Apple tablet pælingar

Apple mun á miðvikudaginn sennilega kynna “tablet” tölvu. Tölvu, sem verður væntanlega í laginu einsog stór iPhone með um 10 tommu skjá. Í að minnsta kosti 2-3 ár hafa verið í gangi miklar sögusagnir um að Apple muni kynna “tablet” tölvu og nú eru menn fullvissir um að á miðvikudaginn sé komið að því að sýna þessa nýju græju. Þar sem ég er forfallinn Apple nörd og les daglega slatta af síðum á netinu um Apple, þá hef ég auðvitað fylgst vel með slúðrinu í kringum þessa kynningu.

Það hafa verið í gangi miklar pælingar varðandi þessa tölvu (sjá hérna fínar pælingar hjá John Gruber, sem skrifar besta Apple bloggið). Það sem menn eru nokkuð sammála um er að þetta verður snertiskjátölva með um 10 tommu skjá. Á henni verði hægt að horfa á vídeó, lesa bækur, tímarit og dagblöð, sörfa á netinu og keyra forrit svipuð og eru á iPhone. Flestir halda að tölvan muni keyra einhvers konar útgáfu af því stýrikerfi sem að iPhone og iPod Touch nota, því það sé mun hentugra fyrir snertiskjái heldur en hefðbundin stýrikerfi.

Einsog sönnum Apple nörd þá er ég orðinn gríðarlega spenntur fyrir þessari vöru sem að enginn, nema starfsmenn Apple, veit einu sinni hvernig lítur út. Það hafa mörg fyrirtæki reynt að hanna tablet tölvur en þær hafa flestar klikkað þar sem að stýrikerfið (oftast Windows) hefur ekki hentað fyrir snertiskjái. Menn sjá nokkra hluti sem að munu hugsanlega gera Apple kleift að gera vænlega söluvöru úr tablet tölvu, sem að engum hefur tekist áður.

– Þeir gera samninga við dagblöð og tímarit, þannig að þú getir keypt áskriftir í tablet tölvuna þína af þínum uppáhalds dagblöðum eða tímaritum (sjá hérna skemmtilegar pælingar á því hvernig að íþróttablað gæti litið út).
– Tölvan mun vinna vel saman við iTunes. Þannig að þú getir í henni þráðlaust horft á myndir, sem þú átt í iTunes eða hlustað á tónlistina þína.

Ég held að þetta gæti orðið frábær græja ef hún er rétt gerð. Ég sé sjálfur fjölmarga möguleika á því hvernig maður myndi nota svona tablet tölvu í staðinn fyrir hefðbundna fartölvu.

– Það er þægilegra að lesa lengri texta með skjáin lóðréttan í stað þess að hann sé láréttur einsog á fartölvum. Maður les alltaf bækur, dagblöð og tímarit þannig. Ég held að það væri gríðarlega þægilegt að lesa flestallar heimasíður með slíkum skjá.
– Ef að Apple menn væru sniðugir (sem þeir eru) þá væri hægt að sjá fyrir sér að hægt væri til dæmis að vinna ljósmyndir úr iPhoto á tablet tölvunni. Það held ég að gæti verið gríðarlega skemmtilegt og þægilegt að geta notað snertiskjá til að laga til og skoða ljósmyndir.
– Ef að á henni væri myndavél framaná, þá væri þetta snilldar tölva til þess að tala við fólk í gegnum Skype eða iChat með vídeói.
– Og það að þetta sé bara eitt stykki skjár myndi gera fólki auðveldara að lesa tölvupósta og blogg og annað uppí sófa. Mér finnst til dæmis oft þægilegra að lesa blogg á pínkulitla iPhone skjánum mínum heldur en að burðast með fartölvu. Ef að skjárinn væri aðeins stærri en jafn meðfærilegur og á iPhone þá held ég að þetta væri orðin gríðarlega sniðug græja.

En allavegana, þetta kemur í ljós á miðvikudaginn. Hluti af því af hverju okkur Apple nördum finnst svona gaman að pæla í fyrirtækinu er einmitt það að oftast höfum við litla hugmynd um það hvað þeir kynna næst. Þeir komu öllum gríðarlega á óvart með því hversu iPhone síminn var frábær (og nú 3 árum seinna er hann enn klárlega besti síminn á markaðinum) og ég held að kynningin á miðvikudaginn eigi líka eftir að verða spennandi.

