Einir heima – ég og Torres

Margrét er í Kaupmannahöfn um helgina. Það eru kannski ekki merkilegar fréttir, en þetta er samt sem áður í fyrsta skipti síðan við fluttum til Svíþjóðar í janúar 2009 sem við erum ekki saman. Núna um helgina höfum við því bara verið tveir hérna á Götgötunni, ég og kötturinn Torres.

Já, við Margrét fengum okkur nefnilega kött. Þetta er hreinræktaður british shorthair, sem er núna um 3,5 mánaða gamall. Margrét hafði mjög lengi reynt að tala mig inná þá hugmynd að kaupa gæludýr fyrir heimilið og eftir nokkra mánuði féllst ég á þá hugmynd og þessi köttur varð fyrir valinu. Við keyptum hann af konu, sem ræktar ketti rétt fyrir utan Västerås, vestur af Stokkhólmi. Ég fékk að velja nafnið á köttinn og varð Torres fyrir valinu, í höfuðið á mínum uppáhalds knattspyrnumanni.

Torres hefur búið hjá okkur í tvær vikur og það er ekki hægt að segja annað en að sá tími hafi komið mér skemmtilega á óvart. Ég hef jú aldrei átt gæludýr áður og því er þetta ný reynsla fyrir mig. Torres er einstaklega ljúfur köttur. Hann hefur nánast bara verið inni síðan að hann flutti til okkar (fyrir utan smá tíma á Nytorget um síðustu helgi) og þar flakkar hann á milli þess að vera í tryllingslegum eltingaleikjum við flugur um alla íbúð yfir í það að vilja liggja oná maganum mínum eða á milli lappanna minna og kúra. Hann er enn dálítið fyrir það að sjá hvað honum leyfist og hann stekkur ítrekað uppá eldhúsborð þrátt fyrir að hann viti greinilega að hann megi ekki gera það.

Það verður svo að segjast að það lífgar talsvert uppá íbúðina að hafa kött hérna, sérstaklega þegar að annaðhvort okkar er eitt heima. Það er gaman að vita til þess að kötturinn taki á móti manni þegar að maður kemur heim. Ég ætla þó að bíða með frekari yfirlýsingar um ágæti kattaeignar þangað til að Torres hefur búið hjá okkur aðeins lengur. En byrjunin lofar góðu.

* * *

Annars hefur þetta verið fín helgi. Á föstudagskvöldið kíkti ég með nokkrum strákum útað borða hérna á Södermalm og svo í afmæli til vinar míns í Saltsjö-Boo, þar sem var mjög gaman. Ég eyddi svo öðrum laugardeginum í röð í þynnku heima, en hef verið talsvert hressari í dag. Ég byrjaði á vorhreingerningum í morgun með fólkinu í húsinu og svo hljóp ég um miðbæinn.

Eitt það besta við að búa svona miðsvæðis í Stokkhólmi er hversu auðvelt það er að finna góðar hlaupaleiðir. Í dag hljóp ég um Gamla Stan, framhjá höllinni, yfir á Skeppsholmen og svo tilbaka framhjá Riksdag þinghúsinu. Veðrið var æðislegt og borgin lifnar ótrúlega við um leið og veðrið verður þolanlegt.

Annars verður þessi vika ábyggilega spennandi. Við munum opna Serrano á Kungsbron á fimmtudaginn og kvöldið áður verðum við með partí auk þess sem það er von á gestum frá Íslandi. Það er fátt skemmtilegra í þessum bransa en síðustu dagarnir fyrir opnun nýs staðar.

Egyptalandsmyndir fyrri hluti

Ég er búinn að setja inn fyrri hlutann af myndunum frá Egyptalandi inná Flickr.

Hluti af þeim var smá leiðinlegur þar sem ég gleymdi sólhlífinni á linsuna mína (sem er 18-35mm zoom og því mjög erfið í mikilli sól) og því voru ansi margar myndir með linsuglampa. Ég gat lagað sumar, en alls ekki allar. Ég reyni þá bara að ljúga því að þetta hafi átt að vera svona, ekki ósvipað og í Star Trek myndinni.

