You are….like a hurricane

Þetta er besta lag í heimi:

[Like a Hurricane – Neil Young – af American Stars ‘n Bars](https://www.eoe.is/stuff/likeahurricane.mp3)
Mp3 (9,51 mb innanlands)

Langbesta lag í heimi.

Once I thought I saw you
in a crowded hazy bar,
Dancing on the light
from star to star.
Far across the moonbeam
I know that’s who you are,
I saw your brown eyes
turning once to fire.

You are like a hurricane
There’s calm in your eye.
And I’m gettin’ blown away
To somewhere safer
where the feeling stays.
I want to love you but
I’m getting blown away.

Er sjónvarpið toppurinn?

Ég veit, ég veit!

Allavegna á heimasíðu [Ungfrú Íslands](http://www.ungfruisland.is/ungfru.php?lang=is&visible=2) eru viðtöl við keppendur. Einsog ég hef [fjallað um](https://www.eoe.is/gamalt/2005/04/06/22.04.00/index.php), þá eru stelpurnar í einni spurningunni beðnar um að lýsa **fullkomnum** laugardegi. Kannski er það bara ég, en mér þykir hugmyndir stelpnanna um hinn **fullkomna** laugardag vera afar óspennandi.

Sem dæmi:

– Sjö stelpur ætla að eyða hinum **fullkomna** degi í *líkamsrækt*. Ég fer í ræktina á hverjum virkum degi, en það er nú ekki *svo* gaman í ræktinni að maður myndi eyða hinum fullkomna degi þar.

– Sjö þeirra ætla að horfa á *sjónvarpið*

– Ein ætlar bara að borða nammi, og önnur ætlar bara að borða nammi og horfa á sjónvarpið.

Ég ætla alls ekki að gagnrýna stelpurnar fyrir að hafa svona mikinn áhuga á sjónvarpi. Eeeen, er þetta virkilega hinn fullkomni laugardagur í augum tvítugra íslenskra stelpna? Hefur fólk ekki meira ímyndunarafl? Vill það ekki vera úti? Gera eitthvað meira spennandi? Ég er viss um að ef sambærileg könnun yrði tekin í öðrum löndum, þá myndi fólk vilja gera eitthvað annað. Ég er fullkomlega sannfærður um það. Er það draumalífið á Íslandi að hanga inni og horfa á sjónvarpið? Ég ætla ekki að rembast við að fela það að ég horfi á talsvert á sjónvarpi og skammast mín ekkert fyrir það. En ef ég ætti að ímynda mér draumadaginn, þá myndi sjónvarpið ekki koma mikið við sögu (í sögunni minni, þá var sjónvarp bara þarna til að koma Liverpool að)

En út frá þessu reyndi ég að átta mig á því hvernig draumadagurinn minn á Íslandi yrði. Ef ég ætti kærustu og ætti að eyða deginum hérna í höfuðborginnil, hvernig væri þá draumadagurinn? Er kannski ekkert meira spennandi að gera hérna heldur en að horfa á sjónvarp? Ég veit að samanburðurinn er ósanngjarn, en í Chicago, Caracas eða Mexíkó borg, þar sem ég hef búið, eyddi ég bestu dögunum í almenningsgörðum, í miðbæjum eða á dansstöðum. Slíkir möguleikar eru varla fyrir hendi hérna.

Fólk í kringum mig vill oft eyða laugardagskvöldi heima, horfandi á sjónvarpi. Ég hef oftast túlkað það sem leti, þar sem mér finnst það viss uppgjöf að horfa á sjónvarp *líka* á laugardögum, þar sem fólk horfir oftast á sjónvarp alla aðra daga. En kannski er þetta bara toppurinn. Kannski dettur fólki ekki neitt skemmtilegra í hug. Ég held að ég hafi aldrei hafnað því að fara út, bara til þess að vera heima og horfa á sjónvarpið, en hins vegar hafa aðrir hafnað því að gera eitthvað með mér vegna þess að sjónvarpsgláp hafði verið ákveðið. Ég kýs að taka þetta ekki persónulega, þannig að spurningin er hvort ég sé svona öðruvísi en aðrir? Er það bara mér sem finnst sjónvarpsgláp vera óspennadi kostur, eða eru aðrir á sömu skoðun og ég? Býður lífið ekki uppá eitthvað meira spennó, eða er sjónvarpsgláp partur af hinum fullkomna degi íslenskra ungmenna?

Annars eru hérna samantekt á fullkomnum laugardögum að mati stelpnanna:
Continue reading Er sjónvarpið toppurinn?

Ég er búinn að eyða einum milljarði! Er ég ekki æði?

Ég þoli ekki þegar stjórnmálamenn [hrósa sjálfum sér fyrir það að auka útgjöld, búa til nýjar stofnanir og fjölga ríkisstarfsmönnum](http://servefir.ruv.is/dagskra/streaming/default.asp?channel=0&date=2005-05-11&file=4214653).

Af hverju er það sérstök ástæða til þess að monta sig að ríkið hafi aukið framlög til velferðarmála um einn milljarð?

