Núna ertu hjá mér…

Hvenær var það gert að skyldu að spila “Nínu” með Eyva og Stefáni Hilmars á íslenskum skemmtistöðum?

Ég fór tvisvar á djammið um helgina og bæði kvöldin var lagið spilað, á Sólon og Hverfisbarnum. Dan vinur minn skildi ekki upp né niður þegar hann var að djamma hérna fyrir nokkrum vikum og Nína var spiluð. Einhvern veginn sé ég ekki fyrir mér að fólk inná Circus í Chicago myndi allt í einu hætta að dansa og byrja þess í stað að taka undir með Careless Whisper eða einhverju álíka lagi. Þannig að það er kannski ekki skrítið að hann hafi orðið hissa.

Þetta er allavegana skrítin hefð 🙂

Talandi um tónlist, þá finnst mér nýja Quarashi lagið, Mess It Up, æðislega skemmtilegt. Þeir eru langbestir þegar þeir halda sér frá rokkinu. Og hananú!

What's my age again?

Ég fór að djamma á laugardaginn, sem þykja sennilega ekki stórtíðindi. Beið í röð á Hverfisbarnum í smá tíma og aldrei þessu vant var það bara biðarinnar virði. Inná staðnum hitti ég bara fulltaf skemmtilegu fólki. Ég komst svo seinna að því að Brunaeftirlitið hafði lokað staðnum um klukkan 4, sem skýrði hvers vegna staðurinn tæmdist nærri því nokkru seinna.

Æji, hvað djammsögurnar verða alltaf svipaðar. Ég nenni varla að tala um það. Var sennilega ekki nógu fullur til að gera einhvern skandal. En allavegana, þá hittum við Emil þessar stelpur á leiðinni heim. Ég gat strax giskað á að þær væru utan af landi. Þær voru ekki alveg að skilja hvernig mér tókst að fatta það en ég er á því að þetta sé einstakur hæfileiki hjá mér. Önnur þeirra sagðist þekkja mig eftir að hafa lesið þessa síðu. Það finnst mér nokkuð magnað.

Allavegana, töluðum við Emil við þær og einhverjar aðrar stelpur niðrí bæ. Einhvern veginn kom aldur minn uppí samræðurnar. Það kom á daginn að ein stelpan hélt að ég væri 20 ára og önnur að ég væri 18 ára! Ég veit ekki hvort ég er orðinn nógu gamall til að vera montinn af því að líta út fyrir að vera yngri en ég er.

Sóóóól!

Þetta veður er alveg magnað. Ég er hérna inni til að KÆLA mig. Já, þið lásuð þetta rétt. Er búinn að vera að lesa úti á svölum í sólbaði. Veðrið hérna í Vesturbænum er æði.

Annars þá fór ég seinni partinn í gær útað hlaupa meðfram Ægissíðunni. Þetta minnti svei mér þá á “the Lakefront” í Chicago á góðum degi. Það eina, sem vantaði var að stelpurnar á línuskautum væru í bikiní líkt og í Chicago. Come on, stelpur – þið verðið að standa ykkur!!!

Meðan ég var að hlaupa var ég að hlusta á soundtrackið úr Rocky 4. Gunni vinur minn hafði minnt mig á það soundtrack, með því að spila Training Montage í partíi hjá sér. Ég fór á netið og reddaði mér soundtrackinu (þegar ég var lítill átti ég þetta á plötu). Þessi plata er náttúrulega alger snilld. Manni langar hreinlega að taka 50 armbeygjur eftir að hafa hlustað á plötuna.

Til dæmis er þessi texti þeirra Survivor manna náttúrulega snilld (úr Burnig Heart)

Two worlds collide
Rival nations
It’s a primitive clash
Venting years of frustrations
Bravely we hope
Against all hope
There is so much at stake
Seems our freedom’s up
Against the ropes
Does the crowd understand?
Is it East versus West
Or man against man
Can any nation stand alone

In the burning heart
Just about to burst
There’s a quest for answers
An unquenchable thirst
In the darkest night
Rising like a spire
In the burning heart
The unmistakable fire
In the burning heart

Þegar þú hefur hlustað á þetta lag og Training Montage, þá líður þér einsog þú gætir tekið 150kg í bekkpressu (ekki reyna það samt)!

Dásamlegt

Bara ef að allir dagar á Íslandi væru einsog gærdagurinn, þá væri sko gaman að lifa.

