Jólin

Þetta eru búin að vera æðisleg jól.

Sit núna uppí sófa, nýbúinn að borða Weetabix þar sem mig hreinlega langaði ekki í meiri óhollustu í bili. Hef sofið lengur en 12 tíma tvo daga í röð, eytt fullt af tíma með fjölskyldunni og borðað frekar mikið.

Ég fékk fulltaf skemmtilegum gjöfum, bæði frá fjölskyldu og fyrirtækjum tengdum Serrano. Fékk m.a. matarkörfur, fullt af víni, skálar og fleira frá fyrirtækjum. Frá fjölskyldunni fékk ég svo tvær bækur, annars vegar ljósmyndabók og hins vegar bókina um Maó eftir Jung Chang. Ég er orðinn nokkuð spenntur fyrir því að lesa hana. Las í fyrra [ævisögu Pol Pot](http://www.amazon.com/Pol-Pot-Nightmare-Philip-Short/dp/0805080066) og hún gerði mig spenntan fyrir að lesa um Maó.

Allavegana, aðalgjöfin var samt **snjóbretti**, en ég hef einmitt aldrei farið á snjóbretti. Ég var hins vegar nokkuð góður á skíðum þegar ég var yngri, en missti áhugann þegar ég var útí háskóla. Það virðast allir undir fertugt vera á snjóbrettum í brekkunum í dag, þannig að ég var orðinn verulega spenntur að prófa. Og það lítur út fyrir að ég sé strax heppinn með snjó, þannig að vonandi fæ ég að prófa brettið um helgina. Það eru allir búnir að segja mér að ég muni eyða fyrsta deginum á hausnum, þannig að ég er undirbúinn undir hið versta.  🙂

Jól

Þorláksmessa og ég er búinn að redda öllu jólastússinu.  Sit fyrir framan sjónvarpið, hálf afslappaður og horfi á Barca-Real Madrid.  Eini gallinn við þetta ástand er að ég sé ekki almennilegan mun á því að horfa á Real Madrid-Barcelona á Sýn og að horfa á myndbönd á Youtube.  Gæðin eru einfaldlega of lík.

Jólastússið hjá mér er reyndar afskaplega einfalt.  Ég eyði nokkuð miklum tíma í að skrifa jólakort og svo kaupi ég jólagjafir.  Þetta árið gef ég einhvejrar 50 jólagjafir, yfirgnæfandi meirihluti þeirra er til starfsmanna Serrano, en svo eru nokkrar til fjölskyldumeðlima.  Þar sem ég þarf hvorki að skreyta né baka (takk, mamma!) þá er jólaundirbúningurinn ekki flóknari en svo.

* * *

Er búinn að kíkja í bæinn bæði í gær og í fyrrakvöld.  Á Vegamót og Ólíver á föstudaginn og svo á B5 í gær.  Það var yndislegt að vakna báða dagana án hausverks, þar sem ég var afskaplega rólegur í því að drekka. Sem var mjög ólíkt því sem var í gangi um síðustu helgi.  Þá var ég í afmæli hjá Jensa vini mínum og  í bænum á föstudagskvöld og svo var ég með partí á laugardagskvöldið, sem endaði með ansi langri viðveru á skemmtistöðum bæjarins.

* * *

Vann í afgreiðslunni á Serrano á fimmtudaginn, sem var hressandi.  Hef alltaf þurft að vinna af illri nauðsyn á Serrano síðustu 5 jól, en núna var ástandið svo gott á staðnum að ég vann bara vegna þess að ég bauðst til þess.  Það kom mér eiginlega í ágætis jólaskap að standa þarna og afgreiða burritos í nokkra klukkutíma.

Á morgun keyrum við Emil svo saman út einhverja jólapakka, svo fer ég í kirkjugarðinn með fjölskyldunni og eyði svo kvöldinu heima hjá eldri systur minn.  Þrátt fyrir að ég komist kannski ekki í jólaskap fyrr en á aðfangadag, þá elska ég samt jólin þegar þau loksins koma.

En allavegana segi ég bara Gleðileg Jól, vona að allir sem lesa þessa síðu hafi það gott um jólin.  🙂

Hlutirnir sem barnabörnin ættu að vita

Það eru næstum því tvö ár síðan ég skrifaði þennan áramótapistil þar sem ég var á frekar miklum bömmer og hlustaði stanslaust á Eels, sérstaklega Things the grandchildren should know.