Hvað segir sú tala mér annað en að ég þarf að borga meira í skatt? Af hverju er ekki sagt hverju þetta skilaði í stað þess að fólk monti sig af því einu að hafa eytt peningunum mínum? Skárra væri það ef að sagt væri að biðlistar hefðu styst um 300 manns, eða eitthvað slíkt. En að hrópa upp að ákveðinni upphæð hafi verið eytt og ætlast til þess að það réttlæti stuðning við ákveðinn stjórnmálaflokk er fásinna. Ekki fengi ég mikið hrós ef ég segðist hafa eytt 10 milljónum meira í auglýsingar á síðasta ári. Væntanlega fengi ég hrósið þegar að ég myndi útskýra í hvað ætti að eyða peningunum eða þá þegar fólk gæti séð árangurinn.


Annars er ég skráður inná vef ungra jafnaðarmanna. Þar hafa nokkuð margir sagt frá [niðurstöðum sínum úr þessu prófi](http://www.digitalronin.f2s.com/politicalcompass/questionnaire.php). Niðurstöðurnar mínar voru

Economic Left/Right: 1.13
Social Libertarian/Authoritarian: -4.36

Ég er hins vegar sá eini, sem er hægra megin við miðju af þeim, sem þarna hafa tjáð sig. Er ég kannski að ofmeta áhrif hægri krata í þessum flokki? Ætti ég kannski að gefast upp og ganga til liðs við Íhaldið? Nei, ætli það sé ekki fullmikið.

E

Ég elska nýju plötuna með Eels: [Blinking Lights And Other Revelations](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/B0007Y8AMO/qid=1115676875/sr=8-1/ref=pd_csp_1/002-1438396-3831250?v=glance&s=music&n=507846).

Elsk’ana!

33 lög, 90 mínútur af frábærri tónlist. Besta plata ársins hingað til. Ekki nokkur spurning. Hef verið að hlusta á hana síðustu kvöld og ég er loksins núna að skilja almennilega hversu góð þessi plata er. Þið, sem hafið aldrei hlustað á Eels, gefið honum sjens. Þið sjáið ekki eftir því.

Íþróttahelgin mikla

Fyrir þessa helgi hafði ég ætlað mér þrjá hluti: að horfa á mikið af íþróttum í sjónvarpinu, að fara í ræktina að minnsta kosti einu sinni og að klára vefsíðu, sem ég er að vinna í.

Mér tókst að fara í ræktina (kl 10 á sunnudagsmorgni, no less) og ég er alveg við það að klára vefsíðuna. En menn hljóta samt að vera að grínast í mér varðandi þessa íþróttaviðburði. Dagskráin leit svona út (ég held með feitletruðu liðunum:

*Föstudagur:*
**Chicago Cubs** – Philadelphia: TAP
**Chicago Bulls** – Washington: TAP

*Laugardagur:*
**Chicago Cubs** – Philadelphia: TAP
**Boston Celtics** – Indiana Pacers: TAP

*Sunnudagur:*
Arsenal – **Liverpool**: TAP
**Chicago Cubs** – Philadelphia: í gangi – uppfært SIGUR

Jæja, það er semsagt einn sjens á því að mitt lið vinni þessa helgina ([Carlos](http://chicago.cubs.mlb.com/NASApp/mlb/team/player.jsp?player_id=407296) er á svæðinu svo það er von).

Ef ekki, þá hef ég horft á SEX leiki um helgina og séð mín lið TAPA SEX SINNUM!

Ég spyr: ER ÞETTA EÐLILEGT?

Tölfræði á Múrnum

[Þessi setning](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1604&gerd=Frettir&arg=6) á Múrnum er bull (feitletrun mín)!

>**Nú eru 36,2% ekki ýkja mikið fylgi. Í ljósi þess að kjörsókn á Bretlandi hefur hrunið á valdatíma Blairs og nær nú tæplega yfir 60% þá er ljóst að Verkamannaflokkurinn nýtur aðeins stuðnings 21-22% atkvæðisbærra kjósenda**. Ljóst er að stór hluti þeirra sem þó kusu flokkinn gerðu það þrátt fyrir forsætisráðherrann en ekki vegna hans.

Það er einfaldlega rangt að segja að Verkamannaflokkurinn njóti aðeins stuðnings 21-22% atkvæðisbærra kjósenda. Vissulega væri rétt að segja að 22% atkvæðisbærra kjósenda hafi mætt og kosið flokkinn, en Sverrir Jakobsson veit hins vegar ekkert um hug þeirra, sem sátu heima. Með þessari setningu gefur hann í skyn að allir, sem hafi setið heima, styðji ekki flokkinn og því sé fylgið einungis 21-22%. Það getur hins vegar varla verið rétt.

Sverrir fellur þarna í sömu gryfju og Sjálfstæðismenn í forsetakosningunum á Íslandi, það er að rembast við að túlka vilja þeirra, sem sátu heima. Það er hins vegar hæpið að reyna slíkt.


