Kenny vs. Spenny

Ég hef minnst á það [áður](https://www.eoe.is/gamalt/2005/01/13/23.39.12/), en það er vel þess virði að endurtaka að Kenny vs. Spenny á Popp TV er SNILLD! Án efa fyndnasti þátturinn í íslensku sjónvarpi!


Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að greinarvísitala fólks lækki um að minnsta kosti helming þegar það nálgast bílastæðið fyrir utan World Class. Hvernig er annars hægt að útskýra hegðun allra þessara spekinga, sem leggja jeppunum sínum uppá gangstétt og á miðri götu?

Annars fór ég í dag í fyrsta skipti í World Class eftir vinnu. Get staðfest að það eru fleiri sætar stelpur í WC eftir vinnu en í hádeginu. Fjöldi stráka með aflitað hár eykst einnig tífalt.

Lenti í því að öll hlaupabrettin voru frátekin. Hvernig er það hægt? Eru allar aðrar líkamsræktarstöðvar á landinu tómar?


Vá hvað monologue-ið hjá Chris Rock á Óskarnum var fyndið. Og Váááááá hvað Natalie Portman er sæt. Trúi ekki að hún skuli ekki hafa unnið. Ef það væri einhver sanngirni í þessum heimi þá værum við par og byggjum saman í Sydney.

I want to fly and run till it hurts

Í janúar í einhverju mellonkollí ástandi byrjaði ég að skrifa færslu á þessa síðu um hvar ég stæði og hvað mig langaði að gera í þessu lífi. Á sunnudagskvöldum langar mig alltaf til að bæta við þá færslu, en geri samt alltaf lítið í því.

Hef aðeins sagt einum vini mínum frá efni þessarar færslu. Hann virtist skilja mig vel og þetta kom honum m.a.s. ekki svo á óvart. Kannski er það greinilegt að ég er ekki jafn sáttur við lífið og tilveruna og maður reynir að láta líta út fyrir.

Ég hef samt hikað við að setja skrifin inn á þessa síðu. Ég er nefnileag farinn að hugsa alvarlega um það hvað ég get skrifað á þessa síðu. Ég hef komist að því að fólki, sem mér líkar ekkert sérstaklega vel við, les þessa síðu nokkuð reglulega. Og eflaust líka fólk, sem líkar ekkert sérstaklega vel við mig vegna einhvers, sem hefur gerst í raunheimum.

Það finnst mér óþægilegt.

Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði ég pottþétt miklu opinskárra um mitt einkalíf og sérstaklega hugsanir mínar um stelpur og þau áhrif, sem þær hafa á mitt líf. Mér fannst það þægilegt og ég fékk nokkra útrás með þeim skrifum. Mér var nákvæmlega sama þótt að vinir mínir, kunningjar, fjölskylda og ókunnugir læsu þetta. En þegar fólk, sem mér líkar ekki vel við, les þetta líka, þá horfir öðruvísi við. Það kom mér reyndar á óvart að viðkomandi einstaklingar skyldu lesa síðuna. En oft finnst manni einsog bara þeir sem kommenti séu að lesa, en auðvitað eru svo margir auk þeirra, sem lesa síðuna. Viðkomandi hafa aldrei kommentað á síðuna, svo það kom mér á óvart að þeir skyldu lesa hana.

Skrif mín gera mig nefnilega meira “vulnerable” því þau opinbera ansi margt um mig og innihalda sennilega fullt af hlutum, sem þeir sem mér líkar ekki vel við, geta nýtt sér gegn mér. Það þykir mér óþægilegt og þess vegna hef ég hætt við skrif á mörgum pistlum hérna.

Hingað til hefur mér einfaldlega fundist þessi síða gefa mér það mikið að það sé áhættunnar virði. Ég fæ ótrúlega mikið út úr því að skrifa hérna og enn meira út úr því, sem fólk kommentar á síðunni. Það vill maður ekki gefa eftir. Samt finnst mér einsog að undanförnu hafi ég þurft að endurskoða hvar ég dreg línurnar í skrifum mínum.

Þess vegna finnst mér einsog skrif mín séu ekki jafn góð né spennandi og þau voru fyrir einhverjum mánuðum þegar ég hugsaði minna um hverjir væru að lesa.


Og já, ef menn geta ekki lesið það af skrifunum þá [töpuðu]( https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/02/27/18.36.53/) Liverpool. Hagnaðurinn segir allt sem [segja þarf um Mourinho]( http://haukurhauks.blogspot.com/2005_02_01_haukurhauks_archive.html#110953427713216380).

Gleraugu

Ok, prófaði að taka mynd af mér með gleraugun. Það er eitthvað yndislega sorglegt að vera að velta fyrir sér gleraugnakaupum á laugardagskvöldi, en hverjum er svo sem ekki sama 🙂

Allavegana, þetta eru önnur af tveim gleraugum, sem koma til greina. Fékk þau lánuð og miðarnir eru enn á glerjunum, þannig að það skemmir aðeins fyrir.

gleraugu.jpg

Hmmmm… Er þetta ég? Veit ekki alveg. Finnst ég virka eldri og gáfaðari en vanalega. Veit ekki hvort það sé gott.

Einar Örn fer næstum því á Idol

Í gærkvöldi fór ég næstum því á Idol. Málið er að ég er í stjórn starfsmannafélagsins í vinnunni og við skipulögðum ferð á Idol fyrir allt fólkið. Ég ætlaði ekki að fara, en það var skotið mikið á mig þar sem að ég væri ekki að mæta á atburði, sem ég hjálpaði við að skipuleggja.

Allavegana, ég mætti í mat á Pizza Hut og síðan var planið að fara á Idol. Svona 5 mínútum áður en þetta byrjaði leit ég á miðann og röðina og hugsaði svo með mér: Nei andskotinn, ég get ekki setið í gegnum þetta.

Ég hef aldrei getað horft á meira en 10 mínútur af þessum Idol þætti og mér leist hreinlega ekkert á að sitja undir þessu í einhverja klukkutíma. Ég fór því heim. Rölti seinna um kvöldið á skemmtun hjá Ungum Jafnaðarmönnum, sem var fín. Kíkti svo með [PR](http://www.jenssigurdsson.com/), Litlu PR og fleira fólki á Ara í Ögri. Að ég held í fyrsta skipti, sem ég fer á þann stað síðan ég útskrifaðist úr Verzló.

Mig minnir að við höfum aðallega farið á þann stað vegna þess að við komumst alltaf inn og það var aldrei neinn þarna inni og því gátum við alltaf fengið borð. Allavegana, þá virðist staðurinn hafa breyst mikið og hann kom mér á óvart. Allt stappað og fullt af sætum stelpum. Þegar ég var að labba heim missti ég iPodinn minn í götuna og því er hann bilaður í annað skiptið á fjórum vikum. Ég er hálfviti!

Fór svo í gleraugnakaup í dag og fékk ein gleraugu lánuð heim. Ætla að prófa þau yfir helgina, þar sem ég erfitt að venjast þeirri tilhugsun að vera með gleraugu.

Á morgun er það [úrslitaleikur í deildarbikarnum](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/02/26/16.09.16/). Get ekki beðið!

Illugi og Sunnudagsþátturinn

sunnudagsthatturinn.jpgÉg hef áður gagnrýnt Sunnudagsþáttinn á þessari síðu. Hugmyndin að þættinum er ágæt, það er að fá menn með mjög ákveðnar skoðanir til að stjórna spjallþætti. Þetta form hefur verið vinsælt í Bandaríkjunum, en þar hafa menn farið alltof langt í þessu og er skemmst að minnast þess að Crossfire var tekinn af dagskrá CNN, þar sem sá þáttur fór að snúast meira um kynnana og þeirra skoðanir heldur en það að reyna að ná fram vitrænni umræðu um málefnin.

Sunnudagsþátturinn er langt frá því að vera á sama lága planinu og Crossfire, en á stundum kemst hann ansi nálægt því. Þar finnst mér Illugi Gunnarsson vera hvað verstur.

Fyrir það fyrsta, er það við hæfi að aðstoðarmaður valdamesta manns á Íslandi stjórni pólitískum spjallþætti?

Í öðru lagi þá er hrokinn í Illuga og vanvirðing við viðmælendur, sem og aðra stjórnmálaflokka (aðallega þá Samfylkinguna) með hreinustu ólíkindum. Fyrir stuttu horfði ég á [þátt, þar sem Illugi tók viðtal við Björgvin Sigurðsson í Samfylkingunni](http://media.gagna.net/uskefniSKJAR1/clips/2005_01/77/Sun_30_01_2005.wmv) (viðtalið er í enda þáttarins). Illugi á afskaplega erfitt með að hemja sig og fela fyrirlitningu sína á Samfylkinguna. Því var hann einstaklega dónalegur og hrokafullur í misvitrum kommentum sínum við Björgvin.

Til dæmis (ég reyni að umorða samtalið, svo að megin innihald náist:

>**Illugi**: Fyrsta spurning: Nú eruð þið að fara í gegnum gríðarlega harkalegar formannskorsningar. Haldiði að flokkurinn standi þetta af sér.

>**Björgvin**: já já…

>**Illugi**: Já, ég átti von á því að þú myndir segja þetta. he he heheheh

Í fyrsta lagi, þá er Illugi ekki fyndinn og það væri til góðs fyrir þáttinn ef hann áttaði sig á því. Í öðru lagi, ef menn vita svarið fyrirfram, þá geta þeir sleppt því að spyrja. Ef viðkomandi vill hinsvegar spyrja, þá er við hæfi að leyfa viðmælendanum að svara án þess að gera strax grín að svari hans.


Áfram:

>**Illugi**: Já já, flokkurinn [Samfylkingin] á nú ekki að vera svo hár, ætti að vera í svona 20- 25% fylgi .

Já, akkúrat. Hvað veit Illugi um það? Er fólkið, sem kaus Samfylkinguna í síðustu kosningum á einhverjum villgötum? Merkti það við vitlausan flokk í kjörklefanum? Hvernig er hægt að segja að flokkur, sem fékk yfir 30% fylgi í kosningum og er stöðugt yfir þeim mörkum í skoðanakönnunum eigi í raun að vera með 20-25% fylgi?

Einnig:

>**Illugi**: Ég ætla nú að sleppa því að segja að mér finnst þetta vera algjör klysja.

Nei, Illugi, þú slepptir því ekki að segja að þetta væri klisja. Þú sagðir akkúrat að þetta væri klisja. Ef ég myndi segja: “Ég ætla að sleppa því að segja að mér finnst Natalie Portman vera sæt”, sleppti ég í raun að segja það? Hverslags bull tal er þetta?


Og enn heldur Illugi áfram

>**Illugi**: [Glottandi] Ég ætla nú að sitja á mér og segja ekki hvað mér finnst um málefnin ykkar sko.

Illugi má alveg sitja á sér fyrir mér, en hins vegar væri gaman að sjá hvað honum finnst svona hræðilegt við stefnu Samfylkingarinnar. Sjálfstæðismenn eiga nefnilega afskaplega bágt með að gagnrýna stefnu flokksins, heldur kjósa þeir heldur að gaspra um “stefnuleysi” eða einhverja ámóta lélega frasa til að gera lítið úr þessum stjórnmálaflokki, sökum eigin rökþrota.

Já, en Illugi átti spil uppí erminni. Ingibjörg Sólrún sagði nefnilega eitthvað slæmt um samkeppni fyrir 20 árum. Það breytir engu fyrir Sjálfstæðismenn að hún hafi skipt um skoðun, nei, aðalmálið er að einu sinni var ISG meira vinstra sinnuð en hún er í dag.

Ég er svo sem vanur því að Sjálfstæðismenn séu fastir í fortíðinni og kjósi að líta á alla, sem skilgreina sig vinstra megin við þá, sem komma. Ég hélt að þetta væri fast við einhverja framhaldsskóla lógík, en þetta virðist vera alveg jafn áberandi hjá eldri mönnum.

Sennilega er þetta vegna þess að það er auðveldara fyrir Sjálfstæðismenn að gagnrýna kommúnisma heldur en skoðanir okkar í dag. Það er svo yndislegt að geta bara sagt: “Já, en vinstri stefnan virkar ekki. Þegar vinstri menn réðu árið 82 þá var sko brjáluð verðbólga.” Og “vinstri menn kunna ekki að fara með peninga”.

Þetta er náttúrulega tóm þvæla og á ekkert við stjórnmálamenn í dag. Hvað með það þótt Ingibjörg hafi einu sinni verið herstöðvarandstæðingur og hafi fyrir 20 árum sagt einhver misgáfuleg komment um samkeppni? Ég fílaði einu sinni New Kids on The Block og studdi Sjálfstæðisflokkinn. Það segir hins vegar ansi lítið um mig í dag.

Af hverju megum við ekki bara dæma fólk af þeim skoðunum, sem það hefur í dag. Sjálfstæðismenn hafa allir skipt um skoðanir síðustu 20 ár. Allir! Hver einn og einasti. Hjá þeim er það nokkurs konar eðlileg þróun að þeir breytast úr frjálshyggjumönnum yfir í íhaldsmenn eftir því sem þeir eldast og fitna. Ég dæmi þá þó af þeim skoðunum, sem þeir halda uppi í dag, en ekki af því, sem þeir sögðu fyrir 20 árum. Er það til of mikils ætlast að þeir haldi uppi svipuðum standard fyrir vinstri menn?

Guðlaugur og R-Listinn… og tölvupósturinn minn

Í huga Guðlaugs Þórs, fyrrverandi SUS-ara og núverandi Alþingismanns, ætli eitthvað vandamál þessa heims sé ekki R-listanum að kenna?


Já, og útaf allsherjarklúðri, þá er gamli tölvupósturinn minn, einar77 (@) simnet.is ekki lengur virkur. Nýji tölvupósturinn minn er einarorn (@) gmail.com. Bið alla, sem vilja senda mér póst um að nota þá addressu.

Merkilegir hlutir

Í dag gerði ég nokkra merkilega hluti:

* Ég keyrði uppí Grafarvog! Jei! Það gerist varla nema við hátíðleg tilefni að ég fari þangað.

* Ég fór í klippingu. Það telst vissulega til stórtíðinda á þessari síðu, enda leiðist mér ekki að tala um hárið á mér. Núna er ég með sítt að aftan og talsvert styttra að framan. Loksins hitti ég á klippikonu, sem ég fílaði. Hún sagði að ég ætti að sættast við krullurnar mínar. Ég mun hér eftir reyna það. Mikið líður mér vel núna. Við klippikonan gátum meira að segja talað heillengi saman um afar skemmtilegan hlut, það er hárið á mér. Gaman gaman!

* Sá Liverpool vinna 3-1 á Players ásamt vini mínum. Mikið afskaplega var það gaman. Þetta er í fyrsta skipti síðan ég man eftir mér að ég horfi á leik með Liverpool í útsláttarhluta Evrópukeppni Meistaraliða/Meistaradeildarinnar. Þeir sem segja að Liverpool sé eins-manns-lið mega núna officially hoppa uppí rassgatið á sér.

Fór svo í fótbolta eftir leikinn og núna er ég alveg búinn. Ég hélt að ég sæi fram á ögn rólegri tíma í vinnu, en svo breyttist allt í dag, þannig að sumum verkefnum verður enn frekar slegið á frest. Það er ekki gott.


[Þessi hugrakki einstaklingur](http://www.coudal.com/abbavideo.php) hlustaði á Dancing Queen með Abba í fimm klukkutíma á meðan hann keyrði til kærustunnar sinnar.


Fyrir þá, sem ekki vissu, þá tilkynnist það hér með að Jay-Z er SCHNILLINGUR! Einsog vanalega þá er ég nokkrum árum á eftir í hip-hopinu og því fattaði ég ekki Jay-Z fyrr en fyrir svona 2 árum. Hef smám saman verið að vinna mig í gegnum efnið hans. Undanfarið hef ég verið að hlusta á [Unplugged](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/B00005UDK5/qid=1109116747/sr=8-1/ref=pd_csp_1/102-8044272-2173707?v=glance&s=music&n=507846) plötuna með honum. Hún er æði. ÆÐI!

Gengið á svelli

Var á djammi í gær. Það er ekki gott þegar að vekjaraklukkan hringir áður en maður sofnar. Ein af Serrano stelpunum var með partí og svo fórum við saman í bæinn.

* Fórum á Road House, sem er þar sem Thomsen var einu sinni. Staðurinn var nær tómur á laugardagskvöldi.
* Mæli með Pizza King, sem er þar sem Serrano var áður í Hafnarstræti. Pizzurnar þar eru bestu fyllerísmaturinn í bænum. Svo er Tony, gaurinn sem á staðinn, þrælfínn gaur, sem gefur mér alltaf ókeypis pizzu 🙂
* Ég efast um að það sé neitt fallegra í Reykjavíkurborg en að labba á ísilagðri tjörninni í fallegu veðri um miðja nótt, einsog ég gerði eftir djammið um 5 leytið í gær. Án efa fallegasti staðurinn í borginni.

En mikið skemmti ég mér nú vel. Vodka er málið, er hættur þessu bjórsulli.