Í dag líður mér sirka 100 sinnum betur (þetta hjálpaði auðvitað) og á slíkum stundum er alltaf hálf skrýtið að grípa í lög sem maður tengir svo leiðinlegum tímum í sínu lífi. Það getur verið ótrúlegt hversu samofin ákveðnum tímabilum í lífi manns ákveðin lög geta verið.

Ég get til dæmis varla hlustað á Last Goodbye með Buckley án þess að hugsa til allra þeirra stunda sem ég lá uppí rúmi lesandi ljóð frá fyrrverandi kærustunni minni, miður mín yfir því að við værum í sitthvorri heimsálfunni. Og ég á enn erfitt með að hlusta á Don’t think twice, it’s alright án þess að það verði til þess að upp fyrir mér rifjist hvernig mér fannst önnur stelpa hafa svikið mig.

En það var eitthvað við að að hlusta á Things the grandchildren should know í kvöld, sem fékk mig til að líða alveg einstaklega vel. Það getur nefnilega tvennt gerst þegar maður heyrir á góðum stundum í lífinu lög sem maður tengir þeim slæmu. Annaðhvort vekur það upp slæmar tilfinningar og rífur upp gömul sár. Eða þá að lögin gefa manni smá perspektíf. Þau hjálpa manni að rifja upp að hlutirnir voru einu sinni alveg ferlega ömurlegir, en að í dag séu þeir svo miklu, miklu betri.

Þess vegna verð ég glaður við að hlusta á Eels í dag. Þetta lag hjálpar mér að meta það hversu gott ég hef það núna.

Punktablogg helgarinnar

Jammmm.

  • Á Vegamótum á laugardagskvöldið hitti ég stelpu, sem ég kannast við, sem var að reyna að koma mér saman við vinkonu sína. Það eina, sem hún taldi upp sem kosti (vissulega á afar stuttum tíma) var vinnan sem stelpan var í. Ég held að það hafi aldrei gerst áður að starfstitill hafi verið nefndur sem kostur við stelpu við mig.
  • Ef ég er einn heima og hef frítíma (sem gerist reyndar ekki oft þessa dagana), þá eru svona 85% líkur á því að ég sé að spila Super Mario Galaxy, sem er einmitt besti tölvuleikur sem ég hef spilað í langan, langan tíma.
  • Á Kaffibarnum var ég að bíða eftir klósetti á meðan að par var að athafna sig þar inni. Næsti gaurinn í röðinni spurði hvort ég ætlaði bara að pissa eða hvort ég ætlaði líka að fá mér línu. Ég sagðist bara þurfa að pissa. Ógeðslega glatað!
  • Síðasta lagið eftir lokun á Vegamótum var Heartbeats með Jose Gonzalez, sem ég hafði ekki hlustað á í einhvern tíma. Mikið afskaplega er það æðislegt lag.
  • Er þetta veður eitthvað grín?
  • Hérna er skemmtileg síða með allskonar topplistum ársins að mati Time.
  • Hjá Dr. Gunna var Arcade Fire með plötu ársins. Ég kemst ekki yfir það að mér finnst þessi plata með þeim vera hundleiðinleg og þó dýrkaði ég frumraun þeirra. Ég kem auðvitað með minn lista um áramótin, en þetta verður val á milli LCD, Kanye, Okkervil, Radiohead og Jensa Lekman.

Svo mörg voru þau orð.

Fokking jól

Úff, síðustu þrjá daga hef ég þurft að þola fréttir af jólasveinum í aðalfréttatíma sjónvarpsins. Í kvöld var 2 mínútna langt viðtal við Stúf. STÚF!!! Eiga þessir andskotar ekki að vera enn uppí Esjunni?

Einnig var ég inná Adesso að vinna í dag og þar heyrði ég roooosalegasta jólalag allra tíma, sem fjallaði um malt og appelsín. Úffff!  (uppfært: veit einhver hvaða lag þetta er?  Þetta er ekki auglýsingalagið, heldur eitthvað popplag um malt og appelsín).

Annars kom vinur minn í heimsókn í gær og hrósaði mér sérstaklega fyrir jólaskreytingar í íbúðinni minni. Það hefur enginn gefið mér jólaskraut í gegnum tíðina og ekki fer ég að kaupa það sjálfur, þannig að eina jólaskrautið, sem ég á er spítusnjókall. Núna hangir hins vegar líka grenigrein í stofunni eftir partí sem ég hélt um helgina. Þetta er eins nálægt því að hafa jólatré í stofunni og ég mun komast meðan ég bý hér einn.

Sem betur fer er malt og appelsín auglýsingin með litlu stelpunni ekki byrjuð í sjónvarpinu.

