Sósíalistar í Brasilíu… og eignarétturinn

Þá virðist sem gamli sósíalistinn Lula muni ekki ná hreinum meirihluta í kosningunum í Brasilíu. Það þýðir að hann mun keppa við einhvern hægri frambjóðenda í seinni hluta kosninganna. Það verður þó að teljast líklegt að Lula vinn sigur þá. Líklegur andstæðingur hans í kosningunum er Jose Serra, sem Cardoso, núverandi forseti studdi.

Það er þó nokkuð ljóst að Cardoso hefur náð sæmilegum árangri á sínum tíma. Hann tók upp nýjan gjaldmiðil og honum tókst að ná niður verðbólgunni. Honum hefur þó lítið tekist að vinna á vandamálum fátæktarinnar, sem er jafnslæm og áður.

Samkvæmt kenningum Múrsmanna þá munu sennilega öll vandamál landsins leysast, enda eru öll vandræði landa í Suður Ameríku annaðhvort hægrisinnuðum stjórnmálamönnum, Bandaríkjunum eða Alþjóðastofnunum að kenna. Ég vona þó innilega að Lula takis að koma þessu landi í betra ástand enda varð ég mjög hrifinn af landi og þjóð þegar ég ferðaðist þar um fyrir nokkrum árum.

Allavegana, þá ætlaði ég ekki að tala um þetta, heldur mundi ég allt í einu eftir bókinni The Mystery of Capital: Why Capitalism eftir Hernando De Soto. Undirtitill bókarinnar er: Af hverju kapítalismi virkar í hinum vestræna heimi en mistekst alls staðar annars staðar? De Soto er perúskur hagfræðingur. Hann tók sig til og mat það hversu mikils virði eignir fátæks fólks í heiminum væru. Ég man ekki töluna, sem hann fann út, þar sem bókin er kominn oní kassa á leið til Íslands, en hún var gríðarlega há. De Soto kemst að þeirri niðurstöðu að eitt af undirstöðu vandamálum fátækari ríkja sé sá að eignarétturinn sé illa skilgreindur.

Margir halda því oft fram að fátækt fólk í löndum einsog Brasilíu geti varla bjargað sér og að eina leiðin til að hjálpa sé að senda peninga eða matargjafir. Það er hins vegar stór misskilningur. Ég veit ekki hvort fólk geri sér almennt grein fyrir því, en fátækt fólk í löndum einsog Brasilíu er eitthvað það framtaksmesta í heiminum. Eina, sem maður þarf að gera, til að sannfærast um þetta er að fara í rútuferð um landsbyggðina. Á hverju stoppi safnast fullt af fátæku fólki hjá rútunni og reynir að selja manni alls kyns dót, hvort sem það eru handunnir minjagripir eða sælgæti, en þessi sala er oftast ólögleg vegna þess að fólkið borgar engan söluskatt.

De Soto skrifar að aðalvandamál þessa fólks sé að eignarétturinn sé illa skilgreindur. Þannig að það sé til dæmis ómögulegt fyrir fólk að taka sér veðlán á húsinu sínu, vegna þess að húsin eru oftast ekki skráð neins staðar. Jafnvel þótt að húsin séu í fátækum hverfum, þá eru þau, samanlagt, mikils virði. Ef að fólk gæti tekið veðlán, þá gæti það fengið pening, sem það gæti notað til að fjárfesta í sinni eigin atvinnustarfsemi. Þetta myndi leiða til þess að vinna þessa fólks væri lögleg (sem hún ætti auðvitað að vera), það myndi borga sína skatta og ætti að geta rekið sitt litla fyrirtæki til góðs fyrir fjölskylduna.

Það sýnir sig nefnilega að jafnvel í löndum einsog Kúbu, þar sem sósíalismi er (að minnsta kosti að nafninu til) stundaður, að kraftur einkaframtaksins er gríðarlega sterkur í fólki. Þar var fyrir nokkrum árum heimahúsum leyft að taka á móti ferðamönnum, bæði í mat og gistingu. Auðvitað vildi strax fjöldinn allur af fólki setja upp slíka staði og borðaði ég oft í notalegum heimahúsum þegar ég heimsótti eyjuna.

