Stórkostlegur sigur Sjálfstæðisflokksins

Stjórnmálamenn geta verið magnaðir. Hvernig fara menn að því að túlka sjö prósenta tap, sem sigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

Munurinn á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki var fyrir fjórum árum var 14,1%. Hann er í dag 2,7%.

Allir flokkar töpuðu í kosningunum, nema Frjálslyndir og Samfylking. Frjálslyndir bættu við sig 3,2%, Samfylking bætti við sig 4,2%. Samfylkingin er sigurvegari kosninganna. Punktur.

Annars þá tala menn um að Framsóknarmenn séu með öll völdin í höndunum. Mér finnst að Davíð og Ingibjörg ættu að taka valdið úr þeirra höndum og mynda Viðreisnarstjórn. Þá væri gaman að lifa 🙂

Það er allt að fara til helvítis!!

Ó já, Davíð blessaður stóðst ekki freistinguna og spáði því að ef vinstri stjórn myndi komast til valda þá myndi allt fara til andskotans.

Annars var lokaræðan hjá Steingrími í kappræðunum rosalega flott. Verst að ég skuli vera svo ósammála honum um stjórnmál. Stundum langar mig að vera sammála honum, því hann er svo ótrúlega sannfærandi í umræðuþáttum. Parturinn um að þú værir einn í kjörklefanum og að hvorki atvinnurekandinn né Davíð gætu gert neitt var flottur. Ingibjörg var ágæt en Guðjón Arnar var hörmulegur. Ég bara hreinlega skil ekki af hverju einhver ætti að kjósa þann flokk.

Annars, þá leyfi ég mér að fullyrða að sólin muni koma upp á mánudaginn, jafnvel þótt að ríkisstjórnin falli.

Vá maður, pældu í þessum Úngu Sjálfstæðismönnum!

Ungir sjálfstæðismenn eru þjóðflokkur, sem fer oft alveg óheyrilega mikið í taugarnar á mér á stundum.

Þrátt fyrir að ég sé hægri maður og telji mig oft vera sammála þessum krökkum, þá er margt sem rýrir trúverðugleika þessa fólks.

Fyrst og fremst sú staðreynd að þeir gleyma alltaf sannfæringu sinni, hugmyndafræði og sjálfstæði nokkrum vikum fyrir kosningar. Þá ákveða ungir sjálfstæðismenn að þeirra hugmyndafræði skipti engu máli, heldur byrja þeir að apa upp eftir Davíð og þeirra helsta baráttumál verður að gefa ungu fólki bjór til þess að það kjósi örugglega flokkinn.

Einnig er það krónískur fylgikvilli þess að vera ungur sjálfstæðismaður að þegar viðkomandi kemst í áhrifastöðu, þá fá menn væg einkenni Alzheimer og gleyma öllu því, sem þeir hafa áður staðið fyrir, og breytast í gallharða íhaldsmenn. Þannig er Sigurður Kári strax búinn að gleyma því að hann studdi einu sinni frjáls viskipti og hefur þess í stað ákveðið að styðja ríkisábyrgðir og ríkisframkvæmdir Davíðs.

Helsta framlag ungra Sjálfstæðismanna í kosningabaráttuna í ár er svo núna fáránlegur hræðsluáróður í garð ESB aðildar. Þessi auglýsing er ótrúleg!!.

Í henni er gefið í skyn að Evrópusambandsaðild þýði að það verði jól á hverjum degi fyrir spænska, skoska og portúgalska sjómenn. Auglýsingin gefur í skyn að Ísland muni afsala sér öllum rétti yfir fiskinum í sjónum. Þetta er svo mikil della að það er ekki fyndið! Samfylkingin hefur ítrekað (kannski ekki nógu oft fyrir unga sjálfstæðismenn, þeir eru of uppteknir af hneykslast á því að Samfylkingin vilji að stjórnvöld eigi ekki að skipta sér af fyrirtækjum á Íslandi) sagt að grundvallarskilyrði fyrir aðild Íslendinga að ESB séu áframhaldandi áhrif yfir auðlindinni. Ef ekki tekst að semja um það, þá verður ekkert samið.

Þessi auglýsing endar á orðunum: Sumir stjórnmálaflokkar á Íslandi vilja ganga í Evrópusambandið. Pældu í því.

Ég ætla að búa til fleiri slagorð á svipuðum nótum, sem ungir sjálfstæðismenn gætu notað.

  • Sumum stjórnmálaflokkum á Íslandi finnst það í góðu lagi að veita einu fyrirtæki ríkisábyrgð fyrir 20 milljarða. Pældu í því!
  • Sumum stjórnmálaflokkum á Íslandi finnst það í góðu lagi að nokkrir áhrifamiklir kallar ákveði það að Ísland skuli styðja stríð í öðrum heimshluta. Pældu í því!
  • Sumum stjórnmálaflokkum á Íslandi finnst það í góðu lagi að setja kínverskt fimleikafólk í fangelsi á meðan að ríkisstjórnin tekur á móti kínverskum kommúnistaleiðtogum. Pældu í því!

Voto Latino!!

watcha-0032.jpgJæja, nóg um stjórmál í bili. Það er kominn föstudagur, veðrið er æði (allavegana þegar maður er inni) og ég er í góðu skapi 🙂

Ef þú ert ekki í góðu skapi, þá er ég með pottþétt meðal: Snilldarlag með hinni stórkostlegu mexíkósku hljómsveit Molotov

Þetta eru stórkostlegir snillingar og ég ætla að bjóða uppá þeirra besta djammlag, Voto Latino. Þetta eru svo miklir snillingar að þeim tekst að troða pólítískum áróðri inní djammlag.

You start to run yeah that,
figures ’cause I pulled my,
triggers on you,
brotherkilla man.
I’ll kick your ass yo mismo,
por supporting el racismo,
I’ll blow your head hasta la,
vista por ser un vato racista.
Qué sentirias si muere en tus brazos,
a brother who got,
beaten up by macanazos,
asesinos yeah es lo que son,
es la única raza que odio,
de corazón.

Þetta er náttúrlega Spanglish snilld!!!

Með þessu lagi fylgja eftirfarandi leiðbeininggar: Brenndu lagið á disk og taktu diskinn með þér í næsta partí. Þar skaltu setja diskinn á repeat í svona hálftíma. Eftir það munu allir vinir þínir elska þetta lag. Þetta virkaði hjá mér.

Voto Latino – MP3 – 5.45MB

Stórkostlegt!

Já, í tilefni 1. maí, þá ætla ég að brjóta elstu og helgustu reglu þessarar heimasíðu: Ég ætla að birta niðurstöður úr könnun, sem ég tók á netinu:

konnun.gifJamm, þetta er magnað. Ég er bara helvíti nálægt Nýju Afli. Kannski að ég kjósi þá bara. Nei, annars þá finnst mér stjórnmálaflokkur með gamlan framsóknarmann, sem talar um það að lækka útgjöld til utanríkisþjónustu, sem einhverja patent lausn á flestum vandamálum, ekki ýkja heillandi.

Samt, þá hefur mér alltaf fundist hinn kallinn, Jón Magnússon held ég að hann heiti, frekar sannfærandi í þáttum einsog Silfri Egils. Svona Sjálfstæðismaður, sem er óhræddur við að mótmæla skoðunum flokksforystunnar (en þeir menn eru nánast útdauðir).

Annars hélt ég að ég myndi skora hærra hjá Sjálfstæðisflokknum, en ég gerði. Kannski er það stefnan í skattamálum, sem vegur þungt enda er ég á móti þessum róttæku skattalækkunum íhaldsins. Það er annars skrítið að það er enginn einn flokkur, sem sker sig úr hjá mér. Kannski er könnunin byggð upp þannig. Svei mér þá, ef ég væri ekki svo ósammála Framsókn í landbúnaðarmálum, þá hefðu þeir ábyggilega bara verið efstir hjá mér. Það hefði sennilega leitt til þess að ég hefði fengið áfall.

Annars, þá er eitt sem mér finnst athyglisvert við þá vefleiðaraskrifara, sem ég rekst á: Það er að það virðist enginn styðja Samfylkinguna!!!! (fyrir utan auðvitað meistara PR) Þetta eru allt Sjálfstæðismenn eða Vinstri-Grænir. Ég held hreinlega að nær allir stuðningsmenn Vinstri-Grænna á landinu haldi úti bloggsíðum. Eða þá að þeir eru svo sniðugir að ég rekst ávallt inná síður þeirra.

Ég efast um að ég gæti nefn einn starfandi vefleiðarahöfund, sem hefur lýst yfir stuðningi við Samfylkinguna! Þannig að ég ætla bara að verða fyrstur.

Ég ætla að kjósa Samfylkinguna í kosningunum í vor. Og hananú!

Femínistaumræðan

Ja hérna, ræðan hennar Gyðu og mótmæli gegn batman.is og tilverunni eru bara orðin efniviður í Kastljósþátt. Áðan voru Haukur, formaður Frjálshyggjufélagsins og einhver kona úr femínistafélaginu, sem ég þekkti því miður ekki, gestir þáttarins.

Allavegana, þá í fyrsta lagi þá fór lokakomment femínistans í taugarnar á mér. Það var eitthvað á þá leið að: “alls staðar, þar sem konur hafa staðið uppog barist, þar hefur verið mótmælt”. Þarna er verið að gera rosaleg fórnarlömb úr þessum félögum úr femínistafélaginu. Ég er á því að flestir hafi mótmælt vegna þess að aðferðir og tillögur femínistana hafa verið öfgafullar, ekki vegna þess að menn séu á móti baráttu femínista. Það að menn mótmæli því að femínistar útbýti refsingum án dóms og laga, er ekki það sama og þegar menn mótmæltu kröfum femínista um kosningarétt eða annað slíkt á árum áður.

Það er líka annað, sem fer í taugarnar á mér í jafnréttisumræðunni (og er í raun ótengt efni Kastljós þáttarins). Það er þegar er verið að tala um jafnhæft fólk. Þannig að oft er dæmt í málum á þann veg að umsækjendur hafi verið jafnhæfir vegna þess að þeir hafi sömu menntun/reynslu.

Málið er einfaldlega að það að ráða fólk í vinnu snýst um svo miklu meira en hvort fólk hafi rétta menntun og reynslu. Langoftast (að ég tel) er það hvernig fólk kemur fyrir, hvernig það sér hlutina og hvernig það talar, sem hefur mest áhrif á val á starfsfólki.

Í fyrra þá sóttu einhverjir 20 nemendur úr hagfræðideildinni minni um starf hjá sama fjárfestingabankanum. Þeir voru allir með sömu menntun og allir með svipaða reynslu. Sá, sem fékk starfið fékk það ekki vegna þess að hann væri svartur eða strákur, heldur vegna þess að fulltrúar fyrirtækisins kunnu betur við hann. Kannski var hann skemmtilegri, eða örlítið klárari, eða með skírari markmið heldur en hinir. Þessa þætti er ekki hægt að mæla og því er ómögulegt að staðhæfa að tveir umsækjendur séu jafn hæfir.

Annars, þá líður mér nú ekkert alltof vel að vera að hamast á femínistum. Ég veit að systir mín yrði ekkert alltof ánægð með það. Ég er sammála mörgum kröfum femínista, svo sem að ekki sé mismunað á grundvelli kyns. Ég held þó að þetta félag sé, að mörgu leiti, á villigötum.

Unnur skrifar frábæran pistil um félagið. Ég efast um að það séu bloggarar á Íslandi, sem eru jafn einlægir í skrifum sínum og hún.

Femínismi og dómstóll götunnar

Þessar pælingar áttu upphaflega að birtast sem komment hjá Má en ég ákvað að setja þetta bara á þessa síðu. Þetta eru því viðbrögð við þessum skrifum hjá Má og þessum hjá Svansson.net.

Mér finnast þessir draumar femínistans Gyðu vera alveg ótrúlega magnaðir (ég hvet alla til að lesa draumana). Ég vil fyrst og fremst setja STÓRT spurningamerki við Veru drauminn:

Mig dreymdi Veru. Veru var boðið út að borða og í leikhús af Kunningja sínum. Kunningi bauð Veru síðan í kaffi heim til sín þar sem hann nauðgaði Veru. Vera fór upp á bráðamótttöku í leigubíl, öll rifin og tætt.

Þar hringdi hún í Ofbeldisvarnarhóp FEMÍNISTAFÉLAGSINS. Þau fóru saman heim til Kunningja og límdu miða á bílrúðurnar á bíl Kunningjans. Á miðunum stóð: SVONA GERIR MAÐUR EKKI?. Kunningi átti í mestu vandræðum með að ná miðunum af; þurfti að þola illt auga nágrannanna; á meðan hann skrapaði og skrapaði. Kunningi þurfti einnig að útskýra seinkun sína í vinnuna.

Þau biðu líka nokkur úr Ofbeldisvarnarhópi FEMÍNISTAFÉLAGSINS fyrir utan vinnustaðinn eftir að vinnutíma lauk. Kunningi komst ekki hjá því að sjá þau. Þau sögðu ekkert, horfðu bara á hann og hann vissi að þau vissu. FEMÍNISTARNIR voru viss um að skömmin og niðurlægingin hefði fundið sinn heimastað. Vera sat eftir með reiðina sem hún nýtti sér á uppbyggilegan hátt. Vera gekk til liðs við Ofbeldisvarnarhóp FEMÍNISTAFÉLAGSINS.

Þarna finnst mér á afar óábyrgan hátt vera að gefa það í skyn að konur eigi að taka lögin í sínar eigin hendur. Þarna er verið að hvetja til þess að þær ráðist á kynferðisafbrotamenn og reyni að niðurlægja þá á opinberum vettvangi.

Ok, áður en einhverjir bjánar telja mig vera að verja nauðgara þá vil ég náttúruega setja þann fyrirvara að svo er auðvitað ekki.

Jafnvel þótt að réttarkerfið sé ekki alltaf réttlátt þá er það ótrúlega óábyrgt í siðuðu þjóðfélagi að hvetja almenning til andlegs ofbeldi til þess að refsa mönnum fyrir gjörðir þeirra. Réttara væri að berjast fyrir úrbótum í réttarkerfinu.

Það er verið að fara útá mjög hálan ís þegar ákveðnir hópar í þjóðfélaginu telja sig hafa einhvern rétt til þess að dæma menn og deila út refsingum, sem þeir (þær) telja við hæfi.

Movable Type og Typepad

Þau Trott hjónin, sem eru snillingarnir á bak við Movable Type eru að fara að setja af stað blogg þjónustu, svipaða og Blogger, sem mun nefnast Typepad. Þetta mun verða þjónusta, sem notendur borga mánaðargjald fyrir. Þar mun fólk geta sett upp einfalt en fullkomið blogg, sem er vistað útí heimi. Þannig þarf fólk ekkert að hafa kunnáttu á PHP eða FTP eða Perl, sem er nauðsynleg til að fólk geti sett upp Movable Type, sem er án efa besta blogg kerfið í dag.

Ben Hammersley hefur fengið að prófa Typepad og hann skrifar um forritið í The Guardian. Þar segir meðal annars:

The features are remarkable: there is a very powerful, but extremely simple, template builder. Users can redesign their weblogs and create fully compliant XHTML pages, with out knowing what that last phrase means. There is a built-in photo album, built-in server stats, so you can see who is coming to visit you and from where, built-in blogrolling (listing the sites you like to read), and built-in listing for your music, books and friends, producing a complete friend-of-a-friend file for every user.

Þetta kerfi lofar mjög góðu og það verður spennandi að sjá hvernig þetta mun virka. Sennilega mun þetta ekki höfða til Movable Type notenda, þar sem þeir eru búnir að ganga í gegnum allt vesenið við að koma upp blogginu sínu, heldur fyrst og fremst þeirra, sem nota Blogger í dag en vilja bæta við eiginleikum við bloggin sín.

By the way, þá hvet ég alla, sem nota Movable Type til þess að leggja fram pening fyrir notkunina. Þau hjónin eiga það svo sannarlega skilið.