Kosningar

Ég er að endurheimta [álit mitt á bandarískum kjósendum](http://www.cnn.com/2006/POLITICS/11/08/election.senate/index.html). Að mínu mati hafa þeir ekki gert neitt rétt í 10 ár eða síðan Clinton var endurkjörinn. Vonandi að þetta sé ekki bara tímabundið.

Stephen Colbert [viðurkennir ósigur](http://colbertondemand.com/videos/The_Colbert_Report/Colbert_Calls_it_Quits). Algjör snilld!

Britní

Ja hérna, ég er búinn að missa alla [trú á hjónabönd](http://www.tmz.com/2006/11/07/britney-spears-files-for-divorce/). Ef þau geta ekki látið þetta ganga, hver þá?

Here I am baby!

Er *hægt* að hlusta á [þetta lag](http://www.serrano.is/stuff/SignedSealedandDelivered.mp3) án þess að fara að dansa?

Ég held ekki.

Þetta lag kemur mér allavegana alltaf í stuð og gott skap. Stevie er snillingur!

[Stevie Wonder – Signed, Sealed and delivered](http://www.serrano.is/stuff/SignedSealedandDelivered.mp3) – 2.83 mb mp3

Silfur Egils í dag

Í Silfri Egils töldu stjórnandi og viðmælendur eftirfarandi:

1. Að það væri veikleikamerki á Samfylkingunni að ekki væri næg endurnýjun á framboðslista (ólíkt xD í Reykjavík) og að þingmenn sætu sem fastast á sínum sætum (en vikju ekki einsog t.d. Sólveig Pétursdóttir)
2. Að það væri veikleikamerki á Samfylkingunni að tveir þingmenn hefðu verið felldir í prófkjörum síðustu daga.

Það er erfitt fyrir Samfylkinguna að þóknast andstæðingum sínum.

Sumum viðmælendum þótti það í lagi að minnst sé sérstaklega á það þegar að *innflytjendur* nauðga konum. Það þykir mér ótrúlegt. Þætti sama fólki í lagi að sjá eftifarandi fyrirsagnir?:

1. Sjálfstæðismaður nauðgaði konu í miðbæ Reykjavíkur í gær.
2. Garðbæingur nauðgaði konu í miðbæ Reykjavíkur í gær.

Hvað gera svona fyrirsagnir annað en að sverta orðspor alls hópsins, sem hafði ekkert með glæpinn að gera?

Ég legg til að Frjálslyndi flokkurinn leggi til tillögur um það hvernig skal keyra áfram íslenskt efnahagslíf án þáttöku erlends vinnuafls. Þeir hefðu ágætt af því að starfa sem starfsmannastjóri hjá stóru fyrirtæki í nokkra daga.

Varaformaður Frjálslyndaf flokksins vill ekki fá inn Múslima til Íslands af því að þeir eru svo mikið öðruvísi. *Samt* segist hann ekki vera rasisti. Ég tel að hann sé ekki fær um að dæma það hvort hann sé sjálfur rasisti.

Jens í 4. sætið

Þetta er auðvitað alltof seint sett hérna inn, en ef einhverjir eiga eftir að kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum, þá hvet ég þá til að setja [Jens vin minn í 4. sætið](http://www.jenssigurdsson.com/).

Jens er **snillingur**, hugsjónamaður og eðaljafnaðarmaður. Hann myndi svo sannarlega koma með ferska vinda inná Alþingi.

Við Jens höfum verið vinir í næstum því 10 ár og við engann annan hef ég átt jafnmargar og jafnskemmtilegar umræður um pólitík. Kjósið Jensa í 4. sætið – hann á svo sannarlega erindi á Alþingi.

Suð-Austur Asíuferð 17: Ísland, fagra Ísland


Kominn heim eftir fáránlega langt ferðalag. Flugið frá Bangkok til London tók um 15 tíma og auk þess græddi ég 7 tíma í tímamismun, þannig að ég kom alveg kexruglaður til London á miðvikudag, tékkaði mig inná hótel og datt svo niður á rúm og svaf mestallan daginn. Notaði svo gærdaginn í að kíkja í búðir og kaupa föt. Flaug svo með IceExpress til Keflavíkur í gærkvöldi.

Í Bangkok gerðist svo sem ekki mikið meira en ég var búinn að tala um. Ég hitti íslenskt par, Kidda og Heiðrúnu, sem voru að byrja ferðalag um SuðAustur Asíu. Þau höfðu heyrt af blogginu mínu og voru í sambandi í kjölfarið og við hittumst í smá tíma til að ræða um ferðina. Ég eyddi svo bara tímanum í að ráfa um verslanirnar í Bangkok.

Og núna er ég kominn heim og var að koma inn eftir að hafa unnið í allan dag. Það er auðvitað fáránlega mikið búið að hlaðast upp af verkefnum, en það er líka bara skemmtilegt. Ég þarf að klára mörg mál varðandi vinnu og líka varðandi mitt einkalíf.

Ég mun setja inn einhverjar myndir á næstu dögum eftir að ég er búinn að laga þær til og merkja.

En allavegana, ég vona að fólk hafi haft gaman af þessum ferðasögum mínum. Þessi ferð var algjörlega frábær fyrir mig og ég vona að mér hafi tekist að koma einhverju af því vel til skila til ykkar. Einsog ég hef áður sagt, þá vil ég ekki endilega koma afslappaður heim úr fríi, heldur finnst mér miklu skemmtilegra að koma þreyttur heim, en fullur af æðislegum minningum um skemmtileg ævintýri. Ég er kannski þreyttur, en ég er samt fullur af krafti og tilbúinn í að glíma við ný verkefni.

Takk.

Skrifað í Vesturbæ Reykjavíkur

Suð-Austur Asíuferð 16: Ert þetta þú, Bangkok?

Ég er kominn aftur til Bangkok. 8 vikum eftir að þessi blessaða ferð hófst, [8 vikum](https://www.eoe.is/gamalt/2006/09/16/11.33.23/) eftir að ég flaug frá London til Bangkok og tékkaði mig inná gistiheimili á Khao San Road í Bangkok. Ég er kominn aftur og borgin er gjörbreytt.

Reyndar er margt eins. Tælendingar eru enn í gulu til að fagna kónginum, það hefur ekkert breyst þrátt fyrir nýja ríkisstjórn. En borgin er svo gjörólík þeirri borg, sem ég heimsótti fyrir 8 vikum að það er eiginlega ekki fyndið. Munurinn stafar af því að síðast var ég á Khao San Road, sem er bakpokaferðalangastaður í gamla hluta borgarinnar, nálægt öllum gömlu hofunum. Núna er ég hins vegar á Siam Square, sem er hin nýja Bangkok, líkist meira Tokyo (af þeim myndum, sem ég hef séð) en gömlu Bangkok. Hérna er allt fullt af flottum verslunum, sætum stelpum með fulltaf innkaupapokum og ógrynni af bandarískum skyndibitakeðjum, sem gera sitt besta til að láta Tælendinga verða feita eftir hundruðir ára þar sem þeir hafa verið grannir á sínu eigin fæði (þessu til sönnunar má benda á að KFC býður hérna uppá franskar kartöflur, sem maður dýfir fyrst í ostasósu og svo oní kryddaðar og sykraðar rice krispies flögur!!!).

Ég verð þó að viðurkenna veikleika minn fyrir vestrænum þægindum. Eftir að hafa eytt 8 vikum í löndum þar enginn McDonald’s (gasp!) er og lítið um loftkælingu og slíkt dúllerí, þá finnst mér æðislegt að koma aftur í skyndibitamenningu, loftkældar verslanamiðstöðvar og loftkæld bíóhús. Vesturlandabúinn í mér sprettur upp við þessi tilefni. Ég elska að ferðast um framandi staði, en það er líka alltaf gott að setjast inná veitingastað, sem maður þekkir, í loftkældu um hverfi og borða hamborgara.

Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig að komast hingað inní miðja Bangkok. Flugið frá Luang Prabang í Laos var fínt, en á leið minni inní Bangkok lenti ég hjá leiðinlegasta, feitasta, ljótasta, heimskasta og óheiðarlegasta leigubílstjóra Í HEIMI! Ég vil meina að það þurfi mikið til að æsa mig upp, en mikið afskaplega átti þetta fífl auðvelt með það. Hann keyrði mig um hálfa borgina, reyndi að fara með mig á 5 hótel, sem hann var að prómótera (þrátt fyrir að ég hefði sagt í upphafi að ég vildi ekkert neitt sölukjaftæði – þar sem ég er búinn að kynnast leigubílstjórum í Bangkok) og á endanum hafði hann svo enga hugmynd um hvar hótelið mitt var og neitaði að keyra lengra. Ég var orðinn svo reiður að ég var næstum því byrjaður að öskra á hann, en á endanum rauk ég útúr taxanum og kastaði peningnum í götuna og labbaði svo burt. Tókst svo eftir um hálftíma labb að finna hótelið mitt.

Eftir sturtu var ég orðinn hress og fór því og fékk mér að borða á …wait for it… wait for it… McDonald’s. Skoðaði mig um í verslanarmiðstöð, fór í enska bókabúð þar sem ég keypti mér nýjar bækur og skellti mér svo í bíó. Og ég vil skjalfesta það hér og nú að [The Departed](http://www.metacritic.com/film/titles/departed) er besta fokking mynd, sem ég hef séð í marga, marga, marga mánuði. Þvílík og önnur eins gargandi snilld! Ég var í losti heillengi eftir að ég labbaði útúr bíóinu. Hluti af því var að það var 15 gráðu frost í bíóinu og ég í stuttbuxum og sandölum, en stærsti parturinn var hversu mögnuð myndin er. Vá! Hlaupið útí bíó ef hún er komin til Íslands!

Síðustu dagarnir í Luang Prabang voru rólegir. Ég skoðaði restina af því, sem var að skoða þar og fór svo á laoskt matreiðslunámskeið með 2 miðaldra hjónum frá Bandaríkjunum. Það var alveg ljómandi skemmtilegt, við elduðum 5 rétti, sem voru hver öðrum skrýtnari og fylgdumst með kokki elda eitthvað fleira. Mjög skemmtilegt.

Ég ætla að eyða morgundeginum í Bangkok í að versla. Ég valdi hótel með tilliti til þess að vera nálægt helstu verslunargötunum í borginni. Svo á ég seint annað kvöld flug til Dubai og þaðan til London. Ég á að fara í loftið klukkan 2 um nóttina og lenda í London klukkan 7, þar sem ég græði heila 7 klukkutíma í tímamismun. Í London hef ég svo einn og hálfan dag og á svo flug heim á fimmtudagskvöld.

*Skrifað í Bangkok, Tælandi klukkan 22:04*

Suð-Austur Asíuferð 15: Luang Prabang

Laos er fátækasta land, sem ég hef heimsótt. Þjóðaframleiðsla per íbúa er um 2.100 dollarar (PPP) á ári, sem er um 16 sinnum minna en á Íslandi. Samt, þá er einhvern veginn einsog fátæktin sé ekki jafn slæm og í löndum einsog Kambódíu og sumum löndum Mið-Ameríku, sem ég hef heimsótt. Kannski er það vegna þess að skipting teknanna sé jafnari hérna en í hinum löndunum.

Vissulega býr margt fólk í strákofum útí sveitum, en flestir virðast hafa nóg að borða og í minnstu þorpunum sér maður oft gervinhattadiska á ansi mörgum kofum. Kannski er það líka að Laos búar virðast ekki örvænta þegar þeir sjá fram á að ná ekki viðskiptum frá manni. Ég er búinn að tala um þetta áður, en það er einsog Laos búum sé nokk sama hvort þeir selji þér vöru eða ekki. Ólíkt í Víetnam og Kambódíu þar sem maður hafði á tilfinningunni að heimur sölumannsins myndi hrynja ef að þeir myndu ekki ná að selja mér einn banana í viðbót. Í þeim löndum var manni vanalega heilsað með “Wanna buy something” ef maður kom nálægt sölubás, en í Laos er manni ávallt heilsað með “Sabadi”, sem þýðir einfaldlega “Halló!”.

Kannski er þetta það að fólk er sáttara við sitt og sér ekki þörf fyrir alls konar auka dóti. Eða kannski er þetta bara eitthvað í viðhorfi Laos búa. Bílflautur eru annað, sem Laosbúar höndla allt öðruvísi. Ef að rúta keyrir í gegnum lítinn bæ í Víetnam þá liggur bílstjórinn á flautunni, svo að allir drulli sér af veginum – hvort sem fólk er á veginum eður ei. Í Laos hægir rútan á sér, bílstjórinn skoðar hvort einhver sé á veginum og ef til dæmis beljur eru fyrir þá rétt pikkar hann á flautuna svo að þær færi sig.

Ég er núna staddur í Luang Prabang, sem var áður aðsetur konungsins í Laos. Borgin er þekkt fyrir samblöndu af frönskum arktíkektúr (frá tíma Frakka hérna) og fjölda búddha hofa. Líkt og Vientiane liggur hún við hina voldugu Mekong á, en alls renna um 1.800 kílmetrar af Mekong ánni í gegnum Laos (þrátt fyrir það er áin hvergi virkjuð í Laos). Borgin er einnig í um 800 metra hæð yfir sjávarmáli og því er hitastigið hérna ögn lægra en í Vientiane, sem gerir veðrið ennþá þægilegra.

Ég eyddi alls þrem dögum í Vang Vieng, litla túristaþorpinu sem ég var í á undan Luang Prabang. Þar fór ég tvo daga í röð á lítilli blöðru niður ána hjá bænum (sjá [mynd](http://flickr.com/photos/einarorn/279837315/) við þessa færslu), sem var æðislegt. Seinna skiptið kynntist ég afar skemmtilegum hópi, sem samanstóð af stelpum frá Svíþjóð og Kaliforníu og pari frá Englandi. Við flutum saman niður ána og kíktum svo út um kvöldið.

Í Luang Prabang hef ég skoðað flest, sem hægt er að skoða. Ég hef skoðað talsvert magn af Buddha hofum og eyddi deginum hjá fossi um 30 km frá bænum, þar sem ég lá í sólbaði og synti í fossinum. Síðustu dagana hérna ætla ég svo m.a. að nýta til þess að fara á laoskt matreiðslunámskeið. Á mánudaginn á ég síðan flug til Bangkok. Þaðan á ég svo flug tveim dögum seinna til London. Ég er farinn að finna fyrir því að stutt er eftir af ferðinni. Maður lítur einhvern veginn öðruvísi á hlutina, er ekki jafn æstur í að kynnast nýju fólki og því hafa síðustu dagar verið frekar afslappaðir.

*Skrifað í Luang Prabang, Laos klukkan 21.15*

Suð-Austur Asíuferð 14: Come on, Beerlao, Beerlao!

(Þetta samtal átti sér stað á rútustöð í Vientiane, Laos. Einar Örn hefur setið inni í steikjandi heitri rútu í hálftíma, bíðandi eftir brottför. Fyrir utan gluggann birtist bílstjórinn)

>Einar Örn: Fyrirgefðu, en hvenær förum við af stað?
Laoskur bílstjóri: Klukkan tvö!
Einar Örn: En klukkan er korter yfir tvö!
Laoskur bílstjóri: Ó, ehm, þá förum við klukkan hálf þrjú!

(Rútan fór af stað tíu mínútur yfir þrjú)

Ég þekki allavegana eina stelpu, sem myndi gjörsamlega elska það afslappaða viðhorf sem Laos búar hafa til þess hvort eitthvað sé gert á réttum tíma, eða bara yfir höfuð.

Laosbúar eru með merkilega rólegir og það að koma hingað eftir að hafa verið í Hanoi og restinni af Víetnam er með ólíkindum afslappandi. Víetnamar eru nefnilega sölumenn og kapítalistar (það að ætla að reyna að breyta Víetnömum í kommúnista var afskaplega vanhugsað). Allir eru að reyna að ná sér í pening. Ef þú gengur í gegnum markað í Saigon þá er alls ekkert óeðlilegt að fólk rífi í þig og dragi þig bókstaflega að sölubásnum. Ef þú byrjar að prútta, þá endar það prútt annaðhvort með því að þú kaupir hlutinn, eða þá að þú verður með eitt stykki Víetnama hangandi á öxlinni á þér. Og á götum úti þá nota Víetnamar flautuna einsog að hún sé eitthvað töfratæki sem að spari bensín.

Ekki taka það sem svo að ég líti á þetta sem galla í Víetnömum eða sé að tala niður til þeirra, því ég hef *gríðarlega* mikið álit á víetnömsku þjóðinni. En þessar lýsingar eru bara til að setja þetta í samhengi við Laos.

Hérna í Laos eru menn nefnilega ekki enn búnir að fatta flautuna (Guði sé lof) og þeim er nokk sama hvort þú kaupir eða ekki. Ef þú byrjar að prútta og labbar í burtu þá snúa þeir sér bara að öðru og virðist vera nokk sama um viðskiptin. Fólk virðist labba hægar hérna og það er einhvern veginn bara allt miklu, miklu afslappaðara. Gamalt máltæki segir að Víetnamar rækti hrísgrjón á meðan að Laosbúar horfi á þau vaxa.

Laos á líka þann ótrúlega óheppilega heiður að vera *mest sprengda land í heimi*. Það er, miðað við höfðatölu þá hefur hvergi verið varpað jafnmiklu af sprengjuefni og á Laos.

Eftir Genfar-ráðstefnuna þá var sæst á að Laos yrði hlutlaust land í Víetnamstríðinu. Þrátt fyrir það þá héldu Norður-Víetnamar áfram að vera í Laos og var m.a. hluti af Ho Chi Minh slóðinni á laosku landsvæði.

Því byrjuðu Bandaríkjamenn að þjálfa laoskar sveitir til að berjast á móti Víetnömum innan Laos og fengu þær til þess ótrúlegan stuðning úr lofti frá bandarískum flugvélum. Tölfræðin er ótrúleg. Bandaríkjamenn flugu 580.944 flugferðir yfir laoskt landsvæði. Sprengjumagnið sem var dælt yfir Laos jafngildir því að Bandaríkjamenn hafi varpað sem svarar **einum flugvélafarmi af sprengjum á átta mínútna fresti, 24 daga á sólarhring í níu ár!!** Á eitt land, þar sem núna búa 6 milljónir manns!

Þetta jafngildir því að Bandaríkjamenn hafi varpað yfir **500 kílóum af sprengjuefni á hvern einasta mann, konu og barn í Laos**. Og ekki síður merkilegt er að Bandaríkjamenn viðurkenndu aldrei að þeir stæðu í hernaði í Laos og því var þetta stríð seinna kallað “secret war”. Það er ótrúlegt að lesa um þetta. Á hverju ári deyja enn tugir Laosbúa (mest börn) útaf ósprungnum sprengjum Bandaríkjamanna, sem eru útum allt í Austur-Laos.

Allavegana, í Vientiane skoðaði ég Þjóðminasafn Laos, sem hét áður Byltingarsafnið. Það safn er ennþá í talsverðum byltingarstíl, þar sem mjög er einblítt á baráttu Pathet Lao fyrir völdum, en kommúnistar komust til valda hérna árið 1975. Í Vientiane skoðaði ég líka [Pha That Luang (sjá mynd)](http://www.flickr.com/photos/einarorn/274460967/), sem er eitt helsta merki Laos.

Það er varla að ég þori að tala um djamm á þessari síðu. Ég hef gert það í tveimur pistlum af 14 og samt fæ ég email frá mömmu, þar sem hún heldur því fram að ég sé “alltaf” á djamminu. Þannig að ég ætla að sleppa frekari djammsögum frá Vientiane, sem mun um leið gera það að verkum að ferðasagan frá Vientiane verður ekki ýkja spennandi.

Ég er núna staddur í Vang Vieng, sem er nokkurn veginn mitt á milli Vientiane og Luang Prabang. Þetta er pínkulítill bær, umvafinn gríðarlega fallegum fjöllum sem eru full af hellum. Í gegnum bæinn rennur einnig á, sem er aðalaðdráttarafl bæjarins. Hérna eru nefnilega reknar leigur, sem leigja út gamlar blöðrur úr traktorsdekkum. Túristar eru svo keyrðir 4 kílómetra norður af bænum uppað ánni, þar sem blöðrurnar eru svo notaðar til að fljóta með túrista niður ána. Ég gerði þetta í gær og þetta var svo æðislegt að ég ákvað að lengja dvöl mína hérna um einn dag.

Beisiklí þá liggur maður bara á blöðrunni í 30 stiga hita og sól á fallegri á með fjallasýn til allra hliða og flýtur rólega niður ána. Svo á svona hálftíma fresti siglir maður framá bar, þar sem maður getur keypt sér Beerlao og leikið sér að stökkva útí ána úr alls kyns rólum og tækjum. Ég gæti svarið það að ég gæti gert þetta á hverjum degi í heila viku – en því miður hef ég ekki nægan tíma til þess. Ég fer þó í eina ferð niður ána eftir rúman klukkutíma!

Á morgun fer ég til Luang Prabang, þar sem ég ætla að vera í nokkra daga og svo er planið að koma mér niður til Bangkok til að undirbúa heimferð.

*Skrifað í Vang Vieng, Laos klukkan 11.13*