Word fyrir Mac

Þetta er versta forrit í heimi: Microsoft Word fyrir Mac.

word

Djöfulsins fokking síkrassandi horbjóður. Er fólk virkilega á launum við að skrifa þetta forrit? Hvernig í ósköpunum getur nýjasta útgáfan af þessu forriti krassað fimm sinnum á sama klukkutímanum? Og á endanum svo svakalega að fyrri björguð skjöl týnast líka?

Það að ég hafi eytt pening í þennan óþverra gefur fólki ærna ástæðu til að efast um gáfnafar mitt.

Ég vil fá þessa tvo klukkutíma AFTUR!

Vallingby, Vinsældir, Macworld og áramót

Ég er kominn til Stokkhólms. Hér er kalt. Skítfokkingkalt! En ég vissi það svo sem að þessir mánuðir yrðu kaldir.  Ég  er alveg til í að færa þá fórn til þess að fá almennilega sumarmáuði.

Er búinn að vinna einsog geðsjúklingur og sárvorkenni þeim sem eru í email sambandi við mig þar sem ég er búinn að dæla út verkefnum í allar áttir síðustu tvo daga.  Í dag fór ég til Vallingby þar sem staðurinn okkar er staðsettur og tók þessa mynd af staðnum með “teaser” merkingunum. Allt lítur þokkalega út og við ættum að geta opnað í kringum 21.jan einsog við áætluðum.

* * *

Vinsældir mínar á Blogg Gáttinni hafa hrapað. Í fyrra var ég í 14.sæti, en í ár er ég kominn niður í 58. sæti. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir egóið, en ég get varla búst við miklu, þar sem að færslum á þessu bloggi hefur fækkað um rúmlega helming á milli ári, aðallega á seinni hluta ársins. Kreppa segja einhverjir. Ég kenni kærustunni og meiri skemmtilegheitum um bloggleysið.  Mér fannst miklu skemmtilegra að blogga um það hversu lífið var erfitt og stelpur ömurlegar heldur en allt þetta skemmtilega.  Því fækkaði færslunum.  En núna þar sem ég er í öðru landi en nánast allir mínir vinir þá mun bloggunum eflaust fjölga.

Annars er athyglisvert að Liverpool bloggið er bara í 48.sæt á þessum lista þrátt fyrir að vera klárlega meðal 10 mest lesnu blogga á landinu. Það stafar aðallega af því að nánast allir sem lesa þá síðu fara beint inná slóðina, en ekki í gegnum Blogg Gáttina og að þar eru tiltölulega fáar uppfærslur á meðan að umræðan við hverja uppfærslu er.  Vinsælustu síðurnar á Blogg Gáttinni eru allar síður sem eru uppfærðar mjööög oft í viku.

En allavegana, ég axla fulla ábyrgð á þessu vinsældahruni. Hvernig ég axla þá ábyrgð veit ég ekki.

* * *

Annars var MacWorld í gær. Ólíkt Macworld 2006 (þar sem ég var sleeeefandi yfir iPhone) og 2007 (þar sem ég var slefandi yfir Apple TV), þá var eiginlega ekki neitt rosalega spennandi kynnt í gær. Phil Schiller var þarna í stað Steve Jobs og hann kynnti lítið spennó. Jú, nú selur iTunes lög án höfundarréttarvarna (sem mun væntanlega þýða að ég nota iTunes meira) og svo kynnti hann 17 tommu Macbook, sem ég hef nákvæmlega núll áhuga á, enda burðast ég með tölvuna með mér allan daginn og hef ekki áhuga á varanlegri vöðvabólgu í öxlunum.

Hann kynnti þó nýja útgáfu af iWork, sem inniheldur m.a. besta forrit í heimi, Keynote. Ég var að kaupa það og ákvað að uppfæra kynninguna mína fyrir morgundaginn með nýjum effectum, sem eru rosalega smart.  Ef ég fæ ekki einhver “úúú” og “aaaah” þá verð ég svekktur. Svo verður iLife uppfært í lok janúar og þar virkar iPhoto svo spennó að mig langar næstum því að skipta aftur úr Aperture.