Við Margrét hjá Khafre pýramídanum í Giza

En allavegana, serían er hér á Flickr. Þetta eru myndir frá Kaíró og pýramídunum í Giza, Saqqara og Dahshur. Ég set seinni hlutann inn á næstu dögum, þar sem eru myndir frá Alexandríu og Rauða Hafinu.

Serrano í miðbæ Stokkhólms

Í dag eru bara tvær vikur í að við opnum næsta Serrano staðinn hérna í Svíþjóð.

Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessari opnun því þetta er sú mest spennandi staðsetning sem við höfum opnað stað á hérna í Svíþjóð. Fyrstu tveir staðirnir sem við opnuðum voru í úthverfum, en þessi er í miðbænum. Staðurinn er í nýbyggingu á Kungsbron, sem er gata sem tekur við af Kungsgötunni og nær frá miðbænum yfir á eyjuna Kungsholmen. Þetta svæði er í gríðarlega mikilli uppbyggingu, enda er þetta í raun eina svæðið í miðbæ Stokkhólms þar sem má byggja nýbyggingar. Byggingin sem Serrano er í er byggð ofaná brautarteinum og það á við um margar byggingar þarna í nágrenninu. Serrano staðurinn er því nálægt Aðal-lestarstöðinni í Stokkhólmi.

Þetta verður líka stærsti Serrano staðurinn sem við höfum opnað hingað til, með sætum fyrir um 70 manns. Það er umtalsvert meira en á stærsta staðnum heima á Íslandi. Þannig að það er auðvitað talsverð áhætta af þessari staðsetningu – hún er ekki ókeypis – en þarna í nágrenninu vinnur og býr mikið af fólki.

Ég tók nokkrar myndir þarna í dag og í gær og þær eru hér að neðan:

Staðurinn að utan. Í dag eru þarna merkingar um að við séum að fara að opna 29.apríl.

Afgreiðslan. Þarna er komið afgreiðsluborðið sem var smíðað hjá Frostverk í Garðabæ

Salurinn. Í honum verða básar og leðurbekkir sem eru smíðaðir hjá GÁ Húsgögnum í Reykjavík.

Serrano staðirnir verða þó eftir sem áður tveir því við ákváðum að loka fyrsta staðnum okkar (það var gert í gær) og færa tæki og annað yfir á Kungsbron. Sú staðsetning virkaði einfaldlega ekki nægilega vel. Við erum þó sannfærðir um að staðurinn á Kungsbron eigi eftir að slá í gegn hjá Svíum. Við munum opna 29.apríl.

Vinstra augað: Aðkomumaðurinn gerði það!

“Í stuttu máli er hér á ferðinni sakamál sem útlendingum verður ekki kennt um. Sökudólgsins er að leita hér innanlands. Það merkir ekki að við séum öll sek og þaðan af síður að við séum öll jafn sek. En það eru fleiri sekir en 20-30 manns, það er alveg víst. Og það er engin sérstök ástæða til að vera svo meðvirk með þeim að snúa þessu öllu upp í sjálfsmeðaumkun og hatur á útlendingum.”

via Vinstra augað: Aðkomumaðurinn gerði það!.

Ríkisstjórnin með Sjálfstæðisflokknum

Mörður Árnason, skrifar mjög góðan pistil um ábyrgð Samfylkingarinnar á hruninu: Ábyrgð er ábyrgð. Nokkrir punktar úr henni.

>Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin komast nefnilega ekki hjá því að skoða eigin þátt í hruninu. Þar skipta máli verk ráðherranna í ríkisstjórn, og ekki síður það sem þeir gerðu ekki. Þar koma líka við sögu stefnuáherslur flokksins bæði árin fyrir stjórnarmyndinuna 2007 og meðan á stjórnarsamstarfinu stóð. Og það þarf líka að skoða samræður í flokknum á tímabilinu 2007 til 2009, hvernig forystumenn hans fóru að því að hlusta ekki á flokksfólk og stuðningsmenn og létu sér nægja að messa yfir liðinu á skrautfundum (og eimir kannski enn eftir af þeim sið, Jóhanna og Dagur?) allt fram að Þjóðleikhússkjallarafundinum fræga – og þráuðust reyndar við nokkur dægur líka eftir þá niðurstöðu.

og áfram:

>Þótt utanríkisráðherra beri ekki lagalega ábyrgð á bankamálum eða hagstjórn getur formaður Samfylkingarinnar í stjórninni með Sjálfstæðisflokknum ekki skorast undan pólitískri og siðferðilegri ábyrgð. Ingibjörg Sólrún ber samkvæmt íslenskri hefð ábyrgð á verkum allra samflokksráðherra sinna – þar á meðal viðskiptaráðherrans. Eitt af því sem fólk þarf reyndar að fara að vita er hvernig samskiptum eirra tveggja var háttað. Er það rétt að bankamálaráðherranna hafi ekki fengið að vera með á fundum utanríkis- og forsætisráðherrans með Seðlabankastjóranum um stöðu bankanna? Af hverju hafði Ingibjörg Sólrún það þannig? Og hvernig í ósköpunum fór Björgvin Guðni að því að sætta sig við þetta?

>Annað: Ég held einsog Ingibjörg Sólrún að einhver helstu mistök Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni 2007–2009 hafi verið að ganga inn í hana án þess að hafa þar nein áhrif á efnahagsmál og hagstjórn. Ég var reyndar einn af þeim sem lögðu að formanni flokksins að krefjast fjármálaráðuneytisins við stjórnarmyndunina. Skilaboðin sem við fengum voru að þar hefði verið mikil fyrirstaða. Ég er ekki viss um að nógu mikið hafi verið reynt.

>Forystumenn Samfylkingarinnar lögðu þessa stjórnarmyndun einfaldlega þannig upp að íhaldið ætti áfram að ráða efnahagsmálunum – Samfylkingin fengi fyrir sinn snúð ýmsar velferðarumbætur

Ég mæli með greininni allri.

Ég fór aldrei í felur með þá skoðun að árið 2007 taldi ég að besta ríkisstjórn sem að Ísland gæti fengið væri stjórn Jafnaðarmanna og Sjálfstæðisflokksins, en ég verð að játa það að ég var fyrir gríðarlegum vonbrigðum með að sjá hvernig skipting ráðuneyta var, hverjir urðu ráðherrar fyrir Samfylkinguna og hvernig Samfylkingin kastaði ESB umræðum fyrir bí.

Kannski voru stærstu vonbrigðin þau að Sjálfstæðisflokkurinn fékk að halda þeim ráðuneytum sem mest höfðu með efnahagsmál að gera, forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu á meðan að einu bætur Samfylkingarinnar voru að fá utanríkisráðuneytið. Þetta voru gríðarleg mistök af hendi Ingibjargar Sólrúnar. Ég sagði það við félaga mína strax eftir að þetta væri tilkynnt að þetta gæti reynst dýrkeypt. Samfylkingin fékk öll “mjúku” ráðuneytin á meðan að Sjálfstæðismenn stjórnuðu áfram efnahagsmálunum.

Og þetta varð dýrkeypt því að Samfylkingin virtist kasta í burtu öllum sínum áherslum í efnahagsmálum (sem voru vel útlistuð af Jóni Sigurðssyni fyrir kosningar) og Sjálfstæðismenn fengu að halda sinni stefnu áfram. Seinna meir gerðu auðvitað helstu forystumenn flokksins fjölmörg mistök í aðdraganda bankahrunsins, en upphaflegi glæpurinn var klárlega þessi eftirgjöf til Sjálfstæðismanna í stjórarmyndunarviðræðunum.

Hrunið í efnahagsmálum var ekki vegna þess að ríkisstjórnin fylgdi eftir stefnu jafnaðarmanna í efnahagsmálum, því að forysta Samfylkingarinnar gaf þá stefnu algerlega eftir í upphafi.

Egyptalandsferð 4: Rauða Hafið

Við Margrét sitjum hérna inná hóteli núna þegar að aðeins nokkrir tímar eru eftir af fríinu okkar. Klukkan 11 í kvöld eigum við flug til Kaíró og þaðan til Amsterdam og svo til Stokkhólms þar sem við eigum að lenda á hádegi á morgun.

Við höfum verið hérna í Sharm El-Sheikh í 5 daga og þetta hefur verið frábær tími. Tímanum hefur verið skipt á milli sólbaðs og köfunnar. 2,5 dagar í sólbaði og 2,5 dagar í köfun. Þessi tími í sólbaði er svo sannarlega nógu langur fyrir mig – ég mun seint skilja hvernig fólk endist mikið lengur í fríi við sundlaugarbakka.

Hápunktarnir hérna hafa klárlega verið kafanirnar hérna í Rauða Hafinu. Við höfum kafað sex sinnum hérna. Fyrsta köfunin var bara tékk-köfun, sem maður þarf oftast að fara ef langt er liðið síðan að maður kafaði síðast, þar sem við köfuðum bara við lítið rif hérna rétt hjá hótelinu. Við höfum svo farið í tvær dagsferðir þar sem við höfum kafað í þjóðgörðum hérna í nágrenni Sharm. Í fyrra skiptið vorum við í hinum fræga Ras Mohammed garði þar sem við köfuðum tvisvar og í gær köfuðum við þrisvar í Strait of Tiran.

Bæði skiptin voru stórkostleg. Ég hef farið í um 16 kafanir um ævina og það kemur mér alltaf á óvart hversu ótrúlega skemmtilegt þetta sport er. Bara það að geta verið á 20 metra dýpi í nánast algjöru þyngdarleysi og svifið þar um er nógu skemmtilegt. Þegar maður svo bætir við jafn stórkostlegu dýra- og plöntulífi einsog er hérna í Rauða Hafinu og þá eru fáar upplifanir sem að jafnast við það. Í gær vorum við með strák, sem tók myndir af okkur í köfununum og þær segja kannski meira en mörg orð og ég mun reyna að setja myndirnar inn þegar við komum heim en dýralífið var ótrúlegt. Við sáum endalaust magn af fiskum og skjaldbökum.

Ég hef núna kafað við strendur Belize, Indónesíu og Egyptalands og ég verð að segja að Rauða Hafið hefur vinninginn. Við erum þó bara búin að kafa á nokkrum af þeim fjölmörgu frábæru stöðum sem eru hérna í nágrenninu og seinna stefnum við á að koma aftur og kafa þá meðal annars í frægu skipsflaki, sem liggur hér nálægt.

*Skrifað í Sharm El-Sheikh, Egyptalandi klukkan 17*

Egyptalandsferð 3: You're a lucky man

Það er dálítið skrýtið að ætla að skrifa um Egyptaland hérna á hóteli í Sharm El-Sheikh. Mér líður einsog við höfum ekki bara flogið yfir Suez skurðinn og yfir á Sínaí skaga, heldur til annars lands.

Sharm El-Sheikh er jú þessi típíski sumardvalarstaður sem að ég hef böggast útí allt mitt líf. Hann gæti alveg eins verið á Taílandi eða á Spáni – hér er ekkert sem bendir frekar til að maður sé á Egyptalandi fyrir utan það að við sundlaugina eru nokkrar stelpur í fullum klæðum í sólbaði í stað þess að vera á bikiní.

* * *

Annars hafa Egyptar komið mér fyrir sjónir (fyrir SES) sem talsvert meiri frjálslyndir heldur en til dæmis Sýrlendingar. Þeir eru gríðarlega opnir og hafa áhuga á okkur Margréti – karlmennirnir hafa sennilega aðeins meiri áhuga á Margréti en mér, en þeir eru þó ófeimnir við að lýsa því yfir að ég sé heppnasti maður í heiminum.

Í Egyptalandi (utan SES) eru nánast allar stelpur með slæðu. Munurinn þó á Egyptalandi og til dæmis Sýrlandi er að hérna eru langflestar með litríkar slæður yfir hárinu, en svo klæðast þær annars bara venjulegum fötum. Mjög fáar eru hér í svörtum kuflum miðað við hvernig þetta var í Sýrlandi, Jórdaníu og Palestínu, þótt þær séu vissulega nokkrar. Einhvern veginn finnst manni einsog slæðan sé bara til málamynda – hún er bara einsog tísku fylgihlutur einsog hattur væri á Vesturlöndum. Ég hafði svo sem lesið um það áður að Egyptar væru afslappaðari og frjálslyndari en múslimar í hinum Mið-Austurlöndunum sem ég hef heimsótt og ég get ekki annað en samþykkt það ef ég á að dæma af þessari stuttu heimsókn.

* * *

Margrét náði sér að lokum af magapestinni og við náðum að skoða Alexandríu vel á miðvikudaginn. Við löbbuðum um alla borgina á þeim degi og skoðuðum helstu hluti, svo sem safn þar sem haldið var utanum glæsilega sögu þessarar borgar. Borgin var jú í mikilli lægð í hundruði ára og það olli því að hennar frægustu minnismerki hurfu og liggja í dag annaðhvort undir hafsbotni eða undir nýbyggingum. Þannig er Vitinn í Alexandríu löngu horfinn þó að við höfum heimsótt þann stað þar sem hann var sennilega einu sinni. Og bókasafnið brann fyrir hundruðum ára, þó að í dag sé í Alexandríu nýtt og glæsilegt bókasafn.

Það síðasta markverða sem við gerðum svo í Alexandríu var að borða ljúffengan fisk á litlum grill-fiskistað áður en við tókum svo flugið hingað til Sharm El-Sheikh.

Hérna lærðum við það strax á flugvellinum þegar ég lét Margrét prútta niður leigubílaverð að verðlag er hérna með allt öðru móti. Hérna er allt margfalt dýrara en á öðrum stöðum í Egyptalandi. En hérna er líka yndislegur hiti (í Alexandríu var kalt á kvöldin) og hérna fyrir utan ströndina eru kóralrif og dýralíf sem margir segja að sé með því magnaðasta í þessum heimi. Það er einmitt á planinu okkar á morgun að kafa í Rauða Hafinu.

*Skrifað í Sharm El-Sheikh, Egyptalandi klukkan 18.10*

Egyptalandsferð 2: Píramídarnir

Þá erum við Margrét komin að strönd Miðjarðarhafsins í Alexandríu. Þessari ótrúlega sögufrægu borg, sem hefur þó því miður ekkert að sýna fyrir frægustu staðina. Vitinn er löngu hruninn og bókasafnið löngu brunnið. En í stað þess er Alexandríu nokkuð falleg stórborg, sem er talsvert ólík Kaíró.

Hér í úthverfunum blöstu strax við falleg hús, sem eru ólík hinum endalausu rauðu múrsteins húsum, sem við sáum í Kaíró. Um leið og við vorum komin út fyrir miðbæ Kaíró blöstu við okkur *alls staðar* byggingar, þar sem að hæðir og burðarbitar voru steyptir en veggir hlaðnir úr rauðum múrsteinum. Þannig var þetta útum allt, þúsundir bygginga, sem voru nákvæmlega eins. Flestallar ókláraðar, annaðhvort alveg ókláraðar eða þá að efsta hæðin var ókláruð með vírum sem stóðu uppúr. Ég las einhvers staðar að það væri vegna skattamála, það er víst eitthvað ódýrara að klára ekki byggingarnar alveg. Slíkt veldur því að fyrir utan elsta hlutann í Kaíró er allt ókláraðar rauðar byggingar.

