Change of plans

beach-th.jpgÞegar ég byrjaði að skipuleggja fríið mitt fyrir nokkrum mánuðum var ég í góðu sambandi með stelpu, sem ég trúði að myndi endast. Þrátt fyrir að vera í sambandi var ég samt ákveðinn í að ferðast einn því að kærastan mín gat ekki komist með vegna skóla.

Þegar ég byrjaði að skipuleggja þetta allt, þá fannst mér það hljóma rosalega vel að fara til Indlands og Nepal. Fara í langar gönguferðir uppað grunnbúðum Everest, fara til múslimalanda einsog Bangladesh (enginn bjór) og fleira slíkt.

En núna þegar ég er ekki lengur í sambandi, þá breytast hlutirnir. Ég fann eftir að sambandið endaði að ég var ekkert sérstaklega spenntur fyrir ferðinni. Og þess vegna ákvað ég eitt kvöldið að breyta algerlega um stefnu. Fékk smá ráðleggingar frá stelpu sem hefur ferðast um svæðin og ákvað að breyta. Því er ég núna að fara í tveggja mánaða ferðalag um…

Suð-Austur Asíu

Þetta er auðvitað AÐAL bakpokaferðalags-staðurinn, fullur af Evrópubúum, Könum og Áströlum með Lonely Planet bækur á lofti. Og af einhverjum ástæðum, þá þykir mér það alveg æðislega heillandi þessa stundina.

Ég hugsaði til síðasta ferðalags og hvenær mér leið best þá. Ég held að það hafi verið á Roatan í Hondúras. Þar kynntist ég fulltaf skemmtilegu fólki (og kærustu reyndar líka), slappaði af í strandbæ, lærði að kafa og djammaði svo á ströndinni á kvöldin. Það var æði og ég held að það séu varla til betri staðir en eyjarnar í kringum Tæland til að upplifa eitthvað svipað.

Þannig að planið er eitthvað á þessa leið: Fljúga til Bangkok og skoða mig um þar. Fara svo til Kambódíu (Pnom Penh, strandbæir og Angkor Wat) og fikra mig svo frá Suður-Víetnam alla leið upp til Hanoi, þaðan sem ég myndi taka flug til Bangkok. Þessi partur á að taka um mánuð.

Svo er planið að eyða seinni mánuðinum á Tælandi. Skoða landið, heimsækja fullt af eyjum, kafa, djamma og skoða lífið. Ef ég hef einhvern tíma gæti ég svo kannski kíkt líka yfir til Malasíu. En ég ætla ekki að plana þetta of mikið, heldur hafa bara mjög rúman tíma. Held að tveir mánuðir fyrir 3 lönd séu ágætis tími og að ég ætti að geta séð fulltaf hlutum.

Ég er orðinn alveg hrikalega spenntur!!!

Ferðapælingar – Indlandsferð

Fyrir tveim árum skrifaði ég lista yfir 15 staði, sem mig langaði verulega mikið til að heimsækja. Einsog ferðapælingarnar mínar eru akkúrat núna þá gæti ég hugsanlega heimsótt þrjá þessara staða núna í haust.

Ferðapælingarnar eru aðeins að taka einhverja skýrari mynd í hausnum á mér eftir að hafa lesið í gegnum ferðabækur og heimsótt ýmsar vefsíður. Ég er búinn að fá vegabréfsáritun til Indlands og vegabréfið mitt er á leið til London þar sem ég fæ vonandi vegabréfsáritun til Nepal.


Ég hugsa að ég hafi um tvo mánuði til að ferðast og það ætti að geta orðið ágætis ferðalag. Ég er að gæla við að sjá eftirfarandi lönd: Indland, Bangladesh, Nepal og Kína. Þarna eru auðvitað tvö fjölmennustu lönd veraldar, svo ég sé auðvitað ekki nema brot af þeim löndum.

Planið er semsagt núna að fljúga til Delhi. Ýmislegt veltur á því hversu miklum tíma ég ætla að eyða í Nepal, en ef ég sleppi lengri gönguferðum, þá ætla ég að reyna að eitthvað af vestur Indlandi, þar á meðal Amritsar og þar í kring. Ef ég labba mikið í Nepal þá ætla ég hins vegar að sleppa þessum hluta.

