Móðgum múslima!

[Þetta](http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060130/SKODANIR0201/60130076/1080) hlýtur að vera asnalegasti pistill, sem Egill Helgason hefur skrifað á Vísi.is: [Birtum fleiri skopmyndir](http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060130/SKODANIR0201/60130076/1080). Egill fjallar þarna um viðbrögð múslima við því að danskt blað hafi birt skopmynd af Múhameð spámanni.

Egill, sem hefur verið iðinn við að verja kristna íhaldsmenn, en bölvast útí múslimska íhaldsmenn að undanförnu, er ósáttur við viðbrögð múslima við skopmyndinni. Viðbrögðin eru að mörgu leyti öfgakennd, en þó að einhverju leyti skiljanleg, þar sem það þykir ekki til siðs í íslam að reyna að búa til myndir af Múhameð spámanni. Því er skiljanlegt að múslimar móðgist þegar að skopmynd birtist af honum. Ólíkt kristnum mönnum, sem birta kristmyndir útum allt, þá er það bannað í íslam að birta myndir af Múhameð.

Skopteikningar af Múhameð eru því asnalegar og sanna ekki neitt. Þær virðast vera birtar einungis til að móðga múslima og særa. Okkur kann að finnast það bjánalegt að þeir móðgist við slíkt, en svona er það samt. Því er tillaga Egils í lok pistilsins afskaplega skrýtin:

>Það má alls ekki beygja sig fyrir þessu, heldur er eina andsvarið að birta fleiri svona myndir – ofbeldismönnunum mun vaxa í augum að þurfa að ofsækja þúsundir blaðamanna, ritstjóra og netverja. Þið gætuð til dæmis kópíerað myndirnar sem birtist með þessari grein og sett þær sem víðast.

Þarna er Egill væntanlega að gefa í skyn að ofbeldismenn séu þeir einu, sem móðgist við slíkar myndbirtingar. Það er náttúrulega tóm tjara. Fullt af góðu fólki móðgast um leið þegar að trú þeirra er vanvirt. Það kann að vera að okkur finnist þessi trú skrýtin, en það gefur okkur samt ekki leyfi til að gera lítið úr henni. Og það að virtur fjölmiðlamaður leggi til að við reynum að gera sem mest í að móðga múslima er afskaplega kjánalegt.

Sviptur titlinum

Robbie Fowler er kominn [aftur til Liverpool](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2006/01/27/16.58.32/). Það er frétt ársins hingað til. Allavegana hvað mig varðar, en aðrir gætu þó haft annað fréttamat. Hver veit.


Er þetta ekki dálítið [magnað](http://www.ungfruisland.is/fullfrettir.php?id=94&p=1&lang=is):

>Fegurðarsamkeppni Íslands hefur tekið þá ákvörðun að Ólafur Geir Jónsson, Herra Ísland 2005 verði sviptur titlinum og er það í fyrsta sinn í sögu Fegurðarsamkeppni Íslands sem slíkt er gert.

>…

>Ólafur Geir hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem keppnin gerir til Herra Íslands ár hvert, en við val hans er leitast við að velja fulltrúa sem er keppninni til sóma bæði hérlendis og erlendis.

Skrýtið, eh? Hérna geturðu [svo lesið](http://www.123.is/oligeir/Default.aspx?page=home&sa=GetRecord&id=9835) um það hvernig þetta kom til. Ef að frásögn Óla er rétt, þá er þetta ansi döpur blaðamennska hjá Hér & Nú.


Ég er að fara út í fyrramálið í vinnuferð til Kölnar. Ég nenni svo innilega ekki að fara strax aftur út, þar sem ég hef ekki verið í viku á Íslandi, en ég þarf þó víst að fara. Verð í Köln fram á miðvikudag.

Ædol

Halli [bendir](http://www.icomefromreykjavik.com/halli/archives/2006/01/apocalypse_er_i.html) á þessa snilld. Úr nýjasta American Idol er það [Crystal Parizanski](http://justjared.blogspot.com/2006/01/crystal-parizanski.html), sem er að slá í gegn.