De Soto nefnir einnig að reglugerðir geri fátæku fólki, sem vill stofna fyrirtæki, lífið leitt. Þannig tók það aðstoðarmenn De Soto 2 ár og yfir 100 heimsóknir á hinar ýmsu ríkisskrifstofur bara til þess eins að fá leyfi fyrir litlu kaffihúsi.

Ef þessu fólki væri auðveldað lífið aðeins, með því að skilgreina eignarétt þeirra og með því að fækka tilgangslausum reglugerðum, gæti kraftur eignaframtaksins svo sannarlega hjálpað mörgu fólki uppúr vonleysi fátæktarinnar.

11. september

Dagurinn í dag er nokkuð merkilegur. Í fyrsta lagi, þá eru liðin 29 ár síðan illmennið Agusto Pinochet rændi völdum í Chile. Svo á Elizabeth vinkona mín 21. árs afmæli. Síðan þá er eitt ár liðið frá því að ég setti met í uppfærslum á þessari síðu, þegar ég setti inn þrettán færslur (sjá 11.sept og 12.sept, sem er sami dagurinn á USA tíma).

Annars þá skrifaði ég aðeins um mína upplifun á 11. september og atburðunum þann dag í þessari færslu.

Ég man bara að á þessum degi þá fannst mér ég vera mikill bandaríkjamaður í mér. Mér fannst einsog þetta væri árás á mitt land og ég átti erfitt með að finna eitthvað að utanríkisstefnu landsins. Ég var einnig gríðarlega reiður þeim vefritum, sem byrjuðu á því að kenna utanríkisstefnu Bandaríkjanna um þennan atburð.

Ég hef reyndar fátt að segja núna ári seinna. Ég vona bara að dagurinn framundan verði ánægjulegri en 11. september fyrir einu ári.

Rumsfeld og Írak

Donald Rumsfeld er ekki mjög hrifinn af Saddam Hussein. Í þessari grein er því haldið fram að Rumsfeld hafi viljað ráðast á Írak aðeins fimm tímum eftir að fyrsta flugvélin hafði skollið á WTC turnunum.

Um þessa hugsanlegu árás á Rumsfeld að hafa sagt 11. september

Go massive

Sweep it all up. Things related and not.

Latur forseti

George Bush er með eindæmum latur maður. Það er allavegana sú ályktun, sem ég dreg af ýmsu, sem hann hefur gert eftir að hann varð forseti Bandaríkjanna.

Til dæmis nennti hann ekki að fara á ráðstefnuna í Suður-Afríku. Ekki vegna þess að hann hafði svo mikið að gera, heldur vegna þess að hann tekur sér alltaf frí í ágúst og vildi ekki breyta því.

Á Metafilter rakst ég á tengil á skemmtilega grein um Bush. Þar eru teknar saman nokkrar athlygisverðar tölfræðilegar upplýsingar um forsetann.

Dæmi:

Bush has spent a whopping total of 250 days of his presidency at Camp David (123 days), Kennebunkport (12) and his Texas ranch (115). That means Bush has spent 42 percent of his term so far at one of his three leisure destinations.

Einnig

To date, the president has devoted far more time to golf (15 rounds) than to solo news conferences (six). The numbers also show that Bush, after holding three news conferences in his first four months, has had only three more in the last 15 months — not counting the 37 Q&A sessions he has had with foreign leaders during his term.

Ég ætla að troða Múrnum inní þessa grein!

Múrinn er magnað vefrit. Meira að segja þegar þeir eru að tala um málefni, sem koma Bandaríkjunum nákvæmlega ekkert við, þá tekst þeim að tengja landið einhvern veginn við skrif sín.

Í grein um íslenskt heilbrigðiskerfi tekst þeim meira að segja að troða nafni bandarísks forseta í titil greinarinnar. Efni greinarinnar kemur Bandaríkjunum nákvæmlega ekkert við. Magnað!