Þetta var nokkuð áberandi þegar við keyrðum á milli píramída í gær. Alveg einsog í Kambódíu var ekki laust við að manni finndist hálf sorglegt að sjá, í bland við stórkostlegar ævafornar byggingar, ömurlegar byggingar nútímans. En Kaíró hefur auðvitað þanist út svo stórkostlega síðustu ár og þangað flytur aðallega fátækt fólk, sem hefur ekki efni á öðru. Þannig að þróunin er kannski skiljanleg þó hún sé sorgleg.

* * *

Píramídarnir eru auðvitað aðalástæða fyrir því að flestir túristar koma til Egyptalands. Sól og píramídar. Gærdagurinn hjá okkur var ágætis blanda af því tvennu.

Píramídarnir í Giza eru á meðal um 100 píramída, sem að enn standa í Egyptalandi. Við leigðum okkur í gær leigubíl, sem keyrði okkur um þá helstu í nágrenni Kaíró. Fyrstur var “Step Pyramid“, sem var byggður fyrir faróann Djóser árið 2.630 fyrir Krist og er talinn vera elsta stóra steinbygging í heiminum. Píramídarnir í Gíza spruttu ekki upp fullskapaðir, heldur voru í Egyptalandi byggðir þónokkrir píramídar fyrir þann tíma. Smám saman tókst arkitektunum að fullkomna listina. Eftir það skoðuðum við leifar borgarinnar Memphis og þaðan fórum við að Rauða og skakka píramídunum. Sá skakki er skakkur vegna þess að arkitektarnir áttuðu sig þegar að verkið var hálfnað að þeir höfðu verið full bjartsýnir og þurftu því að minnka hallann á efsta hlutanum. Sá Rauði er svo þriðji stærsti píramídinn í Egyptalandi. Við fórum inní þann píramída, sem var nokkuð spennandi. Við klifruðum niður löng göng þangað til að við stóðum inní miðjum píramídanum í litlu plássi.

Allir þessir píramídar voru góð upphitun fyrir Píramídana í Gíza. Þeir eru auðvitað aðalmálið. Ég hafði heyrt alls konar hryllingssögur af því hvernig svæðið þar væri, en það var alls ekki jafn slæmt og ég hélt. Svæðið er þó smá einkennilegt því að ólíkt því sem ætla mætti af myndum, þá eru píramídarnir í raun inní miðri borg. Gíza borgin er komin alveg uppað píramídunum og það gerir upplifunina skrýtna. Svo er þar auðvitað fullt af sölumönnum og úlfaldaköppum, en þeir voru ekkert jafn ægilegir og okkur hafði verið sagt.

Píramídarnir eru auðvitað (það þarf varla að taka það fram) stórkostlegir.

Ég var ekki alveg viss hverju ég ætti að búast við. Ég hef jú séð flesta af hinum merkilegustu píramídum heims (Teotihuacan og Chichen Itza í Mexíkó og Tikal í Gvatemala). En þeir í Egyptalandi eiga þó klárlega vinninginn. Sérstaklega þegar að maður tekur það með í reikninginn að þeir voru gerðir sirka 2.300 fyrir Krist, sem er um 2.700 árum áður en að píramídar Maya-nna voru gerðir. **2.700 árum áður**.

Á þessum 4.300 árum, sem að píramídarnir hafa staðið þarna í Giza hefur auðvitað barið á þeim. Þeir eru um 10 metrum lægri en þeir voru í upphafi (í kringum 150 metrar í dag) og efsta laginu af þeim hefur nánast öllu verið stolið (fyrir utan toppnum á minni píramídanum). Í fjarlægð virka þeir fullkomnir, en það er í raun enn magnaðara að sjá þá nálægt þegar að maður sér hversu mikið sést á þeim. Þetta eru stórkostlegar byggingar og sennilega fátt í heiminum, sem jafnast við þá upplifun að sjá þá í fyrsta skiptið. Fyrir framan þá situr svo Sfinxinn, sem er minni en allir halda að hann sé, en samt magnaður. Skeggið er jú á British Museum og nefið var dottið af fyrir 1.000 árum, en hann stendur samt fyrir sínu.

* * *

Eftir þennan píramída-túr þá eyddum við síðasta kvöldinu í Kaíró á Abu Simbel, frábærum egypskum veitingastað. Í morgun vaknaði Margrét þó með magapest og kölluðum við á lækni fyrir hana. Hún er auðvitað ekki alveg jafn vön ferðalögum og ég og maginn hennar virðist ekki samþykkja matinn alveg eins auðveldlega og minn magi. Við keyrðum þó samt hingað til Alexandríu þar sem við erum búin að koma okkur fyrir á hóteli við Corniche strandgötuna. Margrét er uppá herbergi og hún verður vonandi orðin nógu hress á morgun til þess að halda áfram fjörinu.

*Skrifað í Alexandríu, Egyptalandi klukkan 20.18*

Egyptalandsferð 1: Kaíró

Það eru ansi margir búnir að vara okkur við Kaíró. Við menguninni, umferðinni, öllu fólkinu, skítnum, hávaðanum og öllum köllunum, sem myndu klípa Margréti.

Eflaust er ég ansi mörgu vanur af ferðalögum, en eftir þessa tvo fyrstu daga þá finnst mér Kaíró alls ekki slæm. Í raun er ég mjög skotinn í þessari borg. Vissulega er skíturinn og mengunin mikil, en öll geðveikin er líka ótrúlega heillandi. Kaíró er 11.stærsta borg í heimi með um 18 milljón íbúa, þó að margir segji að hér búi mun fleiri. Hún er langstærsta borgin í Afríku (Lagos í Nígeríu er næst stærst með um helmingi færri íbúa) og hún er sögð vera ein sú versta í heimi þegar að kemur að mengun.

Ég hef lengi verið spenntur fyrir Kaíró. Að ég held alveg frá því þegar að ég sá Raiders of the Lost Ark þar sem að Sallah, vinur Indiana Jones, sýnir honum Kaíró. Þá var Kaíró sennilega meira heillandi en í dag. Í dag er hún á margan hátt lík þeim risaborgum sem ég hef farið til utan Evrópu og Ameríku – yfirfull af fólki og bílum. Bílarnir keyra um á bensíni með blýi í og því er mengunin slæm, auk þess sem umferðin er líka hálf geðveik og ekki ólíkt asískum stórborgum þá byrjar maður á því að labba yfir götu og vonast til að bílarnir stoppi í stað þess að bíða eftir því að gat myndist í umferðinni. Slíkt gerist aldrei.

En borgin er líka gríðarlega heillandi, full af ótrúlegu lífi. Við höfum verið boðin velkomin til Egyptalands sirka 150 sinnum síðan að við komum hingað, í lang, langflestum tilfellum af fólki sem hafði engan áhuga á að selja okkur neitt. Það er erfitt að verða ekki hrifinn af borg þegar að íbúarnir eru jafn gestrisnir.

* * *

Við komum hérna til Kaíró seint á föstudagsnótt eftir flug frá Stokkhólmi (via Amsterdam). Við höfðum skipulagt pick-up frá hótelinu því mér leiðist fátt meira en að díla við leiguílstjóra á flugvöllum í nýjum löndum.

Fyrstu tveim dögunum hérna höfum við eytt á labbi um borgina og í að skoða Egypska safnið.

