Jólakveðjur

.flickr-photo { border: solid 1px #000000; }
.flickr-yourcomment { }
.flickr-frame { text-align: left; padding: 3px; }
.flickr-caption { font-size: 0.8em; margin-top: 0px; }


Þá er ég búinn að sannfæra sjálfan mig um að allt sé í lagi í vinnunni minni og get því sagt að jólin séu að byrja. Ég næ mér aldrei í neitt sérstakt jólaskap vikurnar fyrir jól, þar sem það að eiga veitingastað í Kringlunni gerir mig alltaf frekar stressaðan fyrir jólin.

Svo erfiður var þessi jólaundirbúningur í ár að ég komst ekki einu sinni í að skrifa jólakort í tæka tíð. Er rétt að byrja á þeim núna á Þorláksmessukvöld. Þannig að nema þú sért svo heppin/n að hitta mig í dag eða á morgun, þá færðu jólakort frá mér eftir jól. 🙂

En allavegana til allra, sem lesa þessa síðu: Gleðileg jól!!!

Uppboð 2006: Vín

Ok, þá er það síðasti hluti uppboðsins!!

Þú getur lesið um [uppboðið hér](https://www.eoe.is/uppbod).

Núna eru það tvær eðal vínflöskur, sem eru boðnar upp.

The Macallan viskí

Single Malt Highland Schotch Whiskey – 12 years old

Sjá mynd af flöskunni hérna

Lágmarksboð: 5.000 krónur

Poggio Alle Mura rauðvín

Árgerð 1998. Þetta er klassavín, sem ég fékk gefið úr einkasafni góðs manns. 1998 árgangurinn af þessu víni fékk fékk 93 stig af 100 í maí hefti Wine Spectator 2003. Topp árgangur af topp víni!!!

Sjá mynd af flöskunni hérna.

Lágmarksboð: 10.000 krónur

Uppboði lýkur klukkan 23:59 á föstudagskvöld. Ef fólk býr á höfuðborgarsvæðinu, þá get ég reynt að koma flöskunum til þess á aðfangadagsmorgunn!

Tobias Funke!

Ég er byrjaður að horfa á þriðju og síðustu seríu af Arrested Development. Hafði beðið lengi með að horfa á þriðju seríuna. Suma hluti tengir maður ákveðnum aðilum og það er því furðulegt að upplifa þá undir öðrum kringumstæðum.

Allavegana, ég er byrjaður að horfa á 3. seríuna og ég lýsi því hér með að Tobias Funke er einn fyndnasti karakter í sögu sjónvarpsþátta.

Arrested-David-Cross6.jpg

Þetta er úr síðasta þætti sem ég horfði á:

>**Michael**: They’ve got one guy who won’t be talking. That is, unless there’s a hand inside of him.

>**Tobias**: Oh, please Michael, even then I wouldn’t say anything.

Þetta er eflaust ekki fyndið fyrir þá, sem hafa ekki horft á þættina, en ég kafnaði næstum því úr hlátri. Arrested Development eru **æðislegir** þættir. Gob og Tobias eru mestu snillingar í heimi!

Fyrirsagnir í Hér og Nú

Í síðustu viku var forsíðufyrirsögnin í Hér og Nú:

Tilhugsunin um brúðkaup pínleg

…og á þetta við um viðtal við Höllu Vilhjálms, sem er….?
Í þessari viku er fyrirsögnin á forsíðunni:

Hjá mömmu og pabba um jólin

…og er sú fyrirsögn við viðtal við Birgittu Haukdal.
Mér þykja þessar fyrirsagnir – og þá sérstaklega sú síðari – benda til þess að innihald viðtalanna sé ekki mikið.

Hættulegustu vegir í heimi

Hérna er [skemmtilegt blogg um hættulegustu vegi í heimi](http://thrillingwonder.blogspot.com/2006/11/most-dangerous-roads-in-world.html). Þrátt fyrir margar hryllingssögur af rútuferðum sem ég hef birt á þessari síðu, þá hef ég ekki upplifað að ferðast um neinn af þessum vegum.

Okkur Emil bauðst þó að ferðast um veginn sem er talinn sá næst hættulegasti, en það er [vegurinn frá La Paz í Bólivíu til Yungas](http://news.bbc.co.uk/2/hi/programmes/from_our_own_correspondent/6136268.stm). Við heyrðum þvílíkar sögur af rútuferðum á þessum vegi (bílhræ fyrir neðan veginn, fullir bílstjórar og svo framvegis) og ákváðum því að þrátt fyrir að við gætum hugsanlega stært okkur af þessari rútuferð alla ævi, þá væri það varla áhættunnar virði.

Í stað þess ákváðum við að fara til Potosí í ferð, sem er án efa hræðilegasta rútuferð ævi minnar. Hún átti minnir mig að vera 7 tímar, en endaði á því að vera 19 tímar þar sem við festumst uppá einhverju fjalli á því sem átti að heita vegur, en gat varla talist mikið merkilegra en drulluslóð. Fyrir framan okkur var ung mamma með nokkur lítil börn, sem grétu nánast stanslaust alla ferðina. Sú rútuferð var alveg nógu erfið fyrir mig. 🙂

Uppboð: Áminning

Minni á að [uppboði á Francis Francis vélinni lýkur á miðnætti í kvöld](https://www.eoe.is/gamalt/2006/12/14/20.00.30/).

Francis Francis X6 – hvít espresso vél

francis%20francis.jpeg

Einsog stendur er hæsta boð 21.000 22.000 kall – en vélin kostar 33.000 útúr búð!!! Ef þú vilt bjóða í vélina, settu þá inn ummæli [hérna](https://www.eoe.is/gamalt/2006/12/14/20.00.30/).

Einar álfur

Ef að [jólasveinamyndin mín](http://www.flickr.com/photos/einarorn/321262100/) kom ykkur ekki í jólaskap, þá hlýtur [ÞETTA](http://www.elfyourself.com/?userid=8341e7a0fd1d4d0aea21211G06121800) að virka.

🙂

Næstsíðasta laugardagskvöld fyrir jól

Fyrir 364 dögum skrifaði ég [eftirfarandi](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/17/23.44.37/):

>Hvað gerir ungur piparsveinn á laugardagskvöldi?

>Jú, í mínu tilfelli þá hef ég eytt síðustu 5 klukkutímunum inní eldhúsi á Serrano, skerandi kjúkling og búandi til sósur. Það var hressandi

>Einhvern veginn varð þetta síðasta laugardagksvöld fyrir jól ekki alveg einsog ég hafði gert mér vonir um. Það var svo sem blanda af nokkrum atburðum. Dagurinn í dag var sá stærsti í sögu Serrano. Við höfum aldrei selt jafnmikið og bættum fyrra met, sem sett var 22.desember í fyrra, um rúmlega 10%.

Núna er klukkan að verða 11 á laugardagskvöldi og ég sit inní stofu, algjörlega uppgefinn og hlusta á Ghostface Killah og reyni að slappa af. Ég eyddi einmitt þessu næstsíðasta laugardagskvöldi fyrir jól uppá Serrano.

Og viti menn, dagurinn í dag var stærsti dagur í sögu staðarins. Við bættum fyrra met um 16% og þrátt fyrir það að núna sé á Stjörnutorgi miklu meiri samkeppni (Sbarro í stað Bagel House). Vann frá 15-23, sem var ágætt.

Ég er ekki kominn í jólaskapið og ekki byrjaður að pæla í jólunum. Langar ekki í neitt sérstakt í jólagjöf, en mig hlakkar þó til að velja nokkrar jólagjafir. Því yngri sem þiggjendurnir eru, því skemmtilegra er valið. Svo á ég eftir að skrifa jólakort. Þau verða fleiri en í fyrra, sem er gaman.

Ég á oft á tíðum erfitt með að vera í afgreiðslunni á Serrano. Ég á mestan heiðurinn af þeim réttum sem við bjóðum uppá og því verð ég alltaf hálf svekktur þegar fólk er að breyta útaf þeim réttum sem við bjuggum til. Auðvitað er það ekkert nema sjálfsagt, en það er alltaf eitthvað innra með mér sem kippist við þegar að fólk vill sleppa svörtum baunum (sem eru æðislegar) eða breytir frá því að kaupa þá sósu sem ég lagði til að yrði notuð á viðkomandi burrito.

Ég las einhvern tímann vefsíðu þar sem mun betri kokkar en ég svekktu sig yfir fólki, sem kom á fínu veitingastaðina þeirra – pantaði flotta rétti, sem þeir höfðu eytt árum í að fullkomna, og bað svo um salt og pipar eða soja sósu eða tómatsósu og setti yfir réttinn. Það þótti kokkunum ekki gaman.

Alls ekki misskilja mig. Mér finnst þetta í góðu lagi hjá okkar viðskiptavinum og vissulega er það kosturinn við Serrano að það er hægt að breyta hlutunum og að sumum fólki finnst aðrar sósur betri en mér. En mér finnst þetta samt alltaf pínu erfitt. Stelpurnar, sem vinna með mér, geta hlegið af því hversu nærri mér ég tek þetta. 🙂

En núna ætla ég að sofa út á morgun og svo reyna að kíkja út og kaupa jólagjafir.

Á leiðinni heim úr Kringlunni hlustaði á á einhverja útvarpsstöð þar sem að DJ-inn spilaði fyrst *Suspicious Minds* með Elvis Presley og svo *Gone Daddy Gone* með Violent Femmes. Ég söng svo hátt í bílnum mínum að það var sennilega nær öskrum en söng.

Uppboð 2006: Ný Francis Francis espresso vél!

Jæja, þá heldur uppboðið áfram. Sjá allt um [uppboðið hér](https://www.eoe.is/uppbod)

Núna er það ekki hlutur úr mínu búi, heldur fékk ég mitt gamla fyrirtæki til að gefa hlut á uppboðið.

Þannig að núna er ég að bjóða upp hvorki meira né minn en glænýja Francis Francis Espresso vél. Vélin er semsagt gefin á þetta uppboð af [Danól ehf](http://www.danol.is) en það frábæra fyrirtæki er umboðsaðili meðal annars fyrir þessar Francis Franics vélar og einnig fyrir [illy](http://www.illy.com/), sem er besta kaffi í heimi!

Þannig að þessi espresso vél er enn í kassanum, alveg ný. **Ótrúlega flott vél!!**

Francis Francis X6 – hvít espresso vél

francis%20francis.jpeg

Lágmarksboð er 15.000 krónur, en vélin er mun verðmætari en það. Danól gefur vélina á uppboðið og því fer 100% upphæðarinnar til góðgerðarmála. 🙂

Ég þakka Danól fyrir framlagið.

Uppboði lýkur klukkan 23:59 á mánudagskvöld.