Serrano 10 ára

Serrano er 10 ára í dag.

Fyrir 10 árum vorum við Emil staddir á Stjörnutorgi að reyna að koma veitingastaðnum okkar stað af stað. Fjórum klukkutímum á eftir áætlun og án þess að ég hafi nokkurn tímann smakkað Serrano burrito þá opnuðum við staðinn. Ég hef rakið sögu þess hvernig staðurinn í þessu bloggi hér.

Þá sögu skrifaði ég fyrir 8 árum og á þessum átta árum hefur auðvitað gríðarlega mikið breyst. Fyrstu árin þá rákum við Emil Serrano í aukavinnu á meðan að við sinntum báðir annarri vinnu. Á því tímabili í mínu lífi lærði ég mikið, en á endanum þá ákvað ég að byrja í fullu starfi á Serrano í lok árs 2006 og Emil byrjaði svo ári síðar.

Ég hafði nægilega trú á konseptinu, mér fannst gaman af því að reka staðinn, ég var stoltur af fyrirtækinu og ég var viss um að Serrano væri það sem ég vildi vinna við allan daginn, alla daga. Það er mikilvægt að hafa trú á því sem maður er að selja í vinnunni og það hef ég í dag.


Það má segja að stærsta árið í sögu Serrano hafi verið 2007 þegar að við opnuðum okkar annan stað á Hringbraut. Sá staður hefur frá opnun verið okkar söluhæsti staður. Við höfum oft verið heppnir á þessum 10 árum. Til dæmis datt fyrsti staðurinn okkar í Kringlunni eiginlega í hendurnar á okkur eftir að við höfðum í marga mánuði verið að bíða eftir stað i í Smáralind, sem ekkert varð úr. Akkúrat á þeim tíma var Popeye’s að hætta á Íslandi og okkur bauðst að kaupa staðinn þeirra í Kringlunni.

Staðurinn okkar á Hringbraut var upphaflega teiknaður fyrir annan skyndibitastað, sem að hætti við. Einhver starfsmaður á arkitektastofunni hafði heyrt um Serrano og í framhaldi af því var haft samband við okkur og við fengum bilið. Eftirá að hyggja var það ótrúleg heppni.

Árið 2007 opnuðum við líka staðinn okkar í Smáralind, sem að við keyptum af WOK bar Nings. Ári seinna keyptum við svo veitingastaðinn Síam og opnuðum þar Serrano stað (og héldum rekstrinum á Síam áfram í einhverja mánuði án árangurs). Sá Serrano staður var lítill í byrjun en hefur með árunum stækkað gríðarlega. Seinna það ár opnuðum við svo Serrano á nýrri N1 bensínstöð á Bíldshöfða. Við hliðiná okkur þar var rekinn Pizza Pronto en á síðasta ári tókum við yfir þann stað og byrjuðum með NAM konseptið.

Svo kom hrun, en árið 2008 var samt sem áður okkar langbesta ár. Og 2009 var aftur okkar söluhæsta ár – met sem við svo toppuðum 2010, 2011 og munum líklega gera á þessu ári líka. Árið 2009 opnuðum við Serrano stað á Höfðatorgi. Svo tókum við okkur frí í þrjú ár frá byggingu á nýjum stöðum á Íslandi þangað til að við opnuðum stað í Spönginni í september.


Auðvitað þarf maður slatta af heppni til að halda úti veitingafyrirtæki í 10 ár. Við hittum á rétt konsept á réttum tíma og við höfum á mörgum tímapunktum verið verulega heppnir með það starfsfólk, sem hefur unnið með okkur.

En við höfum líka alltaf hugsað um matinn og reynt að bæta matinn og upplifunina á staðnum (og þar erum við rétt að byrja!). Við höfum haldið verðlagningunni sanngjarnri (jafnvel þegar að dunið hafa á okkur kostnaðarhækkanir þá höfum við reynt að hagræða í rekstri í stað þess að velta hækkunum útí verðið á matnum) og við höfum gert mikið til að halda okkar besta starfsfólki.

Ég og Emil erum enn bestu vinir eftir 10 ár í þessu samstarfi. Að vísu vinnum við í tveimur löndum, en við þurfum samt að glíma við allar erfiðar ákvarðanir saman, sem okkur hefur tekist að gera þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í rekstrinum í gegnum tíðina.

