« Heimskasti maður í heimi er... | Aðalsíða | Kerti í dómkirkju í Barcelona »

Houston

júlí 01, 2004

Ég veit ekki hvurslags djöfulsins væl þetta var í mér fyrir ferðina til Houston. Mér fannst þetta vera svo mikið ferðalag fyrir stutt stopp en þegar allt kom til alls var þetta bara dásamlega fín ferð.

Fyrir það fyrsta borðaði ég æðislegan mat. Á sunnudaginn borðaði ég á uppáhalds veitingastaðnum mínum í öllum heiminum, California Pizza Kitchen. Þar fékk ég unaðslega BBQ Chicken Pizzu, sem ég var búinn að sakna alveg hrikalega mikið frá því ég bjó í USA. Svo fór ég líka á ekta mexíkóskan veitingastað (ekki texmex rusl) og fékk tacos al pastor, sem ég hef varla fengið síðan ég bjó í Mexíkó. Jesús, hvað það var gott. Æði að fara á alvöru mexíkóskan mat, þar sem maður fær alvöru margarítu með klaka (ekki frosið margarítu mix einsog á flestum stöðum).


Allavegana, við vorum að heimsækja birgja í Houston og voru móttökurnar alveg frábærar. Það var skipulögð dagskrá allan tímann, alveg frá morgni til kvölds. Fundirnir voru skemmtilegir, sem hjálpar alltaf og svo heimsóttum við verksmiðjur og verslanir.

Houston er skrítin borg. “Ten shopping malls in search of a city” sagði einhver og það er eiginlega rétt. Það eru í raun engin lög um skipulagningu borgarinnar, þannig að verksmiðjur eru settar inní mið íbúðarhverfi og því er miðbærinn frekar daufur. Einnig er borgin í raun bara eitt úthverfi.

Hitinn var fáránlegur og rakinn bætti ekki beint á ástandið. En í Houston er allt loftkælt í botn og því lifði maður þetta af. Ég sá í raun ekki mikið af borginni, enda er svosem ekki mikið að sjá. Þetta er típísk amerísk borg, með lítinn kjarna með mjög háum byggingum og svo endalausum úthverfum. Við gistum á æðislegu hóteli, sem var við hliðiná einni stærstu verslunarmiðstöð í Bandaríkjunum.

Það hefur svosem ekki mikið breyst í Bandaríkjunum. Kanar eru ennþá jafn fáránlega feitir, SportCenter er enn snilld, Fox News er enn jafn fáránlega íhaldssöm og Bill O’Reilly er enn sami lofthaus og hann var fyrir tveim árum.

Stelpur í Texas eru sætar, svei mér þá talsvert sætari en stelpur í Chicago. Fólkið í Texas er líka fáránlega nice. Allir elska George Bush og allir elska Texas. Það er eiginlega hálf erfitt að verða ekki dálítið mikinn skotinn í Texas. Það eru bara allir svo indælir, allir brosa til manns og spyrja hvernig maður hafi það. Og allir virðast vera blessurnarlega lausir við það að vera falskir. Einhvern veginn finnst mér einsog hægt væri að finna 10 milljón Texas búa, sem yrðu miklu betri forsetar en GWB.

Og talandi um W, þá fór ég og sá Fahrenheit 9/11. Hún er góð, en ég ætla að fjalla um hana í sér færslu.


Allavegana, þá var þetta góð ferð. Frábærar móttökur hjá birgjanum, góður matur, gott veður og skemmtilegt fólk.

Já, og svo var ég tekinn í tékk í tollinum. Og viti menn, eftir 165 tilraunir, þá loksins fann tollurinn eitthvað hjá mér. Ég gleymdi nefnilega að ég var með pela af gini í töskunni, sem ég hafði keypt á leiðinni út. 18 ára gamall tollari virtist í skýjunum yfir því að hafa upplýst þetta stórkostlega smygl og því var ég sektaður um 1.750 krónur og flaskan tekin af mér.


Svo kemur maður heim og Holland er dottið úr leik á EM og Gerrard hefur lýst því yfir að hann verði áfram hjá Liverpool! Mikið var það gott. Núna held ég með Milan Baros og Tékklandi. Vonandi vinna þeir þetta. Tékkarnir eiga það skilið.

Einar Örn uppfærði kl. 18:21 | 571 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (2)


Bara smá leiðindi. Hann hefur verið orðinn 20 ára þessi leiðndaseggur sem þú rakst á :-)

Sverrir sendi inn - 05.07.04 14:26 - (Ummæli #1)

Ok.

Hann var nú samt ekkert leiðinlegur. Ég er bara svo fúll að vera alltaf tekinn í tékk. Sérstaklega núna þegar hann tók ginpelann af mér :-)

Einar Örn sendi inn - 05.07.04 14:47 - (Ummæli #2)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu