Procura

Þegar þú heyrir [þetta lag](http://www.serrano.is/stuff/Procura.mp3) (Mp3 – 4mb, innlent)

Langar þig til að:

1. Æla
2. Dansa

?

Ég vel númer 2. En ég er líka hálf skrýtinn. Fyrir þá, sem eru forvitinir þá er lagið [Procura](http://www.serrano.is/stuff/Procura.mp3) með Chihi Peralta.

Kæru fjölmiðlar

Kæru fjölmiðlar.

Ég er búinn að fá nóg.

Ég er búinn að fá nóg af viðskiptafréttum, sem hafa ekkert erindi inní aðalfréttatíma sjónvarpsstöðvanna. Mér finnst að ég ætti ekki að þurfa að minnast á þetta, en það er einfaldlega *ekki* svo fréttnæmt þegar að hlutabréf skipta um hendur! Það er í besta falli viðskiptafrétt og ætti því heima í sérstökum viðskipablöðum dagblaðanna, eða þá í sjálfu Viðskiptablaðinu, sem að flestir sem að málin varða, lesa.

Fyrir okkur hin, þá skiptir það hins vegar ekki nokkru einasta máli að 80 milljarðar í hlutabréfum hafi skipt um hendur á sunnudaginn. Þetta varðar mig ekki neitt og ég leyfi mér að fullyrða að fyrir utan þessa nokkru menn, sem stóðu í viðskiptunum og fólk, sem lifir og hrærist á hlutabréfamarkaði, þá skiptir þessi frétt fólk nákvæmlega engu máli.

Hvar í veröldinni þykja hlutabréfakaup svo mikið mál að þau verðskuldi á hverjum degi að vera fyrsta eða önnur frétt sjónvarsstöðva? Svona hlutir gerast á hverjum einasta degi. Karl númer 1 selur karli númer 2 hlutabréf á hverjum degi. Annar þeirra er ríkari, hinn fátækari. Húrra! Þannig gengur markaðurinn, en það skiptir okkur hin nákvæmlega engu máli.

Ef að tilgangurinn með þessum fréttum er sá að láta okkur gapa yfir þessum stóru upphæðum, þá er það bæði asnalegt og tilgangslaust. Ég gapi ekki. Það angrar mig ekkert að þessir menn eigi meiri pening en ég. Þeirra auður breytir engu fyrir mig.

* * *

Á sama hátt þá er það er engin frétt að Tom Jones hafi skemmt í einhverju [nýárspartýi](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1847&gerd=Frettir&arg=6) fyrir Íslendinga í London. Hvað varðar mig það þótt að einhverjir bankaplebbar útí London hafi ekki betri tónlistarsmekk en svo? Eigum við að hrópa úh og ah þegar við horfum á fréttirnar? Eigum við að vera öfundsjúk eða hneykslast á því að menn eyði pening í svona lélega tónlist? Hver er tilgangurinn? Eigum við kannski að vorkenna þeim, eða senda þeim geisladiska með betri tónlist?

* * *

Ég leyfi mér að fullyrða að í engu öðru landi er milliuppgjör fyrirtækja jafnoft í fréttum og hér á Íslandi. Hvaða máli skipta milliuppgjörin mig? Af hverju er ekki hægt að fjalla um þau í viðskiptablöðum líkt og fjallað er um Liverpool í íþróttablöðum? Hvað með það þótt að KBBanki hafi grætt mikið? Hverju breytir það? Hluthafar bankans og starfsmenn fylgjast væntanlega með rekstrinum, en þurfum við virkilega sjónvarpsfréttir þar sem menn gapa yfir hagnaðinum?

Þetta allt saman er að ala undir allsherjar geðveiki hér á landi, þar sem allt snýst um peninga. Enginn er maður með mönnum nema hann eigi kauprétt á hlutabréfum og vinni í banka. Menn kaupa flugfélög til að reka þau sem fjárfestingarfélög og skila pappírshagnaði á meðan að flugreksturinn er rekinn með tapi. Af því að fréttirnar hafa kennt okkur að peningurinn verður ekki til í rekstri. Hann verður til með því að kaupa og selja hlutabréf. Þeir, sem leggja sitt undir að stofna lítil fyrirtæki eru í raun bara kjánar, því menn græða ekkert á því að reka fyrirtæki, heldur einungis á því að kaupa og selja bréf í öðrum fyrirtækjum.

* * *

En það skiptir svo sem ekki öllu máli. Vandamálið er bara að ég vil fá alvöru fréttir. Fréttir, sem skipta máli. Ég vil vita hvað er að gerast útí heimi. Það er svo margt að gerast útí heimi, sem er fróðlegra og mikilvægara en milliuppgjör Landsbankans. Af hverju er okkur ekki sýnt það? Það myndi eflaust gera okkur öllum gott. Í stað þess að hafa áhyggjur af því að einhverjir græði á pappírskaupum, þá gætum við byrjað að hafa áhyggjur og áhuga á því, sem skiptir í raun máli í þessum heimi. Það væri okkur öllum hollt.

kveðja,

Einar Örn

Atvinnuástand

athugasemd: Ég var að fara yfir færslusafnið í Movabletype og sérstaklega færslur, sem ég birti ekki af einhverjum ástæðum. Þessa færslu skrifaði ég í hálfgerðu reiðikasti þegar sem allra verst gekk að ráða á Serrano fyrir nákvæmlega tveim mánuðum, eða 9.nóvember.

Ástandið á Serrano hefur bæst mjög mikið og er í fínu ástandi núna. En pistillinn á svo sem enn ágætlega við. 🙂

* * *

Er það ekki ágætis merki um þetta fáránlega atvinnuástand hér á Íslandi að heimasíður [Burger King](http://www.burgerking.is/) og [McDonald’s](http://www.mcdonalds.is/) eru í raun ekkert nema ein stór starfsumsókn? Ekkert um matinn, bara “viltu plííís vinna fyrir okkur?” *(nota bene, BK síðunni hefur núna verið breytt – hún var áður einsog McDonald’s síðan)*

McDonald’s eru svo farnir að eyða milljónum í að birta bandarískar ímyndarauglýsingar, þar sem fólk er hvatt til að koma og vinna hjá þeim.

* * *

Í síðustu viku var hringt í mig af stéttarfélagi og ég spurður um fyrrverandi starfsmann, sem var að sækja um atvinnuleysisbætur. Ég sagði viðkomandi að ég myndi ráð fyrrverandi starfsmanninn á staðnum, hún þyrfti bara að tala við mig. Ég sagði líka að ég gæti reddað henni sirka 50 vinnum. Konan hjá VR sagði mig indælan, en samt þá gæti hún ekkert gert í þessu, því hún vildi fara á bætur.

* * *

Framsóknarflokkurinn er með hugmyndir að þremur álverum. TIL HVERS Í FOKKING ANDSKOTANUM? Ekki getur það hugsanlega verið til að slá á atvinnuleysi. Ef að Halldór Ásgrímsson heldur að það sé eitthvað atvinnuleysi á Íslandi, þá ætti hann að ráða sig sem starfsmannastjóra hjá stóru fyrirtæki og reyna að ráða í stöður. Þjóðhagsleg hagkvæmni álveranna er líka vafasöm. Eru framsóknarmenn úr öllum tengslum við íslenskan veruleika?

* * *

Ég talaði við rafvirkja, sem ég þekki vel og hann sagðist hugsanlega getað komið til mín í byrjun desember – eftir fjórar vikur! Ég hef reynt að fá pípara uppá veitingastað í þrjár vikur, en án árangurs. Það talar enginn um það, en ástandið á þessu landi er orðið hreinasti hryllingur.

Ég veit um fullt af fyrirtækjum, þar sem launakostnaður fer uppúr öllu valdi þessa dagana, vegna þess að fyrirtækin eru svo hrædd um að missa fólk. Fyrirtæki halda lélegu starfsfólki af því að þau eru hrædd um að enginn komi í staðinn. Ég þakka allavegana Guði fyrir að vera ekki svo illa staddur með mitt fyrirtæki.

* * *

Á Alþingi segir Menntamálaráðherra að vandamál leikskólanna séu lág laun. Gott og vel, ég get verið sammála því. En það sem vantar inní þessa umræðu er einfaldlega sú staðreynd að það *er ekki nóg fólk á Íslandi*. Ef að fólkið myndi nást inná leikskólana, þá myndi það vanta í aðrar stöður. Við þurfum að auðvelda til muna löggjöf til að fá nýtt fólk inní þetta land. Annars fer þetta allt til fjandans.

* * *

Ég leyfi mér að fullyrða að hvergi í heiminum er jafn erfitt að fá fólk í vinnu og á Íslandi. HVERGI Í HEIMINUM! Ef einhver getur bent mér á verri stað, þá væri það vel þegið.

Ég mun þá ekki opna veitingastaði í því landi.

Mið-Ameríkuferð: Samantekt

Jæja, ég var að bæta inn [myndunum frá Yucatan-Mexíkó partinum](https://www.eoe.is/myndir/cayucatan05/) af Mið-Ameríkuferðinni minni. Þar með er öll ferðasagan og allar myndirnar komnar inná netið. Til að halda utan um þetta, þá eru hérna vísanir á alla ferðasöguna og allar myndirnar.

**Ferðasaga**
[Mið-Ameríkuferð 1: Ódeyjandi ást mín á Tacos al Pastor](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/04/18.32.38/)
[Mið-Ameríkuferð 2: Mexíkó og El Salvador](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/05/23.32.43/)
[Mið-Ameríkuferð 3: Skæruliðar, eldfjöll og rútuferð frá helvíti](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/09/1.34.53/)
[Mið-Ameríkuferð 4: Paradís](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/11/18.24.40/)
[Mið-Ameríkuferð 5: Bananalýðveldið](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/15/19.41.57/)
[Mið-Ameríkuferð 6: Garífuna](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/17/23.10.29/)
[Mið-Ameríkuferð 7: Ég og Brad Pitt](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/19/17.40.31/)
[Mið-Ameríkuferð 8: Tikal](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/24/18.56.06/)
[Mið-Ameríkuferð 9: Caye Caulker (uppfært)](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/26/17.05.12/)
[Mið-Ameríkuferð 10: Cancun](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/29/17.48.55/)
[Mið-Ameríkuferð 11: Bandaríkin](https://www.eoe.is/gamalt/2005/10/03/2.50.36/)

**Myndir**
[Mexíkó](https://www.eoe.is/myndir/camexiko05/)
[El-Salvador](https://www.eoe.is/myndir/caelsalvador05/)
[Hondúras](https://www.eoe.is/myndir/honduras/)
[Gvatemala](https://www.eoe.is/myndir/cagvatemala05/)
[Belize](https://www.eoe.is/myndir/cabelize05/)
[Yucatan](https://www.eoe.is/myndir/cayucatan05/)

Queer Eye

Ja hérna. Queer eye for the straight guy á Skjá Einum klukkan 21 í kvöld!

Almennilegt sjónvarp. Húrra!!

2006

Á árinu ætla ég að…

– Læra nýtt tungumál
– Verða betri salsa dansari en ég er í dag
– Læra box
– Eyða minni tíma á netinu
– Hitta vini mína oftar en á síðasta ári
– Ferðast

Eru þetta ekki ágætis áramótaheit?

Punktar í upphafi árs

Af því að ég hef ekki nægt efni í heila færslu um eitt málefni:

– Ég get ekki gert upp við mig hvort sé merkilegra: 1. Hversu hryllilega lélegt þetta Áramótaskaup var – eða 2. Að fulltaf fólki í fjölmiðlum finnist það hafa verið æði. Ég passa ekki lengur inní þetta land.
– Ég fór á Players í dag til að horfa á fótboltaleik og fékk hausverk útaf sígarettureyk. Ég get bókað tvennt þegar ég fer á Players. 1. Ég þarf að setja öll föt í þvott og 2. Ég fæ hausverk útaf tóbaksreyk.
– Ég skipti annarri af tveim jólabókunum mínum í Rokland með Hallgrími Helga. Er kominn nokkuð langt með hana. Hún er góð. Enda Hallgrímur snillingur
– Ef ég væri búinn að vera forstjóri í fyrirtæki í 30 ár og fengi skitnar 160 milljónir í starfslokasamning á meðan að arftaki minn, sem hefði unnið í 5 mánuði fengi 130 milljónir, þá yrði ég brjálaður. Ég er hins vegar ekki í þessari stöðu, þannig að þessi reiði mín skiptir litlu máli.
– Í gær horfði ég á Dodgeball og komst ekki hjá því að velta því fyrir mér af hverju í ósköpunum Ben Stiller fær borgað fyrir að leika í kvikmyndum. Horfði líka á Der Untergang, sem er góð.
– Ég hlusta alveg fáránlega mikið á þessi lög þessa dagana: Chicago – Sufjan Stevens, Things the Grandchildren should know – Eels, Geislinn í Vatninu – Hjálmar.
– Hérna geturðu reynt þig í [fánum heimsins](http://www.flag-game.com/). Ég var einu sinni sérfræðingur í fánum og höfuðborgum. Ég og Gunni vinur minn kepptumst um að vita sem mest um þetta tvennt. Í teikningu hafði ég svo gaman af því að teikna upp alla heimsins fána. Landafræði var mitt uppáhaldsfag. Þegar ég hugsa aftur til þessa þá sé ég það að ferðalög hljóta að vera í blóðinu víst ég var svo fljótt með kominn með áhuga á þessu.
– Ef þú ert með PC þig vantar forrit til að halda utanum myndirnar þínar, þá mæli ég með [Picasa](http://picasa.google.com/index.html), sem er ókeypis forrit frá Google. Ég var að setja þetta uppá tölvunni hennar mömmu áðan og þetta virkar ferlega einfalt og skemmtilegt. Ég hélt 10 mínútna tölu um það af hverju mamma ætti að standa í því að merkja allar myndirnar. Veit ekki hvort það hafi smogið í gegn. Ég er fanatískur á að merkja myndirnar mínar. Ég skýri allar myndirnar og svo set ég “tags” á allar myndir, þannig að ég get ávallt leitað að myndum af ákveðinni persónu eða stað.
– Ég er búinn að setja [myndir frá Belize](https://www.eoe.is/myndir/cabelize05/) inná myndasíðuna. Á þeim myndum má meðal annars sjá af hverju ég reyni öllu jöfnu ekki að safna [skeggi](https://www.eoe.is/myndir/cabelize05/gallery/g-og-anja.php) :-).