Allavegana, frá Delhi getur maður auðvitað séð Taj Mahal. Síðan myndi ég halda í austur og fara til Varanasi og þaðan upp til Nepal. Í Nepal myndi ég strax fara upp til Khatmandu dalsins og skoða umhverfið þar. Spurningin er svo hvort ég leggi í lengri gönguferð. Í Nepal eru tvær þriggja vikna göngur, sem að heilla mig. Annars vegar er það gangan uppað grunnbúðum Mt. Everest og hins vegar er það ganga um Annapurna fjöllin. Ég þarf eiginlega að gera upp við mig hvort ég nenni í svona langar göngur.

Allavegana, frá Nepal ætla ég svo að fara í hópferð upp til Tíbet. Ég komst að því að kínverska sendiráðið hérna á Íslandi gefur ekki út vegabréfsáritanir til fólks, sem er að ferðast til Tíbet þannig að ég þarf að skoða þau mál í Khatmandu. Í Tíbet er auðvitað draumurinn að skoða Potala höllina í Lhasa, sem mig hefur lengi dreymt um að heimsækja.


Ferðin til Tíbet er hringferð, sem endar í Khatmandu. Þaðan ætla ég að skoða Royal Chitwan þjóðgarðinn í Nepal þar sem ku vera ansi vinsælt að ferðast um á fílum.

Svo myndi ég væntanlega fara aftur inní Indland. Er ekki alveg búinn að gera upp við mig hversu mikið ég geri þar, en ég er allavegana að hugsa um að enda ferðina í Bangladesh. Þar ætla ég að fara til höfuðborgarinnar Dhaka og þaðan niður einhverja ánna niður til Sundarbarns. Þaðan eflaust upp til Dhaka og svo aftur til Delhi þar sem ég myndi fljúga aftur til London.

Ferðapælingar

Þar, sem ég hef ekkert til að skrifa um þá ætla ég aðeins að fjalla um ferðaplönin mín.

Ég hef verið að hugsa þessa 2 mánaða ferð, sem ég ætla að fara í ágúst. Ég er ekki búinn að ákveða neitt og ég hef skipt um skoðun sirka 100 sinnum núna í veikindunum. Fyrsta hugmyndin var að fara til Suðaustur-Asíu, en af einhverjum ástæðum hefur spenna mín fyrir þeirri hugmynd minnkað.

Hugmyndin núna er að fara til Suður-Asíu, með fókus á Indland. Ég er að láta mér detta í hug að fljúga til Delhí eða Mumbay ([þetta eru svo sannarlega ekki skemmtilegar fréttir þaðan](http://news.bbc.co.uk/2/hi/south_asia/5169332.stm)) og ferðast um norðanvert Indland. Fara þaðan inní Nepal, upp til Kathmandu. Frá Kathmandu taka pakkaferð upp til Lhasa í Nepal og að grunnbúðum Mt. Everest (það er víst betra útsýnid Tíbet megin) og svo tilbaka til Nepal.

Frá Nepal fara svo aftur inní Indland (hugsanlega til Bútan ef það er mögulegt) og yfir til Bangladess. Þaðan svo til Calcutta og aftur heim.

Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort þetta sé sniðugt plan. Veit t.a.m. alltof lítið um Indland til að geta myndað mér skoðanir um það land og hvað ég á að sjá þar. En miðað við að taka bara Norður-Indland, þá sýnist mér einsog tíminn ætti ekki að vera stórt vandamál. Ætti að geta náð nokkrum stórkostlegum hlutum einsog Lhasa, Khatmandu dalnum, Mt. Everest, Taj Mahal og fleiri stöðum.

Parísarferð

París er óendanlega æðisleg. Þessi ferð var svo yndislega yndisleg að ég held að ferðasagan yrði alltof væmin til þess að birta hérna.

