Bestu lögin og bestu plöturnar 2004

Jæja, þá er komið að árlegri færslu hjá mér. Það að lista upp bestu plöturnar á árinu. Sjá hér [2002](https://www.eoe.is/gamalt/2002/12/30/14.31.05/) og [2003](https://www.eoe.is/gamalt/2003/12/30/23.58.55). Ég ætla að hafa sama snið á þessu og í fyrra, það er að velja 10 bestu plöturnar og 15 bestu lögin á árinu. Byrjum á lögunum:

  1. Franz Ferdinand – Take Me Out – Í alvöru, það er ekki hægt að hlusta á þetta lag án þess að hoppa einsog vitleysingur. Frábært rokk!
  2. Quarashi – Stun Gun – Það eru fáir betri í þessum heimi við að búa til grípandi lög en Sölvi Blöndal. Í raun er Guerilla Disco uppfull af frábærum lögum en einhvern veginn hefur Stun Gun staðið uppúr hjá mér.
  3. Scissor Sisters – Take your mama out – Partílag ársins. Ég held að ég hafi hlustað á þetta lag fyrir hvert einasta djamm síðustu mánuðina.
  4. U2 – Vertigo
  5. Modest Mouse – Float On
  6. The Streets – Dry Your Eyes
  7. Beck – Everybody’s Gotta Learn Someteimes
  8. Wilco – Spiders (Kidsmoke)
  9. Hæsta Hendin – Botninn Upp
  10. N.E.R.D. – Maybe
  11. Jay-Z – December 4th
  12. The Darkness – I Believe in a Thing Called Love
  13. Eminem – Encore
  14. Britney Spears – Toxic
  15. The Killers – Mr. Brightside

Fjögur efstu lögin voru frekar jöfn í mínum huga. Það komu tímabil á árinu, þar sem þessi lög voru í nánast stanslausri spilun hjá mér. En ég held að Take Me Out hafi þó staðið uppúr.


Og þá plöturnar:

  1. The Streets – A Grand don’t come for free – LANGBESTA plata ársins. Stórkostleg snilld. Ég get svo svarið það, ég er búinn að hlusta á plötuna að minnsta kosti 35-40 sinnum og hún er ennþá að vaxa í áliti hjá mér. Mike Skinner er besti rappari í heimi í dag, segi ég og skrifa. Engir stælar, engin læti, bara 25 ára strákur að segja frá nokkrum dögum í lífi sínu. Hvernig hann verður ástfanginn og hvernig stelpan hans heldur framhjá besta vini hans. Og umfram allt þá rappar hann um alla litlu hlutina, sem við eigum við að etja á hverjum degi.

    Ég man eitthvað kvöldið þegar ég sat hérna heima og heyrði í fyrsta skipti alla textana. Oft hlustar maður á lög en nær kannski ekki þeim boðskap, sem listamaðurinn vill koma til skila. En þegar ég loksins hlustaði nógu vel fékk ég gæsahúð yfir snilldinni. Endirinn á plötunni er sérstaklega áhrifamikill allt frá því þegar Mike fattar að kærastan hélt framhjá honum í “What is he thinking” yfir í “Dry Your Eyes”, þar sem hann talar við kærustuna sína um framhjáhaldið og allt yfir í lokalagið, Empty Cans sem er besta lag plötunnar. Ég get ekki hlustað á þennan kafla (sérstaklega síðustu tvö lögin) án þess að fá gæsahúð. Besta plata sem ég hef heyrt lengi.

  2. Franz Ferdinand – Franz Ferdinand – Án efa nýliðar ársins. Take Me Out greip mig strax og ég hef ekki almennilega jafnað mig á því lagi. Kaflinn þegar lagið breytist úr “The Strokes” í eitthvað allt annað, er algjör snilld og ég á enn í dag erfitt með að hoppa ekki í þeim kafla. Restin af plötunni nær auðvitað ekki þeirri hæð, sem Take Me Out nær, en hún er samt uppfull af frábærum rokklögum. Jacquelina, Dark of the Matinee og svo framvegis. Frábært rokk.
  3. Wilco – A Ghost is Born – Talsvert meira catchy en fyrri Wilco plötur og stendur Yankee Hotel Foxtrot ekki langt að baki. Spiders (Kidsmoke) er algjör snilld, þrátt fyrir að ég hafi verið púaður niður af vinum mínum þegar ég hef reynt að spila það. Já, og Hummingbird er frábært popp. Virkilega góð plata.
  4. Madvillain – Madvillainy – Ok, ég ætla ekkert að þykjast vera einhver underground hip-hop sérfræðingur, því ég hafði ekki hugmynd um þá, sem standa að þessari plötu þangað til að ég sá þetta athyglisverða plötu-umslag í San Fransisco. En þetta eru semsagt þeir MF Doom og pródúserinn Madlib, sem saman stofnuðu Madvillain og gáfu út þessa frábæru hip-hop plötu. Þétt keyrsla í öllum lögum.
  5. Modest Mouse – Good News For People Who Love Bad News – Ég vissi ekkert um þessa sveit þangað til að ég heyrði “Float On” fyrst í útvarpinu. Það lag greip mig algerlega, en samt kom það mér virkilega á óvart hvað platan þeirra er frábær. Bury Me With It, The View og fleiri eru frábært lög.
  6. The Killers – Hot Fuss
  7. Björk – Medulla
  8. U2 – How To Dismantle an Atomic Bomb
  9. Scissor Sisters – Scissor Sisters
  10. Morrissey – You are the Quarry

Svo að lokum það besta af því gamla dóti, sem ég hef uppgötvað á árinu: Blonde on Blonde og Blood on the Tracks með Dylan. Transformer og VU og Nico með Lou Reed og Velvet Underground og svo Willie Nelson.

Bestu myndbönd ársins: Blinded by the light – The Streets, Toxic – Britney Spears og svo auðvitað Call on Me – Eric Prydz.

Jólin

Þá eru stærstu jólaboðin afstaðin og þetta hefur verið indælt hingað til. Var hjá bróður mínum í gær og svo mömmu og pabba í kvöld. Fékk kalkún í gær og nautakjöt í kvöld. Ég get ekki beðið um það betra. Fékk fullt af skemmtilegum gjöfum og skemmti mér konunglega í gærkvöldi. Held ég hafi þó minnst á það áður að ég er orðinn það gamall að mér finnst skemmtilegra að sjá viðbrögð annarra við gjöfunum frá mér, heldur en mér finnst sjálfum að taka upp mína pakka. Var búinn að pæla vel í þessu öllu fyrirfram og sýndist allir vera mjög ánægðir með gjafirnar frá mér. Sem er gott.

Við fjölskyldan horfðum svo á Love Actually í jólaboðinu áðan. Ég sá myndina fyrir ári og fannst hún algjört æði. Hún var alveg jafngóð núna. Og ég er svo sannarlega ekkert minna [ástfanginn af Keira Knightley](http://www.imdb.com/gallery/ss/0314331/Ss/0314331/5573_01909_rgb.jpg?path=pgallery&path_key=Knightley,%20Keira) núna en ég var eftir að ég sá myndina í fyrsta skiptið.

Ætla ekki að gera neitt af viti á morgun og ég get varla beðið. Ætla að reyna að halda áfram stórkostlegum frama mínum í glæpaheimi [San Andreas](http://www.rockstargames.com/sanandreas/) og svo auðvitað horfa á [fótbolta](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2004/12/25/23.22.04/). Svo ætla ég að hella mér uppá kaffi og borða smákökur. Serrano er lokað, sem og hinni vinnunni minni, svo það getur enginn truflað mig. Já, þetta verður indælt.

Og já, þið sem senduð mér jólakort. TAKK! Ég stefni á að skrifa kort á næsta ári 🙂

Festivus for the rest of us!

festivus 02 Father of Festivus 2_small.jpg[Þetta er snilld](http://www.nytimes.com/2004/12/19/fashion/19FEST.html?oref=login&oref=login&pagewanted=all&position=). Samkvæmt NY Times, þá er fullt af fólki í Bandaríkjunum, sem heldur árlega uppá “Festivus” hátíðina.

Fyrir þá, sem fatta ekki brandarann strax, þá er Festivus hátíð, sem pabbi George í Seinfeld fann uppá. Hann var orðinn þreyttur á jólunum og ákvað að búa til sína eigin hátíð, sem hann kallaði Festivus. Í Seinfeld þáttunum verður Kramer svo hrifinn af hugmyndinni að hann fær pabba George til að halda aftur uppá Festivus.

Festivus hátíðin gengur útá það að í stofunni er álstöng (í stað jólatrés). Einnig mega allir gestir lýsa því yfir hversu miklum vonbrigðum hinir gestirnir hafa valdið þeim á liðnu ári. Svo er líka kraftakeppni (“feats of strength”), sem var í Seinfeld þáttunum fólst í glímu á milli George og pabba hans.

Ég held hreinlega að ég verði að halda Festivus partí næsta ár. Þetta er bara of góð hugmynd til að klikka á.


Búinn að vinna 16 tíma í dag, sem er nokkuð gott. 5 tíma í 9-5 vinnunni og svo eftir það uppá Serrano. Finnst það vera svo mikil sóun að koma bara heim og fara að sofa að ég er að reyna að halda vöku. Það þrátt fyrir að ég sé ekki að gera neitt merkilegt.

Það sama var uppá teningnum í gær. Þá vann ég víst 14 tíma. Ef ég væri ekki minn eigin atvinnurekandi á Serrano þá gæti ég sennilega kært atvinnurekandann fyrir illa meðferð á starfsfólki. En svona er þetta.

Mikið er ég samt feginn að jólatra undirbúningurinn sé búin. Fór í verslanir í kvöld í um einn og hálfan tíma og náði að klára innkaupin. Þetta *átti* ekki að vera neitt stress, en svo komu upp mikil veikindi á Serrano og við Emil þurftum að redda hlutunum. Samt, þrátt fyrir öll erfiðin þá hefur þetta líka verið nokkuð skemmtileg vika.

Á morgun ætlum við Emil að keyra út jólagjöfum til starfsmanna og svo fer ég með fjölskyldunni uppí kirkjugarð. Um kvöldið fer ég í boð til bróður míns. Inná milli þarf ég svo að finna tíma til að pakka inn gjöfunum.


Er núna búinn að fá fullt af jólakortum, sem mér finnst alltaf skemmtilegri og skemmtilegri með hverju árinu. Kann einhvern veginn betur að meta að fá þessi kort núna heldur en ég gerði fyrir nokkru. Samt hefur það ekkert breyst að ég er alltof gleyminn/latur til að skrifa kort sjálfur. Vona að vinir mínir móðgist ekki við þetta, því mér þykir svo gaman að fá kortin frá þeim. Mig vantar nauðsynlega kærustu til að hafa vit fyrir mér í svona hlutum.

En ok, ég ætla að fara að sofa svo ég verði hress og kátur á morgun. En segi bara til allra **GLEÐILEG JÓL**! Njótið þessa fáránlega stutta jólafrís!

🙂

I'm slipping under…

britneyspears_toxic200.jpg
Úff, ég er alveg búinn. Ég vaknaði pirraður, Weetabix-ið var búið og því fór ég útúr húsi með tóman maga. Sat svo ráðstefnu allan daginn um mjög áhugavert mál, en var alltaf pirraður útí allt og alla. Komst svo að ég þurfti líka að vinna uppá Serrano eftir vinnu. Það var farið að sjóða á mér þegar ég mætti þangað um fimm leytið.

Þurfti að fara í afgreiðsluna, sem virtist vera besta meðalið við pirrinu, því einhver veginn fannst mér þetta bara hálf yndislegt að vera að vefja burrito og selja fólki. Stóð þarna vaktina í þrjá tíma inní Kringlu. Að ég held í fyrsta skipti í marga mánuði, sem ég hef verið svona lengi í afgreiðslunni. Það er þó ágætt að prófa þetta öðru hverju, til að vera í aðeins betra sambandi við kúnnann og sjá hvort hlutirnir hafi breyst. Dagurinn í dag var stærsti söludagurinn í sögu Serrano. Já, ég segi það og skrifa að ég hef góð áhrif á söluna. Augljóst að maður er góður í að trekkja að viðskiptavini. 🙂

Kom svo heim í fimm mínútur og fór beint í fótbolta. Þar fékk ég svo endanlega útrás fyrir pirringnum. Langaði reyndar að berja vin minn fyrir að sparka mig harkalega niður, en ákvað að það væri full langt gengið. Mikið er samt gott að hlaupa einsog vitleysingur á eftir bolta og ná þannig öllu stressinu úr sér. Var ekki kominn heim fyrr en klukkan 11, þannig að þetta hefur verið langur og erfiður dagur.


Hef bara keypt 2 gjafir. Aldrei þessu vant, þá þakka ég Guði fyrir að ég skuli ekki vera á föstu, því allavegana slepp ég við þann hausverk. Jú, reyndar keyptum við Emil líka gjafir handa stelpunum á Serrano, þannig að í raun er ég búinn að kaupa 14 jólagjafir, sem hlýtur að teljast nokkuð gott. Á þó enn stærsta hlutann eftir. Sem betur fer er ég að mestu að gefa litlum krökkum gjafir, sem er alltaf skemmtilegast.


Ég verð að játa það að ég hlýt að vera alveg glataður að hafa ekki einu sinni heyrt lagið, sem þeir á Pitchfork velja [sem bestu smáskífu ársins](http://www.pitchforkmedia.com/top/2004/singles/). Samkvæmt þeim er Heartbeat með Annie lag ársins. Náði í það á netinu og þetta er svosem ágætis popp. Ég er þvílíkt ánægður með snobbhausana á Pitchfork fyrir að velja Toxic með Britney í þriðja sætið (á eftir Hearbeat og 99 Problems með Jay-Z).

Toxic er nefnilega æðislegt lag. Ég er enginn sérstakur aðdáandi tónlistar Britney (þrátt fyrir að ég hefði viljað giftast Britney), en Toxic er einfaldlega frábært popplag og myndbandið við það lag er án efa lang-næst-besta myndband ársins (á eftir besta myndbandi allra tíma, [Call on Me](https://www.eoe.is/gamalt/2004/10/08/21.56.40/)).

Jólaþynnka

Æ!

Er svona um það bil að ná mér eftir frekar slæman þynnku dag. Þegar Eldsmiðjupizzan kemur eftir hálftíma, held ég að ég nái fyrri styrk. Var í matarboði með góðum vinum í gær. Það var helvíti skemmtilegt. Allir strákarnir urðu allavegana nokkuð ölvaðir og vorum við gríðarlega hressir til svona 4-5 um morguninn þegar ég fór heim. Fór ekki einu sinni í bæinn, sem telst til tíðinda.

Horfði á Liverpool vinna í morgun. Öskraði þegar Mellor skoraði og það var nú ekki beint til að bæta hausverkinn. Ákvað að leggja mig eftir leikinn.

Er að reyna að berja í mig eitthvað jólaskap, en það gengur erfiðlega. Hér eru hvorki skreytingar né jólatré, en ég er búinn að vera að spila jólalög og borðaði eitthvað af smákökunum, sem mamma bakaði. Samt, kemst ekki í stuð. Er ekki búinn að kaupa eina jólagjöf og sýnist allt stefna í að ég kaupi jólagjafirnar á Þorláksmessukvöld einsog svo oft áður.

Já, og ég er bara kominn með [35 rétt svör](http://www.xfm.co.uk/Article.asp?b=multimedia&id=55665). Ferlega er þetta erfitt.

Ðí Batselorette

Ó, ég elska raunveruleikasjónvarp! Núna er byrjað ný sería af The Bachelorette, þar sem nokkrir strákar keppa um hylli þessarar [þrítugu gellu](http://www.ruggedelegantliving.com/a/images/Elegant.Meredith.One.Rose.jpg). Ég missti af fyrsta þættinum vegna Liverpool fótbolta, en sá þátt númer 2 í gær. Hann var snilld! Gargandi snilld!

Í fyrsta lagi var það hálf scary að nokkrir þessir gaurar voru jafngamlir og ég, en þeir voru allir að pipra á lífinu og vildu helst ekki bíða stundinni lengur eftir því að eignast börn. Þeir voru allir ofsalega hrifnir af þessari Meredith og sáu hana fyrst og fremst sem eitthvað, sem gæti fært þeim þessi börn. Í þessum þætti fékk einn gaurinn prívat stefnumót, en hinir voru á hóp-stefnumótum.

Það voru í raun engin takmörk fyrir fáránlegum línum hjá þessum gaurum í þættinum. Fyrstan ber að telja gaurinn, sem Meredith fékk einkastefnumót með. Þau hittust í einhverri höll og áttu þar að borða saman. Meredith spyr hann þá hver séu áhugamál hans. Ég er ekki með svarið 100%, en það var eitthvað á þessa leið:

>I like to travel, but I’m not the outdoor-sy type. I’m still caught in the whole metrosexual thing. I love to take care of myself.

Vá! Þetta er eiginlega OF mikil snilld. Samkvæmt vísindalegum [könnunum](https://www.eoe.is/gamalt/2004/01/18/23.57.24/) á ég víst að teljast dálítið metró, en aldrei dytti mér í hug að monta mig af því við stelpu. Eru ekki stelpur fyrst og fremst að leitast eftir því að menn séu sæmilega vel lyktandi og snyrtilegir, en ekki að þeir geti talað um safnið sitt af húðkremum? Þannig ímynda ég mér þetta allavegana. Já, og þýðendur Skjás Eins þýddu metrósexúal sem “buxnaskjóni”!!!

Allavegana, gaurinn hélt svo áfram að sýna sig. Skyndilega kom svo inn þjónn og hellti vín í glösin þeirra. Gaurinn stoppaði þá þjóninn og sagði án efa bestu línu þáttarins:

>ahm, do you have some Californa Oak Chardonnay.

Halló. Í fyrsta lagi, þá biður enginn karlmaður um hvítvín! Í öðru lagi, hversu tilgerðarlegt er að biðja einhvern random þjón um einhverja ákveðna tegund af hvítvíni? Come on! Ef ég væri stelpan, hefði ég ælt nákvæmlega á þeirri stundu.

Allavegana, það voru samt fleiri, sem voru enn meira desperate. Til dæmis einn, sem lá uppí rúmi með Meredith og sagði: “Ég get ímyndað mér þig ólétta með barnið okkar”. KRÆST!

Já, og annar, sem loksins náði “one on one” tíma með Meredith og nýtti þann tíma til að segja: “I want something, I want Kids”. Hann fékk ekki rós. Ég veit ekki alveg hvort gaurarnir eru að tapa sér eða hvort þeir hafi lesið of mikið af bókum, sem segi að allar stelpur séu að leita sér að “commitment” eða einhverri ámóta vitleysu.

Ég hef áður haldið því fram að Bachelorette geti aldrei verið jafn skemmtilegur og The Bachelor vegna þess að strákar geta/nenna ekki að rífast jafn mikið og stelpur og því verður ekkert um slagsmál og rifrildi. Hins vegar eru þessir gaurar svo stórkostlega desperate að þetta lítur út fyrir að þetta verði verulega skemmtileg þáttaröð.

Já, fyrir utan það að ég veit hver vann. En auðvitað segi ég ekki frá því hér.

Jakkafataþreyta

Ok, ég er búinn að komast að stórmerkilegum hlut. Málið er nefnilega að ég verð örmagna af þreytu af því einu að vera í jakkafötum allan daginn. Ég segi bara Guði sé lof fyrir að ég vinn ekki í banka.

Sem betur fer er það svo að í vinnunni minni þarf ég ekki að vera í jakkafötum nema við hátíðleg tilefni, svo sem þegar ég tek á móti útlendingum eða þegar ég fer í heimsóknir til útlanda. Það skrítna við þessi skipti, sem ég fer í jakkaföt, er að ég verð alltaf gjörsamlega örmagna í lok dags.

Dagurinn í dag var t.d. ósköp venjulegur. Ég var mættur í vinnu aðeins seinna en vanalega og var þá með konu, sem var í heimsókn hjá okkur. Við funduðum nokkuð lengi, ég komst í ræktina og svo var ég í vinnunni til 5, sem er mjög stuttur vinnudagur. En þegar ég kom heim var ég alveg búinn. Ég settist niður og var nánast sofnaður. Þurfti þó að berja í mig hressleika því ég fór áðan útað borða. Fór á Vox, sem er æði.

Allavegana, ég get ekki séð hvernig þessi dagur hefur verið öðruvísi en aðrir dagar, nema fyrir þá staðreynd að ég var í jakkafötum. Þannig að það hlýtur að vera eitthvað við þann fatnað, sem gerir þetta að verkum. Ég fíla reyndar að ganga í jakkafötum, svona öðru hvoru. Maður fær hrós fyrir að líta vel út og þetta er ágætis tilbreyting við gallabuxurnar, sem ég geng í dags daglega. En þetta þreytu dæmi er verulega þreytandi. Já, eða eitthvað svoleiðis.

Ég er til dæmis svo þreyttur núna að þessi færsla er eintóm vitleysa.

En svona til að segja eitthvað af viti, þá vil ég vinsamlega benda fólki á að “Sooner or Later” með Bob Dylan er fokking snilld!

Já, og svo er það leiðinlegt að [Toggi](http://www.toggipop.blogspot.com/) skuli vera hættur að blogga. Ég þarf að fara að finna mér nýjar síður til að lesa víst að bæði hann og Járnskvísan eru dottin útúr daglega blogg rúntinum mínum.

Nei, Hannes, nei

Jæja, þá er komið að því að veita hin árlegu verðlaun [eoe.is](https://www.eoe.is) fyrir leiðinlegustu frétt ársins. Verðlaunin í ár hlýtur:

**Öll umfjöllun um bók Hannesar Hólmsteins um Halldór Laxness!!!**

Jiminn eini, hvað þetta er þreytt umræða. Var ekki nóg að eyða síðustu jólum í þetta röfl. Rifrildi á milli bókmenntafræðinga er ekki athyglisvert fréttaefni, sama hverjir eiga í hlut. Takk fyrir.

Saga Serrano

Fyrir nokkrum dögum héldum við Emil uppá 2 ára afmæli Serrano á Pravda, þar sem við buðum samstarfsfélögum, vinum og ættingjum. Ég byrjaði að skrifa ræðu fyrir þann atburð, sem ég hætti við að flytja og úr varð þessi grein um sögu staðarins. Ég vona að einhverjir hafi
gaman af því að lesa um þessa æsispennandi atburðarrás. Þetta er skrifað út frá mínum sjónarhóli, þannig að eflaust gerir sagan alltof mikið úr mínu hlutverki, en alltof lítið úr hlutverki Emils og annarra, sem hafa komið nálægt staðnum. En svona blogg er alltaf svo
sjálhverft :-).


Það er magnað þegar ég hugsa núna til þess að veitingastaðurinn okkar skuli vera orðinn tveggja ára gamall.

Það má í raun segja að Serrano hafi byrjað fyrir sjö árum í rútuferð einhvers staðar í Suður-Ameríku. Þar var ég ásamt Emil og tveim öðrum vinum mínum á ferðalagi. Í 6 mánuði flökkuðum við um öll lönd Suður-Ameríku á ferðalagi, sem við munum aldrei gleyma. Einsog ég man
þetta þá sátum við Emil saman í langri rútuferð. Talið barst að mat og ég fór að tala um mexíkóskan skyndibitastað, sem ég hafði dýrkað og dáð meðan ég bjó og vann í Mexíkó.

Þegar ég var 18 bjó ég og vann í Mexíkóborg. Eftir klókum leiðum hafði mér tekist að redda mér vinnu þar í borg. Fyrsta kvöldið í Mexíkóborg fór ég út að borða með fólki frá fyrirtækinu, sem ég vann hjá. Fyrir valinu var þessi mexíkóski skyndibitastaði, sem ég varð
strax ástfanginn af.

Þegar ég minntist á þennan stað við Emil á ferðalaginu í Suður-Ameríku fórum við strax á flug og okkur fannst rosalega sniðugt að opna svona stað á Íslandi.

Eftir að við komum heim úr ferðalaginu skildu leiðir. Ég fór út til Bandaríkjanna í nám en Emil í háskóla á Íslandi. Í Bandaríkjunum varð ég ofboðslega hrifinn af nokkrum veitingastöðum. Þar á meðal var einn veitingastaður, sem ég var fullviss um að myndi virka á Íslandi. Ávallt þegar ég og Hildur, fyrrverandi kærasta mín, borðuðum á þeim stað töluðum við um hversu gaman það yrði að setja upp slíkan stað á Íslandi.

Ég var skeptískur, því ég vissi ekki hvort ég þyrði útí slíkt ævintýri, en Hildur var sannfærð. Það má segja að án hennar væri Serrano örugglega ekki til. Hún hamraði stöðugt á því hversu klár og duglegur ég væri og að þetta yrði ekkert mál fyrir mig. Allar þessar pepp ræður hennar urðu til þess að ég tók ákvörðunina um að þetta vildi ég gera þegar ég kæmi heim.

Í jólafríi heima á Íslandi 2001 hringdi ég svo í Emil og bað hann um að hitta mig á kaffihúsi. Við hittumst á Kaffi List og þar bar ég undir hann hugmyndina um að opna veitingastað. Ég var alltaf á því að ég þyrfti að fá einhvern með mér í þetta og ég var viss um að Emil hefði þá hæfileika og þá þekkingu, sem mig skorti. Hann tók lygilega vel í hugmyndina og sagðist lítast mjög vel á pælingar mínar. Sú hugmynd, sem ég seldi honum það kvöld, var þó gjörólík þeim stað, sem Serrano er í dag.

Þegar ég fór aftur út til Bandaríkjanna byrjaði ég að hugsa betur um möguleikana og komst í raun á þá ákvörðun að hefðbundinn veitingastaður, einsog sá sem ég var að hugsa um, væri ekki nógu sniðug hugmynd. Vænlegra til árangurs væri ákveðin útfærsla á mexíkóskum skyndibita, sem ég hafði minnst stuttlega á við Emil. Við Hildur höfðum nefnilega verið miklir aðdáendur nokkurra staða, sem buðu uppá mexíkóskan skyndibita, og vorum sannfærð um að slíkt gæti virkað heima á Íslandi.

Ég sendi Emil því email og sagðist hafa skipt um skoðun. Hann var mjög sáttur við hugmyndina, því sér hefði litist betur á Serrano hugmyndina. Úr því varð ekki aftur snúið.


Næstu mánuðir voru býsna skrýtnir. Ég átti aðeins 4 mánuði eftir af skólanum og ætlaði mér að setja upp mexíkóskan veitingastað þegar ég kæmi heim. Ég hafði litla, sem enga þekkingu á matnum, veitingastaðabransanum og öðru því tengdu. Við Hildur ályktuðum þó að fyrsta skrefið væri væntanlega að búa til matinn. Við vissum nokkurn veginn hvernig mat við vildum, en höfðum ekki hugmynd um hvernig átti að búa hann til. Utan uppskriftar af guacamole, sem mamma fyrrverandi kærustu minnar í Mexíkó hafði gefið mér, höfðum við ekki neitt.

Því byrjuðum við að fræða okkur um mexíkóska matargerð. Ég keypti allar bækur, sem hægt var að finna og Hildur tók fjölmargar bækur útaf bókasafninu í sínum skóla. Þegar við töldum okkur vita aðeins meira um hvað við værum að leita að, byrjuðum við að prófa okkur áfram í eldhúsinu. Á hverju kvöldi í margar vikur elduðum við kjúkling, salsa sósur og hrísgrjónarétti. Oft bjuggum við til 4 tegundir af marineringu í einu og bárum svo saman kjúklinginn og völdum síðan þann besta. Síðan prófuðum við saman sigurvegarana úr þeim undanrásum til að smám saman þrengja hópinn.

Þegar við svo fundum eitthvað, sem okkur líkaði, prófuðum við okkur áfram. Breyttum uppskriftum, bættum við og drógum úr öðru. Ég er t.a.m. full sannfærður um að enginn 27 ára gamall piparsveinn í þessum heimi á annað eins safn af kryddum og ég. Smám saman breyttum við og bættum og þær uppskriftir, sem við vorum hrifin af, líktust ekki í hið minnsta þeim uppskriftum, sem við höfðum lagt upp með í upphafi.


Við ákváðum fljótlega að við þyrftum að skýra staðinn okkar eitthvað. Við Emil vorum með skýra hugmynd um að nafnið á staðnum yrði að vera alþjóðlegt, í tengslum við mexíkóskan mat, og auðvelt í framburði. Kvöld eitt settist ég því fyrir framan tölvuna mína og leitaði að öllum orðum, sem tengdust mexíkóskri matargerð: Jalapeno, salsa, habanero, chile, og svo framvegis og framvegis. Við afmörkuðum valið, en á endanum urðum við öll 100% sammála um að nafnið Serrano væri besta nafnið. Serrano er heiti á sterkum chili pipar, sem við notum í nokkra rétti á staðnum. Serrano hljómaði nútímalegt og var auðvelt í framburði.


Síðustu mánuðurnir í Bandaríkjunum voru ansi magnaðir. Við Hildur hættum saman stuttu fyrir heimkomu og ég varð eftir í Bandaríkjunum mun lengur en ég ætlaði. Að lokum ákvað ég þó að fara heim. Fyrsta kvöldið mitt á Íslandi hitti ég Emil og við kíktum í bíltúr í
Smáralind, þar sem við höfðum hugsað okkur að opna staðinn okkar.

Við tóku langar samningaviðræður við Smáralind, sem runnu að lokum útí sandinn. Á sama tíma og það gerðist, fréttum við af lausu bili í Kringlunni og ákváðum að stökkva á tækifærið. Viðræðurnar við Kringluna gengu upp og við stóðum frammi fyrir því að innan 6 vikna ætluðum við að opna veitingastað, sem við vissum ekki einu sinni hvernig myndi líta út.

Einhvern veginn gekk það upp. Við fengum auglýsingastuna DBT (nú Vatíkanið) til að teikna upp logo og útlit staðarins og hófumst handa við að breyta bilinu úr amerískum kjúklingastað (Popeyes) í íslensk-mexíkóskan veitingastað. Næstu vikur voru því hrein geðveiki. Við unnum nánast allan sólahringinn og ég svaf frekar lítið útaf stressi.

Rúmlega viku fyrir opnun staðarins auglýstum við svo eftir starfsfólki. Á endanum réðum við 3 manneskjur í heilt starf og 7 manns í hlutastarf.

Daginn áður en staðurinn opnaði verður mér ávallt eftirminnilegur. Ég var að farast úr stressi aðallega vegna þess að ég var ekki viss um hvort fólki myndi líka maturinn. Ég var orðinn nokkuð ánægður með matinn, en hafði af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, aldrei prófað hann samann. Þannig að ég hafði einungis smakkað kjúklinginn eintóman, en ekki í vafðann í burrito. Eftirá að hyggja var þetta náttúrulega hrein geðveiki, þar sem margra milljón króna fjárfesting var undir þessum mat komin.

Þann 30. október 2002 kölluðum við allt starsfólkið saman uppá stað. Þar héldum við Emil einhverja stutta ræðu um að við værum bara tveir 25 ára strákar, sem vissum ekki alveg hvað við værum að fara útí, en við værum staðráðnir að hafa gaman af þessu og við vonuðum að við yrðum skemmtilegir yfirmenn og það yrði gaman að vinna á staðnum. Við fórum svo stuttlega yfir hvernig hlutirnir áttu að ganga fyrir sig.

