Hannes Hólmsteinn og 20. öldin

Ágúst Flygenring skrifar um 20. öldina hans Hanneser Hólmsteins (og hann vísar líka í aðra pistla um sama þátt). Þetta eru nokkuð skemmtilegir þættir, sérstaklega þar sem Hannes er lunkinn við að finna atriði, þar sem vinstri menn tjá skoðanir sínar, sem virðast nú mörgum árum síðar, vera hálf bjánalegar. Ekki hef ég enn séð neyðarlega upptöku af sjálfstæðismönnum í þessum þáttum. Ég efast stórlega um að það sé tilviljun.

Annars er það skemmtilegasta í þessum þáttum smáatriði, sem Hannes Hólmsteinn hefur greinilega pælt í. Til dæmis þegar fjallað var um það þegar Jón Ólafsson eignaðist hlut í Stöð 2, þá var þemalagið úr Guðföðurnum spilað undir.

Þegar fjallað var um sigur Davíðs Oddsonar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var hins vegar spilað sigurþemað úr Charoits of Fire. Engu líkara en að Davíð hefði verið að sigra á Ólympíuleikunum.

Small Earthquake in Chile. Not Many Dead

Jamm, ég vissi að það myndi koma grein á Múrnum, þar sem þeir myndu fara að kvarta yfir athyglinni, sem sjö látnir geimfarar frá Bandaríkjunum og Ísrael fengu í fréttum nú um helgina. Steinþór Heiðarsson tók að sér að skrifa grein, þar sem hann gagnrýnir athyglina og samúðina, sem geimfararnir og aðstandendur þeirra fengu.

Steinþór kemur svo með einhverja hallærislega upptalningu á því að fólk hafi dáið í öðrum löndum um helgina, án þess þó að það hafi talist fréttmætt. Þannig eigum við hin, sem vorum sjokkeruð þegar við sáum geimferjuna springa, að fá samviskubit yfir því að það sé fólk að deyja annars staðar í heiminum. Auðvitað eru slys misjafnlega fréttnæm. Það tekur líka meira á okkur að 10 Danir hafi dáið heldur en ef 10 Indverjar hefðu dáið. Það er bara fullkomlega eðlilegt. Það fengi líka meiri fréttaumfjöllun í Bangladesh ef 10 Indverjar hefðu dáið heldur en 10 Danir.

Ég leyfi mér líka að fullyrða að Steinþóri er nokkurn veginn sama um þá sem dóu í rútuslysinu í Zimbabwe. Hann hefði sennilega ekki hugsað meira um slysið nema vegna þess að honum vantaði eitthvað til að fylla þessa slysaupptalningu sína. Hann á því ekki að vera að setja sig á háan hest og skamma okkur hin fyrir að samhryggjast aðstandendum geimfaranna.

Uppfært: Sjá umræður hjá Bjarna um sama mál

Blogg, Verzló og stjórnmál

Vúhú, ég held að ég sé búinn að finna mér nýjan uppáhaldsbloggara, víst að Leti á neti virðist vera hættur. Nýja uppáhaldið er Svansson.net.

Guðmundur, sem heldur úti þeirri síðu er hagfræðinemi (fimm plúsar fyrir það) og svo er hann alveg lygilega góður í að finna hin ýmsustu deilumál milli bloggara, sem hann hefur svo lúmskt gaman af að blanda sér í. Hann skrifar reyndar ekkert um hagfræði, sem er mínus en það er þó fullt af gaurum, sem sjá fyrir því: 1 2.

Allavegana, þá er Svansson að benda á einhverjar deilur í mínum gamla skóla, Verzló. Þar sagði víst féhirðirinn af sér fyrir jól og hann virðist vera snillingur að dragast inní önnur deilumál innan skólans. Reyndar minnir þetta mjög mikið á svipuð mál, sem komu upp fyrir einhverjum 7-8 árum og Jens PR og Geir Gests skrifuðu um í 10 blaðsíðna grein, “Brestir og blóðug barátta”, sem birtist í 64. árgangi Verzlunarskólablaðsins, en ég sat í ritstjórn þess blaðs. Þá sögðu bæði féhirðirinn og forsetinn af sér vegna ásakana um spillingu (að mig minnir).

