Punktar

Búinn að kaupa eftirfarandi:

1 farseðill til Baltimore. Brottför 31.ágúst klukkan 16.40. Heimkoma 4. október.

Kostnaður: **0 krónur + flugvallarskattur** = 7.550 krónur. Ég eeeeeelska Vildarpunktana mína. Elska þá!

Þá er bara að vona að Genni verði á staðnum. Ætla að bíða með að panta mér flug áfram til Mexíkó þar til ég kemst að því.


Ég er svo búinn að eyða síðustu klukkutímunum sitjandi á gólfinu með Sigur Rós í græjunum, farandi í gegnum kistuna mína. Kistan geymir öll gömlu bréfin mín, gamla minjagripi frá ferðalögum og slíkt. Takmarkið var að finna heimilisföng í Mexíkó hjá fólki, sem ég þekkti þar. Fann flest þau, sem ég ætlaði að finna.

Auðvitað þurfti ég svo að lesa mig í gegnum helminginn af bréfunum og hinu dótinu, sem var þarna líka. Minningarnar flæddu yfir mig. Mikið er þetta gaman.

You know that feeling you get

  • Ég þegar ég kom heim af djamminu
    á föstdudaginn

Orð fá því varla lýst hversu hræðilega þunnur ég var í gær.

Ég var vakinn klukkan 9, og svo aftur klukkan 9.15 og 9.30 vegna vesens uppá Serrano. Ein stelpan var veik og gekk illa að finna einhvern í hennar stað. Ég sé vanalega um slík mál, en þar sem ég hélt að ég væri *að deyja*, þá reyndi ég að koma mér útúr því.

Loks klukkan 11 kom ég mér uppúr rúminu, borðaði morgunmat og eyddi svo tímanum í eitthvað tilganslaust drasl áður en ég kom mér niður á Ölver til að [horfa á Liverpool](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/08/20/16.03.25/). Hamborgararnir á Ölveri eru ekki þeir bestu í heimi, en ég hélt þó að mér myndi líða betur við að borða hann. Hins vegar varð mér eiginlega bara óglatt og ég var nálægt því að fara heim í hálfleik. Það að ég sleppi því að horfa á Liverpool leik væri merkilegur hlutur. En ég harkaði þetta af mér.

Til að bæta gráu ofan á svart kom það svo upp að ég þurfti að vinna síðasta klukkutímann uppá Serrano. Starfsfólk staðarins lét mig vita að ég liti hræðilega út, svo sennilega hef ég ekki verið neitt sérstaklega hress í afgreiðslunni. Þegar ég var búinn að vinna fór ég heim og nánast beint að sofa. Var enn illt í maganum og með fáránlegan hausverk, þrátt fyrir að hafa borðað *6 Excedrin töflur* yfir daginn. Vaknaði við flugeldasýninguna og svo aftur klukkan 8 í morgun. Var þá *ennþá* með hausverk. Ég hef aldrei upplifað annað eins. Oh the humanity!


Ástæðan fyrir þessu öllu var að ég var í óvissuferð með vinnunni á föstudaginn. Við fórum á einhvern bóndabæ þar sem við kepptum í fulltaf þrautum og borðuðum svo í hlöðunni. Allt mjög gaman og ég skemmti mér ljómandi vel.

Fórum svo nokkur niður í miðbæ eftir þetta. Nánar tiltekið á Cafe Ólíver. Það er erfitt að gleyma fortíðinni í Reykjavík, smæð borgarinnar er oft nærri því óbærileg. Ég tel mig ekkert hafa verið með neitt rooosalega mörgum stelpum, en samt voru *tvær* stelpur, sem ég hef verið með, á sama tíma staddar á sama dansgólfinu. Fyrirgefið, en mér finnst það magnað.

