kafanirnar í kúrsinum eru ekki alveg jafn skemmtilegar og þær kafanir þar sem maður hefur frelsi til að gera það sem maður vill gera. Auk næturköfunarinnar (sem var algjört highlight) þá tókum við síðasta daginn á námskeiðinu myndavélaköfun og svo köfun þar sem við áttum að greina fiska.

Síðasta daginn á Havelock vöknuðum við svo snemma og keyrðum yfir á hina yndislegu strönd 7 þar sem planið var að kafa með fílnum Rajan. Þessi fíll er nokkuð frægur eftir að hann lék í myndinni The Fall þar sem hann kafar (sjá ótrúlegt myndband á Youtube). Fíllinn, sem er orðinn rúmlega sextugur, kafar enn þann dag í dag með fólki. Við mættum því á ströndina ásamt 6 öðrum köfurum og vonuðumst til að hann myndi kafa með okkur. Við urðum þó fyrir vonbrigðum þar sem öldurnar voru það háar að greyið fíllinn þorði ekki útí. Þannig að við fengum bara aðeins að synda í vatninu meðan hann labbaði aðeins um. Sem var jú ótrúlega skemmtilegt þótt að það væri ekki jafn spennandi og köfun með honum.

Seinna um daginn tókum við svo ferju til Port Blair, sem er aðalborgin á Andaman eyjum og á fimmtudaginn tókum við þaðan fyrsta af fimm flugum á leið okkar til Stokkhólms. Port Blair => Chennai => Hyderabad => Mumbai => Zurich => Stokkhólmur.

Við komum svo hingað til Stokkhólms seinnipartinn á föstudaginn eftir 34 tíma ferðalag, sem var með því lengra, sem ég hef lagt í (á leiðinni svaf ég heila 3 tíma). Eftir heimkomuna höfum við notið Stokkhólms. Farið í CrossFit, borðað á Serrano og kíktum svo útá lífið með vinum í gær. Það er yndislegt að vera kominn aftur heim til þessarar frábæru borgar.

Frábært ferð og ég vona að þið hafið notið þess að lesa þessa ferðasögu. Ég mun á næstu dögum skrifa smá praktíska punkta um ferðalög til Indlands.

Skrifað á eyjunni Södermalm í Stokkhólmi klukkan 19.36

Indlandsferð 16: Paradís?

Andaman eyjur eru 1.000 kílómetra austan við meginland Indlands og maður þarf oft að minna sig á að maður er (formlega allavegana) enn staddur á inversku landi.

20110413-064032.jpg

Ég á strönd 7 á Havelock eyju.

Andaman og Nicobar eyjur (túristar fá ekki að koma á Nicobar) eru eyjaklasar sem innihalda hundruðir lítilla eyja. Hérna búa enn innfæddir ættbálkar, sem eru þó sumir í útrýmingarhættu og mikill meirihluti íbúanna kemur frá meginlandi Indlands, þar á meðal stór hópur, sem flúði uppskipti Bengal héraðs (í Indland og Austur-Pakistan/Bangladesh). Af 62 tegundum spendýra, sem búa á eyjunum eru 32 þeirra bara til hér.

Eyjurnar eru eins nálægt túristabæklinga-paradís og hægt er að komast. Ég skrifa þetta fyrir utan litla bungalow-ið okkar á eyjunni Havelock og 100 metra frá mér sé ég ströndina og Andaman hafið. Nánast allar eyjurnar (Havelock meðtalin) eru þaktar hitabeltisskógi frá hæstu punktum og alveg að hvítum ströndum. Strandirnar eru fullkomnar með algjörlega hvítum sandi og blágrænum sjó. Og jafnvel Havelock eyja er ótrúlega lítið þróuð þegar að kemur að túrisma. Hérna er ódýrt að vera – stutt frá okkar bungalow er hægt að leigja sér gistingu fyrir um 250 isk á nóttu og okkar bunglaow kostar undir 2.000 krónum á mann á dag (miklu dýrara en á meginlandinu, en fyrir svona paradís, helvíti ódýrt). Einu gallarnir, sem ég get fundið, er að hérna er erfitt að kaupa áfengi og að hitinn á nóttunni er svo mikill að það er smá erfitt að sofa í okkar ó-loftkælda húsi).

* * *

Og hérna eru líka rétt fyrir utan eyjuna stórkostleg kóralrif með mögnuðu dýralífi, sem býður uppá frábæra köfunarmöguleika.

Strönd númer 7, sem er hinummegin á eyjunni og við heimsóttum á laugardaginn, var í einhverju Time blaði valin besta strönd í Asíu og það er auðvelt að sjá af hverju. Hún er gríðarlega löng, með fullkomnum hvítum sandi, fallegum skógi í bakgrunni, 28 gráðu heitum sjó og nánast engu fólki. Við erum hérna utan mesta túristatímabilsins, en samt kom það mér á óvart hversu fáir eru hérna. Það hjálpar sennilega að til Port Blair eru bara bein flug frá Kolkata og Chennai og til að komast á Havelock eyju þarf að taka 3 tíma ferju frá Port Blair.

Við komum hingað til að njóta sólarinnar og kafa. Við höfum ekki gert svo mikið af því að njóta sólarinnar, því að asninn ég brann illa á bátnum í fyrstu köfuninni og hef því forðast sólina. En þess í stað höfum við kafað slatta og það hefur verið frábært.

Við ákváðum að bæta aðeins við köfunarnámið okkar sem að ég byrjaði á í Hondúras fyrir 6 árum og taka Advanced kúrsinn. Það gefur okkur m.a. leyfi til þess að kafa dýpra (30 metra í staðinn fyrir 18) og í myrkri. Til þess að fá það leyfi höfum við því farið í nokkuð sérstakar kafanir. Við höfum farið í djúpköfun og köfun þar sem við áttum að komast leiðar okkar með hjálp kompás. En hápunkturinn var án ef að kafa í fyrsta skipti í myrkri.

Hitinn hérna á kvöldin er gríðarlega mikill og því er það yndislegt að kafa hérna á kvöldin. Hitastigið í vatninu er það sama og að sjá hlutina með vasaljósi í algjöru myrkri er einfaldlega stórkostlegt. Við köfuðum 4 saman í hóp með lítil vasaljós og skoðuðum fiskana, sem að kunna betur við sig í myrkri. Þetta var mögnuð lífsreynsla og magnaðast af öllu var í lok köfunarinnar þegar við slökktum á öllum ljósunum (við héldum þá í línu úr bátnum) og á um 5 metra dýpi lékum við okkur að því að snerta svif, sem að lýstu í myrkrinu þegar við snertum þau. Það er einhver almagnaðasta sjón, sem ég hef séð því svifin eru útum allt og í hvert skipti sem maður hreyfði hendur eða fætur þá lýstust upp hundruðir svifa.

