Mörður um magnað viðtal við nýjan framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, um skoðanir hans á ESB.
Author: einarorn
Midsommar í Stokkhólmi
Af því að ég hef ekki bloggað lengi, þá nokkrir punktar.
* Hérna í Svíþjóð er midsommar-helgi, sem er merkiðsviðburður á hverju ári. Stokkhólmur breytist í draugaborg þegar að allir sem mögulega geta, flýja borgina uppí sveit. Við Margrét urðum eftir. Þegar ég fór með plast útí endurvinnslugám var afskaplega skrýtið að labba um Götgötuna. Gatan sem við búum við er nefnilega full af lífi alla daga og alla nætur. En ekki í dag. Nánast allt lokað og fáir á götunni.
* Við nýttum okkur þetta frí í að taka íbúðina í gegn. Við vorum að fá nýjar innréttingar, sem við tókum uppúr kössum. Svo setti ég saman svefnsófa í aukaherbergið þannig að næstu gestir hérna munu fá almennilegt rúm til að gista í. Við tókum líka til í allri íbúðinni, hentum gríðarlegu magni af rusli og slíku. Ég er hálf uppgefinn eftir þetta allt. Ætla að fá mér bjór í verðlaun fyrir allt þetta umstang.
* Við erum búin að sjá tvær grínmyndir í bíó síðustu tvær vikur: I love you Man og The Hangover. Sú fyrri er talsvert betri, en þær eru báðar góðar. Það er svo sjaldgæft að ég hlæji mikið í bíó þannig að það var ánægjulegt að sjá tvær grínmyndir með svo stuttu millibili. Í gær reyndum við að horfa á The Darjeeling Limited í sjónvarpinu með slæmum árangri. En ég fatta heldur ekki Wes Anderson myndir. Kannski er ég ekki nógu klár.
* Ég er búinn að uppfæra iPhone-inn minn í 3.0 stýrikerfið. Þetta er engin bylting, en samt þá er þetta fín uppfærsla, sem að býður kannski uppá fleiri möguleika þegar að hin ýmsu fara að nýta sér möguleikana til fulls (einsog það að geta notað Maps inní sjálfu forritinu – einn af þessum litlu hlutum sem skipta svo miklu máli fyrir forrit einsog það sem ég nota fyrir metró- og strætókerfið hérna í Stokkhólmi). Fyrir utan það sem allir hafa talað um (copy, paste), þá var ég aðallega spenntur fyrir litlu hlutunum, einsog að kerfið höndlar wi-fi heita reiti (einsog Telia HomeRun) mun betur en áður. Eins virðist Safari vera hraðvirkari, sérstaklega í JavaScript þungum síðum einsog Gmail og Google Apps.
Annars getum við vonandi nýtt helgina í einhverja útiveru því að veðrið hérna undanfarna daga hefur ekki verið skemmtilegt. En það á víst að breytast á sunnudaginn, en frá og með þeim degi á að vera sól og 20 stiga hiti marga daga í röð. Það verður skemmtileg tilbreyting. Við förum í matarboð á morgun, en annars er helgin ótrúlega lítið skipulögð sem er nýtt fyrir okkur því að vanalega er annaðhvort Margrét að vinna, eða við þá búin að skipuleggja dagskrá. Það verður fínt að njóta lífsins í rólegheitunum.
Israeli Settlements in the West Bank – The Big Picture – Boston.com
Magnaðar myndir af landnemabyggðum Gyðinga á Vesturbakkanum.
Ríflegur meirihluti vill aðildarviðræður við ESB
57,9% vilja aðildarviðræður – 26,4% eru á móti. Þetta verður ekki mikið skýrara fyrir stjórnmálamenn.
Neil Young, Pixies, Duffy og Nick Cave
Í kvöld er annar hluti af tónleikaröðinni “Margrét og Einar fara á útitónleika í fáránlega leiðinlegu veðri”. Við erum að fara á Where the action is útihátíðina, sem er haldin hérna í Stokkhólmi í dag og á morgun.
Helstu númer kvöldsins í kvöld eru Pixies og Neil Young. Ég hef verið Neil Young aðdáandi lengi lengi og ef ekki hefði verið fyrir Bruce Springsteen tónleikana fyrir viku þá hefði ég sennilega skrifað mun meira um þessa tónleika hér á bloggið. Set-listinn sem Young hefur spilað undanfarnar vikur er svakalega góður með slatta af gömlum slögurum (Heart of Gold, Hey Hey, Pocahontas, Rockin in the Free World, Cinnamon girl, Like a Hurricane, etc).
Gallinn við kvöldið í kvöld er að hér er rigning og skítaveður. Nánast alveg eins og á Springsteen tónleikunum. Hátíðin heldur svo áfram á morgun þar sem að aðalnúmerin eru Duffy, The Magic Numbers og Nick Cave, sem ég hef einmitt aldrei hlustað á.
En í kvöld er hápunkturinn sennilega þegar að Neil Young tekur þetta lag.
Jamm, það verður gaman í rigningunni.
Mörður Árnason · Kóað með Kristjáni
Mörður um hvalveiðar.
Bruce Springsteen í Stokkhólmi
Einsog ég talaði um fyrir viku, þá fórum við Margrét á tónleika með Bruce Springsteen á Stockholm Stadion síðasta fimmtudag. Stadion er Ólympíuvöllurinn hérna í Stokkhólmi og er ekki með sæti fyrir nema um 13.000 manns á íþróttaviðburðum. Hins vegar þá var á þessum tónleikum nánast allt grasið nýtt undir stæði fyrir tónleikagesti, þannig að alls voru um 30.000 manns á staðnum. Springsteen hélt þrjá tónleika hérna í Stokkhólmi um síðustu helgi og þessir voru þeir fyrstu.
Við vorum eiginlega eins óheppin með veður og hægt er að vera í júní í Stokkhólmi. Það var kalt og rigning á tónleikunum. Það þýddi þó að við fengum þann bónus að Springsteen byrjaði tónleikana á gamla Creedence Clearwater slagaranum “Who’ll stop the rain”. Ég tók nokkrar myndir, sem eru hérna.
Annars leit set-listinn svona út:
Who’ll Stop The Rain
Badlands
My Lucky Day
Prove It All Night
Outlaw Pete
Out In The Street
Working On A Dream
Seeds
Johnny 99
The Ghost of Tom Joad
Raise Your Hand
I’m Goin’ Down
Cadillac Ranch
Because The Night
Wild Thing
Waiting On A Sunny Day
The Promised Land
The Wrestler
Kingdom Of Days
Lonesome Day
The Rising
Born To Run
Uppklapp
Hard Times
Bobby Jean
Land of Hope and Dreams
American Land
Glory Days
Twist And Shout
Dancing In The Dark
Þetta voru einfaldlega stórkostlegir tónleikar. Springsteen verður sextugur í september, en hann er hreint fáránlega góður á tónleikum. Hann virðist hafa gaman af því að koma fram og lagalistinn hans er frábær blanda af nýjum lögum og gömlum slögurum. Ég var búinn að kynna mér set-listana vel fyrir tónleikana, þannig að ég vissi nokkurn veginn við hverju mátti búast. Það má segja að einu vonbrigðin hafi verið þau að hann tók ekki Thunder Road.
En á móti því kom að hann tók hreint stórkostlega útgáfu af “The Wrestler”, sem hann hefur ekki tekið alltaf (og þetta var í eina skiptið sem hann tók það lag í Stokkhólmi). Einsog ég sagði áður þá byrjaði Springsteen á Who’ll stop the rain og svo keyrði hann inní Badlands, sem er nánast alltaf hans upphafslag. Í næstum því þrjá tíma fór hann svo á kostum. Hann tók ótrúlega góðar útgáfur af nýjum lögum (þar sem Outlaw Pete og The Wrestler báru af) ásamt gömlum slögurum inná milli – auk þess sem hann tók óskalög frá áhorfendum, sem að báðu um þau með því að halda uppi skiltum.
Hann endaði svo prógrammið á Born To Run, sem hefur verið eitt af mínum uppáhaldslögum í mörg ár. Í hreint stórkostlegri uppklappsseríu tók hann æðislega útgáfu af American Land (sem ég elska) áður en hann endaði á tveimur vinsældaslögurum, Glory Days og Dancing in the Dark. Allan tímann var hann á fullu um sviðið og slakaði aldrei á. Hápunktarnir: Wrestler, Ghost of Tom Joad, Born to Run og American Land.
Ég er búinn að bíða í mörg ár eftir að sjá Springsteen og ólíkt mörgum eldri tónlistarmönnum sem ég hef séð, þá stóð Springsteen 100% undir öllum þeim væntingum, sem ég gerði mér fyrir tónleikana. Að horfa á tónleika á íþróttavöllum er auðvitað aldrei jafn skemmtilegt og í minni sal, en þessir tónleikar eru samt klárlega meðal þeirra 5 bestu sem ég hef séð á ævinni.
Springsteen er einfaldlega meistari.
Grumpy Gamer Stuff and Things and Monkey Island
Ron Gilbert spilar Secret of Monkey Island 20 árum seinna. Vá hvað ég elskaði þennan leik.
Aðeins um Icesave
Gauti B. Eggertsson, sá ágæti hagfræðingur (sem býr í Bandaríkjunum og vinnur hjá Seðlabankanum í New York) skrifar eftirfarandi hluti um Icesave málið:
Ég hef ekki kynnt mér efni icesave samkomulagsins að miklu marki, en af fréttum að dæma sýnist mér tiltekin óskhyggja annars vegar, og popúlismi hins vegar, ráða viðbrögðunum.
Landsbankinn auglýsti icesave á Bretlandi þar sem því var skilmerkilega haldið til haga að íslenska ríkið ábyrgðist innistæður upp að ákveðnu marki. Þetta var gert með vitund og vilja íslenskra yfirvalda.
Eignir Landsbankans eiga að ganga upp í þetta og sýnist mér íslenska ríkið vera fremst í röðinni þegar þær verða seldar til að borga uppí icesave. Vextir sýnast mér töluvert lægri en þeir sem bjóðast íslenska ríkinu á opnum markaði og svipaðir fjármagskostnaði langtímalána þeirra ríkja sem ætla að lána okkur til að greiða þessa skuld.
Í stuttu máli, sýnist mér, amk í fljótu bragði, þetta samkomulag vera skynsamlegt.
Einsog ég skil málið, þá hefur Gauti rétt fyrir sér. Þetta virðist vera nokkuð skynsamlegt samkomulag miðað við stöðuna sem við vorum í. Það er að mörgu leyti ósanngjarnt að þetta skuli lenda á Íslendingum, en miðað við stöðuna sé ég ekki hvaða aðrar leiðir voru færar.
Þeir sem eru ósáttir við þetta samkomulag virðast aðallega nefna þrjá hluti.
– Þetta er ósanngjarnt
Af hverju eiga þeir, sem áttu engan þátt í útrásinni, að borga fyrir Icesave?
Það er vissulega rétt. Þetta er afskaplega ósanngjarnt. En reynum aðeins að horfa á þetta frá sjónarhorni breskra þegna. Þeir lögðu inn pening á reikninga í Bretlandi, sem voru í auglýsingum, sagðir tryggðir af íslenskum yfirvöldum. Mikið var gert úr tengingunni við Ísland (Icesave nafnið til að mynda) og hún átti að auka trúverðugleika reikninganna. Þessir peningar voru svo að stórum hluta sendir til Íslands, þar sem þeir fóru í að byggja upp íslensk fyrirtæki í útrás (hversu gáfulegt sem það var).
Þetta leyfðu íslensk stjórnvöld og Seðlabanki. Í stað þess að neyða Landsbankann til að færa þetta í breskt útibú, þá létu íslensk stjórnvöld þetta viðgangast. Stjórnvöld eru fulltrúar okkar almennings, kosin af okkur. Ef að allt hefði farið vel síðasta október, þá hefðu þessi bresku innlán átt að hjálpa íslenskum fyrirtækjum og íslenskum almenningi. Svo fór ekki. Getum við þá neitað að borga þegar að illa fer?
Það er ósanngjarnt ef við þurfum sem skattborgarar í framtíðinni að borga fyrir Icesave. En okkar stjórnvöld klúðruðu málunum einfaldlega svo illa (Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, með dyggri aðstoð Samfylkingarinnar) að við getum varla gert annað en borgað.
– Það hefði átt að fara dómstólaleið
Ég er ekki lögfræðingur og veit lítið um alþjóðalög. Í Kastljósi var Sigmundi D. Gunnlaugssyni gefið tækifæri á að útskýra hvaða leið ætti að fara. Hann gat ekki gert það. Hann nefndi gerðardóm, sem að Bretar og Hollendingar höfnuðu, en lítið annað.
Ég skil líka ekki hvernig hægt er að túlka þetta Icesave á neinn annan hátt en að við berum hreinlega ábyrgð á þessum innistæðum. Hver er óskaniðurstaðan fyrir dómstólum? Er hún sú að dómstóllinn segi okkur að það sé í lagi að mismuna fólki eftir því hvort það sé Hollendingar eða Íslendingar?
Og hvað ef við töpum þessu fyrir dómstólum? Yrði þá ekki niðurstaðan enn verri en sú sem næst með þessum samningum? Það finndist mér allavegana líklegt.
– Víst að samið var, þá eru vextirnir alltof háir
Í þessu magnaða Kastljósviðtali þá benti Sigmundur á að stýrivextir í Bretlandi væru 0,5%, væntanlega til þess að sýna hverslags “okurvexti” við værum að fá á þessum lánum. En Sigmundur hlýtur að vita að þótt það séu lágir stýrivextir í Bretlandi (sem eru hafðir þannig til að örva breskt atvinnulíf) þá er auðvitað ekki hægt að millifæra það á langtímalán, sem að Bretland veitir öðru landi. Einsog Gauti bendir á, þá eru vextirnir á þessu láni lægri en okkur sem þjóð bjóðast almennt séð. Þannig að rökin um of háa vexti standast alls ekki. (sjá hér annan pistil frá Gauta). Ég veit ekki hver tilgangur Sigmundar er með slíkum málflutningi.
* * *
Ég er ekkert sérlega æstur í að Icesave falli á Íslendinga – ég held að enginn sé það. En þegar ég horfi á málið þá sé ég einfaldlega ekki hvað núverandi ríkisstjórn gat gert nema akkúrat það sem hún gerði.
Það hjálpar ekki neinum ef að stjórnmálamenn gera almenningi upp falskar vonir um að hlutirnir reddist á einhvern hátt án þess að á bakvið það séu nein haldbær rök. Einnig hjálpar það engum þegar alltaf er dregin upp dökkasta mögulega mynd af því hvernig hlutirnir geta þróast.
Icesave og popúlismi
Gauti B. Eggertsson fjallar á stuttan hátt um Icesave