Í gær eyddum við deginum á labbi um miðbæinn og yfir í íslamska hluta borgarinnar (borgin er jú öll íslömsk fyrir utan smá kristinn hluta en hverfið er samt ennþá kallað þetta). Þetta er ansi langt labb og við erum ekkert voðalega góð í að lesa götuskilti á arabísku, þannig að við villtumst nokkrum sinnum. Inná milli eru götuskilti á ensku líka en það er frekar tilviljanakennt og stundum er götuskiltum bara alveg sleppt. Á þessu labbi frá miðbænum yfir í íslamska hlutann sjást tveir ólíkir hlutar af Kaíró. Allt frá nútímalegum miðbænum yfir í eldgamlar byggingar í íslamska hlutanum. Þar er auðvitað frægust bygginga Al-Azhar moskan, sem í minni upplifun líður fyrir það að jafnast alls ekki á við Umayyad í Damaskus, en hún var byggð í kringum árið 1.000.

Íslamski hluti Kaíró er þó þekktastur fyrir Khan al-Khalili markaðinn, sem hefur verið aðalmarkaður Karíó búa í yfir 600 ár. Þarna er hægt að finna ótrúlegt magn af drasli, en þar er líka sjarmerandi að vera, sérstaklega þegar maður labbar í gegnum kryddhlutana með sterkum lyktum og sér að þetta er ekki bara túristamarkaður, heldur líka markaður þar sem að fólk gerir enn í dag sín innkaup. Við þurftum ekki að labba langt frá Hussein torgi til þess að vera bara meðal innfæddra.

Gærkvöldinu eyddum við svo á egypskum veitingastað þar sem við hlustuðum á fullkomlega óbærilega klassíska egypska tónlist þar sem að fjórir karlmenn með Fez húfur börðu á einhverjar trommur á meðan að gömul kona söng eitthvað lag, sem varla heyrðist útaf trommunum.

* * *

Hápunktur dagsins í dag var svo heimsókn á Egypska safnið. Á því safni er stórkostlegt samansafn af egypskum fornleifum. Það er jú sennilega fáar þjóðir, sem geta státað af jafn ótrúlegu safni af fornleifum og Egyptar. Vissulega er eitthvað af þessum fornleifum í dag á Metropolitan, British Museum eða öðrum evrópskum söfnum, en stærsti hlutinn er þó hér í Kaíró. Safnið er fyrir löngu búið að sprengja utanaf sér húsnæðið og það er í raun með ólíkindum að koma þarna inn og sjá sumum fornmununum nánast staflað uppá hvorn annan. Fornleifar sem í öllum öðrum löndum myndust teljast stórkostlegir eru lítið annað en uppfyllingarefni á Egypska safninu.

Safnið er þekktast fyrir Dauðagrímu Tutankhamun, stórkostlega 11 kílóa gullgrímu, sem fannst í Dali Kónganna. Sá fornleifafundur er einn sá merkasti í veraldarsögunni og góður hluti safnsins inniheldur muni úr þeim uppgreftri og þar frægasta grímu Tutankhamun.

Auk þessa er stórkostlegt safn af munum, sem hafa fundist um Egyptaland á safninu og þar er líka hægt að sjá múmíur kónga sem voru uppi fyrir 3-4.000 árum. Að standa fyrir framan hauskúpur fólks sem var uppi 2.000 árum fyrir Krist er ótrúlegt.

* * *

Auk Egypska safnsins höfum við í dag skoðað Kristna hluta Kaíró, þar sem við skoðuðum kirkjur Kopta. Þetta er svo skrifað á netkaffihúsi (undir bænakallslhljóðum frá moskunni hér við hliðiná) á eyjunni Gezira í Níl á þar sem við höfum labbað um Zamalek hverfið.

Á morgun ætlum við svo að skoða hið eina sem eftir stendur af hinum uppaflegu sjö undrum veraldar, Píramídann Mikla í Giza.

*Skrifað í Kaíró, Egyptalandi klukkan 18.14*