* * *

Það eru ekki nema nokkrir dagar eftir af þessari ferð og bara nokkrar kafanir hérna á Andaman eyjum eftir. Á miðvikudaginn byrjum við að þoka okkur nær Stokkhólmi.

Ég hef ekki farið á netið í fimm daga og því er ég að skrifa þetta blogg á símann minn og mun reyna að birta það þegar ég kemst nær netsambandi á ný.

Skrifað á Havelock eyju í Andaman eyjaklasanum á Indlandi klukkan 17.14 mánudaginn 11.apríl.

Indlandsferð 14: Bitinn

Áður fyrr var ég oft spurður af því hvernig ég þorði/nennti að ferðast einn. Ég útskýrði fyrir fólki að það að ferðast einn væri kannski ekki mitt fyrsta val – ef ég hefði haft æsta og skemmtilega ferðafélaga þá hefði ég valið það. En valið stóð oftast milli þess að fara til Evrópu með félögum eða fara til framandi landa einn með bakpoka – og ég valdi það seinna.

Síðustu tvær löngu ferðir (Indónesíu og Indland) hef ég farið með unnustu minni og munurinn er auðvitað mikill. Hérna í Bangladess hef ég verið einn síðustu daga (Margrét þurfti að fara annað – við hittumst svo aftur á morgun á Indlandi) og það er dálítið skrítið að rifja upp gömlu taktana. Allt í einu þarf ég að tala við alla hótelstarfsmenn, sama hversu pirrandi þeir eru og sama þótt þeir tali álíka góða ensku og Manuel í Fawlty Towers. Ég hef enga Margréti, sem getur tekið yfir samræðurnar þegar ég er farinn að æsa mig. Og allt í einu þarf ég að skipuleggja allt, hringja öll símtöl og prútta við alla leigubílstjóra. Það er jú ótrúlega þægilegt að geta deilt þeirri ábyrgð – auk þess að það er auðvitað ómetanlegt að hafa góðan ferðafélaga á öllum öðrum stundum.

Það að ferðast einn hefur þó einstaka kosti. Til dæmis kynnist maður fyrr öðru fólki. Það eru kostir og gallar við það að tala íslensku. Kostirnir eru að enginn skilur mann, en gallarnir eru líka að enginn skilur mann og því hikar fólk við að koma upp að manni og byrja að spjalla. Það er mun auðveldara fyrir enskumælandi fólk að kynnast öðrum óvart þegar að aðrir heyra samtöl þeirra. Þegar maður ferðast einn í Bangladess, þá er maður sífellt að kynnast fólki.

* * *

Ég hef verið hérna í Khulna í Suður-Bangladess síðan á fimmtudag þegar að ég kom hingað með rútu frá Dhaka. Rútuferðin var ein af þessum rútuferðum, sem lítur hrikalega út á pappírnum en reynist á endanum nokkuð skemmtileg. Ég var í krappí rútu í miklum hita og ferðin tók 9 tíma í staðinn fyrir 6 einsog var lofað. En á móti kom að Bangladess er fallegt land og það var gaman að sitja við gluggann og horfa á landið þjóta framhjá. Og ég var líka með frábæran sessunaut, sem talaði góða ensku og talaðu um Bangladess mestallan tímann. Auk þess var langur partur ferðarinnar á bílaferju, þar sem ég fór útúr rútunni og kynntist enn fleira fólki.

Dagarnir hérna í Khulna hafa ekki verið einsog ég planaði þá. Stærsta ástæðan fyrir því að koma hingað suður var að ég ætlaði að fara í ferð til Sundarbans, sem er mikill skógur sem nær niður að Bengal Flóa og er meðal annars heimili Bengal tígursins. Ég skoðaði milljón möguleika á lengri og styttri ferðum, en smám saman fóru þeir allir í rugl. Bæði voru aðstæður ekki sem bestar fyrir slík ferðalög akkúrat núna og svo voru hérna fáir túristar og að lokum stóð ég frammi fyrir því að geta bara farið í dagsferð, sem kostaði yfir 200 dollara. Mér fannst það glórulaust og því hætti ég á endanum við að sjá skóginn.

Ég hef líka verið að jafna mig eftir að hafa verið étinn mjög illa af moskító flugum á hótelinu í Dhaka. Ég vissi það ekki fyrr en eftirá hversu mikil plága moskító flugur eru í Dhaka – því oftast eru moskító flugur minna vandamál í borgum en í sveitum. Á ógeðshótelinu mínu í Dhaka var engin loftkæling og opinn gluggi og það leiddi til þess að ég var gjörsamlega étinn af moskító flugum. Morguninn eftir taldi ég yfir 50 bit á líkamanum. Þau eru að skána núna (þökk sé Tiger Balm og sjálfsaga) en flest sjást þó enn.

Í staðinn fyrir Sundarbans fór ég í dagsferð til Bagerhat og nærliggjandi bæja. Þar skoðaði ég meðal annars frægustu mosku Bangladess, sem var ágæt en svo sem ekkert til þess að skrifa langa pistla um. Ég skoðaði einhverjar aðrar moskur og hindúa turna og eitthvað fleira. Litlu bæirnir virtust vera talsvert íhaldssamari en Dhaka og Khulna því allt í einu var meirihluti kvenna í svörtum sloppum með hulin andlit.

Ég get ekki að því gert að verða alltaf hálf leiður þegar ég sé þennan klæðnað. Það er einsog einhver gleði sé tekin útúr samfélögunum þegar að konur mæta manni ekki í litríkum klæðum heldur í svörtum kápum með hulin andlit. Ég elska að skoða mannlíf í nýjum borgum, en það er bara eitthvað svo þrúgandi við það þegar að helmingur íbúanna er allt í einu í klæðum, sem eiga að fela öll þeirra sérkenni. Ég fékk þetta sterklega á tilfinninguna þegar ég var í Hama á Sýrlandi og aftur núna.

* * *

Stærsti íþróttaviðburðurinn í þessum heimshluta kláraðist í gær – heimsmeistarakeppnin í krikket. Keppnin hefur staðið yfir síðustu sex vikur og var keppt í borgum á Indlandi, Bangladess og Sri Lanka. Það hefur verið ómögulegt að missa af þessari keppni á Indlandi því að indverskir krikket-spilarar eru dýrkaðir og dáðir. Alls staðar er krikket númer 1 og áhugi til að mynda á fótbolta virðist frekar lítill.

