Springsteen, Serrano og Vista

Það er alveg ljóst hvað mun einangra iTunes, iPod og iPhone spilun hjá mér á næstunni. Enda er ágætt að fá smá hvíld frá Kanye.

Nýji diskurinn frá Kanye West er búinn að vera í ansi mikilli spilun hjá mér að undanförnu og get ég ekki annað en mælt með honum. Ég verð þó að segja að við fyrstu hlustun virkar Magic með Springsteen alveg rosalega vel á mig. Þetta er hressara rokk en á síðustu plötum, sem er gott mál.

* * *

Einsog einhverjir glöggir menn hafa sennilega rekist á í atvinnu-auglýsingum uppá síðkastið, þá erum við að fara að opna þriðja Serrano staðinn í september nóvember. Sá verður í Smáralind í því bili, þar sem áður var Wok Bar Nings. Það kom upp fyrir nokkrum mánuðum að Nings menn vildu hætta með Wok Barinn í Smáralindinni og höfðu þeir því samband við mig. Við höfðum verið að líta í kringum okkur með húsnæði á svipuðum slóðum og leist okkur því strax vel á þetta.. Samningaviðræður tóku tiltölulega stuttan tíma við Nings og svo Smáralind og í lok júlí var þetta allt orðið klárt.

Þessi staður mun að mörgu leyti marka tímamót í sögu Serrano, því þarna munum við í fyrsta skipti opna alvöru, stóran stað með okkar eigin sal. Í dag rekum við staði inná bensínstöð og á matarsvæði í verslunarmiðstöð, þar sem við höfum enga stjórn á umhverfinu sem fólkið borðar í. Í Smáralind höfum við hins vegar fullt vald yfir því hvernig staðurinn mun líta út, hvernig tónlist verður spiluð og almennt séð hvernig andrúmsloftið verður.

Við réðum því til liðs við okkur hönnuð, sem hefur teiknað upp heildarútlit staðarins, sem ég held að verði mjög smart. Við munum líka leggja áherslu á að þetta verði fjölskylduvænni staður en hinir staðirnir eru í dag. Vinna við breytingar á staðnum eru nú þegar hafnar, en hann mun verða mjög ólíkur því sem að var þegar að Nings var þarna inni. Stefnt er að opnun í byrjun nóvember.

* * *

Meðal annars vegna þessa og líka alls í kringum Síam hefur vinnan mín verið ótrúlega spennandi og skemmtileg að undanförnu. Eftir einn mánuð verðum við komin með 4 veitingastaði og ég er að gæla við þann draum að salan í desember á Serrano og Síam verði meiri en ársveltan fyrsta árið, sem við vorum með Serrano í Kringlunni. Þar sem við höldum uppá 5 ára afmæli Serrano eftir tæpan mánuð, þá eru þetta spennandi tímar.

* * *

Þegar við keyptum tölvu fyrir Síam bað ég um að fá Windows XP inná tölvuna hjá Nýherja. Eitthvað virðist það hafa klikkað hjá þeim og því kom tölvan með Windows Vista. Þvílíkur bévítans hroðbjóður sem það stýrikerfi er nú. Fyrir það fyrsta þá fokkar það upp Office pakkanum okkar og núna þarf ég að leita í 20 mínútur að tökkunum sem ég notaði áður og auk þess þá koma upp einhverjar endalausar spurningar frá stýrikerfinu hvort ég sé viss um hvort ég vilji gera þetta eða hitt.

Annars sé ég ekki annað að þetta sé bara XP með rúnuðum gluggum og leiðinlegu böggi. Ég mun seint skilja af hverju allur heimurinn er ekki búinn að skipta yfir í Apple tölvur. Ég játa það alveg að fyrir 5-6 árum var ég ekkert með neitt sérstaklega mikið sjálfstraust sem Makka aðdáandi, en í dag þyrfti að borga mér stórar fjárhæðir fyrir að vinna vinnu þar sem ég þyrfti að nota Windows vél.

Annars hefur iPhone-inn minn það bara ágætt.

Serrano kaupir Síam

Jæja, þar sem að Blaðið fjallar um þessi viðskipti í dag, þá er sennilega kominn tími til að ég bloggi aðeins um það sem hefur (ásamt öðrum spennandi verkefnum) haldið mér uppteknum síðustu vikurnar.

Við á Serrano erum semsagt búnir að kaupa veitingastaðinn [Síam](http://siam.is/) í Hafnarfirði. Þetta er lítill veitingastaður, sem á sér langa sögu. Hann hefur frá upphafi verið rekin af hjónunum, Stefaníu Björnsdóttur og Manit Saifa (sjá mynd af okkur ásamt þeim hjónum við eigendaskiptin). Stefanía hefur séð um afgreiðsluna, en Tim, sem er frá Taílandi hefur frá upphafi séð um eldamennskuna. Staðurinn var fyrst rekinn af þeim hjónum í Síðumúla undir nafninu Bangkok, sem var fyrsti taílenski veitingastaðurinn á Norðurlöndum (stofnaður árið 1985). Síðan hefur staðurinn verið rekinn niðrí miðbæ og núna síðustu 5 árin undir nafninu Síam í Hafnarfirði.

Við Emil (meðeigandi minn á Serrano) höfum lengi verið hrifnir af Síam. Ég hef verið mikill aðdáandi taílensks matar síðustu árin og aðeins fjarlægðin í Hafnarfjörð hefur gert það að verkum að ég hef ekki borðað oftar á Síam. Ég trúi því þó að þrátt fyrir aðra virkilega góða taílenska staði (einsog t.d. Krua Thai, sem er afbragð) þá sé maturinn á Síam besti taílenski maturinn á Íslandi.

Við eigendaskiptin hætta Tim og Stefanía að vinna á staðnum og því höfum við lagt gríðarlega þunga áherslu á að viðhalda öllum vinnubrögðum Tims í eldhúsinu, enda viljum við halda áfram sama gæðastaðli á matnum og hefur verið. Því höfum við verið með nokkra kokka í læri hjá Tim undanfarnar vikur til þess að allar uppskriftir og ferlar haldi sér. Síam hefur í gegnum árin eignast gríðarlega tryggan aðdáendahóp, enda maturinn frábær, og ætlum við að tryggja að þessir tryggu kúnnar muni áfram fá sömu góðu þjónustu og sama frábæra matinn og áður.

Unfanfarnar vikur höfum við líka unnið að talsverðum breytingum á staðnum, sem munu koma í ljós smám saman. Við höfum breytt um logo (gamla logoið má sjá [hér](http://siam.is/siam-gamaltlogo.jpg) og það nýja [hér](http://siam.is/) (logo-ið er hannað af Vatíkaninu). Við munum líka á næstu vikum fjölga borðum í sal, lengja opnunartíma, bæta merkingar á húsi og gera fleiri hluti, sem munu bæta þjónustuna við kúnna staðarins. Einnig munum við bæta við réttum úr smiðju Tim, sem að hafa ekki verið á matseðli, auk þess að kynna staðinn betur.

Seinna í mánuðinum munum við svo lengja opnunartímann. Í dag er staðurinn aðeins opinn frá 18-21 á kvöldin, en afgreiðslutíminn verður lengdur til 11.30-21.30, enda teljum við að það sé mikil eftirspurn eftir góðum mat í hádeginu á þessum slóðum.

Allavegana, ég hvet alla sem að lesa þessa síðu til að prófa Síam. Staðurinn er í Dalshrauni 11 í Hafnarfirði, á móti Gaflinum – í sama húsi og líkamsræktarstöðin Hress.

Opið á Serrano

Af gefnu tilefni vil ég auglýsa það hér með að Serrano á Hringbraut verður opinn alla páskana. Öll ESSO stöðin verður opin alla dagana, það er ESSO, Subway og Serrano. Tilvalið fyrir þá, sem eru í bænum og nenna ekki að elda. Semsagt, tilvalið fyrir fólk einsog mig!

Annars er ég akkúrat núna í einhverjum stórkostlegustu páska hreingerningum allra tíma. Er búinn að henda þvílíkt af drasli útúr íbúðinni og er núna bara að bíða eftir pabba, þar sem ég kem engu dóti í Nissan Almeru drusluna mína. Íbúðin mín er í rúst! Engu verður hlíft.

Serrano Hringbraut opnar

Jæja, okkur tókst víst að opna Serrano. Opnuðum klukkan 5 mínútur yfir 10 í morgun. Það er nokkur framför, því þegar við opnuðum Kringluna þá opnuðum við 5 tímum á eftir áætlun. Í morgun stóðst þetta hins vegar nokkurn veginn.

En það tókst líka með því að fólk var að vinna alla nóttina. Endalaust vesen með iðnaðarmenn olli því að við fengum í raun ekki staðinn útaf fyrir okkur fyrr en um 3 leytið á föstudaginn og höfðum því lítinn tíma til að innrétta staðinn, þrífa og elda mat fyrir næsta dag.

Ég var þarna allan daginn og svo var Emil og eitthvað af starfsfólkinu líka alla nóttina. Ég ákvað þó að fara að sofa um klukkan 2, en var mættur aftur á svæðið klukkan 8 og var þarna þegar við opnuðum. Ég get ekki séð annað en að þetta byrji mjög vel og það hefur verið gott að gera í allan dag. Ég er svona kominn yfir allra mesta stressið, en þori ekki ennþá að láta símann mjög langt frá mér. Hann hefur verið nánast límdur við eyrað á mér undanfarna daga.

Útlitið á staðnum er gjörbreytt frá því sem er í Kringlunni og ég er alveg fáránlega ánægður með það. Ég hannaði þetta með Vatíkaninu og hefur þetta að mínu mati heppnast ótrúlega vel. Núna þurfum við bara að fara í endurbætur á Kringlunni svo hún líti jafn vel út. Maturinn er enn sem komið er óbreyttur, en þó stendur til að prófa nýja rétti á næstunni.

En það er allavegana spennandi að vera búinn að opna og gaman að vita til þess að maður geti farið að sofa klukkan 1 á laugardagskvöldi vitandi að það sé ennþá opið á Serrano. Kringlan hefur auðvitað verið takmarkandi að því leyti að þar er lokað klukkan 7 á kvöldin og því nánast enginn kvöldmatur, en á nýja staðnum verður opið til 11 virka daga og 3 föstudaga og laugardaga, svo það er ekki lengur vandamál.

Tveir dagar í opnun


Þetta er hvorki meira né minna en fyrsta myndin, sem er tekin af mér og Emil fyrir framan Serrano stað. Við höfum rekið Serrano í 4 ár án þess að láta taka af okkur mynd saman.

En hérna er hún allavegana komin – við fyrir framan afgreiðsluna á nýjum Serrano stað á Hringbraut. Staðurinn mun opna klukkan 10 á laugardaginn.

Það er búið að vera rosalega gaman hjá mér að undanförnu við að klára mál tengdum staðnum. Í dag gerðist ansi mikið og útlitið að staðnum tók virkilega að mótast. Á morgun, fimmtudag munum við klára að stilla upp tækjum og svo er planið að taka prufu keyrslu á eldhúsinu á föstudaginn og opna á laugardaginn.

Við munum opna með 2 fyrir 1 tilboði á burrito og quesadilla bæði laugardag og sunnudag. Tilboðið gildir bara á Hringbraut og ég hvet auðvitað alla til að koma.

🙂

Hvað ert þú að gera þessa dagana, Einar Örn?


**”Hvað ert þú að gera núna, Einar Örn?”**

Ég hef sennilega ekki fengið margar spurningar jafnoft að undanförnu. Þessi spurning hefur sennilega tekið við af spurningum um hvað sé í gangi í ástarmálum mínum. Staðreyndin er auðvitað sú að ég hætti í vinnunni minni sem markaðsstjóri Danól síðasta sumar.

Það þýðir að ég var í raun “bara” í einni vinnu, sem er framkvæmdastjóri Serrano. Kannski hefur fólk svona mikið álit á mér, eða kannski finnst mönnum framkvæmdastjórastaða á veitingastað vera léttvæg, en fólk er oft ekki að kaupa það að ég sé “bara” að vinna í þessari einu stöðu.

Það er nefnilega pínu skrýtið að í þessu þjóðfélagi þykir það oft merkilegra að vera í skrifstofustarfi í stað þess að vera frumkvöðull. Í Bandaríkjunum er frumkvöðullinn kóngur. Hérna er orðið athafnamaður frekar notað í neikvæðri merkingu um fólk.

En ég tók fyrir nokkrum mánuðum þá ákvörðun að helga mig Serrano, allavegana í ákveðinn tíma. Ég og Emil höfum rekið þetta sem nokkurs konar hobbí síðustu 4 ár, en vorum komnir á þá skoðun að miðað við stærð staðarins og mikla velgengni, þá gengi það ekki til frambúðar – sérstaklega ekki ef við ætluðum okkur að ná fram þeim markmiðum, sem við vildum ná fram.

Þannig að ég hætti og helgaði mig Serrano. Það hefur þýtt að mestallan nóvember og desember mánuð hef ég oft staðið sveittur í eldhúsinu á Serrano í stað þess að sitja hreyfingarlaus fyrir framan tölvu einsog áður.

En mér þykir einfaldlega gríðarlega vænt um veitingastaðinn okkar Emils og vil sjá hag hans sem bestan og því finnst mér ekkert að því að ganga þar í öll störf sem þarf að ganga í.

Og það er kannski ekki úr vegi að tilkynna það hér að við ætlum í lok janúar að **opna nýjan Serrano stað**: Þessi staður verður á nýrri ESSO stöð sem er verið að byggja við Hringbraut. Þessi stöð er á milli BSÍ og Hljómskálagarðsins og stefnt er að því að opna þann 26.janúar.

Þetta þýðir að aðdáendur Serrano geta fengið að borða líka á kvöldin, en við höfum fylgt opnunartíma Kringlunnar, sem þýðir að við höfum hingað til lokað klukkan 7 marga daga vikunnar.

En allavegana, ég er orðinn verulega spenntur fyrir nýja staðnum. Við höfum á síðustu vikum verið að breyta nokkrum hlutum, sem að bæta gæði og þjónustu á staðnum og munum halda áfram að bæta staðinn á næstu vikum og mánuðum með nokkrum spennandi nýjungum. Ég er sannfærður um að þetta ár verði spennandi ár fyrir staðinn okkar.

Afmæli

Við á Serrano ætlum að fagna 4 ára afmælinu okkar á laugardaginn. Ég veit að eitthvað af fyrrverandi starfsfólki Serrano les þetta blogg og við ætlum einmitt að bjóða fyrrverandi starfsfólki á afmælið. Þannig að ef þú hefur unnið á Serrano og…

1. Varst ekki rekinn útaf því að þú sagðir okkur að amma þín væri dáin, þrátt fyrir að hún væri á lífi… eða
2. Sagðir ekki upp með sms skeyti fimm mínútum fyrir vakt… eða …
3. Hefur ekki kallað mig meira en fimm vondum nöfnum eftir að þú hættir…

…þá endilega hafðu samband við mig á einarorn@gmail.com og ég segi þér allt um það hvenær og hvar á að mæta.

Við viljum endilega sjá sem flesta! 🙂

Einar Örn klikkar

Í gærkvöldi fór ég með vini mínum á Óliver. Þar töluðum við um ýmis mál. Þar á meðal kvennavandræði mín og vinnu mína.

Ég sagði honum að mér þætti ég of oft taka með mér vinnuna heim og of oft eyddi ég kvöldunum í áhyggjur útaf vinnu eða í sjálfa vinnuna. Ég sagðist ætla að taka mér tak og bæta þetta. Einnig ætlaði ég að hætta að kíkja svona oft á netið.

Kvöldinu í kvöld (laugardagskvöld nota bene) hef ég eytt á netinu skoðandi hluti útaf vinnunni minni. Ég hef einnig talað í símann í sirka klukkutíma í kvöld útaf vinnu.

Þetta byrjar semsagt ekki vel. 🙂

Atvinna

Við á Serrano erum að leita okkur að starfsfólki í afgreiðslu í vetur. Þetta er semsagt dagvinna. Vaktaálag er sveigjanlegt og laun eru góð.

Ef þið hafið áhuga, eða vitið um einhvern, sem hefur áhuga – endilega sendið mér póst á einarorn@gmail.com – eða hafið samband uppá stað í síma 551-1754.

Smellið á auglýsinguna til að sjá stærri útgáfu