Skotland?

Ok, ég fékk þá flugu í höfuðið að skella mér til Skotlands um næstu helgi (þangað hef ég aldrei komið), þar sem ég hef í raun ekkert frí tekið mér í sumar fyrir utan eina helgi í Chicago/DC sem ég bætti aftan á vinnuferð..

Ég sé að Icelandair er með flug til Glasgow.  Nú spyr ég: Ef ég hef 4 daga í Skotlandi, hvað á ég að gera?  Á ég að eyða meiri tíma í Edinborg eða Glasgow?  Er eitthvað í nágrenni þessara borga, sem ég á að skoða?

Lonely Planet bókahillan mín

(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu og til að sjá útskýringar á því af hverju ég keypti viðkomandi bók.)

Ólíkt mörgum bakpokaferðalöngum þá hendi ég aldrei eða sel Lonely Planet bækurnar mínar. Ég geymi þær alltaf og safnið mitt verður því sífellt stærra.

Þetta eru orðnar 27 bækur og þótt 4 séu eiginlega svindl (þar sem ég hef ekki komið til þeirra staða og er ekki með það á dagskránni) þá hafa þær flestar tilfinningalegt gildi fyrir mig. Þær eru ákveðinn hluti af minningunum frá ferðalögunum mínum.

Kjötbollur? Í alvöru talað?

Ég er kominn heim. Þið getið því formlega kysst þetta góða veður BLESS!

* * *

Tveir náungar sem ég þyrfti að eiga orð við. Fyrir það fyrsta: Gaurinn sem ákvað að Flugleiðir myndu servera kjötbollur úr kjötfarsi í Ameríku-fluginu! Í alvöru talað? Kjötfars er að mig minnir samblanda af bylgjupappa og innyflum úr óþekktum dýrategundum. Gat enginn hjá Icelandair fundið aaaðeins ódýrara kjöt? Var allt hvalkjöt uppselt?

Seinni gaurinn er diplómat í Brussel, sem ákvað það – að eftir að maður hefur farið í gegnum vopnaleit í USA þar sem ég þurfti meðal annars að fara úr skónum og standa inní klefa þar sem einhverjum efnum var sprautað á mig í 15 sekúndur – og eftir 5 tíma flug í þröngri flugvél, þá þyrfti maður líka að standa í biðröð eftir því að fara í aðra vopnaleit þegar maður er kominn heim til Íslands.

Svo þegar maður er nýbúinn að setja á sig beltið, þá tekur tollurinn aftur af mér allar töskurnar og leitar í þeim líka.

Velkominn til fokking Íslands.

(Annars var ferðin frábær. Skrifa meira um hana seinna).

Helgin í Chicago

Helgin hérna í Chicago er búin að vera frábær. Ég sit núna inná Melrose diner-num, sem er við hliðiná íbúðinni hans Dan hérna í Lake View hverfinu, og bíð eftir uppáhaldsmorgunmatnu mínum, french toast. Hverfið sem Dan býr í er akkúrat einsog ég vil hafa hverfi. Full af búðum og kaffihúsum og af lífi. Það er alltaf fulltaf fólki útá götu og inná kaffihúsunum hérna í kring. Svona á þetta að vera. Og ekki skemmir þetta yndislega veður sem hefur verið hérna í Chicago síðustu daga.

Á föstudagskvöldið kíktum við aðeins útá lífið. Borðuðum fyrst á mið-austurlenskum veitingastað með Dan, kærustu hans og vinkonu hennar og kíktum svo á einhverja 2-3 bari. Dan var eitthvað hálf slappur þannig að við entumst ekki mjög lengi.

Á laugardaginn ákváðum ég og Dan svo að kíkja uppí Wrigleyville til að kíkja á það hvort við fengjum ekki miða á Cubs leikinn þann daginn. Við áttum vissulega miða á sunnudagsleikinn líka, en ég vildi sjá eins marga leiki og ég gat þannig að ég ákvað að splæsa á miða líka á laugardaginn. Við fengjum því frábæra miða rétt fyrir aftan fyrstu höfn, þar sem við sátum í sólinni og drukkum bjór. Leikurinn fór reyndar ferlega illa, en það breytir ekki öllu.

Um kvöldið fórum við svo á heljarinnar djamm. Byrjuðum heima hjá kærustu Dan í grillpartíi þar sem nokkrir vinir okkar voru samankomnir. Svo um miðnætti fórum við á Crobar næturklúbbinn, sem mér fannst dálítið fyndið þar sem þetta er sami næturklúbburinn og við Hildur fórum nokkrum sinnum saman á þegar við bjuggum hérna í Chicago. Þótt ótrúlegt megi virðast þá eru 5 ár núna síðan ég flutti heim frá Chicago. Stundum er það hreinlega asnalegt hvað tíminn líður hratt.

En allavegana, djammið var frábært og entist ansi lengi og því var þynnkan í gær næstum því óbærileg. Við fórum þó fjögur saman á annan Cubs leik (ég, Dan, kærasta hans og bróðir hennar) á Wrigley Field. Í þetta skiptið sáum við þó glæsilegan sigur. Eftir það fórum við á hverfahátíð þar sem við borðuðum pizzur og horfðum á útitónleika. Gærkvöldinu eyddum við Dan svo heima, þar sem við létum restina af þynnkunni renna útúr kerfinu með því að spila NBA Live.

Í dag er það svo Taste of Chicago, sem er snilldarhátíð í Grant Park þar sem tugir veitingastaða setja upp bása í garðinum og bjóða uppá sína bestu rétti. Á morgun er það svo flug til Washington DC.

Skrifað í Chicago, Illinois klukkan 11.40

Chi-town

Jæja, ég er kominn aftur til Chicago. Að mörgu leyti er þetta ótrúlega líkt því þegar ég var hérna síðast, en það eru 3 ár síðan ég heimsótti þessa frábæru borg. Veðrið hérna er öllu bærilegra en það var í Texas, rétt yfir 20 gráður í stað 33 gráðu hita í Texas.

Ég og Birkir eyddum tæpri viku í Austin. Mestum tímanum eyddum við í að skoða mexíkóska veitingastaði, en við höfðum þó einhvern smá tíma í annað. Heimsóttum þetta safn, röltum um Austin, reyndum að sjá leðurblökur og eitthvað fleira.

Í gær keyrðum við svo upp til Dallas þaðan sem ég flaug í dag til Chicago. Í gærkvöldi fórum við svo á súrasta bar í Bandaríkjunum. Við vorum að borða á steikhúsi og einn þjónninn þar mælti með því að við færum á “Veterans of Foreign Wars” barinn, sem var hinum meginn við götuna. Þar var afskaplega skrautlegt samansafn af fólki.

Við spiluðum shuffleboard við tvo gaura, létum einhverjar hálf sjúskaðar gellur reyna við okkur, drukkum með risavöxnum fyrrverandi hermanni og svo fékk ég að heyra ævisögu fimmtugrar, 170 kílógramma þungrar konu, sem sagði að ég liti út einsog Matthew McConaghey á milli þess sem hún klappaði mér í framann og sagði mér átakanlega ævisögu sína.

* * *

Og svo kom ég hingað til Chicago í morgun. Tók lestina niðrí bæ og labbaði svo heim til Dan vinar míns. Horfði á restina af Cubs leik, sem mínir menn unnu (auðvitað!) – og er svo búinn að rölta um hverfið, bíðandi eftir því að Dan komi aftur heim úr vinnunni. Í kvöld ætlum við að kíkja út og á morgun er það Cubs leikur á Wrigley Field.

Bud Light-inn bíður kaldur eftir mér inní ísskáp. It’s good to be back!

Skrifað í Chicago, Illinois klukkan 17.53

Helgi í Stokkhólmi

Jæja jæja, ég eyddi helginni í Stokkhólmi með Emil vini mínum. Ég hef svo sem áður lýst aðdáun minni á Stokkhólmi. Það er eitthvað við þessa borg, sem hefur heillað mig uppúr skónum. Ég fíla Kaupmannahöfn, en það er eitthvað við Stokkhólm sem er svo miklu meira spennandi og skemmtilegt.

Helgin var blanda af skemmtun og skipulögðum fundum og slíku. Veðrið var frábært mestallan tímann og því frábær tími til að labba um borgina. Við vorum ekkert voðalega mikið að túristast um borgina, heldur eyddum við mestum tímanum á götunum í kringum Sergels Torg og Kunstradsgarden, löbbuðum um, borðuðum góðan mat og nutum veðursins.—

Djammið í Stokkhólmi var ljómandi skemmtilegt. Á föstudaginn fórum við saman útað borða á Hotellet, sem er verulega flottur veitinga- og skemmtistaður. Í raun alveg fáránlega flottur. Ólíver lítur út einsog Skipperinn í samanburði við Hotellet einsog ég sagði víst í einhverju fylleríis sms-i. Við borðuðum þar alveg fáránlega góða máltíð, ég drakk Bud Light og eftir matinn kíktum við niður á klúbbhluta staðarins. Af Hotellet héldum við áfram túr um trendí staði Stokkhólms (sem að vinalegur verslunarstjóri gaf okkur leiðbeiningar um) og héldum á East. Sá staður var ekki eins skemmtilegur og stelpurnar ekki jafn sætar á Hotellet.

Við ákváðum því að færa okkur yfir á SpyBar. Fyrir þrem árum var sá staður heitur og ég eyddi þar kvöldi í BlackJack, sem var nokkuð skemmtilegt. Eitthvað hefur SpyBar þó misst niður sjarmann. Fyrir það fyrsta lentum við í leiðinlegasta dyraverði allra tíma. Hann neitaði mér um inngöngu þar sem að ég “væri of fullur”. Ég hef aðeins einu sinni heyrt þessa afsökun og var það á næturklúbbi í New Orleans. Þá stóð ég fyllilega undir nafnbótinni, en það átti alls ekki við um föstudagskvöldið. Emil, sem var víst ekki “of fullur” tókst hins vegar af sinnum alkunna sjarma að fá dyravörðinn til að hleypa okkur inn, með þeim varnarorðum að ég ætti að taka því rólega inná staðnum.