Í gær var úrslitaleikurinn á milli Indverja og Sri Lanka. Báðar þjóðir hafa unnið keppnina einu sinni áður, en nánast allar þjóðirnar, sem geta eitthvað krikket hafa einhverja tengingu við Bretland.

Ég horfði á ansi stóran hluta leiksins og reyndi í leiðinni að lesa mér til um reglurnar. Ég þekki hafnabolta vel og því voru þessar leiðbeingar nokkuð hjálplegar. Jafnvel þótt að leikurinn hafi verið gríðarlega langur þá var ég orðinn verulega spenntur í lokin. Indland vann leikinn þrátt fyrir að þeirra þekktasti leikmaður hefði lítið getað í leiknum og ég geri ráð fyrir að fagnaðarlætin verði enn í gangi þegar að við komum aftur til Kolkata.

* * *

En allavegana, ég sit núna á netkaffihúsi í miðbæ Khulna. Eftir klukkutíma tek ég rútu norður til Jessore og þaðan á ég í kvöld flug aftur til Dhaka. Á morgun á ég svo pantað flug frá Dhaka aftur til Kolkata á Indlandi.

Skrifað í Khulna, Bangladess klukkan 2.35

Indlandsferð 13: Eh, Bangladess

Rickshaw umferðarteppa í Dhaka

Rickshaw umferðarteppa í Dhaka

Ok, ég veit ég veit – það passar ekki alveg að kalla þessa færslu Indlandsferð því að ég er jú í öðru landi, Bangladess. En mér til varnar, þá er erfitt að sjá muninn á Dhaka í Bangladess og öðrum borgum Indlands, sem við höfum verið í að undanförnu.

Hérna eru sömu lætin, sama umferðin, rickshaw (hjóla og vélknúnir), fólkið lítur út eins, konur í sarí og svo framvegis. Um 90% íbúanna í Bangladesh eru múslimar, en maður sér samt ekki mikinn mun útá götu. Jú, það hljóma bænaköll einsog í öllum borgum Indlands og hér eru menn með hvítar húfur og konur með slæður. En fatnaður kvenna er samt ótrúlega frjálslegur og maður hefur á tilfinningunni að konurnar séu með slæður frekar til að verjast sólinni en vegna þess að einhver skipi þeim að vera með þær.

Semsagt, þetta er allt voða frjálslegt. Fólkið hérna virðist eiga miklu meira sameiginlegt með Indverjum í Vestur-Bengal heldur en Pakistönum í Punjab.

* * *

Bangladesh hefur verið sjálfstætt ríki í aðeins 40 ár – eða frá 1971. Þegar að Indlandi var skipt upp stuttu fyrir sjálfstæði hafnaði Austur-Bengal í Pakistan vegna þess að meirihluti íbúa á því svæði voru múslimar. Pakistan var hálf skrítið land í upphafi því það var engin land-tenging á milli Austur-Pakistan (Bangladess) og Vestur-Pakistan (í dag, Pakistan) – auk þess sem að fólkið talaði sitthvort tungumálið. Öllu landinu var svo stjórnað af fólki frá Vestur-Pakistan. Það fór líka svo að þegar átti að gera Urdu að þjóðarmáli Pakistans þá gerðust kröfur um sjálfstæði Austur-Pakistans háværari (hér er töluð bengalska). Það fór svo að lokum eftir 9 mánaða stríð við Vestur-Pakistan með hjálp frá Indlandi (og gríðarlegan fjölda fallna) að Bangladesh varð að sjálfstæðu ríki.

Bangladess er 8. fjölmennasta ríki veraldar. Hér búa um 160 milljón manns, sem er fjórföldun á fólksfjölda frá árinu 1950 (semsagt, fjöldi íbúa hefur farið úr 40 milljónum í 160 á 60 árum!) Landið er þéttbýlasta stóra land heims (það er að segja eingöngu borgríki og mjög lítil ríki eru þéttbýlari). 90% íbúanna eru múslimar og hin 10% eru nánast allir hindúar. Landið er í 158. sæti yfir landsframleiðslu per íbúa í heimi, fyrir neðan bæði Pakistan og Indland. Landið er því fátækasta land í heimi, sem ég hef heimsótt. Landsframleiðsla per íbúa er til að mynda hærri á Haiti, Mali og í Kyrgyzstan.

* * *

Ég kom hingað til höfuðborgarinnar Dhaka með flugi frá Kolkata. Dhaka er gríðarlega stór og fjölmenn borg (9. fjölmennasta borg í heimi með um 15 milljón íbúa) og umferðin og mengunin er nánast óbærileg. Menguninni er bjargað frá enn verra ástandi vegna þess að hérna virðast vera sæmilegar strætó-samgöngur (strætóarnir eru eldgamlir og hanga saman á einhvern undraverðan máta) og einnig er gríðarlega mikið af (fallega skreyttum) hjóla-rickshaw um alla borg.

Ég eyddi gærdeginum í skoðanaferð um borgina. Ég var slappur eftir hálf skrítinn svefn undanfarna daga (höfðum þurft að vakna fyrir kl 5 3 daga í röð), en átti þó ágætis dag í borginni. Ég borgaði hjóla-rickshaw gaur fyrir að taka mig á helstu túristastaði í gömlu Dhaka. Ég skoðaði búdda musteri, moskur og svo Bleiku höllina, sem liggur við bakka Buriganga ánnar. Ég skoðaði líka hafnarsvæðið, þar sem að farþegaferjur og litlir bátar fullir af vatnsmelónum sigla um.

Ég gisti á hóteli rétt fyrir norðan elsta hluta borgarinnar. Hótelherbergið mitt er hreinræktað ógeð. Það er í mid-range kaflanum í 6 ára gömlu Lonely Planet bókinni minni og það fær mig til að efast um annaðhvort geðheilsu höfunda bókarinnar eða skynsemi þess að vera með 6 ára gamla gædbók. Eini kosturinn við hótelið er að hérna í lobbíinu eru tölvur og sturtan var furðugóð.

Annars er Dhaka ekkert sérstaklega heillandi borg þegar að kemur að byggingum og slíku. En fólkið hérna er jafn yndislegt og Indverjar. Þótt að ég hafi verið á Indlandi í sjö vikur þá finnst mér það ennþá magnað hversu merkilegur maður þykir hér. Krakkar hópast í kringum mann og alls konar fólk starir á mann líkt og maður sé það mest spennandi, sem hafi komið fyrir þau þessa vikuna. Þegar íslenskir krakkar eru litlir er þeim kennt að stara ekki. Ef að 230 cm svartur maður hefði labbað inná skólalóðina þegar ég var 8 ára þá hefði ég reynt einsog ég gat að stara ekki – en það sama á ekki við hér. Börn, jafnt og fullorðnir stara á mann og eitt lítið bros frá mér er nóg til þess að gera alla glaða. Þetta er furðuleg tilfinning. En það gerir það líka að verkum að þrátt fyrir mengunina og lætin þá er erfitt að vera ekki heillaður af Dhaka og Bangladess.