Íhaldssöm ljóska

Ann Coulter er án efa einhver sá svakalegasti íhaldsmaður, sem ég hef nokkurn tíma séð í sjónvarpi. Hún var fastur gestur í talþáttum í Bandaríkjunum síðasta mánuðinn minn þar en hún var að gefa út bókina Slander: Liberal Lies About the American Right, þar sem hún telur upp dæmi um það hvernig vinstri menn í Bandaríkjunum stjórna öllum fjölmiðlum.

Ég hef lesið hluta úr bókinni, sem er hin besta skemmtun enda sakar hún saklausustu fjölmiðlamenn um að vera útsendarar illra vinstrimanna. Til að mynda ásakaði hún Katie Couric um að vera með stanslausan vinstri áróður í sínum þætti.

Coulter afrekaði það meðal annars í einum spjallþætti að ráðast á Bill O’Reilly frá hægri. Það er svona álíka og að ráðast á Guðna Ágústsson fyrir að vera á móti íslensku sauðkindinni. Þegar O’Reilly reyndi svo að spyrja hana erfiðra spurninga reiddist hún mjög og neitaði að tala um neitt nema bókina sína.

Annars hefur Coulter mælt nokkur gullkorn í viðtölum og fyrir það er hún átrúnaðargoð margra íhaldsmanna Í Bandaríkjunum. Í viðtali við New York Observer sagði hún m.a.

My only regret with Timothy McVeigh is he did not go to the New York Times Building

Vegna þessa og fleiri ummæla er Coulter orðin mjög umdeild í Bandaríkjunum og fannst pistlahöfundi Wall Street Journal tími til kominn að taka upp málstað hennar í pistli í dag. (Tenglar í boði Metafilter)

James Baker og Írak

Ágúst Flygering minntist aðeins á grein, sem James Baker, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna skrifaði í New York Times um helgina undir heitinu The Right Way to Change a Regime.

Í greininni gagnrýnir Baker þá áætlun GWB að ráðast inní Írak án þess að leita eftir stuðningi fleiri landa. Baker telur nauðsynlegt að fá stuðning Sameinuðu Þjóðanna en ekki bara Ísraels og Bretlands. Hann hvetur Bush til að fá SÞ til að setja Saddam Hussein úrslitakosti. Annað hvort leyfi Saddam vopnaeftirlitsmönnum inní landið án skilyrða eða ráðist verður á Írak. Ef að Saddam leyfir vopnaeftirlit í orði en ekki á borði, þá verði strax gripið til aðgerða.

Þrátt fyrir að þetta sé ekki fullkomið plan hjá Baker, þá er svo sannarlega meira vit í þessu heldur en því að láta Bandaríkjamenn ráðast eina inní landið. Staðreyndin er sú að Bandaríkjamenn hafa nægan hernaðarstyrk til að fara í þessa aðgerð einir en þeir verða að brjóta odd af oflæti sínu og leita eftir stuðningi hjá öðrum þjóðum. Annars munu þeir einangrast enn frekar í alþjóðlegum samskiptum.

Heræfingar á Múrnum

Þeir á Múrnum þreytast seint á því að skrifa um Bandaríkin. Í dag skrifar KJ grein um hernaðaræfingar Bandaríkjanna.

Það er nokkuð gaman að velta sér uppúr þessum æfingum. Á þessari æfingu þá átti bandaríski herinn að berjast við ófullkominn (tæknilega séð) her í landi, sem líktist Írak. Gömlum bandarískum hershöfðingja, sem stjórnaði óvinahernum, tókst hins vegar oft að snúa á hinn tæknivædda bandaríska her. Það er greinilegt að snjallir hershöfðingjar geta enn ráðið miklu í stríði, jafnvel við hátæknivædda heri. Sem dæmi um þetta þá er sagt frá atviki í grein The Guardian.

He sent orders with motorcycle couriers to evade sophisticated electronic eavesdropping equipment. When the US fleet sailed into the Gulf, he instructed his small boats and planes to move around in apparently aimless circles before launching a surprise attack which sank a substantial part of the US navy. The war game had to be stopped and the American ships “refloated” so that the US forces stood a chance.