El fin de semana

Alveg ljómandi helgi næstum því búin.

Á föstudagskvöld var ég með partí hérna heima hjá mér, sem var helvíti hresst.  Spiluðum Actionary og Wii Tennis/Box, drukkum jólaglögg, bjór og vodka og eitthvað fleira.

Fórum svo nokkur saman í bæinn.  Fyrst á The English Pub, sem er nýr staður þar sem Deco var áður, svo í 12 sekúndur á Organ og þaðan fór ég einn uppá Vegamót þar sem ég hitti vin minn.  Enduðum svo á einhverju alsherjarflakki milli skemmtistaða á og við Laugarveginn.

Í gær var ég svo algjörlega fáránlega þunnur.  Hef ekki upplifað slíkt í mörg ár, enda hafði ég svo sem ekki drukkið í nokkuð margar vikur.  Náði m.a.s. að æla, sem hefur ekki gerst ansi lengi.  Rétt hafði orku í að horfa á smá hluta úr tveimur fótboltaleikjum.

Náði þó að mæta í árlegt thanksgiving matarboð um kvöldið, sem að matarklúbbarnir úr Verzló vinahópnum mínum halda árlega.  Það hefur verið hefð fyrir því að ég mæti þunnur á þennan viðburð enda hef ég frá stofnun klúbbanna verið eini einstaklingurinn á lausu (semsagt ég og 8 pör) í boðinu.

Maturinn var auðvitað æðislegur, enda er kalkúnn og meðlæti í gríðarlegu uppáhaldi hjá mér.  Svo var setið og spjallað um pólitík, fótbolta og önnur skemmtilegheit fram eftir kvöldi.  Í dag horfði ég svo með vini mínum á [Liverpool vinna Bolton auðveldlega](http://www.kop.is/2007/12/02/16.52.25/#comment-23457) sem enn bætti skapið mitt.

Djamm og fleira

Tengt þessu mataræðisátaki sem ég er í, þá hef ég ekki dottið í það í all-langan tíma.  Ég komst nálægt því á laugardaginn þegar ég var að halda uppá Serrano afmæli með starfsfólki staðarins.  Drakk eitthvað, en samt ekki neitt rosa mikið.  Fórum eftir partíið saman nokkuð stór hópur í bæinn.  Vegna þess að einhverjir voru ekki orðnir tvítugir var úrvalið af mögulegum skemmtistöðum ekki það sama og er vanalega hjá mér.  Til dæmis komu engir staður ofan víglínu til greina.

Eftir að hafa farið á skrautlega hafnfirska skemmtistaði enduðum við á Hressó.  Þar lenti ég í því að meðan ég sat í rólegheitunum við borð, varð ég allt í einu miðpunktur slagsmála þar sem að gaur kom fljúgandi á borðið mitt.  Síðast þegar ég heimsótti Hressó, þegar ég var að ná í bandarískan félaga minn, þá var sá sami félagi minn laminn.  Ályktun mín af þessum atvikum er að láta þennan skemmtistað eiga sig.

* * *

Ég hef farið nokkrum sinnum að borða á Vegamót undanfarnar vikur, en ég hef ekki djammað á þeim stað í tvo mánuði.  Það hefur ekki gerst í mörg ár.

Það er líka alveg ljóst að það dregur úr manni djammviljann að vera ekki í stelpuleit á djamminu.  Síðustu skiptin sem ég hef verið á djamminu hefur hugurinn á mér alltaf verið hjá einhverri stelpu sem var ekki á staðnum.  Þrátt fyrir að ég fari ekki beint á djammið til þess að leita að stelpum, þá er það alveg ljóst að þegar áhugi manns á þeim stelpum sem eru á staðnum er lítill, þá minnkar djammáhuginn.

Ég held samt að ég sé búinn að fá djammviljann aftur.

* * *

Þeir sem umgangast mig dags daglega vita að ég á það til að lesa minnispunkta inná símann minn.  Þetta er allt partur af kerfi sem ég nota til að halda utanum allt það sem ég þarf að gera.  Stundum þegar ég hef komið fullur heim af djamminu hef ég lesið eitthvað inná símann minn, vanalega einhverja minnispunkta um það hvað lífið er yndislegt / ömurlegt eða hversu mikið æði / hörmung stelpur eru.

Þegar ég kom heim af djamminu á laugardaginn þá las ég eftirfarandi skilaboð inná símann minn:  “Muna eftir pinto bauna breytingunum”.

Ef ég þurfti einhverjar frekari sannanir um að ég ætti mér ekkert líf, þá komu þær þarna.

