Strictly No Photography – home. – Myndir af hlutum, sem má ekki taka myndir af. Ég stóðst ekki heldur freistinguna að taka myndir í sistínsku kapellunni. (via)
Author: einarorn
Númer 9
Á föstudaginn opnuðum við okkar þriðja Serrano stað í Stokkhólmi og þann níunda alls. Þessi staður er í verslunarmiðstöð í Liljeholmen, sem er í suð-vesturhluta Stokkhólmar – beint fyrir vestan eyjuna Södermalm, sem ég bý á. (sjá á korti hér).
Þessi staður hefur ekki verið lengi í undirbúningi. Við töluðum fyrst við eigendur mallsins í byrjun sumars – og eftir smá viðræður um hvaða staðsetningu við myndum fá og fyrir hvað þá skrifuðum við undir samning í ágúst. Nokkrum dögum síðar byrjuðum við svo framkvæmdir.
Kvöldið fyrir opnun
Eftir því sem stöðunum fjölgar þá minnkar stressið fyrir opnun hvers nýs staðar. Fyrir opnun staðarins á föstudaginn var ég nokkuð viss um að ég væri kominn með það alveg á hreint hvernig ætti að opna Serrano stað með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. En í þessari opnun fór nánast allt úrskeiðis, sem mögulega gat farið úrskeiðis. Þetta er ekki tæmandi listi:
* Við ætluðum að opna á fimmtudaginn, en á þriðjudag var ljóst að það myndi ekki takast. Næsta plan var þá að opna á föstudag kl 10 en á endanum opnuðum við ekki fyrr en um hálf eitt þegar að við höfðum misst af flestum hádegiskúnnunum.
* Nánast öll tæki komu of seint. Frystirinn kom ekki fyrr en daginn sem við ætluðum að opna, quesadilla og tortilla grill eru ekki enn komin og svo framvegis.
* Frystirinn virkaði ekki þar sem það gleymdist í verksmiðjunni að setja á hann kælivökva.
* Netið virkaði ekki, þar sem við fengum vitlausar DNS tölur frá Telia. Netið virkaði ekki fyrr en um 3 leytið á föstudaginn (fram að því tókum við bara við peningum).
* Smiðirnir náðu ekki að klára sín verkefni á réttum tíma – og voru í raun meira en viku á eftir áætlun. Það hefur ekki gerst áður hjá okkur í Svíþjóð.
* Skjáirnir, sem við áttum að fá fyrir matseðlana, eru staddir í Amsterdam. Okkur tókst á síðustu stundu að redda öðrum skjám á meðan við biðum eftir hinum.
* Allt leirtau er enn fast í tolli í Suður-Svíþjóð. Við þurftum að redda okkur með leirtaui frá hinum Serrano stöðunum.
* Skeiðar í afgreiðsluborð töfðust um 6 vikur.
* Fyrirtækið, sem útbjó baklýst Serrano logo fyrir okkur á staðinn klúðraði málunum og hafði gaffalinn öfugan. Þegar þeim tókst að útbúa nýjan gaffal í tíma þá týndist sendingin á leiðinni. Hún hefur ekki enn fundist.
Og svo framvegis og framvegis. Veitingastjórinn hjá okkur í Liljeholmen er íslenskur strákur, sem þýðir að tveimur af þremur Serrano stöðum hérna í Svíþjóð er stjórnað af Íslendingum, sem hafa gert virkilega vel. Það voru þó allir orðnir verulega þreyttir og stressaðir þegar okkur loksins tókst að opna þrátt fyrir allt þetta klúður.
Fólk í biðröð stuttu eftir opnun
Og fyrstu dagarnir lofa svo sannarlega góðu. Svo góðu að nánast allur matur kláraðist og það þurfti að ræsa út fólk úr mið-eldhúsinu í gær og ég stóð í allan gærdag og skar tómata, eldaði kjúkling og fleira sem tilheyrir. Margrét vann á kassa allan gærdaginn og daginn í dag og kærasta Núma, veitingastjóra, var í uppvaskinu allan daginn.
Þannig að þetta sýnir að það er ekki auðvelt að opna nýjan veitingastað og sama hversu vel manni finnst maður hafa undirbúið opnuna þá eru svo ótrúlega margir hlutir, sem geta klikkað. En staðurinn lítur ótrúlega vel út og salan lofar góðu, þannig að ég er bjartsýnn á framhaldið.
kung fu grippe
kung fu grippe. – Veggjakrot um morgunmat. Ég er svooo sammála.
A North Korean anniversary and debut – The Big Picture – Boston.com
A North Korean anniversary and debut – The Big Picture – Boston.com. – Magnaðar myndir frá Norður Kóreu, þar með talið myndir af næsta leiðtoga þjóðarinnar.
Rómarferð 2: Punktar um Róm og trúlofun
Einsog ég skrifaði í fyrri hluta bloggsins um Rómarferðina, þá er nánast ómögulegt að skrifa ferðablogg þegar maður er kominn heim. Það á enn meira við núna þegar yfir mánuður er liðinn frá sjálfri ferðinni. Ég ætla að reyna að koma þessu frá mér með punktabloggi.
- Það skemmtilegasta við Róm er ekki Vatíkanið eða Colosseo, heldur að labba um endalausar götur, horfa á mannlíf, borða ís og njóta þess að vera í Róm. Bestu stundirnar okkar í Róm voru þannig. Róm hefur auðvitað alla þessa heimsþekktu túristastaði, en auk þess er yndislegt að bara vera í borginni.
- Maturinn í Róm er frábær. Við borðuðum nokkrar máltíðir, sem ég myndi telja með þeim betri sem ég hef borðað á ævinni. Reyndar fannst mér aðalrétturinn oftast sísti hluti máltíðarinnar. Forréttir og pasta voru vanalega betri. Guð minn góður hvað pastað var gott.
- Villa Borghese er stórkostlegt listasafn. Á ferðalögum fær maður oft óþol fyrir málverkum og listaverkum eftir að hafa heimsótt 2-3 söfn. En það er hreinlega ómögulegt að verða ekki heillaður af höggmyndum Bernini í Villa Borghese. Þær eru stórkostlegar. Það að sjá Appollo og Daphne á ljósmynd er ekki svo merkilegt, en að sjá þessar höggmyndir fyrir framan sig er stórkostlegt.
- Ís í Róm er æðislegur. Ef ég byggi í Róm væri ég eflaust 150 kíló af öllu þessu pasta og ísáti og allri þessari víndrykkju. Allavegana ef ég hegðaði mér einsog túristi sérhvern dag. Sem Ítalir sennilega gera ekki.
- Laugardagskvöldið í Róm var eitt besta kvöld ævi minnar.
- Við Margrét borðuðum stórkostlegan mat á veitingastað rétt hjá hótelinu. Svo löbbuðum við um nágrennið og á tómri götu rétt hjá Spænsku Tröppunum bað ég hana að giftast mér. Hún sagði já.
- Við löbbuðum yfir á næsta veitingastað, pöntuðum þar kampavínsflösku, drukkum fyrsta glasið á veitingastaðnum og tókum svo flöskuna með okkur og drukkum kampavín á Spænsku Tröppunum. Þetta var svoooo skemmtilegt.
- Margrét er auðvitað skemmtilegasta, klárasta, sætasta og besta stelpa í heimi. Og nú er hún mín. Brúðkaup verður auglýst síðar.
*Skrifað í Stokkhólmi*
Armani veggspjald í NK
Hello, want to kill some time?
Hello, want to kill some time?. – Með þessu litla forriti geturðu spilað Asteroid á hvaða vefsíðu sem er. Mjög gefandi (via Daring Fireball)
Rómarferð 1: Vatíkanið og forna Róm
Þegar ég hef skrifað ferðasögur á þessari síðu þá hef ég vanalega gert það meðan á ferðalaginu stóð. Það er svo auðvelt að skrifa ferðablogg þegar maður er enn á staðnum og allar minningar eru ferskar. Það er erfiðara að gera það þegar maður kemur heim og frábær helgi í Róm virðist eiga lítið sameiginlegt með hversdagsleikanum í Stokkhólmi.
En Róm er svo stórkostleg borg að það væri synd að segja ekki eitthvað um ferðina. Ég og Margrét vorum þarna um miðjan ágúst í fjóra daga og ferðin var algjörlega frábær.
Fyrir það fyrsta er ágætt að minnast á tímasetninguna á ferðinni. Róm í ágúst getur nefnilega verið smá erfið. Flestir Rómarbúar velja þann mánuð til að fara í frí uppí sveit eða á ströndina og því eru ansi margir veitingastaðir, hótel og slíkt lokuð. Hitinn getur líka verið nánast óbærilegur ef að planið er að labba um borgina. En á móti ef maður er heppinn með veður (sem við vorum því hitinn varð aldrei svo óþægilegur nema síðasta daginn) þá er það vissulega þægilegra að labba um Róm þegar að aðeins færra fólk er á ferli, því þrátt fyrir að þetta væri “low-season” í borginni þá eru samt allir túristastaðir troðfullir af fólki.
