Ég verð að játa það að ég er ennþá svekktur yfir úrslitum kosninganna. Hef bara svo lítið álit á Sjálfstæðismönnum að ég efast stórlega um að þeir geri margt til að gera Reykjavík að skemmtilegri eða meira spennandi borg. Flestir, sem kusu xD búa í Grafarvoginum og eru eflaust sáttir við þá borgarmynd, sem þar er. Spurning hvort það sé einhvern tímann hægt að sætta viðhorf þeirra, sem búa í einbýli í úthverfum og okkar hinna, sem búum nær miðbænum. Kannski að við séum bara í minnihluta, sem viljum sjá þéttari og meira spennandi borg.
En kannski er ég bara of svartsýnn. Vona bara að þeir semji við VG, en ekki hina flokkana.
Fór með kærustunni á mótmælin á Austurvelli gegn virkjanastarfseminni. Skrifaði undir mótmælaskjal þar, þrátt fyrir að ég viti ekki nákvæmlega hverju það á að skila. Framsóknarflokkurinn er að þurrkast út, en samt mun sennilega enginn fatta að það gæti verið stóriðjustefnunni að kenna.
Var svo í grilli og horfði á kosningavökuna fram til 12. Fór í þetta umtalaða Kristalla partí, sem menn voru að keppast við [að](http://www.badabing.is/2006/05/kristall_til_soelu.html) [dissa](http://www.this.is/drgunni/gerast.html). Þegar við komum niður í Iðu sáum við að biðröðin var löng og engin hreyfing á henni. Þegar að einhver stelpa kom í röðina fyrir aftan mig og hrópaði yfir hópinn: “hvað er málið með þessa dyraverði, fatta þeir ekki að sumir fengu kristal, en aðrir ekki”, þá ákvaðum við að þetta væri ekki beint sá staður, sem við vildum vera á. Löbbuðum upp Laugaveginn og inná nokkra staði, en alls staðar var troðið. Löbbuðum því aftur niðrí bæ þar sem biðröðin hafði alltí einu horfin og því kíktum við inn. Drukkum nokkra vodka+orkudrykki í boði Kók (takk!). Horfðum á einhver bönd á efri hæðinni, þar á meðal [dr.mister & mr. handsome](http://profile.myspace.com/index.cfm?fuseaction=user.viewprofile&friendid=41026415), sem mér fannst fínt band. Enduðum svo ásamt fleira fólki á Vegamótum.
* * *
Fyrir þetta djamm hafði ég ekki farið á skemmtistaðadjamm í margar vikur. Var reyndar í steggjapartýi í síðustu viku, en það telst varla með. Var alveg óheyrilega slappur og þunnur í gær og held að ég sé ennþá að jafna mig.
* * *
Annars vil ég lýsa frati á þessa ríkisstjórn. Á meðan að það er ennþá fólk, sem þarf að safna saman dósum á götunni á meðan aðrir djamma, þá er eitthvað mikið að í þessu velferðarkerfi okkar. Við erum að breytast í fokking Bandaríkin. Fyrirsögnin á DV um að 10 ríkustu einstaklingarnir eigi 712 milljarða (þeir gætu tekið sig saman um að gefa hverjum einasta Íslending 2,3 milljónir) en samt er hettuklætt fólk að safna saman dósum á götunni. Ömurlegt ástand. Af hverju er aldrei skrifað um þetta fólk?