Ég tók vinnuna með mér heim og var því búinn með öll verkefni um 4. Ákvað þá að fara í göngutúr (notaði stuttbuxurnar mínar í fyrsta skipti síðan ég kom heim frá USA!). Labbaði upp Hofsvallagötuna og yfir á Vesturgötu, þar sem ég kíkti í fornbókabúðina. Ég skoðaði mig um þar í smá tíma en keypti svo loks Ástin á tímum Kóleru eftir Garcia Marques (ég gafst uppá ensku þýðingunni) og Hús Andanna eftir Isabellu Allende.

Labbaði svo um bæinn og skellti mér inní Eymundson í Austurstræti. Þar ákvað ég að kaupa mér Lonely Planet bók um land, sem ég er að spá í að heimsækja seinna í sumar. Mér finnst alveg ótrúlega gaman að hanga í bókabúðum og skoða ferðabækur. Ég fæ alltaf í magann við tilhugsunina um ferðalög. Núna er ég að spá í að heimsækja borg og land, sem mig hefur dreymt um síðustu 5 árin.

Í gærkvöldi sat ég svo í góðum félagskap á Austurvelli og sötraði Tuborg. Svona á lífið að vera.

Hárið mitt

Getur einhver sagt mér af hverju ég er alltaf langánægðastur með hárið á mér þegar ég er einn heima á kvöldin og veit fyrir víst að ég á ekki eftir að hitta neinn það sem eftir lifir kvölds?

Einnig finnst mér hárið á mér alltaf geðveikt flott morguninn eftir fyllerí. Þar sem ég hef vaknað einn eftir flest undanfarin fyllerí, þá er enginn til að njóta þess með mér hvað hárið er flott þá. Stundum hefur mig langað til að sleppa sturtunni og bara fara út til að sýna öllum hversu flott það er. En einhvern veginn held ég að reykinga- og bjórfýlan frá deginum áður myndi ekki heilla marga. Hmmm…

Annars þegar ég var í Noregi horfði ég á einhverja norska MTV stöð. Þar sá ég oft myndband með laginu She’s So High, sem mér fannst eiga voðalega mikið við mig þá (og þessa) dagana. Allavegana, ég hélt að ég væri að uppgötva einhverja nýja stjörnu en ég komst síðan að því að lagið er sungið af þessum gaur: Kurt Nilsen. Þessi gaur vann víst norska útgáfu af American Idol. Ja hérna!

Æji, ég gleymdi að ég var búinn að lofa að hætta að segja “Ja hérna”. Þessi Kurt er þó greinilega snillingur, enda frá Bergen og þaðan koma engvir nema snillingar.

Hausverkur

Mikið djöfull er lífið hræðilega leiðinlegt þegar ég er með hausverk.

Einhvern veginn virðast öll verkefni verða hundrað sinnum erfiðari, mér finnst allt vera ómögulegt, allt fer í taugarnar á mér og svo skíttapa Cubs til að koma mér í enn verra skap.

Ég ætlaði fyrir viku að taka mér dálítið tak og reyna að koma mér af stað í að laga fullt af hlutum í íbúðinni minni. Til þess að ég væri extra vel stemmdur ákvað ég að djamma ekkert um síðustu helgi, því þá hélt ég að ég yrði svo hress alla þessa viku. En viti menn, ég er búinn að vera að deyja úr þreytu alla vikuna og svo er toppnum náð með hausverk á fimmtudegi. Þetta ætti kannski að kenna mér í eitt skipti fyrir öll að sleppa aldrei úr djammi.

Æji, ég ætla að fara uppí sófa og vorkenna sjálfum mér hvað það sé erfitt að vera með hausverk.

Mig vantar bara kærustu, sem myndi vorkenna mér líka og gæti jánkað reglulega þegar ég segði henni hvað ég ætti bágt að vera með svona slæman hausverk. Greyið ég!

uppfært: Holy Crap! Þótt að hausverkurinn sé slæmur, þá er hann ábyggilega skárri en þetta

Fríííí!!!

Jei! Ég er kominn í frí. Heila viku! Ég hef ekki verið svona lengi í fríi á Íslandi síðan ég var 12 ára að ég held. Dan vinur minn (mynd 1 2) frá Bandaríkjunum er að koma til landsins í fyrramálið.

Planið er að túristast smá um næsta nágrenni borgarinnar og djamma fullt. Ó, það verður gaman.


Annars held ég að ég sé búinn að ákveða að breyta um starfsvettvang. Ég ætla að verða körfuboltaþjálfari. Það hlýtur að vera léttasta starf í heimi. Allavegana er bjáninn hann Kevin O’Neill, sem þjálfaði skólaliðið mitt í Northwestern (og gerði lítið annað en að tapa og rífa kjaft og fá leikmenn til að skipta yfir í aðra skóla) orðinn aðalþjálfari hjá Toronto Raptors. Og Tim Floyd, sem þjálfaði Chicago Bulls eftir að Jordan hætti og á lélegasta vinningshlutfall allra tíma, er orðinn þjálfari hjá New Orleans. Magnað!


Og þetta er nokkuð magnað: Kveðjuskilaboðin hjá netfyrirtækjum, sem fóru á hausinn. (via Metafilter)

Gamlir vinir

Einhvern veginn er ég haldinn þeirri hugmynd að það sé bara eitt sorglegra en að sitja einn heima á föstudagskvöldi, og það er að blogga um það að sitja einn heima. En ég meina hei!

Dagurinn í dag er samt pínku merkilegur. Þannig er nefnilega að fyrr í kvöld fékk ég bréf frá Melissu, systur minni frá því að ég var skiptinemi í Venezulea fyrir 8 árum. Ég hafði fyrir nokkrum árum tapað öllu sambandi við fósturfjölskylduna mína. Lengi hef ég ætlað að gera eitthvað til að ná aftur sambandi við þau en aldrei gert neitt. Í gær tók ég mig til og sendi bréf til AFS í Venezuela og þeir redduðu mér email addressu hjá Melissu, sem skrifaði mér aftur í dag. Magnað!

Það er ótrúlegt hvað maður hefur gert lítið í að halda sambandi við þetta fólk, sem maður var svo ótrúlega náinn fyrir nokkrum árum. Ég komst meðal annars að því að Sandra systir mín, sem var minn besti vinur þetta ár, er gift og á von á barni.

Ég fékk dálítið nostalgíu kast eftir þetta og fór á afs.org og fann þar email addressur hjá tveimur af bestu vinum mínum frá því í Venezuela, Erik frá Noregi og Grace frá Bandaríkjunum. Ég hef haldið samband við besta vin minn frá þessu ári, Matt frá Bandaríkjunum en tapað sambandinu við alla aðra. Allavegana, ég sendi Grace og Erik email í von um að emailið, sem var skráð á síðunni væri ennþá rétt póstfang. Mikið væri gaman að heyra frá þessu fólki aftur.

Mig langar út. Ég er búinn að vera alltof lengi á Íslandi, alveg síðan í ágúst. Fyrir mig er það alltof langur tími á sama stað. 🙂

Anyhow, ég er að horfa á Yankees-Cubs á netinu, fyrsta skiptið í 50 ár, sem þessi lið mætast í Chicago. Djö maður, ég vildi óska þess að ég væri í Chicago þessa stundina, helst með miða á leikinn á morgun, þegar Kerry Wood og Roger Clemens (sem sumir halda fram að sé Anti-Kristur) mætast. Það jafnast ekkert við það á að eyða deginum á Wrigley Field.

Helgin – Júróvisjón og Ungfrú Ísland

Einhvern veginn þá gengur mér aldrei betur að vinna heldur en á sunnudagskvöldum, daginn eftir djamm. Sunnudagar eftir djamm eru ávallt gríðarlega kaflaskiptir. Ég vakna með hausverk og eyði fyrsta helmingi dagsins í að reyna að losna við þann ófögnuð. Þegar ég hef losnað við hausverkinn og er búinn að fá mér kaffibolla um 5 leytið, þá er ég alltíeinu orðinn ýkt hress og get unnið heil ósköp.

Einsog hálf þjóðin fór ég í Eurovision partí í gær. Partíið var haldið í hverfi, sem ég vissi varla að væri til. Partíið var fínt og ég fór í bæinn eftir það. Þar var hins vegar alltof mikið af fólki

Á föstudaginn fór ég á Ungfrú Ísland, hafði fengið boðsmiða á þá keppni. Þetta var í fyrsta skipti, sem ég fer á fegurðarsamkeppni. Keppnin var bara ágætis skemmtun. Reyndar komst sætasta stelpan ekki einu sinni í hóp 10 efstu, þannig að smekkur minn á kvenfólki er sennilega eitthvað öðruvísi en smekkur dómnefndarinnar. En ég meina hey!

Þessi vika á eftir að vera meiriháttar viðburðarrík. Meira um það seinna.

Fujimori

Þrátt fyrir að ég sé alltaf að gagnrýna Múrinn á þessari síðu þá hef ég alltaf lúmskt gaman af því að fylgjast með þeim félögum. Einna skemmtilegast er að þeim er annt um stjórnmál í löndum, sem fá litla sem enga umfjöllun hér á Íslandi.

Síðast voru þeir að fjalla um Alberto Fujimori, fyrrverandi forseta Perú. Nú hefur Perústjórn gefið út ósk um að hann verði framseldur. Japanir virðast hins vegar ekki ætla að verða við því. Fujimori er afkomandi japanskra innflytjenda í Perú og hann býr nú í Japan.

Fujimori er ansi merkilegur karakter og ég hef löngum haft mikinn áhuga á honum. Allt byrjaði þetta þegar ég var skiptinemi Í Venezuela árin 1995-1996. Þar bjó ég hjá perúskri fjölskyldu. Þau höfðu flutt frá Perú vegna stöðugs ófriðar þar í landi, sem var aðallega tilkominn vegna hryðjuverkasamtakanna Sendero Luminoso. Fjölskyldan mín ákvað að fara til Venezuela til að komast í friðsælla umhverfi. Snillingurinn Hugo Chavez hefur reyndar séð til þess að sá draumur hefur orðið að martröð síðustu ár.

Allavegana, þá var fósturpabbi minn í Venezuela gríðarlegur aðdáandi Fujimori. Hann dýrkaði hann fyrir það afrek að hafa tekist að uppræta samtök hins Skínandi Stígs. Fujimori tókst með því að gera Perú talsvert öruggara land. Síðla árs 1995 kom Fujimori svo í opinbera heimsókn til Venezuela. Þar sem við vinirnir vorum hættir að mæta í skóla á þeim tíma ákváðum ég og Erik frá Noregi að hitta Fujimori og spjalla aðeins við hann. Við redduðum mynd af honum og ætluðum að fá hann til að gefa okkur eiginhandaráritun enda taldi ég, eftir allar lofræðurnar frá fósturpabba, að Fujimori væri mikill öðlingur.

Leitin að Fujimori

Við Erik röltum því uppað forsetahöllinni í Caracas, þar sem við spurðum verði hvort við mættum ekki heilsa uppá Fujimori. Þeir sögðu okkur að við mættum ekki fara inn fyrir hliðið en bentu okkur á að Alberto myndi fara seinna um daginn í perúska sendiráðið. Við fórum þangað en þar var ekkert í gangi, svo við fórum aftur uppað höllinni og spjölluðum við hina vingjarnlegu verði. Meðan einn þeirra var að tala við okkur kom annar yfirmaður og sagði okkur að drífa okkur inní varðarkofann því að Caldera (forseti Venezuela) væri að koma í bílalest að höllinni. Við drifum okkur því inn og héldum áfram að spjalla við verðina.

Einn þeirra sagði okkur svo að við ættum að bíða hinum megin við götuna eftir Fujimori. Við fórum því yfir og þegar við vorum komnir þangað ákvað ég að smella einni mynd af forsetahöllinni. Þá varð alltíeinu allt brjálað og einhver hermaður kom hrópandi að okkur. Hann hrifsaði myndavélina af mér og sagði okkur að koma inn í einhvern skúr. Þar ásökuðu þeir okkur um njósnir og sögðu að við værum handteknir. Þeir leituðu svo í skólatöskunum okkar. Þeir spurðu okkur fulltaf spurningum og skoðuðu vegabréfin okkar. Eftir smá yfirheyrslu kom yfirmaður þeirra inn en hann ákvað að sleppa okkur eftir smá yfirheyrslu. Þeir báðu okkur þó vinsamlega um að koma aldrei aftur nálægt forsetahöllinni.

Við tókum því lest að einhverjum útimarkaði, þar sem Fujimori átti að vera. Við vorum með perúska fánann og vorum voða spenntir. Svo þegar Fujimori keyrði framhjá okkur veifuðum við perúska fánanum einsog óðir menn, og viti menn, Fujimori veifaði vingjarnlega tilbaka. Þá vorum við sko glaðir.

Reyndar komst ég síðar að því að Fujimori er ekki alveg eins góður kall og ég hélt. En þetta var samt skemmtilegur dagur.