Þetta hafa verið frábær 10 ár og ég er í dag gríðarlega stoltur af Serrano og því starfi sem við höfum unnið. Við eigum og rekum í dag 12 Serrano staði og þeim mun líklega fjölga nokkuð hressilega á næstunni. Við vitum að við getum gert marga hluti betur og ég get fullvissað alla um að við munum aldrei hætta að leita að hlutum til að bæta matinn, upplifunina og konseptið.

Þið sem hafið unnið með okkur í gegnum tíðina, verið tryggir viðskiptavinir og hjálpað okkur persónulega vil ég bara segja TAKK!

35

Í dag er ég 35 ára. Það eru nákvæmlega 5 ár síðan ég skrifaði þetta á þrítugs afmælinu mínu.

Ég hugsaði aðeins hvað ég ætti að skrifa á þessa bloggsíðu við þetta tilefni. Hvar stend ég í dag? Hvernig er mitt líf? Ég gæti skrifað færslu um það að á síðustu fimm árum hef ég ferðast til Mið-Austurlanda, Egyptalands, Indónesíu, Indlands og fleiri landa. Serrano staðirnir, sem voru tveir fyrir fimm árum, verða eftir um mánuð orðnir sjö á á Íslandi og fimm í Svíþjóð. Ég hef flutt til Stokkhólms og bý á frábærum stað í miðri borginni.


En það sem skiptir máli varðandi þessi fimm ár er auðvitað að ég hef kynnst ótrúlega mörgu frábæru fólki. Fólk, sem ég þekkti varla fyrir fimm árum, eru meðal minna bestu vina í dag. Og jú þetta…

17.ágúst 2007 vaknaði ég einn í herberginu mínu á Hagamel. 17.ágúst 2012 var ég vakinn af Margréti Rós. Það að hitta hana fyrir rúmum fjórum árum er það besta sem hefur komið fyrir mig. Við giftum okkur fyrir rúmu ári á besta dagi lífs míns. Og við hliðiná henni lá Jóhann Orri, rétt tæplega 4 mánaða strákur, sem mér þykir alveg ofboðslega vænt um og sem kemur mér á óvart á hverjum degi.

Því þegar að illa gengur í vinnunni, þegar að liðið manns tapar og þegar veðrið er vont, þá skiptir það mestu máli hverjir bíða manns heima. Þau tvö bíða mín og því get ég stoltur sagt að þessi síðustu fimm ár hafi verið frábær og að ég hafi gert ansi margt rétt. Fyrir það er ég þakklátur.

Hvar er Matt? Árgerð 2012

Ég hef áður tengt á myndbönd, sem að Matt Harding hefur gert af sér dansandi á hinum ýmsu stöðum í heiminum.   Allt frá því að hann setti inn fyrsta mydnbandið af sér árið 2005.  Myndböndin eru alls fjögur og staðirnir sem hann dansar á orðnir ansi margir.

Hérna er svo 2012 myndbandið komið og dansarnir eru orðnir aðeins betur þjálfaðir og fleira fólk sem aðstoðar.  Þessi myndbönd koma mér alltaf í gott skap og eru svo sannarlega innblástur fyrir ferðalög.

Ömurlegasta Evrópukeppni sögunnar

Menn geta deilt um gæði fótboltans sem var spilaður á EM 2012. Mér finnst Spánn hundleiðinlegt lið en aðrir eru að missa sig yfir því hvað það er skemmtilegt að horfa á þá senda stuttar sendingar sín á milli í 90 mínútur. Gott og vel.

Það sem er hins vegar óumdeilt er að þetta mót hefur verið sögulega ömurlegt fyrir mig og þau lið, sem ég held með.

Það er ágætt að halda utanum þetta.

Riðlakeppni

Ég hélt með tveim liðum. Holland tapaði hverjum einasta leik í keppninni. Svíþjóð tapaði fyrstu tveimur leikjunum og var þar með dottið úr leik, en þeir náðu að vinna síðasta leikinn gegn Frakklandi, sem var smá sárabót, en sá leikur skipti engu máli.

Þannig að af leikjum sem skiptu máli þá unnu mín lið ENGAN leik. 0-5 er því staðan í leikjum talið.

8-liða úrslit

Í kjölfar þess að mín tvö uppáhaldslið voru dottin út þá hélt ég með Englandi og lýsti því yfir opinberlega. Fyrir það þá vonaðist ég samt til að Tékkar myndu senda heim Portúgal (sem ég þoli ekki), að Frakkar myndi taka Spánverja (sem ég er kominn með leið á) og ég vonaði frekar að Grikkir myndu taka Þjóðverja til þess að Englendingar gætu átt auðveldari andstæðing í 4 liða úrslitum.

Ekki einn af þessum leikjum fór einsog ég vonaði. 0-4 og því samanlagt 0-9 í leikjum talið fyrir allt mótið.

4-liða úrslit

Þarna vonaðist ég aftur til að Spánn myndi tapa og var kominn í þá furðulegu stöðu að styðja Portúgal með Pepe, Ronaldo, Nani og félaga. Í hinum leiknum var það svo mín helsta von Þýskaland, sem hlaut nú að taka Ítalíu. Ég lýsti því opinberlega yfir stuðningi við Þýskaland.

Niðurstaðan var sú að Spánn grísaðist til að vinna Portúgal í vítaspyrnukeppni og Þýskaland lék einhvern lélegasta leik sem ég hef séð þá spila. 0-2 niðurstaðan og því samanlagt 0-11.

Úrslitin

Óþol mitt fyrir Spánverjum á sér lítil takmörk og ég hélt því með Ítalíu í úrslitunum og lýst því yfir með nokkura daga fyrirvara, svo að aðrir gætu veðjað á Spán. Niðurstaðan var svo auðvitað spænskur sigur og til að toppa allt þá skoraði fokking Fernando Torres eitt mark.

Mér telst til að ég hafi horft á 12 leiki í þessu móti, sem að einhverju skipti fyrir mín lið. MÍN LIÐ UNNU EKKI EINN AF ÞESSUM LEIKJUM. Með öðrum orðum, ég hef ekki horft á einn einasta leik á þessu móti (fyrir utan tilgangslausan Svíþjóð-Frakklands-leik) án þess að verða fyrir vonbrigðum með úrslitin. Það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast til að toppa þetta mót.

Mitt val í forsetakosningunum

Ég hef lengi ætlað að skrifa eitthvað um þessar forsetakosningar á Íslandi, en af ólíkum ástæðum hefur það reynst mér erfitt. Þess vegna hef ég látið duga að tala um þær við vini mína og deila á Twitter og Facebook einstaka greinum eftir fólk sem ég er sammála.

Fyrir mér snúast þessar kosningar fyrst og fremst um það hvort að núverandi forseti, Ólafur Ragnar, eigi að sitja áfram. Það er fyrsta spurningin sem allir verða að gera upp við sig. Þegar og ef maður hefur svarð þeirri spurningu neitandi þá getur maður haldið áfram með þá næstu, það er hver eigi þá að taka við.

* * *

Ólafur Ragnar hefur verið forseti í 16 ár. Þegar að hann var kosinn forseti var ég skiptinemi í Venezuela, þá 18 ára gamall. Í dag er ég 34 ára gamall. Á ævi minni hafa verið á Íslandi þrír forsetar, þar af bara tveir sem ég man eftir. Ég man hins vegar vel eftir 5 Bandaríkjaforsetum – Reagan, Bush eldri, Clinton, Bush yngri og Obama. Þegar að Ólafur Ragnar tók við var Clinton forseti Bandaríkjanna, allir notuðu Windows 95 og ég hlustaði á Gangsta’s Paradise með Coolio og What’s the Story Morning Glory með Oasis, sem var þá nýkomin út. Það voru enn nokkur ár í að ég keypti minn fysta gsm síma, ég átti enn eftir að prófa internetið í fyrsta skipti og þegar ég kaus í forsetakosningunum á skrifstofu í Caracas þá voru einu upplýsingarnar sem ég hafði um frambjóðendurna nokkrar blaðaklippur, sem að mamma hafði sent mér í pósti. Einstaklingar, sem eru 33 ára í dag hafa aldrei getað kosið raunhæfan valkost við Ólaf Ragnar í forsetakosningum.

Það hafa verið skrifaðar ótal svona greinar til að lýsa því hversu ofboðslega lengi Ólafur Ragnar hefur verið forseti og ég ætla svo sem ekki að bæta einni við. En aðalatriðið í kosningum, þar sem að svo þaulsetinn leiðtogi er áfram í framboði, hlýtur að vera hvernig hann réttlætir það að hann eigi að sitja áfram. Ólafur Ragnar ætti að geta gefið okkur góðar ástæður fyrir því af hverju við eigum að blanda okkur í hóp með Zimbabwe og Úsbekistan og hafa sama manninn forseta í 20 ár eða meira (hvernig eigum við að vita að hann láti 4 ár duga ef hann vinnur? Það hefur ekki verið mikið að marka hans yfirlýsingar um þau mál hingað til). Af hverju er Ólafur Ragnar svo ómissandi fyrir Ísland að enginn annar geti komið í hans stað?

Í allri þessari kosningabaráttu hef ég ekki heyrt eina sannfærandi ástæðu fyrir því að Ólafur Ragnar eigi að sitja áfram. Hann hefur sjálfur í sinni neikvæðu kosningabaráttu talað um að Ísland sé að fara inní eitthvað sérstakt hættuástand og að þjóðin þurfi á honum að halda til að komast í gegnum næstu ár. Hefði ég þá haldið að ef slík óvissa væri uppi að það væri kannski ráð að skipta út forsetanum sem hefur verið við völd síðustu 16 ár. Ég get ekki skilið í hverju aðstoð Ólafs Ragnars á að felast til að koma okkur í gegnum þessa óvissutíma. Fyrir þá sem hata núverandi ríkisstjórn þá er gaman að geta þess að á næsta ári eru þingkosningar, þar sem menn geta reynt að koma sínum flokki til valda. Forsetakosningarnar eiga ekki að snúast um það hvort ríkisstjórnin er vinsæl eða óvinsæl.

Stærsta breyting næstu ára er jú væntanlega möguleg innganga í ESB, en sú innganga mun alltaf fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég get ekki séð hvernig að Ólafur Ragnar á að hafa áhrif á það mál á einn eða annan hátt. Ég sem stuðningsmaður aðildar tel það litlu skipta, þegar að kosningum um aðild kemur, hvort að Ólafur sé á Bessastöðum eða ekki. Ég tel að í þessu máli einsog kannski öðrum þá ofmeti Ólafur sitt eigið mikilvægi.

Aðrar ástæður fyrir áframhaldandi setu hefur Ólafur Ragnar varla gefið. Hann hefur nánast ekkert talað um afrek sín í starfi nema höfnun á Icesave 2 og stærstur hluti kosningabaráttu hans (allavegana einsog hún blasir við mér í Svíþjóð) hefur farið í því að gera stærsta keppinaut hans tortryggilegan fyrir litlar sakir og í það að byggja upp mynd af Íslandi sem landi á ógurlegum krossgötum og sem stefni inní mikið óvissutímabil.

* * *

Þegar að ég horfi í baksýnisspegilinn þá get ég viðurkennt eftirá Ólafur Ragnar gerði rétt þegar hann hafnaði Icesave 2 samningnum, en að mínu mati gerði hann rangt þegar að hann hafnaði Icesave 3 samningnum, enda taldi ég það vera góðan samning og um hann náðist nokkuð breið samstaða á Alþingi með stuðningi Sjálfstæðisflokksins.

Ólafur Ragnar mun þó alltaf vera fyrst og fremst maðurinn sem fór um víðan völl og básúnaði um stórkostlega hæfni Íslendinga í viðskiptum. Um það er fjallað á mjög góðan og hlutlausan hátt í skýrslu rannsóknarnefndar um efnahagshrunið. Þann kafla ættu allir að lesa. Ólafur bjó til fáránlega sögu um það að víkingablóð og þétt samskipti okkar á milli gerðu okkur einhvern veginn færari til að reka banka en fólk frá öðrum löndum.

Þetta var auðvitað fáránlegt, ekki bara þegar maður hugsar til þess hvernig þetta allt fór og á hverju góður árangur var byggður. Þetta er jafn fáránlegt og að Svíakonungur myndi fara um allan heim og útskýra það hvernig að samvera við öll tréin í Svíþjóð gerði það að verkum að Svíar væru betri en allar þjóðir í að búa til ódýr húsgögn eða ódýr föt. Þetta dettur honum ekki í hug að gera þótt að frá Svíþjóð komi frábær fyrirtæki í þessum greinum. En þetta gerði Ólafur Ragnar fullur af þjóðernishroka og lofaði í lok ræðunnar You ain’t seen nothing yet.

* * *

Ólafur er búinn að vera forseti í 16 ár og var að mörgu leyti helsti fulltrúi útrásarinnar á Íslandi – maðurinn sem fór í einkaþotum með bankamönnum um allan heim, hélt þeim fín boð og hengdi á þá orður og ferðaðist um heiminn uppfullur af þjóðernisrembingi um það hversu frábærir Íslendingar voru. Ólafur Ragnar verður aldrei aftur forseti allrar þjóðarinnar. Hann verður aldrei forseti sem að allir geta sæst við. Hann verður alltaf umdeildur.

