Fyrstu dagarnir í þessari Indónesíuferð hafa farið í ferðalög á milli staða með stuttum stoppum. Fyrst núna erum við komin til borgar, Yogyakarta, þar sem við ætlum að vera í meira en sólarahring.
Við flugum frá Stokkhólmi til Bangkok (um 10 tímar), vorum þar í hálfan dag, flugum þaðan til Jakarta – skoðuðum þá borg í hálfan dag og tókum svo í morgun 9 tíma lestarferð hingað til Yogyakarta. Þannig að núna líður okkur einsog við höfum ferðast hálfan heiminn og getum byrjað að njóta ferðalagsins.
Bangkok og Jakarta eru auðvitað hálf geðveikar borgir. Ég hef áður komið til Bangkok – var þar árið 2006. Þá eyddi ég nokkrum dögum í borginni – gisti á Kao San, heimsótti öll hofin og borðaði ósköpin öll af Phat Thai.
Núna var tíminn mun skemmri. Við höfðum bara nokkra klukkutíma (auk þess sem að geðsjúkur krakki hafði lagt mig í einelti allt flugið til Bangkok með köllum á móður sína og því hafði ég ekkert sofið) og ákvað ég að sýna Margréti eftirminnilegustu staðina frá síðustu heimsókn, það er Wat Phra Keo og Wat Po. Ég hafði reyndar algjörlega gleymt reglum um klæðaburð í hofunum, þannig að ég þurfti að klæðast láns-náttbuxum yfir stuttbuxurnar mínar til að fá aðgang. Margrét fékk svo gullfallegt og tandurhreint pils til að vera í. Þetta jók á skemmtangildið því að náttbuxurnar juku á áhrif rakans og hitans.
Hofin eru auðvitað jafnfalleg og fyrir þremur árum. Einstaklega glæsilegar byggingar, sem eru nánast einsog nýjar þrátt fyrir að hafa verið byggðar fyrir rúmum 200 árum. Eftir að hafa borðað Pad Thai fórum við svo aftur útá kónga-flugvöllinn þar sem að við biðum eftir fluginu til Jakarta.
* * *
Í Jakarta lentum við á Soekarno-Hatta, nokkuð gamaldags flugvelli sem er skreyttum með hótunum um dauðadóm fyrir fíkniefna-smygl. Fyrir utan tók við hefðbundið leigubílahark en að lokum fundum við bíl og upplifðum Jakarta í fyrsta sinn klukkan 2 um nótt á 120 kílómetra-hraða í gegnum borgina.
Ég verð að játa að ég hafði ekki hugmynd um við hverju ég ætti að búast í Jakarta. Fáir túristar heimsækja hana og þeir sem gera það eru sjaldan hrifnir. Auk þess man ég ekki eftir að hafa séð margar myndir frá borginni. Það var því nokkuð skrýtið að upplifa hana í fyrsta sinn svona í myrkrinu – hún leit hreint ekki svo illa út – eiginlega betur en Bangkok, sem við höfðum keyrt um fyrr um daginn.
Daginn eftir (í gær) vöknuðum við seint og gátum loksins séð borgina. Af því litla sem við sáum þá er hún gríðarlega stór, með mikilli mengun og litlum sjarma. Við gistum nálægt miðpunkti borgarinnar, einkennilegu minnismerki sem að Soekarno (sem að stýrði landinu frá sjálfstæði – 1945-1967) byggði sér til dýrðar.
Við röltum aðeins um nágrennið, smökkuðum bandarískt keðjukaffi (ekki mjög svalt þegar maður er á fokking Jövu, ég veit) og fórum svo yfir í næsta hverfi þar sem að meðal annars er þriðja stærsta moska í heimi (á eftir Mekka og Medína) – Istiqlal. Sú bygging líkist meira risa-bílastæðahúsi en mosku. En þegar við fórum inn var tekið á móti okkur með opnum örmum af einstaklega vinalegum guide, sem að sýndi okkur aðeins um moskuna. Um kvöldið borðuðum við svo frábæran indónesískan mat.
Í morgun tókum við svo lest frá Jakarta. Á labbi okkar um bæinn í gær, sem og í lestinni í morgun var ekki erfitt að sjá verstu hliðar Jakarta. Borgin hefur vaxið gríðarlega á örfáum áratugum. Í dag er talið að í henni búi allt að 25 milljónir (official talan er 18,9 milljónir en flestir telja hana mun hærri), sem gerir svæðið að næst fjölmennasta svæði í heimi (á eftir Tókíó). Mikill hluti borgarbúa býr í hreysum, þar sem að vatn er ódrekkandi og rusl útum allt. Java öll er gríðarlega þéttbýl (hér búa 130 milljónir á svæði sem er um 30% stærra en Ísland – ótrúlegt) en Jakarta slær allt út.
Því miður er svo ekki mikið fyrir túrista að sækja í Jakarta, traffíkin í borginni er nánast óbærileg og vegna þess hversu víðfem hún er þá eru öll ferðalög á milli staða erfið.
Við ákváðum því að drífa okkur hingað til Yogyakarta. Við tókum lestina frá aðal-lestarstöðinni í Jakarta. Lestarferðin var um 9 tímar og ég svaf mestallan partinn á meðan að Margrét Rós las síðustu Harry Potter bókina. Yogyakarta verður okkar bækistöð næstu daga og auk þess að skoða borgina munum við nota hana sem bækistöð til að skoða Borobodur og Prambanan.
Mikið er gott að vera kominn af stað á ný.
Skrifað í Yogyakarta á eyjunni Jövu, Indónesíu klukkan 22.06