Má ég bara segja það að mér fannst æði að…

* …Vera í leigubíl á leiðinni heim af djamminu og fara bæði framhjá glerpíramídanum við Louvre og Notre Dame kirkjunni. Það fannst mér verulega flott.
* …sjá Eiffel turninn að kvöldi til
* …sjá hversu Mona Lisa er lítil
* …borða crepes
* …Liggja í sólinni með kærustunni í grasinu við Trocadero með útsýni yfir Eiffel turninn.
* …drekka rauðvín á hverjum einasta degi
* …hlusta á messu í Notre Dame, sem var áhrifameiri en allar messur sem ég hef verið viðstaddur. Jafnvel þótt ég skildi ekki orð.
* …labba í rigningunni yfir brýrnar yfir Signu
* …komast að því að Frakkar eru engir dónar
* …reyna að tala frönsku.
* …fá það á tilfinninguna að maður gæti ekki ímyndað sér stað, stund eða félagsskap sem myndi vera betri en það sem maður upplifði akkúrat á þeirri stundu

Ég er að mínu mati miklu skemmtilegri penni þegar ég er fúll útí eitthvað, þannig að ég læt frekari skrif bíða.

Set þó vonandi inn einhverjar myndir úr ferðinni á næstu dögum.

Ljubljana

Ég eyddi helginni í Slóveníu í árshátíðarferð með vinnunni. Það var æði!

Þetta átti að heita borgarferð til Ljubljana, en ég náði að gera svo miklu meira. Þar sem ég hef ferðast svo mikið að undanförnu og þekki orðið hverja einustu flík í H&M, þá fann ég enga þörf hjá mér að versla. Gat því eytt tímanum í umtalsvert skemmtilegri hluti.

Ef þú vilt lesa ferðasöguna og skoða myndir af MÉR (þetta er jú bloggið MITT), smelltu þá á “Lesa áfram”
Continue reading Ljubljana

Brussel

Kominn heim eftir 10 daga ferðalag.

Hvað gerir maður á föstudagskvöldi þegar að kærastan er á djamminu? Jú, situr heima fyrir framan tölvuna, vinnur í bókhaldi og horfir á Bikinímódel Íslands í sjónvarpinu. Gríðarlega hressandi. Sá þáttur er örugglega efni í aðra færslu, enda ég gríðarlega mikill áhugamaður um vandræðalegt sjónvarpsefni.

Var semsagt í 10 daga í Benelux löndunum. Hef áður skrifað um [ferðina til Utrecht](https://www.eoe.is/gamalt/2006/03/30/19.33.15/). Í Amsterdam gerði ég svo sem ekki margt merkilegt. Fór jú á Rijksmuseum, sem mér fannst fínt. Helmingurinn af safninu er í endurgerð, þannig að aðeins helstu meistaraverkin voru til sýnis. Sem hentaði mér vel, þar sem ég nennti ekki löngu safnabrölti og fínt að geta séð helstu Rembrandt verkin á met-tíma.

Fór svo til Brussel, þar sem ég var í þriggja daga ferð til höfuðstöðva Nato. Þarna var 10 manna hópur frá Íslandi samankomin. Við sóttum ráðstefnur á vegum Nató, ég borðaði mikið af góðum mat og drakk óhóflega af léttvíni og bjór. Frábær ferð, en ferðasagan væri sennilega of full af einkahúmor til þess að verða áhugaverð.

Náði að sjá talsvert af Brussel, sérstaklega í mikilli þynnkuferð sem við Jensi fórum í á sunnudaginn. Löbbuðum um Grand Place, sáum einn [furðulegasta túristastað](http://images.google.is/images?hs=FmK&hl=is&client=firefox-a&rls=org.mozilla:en-US:official&q=Manequin%20Pis%20&btnG=Leita&lr=&percentage_served=100&sa=N&tab=wi) í heimi, löbbuðum um allar Evrópbyggingarnar og létum okkur dreyma um ESB aðild.

Mjög gaman.

* * *

Eru ekki annars allir byrjaðir að [lesa Draumalandið](https://www.eoe.is/gamalt/2006/03/31/18.23.21/)? 🙂

Sælgæti, Amsterdam, Blur og Draumalandið

Búinn að vera hérna í Hollandi í þrjá daga.

Búinn að sitja ráðstefnu um sælgæti í tvo daga, sem hefur á köflum verið áhugaverð og á köflum leiðinleg. Fór í gærkvöldi uppí dómirkjuturninn í Utrecht og eftir það á veitingastað, þar sem að við útbjuggum sjálf matinn. Mjög skemmtilegt. Fékk mér aðeins of mikið af léttvíni og var því ansi nálægt því að sofna í allan dag.

Er kominn inná hótel í Amsterdam, rétt sunnan við aðal miðbæinn. Sit niðrí lobbí, þar sem það er ekkert netsamband á herberginu. Ætla að klára að svara vinnutölvupósti og kíkja svo eitthvað út. Ég elska Amsterdam.

* * *

Það er skrýtið hvernig hálf kjánaleg þjóðerniskennd getur stundum gripað mann í útlöndum. Heima gæti mér ekki verið meira sama um það hver á hvaða fyrirtæki í útlöndum. En í samtali í gær voru tveir Norðmenn að segja að danska fyrirtækið Sterling væri byrjað að fljúga frá Osló. Af einhverju óskiljanlegum ástæðum fannst mér tilefni til þess að leiðrétta þá og segja: **íslenska fyrirtækið Sterling, – they were bought by Icelandic investors, you know!**

* * *

Ég á einhverjar 20 blaðsíður eftir af Draumalandinu eftir Andra Snæ Magnason. Ég er viss um að á næstu vikum ég eigi eftir að reyna að pranga þessari bók inná *alla*, sem ég þekki. Þannig að ef þið viljið spara ykkur ónæðið frá mér, drífið ykkur útí bókabúð strax og kaupið bókina! Hún er **skyldulesning** fyrir alla Íslendinga. Kallar fram bæði mikla bjartsýni og algjört vonleysi. Frábær bók, sérstaklega fyrir þá, sem finnst sniðugt að byggja álver og virkjanir fyrir öll þéttbýlissvæði á landinu.

* * *

Ég hætti að fíla Blur fyrir einhverjum árum og hlustaði aldrei á Think Tank. En platan er inná iPod-inum mínum. Á einhverju shuffle fylleríi heyrði ég lagið Sweet Song í fyrsta skipti. Það lag er algjörlega frábært. Mæli með því!

* * *

Ætlunin er að eyða morgundeginum í Amsterdam. Veit ekki hvort ég hef orku til þess að standa í safnaleiðangri, eða hvort ég sest bara inná kaffihús og læt daginn líða þar. Þarf líka að vinna eitthvað, svo ég sé til.

Ferð til Barca og Liverpool

Ég fór í stutta ferð til Barcelona og Liverpool í síðustu viku. Upphaflega tilefnið var boð Chupa Chups, sem er fyrirtæki sem ég sé um að markaðssetja vörur fyrir hér á Íslandi. Árið 2005 var metár í sölu á Chupa og Smint á Íslandi og í tilefni þess var mér ásamt tveim öðrum frá fyrirtækinu mínu boðið í ferð til Barcelona.

Við eyddum þriðjudeginum í Barcelona á fundum og í ferðum um verksmiðjur í nágrenni borgarinnar. Aðalmálið var þó leikur Barcelona og Chelsea á þriðjudagskvöldinu.

Hótelið okkar var um hálftíma labb frá Nou Camp og lögðum við því af stað tveim tímum fyrir leik og löbbuðum að vellinum, stoppandi í bjór á leiðinni. Um klukkutíma fyrir leik var ég svo kominn að vellinum. Ég hef farið 3-4 sinnum á Nou Camp, en þá alltaf á leiki í spænsku deildinni. Ég var verulega spenntur fyrir Chelsea leiknum, þar sem það var greinilegt að fólk í Barcelona er verulega illa við Jose Mourinho og Chelsea liðið. Leigubílstjórinn, sem keyrði okkur af flugvellinum, kallaði hann t.d. hálfvita og flestir í borginni virtust sammála því áliti.

Um hálftíma fyrir leik var ég kominn í sætið mitt og horfði á upphitunina. Mourinho kom aðeins inná völlinn og var púað duglega á hann. Stuttu fyrir leik settu svo einhverjir snillingar upp borða þar sem á stóð: **Mourinho = Túlkur**. Mjög fyndið.

* * *

Leikurinn var fínn. Barcelona liðið virtist vera frekar rólegt. Chelsea sóttu aldrei almennilega á þá, og því hafði maður á tilfinningunni að leikmenn Barcelona væru aldrei að reyna neitt sérstaklega á sig. Þeir sýndu þó á tíðum frábær tilþrif og þá sérstaklega Ronaldinho, sem er einfaldlega besti leikmaður, sem ég hef séð spila fótbolta.

Stemningin á leiknum var góð. Dálítið öðruvísi en maður er vanur frá Englandi. Stuðningsmenn Barca syngja aðeins eitt lag ítrekað. Það lag er hins vegar á katalónsku, þannig að ég skildi ekki orð en gat alltaf hrópað “Barca, Barca, Baaaaarca!” í enda þess. Þegar að 98.000 mannns taka sig til og hrópa *Barca* saman, þá er það ótrúlegt því Nou Camp er frábær völlur.

Ronaldinho skoraði svo auðvitað frábært mark og stuttu seinna birtu nokkrir aðdáendur eftirfarandi borða: **Mourinho, túlkaðu þetta: “Adios Europa”!”**

Chelsea fékk svo auðvitað ódýra vítaspyrnu í lokin, en það breytti engu nema að það gaf Mourinho einhverjar gerviástæður til að monta sig. En eftir allt saman, frábær leikur og yndislegt að sjá Barca taka Chelsea í kennslustund.

* * *

Á miðvikudeginum fók ég svo flug beint til Liverpool. Úr 15 stiga hita og sól yfir í 5 stiga hita og típíska enska rigningu. Ég var eitthvað þreyttur og fór því bara beint inná [skrýtnasta hótel í heimi](http://www.britanniahotels.com/hotel_home.asp?Page=45). Hótelið var svo magnað að í herberginu mínu (sem var btw ekki ódýrt) var engin sturta, heldur aðeins baðkar. Verulega frumlegt.

Þegar að nær dró leik kom ég mér að Anfield og fór í biðröð til að komast inná *The Park* barinn. Það gekk eitthvað erfiðlega, en að lokum komst ég inn. Stemingin þar inni var auðvitað frábær. Staðurinn stappaður og allir syngjandi. Ég var þar inni í einhvern tíma, en fattaði svo að ég hafði gleymt gleraugunum uppá hóteli, svo ég þurfti að fara tilbaka og ná í þau.

Á Anfield var ég með sæti í Lower Centenary, við markið sem Liverpool sótti á í fyrri hálfleik. Það vita auðvitað allir hvernig leikurinn fór. Liverpool klúðraði sirka grilljón færum og eftir smá tíma var maður orðinn vonlítill á því að Liverpool myndi skora.

Stemningin var þó ótrúlega mögnuð. Stuðningsmenn Liverpool sungu allan tímann og studdu við sitt lið, þrátt fyrir að liðið væri að tapa. Þegar að Benfica skoraði annað markið og Liverpool á leið útúr keppninni hrópuðu stuðningsmennirnir nafn Rafa Benitez og sungu svo *You’ll Never Walk Alone*. Einsog ensku blöðin bentu á daginn eftir, þá er hvergi hægt að finna slíka aðdáendur, sem að styðja liðið og þjálfarann jafn ákaft á erfiðum stundum. Stuðningsmenn Liverpool *eru* bestu stuðningsmenn í heimi. Ég var sannfærður um það eftir Istanbúl og þessi leikur styrkti mig í þeirri trú.