Þess vegna vil ég fá nýjan forseta. Ég vil fá forseta sem að öll þjóðin getur verið sátt við. Hógværan einstakling, sem elskar sitt land, en gerir sér um leið grein fyrir því að við erum ekki betri en aðrar þjóðir og myndi aldrei detta í hug að halda slíku fram. Mér er sama hvort sá forseti kemur úr atvinnu- eða menningarlífi, hvort að hann hafi einu sinni kosið Samfylkinguna, Framsókn eða Sjálfstæðisflokkinn. Ég vil að forsetaembættið sé skipað einstaklingi sem að vekur ekki upp reiði hjá helmingi þjóðarinnar. Þjóðmálaumræða á Íslandi er það leiðinleg að við þurfum ekki á því að halda að meira að segja forsetaembættið valdi líka eilífum deilum.

Á netinu sé ég einmitt að þeir sem heitast fylgja Ólafi Ragnari (í tilfelli fólks sem ég fylgist með oftast harðir hægri menn) virðast aðallega fylgja honum vegna þess að hann er akkúrat ekki sameiningartákn. Akkúrat ekki maður sem allir geta verið sáttur við. Nei, hann er kallinn sem er flottastur í kappræðum, sem að stingur uppí aðra frambjóðsendur og fjölmiðlamenn. Enginn efast um að Ólafur er bestur í að dóminera í kappræðum enda með áratuga langa reynslu úr stjórnmálum fyrir hina ýmsu flokka. En á það virkilega að vera helsti kostur forseta að hann sé góður í þessum hlutum? Gætum við þá ekki alveg eins kosið Davíð?

* * *

Af hinum frambjóðendunum hefur mér frá fyrsta degi litist vel á Þóru Arnórsdóttur.

Af því sem ég hef lesið á netinu þá sér fólk aðallega tvo galla við Þóru. Annars vegar er hún ekki jafn örugg í kappræðum og Ólafur Ragnar, sem er að mínu mati ósköp eðlilegt miðað við reynslu þeirra beggja. Hins vegar var hún einu sinni í ungliðahreyfingu Alþýðuflokksins. Í hálf truflaðri umræðu um pólitík eftir hrun er það allt í einu orðin dauðasök að hafa starfað í ungliðahreyfingum stjórmálaflokkanna. Hafandi starfað í ungliðahreyfingu flokks og kynnst þar bæði mörgum af mínum bestu vinum og óbeint eiginkonu minni þá get ég sagt að í þessu starfi er oft samankomið það fólk sem lætur sig mest varða framtíð þjóðfélagsins. Fólk sem hefur áhuga á að ræða um þjóðmál og hvernig það á að bæta þetta samfélag. Flestir sem að ég þekki úr þessu starfi vinna í dag á almennum vinnumarkaði og hafa aldrei þegið krónu tengda þessu starfi.

Það að allt þetta fólk sé dæmt úr leik af fólki er sorglegt. Það að Þóra Arnórsdóttir hafi 22 ára gömul starfað í ungliðahreyfingu stjórnmálaflokk ætti fyrst og fremst að sýna að hún hefur lengi haft áhuga á þjóðmálum og bættu lífi á okkar landi.

Fyrir mér er kominn tími á nýtt fólk. Ólafur Ragnar verður 70 ára gamall á næsta ári. Þóra er 37 ára gömul. Kynslóð Ólafs Ragnars, Davíðs og félaga hefur stjórnað þessu landi frá því að ég fæddist og núna er einfaldlega kominn tími á breytingar, á nýja kynslóð og nýtt fólk.

Þóra hefur að mínu mati réttar hugmyndir um hvað forsetaembættið á að snúast. Forsetinn á að sameina þjóðina en ekki sundra henni. Við getum rifist um allan fjandann, en forsetinn á að vera einstaklingur sem að við getum sameinast um. Þóra er ung kona, móðir, vel menntuð, klár, kemur vel fyrir og yrði án efa frábær fulltrúi okkar unga lands útí heimi. Mér finnst það ótrúlega flott að kona með nýfætt barn sé óhrædd við að taka þetta starf að sér og það sýnir að mörgu leyti hversu framarlega við Íslendingar erum jú í jafnréttismálum.

Kosningarnar um næstu helgi gefa okkur enn eitt tækifærið til að komast yfir hrunið og velja einstakling, sem getur hjálpað okkur að sameinast og horfa fram á veginn í stað þess að þræta endalaust um atburði sem gerðust fyrir mörgum árum. Það er tækifæri sem við megum ekki missa af.

Ég kýs Þóru og hvet þig til að gera það líka.