« Tengsl kommúnismans og Steven Gerrard | Aðalsíða | Houston »

Heimskasti maður í heimi er...

júní 25, 2004

…ég

Ég þarf að fara til Houston í viðskiptaferð, en ég gat nokkurn veginn skipulagt á hvaða tíma ég færi. Upphaflega hafði mér tekist að plana þetta svo snilldarlega að ég gat séð Cubs spila í Houston. En ferðafélagi minn meiddist og við þurftum að fresta ferðinni.

Þeir, sem við erum að heimsækja, lögðu þá til 28. og 29. júní og ég sagði já. Þetta gerði ég ÁN ÞESS að fatta það að á þessum dögum stendur EVRÓPUKEPPNIN í fótbolta yfir. Þetta þýðir að ég missi af Holland- Svíþjóð og ef að Hollendingar vinna þá missi ég líka af undanúrslitunum. Þetta kalla ég fyrsta flokks heimsku.


Annars nenni ég varla að fara út. Við fljúgum til New York á morgun og gistum þar aðra nótt en getum ekki farið inní borg vegna tímaskorts. Í Houston eru svo fundir skipulagðir báða dagana. Þannig að þetta verður lítið nema ferðalög og fundir. Höfum reyndar sunnudaginn nokkuð lausan en ég veit ekki hvort það sé mikið hægt að gera í Houston. Samkvæmt Lonely Planet er þar ekki margt spennandi að sjá.

Úff, voðaleg neikvæðni er þetta. Einhver þreyta í mér. Þessi vika hefur ekki farið alveg einsog ég vonaðist til á sunnudaginn. Ætla að laga mér einn bolla af kaffi og reyna að byrja að pakka.

Býst ekki við að uppfæra þessa síðu fyrr en vonandi næsta fimmtudag.

Einar Örn uppfærði kl. 20:24 | 225 Orð | Flokkur: Dagbók



Ummæli (4)


Já? Ég veit ekki. Ég verð að viðurkenna að ég upplifi það sem frekar pirrandi, sem einstætt foreldri í leiguíbúð á námslánum, að heyra fólk segja að það nenni ekki í utanlandsferðina sem það neyðist víst til að fara í.

Hildur sendi inn - 26.06.04 06:04 - (Ummæli #1)

Þetta er nefnilega dálítið algengur misskilningur að það sé ofboðslega gaman að ferðast í viðskiptaerindum. Það getur stundum verið ágætt, en oftast er það hundleiðinlegt.

Til dæmis einsog í þessari ferð. Ég þarf að bíða í samtals 14 tíma á flugvöllum á fimm dögum. Ég verð í raun á áfangastaðnum bara í tvo daga afa 5, hina dagana verð ég annaðhvort á flugi eða að bíða eftir flugi. Reyndar er ég með vinnufélaga í þessari ferð, en oftast er maður einn.

Á áfangastaðnum hef ég svo sennilega engan tíma til að skoða viðkomandi stað, heldur eru fundir skipulagðir allan tímann.

Annars var ég náttúrulega alls ekki að reyna að láta vorkenna mér, ekki taka því þannig, Hildur :-)

Það er vissulega skemmtilegra að vera í vinnu sem býður uppá svona ferðalög, en það er ekki þar með sagt að maður sé alltaf þvílíkt hress yfir þeim. Þetta er bara vinna, það er ekki einsog maður sé að fara í frí á sólarströnd :-)

Einar Örn sendi inn - 26.06.04 12:54 - (Ummæli #2)

Tók því alls ekki þannig og var eiginlega bara að grínast, sé það núna að það hefði kannski verið sniðugt að setja t.d. einhvern svona gaur :-) fyrir aftan til að draga úr biturðinni hjá mér, sem er akkúrat engin. Þannig að: :-)

Hildur sendi inn - 26.06.04 16:01 - (Ummæli #3)

Millilenti í Houston um daginn og innfæddur tjáði mér að þar væri ekkert merkilegt að sjá, því miður!

Hins vegar var bronsstyttan af George W. Bush eldri á flugvellinum millilendingarinnar virði! :-)

Óli Ágúst sendi inn - 27.06.04 23:11 - (Ummæli #4)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu