Down to the river

Samband mitt við Bruce Springsteen er býsna skrýtið. Bróðir minn var (er) mikill Bruce Springsteen aðdáandi og þegar ég var lítill og horfði upp hans, þá reyndi ég að komast inní tónlist Springsteen. Átti einhverjar plötur með honum, en var eiginlega fastur í Born in the U.S.A. og elskaði þá plötu útaf lífinu þegar ég var kannski 10 ára gamall.

Svo varð ég eldri og ákvað að Springsteen væri hallærislegur (og þá sérstaklega Born in the U.S.A.) og nennti ekki að hlusta á hann lengur. En fyrir nokkrum árum eignaðist ég The Rising, plötuna sem Springsteen samdi eftir 11.september og varð aftur hrifinn. Ákvað að gefa honum aftur sjens.

Og hef ekki séð eftir því.

Hef verið fastur í eldgömlu efni, sem Bruce samdi þegar hann var á svipuðum aldri og ég er núna. Einhvern veginn finnst mér ég geta tengt við svo margt af þessu, þrátt fyrir að okkar líf séu náttúrulega einsog svart & hvítt.

Allavegana, ég þekki ekki einn einasta mann á mínum aldri, sem fílar Springsteen, þannig að ég ætla að reyna að breiða út boðskapinn. Ég held að góð leið sé að byrja á uppáhaldslaginu mínu með honum, The River af samnefndri plötu:

The River – Bruce Springsteen – 4,8 mb – MP3 skrá

Þetta lag er hreint stórkostlegt. Ég fæ gææææsahúð þegar ég heyri í munnhörpunni í byrjun lags.

Her body tan and wet down at the reservoir

At night on them banks I’d lie awake

And pull her close just to feel each breath she’d take

Now those memories come back to haunt me

they haunt me like a curse

Is a dream a lie if it don’t come true

Or is it something worse

that sends me down to the river

though I know the river is dry

That sends me down to the river tonight

Fyrir byrjendur, þá mæli ég hiklaust með allri The River plötunni og svo Born to Run, en titillagið á þeirri plötu er einmitt annað uppáhaldslagið mitt með Springsteen. Gefið manninum sjens.

Bestu ár ævinnar?

Ég er svo rómantískur að jafnvel þær markaðsherferðir, sem ég stjórna, eru rómantískar. Það kalla ég afrek.


Ég er búinn að eyða þremur klukkutímum í gær og í dag í að skrifa eitt bréf. Það er erfitt að skrifa þegar maður er óviss um efnið eða hverju maður vill koma frá sér. Ég er ruglaður í dag…


Í Kastljósi í kvöld var viðtal við strák úr framhaldsskóla. Hann sagði: “Svo vita allir að bestu ár ævinnar eru árin í framhaldsskóla”.

Er það, já, virklega?

Ég átti samtal um þetta mál útí Amsterdam. Var spurður hvort ég teldi að árin mín í háskóla í USA (sem mér fannst reyndar skemmtilegri en framhaldsskóla-árin) yrðu í framtíðinni talin bestu ár ævi minnar. Ég sagði nei, ég væri ákveðinn í því að þau yrðu það ekki. Ég get hreinlega ekki lifað með þeirri hugmynd að skemmtilegustu ár ævi minnar séu liðin og get ekki skilið fólk, sem segir svona hluti.

Er það ekki algjör uppgjöf að sætta sig við slíkt? Að toppnum séð náð með dauðadrukknum krökkum á menntaskólaböllum á Hótel Íslandi?

Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég bögga vini mína oft með það að gera hluti. Ég er ekki sáttur við að lifa lífinu í að vinna, slappa af og kaupa nýtt parket. Ég verð eiginlega bara reiður þegar ég heyri þetta um framhaldsskóla árin og er ákveðinn í að afsanna þessa kenningu, þrátt fyrir að framhaldsskólaárin mín (sérstaklega seinni tvö) hafi vissulega verið frábær.

Mér finnst hins vegar fullt af fólki á mínum aldri vera búið að ákveða þetta og sætta sig við. Það er, að þetta hafi verið bestu ár ævinnar og engin leið til að bæta um betur. Það þykir mér sorgleg.

Embla.is

Embla er víst ný leitarvél, sem að okkar merki menntamálaráðherra opnaði fyrir einhverju síðan. Ég batt nokkrar vonir við að þetta yrði eitthvað skárra en leit.is. verð því miður að segja að ef að eitthvað er, þá held ég að þetta sé verri leitarvél en leit.is (uppfært (EÖE): ég er reyndar sannfærður núna um að hún sé betri en leit.is – það breytir ekki þeirri gagnrýni, sem hér fylgir)

Fyrir það fyrsta, þá heitir leitarvélin “Embla”, en á embla.is er hins vegar ferðaskrifstofa. Til að fara á Emblu, þarf maður því að fara á mbl.is/embla.

Ég tók nokkur tékk á leitarvélina og bar saman við leit.is

Prófaði fyrst leitarorðið “Serrano”. Á leit.is þá kemur serrano.is sem fyrsta niðurstaða einsog væri eðlilegt. Á emblu, þá kemur hins vegar serrano.is númer 11. Áður en að sú síða kemur upp koma nokkrar blogsíður, sem fjalla um Serrano. Sem betur fer, þá eru dómarnir jákvæðir, ólíkt því sem gerist þegar maður flettir upp Mcdonalds á Emblu eða Burger King.

(Þegar ég fletti í gegnum Serrano linkana rakst ég m.a. á þennan link þar sem ég er tilnefndur af ónefndum aðila sem Metró maður Íslands. Gríðarlegur heiður það.)

Ef ég ætla til dæmis að leita að Vesturbæjarlauginni, þá kemur mín eigin síða upp á leit.is, en á Emblu kemur umfjöllun Stefáns Pálssonar um laugina. Hvergi sést hins vegar heimasíða sjálfrar laugarinnar.

Í stuttu máli virðist þessi leitarvél vera alltof hrifin af bloggum, á kostnað þá þess sem bloggin eru að fjalla um. Ef ég skrifa færslu, sem heitir “Dominos er æði” þá er líklegt að sú færsla myndi verða hærra á listanum heldur en sjálf heimasíða Dominos. Ef mig vantar að panta pizzu á netinu (ef það er þá hægt), þá þyrfti ég að fara í gegnum 20 síður af bloggum um það hversu góðar eða vondar pizzurnar á þeim stað eru.

Ekki nógu gott. Ennþá eru engar leitarvélar, sem komast nálægt Google, jafnvel þegar að kemur að því að leita á íslenskum síðum. Mér er alveg sama þótt að leitarvélin “kunni íslensku” ef að niðurstöðurnar eru ekki nytsamlegar.

Breyting á server

Ég er að breyta um server á eoe.is og Liverpool blogginu. Því gætu þessar síður legið eitthvað niðri næstu daga.

Biðst velvirðingar á þessu. Vonandi gengur þetta fljótt yfir.

Djamm á Íslandi

Í gær fór ég á djamm í Reykjavík. Það hefði seint talist til tíðinda, nema að ég hef ekki djammað í Reykjavík í einhverja 80 daga. Vegna ferðalaga hef ég verið erlendis nær allar helgar síðan um miðjan ágúst.

Þannig að síðan ég djammaði síðast í Reykjavík, þá hef ég djammað í Mexíkóborg, San Salvador, Roatan – Hondúras, Livingston – Gvatemala, Cancun – Mexíkó, Köln, Liverpool og Amsterdam. Það er ágætis árangur að mínu mati.

En semsagt í gær, þá var starfsmannapartý hérna í Vesturbænum og eftir það fór ég niðrí bæ. Fór fyrst á Prikið og svo á Ólíver. Ég veit ekki hvað það er, en mér finnst Ólíver hafa breyst slatta mikið. Einhvern veginn virðist standardinn hafa hrapað og auk þess var plötusnúðurinn í gær (Svala Björgvins og einhver gaur, að mig minnir) á sterkum lyfjum. Þegar ég var á dansgólfinu kom m.a. einhver hryllileg syrpa af íslenskum klysjulögum.

Einnig eru klósettmálin í algjöru rugli. Ég þarf að fá næði þegar ég pissa og því get ég ekki pissað í pissuskálar. En hins vegar þá virtust þeim, sem voru inni á klósettunum tveim, líða býsna vel. Ég þurfti því að bíða í um 10-15 mínútur eftir að komast að. Þegar að loksins annað klósettið opnaðist þá komu *tveir* gaurar út og voru alveg brjálaðir yfir því að fólk skyldi vera að banka á hurðina. Þeim fannst greinilega fullkomlega eðlilegt að vera þarna tveir inni í þennan tíma.

Ekki batnaði ástandið þegar að gaurinn, sem fór næstur inn var svo fullur að einhvern veginn tókst honum að rífa niður hurðina af klósettinu þegar hann hékk í henni. Þá ákvað ég að þetta væri komið gott og að ég gæti haldið í mér lengur. Þegar ég kom hins vegar upp aftur, þá var fólkið, sem ég var með, farið burt. Hafa sennilega haldið að ég hefði verið stunginn af, enda ekki eðlilegt að eyða 20 mínútum á karlaklósettinu.


En annars, þá á ég eftir þetta kvöld og reynslu undanfarinna helgia, erfitt með að skilja af hverju útlendingar sækja í íslenskt næturlíf. Fyrir það fyrsta, þá sá ég umtalsvert meira af sætum stelpum í Amsterdam, Liverpool og Mexíkóborg. Einnig er hvergi hægt að dansa á íslenskum skemmtistöðum. Ég batt vonir við Ólíver, en þar er núna alltof troðið af fólki á gólfinu. Það að vera á dansgólfinu á Ólíver í gær líktist því helst að vera í mosh pit á Limp Bizkit tónleikum.

En þrátt fyrir þetta skemmti ég mér ljómandi vel á djamminu. Síminn minn var orðinn batteríslaus þegar að ég týndi fólkinu, þannig að ég ákvað að fara bara niður á Pizza King, þar sem ég keypti mér pizzu og fór svo heim.


Notaði vekjaraklukku-og-excedrin-þynnkutrixið mitt og hef því verið alveg þynnkulaus í allan dag. Er búinn að taka til og núna er íbúðin mín ýkt fín. Horfði svo á Man U vinna Chelsea (sem er gott) og fór svo uppí Kringlu, þar sem ég vann í nokkrum hlutum.

Ljómandi góður dagur.

Prófkjör

Það er eitthvað skrítið að koma yfir mig. Kannski eitthvað svipað og virðist vera að koma yfir [Möggu](http://maggabest.blogspot.com/2005/11/skipt-um-skoun.html). Mér líst nefnilega bara helvíti vel á Gísla Marten sem borgarstjóra. Nú hef ég aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn á minni ævi, en svei mér þá ef að ég myndi ekki freistast til að láta af því verða ef að Gísli myndi slá til. Kannski er þetta bara eitthvað stundarbrjálæði hjá mér og kannski mun ég eftir nokkra daga reyna að þræta fyrir það að ég hafi nokkurn tímann skrifað þessi orð. En svona líður mér í dag.
Continue reading Prófkjör

Vinna og tónlist

Ég er gjörsamlega uppgefinn.

Annan daginn í röð hef ég unnið frá 8 um morguninn til 5 í venjulegu vinnunni og svo allt kvöldið á Serrano. Í gær var ég í vinnu frá 8-23 og í dag frá 8-21. Í gær var ég mættur vegna vesens, en við það fékk ég svo mikið af hugmyndum að ég ákvað að vinna í þeim í dag. Sem ég og gerði. Líður vel, þrátt fyrir þreytuna.

Einhvern tímann í háskóla festist ég í tölvuleik, sem mig minnir að heiti Caesar. Dálítið í anda Sim City. Að vissu leyti finnst mér það að reka veitingastað vera dálítið líkt því að spila þennan leik. Málið var nefnilega að í leikjunum einbeitti maður sér að því að laga eitthvert vandamál. Á meðan maður einbeitti sér að því vandamáli, þá spruttu hins vegar upp 10 önnur vandamál. Þegar maður var búinn að laga þau, þá var gamla vandamálið, sem maður hafði leyst, aftur orðið að vandamáli.

Þannig gekk þetta endalaust. Að stjórna veitingastað er ekki ósvipað. Þegar maður einbeitir sér að því að laga eitt vandamál, þá koma önnur upp. Þegar maður lagar þau, þá kemur gamla vandamálið upp aftur. Þessi rekstur getur verið ofboðslega skemmtilegur (og er það að mínu mati 95% tímans), en líka svo ofboðslega frústrerandi þegar að maður þarf að endurtaka sömu hlutina aftur og aftur og svo kemst maður að því að vandamál, sem maður hélt að væru endanlega leyst, eru aftur orðin vandamál.

En svona er þetta. Merkilegt hvað ég hef þrátt fyrir allt gaman af þessum veitingastað.


Annars, þá var ég á labbi á laugaveginum fyrir einhverjum dögum og rataði inní Skífuna. Ætlaði að kaupa mér Cardigans diskinn (sem verður bæ ðe vei æ meiri snilld með hverri hlustun). Sá diskur var ekki til, en af einhverjum ástæðum fannst mér einsog ég þyrfti að kaupa eitthvað. Við kassann rakst ég á nýja diskinn með Hjálmum og keypti hann.

Allir (og ömmur þeirra) hafa verið að dásama þessa hljómsveit. Furðulegustu vinir mínir hafa talað um hana og fyrsta diskinn þeirra. Þetta lof fannst mér hálf skrítið, því ég sá ekki alveg appealið við sveitina. En á Snoop Dogg tónleikunum, þá heyrði ég 3 lög með þeim og varð bara nokkuð hrifinn.

Allavegana, mér fannst það nóg til að kaup diskinn og ég verð að játa að mér finnst hann virkilega góður. Diskurinn er búinn að renna í gegn (skv. iTunes) 10 sinnum hjá mér og ég hef haft hann líka í bílnum og þetta er góð tónlist. Frekar rólegt, en grípandi reggí. Nánast öll lögin hafa smogið inní hausinn á mér á einn eða annan hátt. Ég held að ég geti mælt með honum fyrir alla, sem hafa ekki uppgötvað þessa sveit enn sem komið er.

Litli staðurinn okkar þriggja ára

Það er nánast lygilegt að hugsa til þess, en Serrano, litla barnið okkar Emils er orðinn þriggja ára gamall.

Fengum kort frá öllu starfsfólkinu í gær, sem mér þótti geðveikt vænt um. Annars var lítið gert í tilefni afmælisins. Við ætluðum að breyta alveg fullt af hlutum á staðnum, en sökum gríðarlegar þenslu á atvinnumarkaðinum, þá hafa starfsmannamál ekki reynst jafn auðveld og við hefðum óskað.

En breytingarnar munu koma, vonandi aðeins seinna í þessum mánuði. Ég mun kynna þær á þessari síðu, so stay tuned!

Stórt afmælispartý verður líka að bíða, þar sem að Emil er farinn til útlanda og verður úti í mánuð. Ég ætla því bara að halda lítið starfsmannapartý heima hjá mér á laugardaginn. Ég hef ekki djammað á Íslandi í margar, margar vikur, þannig að það verður ábyggilega gaman.

Annars, þá er hérna fyrir þá sem ekki sáu hana í fyrra, Saga Serrano. Í þeirri grein rek ég það hvernig Serrano varð til. Skrifaði söguna fyrir tveggja ára afmælið okkar.

En allavegana, til hamingju með afmælið. Öll þið, sem verslið við okkur reglulega: Takk!

Amsterdam

Kominn heim frá Hollandi eftir frábæra helgi þar. Veðrið var æði. Amsterdam er æði. Túristaðist einhvern slatta, fórum á Van Gogh safnið, markað í Bewervijk, djömmuðum á Leidseplein, löbbuðum meðfram síkjum, borðuðum indónesískan mat, reyndum að skilja hollensku.

Löbbuðum um Rauða Hverfið og virtum fyrir okkur misfagrar hórur. Var búinn að heyra allt um þetta hverfi, en samt brá mér við að sjá þetta. Drukkum bjór á bekk útá götu.

Amsterdam fyrir fullorðna er talsvert skemmtilegri en sú Amsterdam, sem ég man eftir sem barn. Svona borg sem ég væri alveg til í að heimsækja líka um næstu helgi.

Ég tók örfáar myndir í Amsterdam. Hérna eru þrjár þeirra. Smellið á myndirnar til að fá stærri útgáfu.

Ég við síki í Amsterdam

Ég sá hjól í Amsterdam!

Rauða hverfið

Laust starf í eldhúsi á Serrano

Mér leiðist að nýta þessa síðu sem auglýsingatæki, en ég er í vandærðum. Okkur á Serrano vantar *starfsmann í eldhús*.

Þetta er semsagt vinna frá klukkan 9-5 alla virka daga. Viðkomandi sér um eldhúsið á staðnum. Starfsmaðurinn þarf ekki að vera lærður neitt, en það hjálpar ef viðkomandi hefur reynslu af eldhússtörfum.

Serrano er skemmtilegur vinnustaður, þar vinnur fullt af ungu og skemmtilegu fólki. Vinnutíminn er góður, launin samkeppnishæf og yfirmennirnir eru algjörir snillingar. 🙂

Ef þú hefur áhuga, eða veist um einhvern sem hefur áhuga, láttu mig endilega vita. Okkur vantar starfsmann, sem getur byrjað að vinna strax. Þú getur sent mér tölvupóst og spurt nánar útí starfið og þú getur einnig komið og kíkt á staðinn. Við erum helst að leita okkur að framtíðarstarfsmanni, en við myndum einnig skoða ráðningu í styttri tíma.

Semsagt, okkur vantar starfsmann strax. Ef þú veist um einhvern, eða hefur sjálf(ur) áhuga, endilega sendið email á mig: einarorn@gmail.com, eða hringið í mig í síma 896-9577 eftir klukkan 18 á morgun þriðjudag eða aðra daga í þessari viku.