*Skrifað í Dhaka, Bangladess klukkan 11.04*

Indlandsferð 12: Fjallaloft í Darjeeling

20110328-024127.jpg

Besta útsýni göngunnar í morgun

Í fyrsta skipti í þessari ferð hefur veður sett talsvert strik í reikninginn hjá okkur. Veðrið hingað til hefur verið nokkurn veginn fullkomið, því að þetta er góður árstími til að heimsækja Indland. Í Rajasthan var hitinn oftast í kringum 30 gráður og sól uppá hvern einasta dag. Við sáum, að ég held, aldrei rigningu.

Síðustu dagana var þó hitinn orðinn ansi mikill. Í Khajuraho fór hann yfir 35 stig og svo yfir 37 stig í Varanasi. Við vorum því spennt yfir því að koma hingað upp í Himalaya fjöllin til Darjeeling.

En veðrið hérna er auðvitað mun óvissara en nálægt sjávarmáli. Hérna eru í raun bara tveir mánuðir þar sem að ferðamenn geta verið nokkuð vissir um gott gönguveður og gott skyggni – það er október-nóvember. Næst besti tíminn er vanalega talinn vera febrúar-maí. Hvernig sem það nú nákvæmlega virkar þá hefur verið skýjað og þoka hérna allan tímann. Það er leiðinlegt því að Darjeeling er aðallega frægt fyrir fjallasýn – frá bænum á að sjást nokkuð vel í þriðja hæsta fjall heims, Kanchenjunga, sem er yfir 8.700 metra hátt. Í dag og síðustu daga höfum við hins vegar bara séð þoku.

Við eyddum gærdeginum á labbi um sjálfan bæinn. Bærinn er ekki stór á indverskan mælikvarða. Allt frekar afslappað og ef það væri ekki sér-indversk-bílflautu-geðveiki hérna einsog alls staðar, þá væri þetta friðsæll bær líka (hann er í raun nokkuð friðsæll – þrátt fyrir flautin). Við löbbuðum alla leið í dýragarðinn, sem er nokkuð þekktur þar sem þetta er eini dýragarðurinn í heiminum, þar sem fæðst hafa snjó-hlébarðar (e: snow leopard – dýr, sem heita í höfuðið á nýjasta Apple MacOSX stýrikerfinu). Í dýragarðinum er slatti af dýrum úr Himalaya fjöllum, sem var skemmtilegt að sjá – svo sem rauða pöndu og svo snjó-hlébarða, sem var svo fallegur að Margrét hélt því fram um tíma að hann væri fallegasta dýr, sem hún hefði séð (s.s. fallegri en kötturinn Suarez, sem býður eftir okkur í Stokkhólmi).

Við fórum svo innná Himalayan Mountaineering Institute (HMI), sem að frægasti sonur Darjeeling – Tenzing Norgay – var forstöðumaður fyrir lengi. Á HMI er safn, þar sem sýndur eru munir tengdir fjallgöngu og fjallað ítarlega um það þegar að Darjeeling búinn Norgay varð fyrstur manna, ásamt Edmund Hillary, til að klífa Mount Everest. Fyrir utan safnið er svo stytta af kappanum, sem að Hillary afhjúpaði eftir andlát hans.

* * *

Í dag fórum við svo í göngu í nágrenni Darjeeling. Við höfum ekki mikinn tíma, en ákváðum að taka fyrsta hluta Maneybhanjang-Phalut leiðarinnar. Við keyðrum því yfir til Nepal, þar sem að gæd tók á móti okkur. Hann labbaði svo með okkur í þrjá tíma í grenjandi rigningu og nánast engu skyggni. Það gerðist sirka tvisvar á göngunni að við sáum lengra en 10 metra (sjá mynd). Eftir þann tíma ákváðum við að stytta gönguna og fara tilbaka, enda lítið gaman að labba blaut í gegn án þess að sjá neitt.

Núna sitjum við því inná hóteli og reynum að ná einhverjum hita aftur í líkamann. Á morgun verður vonandi eitthvað útsýni til að sjá fjöll við sólarupprás og svo um hádegið eigum við flug til Kolkata.

*Skrifað í Darjeeling, Vestur Bengal, Indlandi klukkan 14.40*

Indlandsferð 11: Punktar um Indland og Indverja

20110327-024646.jpg

Síki á hjóla-rickshaw á markaði í Amritsar

Eftir 14 klukkutíma lestarferð frá Varanasi til Siliguri og 3 klukkutíma jeppaferð (þar sem við fórum úr nokkrum metrum yfir sjávarmáli uppí 2.100 metra) hingað til Darjeeling þá er einsog við séum komin til annars lands.

Því Darjeeling á auðvitað miklu meira sameiginlegt með Nepal, Sikkim og Bhútan heldur en nokkurn tímann Indlandi. Darjeeling var tekið yfir af bretum af Sikkim í kringum 1860 (og Sikkim var svo síðar innlimað í Indland árið 1975). Fólkið hérna líkist ekki Indverjum neitt, hérna eru flestallir búddistar og venjurnar og andrúmsloftið allt annað en á öðrum stöðum á Indlandi. Flestir eru af nepölskum ættum. Hérna í Darjeeling hefur í mörg ár verið sjálsfstæðishreyfing, sem vill stofna landið Gurkhaland, en kraftur hennar hefur dofnað á síðustu árum.

Það er slatti af hlutum, sem ég hef ætlað að koma inní blogg en ekki gert. Því er þetta ágætis tími fyrir smá punktablogg.

  • Indverjar hafa þann skrýtna ávana að vagga höfðinu til hliðar. Þetta getur þýtt að þeir séu að samþykja það sem þú segir, nokkurs konar þakklæti og einnig að þeir séu óvissir. Það tók okkur góðan tíma að skilja hvernig þeir nota þessa hreyfingu, en við erum orðin sæmilega góð í að skilja hana núna.
  • Indverskar biðraðir eru magnaðar. Við höfum aðallega lent í biðröðum á lestarstöðum. Þær eru eiginlega smá einsog biðraðirnar voru á Vegamótum þegar að ég heimsótti þann stað þrisvar í viku. Fyrir það fyrsta, þá færðu ekkert pláss í biðröðinni. Um leið og það er kominn einhver fyrir aftan þig, þá er sá einstaklingur kominn aaaaalveg uppað þér. Karlmaður í einni biðröðinni hallaði hökunni sinni á öxlina á mér og þótti það greinilega þægilegt.

    Röðin breiðist svo oft út í margar áttir – ekki bara beint aftur. Dálítið einsog þegar maður var alveg við það að komast inná Vegamót. Þá birtist allt í einu einhver hópur af fólki, sem taldi sig hafa brýnara erindi inn á staðinn og vildi fá að komast inn á undan manni. Þannig er þetta í indverskum biðröðum – þegar maður kemst uppað glugganum á lestarstöðinni þá mæta allt í einu 3-4 einstaklingar sitthvorum megin við mann, sem vilja komast að og skilja ekkert í mér að ég hafi eitthvað við því að segja. Ég reyni að segja sjálfum mér að ég hafi engan rétt á því að vera með einhvern sænskan biðraðar-fasisma á Indlandi, en það gerir hlutina ekki mikið auðveldari.

  • Tengt þessu, þá hafa Indverjar ekki sama skilning og við á persónulegu rými. Sennilega vegna þess að Indverjar eru 1,3 milljarðar en við Norðurlandabúar erum 30 milljónir. Indverjar eru einfaldlega vanir því að vera í mannþröng. Það er alls staðar þröngt. Þess vegna koma þeir rosalega nálægt manni þegar þeir tala við mann og standa upp við mann í biðröðum eða bara útá götu.
  • Indverskir karlmenn klæða sig nánast allir á vestrænan máta. Indverskar konur klæða sig hins vegar á mun hefðbundnari hátt. Langflestar klæðast þær litríkum sari. Aðeins þær, sem líta út fyrir að vera mest efnaðar, sér maður í einhverju öðru en saari.
  • Maður sér almennt séð ekkert alltof mikið af indversku kvenfólki útá götu á Indlandi. Karlar eru útum allt. Í lestum, á lestarstöðvum, í búðum, á mörkuðum, útá götum, í bílum og svo framvegis. Sennilega eru það ekki ýkjur að um 70% fólks, sem maður rekst á séu karlmenn. Þetta er furðulegt. Konurnar eyða einfaldlega mun stærri hluta af sínum degi inná heimilinu.
  • Indverjar eru upp til hópa með alvarlegan heyrnarskaða. Ég nenni ekki að Google-a rannsóknir um þetta, en byggt á mínum óformlegu rannsóknum þá hlýtur þetta að vera staðreynd. Fyrir það fyrsta eru gríðarleg læti alls staðar (fyrir utan hérna í fjallasælunni í Himalaya fjöllum). Þetta er verst útá götum, þar sem flautin í bílum eru að gera mig klikkaðan. Flautin eru stanslaus og þar sem við erum oftast gangandi eða í opnum rickshaw bílum, þá heyrum við flautin einstaklega vel. Það líða ekki 20 sekúndur án þess að maður heyri flaut í innan við 10 metra fjarlægð. Þetta einfaldlega hlýtur að skaða heyrn Indverja.

    Indverjar tala líka alveg fáránlega hátt við hvorn annan. Í gsm síma nánast öskra þeir og þegar að það er meira en svona 30-50cm á milli fólks þá tala þeir það hátt að á þá yrði sussað í nánast öllum öðrum löndum heims. Í lestunum hérna virðist bara vera samkomulag um að þegja á milli miðnættis og sirka 4 um morgun. Eftir það byrja fólk að spjalla, þótt að helmingurinn í lestinni sofi. Þrátt fyrir að fólk sé að spjalla við sessunaut sinn í svefnrými lestar þá talar fólk samt álíka hátt og við myndum gera inná skemmtistað.

Ég læt þetta duga í bili. Á morgun ætlum við í göngu um nágrenni Darjeeling og á þriðjudagsmorgun ætlum við að sjá sólarupprás hjá Tiger Hill, þar sem við gerum okkur veika von um að veðrið verði nógu gott til að sjá þriðja hæðsta fjall í heimi, Kanchenjunga.

*Skrifað í Darjeeling, Vestur Bengal, Indlandi klukkan 14.40*

Indlandsferð 10: Líkbrennsla við Ganges ána

20110324-054802.jpg

Ganges við sólarupprás

Það eru ekki margir ferðamenn, sem komast í gegnum langar Indlandsferðir án þess að fá í magann. Ég var orðinn nokkuð bjartsýnn á að ég myndi halda þetta út því flestir verða veikir á fyrstu 2-3 vikunum. Ég hafði í gær haldið út í 44 daga. En þá játaði maginn á mér ósigur og ég varð ansi hressilega veikur í nótt. Eftir læknisheimsókn á hótelið í morgun er ég þó aðeins skárri.

Á meðan að ég ligg hérna inná hótelherbergi (þægileg tilviljun að við erum akkúrat á nokkuð góðu hóteli núna) er Margrét í kvöldsiglingu um Ganges ána hérna í Varanasi.

* * *

Varanasi er mögnuð borg. Hún er ein elsta borg heims – hérna hefur verið búið samfellt í yfir 3200 ár – og hún er ekki fyrir viðkvæmai. Hérna er gríðareg umferð, mengun og læti og borgin er einstaklega litrík.

Hingað kemur fólk frá öllum hornum Indlands til að þvo af sér syndir sínar í Ganges ánni eða til að brenna þar látna ástvini.

Meðfram Ganges eru ótal “Ghats”, sem eru tröppur sem liggja oní ána. Þar mætir fólk á hverjum morgni til þess að þvo fötin sín, baða sig og til að drekka vatnið úr ánni. Vatnið í ánni er hryllingur, enda er í Ganges dælt iðnaðarúrgangi, sem veldur því að vatnið er hættulegt. Ég stóðst þó ekki freistinguna að dýfa aðeins hendinni í ána (þrátt fyrir mótmæli Margrétar) og innan við sólahring seinna var ég orðinn veikur, þótt að ég kenni nú frekar mat um veikindin frekar en snertingu við Ganges.

Við skoðuðum Ghat-in í tvö skipti. Fyrsta daginn löbbuðum við meðfram þeim helstu. Allt frá Assi Ghat upp til Manikarnika Ghat.

