« Houllier fer! | Aðalsíða | Mourinho »

Au revoir Houllier

maí 24, 2004

hooooooou.jpgHvað getur maður sagt? Liverpool rak Houllier. Maður á ennþá pínulítið bágt með að trúa þessu. Liverpool hefur ekki rekið þjálfara í 50 ár. Síðast þegar þeir gerðu það, þá réðu þeir Bill Shankley, sem var upphafið að gullaldarskeiði liðsins.

Ég hef haldið því fram í meira en ár að Liverpool þurfti að losa sig við Houllier. Á tímabili var ég svo dapur yfir gengi liðsins að ég beinlínis vonaði að þeir myndu tapa, svo að Houllier yrði rekinn. Það var þó að ég held bara í einum leik. Ég sá á endanum að ást mín á Liverpool var sterkari en óbeit mín á Houllier :-)


Ég dýrkaði Houllier einu sinni. Ég trúði því statt og stöðugt að hann væri maðurinn, sem myndi rétta liðið við. Eftir þrennutímabilið var ég sannfærður um að hann gæti ekki gert mistök, en svo byrjuðu þau að koma í stríðum straumum, sérstaklega eftir að hann fékk hjartaáfallið.

Undanfarið hefur hann svo verið örvæntingarfullari með hverjum deginum. Í byrjun síðasta tímabils spilaði liðið skemmtilegan fótbolta en úrslitin voru ekki hagstæð og því fór hann aftur í sama varnarboltann án þess að úrslitin bötnuðu. Í lok þessa tímabils var öllum ljóst að Houllier væri ekki að valda starfinu.

Ég er sannfærður um að þetta er það eina, sem Liverpool gat gert í stöðunni. Þrátt fyrir að ég hafi gagnrýnt hann fyrir ansi margt, þá á hann hrós skilið fyrir margt. Framkoma hans á þessu tímabili var óþolandi, en það var augljóst að hann trúði því virkilega að hann væri að gera hluti, sem myndu koma klúbbnum til góða.


Ég gæti sennilega skrifað lengi um öll mistökin hans Houllier og hef reyndar gert það nokkrum sinnum í pistlum hér 1 2 3 4. Núna er hins vegar ekki tíminn til að tala um mistökin hans Houllier heldur horfa fram á veginn. Ef Liverpool fær réttan þjálfara, þá eru liðinu allir vegir færir.

Houllier hefur gert margt gott í gegnum tíðina. Öll aðstaða og vinnubrögð hjá liðinu eru mun meira professional í dag en þau voru fyrir 6 árum. Hann keypti frábæra leikmenn einsog Hyppia og Kewell til liðsins og Owen og Gerrard hafa blómstrað undir hans leiðsögn. Við unnum líka 6 titla, sem er svosem ekki slæmur árangur.

En Liverpool er langt á eftir Arsenal og það er óþolandi. Ég er vissum að þetta var rétt ákvörðun hjá stjórninni og ég er sannfærður um að framtíðin er björt fyrir Liverpool.

Einar Örn uppfærði kl. 19:52 | 403 Orð | Flokkur: Liverpool



Ummæli (7)


Úff, þvílíkur dagur, huh? Ég skrifaði sjálfur pistil um þennan brottrekstur sem má lesa hér. Þetta er rosalegt alveg, vissulega er þetta kannski ekki beint óvænt en maður þorði samt varla að trúa því að þetta myndi gerast. Og eftir að við náðum 4. sætinu var ég hreinlega handviss um að hann fengi eitt ár í viðbót, var eiginlega byrjaður að sætta mig við það…

…en nei! Við getum þakkað Houllier fyrir það í hversu góðu ástandi hann skilur við klúbbinn: öll aðstaða er í heimsklassa, peningamálin eru flott (og verða enn flottari ef einhverjir Tælendingar ætla að láta okkur hafa 60m+ pund til að kaupa í sumar) og kjarninn í liðinu er til staðar. Það þarf bara að losna við nokkra aula (Biscan’t, Diawho?, Cheyrou, Vignal) og kaupa nokkra rétta menn í staðinn (Van der Vaart, Cissé, etc.) og þá ætti þetta lið að vera klárt í slaginn næsta vetur!

Ég fjalla líka ítarlega í pistlinum mínum um þá fjóra sem þykja líklegastir til að taka við liðinu: O’Neill, Curbishley, Mourinho og Benítez. Það verður gaman að sjá hverjir verða keyptir í sumar en fyrst af öllu er að ráða nýjan stjóra! Ljóst er að slúðrið mun ná algjöru hámarki næstu daga … þótt áreiðanlegar heimildir mínar segi mér að það sé þegar búið að velja eftirmann Houllier, það eigi aðeins eftir að semja við lið viðkomandi og þá sé hægt að gera það opinbert.

Hver það er get ég því miður ekki gefið upp að svo stöddu… kannski á morgun :-)

Kristján Atli sendi inn - 24.05.04 22:04 - (Ummæli #1)

Drengir, Cisse er “done deal”. Lesið viðtalið við Houllier á offal vefnum og þar er staðfestingin. 5 ára samningur er undirskrifaður.

Mummi sendi inn - 24.05.04 22:09 - (Ummæli #2)

Já ég vissi það nú … Cissé kemur, pottþétt, sem betur fer. Allir sem hafa séð þann dreng spila (Guð blessi Eurosport) vita að þar er á ferðinni leikmaður sem er, að mínu mati, jafnvel betri en Owen. Það verður yndislegt loksins að sjá þá tvo saman frammi…

…en það þarf betri mann til að skapa fyrir þá en Danny Murphy! Van der Vaart takk! :-)

Kristján Atli sendi inn - 24.05.04 22:21 - (Ummæli #3)

Já, það er gott að heyra með Cisse. Ég er mjög spenntur fyrir honum. Ég get allavegana ekki séð að það sé þörf að bæta við framherjum núna þegar við erum með Cisse, Baros, Owen og Sinama Pongolle. Allt frábærir framherjar, allir undir 25.

Ég er í raun sáttur við þrjá af þessum fjórum, sem nefndir hafa verið. Vill helst ekki sjá Curbishley á Anfield, en O’Neill, Benitez og Mourinho eru allir góðir kostir. Helst vil ég sjá Mourinho, þó :-)

Einar Örn sendi inn - 25.05.04 00:36 - (Ummæli #4)

EF stefnan er að fá inn mann í staðinn sem veit hvernig á að fara með liðið alla leið, þá er Curbishley sjálfkrafa dottinn úr þessu því hann er með minnstu reynsluna af þessum nöfnum. O’Neill gæti verið góður kostur en ég er bara svo hræddur um að við förum að spila 3-5-2 bolta eins og þekkist hjá Celtic og Leicester undir hans stjórn.

Ég vil fá annaðhvort Mourinho eða Benitez.

Mummi sendi inn - 25.05.04 06:56 - (Ummæli #5)

Þú verður nú að skrifa nafnið hans Hyypia rétt :-)

Sigga Sif sendi inn - 25.05.04 10:10 - (Ummæli #6)

Jammm, finnska stafsetningin mín er ekkert alltof góð :-)

Einar Örn sendi inn - 25.05.04 14:21 - (Ummæli #7)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu