Afturvirkur pósitífismi

Fínn pistill eftir Jensa á Pólitík.is: [Um afturvirkan pósitífisma](http://www.politik.is/?id=953). Greinin er mun skemmtilegri en titillinn gefur til kynna. Einnig er myndskreytingin við pistilinn án efa sú besta, sem birst hefur á íslensku vefriti. 🙂


Ég hef áður fjallað um “[A Grand don’t come for free](http://www.pitchforkmedia.com/record-reviews/s/streets/grand-dont-come-for-free.shtml) með snillingnum Mike Skinner, aka The Streets. Ég er ekkert lítið hrifinn af þessari plötu.

Hún hefur þann stórkostlega eiginleika að koma manni aftur og aftur á óvart. Í raun hefur álit mitt á plötunni breyst í hvert skipti, sem ég hef hlustað á hana:

Fyrsta skiptið: Alltof skrítið
3. skipti: Ágætis plata, en ekkert sérstaklega grípandi
5. skipti: Lögin verða meira og meira grípandi
10. skipti: Þetta er algjör fokking snilld
15. skipti: Í alvöru talað, þetta er ein af 10 bestu rapp plötum allra tíma!

Þannig að ef þið hafið hlustað á plötuna nokkrum sinnum og ekki verið hrifinn, verið róleg. Gefið honum sjens. Jafnvel þau, sem fíla ekki hefðbundið hip-hop, gætu orðið hrifin. Svo mikil er snilldin.

Kappræður & djamm

Kláraði að horfa á Bush-Kerry kappræðurnar. Bush var umtalsvert betri en í fyrra skiptið, en að mínu áliti vann Kerry þetta aftur nokkuð örugglega. Bush var á tíðum pirraður og reyndi ítrekað að vera fyndinn, sem virkaði ekki alveg.

Gunni vinur minn benti á að Bush hefði virkilega vantað trommuleikara með sér. Þannig að í hvert skipti, sem hann reyndi að vera fyndinn hefði komið: “Da dam Tjissss”. Hann sagði alltaf brandarann og beið svo eftir að einhver myndi hlægja. Mjög fáir hlógu að bröndurunum, en þeir hefðu kannski virkað betur með trommunum.


Annars fór ég í gærkvöldi með vinum mínum útað borða og svo á Hverfisbarinn. Mjög skemmtilegt kvöld. Talaði við fullt af skemmtilegu fólki, þar á meðal [Soffíu](http://www.voffvoff.blogspot.com), sem ég hafði aldrei hitt áður og [Óla](http://www.obalogy.com/), sem ég held að ég hitti í hvert skipti, sem ég fer á Hverfis. Ég fékk mér nokkra bjóra í fyrsta skipti í langan tíma og fann aðeins á mér, en ekki alvarlega. Að lokum vil ég enn endurtaka þá kröfu mína um að stelpur á föstu verði sérstaklega [merktar](https://www.eoe.is/gamalt/2003/10/02/22.59.00/index.php) á íslenskum skemmtistöðum. Það væri mun þægilegra að fá að vita það fyrirfram í stað þess að það komi fram í [miðri setningu](https://www.eoe.is/gamalt/2003/08/15/23.07.50/index.php). Myndi án efa spara tíma og fyrirhöfn.

Nöldur og Leh-Nerd Skin-Nerd

Þýðendur á RÚV eru margir hverjir snillingar. Til dæmis var þátturinn af “That 70s Show” áðan stórskemmtilegur.

Til að byrja með var orðið **”Burrito”**, sem ég þekki ágætlega, þýtt sem **”Hlöllabátur”!!!** Og nei, ég er ekki að grínast.

Einnig var setningin “Chap stick is not lipstick” þýtt sem **”Prjónn er ekki varalitur”**. Ætli þýðandinn hafi lesið yfir þessa þýðingu? Chap stick þýðir auðvitað varasalvi. “Chop Sticks” eru hins vegar prjónar notaðir til að borða mat.

Þetta var nöldur dagsins.


Mjög gott kvöld framundan. Hvað er betra til að koma sér í stuð en að hlusta á Lynyrd Skynyrd? Ég veit það ekki. Mæli með “I ain’t the One” af [Pronounced Leh-Nerd Skin-Nerd](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/B00005RIKI/qid=1097350035/sr=8-1/ref=sr_8__i1_xgl15/102-9937534-5255347?v=glance&s=music&n=507846), algjör snilld. Rokk gerist ekki mikið betra. I ain’t the One og Simple Man eru bæði stórkostleg lög og svo líka lokalagið. Hvað heitir það aftur? Já, [Freeee Bird](https://www.eoe.is/myndir/NewOrleans/source/zmyndir22.html)!

Er að klára að horfa á kappræður Bush og Kerry áður en ég fer út. Bush átti m.a. eitt snilldarkvót:

>There’s rumors on the internet**s**

Jammm, Bush er snillingur. Meira um þetta síðar.


Boston RedSox eru [komnir áfram](http://www.mlb.com/NASApp/mlb/bos/news/bos_gameday_recap.jsp?ymd=20041008&content_id=887527&vkey=recap&fext=.jsp) í bandaríska hafnaboltanum. Það er gott mál, enda eru þeir nú mitt lið eftir að Cubs duttu úr leik. Vonandi komast Yankees líka áfram, svo Boston geti unnið þá líka. Þá verða margar andvökunætur framundan hjá mér…

Myndband

Hér með tilkynnist það að [Call on Me](http://www.ministryofsound.com/mos/ministryofsound/templates/Wvx.aspx?media=/Video/EricPrydz/EricPrydz_CallonMe_LateNightVersion2_300k.wmv&rate=300) er **besta myndband allra tíma**.

Á því er enginn vafi.


Genni, þessi er fyrir þig:

>How many Bush officials does it take to change a lightbulb?

>None. “There’s nothing wrong with that light bulb. It has served us honorably. When you say it’s burned out, you’re giving encouragement to the forces of darkness. Once we install a light bulb, we never, ever change it. Real men don’t need artificial light.”

Silfurlitaður bíll

Þegar ég var í sambúð var kærastan mín dyggur lesandi allra kvennablaða, sem gefin eru út í Bandaríkjunum. Í þeim blöðum er endalaust af einhverjum könnunum og prófum um karlmenn.

Samkvæmt þeim blöðum geta stelpur fundið út hvort karlmenn henti þeim bara með því að vita hvort þeir fíli popptónlist, gangi í gráum sokkum og bori í nefið á rauðu ljósi. Allavegan, rakst á [þetta á netinu í dag](http://www.femin.is/article.asp?art_id=2125&old=1). Samkvæmt þessu, þá á að vera hægt að dæma menn af litnum á bílnum þeirra.

Jæja, samkvæmt því er ég svona:

>**Silfurlitaður bíll**
“Reglumenn elska silfurlitaða bíla. Svo ef að þú vilt fá reglu í líf þitt, skaltu kíkja eftir karlmanni sem ekur silfurlituðum bíl. Fyrir utan það að vera reglumenn eru þeir jákvæðir, jarðbundnir og sjálfsagaðir”

Spurningin mín er bara þessi: Hvernig fær fólk vinnu við að skrifa svona hluti? Önnur möguleg spurning er þessi: Gæti höfundurinn ekki reynt að láta okkur eigendur silfurlitaðra bíla hljóma aaaðeins leiðinlegri. “Reglumenn, sjálfsagaðir og jarðbundnir?” Zzzzzzz! (Via B2.is)


Annars er byrjunin á þessari viku búin að vera hrein geðveiki. Hef verið langt fram eftir í vinnu undanfarna daga og það lítur svosem ekki út fyrir að þetta sé að minnka á allra næstu dögum.

Fyrir vikið var íbúðin mín orðinn hreinasti viðbjóður, en ég er búinn að laga ástandið umtalsvert eftir að ég kom heim í kvöld. Ég er enn eldhúslaus, þannig að ég hef verið að prófa nýja veitingastaði að undanförnu. Stefni að því að prófa 7 nýja veitingastaði á næstu viku. Er það ekki göfug tilraun?


Er [Járnskvísan](http://www.jarnskvisan.com/) virkilega hætt að blogga? Það er stórkostlegur ósigur fyrir íslenska netmenningu ef hún er hætt!

Ó, Dusty!

Þetta gerist ekki oft. Í raun hefur þetta aldrei gerst áður, svo ég muni, að ég hafi áður verið jafn heltekinn, jafn fljótt af plötu.

Ég nálgaðist “Dusty in Memphis” með Dusty Springfield á netinu. Ég hef aldrei hlustað af viti með neitt með Dusty Springfield áður, nema kannski “Son of a Preacher Man”, sem var í Pulp Fiction. Allavegana, ég sá þessa plötu á einhverjum Rolling Stone lista og ákvað að gefa henni tækifæri. Því sé ég ekki eftir.