Allavegana þá á Stefán Einar í stöðugum deilumálum við aðra í skólanum og þá sérstaklega þá, sem vinna í nemendafélaginu. Sjá til dæmis umfjöllun hjá Svansson hér. Það er alveg lygilegt hvað Verzlingar taka þessa nemendafélagspólitík alvarlega. Ég var talsvert mikið í félagslífinu og hafði alveg ótrúlega gaman af. Ég hefði hins vegar aldrei nennt þessu ef að það hefðu verið stanslaus deilumál einsog virðast vera núna innan félagsins. Ég held að menn séu að taka sig full hátíðlega í þessum embættum. (n.b. Ég þekki ekki neinn aðila í þessum málum persónulega, ég hef bara lesið um þetta á netinu.)

Þessi færsla hjá Stefáni er til dæmis nokkuð mögnuð. Þar vitnar Stefán í einkasamtöl, sem ég held að menn ættu ekki að gera á bloggsíðum.

Blogg og stjórnmál

Það er annars eitt, sem ég var að pæla í. Það er nefnilega þannig að margir, sem hafa mjög vissar skoðanir á hlutunum og eru kannski sterkir í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna, eru með bloggsíður. Þar eru menn oft mjög óvægir í gagnrýni á stjórnmálamenn og aðra. Hvernig verður það ef þessir menn fara seinna á ævinni í framboð. Ætli þeir muni vilja eyða blogginu, þar sem þar leynast ábyggilega óþægileg ummæli

Stefán Einar virðist líta út einsog framtíðar stjórnmálamaður. Hann fer hins vegar mikinn í gagnrýni á alla vinstri menn, kallar þingflokksformann Samfylkingarinnar “ein allra óhentugasta konan sem komið hefur inn í pólitík á síðustu árum” og segir svo að Ingibjörg Sólrún sé “sjálfhverfasta manneskja stjórnmálanna”. Gæti ekki verið svo að þetta yrði notað gegn honum seinna meir?

Nú eru líka menn einsog Ármannn Jakobsson, sem eru nokkuð áberandi í stjórnmálaumræðunni. Hann var nokkuð hispurslaus á síðunni sinni og kallaði Samfylkinguna “búllsjitt” flokkinn, sem er sennilega ekki jákvætt ef að hann vill í alvöru koma á vinstri stjórn. Ármann áttaði sig hins vegar á því að vegna þess að hann er svona áberandi, þá byrjuðu alltíeinu blaðamenn að lesa síðuna og vitna í hana. Þeir, sem skrifa blogg í dag gætu hins vegar áttað sig á því seinna meir (þegar þeir eru kannski orðnir þekktari í þjóðlífinu) að bloggsíðan eigi eftir að innihalda pistla, sem gætu komið þeim illa.

Ég er viss um að þessi síða mín inniheldur fullt af ummælum, sem gætu komið sér illa seinna meir. Ég er hins vegar ekki á leiðinni í framboð.

Tengt þessu, þá er Bjarni með skemmtilegar pælingar um vægi stjórnmálaumræðu á bloggsíðum.

Starbucks og McDonald's

Ja hérna, ég hélt að ég hefði nág ágætis árangri með því að fara á McDonald’s
í öllum löndum Suður-Ameríku. Það er hins vegar ljóst að þessi gaur er alveg að toppa mig. Hann hefur farið á 3381 mismunandi Starbucks staði.

Ætli ég hafi ekki farið á um 30 mismunandi Starbucks staði í Bandaríkjunum, svo ég á greinilega langt í land. Úff, ég þarf að fá mér kaffibolla.

Mín skoðun

Það lítur kannski fullmikið út einsog ég sé stuðningsmaður George Bush eftir skrif mín á síðunni. Þess vegna vil ég taka eftirfarandi fram:

  • Ég tel að George Bush sé einn alversti forseti, sem Bandaríkjamenn hafa haft yfir sér síðustu áratugi. Í fyrsta lagi hafa efnahagsaðgerðir hans verið fáránlega vitlausar (skattaívilnanir handa þeim ríkustu til að auka hagvöxt) og svo er utanríkisstefna hans ekkert til að hrópa húrra fyrir. Einnig er mannvalið í ríkisstjórninni afskaplega hæpið og íhaldsstefna hans í ýmsum málum er áhyggjuefni
  • George Bush er samt langt frá því að vera versti leiðtogi í heimi. Það er þó vissulega mjög margt vitlaust í stefnu hans og framkomu. Það er samt með ólíkindum hvað George Bush er klár í því að fá alla uppá móti sér. Á ferli sínum sem forseti hefur hann ekki gert mörg mistök í utanríkismálum (það efast fáir um að Afganistan er betur statt nú en fyrir tveimur árum) en samt hefur honum tekist að fá hálfan heiminn á móti sér.
  • Margir friðarsinnar fara afskaplega mikið í taugarnar á mér. Það byggist fyrst og fremst á því að þeir mótmæla eingöngu þegar að Bandaríkjamenn eða Ísraelar gera eitthvað af sér. Samkvæmt þeim er allt illt í þessum heimi komið til vegna Bandaríkjanna. Þannig komst Pinochet aðeins til valda í Chile útaf Bandaríkjunum og Saddam Hussein er bara svona vondur vegna þess að Bandaríkjamenn studdu hann fyrir 15 árum. Það er ekki nóg fyrir friðarsinna að enda alltaf setningarnar á “jú og svo er Saddam auðvitað vondur maður”.
  • Ég vil að alþjóðasamfélagið geri eitthvað til að hjálpa kúguðum þjóðum. Það þýðir að þjóðir utan Bandaríkjanna verða að gera eitthvað. Það er einföld staðreynd að leiðtogar Frakklands og Þýskalands bíða alltaf eftir því hvað Bandaríkjamenn gera. Þá geta þeir staðið á hliðarlínunni og gagnrýnt. Það er mun auðveldara heldur en að gera eitthvað. Þessir lönd virðast vera fullkomlega ófær um að gera eitthvað varðandi vandamál í stríðshrjáðum löndum (JÚGÓSLAVÍA!)
  • Ef að Evrópubúar vilja virkilega gera eitthvað í málefnum Sádi-Arabíu, Ísraels eða hvaða lands sem er, þá er það augljóst að þeir annaðhvort þora ekki að gera neitt, eða að þessi heimsálfa er alveg gersamlega getulaus í alþjóðamálum.
  • Ég er á móti stríði við Írak. Eina lausnin, sem ég er æskileg (að mínu mati) á þessu máli er sú að Saddam Hussein fari í útlegð. Stríð er ekki góð lausn og það er heldur ekki góð lausn að Saddam Hussein fái að sitja áfram í friði. Ég er hins vegar á því að mörg Evrópulönd, sem eru andvíg aðgerðum Bandaríkjanna, verði að leggja til lausnir á því hvergnig hægt sé að koma Saddam Hussein frá. Þrátt fyrir að leiðtogar Sádi Arabíu og fleiri landa séu slæmir, þá nálgast þeir fáir illmennsku Hussein, sem hefur notað efnavopn á landa sína.

Britney Spears og Írak

Já, þökk sé leit.is þá virðist lesendahópur þessarar síðu (eða allavegana hópur þeirra, sem rekst inná þessa síðu fyrir slysni) vera nokkuð breiður. Þannig að af 8 nýjustu ummælunum á síðunni eru fjögur um Britney Spears og 4 um Írak.