Ég veit aldrei almennilega hvað mér finnst um það að hitta fyrrverandi á djamminu. Hvort er betra að þær líti æðislega út eða hræðilega. Ég hitti fyrir einhverju síðan stelpu, sem ég reyndi við en án árangurs fyrir talsverðum tíma. Þegar ég sá hana hafði hún breyst fáránlega mikið og ég gat ekki ímyndað mér hvað ég sá við hana einu sinni. Einhvern veginn þá leið mér betur við það. Veit ekki af hverju. Varla var það hreinræktuð illkvittni, en mér leið þó einsog við værum loksins *jöfn*.

Svo eru það fyrrverandi kærustur, sem eru enn fáránlega sætar. Veit ekki hvort er betra, að manns fyrrverandi líti vel eða illa út. Ef þær líta vel út þá getur maður sagt við sig: Vá, djöfull var ég góður að ná í þessa stelpu. En þá kemur líka svekkelsi yfir því að hlutirnir hafi ekki gengið upp. Ef þær líta illa út, þá getur maður verið feginn því að þetta hafi endað, en líka hissa á því hvað maður var að gera. Hef líka oft velt því fyrir mér hvernig þær líta á mig. Þegar ég kom heim, þá leit ég alveg ólýsanlega hræðilega út. Ég var við það að taka mynd af mér til að geta rifjað það upp hvenær á ævinni ég leit verst út. Ég held semsagt að það hafi verið klukkan 5.30 á laugardagsmorgun.

Og jájá, auðvitað snýst ekki allt um útlit.

But I digress.

Allavegana, ég skemmti mér nokkuð vel. Endaði svo einsog oft áður á Purple Onion. Labbaði svo heim. Þegar ég kom heim um klukkan 5 var skrítni kallinn í blokkinn inní ruslageymslu að skoða eitthvað. Hvað hann var að gera inní ruslageymslu klukkan 5 á laugardagsmorgni, veit ég ekki. Var að spá í að stoppa og spyrja hann, en hætti við.


Í dag vaknaði ég svo klukkan 8, enn með hausverk en er búinn að fá mér tvær Excedrin í viðbót og núna held ég að hausverkurinn sé loksins að fara. Það er gott, því ég er hroðalega leiðinlegur þegar ég er með hausverk.

10 dagar í frí… and counting.

Akstur undir áhrifum

Ég elska Ask MeFi. Ég kíki þarna reglulega og les spurningar og svör, því þar eru oft milljón gagnlegir hlutir. Hérna er spurt [hvernig sé hægt að mæla það hvort maður sé of drukkinn til að keyra](http://ask.metafilter.com/mefi/22791). Eitt svarið:

>Look around the bar and look for attractive women. If you think every woman you see is at least kinda hot… you are too drunk to drive.

Alger snilld!

Bensínverð

Ekki hef ég trú á að undirskriftarsöfnun muni lækka bensínverð á Íslandi. En öllu athyglisverðari er [þessi tafla yfir bensínverð í ýmsum löndum heims](http://money.cnn.com/pf/features/lists/global_gasprices/).

Dýrasti lítrinn á þessum lista er í Hollandi, en þar kostar gallon af bensínu 6,48 dollara. Hvað kostar gallonið á Íslandi? Jú **6,82 dollara**. Auðvitað erum við númer 1! Við erum langbest!

Gallonið í Venezuela kostar 0,12 dollara. Það þýðir að lítrinn af bensíni á bensínstöð í Caracas kostar rúmar 2 krónur (já, tvær krónur). Þegar að ríkisstjórnin í Venezuela ætlaði að hækka bensínverð þegar ég bjó þar, þá kveiktu rútubílstjórar í bílum og lokuðu götum, þannig að ég komst ekki í skólann. Mikið var það nú gaman.

Nýr sími. Jei!!!

Einsog glöggir lesendur hafa tekið eftir, þá hefur mig [langað í nýjan síma](https://www.eoe.is/gamalt/2005/06/14/23.21.24/) í talsverðan tíma. Jæja, í dags varð loksins af því að ég fékk nýjan síma

Ég hafði verið spenntastur fyrir Morotola Razr, en eftir að ég spjallaði [við netkærustuna mína](http://www.katrin.is), þá ákvað ég að kíkja á nýja Samsung símann. Og eftir smá pælingar, þá skellti ég mér á [Samsung E730](http://nordic.samsungmobile.com/eng/mobile_phone/sgh-e730/feature.jsp). Ég hef átt [E700 típuna](http://www.mobile-review.com/review/samsung-e700-en.shtml) í nærri tvö og var orðinn virkilega ánægður með Samsung. Ég varð að fá mér clam-shell síma og það virðist vera sem að Samsung séu með bestu línuna í þeim símum.

Allavegana, [nýji síminn](http://nordic.samsungmobile.com/eng/mobile_phone/sgh-e730/feature.jsp) minn er **yndislegur**. Hann hefur allt, sem mig hefur vantað. Hann lagar gallana í gamla símanum og bætir við alls konar dóti, sem ég vissi ekki að ég hefði nokkra þörf fyrir – og þrátt fyrir það er hann minni og léttari síminn minn. Ég á eftir að redda mér Bluetooth tengi fyrir Makkann minn til að sjá almennilega hverng myndirnar úr símanum koma, en mér sýnist þær vera virkilega skýrar og góðar. Svo tekur hann líka upp vídeó, sem mér finnst stórkostlega magnað og núna fæ ég öll mörkin með Liverpool send í símann.

Er ekki tæknin yndisleg? Ég elska ný tæki!


Já, og ég fæ gæsahúð þegar ég heyri byrjunina á Hoppípolla. Sigur Rós er æði!

Nýja Sigur Rósar platan

Ok, til að byrja með ætla ég að heita einu: Ég skal lofa því að ég ætla að kaupa nýju Sigur Rósar plötuna útí næstu Skífubúð þegar hún kemur út. Ok? Ég lofa.


Ég gjörsamlega get ekki skilið plötufyrirtæki. Nýja Sigur Rósar platan, Takk, kemur út 12. september. Ef ég ætlaði að vera heiðarlegur og versla bara við plötufyrirtæki, þá þyrfti ég semsagt að bíða í mánuð í viðbót eftir því að fá að hlusta á plötuna.

En hvernig á ég að geta gert það þegar ég veit að það tekur mig svona 5 mínútur að nálgast fullkomið eintak af plötunni ókeypis á netinu? Ég elska Sigur Rós. Þeir tónleikar, sem ég hef farið á með hljómsveitinni hafa verið með [bestu tónleikum ævi minnar](https://www.eoe.is/gamalt/2003/11/06/23.18.29/). Ég man enn skýrt eftir því þegar ég heyrði Popplagið í fyrsta skiptið á ævinni á tónleikum í Chicago. Ég hef sjaldan verið jafnhrifinn.

Síðasta platan endaði einmitt á Popplaginu og því hef ég verið fáránlega spenntur yfir því að hlusta á nýjustu plötuna. Ég væri til í að borga sanngjarnt verð fyrir að eignast hana strax í dag. Fokk, ég væri ábyggilega til í að borga ósanngjarnt verð fyrir hana í dag. Svo spenntur er ég að hlusta á hana. En hvers vegna gera plötufyrirtækin mér svona erfitt fyrir? Af hverju er ekki hægt að kaupa plötuna útí búð eða á netinu *núna*?

Ég vissi að á endanum myndi ég ekki geta staðist freistinguna. Ég varð hreinlega að ná mér í plötuna strax. Ég get ekki beðið í einn mánuð vitandi af því að hún *er þarna* á netinu. Það geta allir með internet tengingu náð sér í plötuna á ólöglegan og ókeypis hátt. En þeir, sem vilja vera heiðarlegir þufa að bíða í mánuð í viðbót. Það er hreinlega ekkert vit í þessu.

Allavegana, ég gat ekki staðist freistinguna og náði mér í plötuna með BitTorrent. Kaupi svo diskinn þegar hann kemur út, þar sem að útgáfan á netinu er bara 192kb MP3 skrá, sem er ekki alveg nógu gott. Og við fyrstu tvær hlustanir, þá er hún allt, sem ég vonaðist til. Hljómar alveg yndislega. Ég get ekki sagt almennilega hvernig hún verður eftir nokkra daga, en allavegana þá mun hún fá að njóta sín næstu kvöld. Ef eitthvað er, þá hljómar hún betur en ( ) til að byrja með.

Góð lög

Þetta eru æðisleg lög, sem ég er búinn að hlusta á alltof oft síðustu daga.

**What’s so funny about peace, love and understanding** – Elvis Costello. Alveg frá því að ég horfði á Lost in Translation, þá hefur þetta lag verið í uppáhaldi hjá mér. Bill Murray tók þetta lag á karókí bar í Tókíó. Einhvern daginn ætla ég að taka þetta lag á karókí bar í Tókíó. Sanniði til!

**Middle of Nowhere** – Hot Hot Heat. – Á föstudaginn vaknaði ég við þetta lag á XFM. Þegar ég kom inní vinnu goggle-aði ég textabrotinu, sem var fast í hausnum á mér. Nokkrum tíma hafði ég náð mér í lagið og núna er ég búinn að hlusta á það 25 sinnum. Skemmtilegt!

**The Asphalt World** og **The Two of Us** – Þegar ég var unglingur þá eyddi ég í einhverjar vikur mörgum kvöldum í að hlusta á Dog Man Star með Suede. Þessi lög ásamt Wild Ones voru í uppáhaldi. Af einhverjum ástæðum datt ég aftur í þessum pakka. Ekki tengt neinu sérstöku. Var bara að leita að rólegri tónlist og lenti á þessu.

**Forever Young** – Bob Dylan. Af því bara.

**Alabama** – Neil Young – Af því að á eftir Dylan er Neil Young mesti snillingur í heimi.

**Natural Beauty** – Neil Young – Sjá hér að ofan.

Ritstífla

Ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að skrifa um.


Var búinn að skrifa heillanga færslu um djamm. Og svo bara píng, ég fór frá (IBM far)tölvunni í smá tíma og hún bara slökkti á sér (útaf einhverri sjálfvirkri uppfærslu) og færslan datt út. Kannski voru þetta skilaboð…

Össur í borgina

Úr [Silfri Egils](http://www.visir.is/?PageID=539&NewsID=50654)

>Annar sem gæti komið til greina er Össur Skarphéðinsson. Hann er náttúrlega fyrsti þingmaður norðurkjördæmisins í Reykjavík – gamall borgarfulltrúi sem tókst á við Davíð í borgarstjórninni í eina tíð. Það er altént víst að borgarstjórakeðjan myndi sitja vel á Össuri – og svo hefur hann glaðbeitt og vinalegt fas sem minnir nokkuð á þann ágæta bæjarstjóra Bastían í fyrirmyndarsamfélaginu Kardimommubænum.

Væri þetta ekki snilld? Í alvörunni? Ef það yrði farið í prófkjör og [Össur](httP://ossur.hexia.net) væri í framboði, þá myndi hann pottþétt vinna. Ég held að R-listinn muni tapa kosningunum með Steinunni eða Stefán Jón sem borgarstjóraefni. En með Össur í þessu sæti, þá er ég sannfærður um að R-listinn myndi vinna. Yrði ekki gaman að hafa Össur sem borgarstjóra? Ég held það. Hann myndi án efa lífga uppá pólitíkina í borginni.

Össur í borgarstjórann. Hefjum herferðina *núna*!

Bush og olían

Mér finnst þetta fyndið:

[Bush vows to eliminate U.S. dependence on oil by 4920](http://www.theonion.com/news/index.php?issue=4132).