* * *

Ég fór með vinkonu minni í bíó á sunnudaginn á This is England.  Sú mynd er afskaplega góð.  Álíka niðurdrepandi og Veðramót, en samt góð. Í gær vann ég svo heilar 500 krónur í póker af vinum mínum.  Og í kvöld verð ég að hrósa Sýn fyrir það að sýna leik með tveimur liðum sem eru ekki frá Englandi, þannig að síðustu kvöld hafa verið góð.

Ég gefst upp

Áður hef ég á þessari síðu kvartað yfir því að ég sé tekinn í skoðun í tollinum í hvert einasta skipti sem ég geng þar í gegn. Var það svo að það skipti engu máli hvort ég kom ógreiddur í rifnum gallabuxum með bakpoka á bakinu eftir ferðalag í Mið-Ameríku, eða nýkominn af Saga Class, stífgreiddur og í jakkafötum frá London.

Nú er það svo að ég er varamaður í stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og var í Osló í vinnuferð stjórnar um helgina. Ætli það hafi verið nóg til þess að ég væri ekki lengur stoppaður í tollinum?

Nei. – Ég gefst upp.

* * *

Annars gerði ég lítið í Osló nema vinna, eyddum heillöngum tíma í heimsókn á Gardemoen og funduðum á hótelinu. Ég fór varla útúr húsi nema til þess að fara inn og útaf hótelinu og til þess að labba á einn veitingastað.

* * *

Brúðkaup aldarinnar var haldið í gær nú þegar að 93 ár eru eftir af öldinni. Það finnst mér magnað.

Og að lokum, Guði sé lof fyrir það að Atli Gíslason var gestur í Silfri Egils í innflytjendaumræðunni.  Einnig var í þeim sama þætti nokkuð fyndið að sjá Laffer dásama bandaríska efnahagskerfið á meðan að Stiglitz birtir [þessa grein](http://www.vanityfair.com/politics/features/2007/12/bush200712).

Kaffi

Bleh!

  • Er ég einn um að finna það skrýtið þegar að óléttar stelpur hafa mynd af bumbunni sinni sem prófíl mynd á MæSpeis? Ha?
  • Af einhverjum ástæðum finnst mér kaffi 10 sinnum betra í pappamáli en úr bolla. Ég hef ekki hugmynd um af hverju það er, en þetta væri eflaust verðugt rannsóknarverkefni. Þannig að á kaffihúsum þarf ég alltaf að biðja sérstaklega um að fá að drekka kaffi úr “götumáli” inná staðnum.
  • Síðustu daga er ég búinn að vera að hlusta á Amar es combatir með mexíkósku sveitinni Maná, sem er ein af mínum uppáhaldsljómsveitum. Þessi nýji diskur er alveg hreint ljómandi góður.
  • Ég er á mataræði og í æfingaprógrammi þessa dagana, sem mun leiða til þess að einn dag mun ég vera með líkama einsog Fitness módel. Þetta blessaða mataræði gerir það hins vegar aðverkum að ég er orðinn uppgefinn klukkan 9 á kvöldin og get ekki spilað innanhúsfótbolta án þess að niðurlægja sjálfan mig með aumingjaskap.
  • Californication eru frábærir þættir! Frábærir, segi ég og skrifa.
  • Á fimmtudaginn er ég að fara til Osló í þrjá dag. Þar verður 6 stiga frost. Mjög hressandi.

Jæja, klukkan er orðin 8, ég hef ekki orku í meira.

Serrano í Smáralind opnar

Síðustu dagar eru búnir að vera magnaðir. Framkvæmdirnar við Serrano í Smáralind voru lærdómsríkar og erfiðar, en að lokum tókst þetta og ég er gríðarlega ánægður með niðurstöðuna.

Upphaflega ætluðum við að opna staðinn 1.nóvember, því var svo breytt til 8.nóvember og að lokum sættumst ég og verktakinn á að opna á föstudaginn, 9.nóvember. Ég tók þá dagsetningu sem heilaga ritningu og auglýsti meðal annars opnunina í Fréttablaðinu. Til að bæta aðeins oná stressið ákváðum við svo að halda uppá 5 ára afmæli Serrano daginn fyrir opnunina inná staðnum í Smáralind.

Á fimmtudaginn mætti ég uppí Smáralind um morguninn og fékk nett sjokk því það var mikið verk óunnið. Um hádegið var ég orðinn frekar stressaður, því ég vissi að við þurftum að henda iðnaðarmönnunum út, tæma staðinn, halda partíið og fá svo iðnaðarmennina aftur inná staðinn til að klára verkið fyrir opnun. Ég tók því ákvörðun og fékk Emil til að halda afmælið heima hjá sér. Það gekk eftir og við áttum þar frábæra stund með vinum, ættingjum og samstarfsaðilum. Á fimmtudagskvöldið kíkti ég svo uppí Smáralind og leist þokkalega á það að ætla að opna daginn eftir.

* * *

Á föstudagsmorgunn var ég mættur eldsnemma ásamt nokkuð mörgum starfsmönnum, sem byrjuðu að undirbúa opnunina. Klukkan 9.30 var byrjað að elda mat fyrir opnunina, en ég sá þó að það var gríðarlega margt óklárað. Til dæmis voru engin borð komin í salinn, rafmagnið í salnum var ófrágengið, listaverkið ekki komið upp og svo framvegis. Við ákváðum á endanum að fresta opnuninni til kl 12, svo til 15, en um eitt leytið áttaði ég mig á því að best væri að kyngja mistökunum og fresta opnuninni fram á laugardag svo við gætum klárað hlutina almennilega.

Það var að ég held skynsamleg ákvörðun og gerði okkur kleift að klára flest málin. Ég fór heim til mín um 8 leytið á föstudagskvödinu og var algjörlega uppgefinn þegar ég lagðist uppí sófa. Klukkan 3 um nóttina fékk ég svo sms skilaboð frá verktakanum, þar sem hann sagði mér að þeir væru hættir og óskaði mér til hamingju með staðinn.

Á laugardagsmorgunn vaknaði ég svo aftur snemma og var mættur ásamt verslunarstjóranum og öðrum starfsmönnum um kl 8 uppí Smáralind. Í raun var allt tilbúið og bara smá þrif eftir, sem tókust léttilega fyrir opnun. Klukkan 11 opnaði ég svo staðinn formlega. Síðan þá hefur gengið mjög vel. Það eru enn nokkur smáatriði eftir (vantar t.d. að tengja hljómtæki), en þetta er að mestu komið.

* * *

Það hefur frá upphafi verið draumur minn að vera með Serrano í okkar eigin húsnæði, en ekki hluta af stærra konsepti (einsog hann er á Stjörnutorgi og inná N1). Núna eru við loksins komin með þann stað. Í ágúst fór ég í það verkefni að leita að hönnuði til að teikna upp nýtt útlit á Serrano og eftir nokkur viðtöl samdi ég við Leu Galgana, sem hefur nokkra reynslu af hönnun á veitingastöðum. Ég mataði hana nokkurn veginn á því hvernig við sæjum Serrano fyrir okkur. Við viljum að Serrano sé skyndibitastaður í þeim skilningi að fólk fær matinn fljótt og að hann er ódýr. En við sjáum Serrano sem hefðbundinn veitingastað í þeim skilningi að umhverfið eigi að vera í toppstandi og að þér eigi að líða einsog þú sért á þokkalega fínum veitingastað þegar þú borðar á Serrano.

Að mínu mati tókst Leu fullkomlega upp í hönnuninni. Staðurinn í Smáralind er (þó ég segi sjálfur frá) gríðarlega flottur. Litirnir, efnisvalið og allt auglýsingaefni (logo, matseðilsskilti) passa að mínu mati frábærlega saman. Afgreiðslan er mjög flott, sem og salurinn. Hægra megin í salnum er svo glæsilegt listaverk, sem að Hallmar á Vatíkaninu hannaði. Lea kom með upphaflegu hugmyndina að því hvernig formin í verkinu ættu að líta út, en við vorum alltaf í erfiðleikum með það hvað ætti að vera á verkinu. Svo komu þeir á Vatíkaninu með hugmynd, sem mér fannst skemmtileg. Í kjölfarið fann ég fullt af reference myndum á netinu, sem mér fannst passa inní þetta – ég vildi til dæmis tengja listaverkið Mexíkó og San Francisco (burrito-arnir sem við seljum eru svokallaðir San Francisco burrito-ar). Stuttu seinna kom svo önnur útgáfa af þessu frá Hallmari, sem ég var gríðarlega sáttur við og við enduðum á að notast við hana.

* * *

Þannig að núna er staðurinn okkar kominn af stað og þessi staður markar þáttaskil í okkar fyrirtæki. Í fyrsta skipti erum við með okkar eigin sal og núna erum við með hönnun á stað, sem við erum fullkomlega sáttir við og getum nýtt okkur á fleiri stöðum í framtíðinni.