* * *
Dögunum í Róm skiptum við á milli hverfa. Einn dagur fór í að skoða Vatíkanið, einn dagur í að skoða elsta hluta Rómar, einn dagur í Trastevere og miðbæ Rómar og síðasti hálfa deginum eyddum við svo á Villa Borghese. Ég ætla því að skipta þessari ferðasögu uppí þá hluta. Ég bæti svo við smá um matinn, enda var hann magnaður.
Vatíkanið
Jafnvel þótt maður sé trúlaus, þá er erfitt að hrífast ekki af stórfengleika Vatíkansins. Eftir mörg ár á ferðalögum þá hef ég smám saman orðið meira og meira þreyttur á því að heimsækja kirkjur. Kirkjur eru oftast fallegar og tengjast sögu borga sterkum böndum, en ég er nú þegar búinn að sjá Las Lajas í Kólumbíu, St. Basils í Moskvu, Sagrada Familia í Barcelona, St. Patricks í New York, Holy Sepulchre í Jerúsalem, Westminster í London, dómkirkjuna í Köln og Notre Dam í París. Þannig að kirkjur þurfa að vera verulega spennandi til þess að ég vilji eyða miklum tíma í að skoða þær.
Péturskirkjan í Róm er þó sannarlega þess virði. Við vorum mætt þangað snemma um morgun til þess að forðast mestu raðirnar og gátum því eytt talsverðum tíma í að skoða kirkjuna. Hún er stórkostleg. Allt frá Pieta eftir Michaelangelo til altaristjaldsins hans Bernini. Kirkjan er fyrir það fyrsta risavaxin og það er einstök upplifun að labba þarna um. Við skoðuðum alla ganga og listaverk í sjálfri kirkjunni og enduðum svo túrinn okkar á að labba uppá þak kirkjunnar, þar sem við blasir einstakt útsýni yfir Péturstorgið og stóran hluta Rómar.
Eftir kirkjuna skoðuðum við svo Vatíkansöfnin. Fyrir utan þau reyndist vera ansi löng biðröð og þar sem við nenntum varla að bíða í 2 tíma í steikjandi sólskini þá gleyptum við söluræðu ungrar stelpu, sem var að selja túra um söfnin. Með því að vera hluti af túr þá sluppum við nefnilega við biðröðina. Það eitt var sennilega evranna virði, því að túrinn sjálfur – með gamalli ítölsku konu sem túrgæd – endurnýjaði vantraust mitt á öllum skipulögðum túrum. Hún var hræðileg, babblaði á óskiljanlegri ensku og eftir að hafa farið yfir hluta safnsins með henni ákváðum við að stinga hana af.
Vatíkansöfnin eru í mörgum höllum Vatíkansins. Þar eru meðal annars stórkostleg verk eftir Raphael, Caravaggio, Da Vinci og fleiri. Svo endar túrin um söfnin í Sistínsku Kapellunni þar sem að stórkostlegar loftmyndir Michaelangelo eru.
Forna Róm
Áhrif Rómarveldis og umsvif voru ótrúleg. Á ferðalögum mínum að undanförnu hef ég séð talsverðan hluta af veldi þeirra, bæði í Egyptalandi og þó sérstaklega í Mið-Austurlandaferðinni minni á stöðum einsog Baalbek í Líbanon. Eftir að hafa séð þær rústir kemur það manni kannski smá á óvart að fornleifar í Róm skuli ekki vera enn magnaðri, en fyrir því eru þó ástæður.
Við Margrét eyddum góðum degi í elsta hluta Rómar. Við byrjuðum á því að labba frá miðbænum að fornu Róm, með smá stoppi við Trevi gosbrunninn þar sem við köstuðum klinki í von um að komast aftur til Rómar. Í fornu Róm byrjuðum við á því að skoða Forum og Palatino auk Capitoline safnsins.
Síðast var það svo frægasta bygging Rómar, Colosseo. Colosseo er auðvitað ein af þessum byggingum, sem maður hefur séð svo oft á myndum að maður kannast nánast við allt um leið og maður sér hana í fjarlægð. Við fórum inn og skoðuðum okkur þar um á áhorfendapöllunum og tókum myndir. Það er svo sem ekki miklu hægt að bæta við myndirnar, sem við tókum þar.