Allavegana, SpyBar var hálf tómur og því lítið annað að gera en að spila BlackJack, sem við og gerðum. Emil tókst að tapa 200 sænskum á sirka 5 mínútum, en það tók mig um klukkutíma, þannig að ég skemmti mér vel. Tími þessa staðar er þó liðinn.

* * *

Á laugardagskvöldið fórum við svo útað borða á Braserie Godot, sem var fínn veitingastaður. Þaðan löbbuðum við niðrá Stureplan og vegna þess að Emil þurfti að pissa römbuðum við inná næsta næturklúbb. Sá reyndist vera StureCompagniert. Við vorum mættir þar nokkuð snemma, um 11 að mig minnir og flugum því inn (röðin var orðin óheyrilega löng þegar við fórum) án þess að rekast á dyraverði, sem eiga að sögn að vera verri en á SpyBar. Allavegana, þegar við vorum komnir inn var frekar lítið af fólki, svo við fengum okkur bara sæti og byrjuðum að styrkja eigendur klúbbsins með screwdriver og cuba libre kaupum.

Það er skemmst frá því að segja að kvenfólkið á StureCompagniet var æðislegt. Þvílíkt og annað eins! Þetta var blanda af skandinavískum ljóskum (sem ég er jú nokkuð veikur fyrir) og svarthærðum stelpum, sem virtust vera frá Mið-Austurlöndum! Semsagt, í mínum heimi nokkurn veginn hin fullkomna blanda af kvenfólki.

Restin af ferðinni er kannski ekki mikið efni í merkilega ferðasögu.

* * *

MySpace er fyndinn miðill. Ég fæ nokkuð oft bréf frá stelpum, sem ég þekki ekki og finnst ekkert nema virkilega gott um það að segja. Ég prófaði hins vegar um helgina að senda stelpu, sem ég þekki ekki neitt, bréf. Ekkert merkilegt, bara stutt bréf. Núna einhverjum dögum síðar hefur hún ekki svarað. Og fyrir vikið líður mér einsog einstaklega asnalega – finnst það allt í einu geðveikt skrýtið og kjánalegt að hafa sent einhverri ókunnugri stelpu bréf.

Þannig að það, sem mér finnst fullkomlega eðlilegt að aðrir geri, finnst mér vera alveg ferlega skrýtið að ég geri. Ég er skrýtinn.

* * *

Já, og mér líst vel á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég væri nú ekki mikill hægri krati ef ég væri ekki sáttur. Skrifa kannski meira um þetta þegar að málefnasamningurinn verður birtur.

Liverpool

Spurt er: Er Easy Internet versta netkaffihusakedja i heimi?
Svar: Ja

Eg er i Liverpool og skrifa thetta a olysanlega lelega tolvu. Atta mig ekki a thvi hvernig internetkaffihusin i Kambodiu gatu verid betri en thau a Englandi.

Thad var vist einhver fotboltaleikur a laugardaginn, en einhvern veginn er hann horfinn ur minninu. A morgun er thad Barcelona-Liverpool a Anfield og eg er ordinn verulega spenntur.

Ferð

Kristján Atli er [búinn að skrifa á Liverpool blogginu](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2007/02/14/21.23.32/) um ferðina sem ég er að fara í núna eftir tvær vikur. Ég er semsagt að fara með hinum Liverpool bloggurunum (mínus Aggi) til Liverpool þar sem ég mun sjá uppáhaldsliðið mitt keppa við hið andstyggilega lið Manchester United og svo þrem dögum seinna við hitt uppáhaldsliðið mitt, Barcelona.

Bara svo að það sé alveg á hreinu, þá mun ég halda með Liverpool í báðum leikjunum. Ég stefni svo á að fá mér einn, jafnvel tvo, þrjá eða fleiri bjóra á pöbbum og skemmtistöðum Liverpool borgar. Ég hef ekki farið til útlanda síðan ég kom heim frá Asíu, sem er náttúrulega alveg ferlegt. 🙂

My Humps

Fólkinu, sem stóð fyrir flugeldasýningu í Vesturbænum til klukkan 5 í nótt verður ekki boðið í afmælið mitt.


Þetta stórkostlega myndband hér að neðan tók ég í rútuferð til Phnom Penh í Kambódíu. Í þessari ferð var bílstjórinn svo vingjarnlegur að spila fyrir okkur non-stop karókí myndband með nokkrum kambódískum slögurum.

Svo að allir gætu komist í rétta stemningu var svo hljóðið stillt í hámark.

Mér fannst ég kannst við eitt lagið og ákvað að taka upp stutt myndskeið. Rútan er á hræðilegum veg, þannig að myndatakan er ekki mjög góð. En hljóðið skiptir öllu máli.

Þetta lag er náttúrulega algjör klassík!!!