Klappstýrur

Ég [elska Bandaríkin](http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/4515377.stm). 🙂


Annars er ég búinn að vera inni í allan dag í vinnunni. Varð að reyna að klára eitthvað af þeim verkefnum, sem höfðu hlaðist upp meðan ég var úti. Það er einsog líkaminn minn hafi skynjað að það væri frídagur og sé svo að mótmæla þessari tölvuvinnu með því að gefa mér massívan hausverk.

Ekki gott.

Á föstu?

Vissir þú að af 17 þáttakendum í Ungfrú Reykjavík, þá eru 15 á föstu? Það er 88% hlutfall. [Sumir hlutir breytast aldrei](https://www.eoe.is/gamalt/2003/10/02/22.59.00/)

Annars, þá er ég ekki nándar nærri því jafn upptekinn af fegurðarsamkeppnum og efnistök á þessari síðu að undanförnu gefa til kynna. Ég hef bara svo lítið til að skrifa um. 🙂

Stewart og Venezuela

Þetta er fyndið: [Daily Show’s Gay Watch](mms://a386.v99506.c9950.g.vm.akamaistream.net/7/386/9950/v001/comedystor.download.akamai.com/9951/dailyshow/stewart/jon_10056.wmv)


Frjálshyggjumenn eru oft yndislega yfirlýsingaglaðir. Sjá til dæmis [þennan pistil á frjálshyggjublogginu](http://blogg.frjalshyggja.is/archives/2005/05/tilraunir_me_ma.php) (feitletrun mín):

>Hins vegar er hugleiðingar vert hinn dæmalausi hrifningur vinstrimanna á **sameign og þjóðnýtingu sem þrátt fyrir allt eru grunnástæður fátæktar á þessari plánetu** ásamt ónægri útbreiðslu hins frjálsa markaðar og langlífri tilvist verslunarhindrana og opinberra styrkja til deyjandi starfsstétta

Jammm… Hvernig viðkomandi vill sanna þetta skal ég ekki fullyrða um. Heimurinn er flóknari en svo að aðeins þurfi frjálshyggju til að allir verði ríkir.

En annars er líka aðdáun þeirra Múrsmanna á Hugo Chavez með hreinustu ólíkindum. Þeir kjósa auðvitað að líta framhjá öllum slæmu hlutunum, einsog að hann hafi fært stjórnkerfið í einræðisátt og haldi skildi yfir kólumbískum hryðjuverkamönnum.

En auðvitað þá er það sorglega við þetta allt að hátt olíuverð mun auðvelda Chavez að halda völdum. Ef hann hefði ekki haft stjórn yfir olíuauðlindum landsins, þá væri þessi ömurlega tilraun hans, til þess að breyta Venezuela í Kúbu, dæmd til þess að mistakast. En olíverðið mun gera það að verkum að Chavez mun halda áfram á þessari braut og um leið mun hann halda áfram að misnota nafns hins ágæta Símon Bolívar.

Ha, var fótbolti í kvöld?

Svona lít ég út akkúrat núna:

stor_smilie2.gif

[Skýringuna má finna hér](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/05/03/21.08.45/)

Walk on…. walk oooooooooon with hope in your heart…
And you’ll never walk aaaaaaaaalone
You’ll nee-eeever walk alone.

Ég elska Liverpool. **ELSKA ÞETTA LIÐ!!!** Er orðinn hás af því að syngja You’ll never walk alone. Jei, ég er svo happí 🙂

Varaformannskjör

[Stuðningsyfirlýsing](http://www.agustolafur.is/default.asp?page_id=4753):

>Ég styð Ágúst Ólaf til varaformanns í Samfylkingunni vegna þess að ég tel að endurnýjun þurfi að fara fram í forystuliði Samfylkingarinnar. Ég tel að Ágúst sé fulltrúi nýrra tíma meðal jafnaðarmanna. Í stað þess að þræta um úrelt málefni, þá kemur Ágúst með ferskar hugmyndir inn í stjórnmálin og hann mun berjast fyrir þau málefni, sem skipta okkur máli í dag í stað þess að þræta um málefni eða flokkadrætti gærdagsins.

>**Einar Örn Einarsson, markaðsstjóri**

Jammmmm…

Tónlist og djamm

Á rípít þessa dagana:

I’m the Ocean – Neil Young (af Mirror Ball)
Natural beauty – Neil Young (af Harvest Moon)
Landslide – Fleetwood Mac
Beverly Hills – Weezer (af óútkominni plötu Make Believe)
Speed of Sound – Coldplay (af óútkominni plötu X&Y)
Solitude Sometimes Is – Manic Street Preachers (af Lifeblood)

Ég hef átt [Mirror Ball](http://www.rollingstone.com/reviews/album/_/id/97358/neilyoung?pageid=rs.ArtistDiscography&pageregion=triple1) í 10 ár, en aldrei gefið henni raunverulegan sjens. Ég keypti hana sem Pearl Jam aðdáandi, en það má segja að núna sé ég að gefa henni annan sjens sem Neil Young aðdáandi. Ég hef verið svona semi-aðdáandi Neil Young í gegnum tíðina, en það er ekki fyrr en núna síðustu mánuði, sem ég er farinn að hlusta virkilega mikið á hann.

Young er snillingur. Svo einfalt er það. Hef verið að hlusta aftur mikið á [Harvest](http://www.rollingstone.com/reviews/album/_/id/306863/neilyoung?pageid=rs.ArtistDiscography&pageregion=triple1) og svo einnig [Harvest Moon](http://www.rollingstone.com/reviews/album/_/id/301333/neilyoung?pageid=rs.ArtistDiscography&pageregion=triple1), [After the Gold Rush](http://www.rollingstone.com/reviews/album/_/id/241138/neilyoung?pageid=rs.ArtistDiscography&pageregion=triple1), [American Stars ‘n’ bars](http://www.rollingstone.com/reviews/album/_/id/319684/neilyoung?pageid=rs.ArtistDiscography&pageregion=triple1) (sem inniheldur mitt uppáhaldslag með Neil Young, Like a Hurricane) og [Freedom](http://www.rollingstone.com/reviews/album/_/id/153132/neilyoung?pageid=rs.ArtistDiscography&pageregion=triple1). Allt eru þetta *frábærar* plötur. Var núna líka að redda mér [Tonight’s the Night](http://www.rollingstone.com/reviews/album/_/id/197063/neilyoung?pageid=rs.ArtistDiscography&pageregion=triple1). Er bara rétt að byrja að hlusta á hann, á ennþá gríðarlega mikið inni. Það er frábært.


Ég var á árshátíð í vinnunni í gær, en er samt búinn að vera furðu hress í dag. Ég er í stjórn starfsmannafélagsins og hafði því séð eitthvað um undirbúninginn, þrátt fyrir að ég hefði verið úti síðustu daga. Allavegana hátíðin var algjör snilld og ég skemmti mér frábærlega. Á móti Sól spiluðu fyrir dansi og þeir voru lygilega góðir í að halda starfsfólki, sem er 20-65 ára gamalt, á dansgólfinu. Mjög gott!

Fór síðan með tveim stelpum úr vinnunni á Hverfisbarinn og síðar Vegamót. Frábært kvöld og ánægjulegt að ég hafi farið á léttvínsdjamm án þess að gera einhvern skandal. Það gerir það að vakna daginn eftir mun bærilegra 🙂

Útsýni frá Marriott

Útsýnið frá hótel herberginu mínu á 21. hæð í Varsjá fyrir [tveimur vikum](https://www.eoe.is/gamalt/2005/04/21/20.15.09/index.php) (myndin er tekin í gegnum glugga). Þarna sést Palace of Culture hægra megin og einhver nýbygging vinstra megin. Smellið á myndina til að sjá stærri mynd.

Er ég kominn heim?

Kominn aftur í Vesturbæinn.

Ég var ólýsanlega þunnur í fluginu í dag. Langaði að æla á sænsku tuskuna við hliðiná mér. Þetta var með erfiðari flugum, sem ég hef upplifað.

Þessi þynnka á sér sínar skýringar.