Það er ljóst að bandaríkjamenn hafa nú kennt Saddam nokkrar nýjar hugmyndir til að beita gegn þeim.

Annars er myndin tekin úr skemmtilegri grein í The Onion: Gulf War 2: The Vengeance

Skæruliðar í Kólumbíu og Venezuela

Að sögn BBC hafa skæruliðar í Kólumbíu sprengt þrjár sprengjur í Bogota í dag, en í dag mun Alvaro Uribe taka við sem forseti landsins. Einnig er á BBC frétt um það hvernig vinstisinnaðir skæruliðar hafa fært sig yfir til Venezuela.

Uribe hafði það á stefnuskrá sinni að ráðast gegn skæruliðunum, en síðasti forseti Kólumbíu, Andres Pastrana reyndi allt hvað hann gat til að semja við FARC skæruliðana, sem og aðra hópa skæruliða, sem tilheyra bæði hægri og vinstri væng stjórnmálanna.

Ljóst er að Pastrana mistókst gjörsamlega ætlunarverk sitt, því ofbeldið hefur sjaldan verið verra og nú hafa skæruliðar að miklu leyti flutt starfsemi sína til stóru borganna, þar sem þeir geta gert mun mannskæðari árásir.

Það er erfitt að sjá nokkra lausn á vandamálum Kólumbíu aðra en lausn Uribes, það er að ráðast með fullu valdi á skæruliðana. FARC hefur hins vegar alltaf notið stuðnings furðulega margar vinstrimanna á Vesturlöndum. Það skýrist kannski helst af því að margir (og ég er kannski ekki alsaklaus af því) líta með rómantískum augum til Guevara, Cienfuegos, Castros og annarra ungra skæruliða, sem hétu því að berjast gegn óréttlæti í Suður-Ameríku. Í dag er það hins vegar ljóst að FARC eiga ekkert skylt við gömlu hugsjónir Ché Guevara og félaga heldur eru þetta morðingjar, sem gera allt, sem þeir geta til að hrella kólumbískan almenning.

Þrátt fyrir þetta þá var til dæmis FARC ávallt boðið að sitja ráðstefnur á vegum vinstrisinnaðra samtaka, svo sem World Social Forum (sem Múrsmenn hafa lofað í greinum sínum) sem telja sig vera mótvægi við samtök sem lofa alþjóðavæðingu að hætti vesturlanda. Reyndar þá hættu World Social Forum að bjóða FARC á ráðstefnu sína í fyrra, ekki vegna þess að þeir væru á móti morðum á saklausu fólki, heldur vildi samkoman ekki líta illa út eftir atburðina 11. september. (sjá grein í The Economist).

Önnur ástæðan er sú að margir vinstrimenn hafa varið aðgerðir FARC með þeim rökum að einnig séu til hægrisinnuð skæruliðasamtök, sem eru að mati margra (og efa ég það ekki) í mörgum tilfellum mun verri en FARC. Þetta er álíka gáfulegt og að styðja Stalín af því að Hitler var enn verri.

Það er hins vegar ljóst að það verður gríðarlega erfitt verk fyrir Uribe að uppræta skæruliðasamtökin. Bandaríkin hafa reyndar heitið honum stuðningi (ekki vegna þess að þeim sé annt um kólumbíska borgara heldur vilja þeir minnka útflutning á eiturlyfjum frá Kólumbíu). Hins vegar eru skæruliðarnir margir búnir að búa síðustu 10-20 árin (eða jafnvel lengur) í frumskógum landsins og þekkja því vel til allra aðstæðna. Einsog Bandaríkjamenn hafa fengið að kynnast þá getur verið erfitt að yfirbuga skæruliðasamtök.

Uppfært: Í dag segja BBC að 15 manns hafi látist og hafi flestir verið fátækir íbúar Bogota, sem er einmitt sá hópur, sem skæruliðar þykjast vera að hjálpa. Sjá myndir.