* * *

En það var fúlt að sjá Liverpool tapa og detta útúr Evrópukeppninni. En maður getur ekki bókað eintóma gleði í svona fótboltaferðum og því verður maður víst að sætta sig við vonbrigðin. En allavegana, núna krefst ég þess að Barcelona *rústi* Benfica í næstu umferð Meistaradeildarinnar.

Mið-Ameríkuferð: Samantekt

Jæja, ég var að bæta inn [myndunum frá Yucatan-Mexíkó partinum](https://www.eoe.is/myndir/cayucatan05/) af Mið-Ameríkuferðinni minni. Þar með er öll ferðasagan og allar myndirnar komnar inná netið. Til að halda utan um þetta, þá eru hérna vísanir á alla ferðasöguna og allar myndirnar.

**Ferðasaga**
[Mið-Ameríkuferð 1: Ódeyjandi ást mín á Tacos al Pastor](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/04/18.32.38/)
[Mið-Ameríkuferð 2: Mexíkó og El Salvador](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/05/23.32.43/)
[Mið-Ameríkuferð 3: Skæruliðar, eldfjöll og rútuferð frá helvíti](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/09/1.34.53/)
[Mið-Ameríkuferð 4: Paradís](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/11/18.24.40/)
[Mið-Ameríkuferð 5: Bananalýðveldið](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/15/19.41.57/)
[Mið-Ameríkuferð 6: Garífuna](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/17/23.10.29/)
[Mið-Ameríkuferð 7: Ég og Brad Pitt](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/19/17.40.31/)
[Mið-Ameríkuferð 8: Tikal](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/24/18.56.06/)
[Mið-Ameríkuferð 9: Caye Caulker (uppfært)](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/26/17.05.12/)
[Mið-Ameríkuferð 10: Cancun](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/29/17.48.55/)
[Mið-Ameríkuferð 11: Bandaríkin](https://www.eoe.is/gamalt/2005/10/03/2.50.36/)

**Myndir**
[Mexíkó](https://www.eoe.is/myndir/camexiko05/)
[El-Salvador](https://www.eoe.is/myndir/caelsalvador05/)
[Hondúras](https://www.eoe.is/myndir/honduras/)
[Gvatemala](https://www.eoe.is/myndir/cagvatemala05/)
[Belize](https://www.eoe.is/myndir/cabelize05/)
[Yucatan](https://www.eoe.is/myndir/cayucatan05/)

Heimsótt lönd á árinu

world2005-des.gif

Þetta ár hefur verið ágætt að sumu leyti en slæmt að öðru leyti fyrir mig persónulega. Eitt það ánægjulegasta er að ég hef getað ferðast talsvert á árinu. Til að halda utanum þetta í anda [Flygenrings](http://www.semsagt.net/s/2005/12/26/14.08.38.html) eru hérna þau lönd, sem ég heimsótti á árinu:

Pólland x2 (Varsjá), Þýskaland x2 (Köln), Tékkland (Prag), Holland x2 (Amsterdam, Breda), Svíðþjóð (Stokkhólmur og Gautaborg), Tyrkland (Istanbúl), England x2 (London, Liverpool, York Kettering), Mexíkó, El Salvador, Hondúras, Gvatemala, Belize, Bandaríkin.

Highlight: Istanbúlferðin og Hondúras.

Af þessum löndum var ég að heimsækja Pólland, Tékkland, Svíþjóð, Tyrkland, El Salvador, Hondúras, Gvatemala og Belize í fyrsta skiptið á ævinni. Því lítur landalistinn minn svona út í dag:

**Norður-Ameríka**: Kanada, Mexíkó, Bandaríkin
**Mið-Ameríka & Karabíska Hafið:** Belize, Kúba, El Salvador, Gvatemala, Hondúras, Bahamas
**Suður-Ameríka**: Argentína, Bólivía, Brasilía, Chile, Kólumbía, Ekvador, Paragvæ, Perú, Urugvæ, Venezuela
**Evrópa**: Austurríki, Belgía, Tékkland, Danmörk, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Lúxembúrg, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rússland, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Bretland
**Afríka**: Ekkert
**Mið-Austurlönd**: Tyrkland
**Asía**: Ekkert

Samtals 39 lönd.