Eftir fundinn fór ég svo með kokkinum yfir hvernig átti að matreiða matinn. Við 20-földuðum þær uppskriftir, sem ég hafði unnið með, og bjuggum til heil ósköp af mat. Iðnaðarmenn voru enn að klára ýmsa hluti í afgreiðslunni. Um miðja nótt ákvað ég þó að fara heim og reyna aðeins að sofa fyrir morgundaginn, en Emil hélt áfram að vinna alla nóttina.

Daginn eftir ætluðum við að opna staðinn klukkan 11. Það fór þó allt úrskeiðis, sem gat farið úrskeiðis. Fyrst vorum við alltof lengi að undirbúa matinn og síðan fór tölvukerfið úrskeiðis. Um tvö leytið fóru Emil og kokkurinn fram í afgreiðslu og fengu sér að borða. **Klukkutíma fyrir opnun staðarins** þá smakkaði Emil í fyrsta skipti matinn, sem við ætluðum að fara að selja. Fram að því hafði hann treyst mér fyrir því að þetta yrði í lagi. Ég held að ég hafi aldrei á ævinni verið jafn feginn og þegar kokkurinn sagði: “Við verðum í góðum málum með að selja þennan mat. Þetta er meiriháttar!” Þrátt fyrir þessi orð var ég samt enn hrikalega stressaður.

Staðurinn opnaði þó klukkan 3. Emil hafði vakað síðustu tvo sólarhringa og fór því heim, en ég stóð í afgreiðslunni mestallan tímann. Stuttu fyrir lokun ákvað ég þó að fara heim, örmagna af þreytu og stressi.

Ég losnaði þó ekki við stressið í bráð. Alltaf nagaði það mig að við værum að selja mat, sem enginn myndi fíla. Í raun var það svo að ég smakkaði ekki matinn á staðnum fyrr en eftir 5 daga. Fram að því fékk ég í magann af tilhugsuninni við að prófa matinn. Ekki vegna þess að mér fyndist hann ógirnilegur (auðvitað langt því frá), heldur nagaði mig sá ótti að þetta væri misheppnað og að þetta myndi bragðast allt öðruvísi en ég hafði ætlað. 5 dögum eftir opnun var maginn á mér loksins nógu þægur og ég smakkaði matinn, sem ég hef borðað nánast
daglega síðan. Mér fannst hann æði.


Síðan þá hefur þetta verið algjör rússíbanaferð. Okkur gekk vel í upphafi og við fórum útí að opna annan stað, sem við við síðar lokuðum. Á því ævintýri lærði ég gríðarlega mikið um sjálfan mig og viðskipti.

Serrano hefur verið mikil vinna og þetta hefur tekið á. En umfram allt hefur þetta verið ótrúlega skemmtilegt. Við Emil höfum kynnst ótrúlegu magni af skemmtilegu fólki. Við höfum oft á tíðum verið gríðarlega heppnir með starfsfólkið og tekist að skapa góðan anda á
staðnum.

Einhvern veginn hefur okkur Emil líka tekist að ganga í gegnum þetta saman. Við höfum verið ósammála alloft. Ég held því fram að hann nái alltaf sínu fram, en hann heldur því fram að ég nái alltaf mínu fram. En við höfum klárað málinn og ótrúlegt en satt erum við sennilega
miklu betri vinir í dag en við vorum fyrir þrem árum.

Þetta er búinn að vera magnaður tími. Gríðarlega erfiður á tímum, en umfram allt skemmtilegur. Í dag er ég gríðarlega stoltur af Serrano. Ég verð alltaf jafn glaður þegar ég labba uppá torg og sé fólk bíða í biðröð eftir því að borða matinn, sem við Hildur elduðum í pínkulitla eldhúsinu okkar í Chicago. Það er ótrúlega magnað.

Mr. DT

Ó, The Apprentice er svo mikil snilld. Það er ekki hægt annað en að dást að þessum þáttum og sérstaklega Donald Trump. Hápunktar þáttana eru án efa innskotin með Trump, þar sem hann bæði gefur góð ráð og svo þegar hann er að vinna.

Sérstaklega er gaman þegar það koma innskot með Trump, þar sem hann situr í limósínu og talar við einkaritarann sinn og öskrar: “*Cancel all my appointments, I have to go meet the teams*”. Einsog það hafi ekki verið ákveðið fyrirfram.

Ég væri til í að vera með einkaritara einungis til að geta sagt: “*Cancel all my appointments*”. Já, og til að færa mér kaffi, það væri indælt.