*Skrifað í Stokkhólmi*
Greinar um íslenska pólitík
Þar sem að slatti af mínum Facebook vinum hafa svipaðar stjórnmálaskoðanir einsog ég þá koma dagar þar sem sirka 30 manns benda á eina og sömu greinina. Mér líður þá einsog allt Ísland hafi lesið þær. En kannski hafa ekki allir lesið þær – og því er um að gera að nota vísanir á þær sem afsökun fyrir bloggi.
Allavegana, hérna eru þrjár mög góðar greinar um stjórnmál á Íslandi. Ég mæli með því að allir lesi þær allar.
Andri Snær – Í landi hinna klikkuðu karlmanna.
Guðmundur Andri Thorsson – Heiður þeim sem heiður ber
Ármann Jakobsson – Átakanlegur skortur á Þórðargleði
Ég held að ég sé um það bil sammála hverju einasta orði í öllum þessum pistlum.
Stokkhólms hálf maraþonið
Hálf maraþonið í gær var hálf skrautlegt. Ég reyndi að passa mig á því fyrir hlaupið að undirbúa mig á sama hátt og ég hafði undirbúið mig fyrir lengri hlaup að undanförnu – borðaði nokkurn veginn það sama og aðalmunurinn á hlaupinu í gær og lengri hlaupum að undanförnu átti að vera sá að ég var talsvert betur úthvíldur fyrir hlaupið í gær.
Mér leið því vel þegar ég mætti niður á Gamla Stan um fjögur leytið í gær. Þar sem ég hef ekki hlaupið áður opinberlega og á engan tíma, þá lenti ég mjög aftarlega í rásröðinni. Ég var í starthóp F, sem þýddi að um 8.000 hlauparar fóru af stað á undan mér (af um 10.000 hlaupurum, sem tóku þátt. Ég ætlaði að hlaupa á milli 1.35-1.40 og það þýddi að ég tók framúr gríðarlegum fjölda af fólki. Það sem ég fattaði hins vegar ekki alveg var að ég var í raun fyrstu 10 kílómetrana stanslaust að taka framúr fólki, þannig að vegalengdin, sem að GPS tækið mitt mældi var á endanum um hálfum kílómetra lengri en opinber vegalengd hlaupsins, þar sem ég þurfti alltaf að taka framúr með því að fara í langar beygjur og slíkt (sjá hérna GPS mælinguna mína með korti)
Ég að hlaupa á Kungsholmen (sirka 10km búnir)
Allavegana, eftir um 3-4 kílómetra leið mér vel í löppum og lungum, en maginn á mér var verulega skrýtinn. Hann versnaði svo smám saman og var orðinn svo slæmur að ég var að spá í að hætta eftir um 15 km. Til að gera langa sögu stutta, þá eyddi ég eftir hlaupið öllu kvöldinu annaðhvort á klósettinu eða í fósturstellingu uppí rúmi. Þegar að Margrét fór útí apótek í morgun að sjá hvort hún gæti keypt einhver lyf sagði apótekarinn að ég hefði klárlega fengið magavírus, sem væri að ganga akkúrat núna í Stokkhólmi og gengi yfir á 2-3 dögum. Það hlýtur að vera sérstakt afrek hjá mér að fá þennan vírus akkúrat núna þegar ég var að hlaupa hálf maraþon. Mér hefur sjaldan liðið jafnilla og mér leið í gærkvöldi.
* * *
Allavegana, tíminn sem ég kom á í mark var **1:44.41**.
Í fyrra þegar ég hljóp þetta sjálfur þá var tíminn 1:51:56. Þá hljóp ég auðvitað styttri hring, þar sem ég var einn og þurfti ekki að taka fram úr. Svo að þetta er bæting á meira en 7 mínútum á milli ára. Það er svosem ágætt, en ég hafði auðvitað sett markið hærra. Ég fann það líka þegar ég kom í mark að ég hafði lítið reynt á lungun og að lappirnar mínar voru í fínu ástandi (og þær eru það enn í dag). En helvítis maginn fór alveg með þetta. Ég var á ágætis millitíma í bæði 5 og 10km, en eftir um 13-14 kílómetra, þegar ég var að hlaupa leiðir sem ég hleyp oft í viku hérna á Södermalm, þá var maginn nánast að gera útaf við mig og þar versnaði tíminn umtalsvert.
Eftir mánuð ætla ég svo að prófa að hlaupa 10 kílómetra í Hässelby hlaupinu, en eftir það ætla ég að leggja hlaupa-skóna á hilluna þangað til næsta sumar.