[Myndbandið með áheyrnarprufu hennar er einfaldlega stórkostlegt](http://justjared.blogspot.com/2006/01/crystal-parizanski.html). Yndislegt!

Prófkjör í Kópavogi

[Jens vinur minn](http://www.jenssigurdsson.com/) er að bjóða sig fram í 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi. Ef þú býrð í Kópavogi, þá mæli ég eindregið með því að þú kjósir hann og fáir jafnvel vini og vandamenn til að gera hið sama.

Jens er nefnilega snillingur!

Hann er afburða greindur og er einn af fáum pólitíkusum, sem hefur áhuga á breiðari línum í pólitík í stað þess að standa í almennu dægurþrasi. Við erum svo oftast sammála um pólitík, sem er jákvætt. Höfum fylgt hægri og vinstri sveiflum hjá hvor öðrum í gegnum árin.

En allavegana, ef þið hafið áhuga á bæjarmálum í Kópavogi (sem ég hef reyndar ekki), þá mæli ég með að þið tékkið á [síðunni hans Jensa](http://www.jenssigurdsson.com/), sem er ekki aðeins ein besta bloggsíða landsins, heldur inniheldur hún líka hugmyndir Jensa og hans stefnu í bæjarmálum.

Áfram Jens!

Íslensk dagskrárgerð

Ef að Party 101 og Splash TV eru þættirnir, sem voru valdir úr hópi tillagna að nýjum þáttum á Sirkus, hvernig voru þá þættirnir, sem var hafnað? Væri það ekki ljómandi sjónvarpsefni að sýna þá. Þeir hljóta að ná hringnum.

Ég bind allavegana vonir við að Gillzenegger bjargi íslenskri dagskrárgerð. Hann er allavegana á tíðum fyndinn penni

* * *

Er fastur á flugvellinum í Malmö. Kom hingað og ætlaði að reyna að flýta fluginu til Stokkhólms, en það tókst ekki. Því er ég fastur í 4 tíma á flugvelli, sem býður ekki uppá neitt. Guði sé lof fyrir þráðlaust net. Og Sirkus!

Sverige

Ég held því fram eftir þennan dag að ég viti meira um barnamat en þú!

* * *

Hitti systur mína og fjölskyldu í gær í Köben. Mikið var það næs. Eyddi deginum í spjall, lét litla frænda minn rústa mér í Playstation og slíkt. Mjög gaman. Tók svo lest yfir til Malmö og hélt að ég myndi sjá Stórabeltisbrúna, sem við fórum víst yfir. Einhvern veginn tókst mér að missa af henni. Veit ekki alveg hvernig það gerðist.

* * *

Þrátt fyrir að ég hafi lært dönsku í 8 ár, þá skil ég ekki orð í talaðri dönsku. Ég skil hins vegar fullt í sænsku. Það þykir mér magnað.

* * *

Á þessari síðu geturðu séð hin ýmsu [svipbrigði Paris Hilton](http://parisfacial.ytmnd.com/). Nokkuð magnað, eh?

Út!

Jæja, fyrsta utanlandsferðin mín í ár er plönuð á morgun. Ætla að eyða næstu dögum í sæluríki jafnaðarmannastefnunnar, Svíþjóð.

Á að fljúga til Köben, þar sem ég ætla að hitta systur mína og fjölskyldu. Þaðan er planið að fara til Malmö á tveggja daga fund. Svo ætla ég að njóta lífsins í Stokkhólmi yfir helgina.

Jei!

Framsókn á Múrnum

Góð grein á Múrnum: [Hver er ábyrgðartilfinning Framsóknarflokksins?](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1854&gerd=Frettir&arg=6)

>Að þessu sögðu er vert að velta fyrir sér digurbarkalegum yfirlýsingum Hjálmars Árnasonar um DV-málið. Hjálmar, sem seint verður talinn orðheppinn stjórnmálamaður, lét þennan dóm falla á heimasíðu sinni: ,,DV fór yfir strikið og ekki einasta greip til mannorðsmorðs heldur morðs í eiginlegri merkingu.” Þessi yfirlýsing þingsflokksformanns Framsóknar er þvættingur. Ritstjórar DV eru ekki morðingjar fremur en þeir eru meðferðarfulltrúar fórnarlamba kynferðisafbrotamanna.