Ég er búinn að vera í Stokkhólmi undanfarna 3 daga. Var þarna á söluráðstefnu hjá Van Melle (Mentos) fyrir öll Norðurlöndin. Þarna voru fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum og ræddum við takmörk og nýjungar fyrir næsta ár.

Í gær héldum við svo öll kynningar fyrir nýja markaðsherferð á Mentos og voru veitt verðlaun fyrir bestu kynninguna. Ég vann þá keppni þrátt fyrir að ég hafi gert kynninguna mína einn inná hótelherbergi í Gautaborg en hin löndin hafi haft fjölda fólks til að hjálpa sér.

Í verðlaun voru 15.000 evrur (um 1,2 milljón króna), sem á að nota í markaðssetningu hér á landi. Vonast til að þessi herferð fari af stað seinnipart sumars eða þá í byrjun næsta árs. Það var tilkynnt um úrslitin í kvöldverði á veitingastað í Djurgarden. Ég fékk því að fara á djammið og í flugið í dag með risavaxna ávísun, sem vakti gríðarlega athygli.

Allavegana, eftir kvöldverðinn fórum við svo flestöll á djammið. Kíktum á [Cafe Opera](http://www.worldsbestbars.com/city/stockholm/cafe-opera-stockholm.htm) og [Spy Bar](http://www.worldsbestbars.com/city/stockholm/the-spy-bar-stockholm.htm). Ég drakk vodka, hvítvín og bjór, sem mig grunar að sé ástæðan fyrir þessari hrikalegu þynnku. Var að til klukkan 4 í morgun en var svo mættur á fund klukkan 8. Tók síðan flugvél til Íslands um tvö leytið, sem var einsog áður sagði martröð líkust.


Ég veit að ég hef áður [minnst á það](http://www.google.com/search?q=%22sea+change%22+site%3Aeoe.is&sourceid=mozilla-search&start=0&start=0&ie=utf-8&oe=utf-8&client=firefox-a&rls=org.mozilla:en-US:official) en Sea Change með Beck er einfaldlega æðisleg plata. Ég er ekki alveg að fíla Guero nógu vel. Ég fíla rólega Beck og hann er aldrei betri nema á Sea Change. Elska að hlusta á þessa plötu þegar ég er þunnur. Líður einsog það sé sunnudagur. Mikið er það fínt að það sé föstudagskvöld.

Norðurlöndin geta líka verð ágæt

Ég er kominn til Gautaborgar eftir tvo fína daga í Stokkhólmi. Stokkhólmur er æði – ekki láta fólk segja ykkur annað.

Ég veit ekki hver er ástæðan, en ég hef alltaf haft netta fordóma gagnvart Stokkhólmi og Svíum. Var sannfærður um að Stokkhólmur væri bara önnur útgáfa af Osló og að Svíar væru leiðinlegir. Jæja, ég get staðfest að Stokkhólmur er sko ekki Osló, svo mikið er víst.

Stokkhólmur er með fallegri borgum, sem ég hef heimsótt. Veðrið var æðislegt báða dagana og ég eyddi mestum tímanum í að rölta í sólinni um borgina. Í gær labbaði ég um gamla bæinn í rólegheitunum, horfði á vaktaskipti í konungshöllinni og slappaði svo af í Kungstragarden.

Í dag gerði ég meira af því sama. Kíkti reyndar á Vasa safnið, sem er byggt utan um gamalt herskip, sem fannst á hafsbotni fyrir um 50 árum. En fyrir utan þá safnaferð, þá eyddi ég tímanum í rólegheitunum á labbi um borgina og dáðist að fegurð hennar. Gamli bærinn og reyndar allir miðbærinn er ótrúlega fallegur.


Núna er ég kominn til Gautaborgar og sit hérna uppá hótelherbergi og reyni að berja saman kynningu, sem ég á að halda á fimmtudaginn. Á fundi hérna bæði á morgun og á þriðjudaginn, en á miðvikudag fer ég aftur til Stokkhólms á ráðstefnu. Er nokkuð viss um að þar verði kvöld prógramm, svo sennilega mun ég sjá eitthvað meira af Stokkhólmi. Allavegana, þá er borgin vel virði heimsóknarinnar.

*Skrifað í Gautaborg, Svíðjþóð klukkan 21:42*