San Francisco-ferð

Ferðin til San Francisco var frábær. Ég er núna á síðustu 13 mánuðum búinn að fylgjast með tveim bestu vinum mínum frá háskóla-árunum giftast stelpum sem voru með okkur í skóla.

Í fyrra fylgdust við Margrét með brúðkaupi Ryan, fyrrum herbergisfélaga míns, og Kate – sem bjó með okkur á sama dorm-i fyrsta árið í skólanum. Það brúðkaup var frábært. Athöfnin fór fram undir berum himni í litlum bæ rétt hjá Boston. Athöfnin var einföld, einlæg og skemmtileg. Hún var ekki á neinum trúarlegum nótum – þannig að ekkert var lesið uppúr Biblíunni, heldur frekar fókuserað á að tala um brúðhjónin, fjölskyldur þeirra og slíkt. Ættingjar komu m.a.s. upp í athöfninni og héldu stuttar ræður. Lögin sem voru flutt í athöfninni voru svo skemmtileg dægurlög, sem að allir gátu sungið viðlagið við. Veislan var svo ótrúlega persónuleg og skemmtileg með frábærum ræðum (þar á meðal héldu brúðhjónin langa ræðu sem var stórkostleg) og dansi.

* * *

Dan var besti vinur minn í háskóla. Hann bjó aðeins neðar í ganginum í dorm-inu okkar. Á ganginum okkar voru aðallega strákar sem höfðu búið í dorm-inu í 2-3 ár. Við fjórir (herbergisfélagi Dan þar með talinn) vorum þeir einu á fyrsta ári. Við Dan urðum fljótlega mjög góðir vinir. Hann bjó svo annað árið með Ryan (á meðan að ég flutti með fyrrverandi kærustu minni í íbúð frá campus) og svo leigði hann sér íbúð síðustu tvö árin, þar sem að ég var tíður gestur – og bjó í raun með þeim síðustu tvo mánuðina mína í Bandaríkjunum.

Þetta voru vissulega frábærir tímar og þá sérstaklega síðasta sumarið þar sem að ég var ekki í vinnu, heldur naut bara lífsins með nokkrum vinum mínum.

* * *

Við Margrét komum á miðvikudaginn til San Francisco eftir gríðarlega langt ferðalag frá Stokkhólmi. 9 tímar til Philadelphia, 3 tímar þar og svo 5 tímar til San Francisco. Strax daginn eftir að við komum var svo haldið steggjapartí fyrir Dan. Ég var sóttur á hótelið okkar klukkan 7 og við keyrðum svo 5 strákar í norð-austur framhjá Sacramento og að rafting stað, þar sem við fórum á rafting niður American River. Ég hef áður farið með góðum vinum í rafting á Austari Jökulsá, en þessi rafting ferð var allt öðruvísi. Fyrir það fyrsta var veðrið æðislegt, um 25 stiga hiti og við gátum því verið bara í stuttbuxum og bol. Auk þess var þessi á mun rólegri og því var þetta frekar afslappandi ferð, við dýfðum okkur í ána ekki vegna þess að bátnum hvolfdi, heldur eingöngu vegna þess að okkur var svo heitt.

Um kvöldið fórum við svo útað borða á mjög vafasaman þýskan veitingastað, sem heitir Schnitzel Haus, þar sem að bjórinn var drukkinn í allt að tveggja lítra stórum glösum (einsog stígvél í laginu) og á klósettinu voru ælubitar á setunni. Þaðan héldum við svo á klúbbarölt, sem best er að segja ekki mikið meira frá. Ég afrekaði þó í fyrsta sinn á ævinni að ferðast um í limósínu. Það var ágætis tilfinning að keyra um San Francisco á slíku farartæki.

* * *

Restina af tímanum í San Francisco nutum við svo lífsins. Tommi vinur okkar býr þarna og við hittum hann þrisvar. Fórum á djammið á föstudeginum, löbbuðum hálfa borgina með honum á laugardeginum og svo hittum við hann á mánudagskvöldinu á California Pizza Kitchen, sem var eini keðju-veitingastaðurinn sem ég þurfti nauðsynlega að fara á, enda eru þar bestu pizzur í heimi.

Auk þess löbbuðum við um borgina, frá Mission til Castro, um miðbæinn og á ströndinni. Borðuðum burrito á Mission taqueríu og fleira. Á laugardagskvöldið var svo rehearsal dinner á mexíkóskum stað í miðborginni þar sem að flestir brúðkaupsgestir mættu.

* * *

Brúðkaupið var svo á sunnudeginum. Ég var grooms-man í brúðkaupinu. Brúðkaup í Bandaríkjunum eru á marga vegu ólík þeim heima. Fyrir það fyrsta þá eru vinir brúðhjónanna virkari þáttakendur í undirbúningnum og athöfninni. Dan var með fjóra grooms-man og Carrie með fjórar brides-maids, sem hjálpuðu þeim. Ég sem grooms-man mætti á æfingar fyrir brúðkaupið á föstudeginum, hjálpaði við að skipuleggja bachelor partíið og svo vorum við fjórir allir í því að hjálpa Dan á brúðkaupsdaginn. Við hittumst fyrir brúðkaupið, héldum honum félagsskap fyrir brúðkaupið og reyndum að draga úr stressinu. Í sjálfri athöfninni stóðum við svo við hlið þeirra brúðhjóna.

Einsog athöfnin hjá Kate og Ryan var þessi skemmtileg. Pabbi Dan og systir sungu í athöfninni gamalt Stevie Wonder lag (og allir sungu með). Í veislunni var svo mikið dansað. Ég hélt ræðu, sem fékk góðar undirtektir og fólk hló mikið – sem að var ótrúlega gaman (auk þess sem ég fékk mikið hrós á eftir). Eftir veisluna vorum við svo langt fram eftir nóttu í partíi á einu hótelherbergi.

Frábært brúðkaup og frábær ferð.

Skrifað í flugvél yfir Bandaríkjunum klukkan 12.51 – 8.september 2009.

Færeyjaferð

Við Margrét fórum í stutta ferð til Færeyja um síðustu helgi. Við vorum varla byrjuð að taka uppúr bakpokunum okkar þegar að við áttum flug aftur frá Stokkhólmi (24 tímum eftir að við lentum eftir Indónesíuferðina). Við flugum því til Kaupmannahafnar og þaðan til Voga í Færeyjum.

Ég hef aldrei komið til Færeyja áður, en það hefur lengi verið á dagskrá hjá mér að skoða bæði Færeyjar og Grænland. Það er í raun með ólíkindum hversu fáir í kringum mann hafa heimsótt þessi tvö lönd sem liggja Íslandi næst. Ástæða ferða okkar núna var að amma Margrétar (í föðurætt) átti 70 ára afmæli. Hún er fædd í Færeyjum, en flutti þegar hún var 16 ára til Íslands til að vinna í fiski og endaði á því að setjast þar að.

Ho?fnin i? Þo?rsho?fn
Ho?fnin i? Þo?rsho?fn

Í tilefni afmælisins var stór hluti fjölskyldunnar kominn til Færeyja (auk þess sem að stór hluti hennar býr auðvitað í Færeyjum). Við fengum að gista hjá frændfólki Margrétar í Þórshöfn. Þar eyddum við tíma með fjölskyldunni, borðuðum heil ósköp af mat og skemmtum okkur vel. Auk þess fengum við smá tíma á sunnudeginum til að keyra um eyjuna.

Ég smakkaði það sem allir segja að maður þurfi að smakka – það er skerpikjöt, sem er þurrkað lambakjöt (ekki gott), rastkjöt (öllu betra) og færeyskan bjór (góður). Og ég fékk aðeins að kynnast færeyskri gestrisni, sem er frábær.

Við ho?fnina i? Þo?rsho?fn
Við ho?fnina i? Þo?rsho?fn

Við keyrðum aðeins um eyjuna. Við skoðuðum Kirkjubæ, sem eru merkustu söguslóðir í Færeyjum, en þar eru meðal annars rústir dómkirkju sem var reist að hluta til árið 1300.

Hu?s i? Kirkjubæ
Hu?s i? Kirkjubæ

Einnig keyrðum við til þorpsins Sörvágur þar sem pabbi Margrétar bjó einu sinni. Það er lítið þorp þar sem núna búa um þúsund manns.

So?rva?gur
So?rva?gur

Allt landslagið sem við sáum er afskaplega líkt sumum stöðum á Íslandi. Nánast engin tré eru sjáanleg (nema í húsgörðum) og allt einkennist af miklu grasi og fjöllum.

Við gátum vissulega ekki séð mikið á þremur dögum í Færeyjum, en það var nóg til þess að manni langaði að fara þangað aftur. Ég tók slatta af myndum og er búinn að setja nokkrar þeirra inná Flickr.

Indónesíuferð 8: Ferðalok

Við Margrét komum aftur til Stokkhólms snemma í morgun eftir ansi langt ferðalag frá Bali. Fyrst flug frá Bali til Jakarta (þar sem að vegabréfið beið eftir mér), svo frá Jakarta til Bangkok og eftir dálitla bið (og sjúskaðan hamborgara) þar þá flugum við frá Bangkok hingað til Stokkhólms. Rúmlega 27 tímar frá hóteli á Bali til íbúðarinnar okkar á Södermalm.

Myndirnar eru komnar inná tölvuna, en ég á eftir að laga þær til, merkja og slíkt. Þetta voru alls um 1.500 myndir, en þeim mun fækka verulega á næstunni. Ég setti þó inn eina fína mynd af órangútunum, sem við sáum á Borneó og voru klárlega einn af hápunktum ferðarinnar.

(smella hér til að sjá stærri útgáfu).

Þetta er búin að vera frábær ferð. Það er vissulega öðruvísi að vera ekki einn á ferðalagi einsog ég hef verið undanfarin ár – og verð ég að segja, betra. Við Margrét höfum aldrei verið svona mikið saman (24/7 allan tímann) en þetta gekk alveg ótrúlega vel. Fyrir henni var ansi margt framandi við svona ferðalög – skítug hótel, pöddur og eðlur, sjúskaðir veitingastaðir og svo framvegis – og ég geri mér grein fyrir að ekki allir myndu vera jafn opnir fyrir þessum nýjungum einsog hún var í ferðinni. Fyrir þá sem ekki vita þá hefur hún líka skrifað (að mínu mati mjög skemmtilegt) ferðablogg í þessari ferð.

Indónesía er skemmtilegt land og við náðum aðeins að sjá smá brot af því í þessari ferð. Við fórum þó nokkuð hratt yfir – sáum eyjurnar Jövu, Bali, Lombok, Gili Trawangan og Borneo. Það þýðir að við eigum eftir merkilegar eyjur einsog Sulawesi, Flores, Tímor og Papúa – auk þess sem við sáum bara lítinn hluta af t.a.m. Borneo.

Ég mæli með Indónesíu – fólkið er indælt, landið er frekar ódýrt og maturinn er góður. Það er lítið mál að eyða afskaplega litlu í mat og gistingu þarna, en svo er líka ansi auðvelt að eyða gríðarlegum fjárhæðum – fer bara eftir því hvað fólk vill. Það sem stendur uppúr í þessari ferð er að mínu mati: Borobodur, Ubud á Bali, köfun á Gili Trawangan og órangútar á Borneó.

Ég vona að þið hafið haft gaman af þessum ferðasögum – og að mér hafi tekist að koma til skila mörgu af því sem gerir Indónesíu að svo heillandi landi.

Takk.

*Skrifað á eyjunni Södermalm í Stokkhólmi, Svíþjóð klukkan 16.24*

Indónesíuferð 7: Bali

Nú styttist heldur betur í lok þessarar ferðar. Við erum komin aftur til Bali eftir ævintýrin okkar á Borneo og á morgun er okkar síðasti dagur hér. Rétt eftir hádegi eigum við flug frá Bali til Jakarta, svo frá Jakarta til Bangkok á Taílandi og svo frá Taílandi aftur heim til Stokkhólms.

Sólahrings-seinkun var greinilega ekki nóg fyrir Riau flugfélagið til að koma málunum í lag í Borneó þannig að við þurftum að bíða aukalega á flugvellinum í Pankalang Bun í um klukkutíma. En við komumst á endanum til Jakarta. Þar þurftum við að taka leigubíl yfir á annað terminal, þar sem að Air Asia skrifstofa var. Þegar ég ætlaði að fara að kaupa miðana fattaði ég hins vegar að ég hafði skilið eftir ferðaveskið mitt, sem innihélt meðal annars vegabréfið mitt, í leigubílnum.

Ég fékk um það bil taugaáfall.

Continue reading Indónesíuferð 7: Bali

Indónesíuferð 6: Í regnskógum Borneo

Við Margrét erum búin að eyða síðustu fjórum dögum hérna á Borneo. Það er einum degi lengra en við áætluðum þar sem að fluginu okkar aftur til Jövu í gær var seinkað um heilan sólahring. Því erum við núna stödd á netkaffihúsi í bænum Pangkalang Bun. Þessi bær er vanalega lítið meira en smá stopp á ferðalagi fólks frá flugvellinum hér til Tanjung Puting þjóðgarðarins. En þar sem fluginu okkar var seinkað svona svakalega þá höfum við fengið að eyða hér sólarhring. Hérna eru útlendingar ekki algengir, sem sést á athyglinni sem að við vekjum hvert sem við löbbum. Allir heilsa okkur, krakkar hlæja að því þegar við heilsum þeim tilbaka og svo framvegis. Á hótelinu talar svo enginn ensku, sem er ekki gott.

Ég er enn að reyna að ná mér niður á jörðina eftir að hafa byrjað daginn á því að skoða kop.is þar sem ég sá að Liverpool hafði tapað sínum fyrsta leik. Andskotans djöfulsins fokking kjaftæði. Ég ætla að reyna að ná mér niður og skrifa eitthvað blogg um síðustu daga, sem hafa jú verið frábærir.

* * *

Við komum hingað á föstudaginn með flugi frá Jakarta. Höfðum gist nóttina áður á flugvallarhóteli í Jakarta þar sem við borguðum morðfé fyrir að sofa í þrjá klukkutíma. Fluginu okkar frá Bali var nefnilega seinkað um heila 5 klukkutíma og við lentum því ekki í Jakarta fyrr en rétt fyrir fjögur um morguninn. Við vorum búin að panta okkur ferð með skrifstofu, sem að íslenskur gaur benti okkur á, og vorum því sótt útá flugvöll hér í Pangkalang Bun og keyrð strax til Kumai, sem er lítill og skrýtinn bær sem liggur við (man ekki nafn núna) ána. Þar byrjuðum við á því að borða stjarnfræðilega viðbjóðslega máltíð á aðalveitingastað þorpsins og síðan fórum við yfir í bátinn okkar, sem var okkar heimili næstu þrjá daga.

Báturinn, sem heitir klotok á indónesísku er lítill trébátur á tveim hæðum. Niðri er matur eldaður og öll stjórntæki, en uppi er fínn pallur þar sem við gátum legið á dýnum og um kvöld var þar sett upp moskítónet, svo við gætum sofið undir berum himni. Ótrúlega skemmtilegt.

Eftir smá bið byrjuðum við svo að þoka okkur upp ána inní frumskóga Borneo. Þetta var ekkert ósvipað því sem ég upplifði í regnskóginum í Venezuela. Nokkuð þröng, brúnlituð á og allt í kring endalaust af trjám, sem virtust vaxa uppúr vatninu við bakkann. Fyrsta daginn gerðum við lítið nema að liggja uppá palli og virða fyrir okkur umhverfið, hlusta á óteljandi dýrahljóð í skóginum og horfa á Probiscus apana, sem að hoppuðu á milli trjáa sem við sáum úr bátnum og svo skoðuðum við lítið þorp í miðjum skóginum. Við gistum svo á föstudagskvöldið einhvers staðar inní regnskóginum á bátnum okkar.

Tanjung Puting er þjóðgarður á Borneo. Þessi eyja, sem inniheldur auk Indónesíu Malasíu og Brunei hefur verið misnotuð af yfirvöldum og fyrirtækjum í tugi ára. Gríðarlega stór hluti af rengskóginum hefur verið hogginn niður eða einflaldlega brenndur, aðallega til þess að rýma fyrir ræktunarland, sem hefur aðallega verið notað undir pálmatré til framleiðslu á pálmaolíu, sem er notuð í snyrtivörur og mat – aðallega í Evrópu (í garðinum er Palmolive sápa notuð sem dæmi um típíska vöru, sem er unnin á landi sem var áður regnskógur). Þessi eyðilegging hefur unnið óbætanlegan skaða á eyjunni. Auk þess hafa indónesísk stjórnvöld í áratugi stuðlað að fólksflutningum á milli eyja – frá fjölmennum eyjum einsog Jövu og Bali til eyja þar sem að fáir búa, einsog Papúa og Borneo. Þetta hefur bæði stuðlað að ófriði á milli innfæddra og aðfluttra og einnig þá gaf flutningur fólks til Borneo fyrirtækjum sem stóðu í að eyðileggja skóginn, ódýrt vinnuafl.

Sennilega er besta vonin fyrir regnskóga Borneo að þjóðgarðarnir verði smám saman stækkaðir. Tanjung Puting þjóðgarðinum er um 4.000 ferkílómetrar, sem er ekki mikið á þessari risastóru eyju. En hann er samt sem áður helsti griðarstaður Orangutan apa (sem búa bara á Borneo og Súmötru). Órangútar eru eina tegund risaapa, sem að búa utan Afríku.

Við byrjuðum laugardaginn á því að sigla enn lengra upp ána. Þar vorum við svo ótrúlega heppin að sjá algjörlega villta órangútan apa sveifla sér í trjánum við ána. Eftir smá siglingu komum við á stað þar sem órangútan öpum er gefið að borða. Við biðum í hálftíma eftir að sjá hvort þeir myndu koma að ná sér í mat, en enginn lét sjá sig – aðallega vegna þess að svo margir ávextir eru þroskaðir í skóginum á þessum tíma að lítil ástæða er fyrir apana að leita sér að frekari mat.

Næst fórum við í Camp Leaky búðirnar, sem voru settar upp í kringum 1970 til þess að hjálpa órangútan öpum, sem hafði verið bjargað (oftast vegna þess að heimili þeirra hafði verið brennt), til að komast á fætur og aftur út í rengskóginn. Þar var fylgst með þeim og margt af því sem við vitum um þessa stórkostlegu apa er tilkomið vegna rannsókna sem fóru fram í Camp Leaky.

Við upplýsingamiðstöðina í Camp Leaky sáum við strax órangútan apa (kvenkyns) sem hefur búið í búðunum í mörg ár. Það hefur komið í ljós með árunum að margir aparnir verða aldrei aftur fullkomlega sjálfsæðir – flestir kunna að meta þau þægindi sem felast í því að fá mat tvisvar í dag í búðunum, en svo búa þeir frjálsir í skóginum þess á milli (þeir eru líka frjálsir í búðunum, labba þar um á meðal manna). Eftir hádegismat sáum við svo þegar að öpunum er gefið að borða í Leaky. Þar er stór pallur í miðjum skóginum (langt frá búðunum) þar sem settir eru á bananar, sem að aparnir sækja svo í. Sú sjón er með ólíkindum. Þarna komu um 20 apar, margir með lítil börn hangandi í sér og sveifluðu sér í trjánum og komu svo niður á jörðina þar sem þeir voru óhræddir að labba meðal okkar og leita í guide-ana, sem að þeir þekktu. Þessar skepnur eru með ólíkindum líkar mönnum og þær geta lært ólíklegustu hluti.

Við tókum slatta af myndum þarna, sem að lýsa þessu betur – en þetta var ógleymanleg lífsreynsla.

Á laugardagskvöldinu var báturinn svo festur við einhverjar trjágreinar ofar á ánni og þar sváfum við þrátt fyrir öll hljóðin í skóginum.

Á sunnudeginum héldum við svo aftur til Kumai. Á leiðinni hittum við einn apann úr Camp Leaky búðunum, sem að var að leika sér í skóginum nálægt búðunum. Við fengum að kasta til hennar nokkrum bönunum, sem var ótrúlega skemmtilegt. Það ætti að skylda alla bandaríkjamenn, sem trúa ekki þróunarkenningunni, að skoða þessa apa í nokkra klukkutíma og sjá hversu ótrúlega líkir okkur þeir eru.

Frá Kumai tókum við svo leigubíl útá flugvöll þar sem okkur var tjáð að fluginu hefði verið frestað um sólahring og því sitjum við hér á þessu netkaffi. Um þrjú leytið í dag eigum við svo flug til Jakarta og þaðan til Denpasar á Bali þar sem við ætlum að eyða síðustu dögum ferðarinnar.

*Skrifað í Pangkalang Bun á eyjunni Borneó í Indónesíu klukkan 11.20*

Indónesíuferð 5: Sautján þúsund eyjar

Indónesía er gríðarlega stórt, fjölmennt og margbreytilegt land. Landið samanstendur af yfir 17.000 eyjum, sem eru allt frá pínulitlum eyjum uppí tvær af þremur stærstu eyjum heims, Borneo og Papúa (sú stærsta er auðvitað Grænland). Indónesía ræður þó aðeins yfir hluta þeirra eyja (á Borneo eru líka Brunei og Malasía – og á Papúa er líka Papúa Nýja Gínea).

Landið er fjórða fjölmennasta land í heimi (á eftir Kína, Indlandi og Bandaríkjunum) og reglulega erum við minnt á það að Indónesía er fjölmenasta múslimaríki í heimi, sem að eykur sennilega áhuga umheimsins á landinu. Fjölbreytileikinn er þó mikill. Í landinu búa ólíkir kynþættir (það fólk sem býr á Bali er býsna ólíkt því fólki, sem býr á Papúa) og í raun má segja að landið sem þjóðríki sé það eina helst byggt á landafræði og sameiginlegu tungumáli – indónesísku (sem svipar til malaísku – hér er notað vestrænt stafróf), sem að stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á að útbreiða.

Að vera á Jövu og á Lombok er alls ekki ósvipað því sem ég upplifði í síðustu ferð minni til Suð-Austur Asíu. Mannmergðin er gríðarleg og maður sem túristi verður fyrir miklu áreiti frá sölufólki, leigubílstjórum og slíku. Samt er athyglin sem maður fær, sem hvítur Evrópubúi, ekkert sérstaklega mikil. Svo sannarlega mun minni en ég fékk til dæmis í Mið-Ameríku eða Víetnam og Laos. Fólkið er þó upp til hópa mjög vinalegt og einstaklega brosmilt. Á Bali er fólk að mörgu leyti ólíkt því sem maður finnur á Jövu – til að mynda eru stelpurnar mun fallegri.

Landið var áður hollensk nýlenda – hér réð Austur Indíafélagið öllu og landið fékk ekki sjálfstæði fyrr en 1949 – eftir að Japanir höfðu hersetið landið í Seinni Heimsstyrjöldinni og Hollendingar höfðu gert misheppnaða tilraun eftir stríð til að ná landinu aftur undir sína stjórn. Þjóðhátíðardagur landsins er 17.ágúst, sem er einmitt afmælisdagur minn.

* * *

Meginhluti Indónesa eru múslimar og síðustu ár man ég varla eftir frétt um Indónesíu án þess að á það sé minnst að þetta sé fjölmennasta múslimaríki heims. Ég ferðaðist í fyrra um nokkur múslimalönd (Sýrland, Jórdaníu, Líbanon og Palestínu) og ég verð að segja að munurinn á þeim og Indónesíu er gríðarlegur.

Á Jövu og Lombok var maður vissulega vakinn um miðjar nætur með bænaköllum (sérstaklega í Yogyakarta) en annað er ólíkt því sem maður fann í Mið-Austurlöndum. Útlitslega eru hlutirnir til að mynda mjög ólíkir. Afar fáir karlmenn eru hér með skegg og klæðnaður múslimskra kvenna er mun frjálslyndari. Fyrir það fyrsta þá virðist stór hluti múslimskra kvenna alls ekki klæðast neinum sérstökum fötum. Þær sem gera það eru aðallega með slæðu utanum hárið. Þær slæður eru þó vanalega litríkar og notaðar nánast sem partur af tískunni. Ég hef hér enga konu séð í fullum hijab. Allar reglur varðandi áfengi og aðra hluti eru svo einnig mjög frjálslyndir miðað við múslimaland.

Landið hefur komist í fréttirnar útaf hryðjuverkasamtökunum Jemaah Islamiyah (indónesísk stjórnvöld telja sig hafa drepið leiðtoga þeirra – við horfðum á það í beinni útsendingu yfir morgunmat í Senggigi), sem að vilja stofna íslamskt ríki í Indónesíu og Malasíu – en stuðningur við slík samtök virðist ekki vera útbreiddur hér. Svo sannarlega sjást hvergi stuðningsveggspjöld líkt og maður sá útum allt í Palestínu og á Sýrlandi.

Hér á Bali eru flestir Hindúar, en annars sér maður ekki mikinn mun vegna trúarbragða – allavegana ekki á yfirborðinu. Það er vissulega staðreynd (sem þarf svo sannarlega að endurtaka alltof oft fyrir suma) að yfirgnæfandi meirihluti múslima hefur engan áhuga á ofbeldi.

Landið er líka fátækt. Samkvæmt AGS er landið í 116. sæti yfir hæstu þjóðartekjur á íbúa. Það setur landið fyrir neðan lönd einsog Marokkó, Írak, Georgíu, Paragvæ og fleiri. Af þeim löndum, sem að ég hef heimsótt kemst Indónesía þó yfir lönd einsog Hondúras, Bólivíu, Laos og Kambódíu. Samkvæmt ríkinu er atvinnuleysi hér um 10% en ég hef ekki minnstu hugmynd um það hvernig þær tölur eru fundnar út, því að fólk án atvinnu og með ótrygga atvinnu er án efa mun fleira. Alls staðar þar sem maður kemur þá virðist alltof margt fólk vera að vinna einföld störf. Á veitingastöðum eru fjórum til fimm sinnum fleiri starfsmenn en myndu sinna sama fjölda kúnna í Evrópu og úti á götum er alltaf fullt af fólki, sem virðist hafa lítið sem ekkert að gera.

* * *

Ég og Margrét höfum verið hérna í Kuta í tvo daga. Til þess að sleppa við flugfar þá tókum við ferjuna hingað frá Kuta á Lombok. Tókum reyndar bíl í tvo tíma, svo 5 tíma ferju og svo 2 tíma í bíl til að komast frá Kuta á Lombok til Kuta á Bali. Við komum hingað til Kuta á Bali rétt fyrir miðnætti á sunnudagskvöld og höfðum þá ekkert hótelherbergi pantað, þar sem að öll hótelherbergi í ferðahandbókinni okkar voru upptekin (það er martröð að ferðast hér í ágúst mánuði). Við löbbuðum því um miðbæ Kuta með bakpokana okkar þangað til að við enduðum á hóteli þar sem að við fengum að gista í herbergi, sem er vanalega ekki leigt út. Herbergið var án sturtu og vasks og á gólfinu voru tveir notaðir smokkar. Já, tveir.

Annars er Kuta á Bali skemmtilega geðveik blanda af strönd og mannlífi. Ég skrifa um það betur seinna.

Við eigum tvo daga eftir hér og eftir það förum við til Borneó.

*Skrifað í Seminyak á eyjunni Bali, Indónesíu klukkan 21.25*

Indónesíuferð 4: Strandlíf

Síðustu dagar hafa einkennst af lífi nálægt ströndinni. Við höfum ferðast frá Bali til Gili eyja, svo til Senggigi á Lombok og svo hingað til Kuta á Lombok. Kuta er líka heiti á frægustu ströndinni á Bali, en við erum núna á ströndinni á Lombok, sem er nokkuð afskekkt og ekki of full af ferðamönnum eða sölumönnum.

Ubud á Bali var virkilega heillandi bær. Auðvitað ber hann þess merki að vera haldið uppi af túristum, en honum tekst samt sem áður að vera indónesískur að mörgu leyti. Allavegana eru þarna engar amerískar skyndibitakeðjur líkt og í Jakarta og í Kuta á Bali. Við eyddum alls 4 dögum í Ubud. Margrét var veik hluta tímans þar, þannig að við tókum lífinu rólegar en við höfðum upphaflega planað. En það var líka bara ágætt. Síðasta daginn þar fórum við í hjólaferð um nágrenni bæjarins þar sem við skoðuðum meðal annars Goa Gajah, helli sem var byggður á 10. öld.

Frá Bali höfðum við upphaflega ætlað okkur að fara á bát til Komodo eyju og þaðan til Flores. Hins vegar þá fannst okkur planið þá vera orðið full þétt og við ákváðum á endanum að taka hlutunum aðeins rólegar og fara hægar yfir.

* * *

Frá Ubud tókum við bíl til Padangbai á austurströnd Bali og þaðan tókum við svo hraðbát til Gili eyja. Þær eru klasi af þremur eyjum rétt undan strönd Lombok, sem eru aðallega frægar fyrir einstaklega gott aðgengi að frábærum stöðum til að kafa. Við gistum á stærstu eyjunni, Gili Trawangan. Sú eyja var ekki ólík Roatan í Hondúras þar sem ég lærði að kafa fyrir fjórum árum. Á Trawangan eru engin mótorhjól eða bílar heldur eru allar vörur og slíkt dregnar með hestavögnum. Eina gatan í gegnum bæinn er moldargata (a la Roatan) og við hana liggur samansafn af veitingastöðum, hótelum og köfunarmiðstöðvum. Við tékkuðum okkur strax inná hótel og skráðum svo strax Margréti á 4 daga PADI open water námskeið. Hún byrjaði því strax fyrsta daginn í bóklega náminu.

Næstu þrír dagar fóru svo að mestu leyti í köfun. Ég hef ekki kafað síðan í Belize árið 2005 og var ég því búinn að gleyma flestöllu og þurfti á smá upprifjun að halda. Ég fékk því bara að fljóta með í verklegu hlutunum á tímunum hennar Margrétar. Kennarinn hennar er Íri, sem var afskaplega góður. Ég fór með þeim í gegnum nokkur grunn-atriði í sundlaug og svo köfuðum við saman fjórum sinnum á köfunarsvæðum rétt hjá eyjunum. Aldrei þurftum við að fara lengra en hálftíma frá Trawangan og þá vorum við komin á ótrúlega falleg köfunarsvæði full af lífi. Reyndar er kórallinn á grynnsta svæðinu illa farinn, þar sem að veiðimenn notuðu á árum áður *dínamít* til að veiða fisk, sem að gjöreyðilagði kóralinn. Án efa ein af verstu hugmyndum, sem menn hafa fundið uppá.

Þegar maður kafar þó niður fyrir 12 metra, þá er svæðið æðislegt. Fallegur kórall og ótrúlega fjölskrúðug fiskalíf. Allt frá litlum “Nemo” fiskum til risastóra Humphead parrotfish (sem sjást bara þegar tunglið er fullt) og svo risa-skjaldbakna. Ég var næstum því búinn að gleyma hvað mér finnst í raun gaman að kafa, en núna er áhuginn svo sannarlega kominn aftur.

* * *

Eftir síðustu köfunina og eftir að Margrét var komin með PADI skírteinið tókum við svo lítinn bát til Lombok. Lombok er eyja, svipuð að stærð og Bali – og rétt hjá henni, sem fær þó aðeins brot af þeim ferðamönnum, sem koma á Bali. Öll eyjan er mun íhaldsamari. Hér eru múslimar í meirihluta (með tilheyrandi bænaköllum og slæðum fyrir konur) og mun minna er um vestræn áhrif (minna af Coca Cola og slíku). Við byrjuðum á því að keyra ótrúlega fallega leið frá Bangsali (þar sem að báturinn frá Gili endaði) til Senggigi, sem er nokkuð þekktur strandbær hér. Þar slöppuðum við af (eftir þrjá daga á kafi) í sólbaði.

Í dag fengum við okkur svo bíl sem keyrði okkur frá Senggigi til Kuta, sem er strandbær á suðurhluta eyjarinnar, sem liggur að Indlandshafi. Á leiðinni stoppuðum við í Sade, hefðbundnu Lombok þorpi, þar sem við fengum að skoða hvernig lífið gengur fyrir sig. Auk þess að fá færri túrista þá er Lombok mun líkari Jövu en Bali. Bali og Gili eyjarnar virkuðu á mann einsog eins konar paradís, en á Lombok líður manni meira einsog maður sé kominn aftur til Indónesíu. Hérna eru vegirnir aftur slæmir, fátæktin aftur gríðarlega áberandi, múslimar í meirihluta, og lífið snýst ekki um að dekra við útlendinga. Það er líka alltaf gott að koma aftur á staði þar sem að túristar eru ekki útum allt.

Kuta á Lombok er enn tiltölulega lítið sóttur strandbær nema aðallega af brimbrettafólki. Það kann þó að breytast enda hefur fasteignafyrirtæki frá Dubai uppi áform um að byggja hér risahótel og golfvelli. Það er frekar magnað eftir að hafa heimsótt bæi þar sem að fólk nær bara einni uppskeru á ári vegna þess að það hefur ekkert vatnsveitukerfi fyrir akrana, að í smá fjarlægð skuli standa til að byggja golfvelli, sem að drekka í sig vatn einsog þeim sé borgað fyrir það. En svona er þetta víst.

Við vitum ekki alveg hvort við verðum hérna í Kuta í einn eða tvo daga í viðbót en leiðin mun allavegana liggja næst aftur til Bali þar sem við ætlum að eyða nokkrum dögum áður en við fljúgum til Borneo í þriggja daga ævintýraferð á vit Órangútan apa.

Skrifað í Kuta á eyjunni Lombok í Indónesíu klukkan 18.52

Indónesíuferð 3: Frá Jövu til Balí

Ég lauk síðasta bloggi á því að segja frá lokum á útsýnistúr um Gunung Bromo eldfjallið. Við höfðum verið talsvert óviss um það hvernig planið fyrir næstu daga ætti að vera en ákváðum að lokum að koma okkur til Bali og færa okkur þaðan til Lombok eða Flores.

Rútuferðin til Bali varð hins vegar aðeins skrautlegri en við áttum von á. Á ferðaskrifstofunni var okkur tjáð að ferðin til Denpasar á Bali tæki um 8 klukkutíma. Það reyndist ekki alveg rétt. Í Probilinggo vorum við sett uppí loftkælda rútu, sem átti að fara til Denpasar (þrátt fyrir að á skilti framan á rútunni stæði eitthvað annað). Þar hittum við strax Egypta með ofsóknarbrjálæði, sem var sannfærður um að öll Indónesía væri í allsherjar samsæri gegn honum sem ferðamanni. Eftir um 2 tíma rútuferð stoppuðum við í bænum Jember og var þar sagt að við þyrftum að skipta um rútu. Við vorum þá orðin alveg peningalaus, þannig að ég samdi við einhvern strák um að skutla mér á vespu í hraðbanka. Egyptinn fylgdi með og fékk ég því að bíða eftir honum í 10 mínútur á meðan að hann reifst við einhverja konu um gengi á bandaríkjadollar.

Á rútustöðinni beið Margrét. Þegar ég hitti hana aftur ákváðum við að borða á eina staðnum, sem seldi mat og það eina sem þar var selt virtust vera pakkanúðlur, sem höfðu verið soðnar nokkrum klukkutímum áður. Furðulega skrautlegur matur, sem að Margrét segir að sé uppspretta magakveisunnar sem að hún er með núna. Við prófuðum líka eitt versta “klósett” sem ég hef séð (gólf til að pissa á væri sennilega betri lýsing en klósett), sem var svo einnig bænaherbergi. Mjög skemmtileg samblanda.

Loks fór nýja rútan af stað. Hún var reyndar ekki með loftkælingu og þar sem við þurftum að bíða í 15 mínútur á hverri stoppistöð þá vorum við ekkert agalega hress fyrstu tímana í ferðinni. Auk þess reyndist ferðin svo vera mun lengri en þeir 8 klukkutímar, sem okkur var sagt í byrjun. En með brjálæðislegum ofsa-akstri tókst okkur þó að koma okkur til Denpasar á Bali um 13 klukkutímum eftir að við fórum frá Bromo (aðeins 5 tímum á eftir áætlun). Þar tók svo við leigubílaferð hingað til Ubud.

* * *

Hér í Ubud höfum við svo tekið því rólega. Við vorum eftir allt á ferðalagi í 19 klukkutíma á fimmtudeginum, svo við eyddum gærdeginum á besta hóteli ferðarinnar (sem er bungalows inní miðjum skóginum með á við hliðiná – geggjað) í sólbaði og afslöppun. Í dag ætluðum við að fara í hjólaferð, en Margrét vaknaði með magapest og þarf því að taka því aðeins rólega. Hún er því uppá hóteli (sem við vorum að skipta á, þar sem að hitt var upp-pantað í dag – þurfum svo aftur að skipta um hótel á morgun, mjög hressandi) og sefur.

Planið er að vera hérna í Ubud í einn dag í viðbót og reyna að sjá bæinn og nágrenni betur á morgun. Á mánudaginn ætlum við svo að fara yfir til Gilli eyjanna, sem eru rétt undan strönd Lombok. Þar ætlum við að fara á köfunar-námskeið (Margrét fyrir byrjendur, ég á upprifjunarnámskeið). Svo er áætlunin að feta okkur í átt til Flores, með viðkomu á Komodo.

(p.s. Ég setti inn nokkrar myndir frá Jövu á Flickr. Ég er ekki búinn að laga þær neitt til, ég geri það þegar við komum heim. Hérna er tengill á slide-show, sem er sennilega skemmtilegri leið til að skoða myndirnar.)

*Skrifað í Umbud á eyjunni Bali, Indónesíu klukkan 18:29.*

Indónesíuferð 2: Java

Síðustu dagar hafa einkennst af miklum og löngum rútuferðum, þar sem sú síðasta myndi sóma sér með verstu Mið-Ameríku-rútuferðunum. Á nokkrum dögum höfum við farið landleiðina yfir næstum því alla Jövu. Ef maður dæmir eingöngu af stærð eyjunnar þá er það ekki mikið afrek – frá Jakarta til Ubud á Bali eru ekki nema um 1.000 kílómetrar. En vegalengdir segja ekki alla söguna.

Ég skrifaði síðast frá Yogyakarta, sem er á miðri Jövu. Þangað vorum við nýkomin frá Jakarta þegar ég bloggaði síðast. Fyrsta daginn tókum við því frekar rólega, löbbuðum aðeins um miðbæ Yogyakarta, skoðuðum markaði og létum áreita okkur af götusölum. Við kíktum svo aðeins á hallir, sem voru byggðir af súltánum sem að réðu þessum hluta Jövu í kringum árið 1800. Um kvöldið fengum við svo smá forsmekk af umferðarmenningu Jövu þegar við tókum stutta rútuferð frá Yogyakarta til Borobudur, smábæjar sem tekur nafn sitt af mögnuðum rústum búddahofs í nágrenninu. Þar gistum við á ótrúlega vel staðsettu hóteli sem er örstutt frá hofinu. Við gátum því það kvöld borðað kvöldmat með hofið í bakgrunni.

Borobodur er risavaxið búdda minnismerki, sem var byggt um 800 þegar að búddismi var enn aðaltrúarbrögðin á jövu (núna er það íslam). Vegna staðsetningar getur hótelið sem við vorum á boðið uppá að hleypa fólki að minnismerkinu um 4 leytið um morgun til að sjá þar sólarupprás. Við Margrét vorum því mætt á efstu hæð Borobudur rétt fyrir klukkan 5 og sáum þar sólarupprásina. Líkt og í Angkor Wat hérna um árið var þó þessi sólarupprás í skýjuðu veðri og áhrifin ekki þau sömu. Líkt og Angkor Wat er Borobudur magnaður staður. Minnismerkið samanstendur af 9 hæðum, sem geyma annaðhvort höggmyndir af fæðingu Búdda og fleiri atburðum, eða bjöllulaga styttur, sem innihalda litlar búdda styttur. Myndir lýsa þessu talsvert betur, en þetta er magnaður staður.

Frá Borobudur tókum við svo bíl til Prambanan, sem er samansafn af gríðarlega fallegum Hindúa-hofum, sem voru byggð á svipuðum tíma og Borobudur. Þessi Hindúa-hof hafa verið sett saman úr algjörum rústum, sem svo urðu fyrir miklum skemmdum í jarðskjálftanum á Jövu árið 2006. Í dag eru merki um skjálftan enn greinileg og enn unnið að endurbyggingu hofanna. Þau eru þó ótrúlega falleg og tignarleg. Við fórum með guide um svæðið og hann sýndi okkur flest hofin og útskýrðu fyrir okkur ólíka þýðingu þeirra. Að því loknu fórum við svo aftur til Yogyakarta.

* * *

Daginn eftir tókum við svo rútu til Probolinggo. Á þeirri löngu leið fengum við að kynnast “þjóðvega”-menningunni á Jövu. Beisiklí þá virðast engir almennilegir þjóðvegir eða hraðbrautir vera til staðar á Jövu. Allar þær leiðir sem við keyrðum voru á vegum þar sem aðeins voru tvær akreinar og nánast allar leiðir virtust liggja í gegnum bæji. Miðað við hið ótrúlega magn af fólki sem býr á Jövu þá er nánast með ólíkindum að ekki skuli vera til stærri vegir. Allan tímann sem við keyrðum voru á veginum gríðarlegt magn af gömlum vörubílum, sem flytja vörur á milli bæja á 50 kílómetra hraða. Í stöðugri baráttu við þá eru svo venjulegir bílar og rútur, sem að keppast við að taka framúr sem flestum vörubílum á sem skemmstum tíma. Á leiðinni til Probolinggo vorum við í míní-rútu, sem var keyrð af manni, sem virtist ekki hræðast það hið minnsta að vera á öfugri akrein á 100 kílómetra hraða með vörubíl sér við hlið og annan á leiðinni á móti sér. Tvisvar eða þrisvar þurftum við að biðja bílstjórann um að slaka á, svo að við kæmumst á leiðarenda á lífi.

Við vorum komin tin Probolinggo eftir sólsetur og þaðan tókum við svo aðra míní-rútu uppá fjöll og enduðum í Cemoro Lawang, litlu þorpi í mikilli hæð. Þegar við komum á leiðarenda (eftir svakalega rútuferð á örmjóum vegum í miðju fjalli) þá var hitinn úti kominn niður í 5-6 gráður, sem á Indónesískan mælikvarða er einsog 30 stiga frost. Við fengum herbergi á Cemoro Indah, verulega skrautlegu hótelio, sem að Margrét gaf fljótlega titilinn ógeðslegasti staður í heimi.

Í annað skipti á þremur dögum vorum við svo vöknuð klukkan 4 um morgun, fórum uppí 40 ára gamlan Toyota LandCruiser, sem keyrði okkur í niðamyrkri uppá útsýnispunkt. Þar horfðum við svo á ótrúlega magnaða sólarupprás yfir austur-hluta Jövu og þá sérstaklega Gunung Bromo eldfjallinu, sem er partur af fjallagarði þar. Eftir frábæran klukkutíma þar uppi (þar sem við leigðum okkur bæði þykkar úlpur til að lifa kuldann af), þá keyrði jeppinn okkur uppað sjálfu fjallinu, þar sem við gátum labbað uppá það og skoðað oní gíginn.

Frá Bromo byrjuðum við svo ferð okkar hingað til Bali, þar sem við sitjum núna inná netkaffihúsi í Ubud. Tíminn er búinn og ég á enn eftir að panta hótel og flugfar á netinu, þannig að ég læt þetta duga í bili.

*Skrifað í Ubud á eyjunni Bali í Indónesíu klukkan 17.50*

Indónesíuferð 1: Bangkok og Jakarta

Fyrstu dagarnir í þessari Indónesíuferð hafa farið í ferðalög á milli staða með stuttum stoppum. Fyrst núna erum við komin til borgar, Yogyakarta, þar sem við ætlum að vera í meira en sólarahring.

Við flugum frá Stokkhólmi til Bangkok (um 10 tímar), vorum þar í hálfan dag, flugum þaðan til Jakarta – skoðuðum þá borg í hálfan dag og tókum svo í morgun 9 tíma lestarferð hingað til Yogyakarta. Þannig að núna líður okkur einsog við höfum ferðast hálfan heiminn og getum byrjað að njóta ferðalagsins.

Bangkok og Jakarta eru auðvitað hálf geðveikar borgir. Ég hef áður komið til Bangkok – var þar árið 2006. Þá eyddi ég nokkrum dögum í borginni – gisti á Kao San, heimsótti öll hofin og borðaði ósköpin öll af Phat Thai.

Núna var tíminn mun skemmri. Við höfðum bara nokkra klukkutíma (auk þess sem að geðsjúkur krakki hafði lagt mig í einelti allt flugið til Bangkok með köllum á móður sína og því hafði ég ekkert sofið) og ákvað ég að sýna Margréti eftirminnilegustu staðina frá síðustu heimsókn, það er Wat Phra Keo og Wat Po. Ég hafði reyndar algjörlega gleymt reglum um klæðaburð í hofunum, þannig að ég þurfti að klæðast láns-náttbuxum yfir stuttbuxurnar mínar til að fá aðgang. Margrét fékk svo gullfallegt og tandurhreint pils til að vera í. Þetta jók á skemmtangildið því að náttbuxurnar juku á áhrif rakans og hitans.

Hofin eru auðvitað jafnfalleg og fyrir þremur árum. Einstaklega glæsilegar byggingar, sem eru nánast einsog nýjar þrátt fyrir að hafa verið byggðar fyrir rúmum 200 árum. Eftir að hafa borðað Pad Thai fórum við svo aftur útá kónga-flugvöllinn þar sem að við biðum eftir fluginu til Jakarta.

* * *

Í Jakarta lentum við á Soekarno-Hatta, nokkuð gamaldags flugvelli sem er skreyttum með hótunum um dauðadóm fyrir fíkniefna-smygl. Fyrir utan tók við hefðbundið leigubílahark en að lokum fundum við bíl og upplifðum Jakarta í fyrsta sinn klukkan 2 um nótt á 120 kílómetra-hraða í gegnum borgina.

Ég verð að játa að ég hafði ekki hugmynd um við hverju ég ætti að búast í Jakarta. Fáir túristar heimsækja hana og þeir sem gera það eru sjaldan hrifnir. Auk þess man ég ekki eftir að hafa séð margar myndir frá borginni. Það var því nokkuð skrýtið að upplifa hana í fyrsta sinn svona í myrkrinu – hún leit hreint ekki svo illa út – eiginlega betur en Bangkok, sem við höfðum keyrt um fyrr um daginn.

Daginn eftir (í gær) vöknuðum við seint og gátum loksins séð borgina. Af því litla sem við sáum þá er hún gríðarlega stór, með mikilli mengun og litlum sjarma. Við gistum nálægt miðpunkti borgarinnar, einkennilegu minnismerki sem að Soekarno (sem að stýrði landinu frá sjálfstæði – 1945-1967) byggði sér til dýrðar.

Við röltum aðeins um nágrennið, smökkuðum bandarískt keðjukaffi (ekki mjög svalt þegar maður er á fokking Jövu, ég veit) og fórum svo yfir í næsta hverfi þar sem að meðal annars er þriðja stærsta moska í heimi (á eftir Mekka og Medína) – Istiqlal. Sú bygging líkist meira risa-bílastæðahúsi en mosku. En þegar við fórum inn var tekið á móti okkur með opnum örmum af einstaklega vinalegum guide, sem að sýndi okkur aðeins um moskuna. Um kvöldið borðuðum við svo frábæran indónesískan mat.

Í morgun tókum við svo lest frá Jakarta. Á labbi okkar um bæinn í gær, sem og í lestinni í morgun var ekki erfitt að sjá verstu hliðar Jakarta. Borgin hefur vaxið gríðarlega á örfáum áratugum. Í dag er talið að í henni búi allt að 25 milljónir (official talan er 18,9 milljónir en flestir telja hana mun hærri), sem gerir svæðið að næst fjölmennasta svæði í heimi (á eftir Tókíó). Mikill hluti borgarbúa býr í hreysum, þar sem að vatn er ódrekkandi og rusl útum allt. Java öll er gríðarlega þéttbýl (hér búa 130 milljónir á svæði sem er um 30% stærra en Ísland – ótrúlegt) en Jakarta slær allt út.

Því miður er svo ekki mikið fyrir túrista að sækja í Jakarta, traffíkin í borginni er nánast óbærileg og vegna þess hversu víðfem hún er þá eru öll ferðalög á milli staða erfið.

Við ákváðum því að drífa okkur hingað til Yogyakarta. Við tókum lestina frá aðal-lestarstöðinni í Jakarta. Lestarferðin var um 9 tímar og ég svaf mestallan partinn á meðan að Margrét Rós las síðustu Harry Potter bókina. Yogyakarta verður okkar bækistöð næstu daga og auk þess að skoða borgina munum við nota hana sem bækistöð til að skoða Borobodur og Prambanan.

Mikið er gott að vera kominn af stað á ný.

Skrifað í Yogyakarta á eyjunni Jövu, Indónesíu klukkan 22.06