[Þetta](http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060130/SKODANIR0201/60130076/1080) hlýtur að vera asnalegasti pistill, sem Egill Helgason hefur skrifað á Vísi.is: [Birtum fleiri skopmyndir](http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060130/SKODANIR0201/60130076/1080). Egill fjallar þarna um viðbrögð múslima við því að danskt blað hafi birt skopmynd af Múhameð spámanni.
Egill, sem hefur verið iðinn við að verja kristna íhaldsmenn, en bölvast útí múslimska íhaldsmenn að undanförnu, er ósáttur við viðbrögð múslima við skopmyndinni. Viðbrögðin eru að mörgu leyti öfgakennd, en þó að einhverju leyti skiljanleg, þar sem það þykir ekki til siðs í íslam að reyna að búa til myndir af Múhameð spámanni. Því er skiljanlegt að múslimar móðgist þegar að skopmynd birtist af honum. Ólíkt kristnum mönnum, sem birta kristmyndir útum allt, þá er það bannað í íslam að birta myndir af Múhameð.
Skopteikningar af Múhameð eru því asnalegar og sanna ekki neitt. Þær virðast vera birtar einungis til að móðga múslima og særa. Okkur kann að finnast það bjánalegt að þeir móðgist við slíkt, en svona er það samt. Því er tillaga Egils í lok pistilsins afskaplega skrýtin:
>Það má alls ekki beygja sig fyrir þessu, heldur er eina andsvarið að birta fleiri svona myndir – ofbeldismönnunum mun vaxa í augum að þurfa að ofsækja þúsundir blaðamanna, ritstjóra og netverja. Þið gætuð til dæmis kópíerað myndirnar sem birtist með þessari grein og sett þær sem víðast.
Þarna er Egill væntanlega að gefa í skyn að ofbeldismenn séu þeir einu, sem móðgist við slíkar myndbirtingar. Það er náttúrulega tóm tjara. Fullt af góðu fólki móðgast um leið þegar að trú þeirra er vanvirt. Það kann að vera að okkur finnist þessi trú skrýtin, en það gefur okkur samt ekki leyfi til að gera lítið úr henni. Og það að virtur fjölmiðlamaður leggi til að við reynum að gera sem mest í að móðga múslima er afskaplega kjánalegt.