Ummælin um Britney Spears eru náttúrulega stórskemmtileg. Þar dirfðist einhver stelpa, sem heitir Anna Gunna að halda því fram að Britney væri ömurleg en strax kom önnur stelpa henni til varnar og segir að Britney sé albesta söngkona heims. Ég þori varla að blanda mér í þessar umræður.

Hins vegar þá er ég hneykslaður á því hvernig einhverjum dettur í hug að kalla George Bush versta leiðtoga í heimi. Er andúðin á Bandaríkjunum virkilega svona mikil meðal fólks? Heldur einhver í raun og veru að það væri betra að lifa undir stjórn Saddam Hussein heldur en GWB?

Annars á Thomas Friedman mjög góða grein í NYT, sem Ágúst Fl. var búinn að vitna í. Ætla samt að vitna í hann líka

In short, we can oust Saddam Hussein all by ourselves. But we cannot successfully rebuild Iraq all by ourselves. And the real prize here is a new Iraq that would be a progressive model for the whole region. That, for me, is the only morally and strategically justifiable reason to support this war. The Bush team dare not invade Iraq simply to install a more friendly dictator to pump us oil. And it dare not simply disarm Iraq and then walk away from the nation-building task.

Things could be better, but here is where we are ? so here is where I am: My gut tells me we should continue the troop buildup, continue the inspections and do everything we can for as long as we can to produce either a coup or the sort of evidence that will give us the broadest coalition possible, so we can do the best nation-building job possible.

But if war turns out to be the only option, then war it will have to be ? because I believe that our kids will have a better chance of growing up in a safer world if we help put Iraq on a more progressive path and stimulate some real change in an Arab world that is badly in need of reform. Such a war would indeed be a shock to this region, but, if we do it right, there is a decent chance that it would be shock therapy.

Sjá meira hér

Sigurður Kári og Írak

Ja hérna, ég held að Sigurður Kári sé að breytast í minn uppáhaldsstjórnmálamann. Það er allavegana alveg ótrúlega gaman að horfa á hann í sjónvarpi. Hann virðist vera gjörsamlega ófær um að beita rökum og virðist mæta í sjónvarp í þeim eina tilgangi að verja stjórn Sjálfstæðisflokksins með öllum mögulegum ráðum.

Á Stöð 2 áðan tók hann meðal annars að sér að gera lítið úr þeim hörmungum, sem Agusto Pinochet olli með mannréttindabrotum sínum. Flosi Eiríksson, Samfylkingarmaður bar saman stjórn Saddam Hussein og Agusto Pinochet, þegar var verið að tala um stríðsáætlanir Bandaríkjamanna. Þar þuldi Flosi upp að Pinochet hefði látið pynta samlanda sína og að þúsundir manna hafi horfið. Sigurði Kára fannst þetta bara sniðugt og það eina, sem hann gerði var að hlæja alveg þangað til að þáttastjórnendur breyttu um umræðuefni og fóru að tala um handbolta.

Annars var annað, sem fór í taugarnar á mér í þessum þætti. Það var að Flosi beitti einhverjum meingölluðustu rökum gegn stríðinu í Írak. Það eru sú rök að það séu voðalega margir aðrir einræðisherrar í þessum heimi, sem Bandaríkjamenn gera ekkert gegn og þess vegna ættu Bandaríkjamenn ekki að ráðast á Írak. Þetta er náttúrulega algjört bull. Þetta er einsog að segja að lögreglan ætti ekki að handtaka morðingja vegna þess að það séu svo margir aðrir morðingjar, sem gangi lausir.

Það er líka eitt, sem vantar algjörlega inní málflutning friðarsinna. Það er, hvað við á Vesturlöndum getum gert til að hjálpa fólki í Írak? Er það ekki skylda okkar að hjálpa þessu vesalings fólki, sem á svo sannarlega ekki skilið illmenni einsog Saddam Hussein yfir sér. Vilja friðarsinnar bara að við látum sem ekkert sé, svo Saddam geti haldið áfram að kvelja landa sína? Hverjar eru tillögur þeirra?

State of the Union

Ég er nú ekki vanur að vera með gagnrýni á Bandaríkin eða stefnu þeirra á síðunni, en þetta er nú samt mjög fyndið og vel gert: State of the Union (ath. 6.1 mb. Quicktime skjal). via Metafilter.

Hmmm, meira af Metafilter. Svo virðist, sem að strákur hafi <a href="http://www.metafilter.com/mefi/22971"framið sjálfsmorð þegar hann var á ircinu. Þessi strákur tók víst einhvern haug af pillum á meðan hann var að spjalla við félaga sínu á netinu. Hérna er hægt að nálgast samtölin og svo eru hér <a href="http://www.dovee.org/post-ripperlog.txt"samtöl meðal hinna eftir að hann deyr. Vissulega óhugnalegt en það eru flestir sammála um að þetta sé ekki plat.

Ættfræði

Þessi ættfræðivefur er nokkuð skemmtilegur. Ég var að fá notendanafn mitt og kíkti á þetta núna rétt áðan. Ég hef nánast engan áhuga á ættfræði og ég hafði ekki einu sinni hugmynd um hvað langafar og langöfur mínar hétu.

Þetta er hins vegar mögnuð síða og á augabragði sá ég mjög skýrt hverra manna ég er. Basically þá er þetta blanda af fólki frá Vestmannaeyjum, Mýrum og einhverjum fleiri stöðum.

Ég prófaði svo að rekja mig saman við fólk, sem ég þekki. Ég komst að því að langa-langa amma mín og langa-langa-langa amma hans Jens voru systur. Foreldrar þeirra voru Þórður Pálsson og Björg Halldórsdóttir, sem bjuggu í Suður-Þingeyjarsýslu í kringum aldamótin 1800.

Já, og svo voru langa-langa-langa-langa-langa ömmur okkar Friðriks systur. Þær voru uppi á 18.öld.

Öllu skrítnar er kannski að langa-langa-langa-langa-langa-langa amma mín og langa-langa-langa-langa-langa-afi fyrrverandi kærustunnar minnar voru systkin. Foreldrar þeirra voru Guðmundur og Guðlaug, sem voru uppi í Hrunamannahreppi í kringum aldamótin 1700. Reyndar er þetta komið svo langt aftur að ekki er vitað hverra manna þessi Guðmundur var. En þetta er samt alveg magnað.

Ég prófaði svo að rekja ættir mínar sem lengst aftur. Ég komst að manni, sem hét Arnbjörn Salómonsson, fæddur um 1400.

Jamm, og svo er Jón Arason biskup langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa (10 sinnum) afi minn.

Greyið Hugó

Sverrir Jakobsson veltir því fyrir sér af hverju Hugo Chavez hafi ekki rétt til að sitja út kjörtímabilið einsog aðrir réttilega kjörnir forsetar.

Vissulega hefði Hugo Chavez fullan rétt til að sitja áfram ef hann hefði ekki misnotað sér vinsældir sínar jafn stórkostlega og hann hefur gert hingað til. Hann var réttkjörinn forseti en þær breytingar, sem hann hefur knúið fram síðan þá, geta nú seint talið lýðræðislegar. Hann notaði sér tímabundnar vinsældir sínar til að auka völd sín og framlengja kjörtímabil sitt.

Það er hæpið að líkja þessu saman við ástandið í Chile fyrir 30 árum. Það er aðallega vegna þess að það er mesta móðgun við Salvador Allende að líkja honum við Chavez. Allende var mun hófsamari (enda var hann ekki nærri því jafn vinsæll og Chavez) og hann misnotaði ekki völd sín líkt og Chavez hefur gert.

Hins vegar má Chavez alveg spila eins mikið baseball við Fidel einsog hann vill. Það skiptir ekki nokkru máli.