* * *

Áramótin mín voru fáránlega skemmtileg. Ég var hjá bróður mínum í mat, skaupi og flugeldum. Eftir miðnætti héldum við félagarnir á Njálsgötunni svo ótrúlega skemmtilegt partí. Þar var ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki og það var spilað á gítar, dansað uppá borðum og stólum og drukkið langt fram eftir morgni. Ég rak síðasta fólkið út rétt fyrir átta um morguninn, sem var gríðarlega hressandi. Svona á að byrja nýtt ár.

Tölvudót

Nokkrir tæknitengdir hlutir, sem ég elska þessa stundina.

  • Gmail. Hljómar kannski fáránlega, en ég hef verið að uppgötva Gmail alveg uppá nýtt á síðustu dögum. Við keyrum allan Serrano póstinn á Gmail og höfum gert það lengi. Ég hef hins vegar notast við Mail.app á Makkanum og talið það á einhvern hátt vera betra en Gmail notendaviðmótið. Það var blekking hjá mér.

    Ég fékk mig fullsaddan í vikunni og ákvað að skipta yfir í Gmail viðmótið. Ég náði mér í Mailplane (sem að einfaldar hluti einsog “drag & drop” viðhengi og samskipti við Address book í Mac OSX, auk þess sem það býður uppá samhæfingu við OmniFocus) og tók mér smá tíma í að lesa um flýtiskipanirnar í Gmail – og eftir 15 mínútna grúsk er ég farinn að vinna svona 10 sinnum hraðar í Gmail heldur en ég var í Mail.app.

  • Text Expander. Ég er líka byrjaður að nota Text Expander á Makkanum mínum, sem er yndislegt forrit. Það sem það gerir er að þú getur sett inní það ákveðin textabrot, sem eru svo virkjuð úr hvaða forriti sem er með því að skrifa inn ákveðin orð. Þannig að til dæmis get ég skellt inn nafninu á fyrirtækinu okkar, fullu heimilisfangi og sænskri kennitölu (eitthvað sem ég er alltaf að nota í tölvupóstum) bara með því að skrifa inn “snltdk”. Þetta hljómar kannski ekki merkilegt, en þegar maður hefur komist uppá lagið með að nota þetta forrit þá skilur maður ekki hvernig maður komst af án þess.
  • iPhone. Og ég elska líka nýja símann minn. Það er svo sem ekki mikill munur á nýja iPhone og þeim sem ég rústaði heima á Íslandi. Einna helst er það GPS tækið í símanum, sem hefur hjálpað mér allnokkrum sinnum að undanförnu á labbi mínu um borgina.

    En málið er að aðstæður mínar hafa breyst umtalsvert hérna í Stokkhólmi og með því notkun mín á símanum. Í vinnunni minni hérna útí Stokkhólmi er ég talsvert meira á ferðinni og þegar ég er á ferðinni þá er ég ekki við stýrið á bílnum mínum einsog heima, heldur sit ég í strætó eða lest. Það gefur mér ótrúlega mikið af stuttum tímabilum þar sem ég get til að mynda skoðað nokkur email, lesið lengri greinar eða slíkt. Fyrir allt þetta er þessi sími ómetanlegur. Í raun myndi ég segja að minna en 10% af notkun símans míns væri til þess að hringja. Hin 90% eru til að skoða kort, svara tölvupóstum eða annað.

  • Gyminee. Já, og svo elska ég Gyminee til að halda utan um allar æfingarnar mínar. Langbesta kerfið, sem ég hef séð til að geta haldið utanum lyftingar, hlaup og alla aðra líkamsrækt.

Nýtt frá Apple

Nei, sko, iPod í skólalitnum mínum! Ég verð hreinlega að kaupa mér svoleiðis þegar að hann kemur út. 16 gb iPod Nano hljómar ekki illa.

* * *

Var að download-a iTunes 8 og verð að segja að mér líst rosalega vel á þær breytingar, sem gerðar hafa verið á uppsetningu forritsins og hvernig það presenter-ar plötur. Genius er ekki enn farið að virka, enda er tónlistarsafnið mitt mjög stórt og það tekur tíma að lesa yfir það.

Annars er það aðallega gleðilegt við iTunes að núna er hægt að kaupa sjónvarpsþætti í HD og að NBC er komið aftur inn, sem þýðir að ég get keypt The Office og loksins tékkað á 30 Rock. Ef ég bara hefði tíma.

iPhone 2.0

Ég er búinn að uppfæra iPhone símann minn í kerfi 2.0. Þökk sé Tobba, sem hafði þolinmæði í að ganga í gegnum hvert skref með mér í uppfærslunni. Þetta var ekki svo flókið, en þó festist ég alltaf í sama hlutanum.

Þessi uppfærsla breytir ansi miklu. Fyrrir það fyrsta, þá uppfærast dagatöl og kontaktar nú sjálfkrafa á milli tækjanna minna. Ég vinn á Macbook Pro fartölvu í vinnunni, á iMac borðtölvu heima og svo á iPhone þegar ég er á ferðinni. Núna uppfærast þessir hlutir á milli tækjanna sjálfkrafa, sem er gríðarlega þægilegt. Um leið og ég skrái einhvern atburð á dagatalið í símanum mínum, þá uppfærist dagatalið í tölvunum mínum sjálfkrafa.

(svona lítur síminn út eftir uppfærsluna)

Í öðru lagi, þá býður 2.0 kerfið uppá að maður geti keypt sér forrit í símann. Ég er strax búinn að setja inn nokkur skemmtileg forrit. Fyrst var auðvitað OmniFocus, sem að gerir mér kleift að sync-a OmniFocus listana mína á milli tölva og símans. OmniFocus á iPhone er einnig ótrúlega sniðugt því það veit hvar ég er stadur. Þannig að þegar ég er á skrifstofunni minni, þá veit forritið (af því að ég er búinn að kenna því hvar ég er) hvaða hluti ég á að gera þar. Þetta er nánast ólýsanlega þægilegt.

Auk OmniFocus sett ég inn Texas Hold Em póker leik frá Apple, sem er snilld og svo minni forrit einsog Remote frá Apple, sem gerir manni kleift að stjórna iTunes í tölvunni úr símanum og svo forrit fyrir Twitter og Facebook.

* * *

Helgin var algjörlega frábær. Fór útað borða á æðislegum stað, fór í sund í sólinni, borðaði ís, grillaði með vinum mínum, fór í frábært partí og á djammið, borðaði þynnkumat með vinum og eitthvað fleira. Þessi júlí mánuður er búinn að vera svo fáránlega skemmtilegur að það er með hreinum ólíkindum. Ég er búinn að setja nokkrar myndir frá helginni inn á Facebook.

* * *

Af fimm vinsælustu fréttunum á mbl.is, þá fjallar ein um Jessicu Simpson, önnur um stolið hjólhýsi og sú þriðja um Mercedes Club. Ég veit ekki hvort mér finnst þetta fyndið eða sorglegt.

* * *

Ég verð að játa að ég er alvarlega að spá í að kaupa mér nýja myndavél. Mín EOS 20D er orðin fjögurra ára gömul og þótt að hún sé vissulega enn frábær vél, þá fæ ég samt smá græjulosta við að skoða nýjustu Nikon vélarnar, hvort sem það er D300 eða D700. Það sem fer aðallega í taugarnar á mér við mína vél er hversu illa hún höndlar það að taka myndir í lítilli birtu. Það virðist vera einn af helstu kostunum við Nikon vélarnar hversu vel þær glíma við litla birtu.

Ég hef alltaf notað Canon, en er svo sem ekki fastur í mikilli fjárfestingu í því merki. Á ekkert flass og eina linsan sem ég á aukalega er 50mm linsa. Svo er ég á leið til Bandaíkjanna í ágúst og það gæti verið kjörið tækifæri fyrir slík græjukaup.

Hefur einhver reynslu af þessum Nikon vélum og veit hvernig þær eru miðað við mína vél?

Leti og iPhone

Ég er búinn að vera óvenju mikið heima hjá mér þessa vikuna. Útaf þessum hnémeiðslum þá var ég heima allan daginn mánudag og þriðjudag og svo hef ég lítið gert undanfarin tvö kvöld. Til viðbótar við það hef ég engar íþróttir geta stundað þessa vikuna. Það sem ég hef komist að er að þessi leti elur af sér frekari leti.

Þegar ég slepp við það að vakna klukkan hálf sjö til að fara í ræktina þá enda ég ekki á því að vaka lengur eða vera betur út sofinn, heldur fer það í akkúrat hina áttina. Núna er klukkan til að mynda ekki orðin 11 og ég er orðinn dauðþreyttur, hef hangið uppí sófa mestallt kvöldið gerandi ekki neitt. Ég veit ekki hvað það er, en ég tengi allavegana þessa leti við hreyfingarleysið.

Því get ég ekki beðið eftir helginni, þegar ég mun fara útúr bænum og næstu viku þegar ég get byrjað að hreyfa mig á ný.

* * *

Apple er búið að gefa út nýja iPhone útgáfu og ég get ekki beðið eftir að uppfæra, en það er samt ekki hægt alveg ennþá þar sem þá fer síminn hjá mér í rugl.

Ég er eiginlega bara spenntur fyrir þessu nýja iPhone kerfi af tveimur ástæðum. Fyrir það fyrsta, þá sync-ast dagatölin sjálfkrafa á milli tölvu og iPhone. Þetta er frábært fyrir mig, þar sem að sirka helminginn af mínum fundum og kontöktum er ég að breyta á símanum og hinn helminginn á tveimur mismunandi tölvum. Það er því nauðsynlegt að þetta uppfærist sjálfkrafa á milli tækjanna.

Einnig er ég spenntur að sjá hvernig forritin í iPhone verða. Til að byrja með veit ég um eitt forrit, sem mun beinlínis breyta minni vinnu en það er OmniFocus fyrir iPhone. Ég nota OmniFocus á Makkanum mínum til að skipuleggja gjörsamlega allt í minni vinnu. Þetta forrit hefur breytt því hvernig ég hugsa vinnuna mína og hjálpað mér gríðarlega. Eini gallinn er að forritið er á tölvunni minni og margt af því sem ég þarf að gera er ég að gera útí bæ þegar ég nenni ekki að taka upp tölvuna. Fyrir þannig atburði er OmniFocus fyrir iPhone nákvæmlega það sem ég þarf. Ég get ekki beðið eftir því að uppfæra og setja forritið inná símann minn.

Fyrir utan OmniFocus væri NetNewsWire sennilega forrit númer 2 sem ég myndi setja inn auk þess sem að Apple gáfu út nokkuð flott forrit, sem gerir manni kleyft að stjórna itunes á Makkanum eða AppleTV með símanum. Það lítur vel út.