Hið síðastnefnda var án efa ein skrítnasta upplifun ævi minnar. Manikarnika er vinsælasta líkbrennslu-Ghat-ið. Þar eru við ána svona 10 bálkestir, þar sem að lík eru brennd. Fyrst eru líkin borin á börum að Ganges ánni og þeim dýft í ána í smá stund. Svo eru þau borin á einn af bálköstunum, yfir þau staflað slatta af eldivið og svo kveikt í. Eftir stutta stund brenna fötin af líkinu og eftir stendur það að maður horfir á 5-6 bálkesti með illa brunnum líkum í. Þetta var svo furðuleg reynsla að maður var í hálfgerðu sjokki. Hverju líki fylgja kannski 10-15 karlmenn, því konum er bannað að koma í líkbrennslurnar. Bæði vegna þess að einu sinni áttu þær til að kasta sér á eldinn með eiginmönnum sínum og svo er einnig bannað að gráta við líkbrennsluna, þar sem að þá komast sálirnar ekki á friðsælan hátt til himna, eða hvert sem þær vilja fara.

Allavegana, við stóðum hjá Manikarnika Ghat í um hálftíma og horfðum á líkin brenna, sem er eitthvað sem ég mun sennielga aldrei gleyma.

Í gærmorgun fórum við svo við sólarupprás í bátsferð um Ganges ána, sem var klárlega einn af hápunktum þessarar ferðar. Árabáturinn okkar fór rólega meðfram Ghat-unum og þar gátum við horft á fólk baða sig, gera morgunjóga og svo framvegis. Frábær upplifun og eitthvað sem maður sér hvergi annars staðar en í þessu magnaða landi.

* * *

Í gærkvöldi veiktist ég svo og deginum dag hef ég eytt hérna inná herbergi. Annað kvöld munum við svo taka lest til Siliguri og þaðan jeppa upp til Darjeeling, sem er í um 2.110 metra hæð. Það þýðir að hitastigið lækkar úr 37C í Varanasi í dag í 15C í Darjeeling. Við ætlum að vera í nokkra daga í Darjeeling og taka svo flug til Kolkata. Eftir einn dag í Kolkata fer ég þaðan í 4 daga til Bangladesh og svo munum við enda ferðina á viku á Andaman eyjum.

*Skrifað í Varanasi, Uttar Pradesh, Indlandi klukkan 19.20*

Indlandsferð 9: Agra og Taj Mahal

20110322-060053.jpg

Taj Mahal við sólsetur frá bakhlið

Sögufrægar byggingar eiga það til að valda ferðamönnum vonbrigðum, hvort sem þeir eru vanir eða óvanir. Ég hef ekki oft heyrt fólk lýsa yfir vonbrigðum með náttúruundur – ég hef aldrei heyrt neinn svekkja sig yfir Iguazu fossum eða Grand Canyon. En merkar byggingar vekja oft upp misjöfn viðbrögð hjá túristum. Þær eru minni en fólk átti von á eða ekki jafn fallegar eða það eru of margir ferðamenn þar og svo framvegis. Á Indlandi höfum við heyrt ferðamenn lýsa yfir vonbrigðum sínum með Taj Mahal – að sú bygging hafi einhvern veginn ekki staðist væntingar. Aðrir segja Taj Mahal vera stórkostlegt.

Það var því smá skrýtið að keyra með rickshaw bíl yfir Yamuna ána í Agra til að horfa á sólsetur við Taj Mahal. Sjálft Taj Mahal, sem ansi margir kalla fallegustu byggingu í heimi. Það er sæmilega óumdeilt að Taj Mahal er einstök bygging og fegurð allra annarra bygginga í heiminum er miðuð út frá þessu merka grafhýsi í Agra á Indlandi.

Á fimmtudaginn, stuttu eftir að við komum til Agra keyrðum við semsagt yfir ána og yfir í garð þar sem er ágætis útsýni yfir bakhliðina á Taj Mahal og sáum bygginguna breyta um lit við sólsetur.

Á laugardagsmorgun vorum við svo mætt klukkan hálf sjö um morguninn þegar að opnað var fyrir aðgang að svæðinu í kringum Taj Mahal. Þegar að sólin var að rísa gátum við loksins labbað uppað Taj Mahal og horft á marmarann breyta um lit frá dökkum litum þegar að sólin var að koma upp, yfir í skjannahvítan þegar að hún var hátt á lofti. Við fórum inní Taj Mahal og sáum grafhvelfinguna þar sem að Mumtaz Mahal er grafin ásamt Shah Jahan eiginmanni sínum, sem hafði byggt Taj Mahal handa henni eftir að hún lést. Og við skoðuðum moskuna við hliðiná og settumst á Díönu-bekkinn og tókum milljón myndir af okkur hjá Taj Mahal frá öllum mögulegum hliðum svo við værum pottþétt á að ná réttu myndunum.

Og eftir einhverja 3 klukkutíma hjá byggingunni, þá hlýtur maður að spyrja hvernig í ósköpunum einhver geti orðið fyrir vonbrigðum með Taj Mahal? Ég kom að staðnum með þær væntingar að þetta væri fallegasta bygging, sem ég hefði séð og hún stóðst þær væntingar fullkomlega. Auðvitað er fátt sem kemur manni á óvart (nema kannski hversu gríðarlega stór byggingin er) því maður hefur séð milljón ljósmyndir af byggingunni, en það breytir því ekki að upplifunin er einstök. Taj Mahal er einfaldlega fallegasta bygging, sem ég hef séð.

* * *

Agra er ekki spennandi borg. Við gistum á litlu gistiheimili á milli virkisins og Taj Mahal við stóra götu, en samt einsog í miðjum skógi. Það voru aldrei fleiri en 2-3 aðrir gestir á hótelinu fyrir utan okkur, en þarna voru samt alltaf eigandinn og 3-5 vinir hans, sem virtust hafa þetta sem samkomustað. Þannig var þetta nokkuð þægilegur staður til að vera á. Við gátum setið úti við stóra grasflöt, þar sem páfuglar og íkornar léku sér, því að dagskráin okkar í Agra var ekki svo þétt.

Við fórum í dagsferð frá Agra til Fatehpur Sikri, sem var um stuttan tíma höfuðborg Mughal veldisins um 1585. Þegar að Akbar (Mughal keisari, sem lét byggja borgina) lést, var höfuðborgin hins vegar flutt til Agra vegna vatnskorts í Fatehpur Sikri. Þetta kemur sér vel í dag því að eftir standa í Fatehpur Sikri ótrúlega heillegar minjar þessarar borgar. Frá mögnuðu borgarhliði til þriggja halla byggðar fyrir eiginkonur Akbars (ein múslimsk, ein kristin og ein hindúsk – hann var víðsýnn – hann sjálfur var múslimi). Þessi dagur þarna var fyrsti dagurinn, sem við höfum lent í virkilega þrúgandi hita (37 stig) en það breytti ekki því að þetta var verulega áhugavert og fallegt.