Já, og svo eru einnig pælingar um að þeir muni kynna iPhone stýrikerfi 4. Ég hef ekki yfir mörgu að klaga í iPhone-inum. Það eina sem ég vil í raun sjá er þráðlaus uppfærsla á podcast þáttum. Það er verulega pirrandi fyrir mig að þurfa að tengja iPhone-inn við tölvu í hvert skipti sem að ég vil hlusta á nýjan fréttaþátt, sérstaklega þar sem að sync á iPhone tekur lygilega langan tíma. Já, og svo verða þeir að bæta póstforritið og leyfa manni að flagga tölvupósta. Það er lygilega pirrandi að geta ekki gert það. Það er nokkuð magnað að það sé ekki fleira sem ég hafi yfir að klaga varðandi þennan síma.

Vika í opnun í Sundbyberg

Núna er vika í opnun á Serrano í Sundbyberg. Ég sit hérna heima hálf veikur og reyni að skipuleggja síðustu dagana fyrir opnun. Reyndar erum við með svo gott starfsfólk í að skipuleggja opnunina að ég þarf svo sem engar svakalegar áhyggjur að hafa.

Inná Serrano í Sundbyberg

Upphaflega var opnunin plönuð næsta miðvikudag, en til að vera alveg örugg ákváðum við að fresta þessu um tvo daga. Það er því stefnt að því að taka prufukeyrslu á staðnum á miðvikudaginn. Við erum með nýjan yfirkokk hérna í Svíþjóð og hann hefur síðustu vikur verið að skoða breytingar á nokkrum hlutum á matseðlinum. Á miðvikudaginn ætlum við að prufukeyra þær hugmyndir fyrir lítinn hóp af fólki og ef það fer vel þá munum við opna staðinn fyrir almenningi tveimur dögum seinna.

Við erum að breyta nokkrum hlutum varðandi staðinn þarna í Sundbyberg. Maturinn mun svona á yfirborðinu líta eins út á matseðli – fyrir utan það að við verðum með meiri áherslu á salöt heldur en við höfum verið með hingað til. Aðaláherslan verður lögð á að laga undirstöðuhlutina í matnum og aðlaga það betur að því hráefni, sem við vinnum með hérna í Svíþjóð. Okkur hefur nefnilega fundist maturinn ekki vera alveg jafn góður í Svíþjóð og hann hefur verið heima á Íslandi.

Fyrir utan það er stærsta breytingin sú að við verðum með alvöru diska á staðnum og alvöru hnífapör. Ég tók nokkrar myndir þarna útfrá í gær. Það stærsta sem enn vantar inná staðinn er afgreiðsluborðið – þangað til það kemur er ekki hægt að klára uppröðun almennilega – en það klárast vonandi rétt eftir helgi. Opnun er semsagt skipulögð næsta föstudag 29.janúar og svo byrjar auglýsingaherferð í nágrenninu mánudaginn eftir. Þetta verður spennandi.

(fyrir þá sem eru í Stokkhólmi þá er staðurinn við Landsvägen 52 í Sundbyberg. Bláa línan Sundbyberg Centrum eða pendeltåg Sundbyberg).

Filmuskönnun á Íslandi

Hefur einhver þarna úti reynslu af því að láta fyrirtæki á Íslandi skanna inn fyrir sig mikið magn af myndum?

Ég hef áður sent filmur út í skönnun til Bandaríkjanna, en það er varla svo hagstætt lengur sökum gengis. Ég tók að mér að hjálpa foreldrum mínum við að koma öllum sínum myndum á stafrænt form og er að leita að góðum aðila til að sjá um þetta. Þetta er gríðarlegt magn af myndum sem þarf að skanna inn. Bæði slides filmur, 35 mm filmur, APS filmur og svo er einnig slatti af ljósmyndum, sem þarf að skanna. Margar eru stakar, en einnig aðrar sem eru inni í albúmum (annaðhvort í plastvasa-albúmum eða albúmum þar sem myndir eru límdar inn).

Ef einhver mælir með einhverju fyrirtæki þá hefði ég gaman af því að vita af því. Í fyrstu umferð værum við að tala um sirka 1.000 slides myndir, sirka 30-40 filmur og um 5-600 stakar myndir. Ef þetta gengur vel þá er safnið töluvert stærra. Væri gott að heyra um góða aðila, annaðhvort sem komment hér eða á pósti til mín einarorn@gmail.com.

1 ár

Kærastan mín bendir á að í dag er eitt ár síðan að hún flutti hingað til Svíþjóðar og við byrjuðum í raun að búa saman. Við höfðum jú búið saman í kommúnunni á Njálsgötu með vinum okkar, en hlutirnir breyttust vissulega þegar við byrjuðum að búa saman ein hérna í Stokkhólmi. Þetta er búið að vera frábært ár.

* * *

Byggingarvinnan á staðnum í Sundbyberg gengur mjög vel og við áætlum að opna 27.janúar. Það eru rétt rúmar tvær vikur þangað til og ég held að sú dagsetning muni bara standast. Ég skrifa kannski meira um þær breytingar sem verða þegar að nær dregur að opnun, en ég og Anders rekstrarstjóri vorum útí Sundbyberg í dag og þar tók ég nokkrar myndir, sem ég setti inná Flickr.

Eini gallinn er að við munum ekki geta selt áfengi frá fyrsta degi þar sem að ég þarf að sækja *þriggja daga* námskeið um sölu á áfengi áður en við fáum áfengisleyfi. Það verður ábyggilega hressandi.

* * *

Annars er lífið hérna í Stokkhólmi búið að vera fínt síðan við komum heim frá Íslandi. Margrét er á fullu að læra undir próf og ég á fullu við að undirbúa opnunina. Á kvöldin hef ég svo tekið því frekar rólega, enda þurfti ég á allavegana mánaðarlangri afvötnun að halda eftir þessa Íslandsferð. Eini gallinn við þennan tíma hérna í Stokkhólmi er þessi mikli kuldi sem hefur verið hérna. Ég hef ekki enn treyst mér út að hlaupa og labbið á skrifstofuna er ansi hreint kalt í þessu veðri. En það er sennilega nóg að ég kvarti yfir þessu veðri á Facebook – þetta er nú ekki svo alvarlegt.

How the men behind Iceland crisis are still calling the shots

How the men behind Iceland crisis are still calling the shots – Europe, World – The Independent.  – Grein í Independent um Davíð og Hannes: “Chief among them is David Oddsson, the prime minister who oversaw the privatisation of the banks that led to the meltdown in 2003, and then went on to spend four years as governor of the central bank.  – If that transition seems unlikely enough for a man with no economic training, his more recent move is similarly perplexing: Oddsson is now editor of Morgunbladid, an influential national newspaper. It is as if Tony Blair had stepped down to succeed Mervyn King, only to jack it in in favour of the top job at The Independent.”

Icesave og Íslandsferð

Vilhjálmur Þorsteinsson segir allt sem ég vil segja um þetta magnaða útspil forseta Íslands í morgun.

Ég mæli með að fólk lesi alla greinina. Niðurlagið er ágætt:

>Ég reyni að vera orðvar maður almennt, en ég verð að segja það hreinskilnislega, að mér finnst ákvörðun forsetans forkastanleg, óskiljanleg og illa ígrunduð.

Gauti Eggertsson veltir svo fram ágætis punkti:

>Það á enn eftir að útskýra fyrir mér — útfrá almennum sjónarmiðum — hvernig milliríkjadeilur um greiðslur tiltekinna skulda geta verið útkljáðar með þjóðaratkvæðagreiðslum.

Þetta mál er svo fáránlegt og þessi ákvörðun svo vitlaus að það nær ekki nokkurri átt – og sú staðreynd að hann hyggst flýja til Indlands á miðvikudaginn gerir þetta enn ömurlegra. Ég er þó búinn að tala um þetta nóg við vini í dag svo að ég nenni ekki að skrifa meira.

* * *

Þessi Íslandsferð hjá okkur Margréti er búin að vera stórkostleg. Við erum búin að hitta alla okkar vini og fjölskyldu oft og mörgum sinnum og höfum skemmt okkur ótrúlega vel. Ég hef horft á sjónvarp í samtals 2 klukkutíma (3 Fangavaktarþætti og áramótaskaup) sem sýnir kannski hversu upptekin við höfum verið við annað.

Við höfum farið í æðislegt brúðkaup og ég í frábæra steggjun. Við höfum haldið partí og heimboð, mætt á tónleika, fjöldan allan af fjölskylduboðum og partíum og ég hef horft á Liverpool leiki með vinum mínum. Síðustu daga hef ég verið fullbókaður allan daginn. Þetta er einfaldlega búið að vera hið fullkomna jólafrí frá A-Ö.

Við erum á leið til Stokkhólms í fyrramálið og næsta Íslandsferð hefur enn ekki verið plönuð. En við kveðjum allavegana Ísland með söknuði þótt að við séum hálf feginn að sleppa við það að hlusta á Icesave umræður allan daginn næstu mánuði. Það er án efa einn stærsti kosturinn við það að búa í Svíþjóð þessa dagana.

Takk fyrir okkur!