Apple nýjungar

Jæja, kynningin hans Steve Jobs á Macworld er búin. Ég var að klára að horfa kynninguna á netinu. Kynningin var ekki jafn stór og í fyrra (iPhone) enda varla við öðru að búast. Jobs kynnti eftirfarandi:

  • Samblöndu af hörðum diski og Wi-Fi sendi, sem að Apple notendur geta notað til að taka þráðlaust afrit af gögnum á öðrum tölvum með Time Machine. Nokkuð sniðugt. Líkur á að ég kaupi: 50%
  • Nýjan iPhone hugbúnað með smá breytingum. Fyrir það fyrsta er hægt að ákvarða staðsetningu símans út frá GSM sendum (sem ég veit ekki hvort virki á Íslandi). Svo er iPod hlutinn aðeins bættur og hægt að endurraða táknmyndum á símanum. Kannski ekki alveg nógu merkilegt til þess að ég nenni að uppfæra símann minn. Ég er enn að bíða eftir forritum frá öðrum fyrirtækjum, sem ættu að koma í febrúar/mars.
  • Stærsta tilkynningin var eflaust nýtt Apple TV, sem að mun gera fólki kleift að leigja myndir í stofunni í HD myndgæðum. Þetta virkaði alveg rosalega skemmtilegt, en væntanlega aðeins ef maður er með bandarískan itunes aðgang, sem ég er með. Hægt er að leigja nánast allar nýjar myndir (margar hverjar í HD gæðum) og byrja að horfa á þær nánast strax í gegnum netið í fullum gæðum. Eina sem maður þarf er aðgangur að iTunes, Apple TV, þráðlaus sendir og sjónvarp. Engin tölva nauðsynleg. Virkar alveg rosalega sniðugt. Líkur á að ég kaupi: 100% (nema að FrontRow verði líka uppfært, þá gæti verið að ég myndi láta mér duga Mac Mini-inn sem ég er með í dag.
  • Svo kynnti Jobs þynnstu fartölvu í heimi, Macbook Air. Þessi tölva er innan við 1,95cm á þykkt þar sem hún er þykkust og 0,4cm þar sem hún er þynnst (Macbook Pro tölvan mín er 2,5 cm). Svo er hún bara 1,36 kg á þyngd á móti 2,45kg á tölvunni minni. Útlitið er líka mjög samt. Eeeen, ég sé samt ekki ástæðu til að uppfæra. Ég elska Macbook Pro vélina mína og þrátt fyrir að ég sé stanslaust með hana á ferðinni (þar sem ég er ekki með neina fasta skrifstofu) þá hefur mér aldrei fundist hún vera of þung eða stór. Líkur á að ég kaupi: 10% – en Apple á samt eftir að moka þessari tölvu út! (hún kostar um 63% meira en ódýrasta Macbook tölvan, en er líka 200 dollurum ódýrari en ódýrasta Macbook Pro tölvan.

Þannig að því miður kom ekkert iPhone þráðlaust sync, en restin af tilkynningunum var mjög í átt við það sem menn höfðu spáð.

Macworld á morgun

Núna er bara rétt rúmur sólahringur í að æðsti prestur okkar Apple nörda mæti á svið í San Francisco og prediki yfir okkur hvað við verðum hreinlega að kaupa á næstu mánuðum. Í fyrra voru menn nokkuð pottþéttir á því að Apple myndi kynna síma, sem og gerðist. Þann ágæta grip eignaðist ég ekki fyrr en í október, sem var auðvitað hræðilega langur tími frá því að ég sá hann í fyrsta skipti.

Í ár bendir flest til þess að Apple kynni nýja og litla fartölvu. Fartölvulínurnar Macbook og Macbook Pro (sem ég á) hafa haldist óbreyttar (fyrir utan aukinn hraða) í langan tíma, sérstaklega Macbook Pro. Hluti af ástæðunni fyrir því var eflaust skiptin yfir í Intel örgjafa, en Apple vildi hugsanlega gera eins lítið úr þeim skiptum og hægt var, þannig að kúnnar yrðu ekki hræddir við að uppfæra. Núna er það hins vegar löngu búið og því talið að Apple muni koma með nýjungar í fartölvulínunnim.

Einnig hlýtur Apple að tilkynna einhverja uppfærslu á iPhone, þar sem það er ár síðan að hann var tilkynntur og Apple er vant því að tilkynna uppfærslur á iPod línunni einu sinni á ári. Einhverjir telja að 3G komi í símana og að geymsluplássið verði aukið.

Ef ég ætti að velja mér óskalista núna, þá væri hann svona fyrir hluti sem ég tel líklegt að Jobs kynni:

  • Þráðlaust sync á iPhone. Þannig að þegar ég breyti einhverju í iCal, þá sync-i það sjálfkrafa við símann minn, líkt og það gerir á milli Makkanna minna. Þetta myndi vera gríðarlega mikilvægt.
  • Ég þarf í raun bara tvö forrit fyrir iPhone, en Jobs mun eflaust sýna einhver iPhone forrit á morgun. Ég vil endilega sjá almennilegan diktafón fyrir iPhone og svo OmniFocus (sem myndi auðvitað líka sync-a sjálfkrafa). OmniFocus á iPhone myndi umturna vinnunni minni til hins betra.
  • Litla Macbook Pro fartölvu (Macbook Air). Mun þynnri en Macbook Pro og án DVD drifs (sem enginn þarf hvort eð er). Með Flash minni, þannig að startup tíminn verði hraðari. Og einhvers konar endurskoðun á því hvernig við hugsum músina / Trackpad á fartölvum. Ég trúi varla að Apple komi með fartölvu með snertiskjá, en ég hef samt trú á að trackpad-inn verði stækkaður og gerðir að multi-touch eða eitthvað slíkt. Það verður allavegana einhver endurhugsun á því hvernig við notu fartölvur.

En allavegana, ég get ekki beðið.

Besta vekjaraklukka í heimi

Þessi hugmynd að vekjaraklukku er sú besta sem ég hef nokkurn tímann séð.

Pælingin er semsagt sú að vekjaraklukkan sé tengt við netið í gegnum Wi-Fi.  Þegar hún hringir og þú ýtir á “snooze”, þá gefur þú sjálfkrafa til einhverra málefna sem að þér er illa við að styðja.  Þetta er með ólíkindum snjöll hugmynd.  Ég er viss um að ég myndi algerlega hætta að ýta á snooze ef ég vissi að hverjar auka 10 mínútur af svefni myndu þýða rífleg fjárframlög til framsóknarflokksins.

iPhone

Jæja, 9 mánaða bið er á enda, ég er kominn með iPhone.

Bróðir minn er útí USA og hann keypti símann handa mér og sendi hann heim með vini sínum fyrir helgi. Í stað þess að vera á einhverju djammrugli í gær þá eyddi ég kvöldinu í að aflæsa símann og fá hann til að virka.

Það tók mig kannski svona 2- 3 tíma að fá þetta til að virka, en núna virkar hann nánast alveg einsog hann myndir gera í USA, bara með kort frá Símanum.

Ég er búinn að lesa og skoða svo mikið um þennan síma að það er fátt sem kemur mér á óvart. En hann er algjörlega æðislegur, án efa lang, langskemmtilegasti sími sem ég hef átt. Kannski er helsta geðveikin sú að hann kostaði mig minna (25 þúsund) en flestir símar sem ég gæti fengið útí næstu búð hérna heima. Hann er til að mynda um 10 þúsundum ódýrari en u600 síminn frá Samsung, sem ég átti fyrir.

Fyrir Apple aðdáanda og Makka notanda einsog mig þá er þetta auðvitað bylting. Síminn sync-ar addressu bókina mína fullkomlega með myndum og öllu og það sama á við um dagatal og uppáhalds síður í Safari. Einnig er iPod-inn í símanum æði. Maður getur hlustað á tónlist á fullu, en svo þegar það kemur símtal þá lækkar tónlistin og maður getur svarað.

Það er eiginlega of margt gott við þennan síma til að lýsa því í stuttu máli. Ég hef allavegana ekki verið svona spenntur fyrir nýju tæki mjög lengi. 🙂