Í Agra skoðuðum við svo Agra virkið, sem er síðasta virkið, sem við munum skoða í þessari ferð, enda er ágætt að hafa séð einhver 6-7 virki á þessu ferðalagi.

* * *

20110322-060257.jpg

Ég og Margrét eftir Holi hátíðina

Á sunnudaginn var svo Holi hátíðin haldin á Indlandi til að fagna vorinu. Indverjar halda uppá hátíðina útá götu þar sem að blindfullir karlmenn (kynjahlutfallið útá götu var sirka 99%-1%) dansa og ata hvorn annan í málningu. Við þurftum rétt að stíga útá götu til að verða partur af hátíðarhöldunum. Eftir að hafa labbað smá höfðu ábyggilega 20 Indverjar makað á okkur alls konar litum og svo faðmað okkur í kjölfarið. Nánast allir karlmenn í Agra virtust vera ölvaðir og meira að segja hjóla-rickshaw ökumaðurinn okkar var svo ölvaður að við þurftum að leiðbeina honum um hvar hann átti að beygja á götum Agra. En þetta var samt verulega skemmtilegt þótt að við þyrftum að henda bolunum okkar á eftir og ég sé enn með málningu á mér.

* * *

Frá Agra tókum við svo í gær næturlest til Khajuraho, sem er í Madhya Pradesh héraði. Þar er hópur af stórkostlegum Hindúa hofum frá árunum í kringum 1000, sem voru orðin skógi vaxin þegar að þau fundust aftur árið 1838. Hofin eru þekkt fyrst og fremst fyrir magnaðar úthoggnar myndskreytingar utaná þeim, sem eru margar hverjar ansi grófar (það er ef þú telur karlmann vera að taka hest í afturendann vera gróft). Hofin eru gríðarlega falleg – sennilega enn fallegri en þau sem við sáum í Prambanan á Jövu í Indónesíu.

Frá Khajuraho tókum við leigubíl til Satna og þaðan tókum við þá lest, sem ég sit núna í. Klukkan er 10 um kvöld og lestin á að skila okkur í Varanasi í fyrramálið. (hér er ekkert net, ég skrifa þetta bara núna og birti seinna).

Indverskar lestar eru magnaðar. Ekkert lestarkerfi ber fleira fólk á hverju ári og ekkert fyrirtæki hefur í vinnu jafnmarga einstaklinga og indverska lestarkerfið (1,6 milljón manns samkvæmt Rough Guide). Þær eru sannarlega eitt af því besta við ferðalög á Indlandi, því það er umtalsvert þægilegra að ferðast í lest heldur en í rútu. Þar sem Indland er gríðarlega stórt og við höfum ferðast langmest landleiðina, þá eru þær ótrúlega þægilegur ferðakostur.

Við erum í fyrsta skipti á 2AC farrými, sem er það besta í þessari lest. 2 þýðir að við erum í 2-hæða koju og AC þýðir að vagninn er loftkældur og hitaður eftir þörfum. Inní okkar vagni eru sennilega um 50 manns, 6 í hverjum klefa – sem er þó ekki lokaður heldur bara dregin tjöld fyrir á milli. Þetta er nokkuð þægilegt, en standardinn þætti þó hræðilegur í evrópskum lestum. Ég kvarta ekki, svo lengi sem að stoppin eru ekki of mörg og því truflunin af öðrum ferðalöngum ekki mikil.

Þetta farrými er þó gríðarlegur munur frá lægri farrýmunum í þessari sömu lest. Miðinn minn kostaði um 1.000 rúpíur (um 300 íslenskar krónur) en í lestinni er hægt að fá farmiða fyrir allt niður í um 100 rúpíur. Það eru hins vegar farrými þar sem gríðarlegum fjölda fólks er hrúgað inní sömu stærð af vagni og þar er engin loftkæling eða hitun, sem þýðir að hitinn á daginn getur verið 50 gráður inní vagni og á sumum leiðum getur hitinn á næturna verið langt undir frostmarki. Engin merkt sæti eru þar, þannig að þegar lestar koma inná stöðvar myndast öngþveiti þegar að fólk hópast inní þessa vagna. Í þeim vögnum eru einungis Indverjar, en í loftkældu vögnunum læðast einstaka túristar, þótt að Indverjar séu ávallt 90% af farþegunum þar.

Við höfum í raun hvergi rekið okkur á mikið af útlendum ferðamönnum nema kannski í Taj Mahal. Á öllum öðrum túristastöðum eru það hins vegar indverskir túristar, sem eru í miklum meirihluta. Þess vegna þykir það alltaf stórkostlegur viðburður þegar við Margrét (aðallega Margrét) mætum á svæðið og fjöldi fólks vill tala við okkur eða taka myndir af okkur.

* * *

Planið er að eyða 3 dögum í Varanasi og reyna svo að koma okkur einhvern veginn til Darjeeling. Hitinn í Varanasi er víst eitthvað í kringum 40 gráður þannig að smá fjallaloft í Darjeeling hljómar ekki illa. Þaðan förum við svo til Kolkata.

*Skrifað um borð í lest frá Satna til Varanasi, Uttar Pradesh, Indlandi klukkan 22.25*

Indlandsferð 8: Punjab

Hraðinn á ferðalaginu okkar hefur heldur betur aukist eftir að Margrét var útskrifuð af spítala í Delhi síðasta mánudag. Núna er fimmtudagskvöld og við erum síðan þá búin að sjá Delhi, Amritsar og núna sit ég inná hóteli í Agra, um 1km frá Taj Mahal, sem við sáum í fyrsta skipti áðan.

Margrét hefur það rosa gott og hún hefur verið mjög hress eftir að hún kom útaf spítalanum. Það tók sinn tíma að klára öll okkar mál þar og við vorum ekki búin fyrr en um kl 2 um eftirmiðdaginn síðasta daginn okkar í Delhi. Við höfðum því bara 4 klukkutíma til að sjá á hluti í Delhi, sem við höfðum ekki séð. Við vorum búin að skoða Rajpath, India Gate og National Museum – og ég hafði eytt slatta tíma í vestrænum þægindum hjá Connaught Place – en annað ekki.

Grafhýsi Humayun í Delhi

Við leigðum okkur því leigubíl og keyrðum um þá staði, sem uppá vantaði. Fórum fyrst í Gömlu Delhi, sem er einsog annar heimur. Þar borðuðum við frábært Kebab á Karim’s, frægum veitingastað í miðri borginni og löbbuðum svo að Jama Masjid moskunni, sem er stærsta moska Indlands. Þaðan var gott útsýni yfir í Rauða Virkið.