og

>Allur þingflokkur Framsóknar virðist hafa samþykkt aðild Íslands að innrás Bandaríkjanna í Írak. Enginn þeirra hefur hrópað morð eða krafist afsagnar neins í því tilfelli, jafnvel þótt formaður þeirra hafi verið utanríkisráðherra og hafi tekið ákvörðunina á sínum tíma. Sú innrás var ólögleg, framkvæmd á upplognum forsendum og hefur kostað tugi þúsunda ef ekki hundruð þúsunda manna lífið. Er enginn morðingi eða sökudólgur í því tilfelli að mati Hjálmars Árnasonar?

Sjá greinina [hér](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1854&gerd=Frettir&arg=6)

Tilraun dagsins

Í tilraun dagsins ákvað ég að prófa að setja iPod Nano í þvottavél og kanna hvort hann myndi lifa af einn klukkutíma í 40 gráðu heitu vatni.

Niðurstaðan: **Nei**, hann þolir það ekki.

Fokk, fokk ,FOOOOKKKK!


Í gærkvöldi var ég með vini mínum á Ólíver og skemmtum við okkur frábærlega. Í dágóðan tíma var stelpa að reyna við mig. Eftir nokkrar mínútur breyttist hún þó aðeins og sagði að það væri sennilega ekki sniðugt að hún væri að reyna við mig, þar sem ég væri “alltof ungur”.

Ég og vinur minn sprungum úr hlátri. Eftir smá tal komumst við að því að hún væri jafngömul og ég, það er 28. Hún hélt hins vegar að ég væri 23 ára(!)

Í framhaldinu hélt ég því fram að ég væri ekki enn kominn á þann aldur að ég yrði eitthvað sérstaklega uppveðraður af því að vera talinn yngri en ég er (sem ég er nánast alltaf). Mér finnst það oft skemmtilegt, en ég efast um að ánægjan sé jafn einlæg og hún yrði hjá 28 ára stelpu, sem myndi lenda í svipaðri aðstöðu. Viðstaddir trúðu mér ekki.


Áður en við fórum niður í bæ horfðum ég og vinur minn á nokkra þætti í fyrstu seríu af Arrested Development. Þessir þættir eru einfaldlega stórkostlegir. Og ég er ekki frá því að þeir batni tífalt við það að maður horfi á þá í félagsskap og undir áhrifum áfengis. Ég hef allavegana ekki hlegið svona mikið lengi.


Á konakt-listanum mínum í MSN eru tvær stelpur með mynd af sér með Quentin Tarantino. Þær tengjast (svo ég viti) ekki neitt. Þetta finnst mér mögnuð tilviljun. Quentin hefur greinilega farið víða í Íslandsför sinni.


Í kvöld klukkan 10 á Sýn: CHICAGO BEARS [á móti](http://sports.espn.go.com/nfl/playoffs05/series?series=carchi) carolina panthers í úrslitakeppni NFL í beinni frá Chicago. Jessss!

Fjölmiðlapistill

Plís! Ó, Góður Guð! Geturðu fengið íslenska þáttastjórnendur til að hætta að bjóða Eggerti Skúlasyni í viðtalsþætti?

Og plís, plís, plíííííís látið þau hætta að taka viðtöl við lítil börn. Þau hafa ekkert merkilegt að segja í fréttum.

* * *

Ef þú ert milljarðamæringur og vilt kaupa [þennan vef-fjölmiðil, eoe.is](https://www.eoe.is), til þess eins að leggja hann niður, þá er ég *tilbúinn* í viðræður. Segjum að þú sért bæði milljarðamæringur og Manchester United aðdáandi, þá væri ekki úr vegi að kaupa til dæmis [Liverpool bloggið](https://www.eoe.is/liverpool) til þess eins að leggja það niður.

Ég er opinn fyrir viðræðum. Eigum við að segja 5 milljónir á hvora síðu. Helst reiðufé, en myndi sætta mig við hlutabréf í vel stæðum fyrirtækjum. Takk.