**Þvílík og önnur eins snilld**. Soul tónlist eða popp tónlist gerist ekki betri. Þetta er einhver al magnaðast plata, sem ég hef hlustað á. Fullkomnun í popp og soul tónlist. Öll lögin frábær og flutningurinn stórkostlegur. Að bera þetta saman við poppsöngkonu rusl (Celine Dion, et al) einsog það gerist verst í dag er magnað.

Síðasta lagið á disknum, [I can’t Make It Alone](http://www.lyrics.net.ua/song/79711) er á hraðri leið með að verða mitt uppáhalds lag. Ég nánast tárast þegar ég hlusta á það, ekki vegna þess að textinn sé svo sorglegur (sem hann jú er), heldur er þetta svo ótrúlega magnað lag og flutningurinn er svo ótrúlegur. Það er hreinlega erfitt að vera ekki hrærður við hlustunina. Ég veit að þetta virkar ótrúlega fáránlegt að ég sé að fíla Dusty Springfield, þar sem þetta er pottþétt tónlistin, sem mamma ætti að vera fíla, en það breytir því ekki að þetta er hrein snilld.

Ég skora á alla að gefa þessari plötu sjens. Sama þótt þú fílir ekkert nema Mínus eða Jay-Z eða hvað sem er, þá ættir þú samt að fíla þessa plötu. Allavegana, gerið mér þann greiða að ná ykkur í “I Can’t Make It Alone”. Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

Kappræðurnar

Ég horfði á kappræðurnar milli Bush og Kerry um helgina. Samkvæmt [könnunum Newsweek]( http://www.msnbc.msn.com/id/6159637/site/newsweek/), þá eru yfir 60% kjósenda á því að Kerry hafi unnið kappræðurnar. Ég get ekki annað en verið þeim hjartanlega sammála.

Ég reyni alltaf að sannfæra sjálfan mig um að vanmeta ekki George W. Bush með því að halda að hann sé vitlaus. En þegar maður horfir á hann í 90 mínútur, endurtakandi 4 punkta, sem aðrir skrifuðu greinilega fyrir hann, þá getur maður ekki að því gert að halda að hann sé ekki heill. Einsog Newsweek [benda á](http://www.msnbc.msn.com/id/6152186/site/newsweek/), þá er ágætis ástæða fyrir því að Bush heldur nánast aldrei blaðamannafundi. Hann er hreinlega ekki uppá sitt besta þegar öll spjót beinast að honum. 90 mínútur af George W. eru ansi langur tími.

Á tíðum var nær óbærilegt að horfa á Bush. Þegar hann var spurður hvort Írak væri virði þeirra bandarísku lífa, sem hann hefur fórnað, þá komhann með einhverja 2 mínútna ræðu um að hann hafi hitt einhverja ekkju í Norður Karólínu og hvernig hann hafði huggað hana, í stað þess að svara spurningunni. Bush var einnig greinilega ákveðinn í að hamra á því, sem hann heldur að sé sinn stærsti kostur, það er að hann skiptir aldrei um skoðun. Sama hversu vitlaus hans stefna hans er, þá álítur hann það algjörlega nauðsynlegt að skipta ekki um skoðun. Það að skipta aldrei um skoðun verður í mínum augum aldrei mannkostur.

Bush hamraði á því að Kerry skipti oft um skoðun varðandi stríðið í Írak. Bush er auðvitað að skjóta úr glerhúsi, því Bush sjálfur hefur skipt um ástæðu fyrir stríðinu margoft. Fyrst voru það gereyðingarvopn, svo að útrýma pyntingarklefum Saddam, svo að koma með lýðræði og kosningar til Írak og núna væntanlega eitthvað nýtt.

Það eina, sem ég skil ekki eftir þessar kappræður er það hvernig í ósköpunum fólk gat í upphafi sagt að þetta hafi verið jafnt. Kerry vann þetta með yfirburðum! Hvernig getur fólk séð þetta öðruvísi? Er ég orðinn svona blindaður af áliti mínu á George W. Bush að ég sjái ekki eitthvað, sem aðrir sjá? Kannski. En ég hef aldrei á ævinni verið jafnviss í pólitík og ég er í þeirri sannfæringu minni að John Kerry verði betri forseti en George W. Bush. Við skulum bara vona að þessar kappræður hafi verið upphafið á nýrri sókn Kerry.

Já, og eitt að lokum: [You forgot Poland](http://www.youforgotpoland.com/)