Sinatra

Hvað er betra á mánudagskvöldi heldur en að vinna tölvuvinnu og hlusta á Frank Sinatra?

Æji, ég gæti nú sennilega nefnt þúsund hluti. En Sinatra er sannarlega góður fyrir vinnuafköstin. Í tilefni þess að ég er búinn með vinnuna í kvöld þá býð ég ykkur uppá eðal Sinatra slagara:

Close to you (3.35 mb.) tekið af Close to You..and more frá árinu 1956.

Hrein snilld!

Ýmislegt

Nokkrir athyglisverðir molar, sem ég er búinn að merkja við undanfarna daga.

Getur einhver sagt mér af hverju yfirlýstur Sjálfstæðismaður fagnar auknum ríkisábyrgðum???. (via gunni.null.is)

Þetta er ótrúlega sorgleg frétt.

Spekingurinn Jason Kottke er með ansi athyglisverða pælingu um Bandaríkin: America 2.0

Fyndin frétt af The Onion

Bush Orders Iraq To Disarm Before Start Of War

Maintaining his hardline stance against Saddam Hussein, President Bush ordered Iraq to fully dismantle its military before the U.S. begins its invasion next week. “U.S. intelligence confirms that, even as we speak, Saddam is preparing tanks and guns and other weapons of deadly force for use in our upcoming war against him,” Bush said Sunday during his weekly radio address. “This madman has every intention of firing back at our troops when we attack his country.” Bush warned the Iraqi dictator to “lay down [his] weapons and enter battle unarmed, or suffer the consequences.

Og að lokum, snjall rússneskur stjórnmálamaður breytir nafninu sínu í Harry Potter til að fá fleiri atkvæði.

Egils.is

Jæja, þá er nýjasti vefurinn úr minni smiðju kominn í loftið, egils.is. Ég vann þennan vef algjörlega sjálfur, fyrir utan myndina á menuinu, sem er hannað af auglýsingastofu.

Ég er bara nokkuð stoltur af vefnum, tel að hann sé nokkuð góður. Hann fylgir minni basic stefnu, að fyrirtækjavefir eigi að vera einfaldir í útliti og aðgengilegir. Þar eigi að vera hægt að nálgast allar upplýsingar á fljótlegan og einfaldan hátt. Ég tel að Flash og leikir og læti eigi miklu frekar heima á sérstökum vörumerkjavefjum, einsog þessum hér. Drop-Down menuið er hannað í Fireworks og Dreamweaver en annars er allur annar kóði handskrifaður í BBEdit.

Núna þarf ég að klára starfsmannavef Ölgerðarinnar, sem verður innri vefur fyrirtækisins. Þegar ég er búinn að því er ég hættur að taka að mér ný verkefni í vefmálum. Ég held að ég hefði gott af því að gera eitthvað annað á kvöldin heldur en að vinna.

Einsog ávallt þá eru öll komment um síðuna vel þegin.

Rumsfeld

Andúð á Bandaríkjamönnum fer stigvaxandi þessa dagana. Ég var í gærkvöldi að spjalla við Matt vin minn, sem er frá Bandaríkjunum en við kynntumst í Venezuela og við höfum ferðast saman bæði um Mexíkó og Kúbu. Hann átti snilldar komment um þessa umræðu:

I think you Europeans think too damn highly of us these days. You have to know that we are not all as nice as Donald Rumsfeld

Fujimori

Þrátt fyrir að ég sé alltaf að gagnrýna Múrinn á þessari síðu þá hef ég alltaf lúmskt gaman af því að fylgjast með þeim félögum. Einna skemmtilegast er að þeim er annt um stjórnmál í löndum, sem fá litla sem enga umfjöllun hér á Íslandi.

Síðast voru þeir að fjalla um Alberto Fujimori, fyrrverandi forseta Perú. Nú hefur Perústjórn gefið út ósk um að hann verði framseldur. Japanir virðast hins vegar ekki ætla að verða við því. Fujimori er afkomandi japanskra innflytjenda í Perú og hann býr nú í Japan.

Fujimori er ansi merkilegur karakter og ég hef löngum haft mikinn áhuga á honum. Allt byrjaði þetta þegar ég var skiptinemi Í Venezuela árin 1995-1996. Þar bjó ég hjá perúskri fjölskyldu. Þau höfðu flutt frá Perú vegna stöðugs ófriðar þar í landi, sem var aðallega tilkominn vegna hryðjuverkasamtakanna Sendero Luminoso. Fjölskyldan mín ákvað að fara til Venezuela til að komast í friðsælla umhverfi. Snillingurinn Hugo Chavez hefur reyndar séð til þess að sá draumur hefur orðið að martröð síðustu ár.

Allavegana, þá var fósturpabbi minn í Venezuela gríðarlegur aðdáandi Fujimori. Hann dýrkaði hann fyrir það afrek að hafa tekist að uppræta samtök hins Skínandi Stígs. Fujimori tókst með því að gera Perú talsvert öruggara land. Síðla árs 1995 kom Fujimori svo í opinbera heimsókn til Venezuela. Þar sem við vinirnir vorum hættir að mæta í skóla á þeim tíma ákváðum ég og Erik frá Noregi að hitta Fujimori og spjalla aðeins við hann. Við redduðum mynd af honum og ætluðum að fá hann til að gefa okkur eiginhandaráritun enda taldi ég, eftir allar lofræðurnar frá fósturpabba, að Fujimori væri mikill öðlingur.

Leitin að Fujimori

Við Erik röltum því uppað forsetahöllinni í Caracas, þar sem við spurðum verði hvort við mættum ekki heilsa uppá Fujimori. Þeir sögðu okkur að við mættum ekki fara inn fyrir hliðið en bentu okkur á að Alberto myndi fara seinna um daginn í perúska sendiráðið. Við fórum þangað en þar var ekkert í gangi, svo við fórum aftur uppað höllinni og spjölluðum við hina vingjarnlegu verði. Meðan einn þeirra var að tala við okkur kom annar yfirmaður og sagði okkur að drífa okkur inní varðarkofann því að Caldera (forseti Venezuela) væri að koma í bílalest að höllinni. Við drifum okkur því inn og héldum áfram að spjalla við verðina.

Einn þeirra sagði okkur svo að við ættum að bíða hinum megin við götuna eftir Fujimori. Við fórum því yfir og þegar við vorum komnir þangað ákvað ég að smella einni mynd af forsetahöllinni. Þá varð alltíeinu allt brjálað og einhver hermaður kom hrópandi að okkur. Hann hrifsaði myndavélina af mér og sagði okkur að koma inn í einhvern skúr. Þar ásökuðu þeir okkur um njósnir og sögðu að við værum handteknir. Þeir leituðu svo í skólatöskunum okkar. Þeir spurðu okkur fulltaf spurningum og skoðuðu vegabréfin okkar. Eftir smá yfirheyrslu kom yfirmaður þeirra inn en hann ákvað að sleppa okkur eftir smá yfirheyrslu. Þeir báðu okkur þó vinsamlega um að koma aldrei aftur nálægt forsetahöllinni.

Við tókum því lest að einhverjum útimarkaði, þar sem Fujimori átti að vera. Við vorum með perúska fánann og vorum voða spenntir. Svo þegar Fujimori keyrði framhjá okkur veifuðum við perúska fánanum einsog óðir menn, og viti menn, Fujimori veifaði vingjarnlega tilbaka. Þá vorum við sko glaðir.

Reyndar komst ég síðar að því að Fujimori er ekki alveg eins góður kall og ég hélt. En þetta var samt skemmtilegur dagur.

Breytingar

Ég er aðeins búinn að vera að breyta síðunni hjá mér. Í fyrst lagi tókst mér að setja upp MySQL gagnagrunn til að halda utan um færslurnar. Hvað þýðir þetta fyrir þig, lesandi góður? Nákvæmlega ekki neitt. En þetta gerir mér lífið léttara, sérstaklega á þeim vefsvæðum, sem ég nota Movabletype til að halda utan um efni ótengt bloggsíðum.

Svo breytti ég líka tilvísanakerfinu, sem er á öllum síðunum með einstaka færslum. Þessar síður voru orðnar fáránlegar, þar sem leit.is var með alltof margar tilvísanir. Núna setti ég skilyrði að færslan þyrfti að vera heimsótt að minnsta kosti tvisvar til að tilvísinunin birtist.

Vá, hvað þetta er þurr færsla.

Ég ætla svo bara að bæta því við að ég hélt að ég myndi fá mun meira feedback á Davíðs færsluna mína. Greinilegt er að lesendur þessarar síðu hafa meiri áhyggjur af heimsmálunum heldur en ómerkilegu þvaðri á Íslandi. Það þykir mér reyndar gott.

Davíð, Ingibjörg og Baugur

Ég var svo reiður eftir samsæriskenningar Sigurðar Kára í Kastljósi í gær að ég ákvað að drífa mig í að lesa þessa blessuðu Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar. Ræðuna má nálgast á vef Samfylkingarinnar.

Ég er alinn upp Sjálfstæðismaður, varð róttækari með árunum í átt til vinstri en skoðanir mínar þróðuðust aftur í hægri átt þegar ég var í námi í Bandaríkjunum. Ég hef aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ég reyndi einu sinni að kjósa í prófkjöri hjá flokknum en gat það ekki vegna þess að ég átti afmæli degi of seint.

Ég er hins vegar alltaf að tapa meira og meira áliti á Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hefur gert ýmislegt í frjálsræðisátt síðustu ár og ríkisstjórn hans og Alþýðuflokks var góð. Ég hins vegar hef óbeit á mörgum hliðum flokksins. Ég þoli ekki foringjadýrkunina í flokknum. Ég þoli ekki að þingmenn hans komi í áramótaannálum og tilnefni allir Davíð Oddson sem mann ársins. Ég þoli ekki að flokkurinn skuli kalla sig hægriflokk en reyni svo hvað hann geti til að ná að komast til áhrifa í RÍKISútvarpinu. Ég þoli ekki að hann skuli kalla sig hægriflokk en veiti svo ríkisábyrgðir til stórfyrirtækja.

En þessi umræða síðustu daga hefur valdið því að eftir tvo Kastljósþætti hef ég verið öskureiður útí Sjálfstæðisflokkinn. Mér er reyndar nokk sama um þetta Baugsmál. Heldur virkilega einhver Sjálfstæðismaður að Jón Ásgeir hafi ætlað að múta forsætisráðherra?? Trúir því virkilega einhver?

Ef að Davíð hefur svona mikla óbeit á Baugi og þeirra viðskiptaháttum þá á Davíð að beita sér fyrir breytingum á leikreglum í viðskiptalífi. Þeir eiga EKKI að kvarta bara og kveina yfir því að Baugsmenn séu nógu snjallir til að nýta sér hvernig kerfið er byggt upp. Ekki sér maður George Bush kvarta yfir því að Wal-Mart sé að yfirtaka bandarískan matvörumarkað. Hann gerir sér grein fyrir því að leikreglur viðskiptalífsins gera slíkum fyrirtækjum kleift að ná góðri stöðu á markaði með því að vera óhræddir og vægðarlausir í viðskiptum. Ef Davíð vill stuðla gegn því að Baugur hafi góða stöðu á markaðnum ætti hann að skerpa leikreglurnar, ekki að gera lítið úr stjórnarformanni fyrirtækisins í þingsölum og í sjónvarpi.

Eftir allt, þá er okkur frjálst að velja hvar við verslum. Ef almenningur í landinu hefði eitthvað á móti Baugi þá myndu þeir hætta að versla í Bónus og Hagkaup. Það hefur almenningur ekki gert. Það er nefnilega þannig að þótt stjórnmálamenn reyni að hafa áhrif á fyrirtækin í landinu þá er það almenningur sem hefur mesta valdið. Davíð getur reynt að koma slæmu orði á Baug en bara almenningur getur virkilega skaðað Baug, með því að hætta að versla hjá þeim. Það hefur ekki gerst.

Borgarnesræðan

Og þá að ræðunni sjálfri. Ef marka má orð Sjálfstæðismanna hefði mátt ætla að Ingibjörg hefði endað ræðuna á “Bónus býður betur”, því þeir hafa gert svo mikið úr stuðningi hennar við Baug og Jón Ólafsson.

Hér er hins vegar kaflinn, þar sem hún talar um þessi fyrirtæki:

Í efnahags- og atvinnumálum hljótum við líka að leiða til öndvegis leikreglur hins frjálslynda lýðræðis. Okkur kemur ekkert við hvað þeir heita sem stjórna fyrirtækjum landsins eða hvaða flokki þeir fylgja að málum. Gamlir peningar eru ekkert betri en nýir.

og

Það má leiða að því rök að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækjum landsins sé ein aðalmeinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs. Þannig má segja að það sé orðstír fyrirtækja jafnskaðlegt að lenda undir verndarvæng Davíðs Oddssonar eins og það er að verða að skotspæni hans. Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum?

Hvar í andskotanum er einhver stuðningur við Baug í þessari ræðu? HVAR?

Það að biðja um að um að fyrirtæki séu ekki dæmd eftir því flokkslínum er alveg jafn réttlátt og að einstaklingar séu ekki dæmdir eftir kynþætti.

Útúrsnúningur Sjálfstæðismanna á þessu er óþolandi. Svona hagar sér ekki flokkur, sem segist hafa frelsi í atvinnulífi að leiðarljósi.