« Chavez áfram! Ó kræst! | Aðalsíða | Sund á Ólympíuleikunum »

Bandaríkjaferð

ágúst 16, 2004

Jæja, þá eru ekki nema 5 dagar þangað til að ég fer í frí. Ég ákvað að taka sumarfrí svona seint til að reyna aðeins að lengja sumarið, þrátt fyrir að ég geri mér ekki alveg grein fyrir því í hvað þetta sumar hefur farið.

Allavegana, ég er að fara til Bandaríkjanna á laugardaginn. Ætla að hitta fullt af gömlum vinum og verða í Bandaríkjunum í 4 vikur.

Planið er lauslega þannig að ég ætla að fljúga til Washington D.C., þar sem ég ætla að gista hjá Genna og Söndru, vinum mínum sem búa þar. Frá D.C. ætla ég að fara til Chicago, þar sem ég ætla að eyða lengsta tímanum, enda á ég flesta vini í þeirri borg. Ætla að gista hjá Dan vini mínum, sem býr rétt hjá Wrigley Field. Ég ætla að eyða um 10 dögum í Chicago, hitta vini, fara á baseball leiki og á djammið.

Frá Chicago fer ég til Las Vegas með Dan vini mínum (og kannski einni vinkonu okkar líka). Þar ætlum við að eyða helginni saman. Þau fara svo á sunnudegi, en ég ætla að eyða tveim dögum í að skoða Grand Canyon.

Næsta stopp er ekki alveg ákveðið, en ég ætla að hitta Grace vinkonu mína, sem býr í Los Angeles. Það gæti þó verið að við myndum bara hittast í San Fransisco og ég myndi eyða tímanum þar í stað L.A. Einhvern veginn heillar San Fransisco mig meira en Los Angeles.

En allavegana, þaðan ætla ég til New York, þar sem ég ætla að gista hjá Ryan, herbergisfélaga mínum frá því í háskóla. Hann býr þar ásamt Kate kærustu sinni. Frá New York er það svo planið að taka lest niður til DC og þaðan heim til Íslands.

Þetta hljómar frekar mikið, en ég er að vona að þetta verði ekki dýrt. Fæ að öllum líkindum ókeypis gistingu alls staðar nema í Las Vegas (þar sem gistingin er fáránlega ódýr). Svo eru flugin innan Bandaríkjanna líka fáránlega ódýr.

En allavegana, get ekki beðið eftir því að komast burt. Sleppa við umtal, flækjur, vesen, stress og allt bullið hérna heima. Ég þarf frí.

Einar Örn uppfærði kl. 18:32 | 352 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (3)


Jamm… L.A er fín ef þú hefur nóg tíma eða bíl enda víðfermið endalausa. Eftir 2 vikur þar í mars hef ég ekkert endalausa löngu að fara þangað aftur. Ef þú ferð þá er Rough Guide töluvert betri í LA en LonelyPlanet fyrir S.F ef þú hefur eh áhuga á því.

Daði sendi inn - 16.08.04 22:47 - (Ummæli #1)

Ok, takk fyrir þetta. Ég hallast að San Fransisco, þar sem ég hef bara 4 daga og þeir eru allir í miðri viku, svo það verður ekki mikið djamm á mér :-)

Held að ég geti náð að sjá flest á 4 dögum í San Fransisco, en þurfi svo meiri tíma (og bíl, sem ég hef ekki) í L.A.

Einar Örn sendi inn - 17.08.04 10:58 - (Ummæli #2)

Hæ hó
Ég myndi líka frekar mæla með San Fransiskó, hún er miklu skemmtilegri ‘borg’ heldur en LA. Reyndu að fá gistingu í miðbænum (þó það sé dýrara) því það er margfalt þess virði. Ef þú ætlar út í Alcatraz skaltu panta það á netinu með þó nokkrum fyrirvara - mér fannst vel þess virði að kíkja þangað úteftir. Svo er bara æðislegt að vera í San Fransiskó upp á mannlífið, að rölta um í bænum, kíkja á kaffihús og fara á góða veitingastaði og svona.

Það er svo sem líka ýmislegt hægt að gera í L.A. en þú þarft (helst) bíl. Það er hræódýrt að leigja bíla hérna þ.a. það ætti ekki að vera mikið mál (og hótelin eru ódýrari þ.a. kostnaðurinn ætti að jafnast út), held að vikudílar séu um 100$. Ef þú ferð til LA þá skaltu pottþétt eyða einum degi á Venice Beach. Þar er öll hippakynslóðin sem aldrei gafst upp á hippaboðskapnum samankomin og alltaf mikið líf og fjör. Ef þú endilega vilt geturðu kíkt við í Hollywood en ég mæli með að þú stoppir þar í klukkustund - max! Það er ekkert að sjá þar, trúðu mér. Svo gætirðu notað einn dag í að kíkja út úr bænum, það eru bæði flott fjöll hérna í kring og svo er mjög gaman að kíkja í dagsferð til Santa Barbara eða San Diego. Ekki keyra samt til baka inn í LA fyrr en eftir myrkur - út af umferðinni.

Það er svalara þessa dagana í San Fran en í LA. Auk þess er meiri þoka þ.a. ef þú vilt sól og sumaryl er LA betri kostur. Inn til landsins er samt of heitt, en niður við ströndina er alveg æðislega gott að vera þessa dagana, 20-25 og gola. Þú gætir samt verið óheppinn og lent í 40 stiga degi - sem mun pottþétt ekki gerast í San Fran! Þú ert reyndar líka líklegur til að lenda í svoleiðis hitasvækju bæði í Vegas og Miklagljúfri.

Annars bara góða skemmtun!
Kv. Árdís LA-búi.

Árdís sendi inn - 17.08.04 21:30 - (Ummæli #3)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu