« Á leið til útlanda | Aðalsíða | Á hótelherbergi í Bilbao »

Bilbao

maí 11, 2004

Bilbao er ágæt borg. Ég er búinn að vera hérna síðan á sunnudag og hefur svo sem ekki mikið gerst. Ég er á fínu hóteli, sem er með þráðlausu interneti. Þar sem ég á eftir að klára kynninguna mína fyrir morgundaginn þá ákvað ég að splæsa á dagspassa á netið.

Allavegana, var á fundi í gær í Vitoria, sem er nálægt Bilbao. Eftir fundinn tók síðan við viðamikil leit að veitingastað. Hérna í Bilbao eru engir túristar og því fylgja ALLIR veitingastaðir spænska módelinu, það er að opna ekki fyrr en klukkan 21. Á vikuferðalagi get ég ekki vanið magann minn á slíkan matartíma og því labbaði ég hálfan bæinn til að finna opinn samlokustað, sem bauð uppá baguette með kjöti, sem Spánverjar virðast dýrka og dá. Fínn matur samt.

Í dag dreif ég mig yfir á Guggenheim safnið, sem er æðislegt! Byggingin sjálf er náttúrulega ótrúlega mögnuð, sennilega ein magnaðasta bygging, sem ég hef séð. Að innan er safn af merkilegri nútímalist, allt frá Lichtenstein og Warhol til Ólafs Elíassonar! Mér finnst rosalega gaman að nútímalistasöfnum, en samt fæ ég alltaf á tilfinninguna að 20% af verkunum séu algjört rusl, sem hvaða simpansi með myndavél, leir eða pensil gæti gert. En safnið er samt mjög skemmtilegt.

Eftir Guggenheim fór ég í gamla miðbæinn, sem er uppfullur af búðum, sem voru lokaðar enda klukkan orðin 2. Gamli miðbærinn er fullur af fallegum byggingum en þar var ekki mikið líf á þeim tíma dags. Þegar búðir opnuðu verslaði ég eitthvað, þar á meðal alltof dýrt bindi, enda hafði mér tekist að gleyma öllum bindunum mínum heima. Hins vegar mundi ég eftir fjórum skyrtum.

Núna ætla ég að fá mér nokkra bjóra og klára kynninguna mína. Á morgun á ég svo flug til Barcelona.

(Skrifað í Bilbao klukkan 19.51)

Einar Örn uppfærði kl. 17:51 | 297 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (2)


Ekkert skrýtið að þeir dýrki baguette með kjöti.. sérstaklega ef það er Iberica skinka (pantar jamon iberica). Sú skinka lætur Parma og Rafta skinku bragðast eins og brauðskinku frá SS. Gott á fínum veitingastað líka að fá sér Iberica skinku í forrétt, fátt betra.

Vona að þú getir notið Barcelona enda snilldarborg þar á ferð eins og þú veist.

Gummi Jóh sendi inn - 11.05.04 18:25 - (Ummæli #1)

Jammm, sammála, skinkan hérna er náttúrulega snilld. Hún er líka það eina, sem er boðið uppá bæði í morgunverðar- og kvöldmats buffetinu. Öllu má nú ofgera. :-)

Einar Örn sendi inn - 11.05.04 20:15 - (Ummæli #2)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu