Parísarferð

París er óendanlega æðisleg. Þessi ferð var svo yndislega yndisleg að ég held að ferðasagan yrði alltof væmin til þess að birta hérna.

Má ég bara segja það að mér fannst æði að…

* …Vera í leigubíl á leiðinni heim af djamminu og fara bæði framhjá glerpíramídanum við Louvre og Notre Dame kirkjunni. Það fannst mér verulega flott.
* …sjá Eiffel turninn að kvöldi til
* …sjá hversu Mona Lisa er lítil
* …borða crepes
* …Liggja í sólinni með kærustunni í grasinu við Trocadero með útsýni yfir Eiffel turninn.
* …drekka rauðvín á hverjum einasta degi
* …hlusta á messu í Notre Dame, sem var áhrifameiri en allar messur sem ég hef verið viðstaddur. Jafnvel þótt ég skildi ekki orð.
* …labba í rigningunni yfir brýrnar yfir Signu
* …komast að því að Frakkar eru engir dónar
* …reyna að tala frönsku.
* …fá það á tilfinninguna að maður gæti ekki ímyndað sér stað, stund eða félagsskap sem myndi vera betri en það sem maður upplifði akkúrat á þeirri stundu

Ég er að mínu mati miklu skemmtilegri penni þegar ég er fúll útí eitthvað, þannig að ég læt frekari skrif bíða.

Set þó vonandi inn einhverjar myndir úr ferðinni á næstu dögum.

Jet Set

Soda Stereo eru svalir kallar, sem ég hélt einu sinni mikið uppá. Þeir byrjuðu sem 80’s popparar en enduðu sem nokkuð svalt rokkband um það leyti sem ég bjó sem skiptinemi í Venezuela.

Allavegana, fyrir tilviljun var ég að lesa nýjasta hefti Séð & Heyrt (sem ég fæ vegna keyptra auglýsinga) og á sama tíma akkúrat að hlusta á “*Por Qué No Puedo Ser Del Jet Set?*”, sem þýðir á íslensku “*Af hverju get ég ekki verið hluti af þotuliðinu*”. Vá, hvað þetta blað og þetta lag eiga vel saman.

Jet-set, por que no puedo ser del Jet-Set?
Jet-set, yo solo quiero ser del Jet-Set

Tengo mi agenda perfumada
Todas mis noches programadas
Voy a esos clubes reprivados
Y me alquile un convertible colorado
Con esa gente diferente
Yo me codeo .. que tipo inteligente
Tengo el bolsillo agujereado
Pero al menos tengo un Rolex
Lo he logrado
Jet-Set, porque no puedo ser del Jet-Set?
Jet-Set, yo solo quiero ser del Jet-Set

Es el sueño de mi vida
Que una mujer me espere en la colina
Labios prohibidos, vestido escotado
Yo con mi auto, con los vidrios empañados
Caviar, champagne, un solo de saxo sensual
Y esa piel, que ni ver
Quiero mas
Nene por favor, cambia de canal
Jet-Set, porque no puedo ser del Jet-Set?
Jet-Set, yo solo quiero ser del Jet-Set?

El show debe seguir, esta todo OK
Lo que para arriba es excentrico
Para abajo es ridiculez

Skilja ekki annars allir spænsku?

Jæja, ok – ég er farinn til PARÍSAR. Ji minn hvað ég er spenntur.

Skýrslur

Er það ekki æðislegt að ríkisstjórnin sé byrjuð að taka mark á skýrslum um íslenska hagkerfið, núna þegar þær eru orðnar [jákvæðar](http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1199491)?

* * *

**New rules**

Snillingur Bill Maher er með innslag í hverju þætti, sem hann kallar “new rules”. Þar leggur hann til nýjar reglur fyrir þjóðfélagsumræðuna. Ég ætla að apa þetta eftir.

Ég vil leggja til þessa meginreglu í íslenska þjóðfélagsumræðu: *Fólk, sem á jeppa, má ekki kvarta yfir bensínverði. Eingöngu þeir, sem keyra um á sparneytnum bílum mega tjá sig.*

Hvernig getur þjóð, þar sem meirihluti fólks keyrir um á jeppa, kvartað yfir bensínverði? Hlustum við á það þegar að alkohólistar kvarta yfir háu verði á brennivíni?

Önnur regla: Allir jeppaeigendur ættu að [lesa þessa grein](http://www.gladwell.com/2004/2004_01_12_a_suv.html). Hún er frábær. Prentið hana út og lesið hana.

Hár, reykköfun og Seltjarnarnes

Ef ég hefði sent inn bréf til Skjás Eins fyrir tveim mánuðum með þeirri hugmynd að búa til hálftíma sjónvarpsþátt, þar sem 20 krakkar fara saman í reykköfun og í leiki uppí sveit, ætli hugmyndinni hefði verið vel tekið?

Ég sé að einhver hefur fengið þessa hugmynd og búið til sjónvarpsþátt úr því. En líka með því snilldar twist-i að hafa krakkana 20 alla keppendur í Ungrú Ísland. Einsog ég hef nú gaman af sætum stelpum (reyndar mjög gaman), þá breytir það ekki þeirri staðreynd að hugmyndin að sjónvarpsþættinum er ekki góð. Það er fínt að gera þátt um þessa keppni, en menn verða að finna eitthvað skemmtilegra fyrir stelpurnar að gera.


Ég er búinn að fatta að ég horfi ekki á venjulega sjónvarpsdagskrá lengur (fyrir utan íþróttir). Horfi frekar á heilar þáttaraðir þegar mér hentar. Í kvöld þegar ég kom loksins heim ákvað ég þó að horfa á sjónvarpið.

Ég geri fastlega ráð fyrir því að í kvöld sé stelpukvöld á Skjá Einum. Á undan þættinum um Ungfrú Ísland var þáttur af America’s Next Top Model. Það er nú meiri endemis hörmungin. Alveg eins hrifin og ég er af drasl raunveruleikasjónvarpi, þá er vælið í þessum þætti alveg nóg til að gera mig geðveikan. Get a fokking grip!

Ok, horfi ekki á fleiri þætti.


Í dag hrindgi ég í heilsugæslu Seltjarnarnes, sem er víst heilsugæslan mín þar sem ég bý í Vesturbænum. Ég spýtti næstum því kaffinu útúr mér þegar mér var sagt að ég fengi tíma útaf auma puttanum mínum *á morgun*! Á MORGUN! Finnst ykkur það ekki merkilegt? Ég tek tilbaka allt ljótt, sem ég hef sagt um Seltjarnarnes og Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi. Æ, reyndar var það ekkert ljótt – þeir eru algjörar dúllur.


Ég fór í klippingu á föstudaginn og stytti hárið um 3-4 sentimetra. Það er svo sannarlega efni til skrifa á þessari síðu. Hafði bara einu sinni verið svona síðhærður áður. Hárið var orðið það sítt að ef ég teygði toppinn (hárið mitt krullast mjög mikið) þá gat ég snert hárið með tungunni. Ég sýndi þetta m.a. uppá Serrano, en þetta vakti takmarkaða hrifningu þrátt fyrir að mér finndist þetta vera æðislega merkilegt.

En allavegana, þessi síði toppur gerði það að verkum að ég gat verið ofboðslega hipp og kúl og haft toppinn fyrir augunum. Ég hafði talið mér trú um að það væri kúl og myndi fara mér vel. Hins vegar komst ég að því að ég hef nákvæmlega *enga* þolinmæði í þá greiðslu, þar sem ég var alltaf að taka toppinn úr augunum á mér, sérstaklega þegar toppurinn sveiflaðist til og stakkst í augað á mér á fullri ferð, sem mér fannst gerast frekar oft.

En núna er hárið komið niðrí [þessa sídd](https://www.eoe.is/ummig/), sem er umtalsvert þægilegra.


Já, og ef einhver hefur fleiri tillögur fyrir Parísarferðina mína, endilega [komið með þær](https://www.eoe.is/gamalt/2006/05/03/10.58.02/).

Ferðalagahjálp

Það hefur reynst mér ágætlega að spyrja lesendur þessarar síðu ráða fyrir ferðalög. Oft veit fólk um skemmtilega staði eða hluti, sem að ferðabækur eyða ekki miklu púðri í að fjalla um.

Því spyr ég nú: Ég og kærastan mín – 5 dagar í París – hvað eigum við að gera? Ég hef aldrei komið til Parísar fyrir utan flugvöllinn og sýningarsvæði langt frá miðbænum.

Uppsögn

Ég er búinn að segja upp [vinnunni](http://www.danol.is/starfsfolk/004286.php) minni.

Um síðustu áramót hafði ég áttað mig á því að ég var ekki sáttur við þá stefnu, sem líf mitt virtist vera að taka. Ég var alltaf nokkuð ánægður í vinnunni minni, en samt var það ekki nóg. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað vantaði, en ég var viss um að ég þurfti að breyta einhverju.

Augljósasta byrjunin var að segja upp vinnunni. Því gerði ég það í kringum áramótin. Þá fékk ég hins vegar að vita að það ætti að selja fyrirtækið og því ákvað ég að doka við og verða áfram þangað til að því ferli væri lokið. Núna er það búið og ég því formlega að hætta þann 30.júní.

Ég er búinn að elska þessa vinnu síðustu 3 ár og hún hefur oft á tíðum ásamt Serrano haldið mér gangandi þegar að hlutir í einkalífinu hafa ekki gengið eins vel og ég hefði óskað. Ég hef ferðast gríðarlega mikið og þrátt fyrir að ég kvarti stundum undan álaginu, sem fylgir öllum ferðalögunum, þá hafa þau svo miklu fleiri kosti en galla. Vinnan hefur líka verið gríðarlega krefjandi og skemmtileg og ég hef kynnst fulltaf skemmtilegu fólki. En núna finnst mér ég hafa náð öllum þeim takmörkum, sem ég setti mér í upphafi og því get ég sáttur skilið við starfið.

* * *

Ég hef reynt að hugsa ekki of mikið um starfslokin, þar sem ég vil klára vinnutímann vel. En það er samt ekki hægt að horfa framhjá því að í fyrsta skipti á ævinni *veit ég ekkert hvað ég á að gera*.

Að vissu leyti er það óþægilegt, en að öðru leyti yndislegt. Ég hef strax fengið nokkur gríðarlega áhugaverð tilboð og eru sum lygilega góð. Sum þeirra eru á Íslandi, önnur erlendis. Í raun snýst þetta um meira en bara vinnu, því ég þarf líka að ákveða mig *hvar* ég ætla að vinna.

Ég hef semsagt 8 vikur þangað til að ég hætti hjá Danól. Það eru allavegana spennandi tímar framundan. Óvissan er á margan hátt skemmtileg.

Colbert og Bush

Fréttamenn, sem fjalla um málefni Hvíta Hússins í Washington, héldu í gær árlegan kvöldverð. Fréttastofur í Bandaríkjunum (og eftirhermur þeirra á Íslandi) fjölluðu nánast eingöngu um skemmtiatriði, sem að George W. Bush og eftirherman hans sáu um, en gleymdu að fjalla um hápunkt kvöldsins.

Snillingurinn Stephen Colbert, sem var einu sinni með innslög í Daily Show, en er núna með eigin þátt, hélt nefnilega ræðu. Ræðuna, sem hann hélt nokkrum metrum frá forsetanum, er sennilega beittasta háð, sem að GWB hefur þurft að þola. Það er yndislega pínlegt að sjá viðbrögð forsetans við bröndurum, sem eru sagðir á kostnað hans eigin getuleysis. Mæli með þessu:

[Ræða Colbert – 1. hluti](http://youtube.com/watch?v=lcIRXur61II&search=colbert%20bush%20cspan)
[Ræða Colbert – 2.hluti](http://youtube.com/watch?v=HN0INDOkFuo&search=colb”ert%20bush%20cspan)
[Ræða Colbert – 3.hluti](http://youtube.com/watch?v=rJvar7BKwvQ&search=colbert%20bush%20cspan)

Heimasíða þáttar Colbert er svo [hér](http://www.comedycentral.com/shows/the_colbert_report/index.jhtml).

* * *

Matarboðið heppnaðist. Eldaði *Ceviche* í forrétt, sem mér fannst næstum jafngott og mér fannst það á veitingastöðum í Perú. Eldaði svo *Alambre de Pollo*, sem var ekki jafngott og á veitingastöðum í Mexíkó. Lenti í tómu basli með að hita maís tortillur, sem eru mun erfiðari í meðhöndlun en hveiti tortillur. En úr þessu varð samt mjög góður matur – sérstaklega erfitt að hita nógu margar fyrir stóran hóp.

Drukkum svo næstum því heila flösku af ljúffengu “[Cuervo Reserva Antigua 1800](http://www.spirituosenworld.de/produkte/tequila/details/cuervo_1800anejo_tequila.html)” tekíla ásamt ágætis magni af léttvíni og bjór.

Ég náði áðan að klára að taka til. Gafst uppá íbúðinni í gær og fór og heimsótti kærustuna mína í von um að draslið í íbúðinni myndi á einhvern undraverðan hátt hverfa. Það gerðist hins vegar ekki.

Frambjóðendurnir í Kastljósi

Ég horfði á frambjóðendurna í Reykjavík í Kastljósinu í gær. Nenni ekki að skrifa pistil, svona punktar eru svo miklu einfaldari. Þetta lærði ég af því að horfa á frambjóðendurna:

* Ef ráða má af málflutningi manna, þá er Samfylkingin eini flokkurinn, sem hefur verið við stjórn borgarinnar þegar að óvinsælar ákvarðanir hafa verið. Við vinsælar ákvarðanir, þá koma hins vegar exbé og VG sterk inn.
* Exbé hefur ekkert með framsókn eða R-listann að gera. Þetta er algjörlega sjálfstætt framboð með enga sögu, sem ber enga ábyrgð á skipulagsmálum í Reykjavík eða málum ríkisstjórnarinnar á landsvísu.
* Það er hressandi að sjá menn kallaða lygara í sjónvarpi. Jafnvel þó það sé eflaust ekki rétt. Bara gaman að sjá menn taka stórt til orða.
* Ég trúi því ekki að fólk vilji fá Vilhjálm Þ sem borgarstjóra. Trúi því bara ekki. Er einhver hulinn sjarmi, sem ég er ekki að taka eftir í fari hans? Samblandan af gleraugunum, og augabrúnunum gerir hann verulega illan að sjá. Einsog hann sé alltaf reiður.
* Mikið er gaman að vera í flokki, sem að allir elska að hata.
* Frambjóðandi VG byrjaði allar setningar á því að hneykslast á því hvað hinir voru “flokkspólitískir”. VG eru svo hipp og kúl að þeir eru fyrir ofan allt slíkt.
* Ef ég kýs VG þá er ALLT ókeypis.
* Það ættu allir að lesa grein Einars Kára í Mogganum í gær. Hún er ljómandi skemmtileg. Hef ekki fundið hana á vefnum, annars myndi ég vísa í hana. (uppfært: hún er [hér](http://www.xsreykjavik.is/xsreykjavikis/Skrif/Greinar/Grein/327))
* Áður en ég horfði á Kastljósþáttinn (horfði semsagt ekki á hann live) þá las ég umfjöllun um hann í Staksteinum. Ótrúlegt en satt, þá fannst ritstjórum Moggans frambjóðandi Samfylkingarinnar standa sig verst, en frambjóðandi íhaldsins best. 😯

En jæja, þarf víst að fara að elda. Matarboð í kvöld með perúsku og mexíkósku þema. Held að þetta sé að fara allt til helvítis, en vonandi reddast þetta einhvern veginn. 🙂

Ljubljana

Ég eyddi helginni í Slóveníu í árshátíðarferð með vinnunni. Það var æði!

Þetta átti að heita borgarferð til Ljubljana, en ég náði að gera svo miklu meira. Þar sem ég hef ferðast svo mikið að undanförnu og þekki orðið hverja einustu flík í H&M, þá fann ég enga þörf hjá mér að versla. Gat því eytt tímanum í umtalsvert skemmtilegri hluti.

Ef þú vilt lesa ferðasöguna og skoða myndir af MÉR (þetta er jú bloggið MITT), smelltu þá á “Lesa áfram”
Continue reading Ljubljana

Draumalandið?

*Þessi grein birtist einnig á [pólitík.is](http://www.politik.is//?id=1550)*

tjorsarver.jpgÍ tíma um sögu Sovétríkjanna, sem ég sótti við Northwestern háskóla í Bandaríkjunum, sagði prófessorinn okkur litla sögu. Við lok valdatíma Stalíns í Sovétríkjunum heimsótti hann fjölskyldu þar í landi. Einsog von var á í Rússlandi fékk hann höfðinglegar móttökur. Hluti af þeim var að gestgjafinn sýndi honum fjölda mynda af fólki. Fólki á öllum aldri, við leik og störf. Þegar myndasýningunni lauk sagði gestgjafinn einfaldlega: “Allir á myndunum eru dánir”, annaðhvort dó fólkið í stríðum, úr hungri, eða voru myrt á annan hátt af stjórnvöldum. Fólkið á myndunum var ekki lengur til.

* * *

Ég verð að viðurkenna það núna að ég hef verið hálf sofandi undanfarin ár. Meðan ég bjó í Bandaríkjunum þá fylgdist ég reglulega með íslenskum fréttum og ekki hefur fréttaþorsti minn minnkað eftir að ég flutti heim. Ég horfi á fréttir á hverjum degi, hlusta sennilega á 3-4 útvarpsfréttatíma á dag og les tvö íslensk blöð. Samt, þrátt fyrir þetta allt, gat ég aldrei gert mér upp mikinn áhuga á álvers-málum okkar Íslendinga. Kannski voru fréttirnar bara of margar og kannski byrjaði heilinn í mér ósjálfrátt að blokka þær út.

Við lestur á Draumalandinu eftir Andra Snæ Magnason rifjuðust upp fyrir mér ósköpin öll af fyrirtækja- og staðanöfnum og ég áttaði mig á að ég var búinn að gleyma fyrir hvað þau stóðu. Norsk Hydro, Rio Tinto, Þjórsárver, Norðlingaölduveita, Impregilo og svo framvegis og framvegis. Ég var búinn að heyra þessi nöfn milljón sinnum, en hafði enga sérstaka skoðun á þeim. Ég var orðinn svo ruglaður að ég vissi ekki einu sinni hver staðan var. Var búið að sökkva Þjórsárverum, eða var framkvæmdin stöðvuð? Á að virkja þessa á, eða er bara búið að tala um það? Virkjanaæðið og fréttirnar af því höfðu gert það að verkum að ég var orðinn ruglaður, hafði ekki hugmynd um hver staða mála væri. Vissi bara að menn vildu virkja.

Ég var ekkert voðalega reiður yfir Kárahnjúkum þegar ég heyrði fyrst um þá virkjun. Sá að það voru aðallega Vinstri-Grænir, sem mótmæltu. En þar sem ég er alls ekki alltaf sammála þeim, þá fóru mótmælin að mestu framhjá mér. Ég hlustaði líka á einhverja sérfræðinga segja að þetta væri svo gott fyrir hagkerfið, en nennti ekkert að hugsa útí það frekar. Ég hafði einfaldlega nóg annað til að hafa áhyggjur af, hafði meiri áhyggjur af stelpum en álverum. Þess vegna fór þetta framhjá mér. Ég var partur af stóra meirihlutanum á Íslandi, sem mótmælti ekki. Ekki endilega af því að ég var svo fylgjandi álverunum, heldur var mér eiginlega nokk sama. Apathy er sennilega rétt orð, en vitlaust tungumál.

* * *

Við lestur á Draumalandinu leið mér á tíðum hálf einkennilega. Á einhverjum tímapunkti breyttist hún í spennusögu um framkvæmdir og virkjanir. Andri Snær gerði mig svo bjartsýnan á framtak landsmanna að ég sannfærðist fljótlega við lesturinn um að ég væri á móti frekari virkjunum. En ég var búinn að gleyma hvort það væri búið að sökkva Þjórsárverum. Var ég of seinn? Kannski væri þetta einsog í heimboðinu, að ég myndi lesa alla þessa góðu hluti um íslenska náttúru og svo fá þær fréttir að það væru allir dánir, að það væri búið að eyðileggja landið. En sem betur fer, þá las ég að framkvæmdunum var frestað og ég á því ennþá sjens á að gera eitthvað.

* * *

Bók Andra Snæs mun sennilega ekki breyta skoðunum þeirra, sem hafa sterkustu skoðanirnar í virkjanamálum. Valgerður Sverrisdóttir mun ekki sjá að sér og bókin gerir eflaust ekki mikið í að styrkja skoðanir þeirra, sem mótmæltu virkjunum mest. Þetta fólk hefur of sterka sannfæringu fyrir þessu máli.

Það, sem bókin getur gert og hefur gert í mínu tilfelli, er að vekja okkur hin. Okkur, sem höfum látið þetta yfir okkur ganga og samþykkt þetta með þögninni. Hún dregur saman staðreyndirnar í málinu og fær okkur til að hugsa. Er þetta landið, sem við viljum byggja? Þurfum við á þessu að halda? Erum við ekki fátækari en áður, þrátt fyrir að hagvöxtur hafi aukist?

Ég segi allavegana að nú er mál að linni. Samfylkingin hefur ýtt undir álverin með því að taka ekki afdráttarlausa afstöðu gegn þeim, heldur hefur hún verið of hrædd við að styggja kjósendur. Næstu Alþingiskosningar hljóta að snúast að miklu leyti um áframhald álversstefnu íhalds- og framsóknarmanna. Með hverjum ætlum við þá að standa? Það hlýtur að vera takmark okkar jafnaðarmanna að fella núverandi ríkisstjórn og binda endi á þetta álæði. Þótt fyrr hefði verið.