Frá Gömlu Delhi fórum við í suður-átt til Akshardham, sem er stærsta Hindúa hof í heimi – byggt árið 2005. Við stoppuðum stutt þar og keyrðum því næst enn lengra suður að Grafhýsi Humayun, byggt fyrir annan Mughal keisarann, Humayun. Það er magnað grafhýsi, sem sviopar að vissu leyti til Taj Mahal, sem var byggt seinna. Þaðan keyrðum við svo að Lótus Hofinu, sem er helgur staður Baha’i.

Við enduðum svo kvöldið á vestrænum mat á Friday’s og Hard Rock. Enduðum á HRC á eftir Friday’s, þar sem að hamborgarinn á Friday’s olli okkur svo stórkostlegum vonbrigðum. Ég veit að það var ekki við miklu að búast þegar að kemur að hamborgara á Indlandi, en þessi var svo slæmur að mig langaði að fara að gráta. Desert og einn Hurricane á HRC redduðu málunum.

* * *

Frá Delhi tókum við svo 5 tíma morgunlest upp til Amristar í Punjab héraði. Punjab héraði var skipt í tvennt þegar að Indlandi og Pakistan var skipt upp og gamla höfuðborg Punjab, Lahore, endaði í Pakistan. Amritsar er auðvitað þekkt fyrst og fremst vegna þess að þar er helgasti staður Síka, Gullna Hofið.

Við byrjuðum þó á því að taka okkur leigubíl að landamærum Indlands og Pakistan við Wagha. Þar fer fram á hverjum degi mögnuð athöfn, sem mig hefur lengi langað að sjá eftir að Michael Palin fjallaði um hana í ferðaþáttum sínum, sem sýndir voru á RÚV fyrir einhverjum árum. Sjá hérna á Youtube myndbrot úr þættinum. Hrein snilld.

Ég og Margrét að horfa á landamæraathöfnina.

Sitthvoru megin við landamærin eru áhorfendapallar, þar sem að almenningur getur horft á athöfnina í lok hvers dags. Þúsundir Indverja og hundruðir Pakistana (aðallega karlmenn – pallarnir þeim megin voru kynjaskiptir) mæta þarna á hverjum degi og fylgjast með látunum og hvetja sína verði. Landamæraverðirnir frá hvoru landi opna í lok dags hliðið á milli landanna og svo keppast þeir í að öskra sem lengst og vera sem mest ógnandi gagnvart hinu landinu – aðallega með einkar sérkennilegum (Monty-Python-esque) göngustíl – án þess að fara þó sentimeter yfir landamærin. Á meðan tryllast áhorfendur báðum megin. Í lokin eru svo fánar beggja landa dregnir niður og landarmærunum lokað. Þetta var mögnuð skemmtun, þótt að Gandhi hefði sennilega farið að gráta ef hann sæi hversu víggirt landamærin á milli landanna eru þarna í nágrenninu.

* * *

Við keyrðum svo að Mata musterinu í Amritsar. Ég er trúlaus og það hættir ekki að koma mér á óvartr hvað fólk er tilbúið að gera í nafni trúarinnar og hverju það er tilbúið að trúa. Mata hofið er án ef það allra skrýtnasta, sem ég hef séð á ævinni.

Hofið er byggt til heiðurs Lal Devi, sem var uppi á síðustu öld og er talin hafa gert kraftaverk. Konur, sem vilja verða ófrískar, koma þangað og biðja til hennar. Á efri hæð hofsins er svo það allra furðulegasta trúartengda fyrirbæri, sem ég hef séð. Við fórum þar í gegnum einhers konar völundarhús trúarupplifanna. Á hluta leiðarinnar þurftum við að vaða í gegnum vatn, á öðrum stöðum fengum við blessun frá gúrúum og á enn öðrum stöðum tilbað fólk risastórar plast-styttur af ullandi andlitum. Verulega furðulegt.

Gullna Hofið við sólarupprás á miðvikudag.

En það er jú líka trúarbrögðum að þakka að til eru staðir einsog Gullna Hofið í Amritsar. Það var ástæða þess að við lögðum á okkur 2 stykki 6 tíma lestarferðir til Punjab héraðs og það var svo sannarlega þess virði.

Gullna Hofið er helgasti staður Síka. Á Indlandi eru milljónir Síka og þeir eru í meirihluta í indverska hluta Punjab héraðs. Trúarbrögð Síka eru bara um 500 ára gömul og byggja á ýmsum hlutum úr Íslam og Hindúisma. Síkar trúa, ólíkt Hindúum, bara á einn Guð. Í gegnum árin hafa þeir krafist eigin ríkis, Khalistan, án árangurs. Indira Gandhi var drepin af Síka lífvörðum sínum eftir að hún réðst gegn aðskilnaðarsinnum inní Gullna Hofið árið 1984.

Gullna Hofið var byggt fyrir 250 árum og þetta litla hof er í einu orði sagt *stórkostlegt*.

Hofið stendur í miðri laug, sem að Síkar telja að sé heilög og því baðar fjöldi þeirra sig í lauginni allan daginn. Við skoðuðum Gullna Hofið bæði að kvöldi til, við sólarupprás og seinni part dags. Svo magnað er það að þrjár heimsóknir eru alls ekki of mikið. Í kringum vatnið hljómar allan daginn tónlist og bænasöngur innan úr sjálfu hofinu, sem gerir stemninguna enn magnaðri. Við fórum inní hofið (myndatökur bannaðar), þar sem allir Síkar þurfa að koma minnst einu sinni á ævinni. Hofið er pínulítið og þar rúmast á gólfinu þeir sem syngja bænasöngana og um 30-40 manns, sem koma þangað til að biðja. Fólkið í Amritsar er líka með því skemmtilegra, sem við höfum kynnst á Indlandi og það bætti við upplifunina.

* * *

Frá Amritsar tókum við í gærkvöldi næturlest hingað til Agra. Sú lest var indverskur hryllingur af verstu sort með símalandi fólki, Chai sölumönnum og öðrum látum, sem gerðu okkur ómögulegt að sofa á 16 tíma lestarferð. Við komum hingað til Agra um hádegið og eyddum hálfum deginum sofandi inná herbergi. Áðan fórum við yfir ána og horfðum á sólsetur fyrir aftan Taj Mahal. Taj Mahal er líka stórkostlegt, en ég skrifa betur um það þegar við höfum skoðað bygginguna frá öllum hliðum.

Á morgun ætlum við svo að fara til Fatehpur Sikri og á laugardaginn ætlum við að skoða Taj Mahal og fara svo til Vrindavan, þar sem við ætlum að henda málningu í Indverja í tilefni Holi hátíðarinnar.

*Skrifað í Agra, Uttar Pradesh, Indlandi klukkan 20.50*