Annars er það ekki gaman að þurfa að sitja inni við tölvu í þessu veðri. Vonandi að mér takist loksins að klára vefsíðuna, sem ég er að vinna, um þessa helgi. Er komin með ógeð á þessu.

Stefnumótasjónvarp

Þetta Chicago íþróttaþemakvöld byrjar ekki vel, því [Cubs töpuðu](http://chicago.cubs.mlb.com/NASApp/mlb/news/wrapup.jsp?ymd=20050506&content_id=1040374&vkey=wrapup2004&fext=.jsp&c_id=chc).
Oh, ég veit ekki hvernig ég nenni að svekkja mig á þessu liði.


Annars, SHIT!

Ég horfði í fyrsta skipti á heilan þátt af nýju Djúpu Lauginni. Það var erfiður klukkutími. Fyrir það fyrsta, þá gat ég aldrei horft í meira en mínútu án þess að skipta um stöð eða grípa um augun sökum þess hve ég vorkenndi fólkinu í þættinum.

Þetta nýja format á þættinum er alveg stórkostlegt, sérstaklega parturinn þar sem annað af tveimur deitum er sent heim á miðju stefnumótinu. Fyrir þá, sem hafa ekki séð þáttinn, þá fara alltaf 2 strákar og 1 stelpa, eða öfugt, saman á stefnumót (einn aðilinn er valinn af spyrjendanum, en hinn er valinn í símakosningu af áhorfendum). Í þessum þætti var það 1 kall og tvær konur, sem hittust heima hjá vini karlsins.

Þau hittast þarna fjögur í íbúð einhvers staðar í Reykjavík, borða franskar, salat og kjöt og drekka vín. Svo þegar þau eru búin með forréttinn, þá stendur kallinn upp og þarf að flytja ræðu, þar sem hann vísar annarri konunni heim. Úr því verða einhver pínlegustu móment í íslenskri sjónvarpssögu.

Áður fyrr var allavegana eitthvað fútt í stefnumótunum því myndatökumaður fór með fólkinu á fyllerí og einsog sönnum Íslendingum sæmir, þá gerði fólk alltaf eitthvað heimskulegt á þeim stefnumótum. Með þessu nýja formati, þá virðist myndatökumaðurinn aðeins vera með fólkinu í 2-3 tíma og því gerist ekki nokkur skapaður hlutur! Nákvæmlega ekki neitt!

Samkvæmt stelpunni, sem tók viðtal við parið þá var það mest spennandi, sem gerðist á stefnumótinu í þessum þætti, það að *frönsku kartöflurnar duttu í gólfið.* Já, og svo er konan alltaf uppí bústað. Ho ho ho ho! Kræst.

Þetta er ekki nógu gott. Mér fannst Djúpa Laugin einu sinni ágætis sjónvarpsefni, en menn þurfa að taka sér verulegt tak ef að það á að bjarga þessari seríu.

Hversu æðislegt var það líka að spyrjandinn og einn keppandinn í þættinum í kvöld þekktust? Þau voru bæði frá Sauðárkróki. Jei!

En allavegana, stelpan sem stjórnar þættinum er sæt. Plús fyrir það!


Annars, þá sá ég nýju syrpuna af Bachelor í gær. Sú syrpa lofar góðu. Aðallega vegna þess að ein aðalgellan virðist vera alger bitch, sem allar hinar stelpurnar hata. Það býður auðvitað uppá ýmis rifrildi, sem eru einmitt það skemmtilegasta við þessa þætti. Fyrstu þættirnir í þessum Bachelor/Bachelorette eru auðvitað bestu þættirnir, þar sem stelpurnar tapa sér yfir því hvað hinar eru leiðinlegar og grenja yfir gaurnum.

Í síðari þáttunum breytist þetta í viðbjóðslega velgju, sem enginn, nema einhver hjón í eins Don Cano göllum, getur horft á án þess að gubba.

Húnar og Naut

Jööössss! Sýn ætla að sýna leik 6 í einvígi Washington og Chicago í NBA á miðnætti í kvöld.

Þannig að klukkan hálf átta get ég horft á Mark Prior [kasta fyrir Chicago Cubs gegn Philadelphia](http://chicago.cubs.mlb.com/NASApp/mlb/news/article.jsp?ymd=20050505&content_id=1039660&vkey=news_chc&fext=.jsp&c_id=chc) og svo get ég horft á Chicago Bulls á miðnætti. Yndislegt!

Washington STÁLU sigrinum síðast og Chicago hafa ekki unnið í D.C. í 10 ár, en það *mun* breytast í kvöld! Ég er sannfærður um það!

Fimm ára

Fyrir tveim vikum, þá varð þessi síða fimm ára gömul. Ég steingleymdi afmælinu, enda var ég í Póllandi. Núna hef ég haldið þetta út án hvíldar síðan [22. apríl 2000](https://www.eoe.is/gamalt/2000/04/22). Veit ekki um neinn á Íslandi, sem hefur haldið svona lengi út án hvíldar.

Til hamingju ég!