Ben Folds – Annar hluti

Við Hildur fórum að sjá Ben Folds spila í The Vic í gær. Reyndar mættum við aðeins of seint, þar sem við þurftum að bíða nokkuð lengi eftir borði á Mia Francesca.

Tónleikaferðin hans Ben Folds heitir því viðeigandi nafni “ben folds and a piano”, þar sem hann var einn á sviðinu allan tímann með píanóið sitt. Tónleikarnir voru frábærir. Folds er alger snillingur, því honum tekst að koma lögunum sínum frábærlega til skila án þess að notast við trommur né bassa.

Hann tók flest bestu lögin af nýju plötunni sinni, svo sem “Still Fighting It”, “Fred Jones part 2” og “Rocking the Suburbs”, sem að hét upphaflega “Korn Sucks”. Svo tók hann líka gömul lög einsog “Philosophy” og “Best Imitation of Myself”

Ben Folds

Í kvöld erum við Hildur að fara að sjá snillinginn Ben Folds, en hann er að spila í The Vic, sem er sami staðurinn og við sáum Air og Sigurrós spila.

Við ætlum að kíkja á ítalskan stað þarna rétt hjá fyrir tónleikana og kíkja svo á einhverja bari á eftir.

Yo no quiero Taco Bell

Partíið í gær var nokkuð skemmtilegt. Við sáum þegar við komum að fimm dollararnir (sem við borguðum fyrir bjórinn) voru til styrktar baráttu gegn Taco Bell. Partíið hét hvorki meira né minna en “Revolution Party”. Baráttan gegn Taco Bell er tískufyrirbrygði meðal nokkurra vina minna, vegna þess að Taco Bell borgar þeim, sem tína tómata fyrir þá, afskaplega lág laun og er vinnuaðstæðunum líkt við þrælahald. Sennilega gott málefni, ég hef ekki kynnt mér það nóg. Ég á þó nokkuð auðvelt með að sniðganga Taco Bell, þar sem mér þykir maturinn þar hræðilega vondur.

Allavegana, þá var partíið fínt og allir voða hressir.

Drukkið meðal sósíalista

Ég og Hildur erum að fara í Co-op partí á eftir. Það er partí haldið í co-op húsinu, sem er stórt einbýlishús, þar sem um 30 vinstri-sinnaðir Northwestern nemendur búa. Þar búa m.a. tvær vinkonur mínar, sem kusu báðar Ralph Nader. Það er nokkuð furðulegt að flestir vinir mínir hér eru mjög róttækir. Heima á Íslandi var ég alltaf talinn meðal vinstrimanna í mínum vinahóp. Ég held að allir mínir bestu vinir (-1) heima séu hægrimenn. Hérna er ekki einn vinur minn repúblikani

Margar eftirminnilegustu stundir mínar hér í Bandaríkjunum hafa verið tengdar þessum Co-op partíjjum. Spurning hvort eitthvað gerist í kvöld. Þarna er allavegana alltaf nóg af ódýrum bjór og einhverjum punch, sem er búinn til með EverClear (95%).

Ég held mig bara við bjórinn. Það er alltaf tunna niðrí kjallaranum, þar sem svona sextíu manns eru vanalega samankomnir í fimmtíu gráðu hita. Uppi er svo einhver hljómsveit, sem spilar í einni stofunni. Svo er það skylda í bandarískum háskólapartíum að það sé að minnsta kosti ein stelpa ælandi inní eldhúsi eða inná baði.

Quarashi í Bandaríkjunum

Snillingarnir í Quarashi, sem er að mínu mati besta íslenska hljómsveitin virðast eitthvað vera að meika það hérna í Bandaríkjunum. Þeir eru að gefa út disk 15.apríl og svo eru þeir að fara á tónleikaferð með einhverjum fleiri hljómsveitum.

Ég sá svo að þeir eru inná vinsældalistanum hjá einni af mínum uppáhaldsútvarpsstöðvum, Q101 (sjá hér, endilega kjósið þá). Q101 er stærsta útvarpsstöðin í Chicago að ég held.

Þeir eru líka með myndband við Stick ‘Em Up, sem er víst í spilun á MTV2 (ég er því miður bara með MTV). Myndbandið er flott.

Ég rakst líka á snilldar myndband, sem fjallar um þá fjóra. Þeir gera snilldarlegt grín af þeim ranghugmyndum, sem flestir hafa um Íslendinga. Alger snilld!

Fyrirlitning á frjálshyggju

Af einhverjum ástæðum er síðan Nöldur á RSS listanmum mínum, þannig að ég rekst þangað inn öðru hverju.

Ég held að ég hafi sjaldan lesið annan eins pistil og þann, sem Ragnar Torfi setur inn í dag.

Fyrirlitning þessa manns á öllu, sem tengist frjálshyggju er mögnuð. Hann legst niður á ótrúlega lágt plan með því að kalla þá, sem eru honum ósammála í stjórnmálum, öllum illum nöfnum, einsog: “Frjálshyggjuasnarnir, fæðingarhálfviti, Frjálshyggjufíflin, frjálshyggjuskrúðhænsni, frjálshyggjupáfuglar, frjálshyggjurugludallar, Frjálshyggjuaularnir, einfaldir, fáfróðir og vanhugsandi, heimska, frjálshyggjulúða og frjálshyggjufávita.” Svona pistlar eru náttúrulega ómarktækir.

Einnig segir Ragnar, sem býr víst í Banradíkjunum að menning í þessu landi sé: “að öllu leyti sú allra ömurlegasta lágmenning sem hægt er að ímynda sér”. Ég flokka þetta undir marklaust Evrópublaður um Bandaríkin. Það að halda því fram að engin menning sé í Bandaríkjunum er fásinna.

Hagfræði óskalisti

Þessi óskalisti á Amazon.com er alveg magnaður. Hann tilheyrir þessum manni.

Hvernig einhver getur haft svona svakalega mikinn áhuga á hagfræðikennslubókum er ofar mínum skilningi. Bara það að honum langi til að lesa ÞRJÁR mismunandi kennslubækur um hagtölfræði (enska: econometrics) er alveg hreint stórkostlegt.

Í alvöru talað, þá dáist ég að slíkum áhuga.

Kólumbía og gamlir kommúnistar

Ástandið í Kólumbíu þessa dagana er afar athyglisvert. Loksins, eftir þriggja ára samningaviðræður við FARC ákvað Andres Pastrana forseti að ráðast á bækistöðvar skæruliðana.

Fyrir rétt rúmri viku höfðu leiðtogar FARC samið við ríkisstjórnina um vopnahlé en aðeins nokkrum tímum seinna höfðu þeir sprengt sprengjur í borgum og rænt flugvél með þingmanni.

FARC eru gömul og afskaplega ómerkileg samtök. Einu sinni fyrir langa löngu börðust þeir einsog Ché og fleiri fyrir marxískri byltingu í Kólumbíu en sá draumur er löngu dauður og eyða þeir því tímanum aðallega við að smygla eiturlyfjum og ræna fólki. Pastrana gerði allt, sem hann gat til að semja um frið og gaf FARC meira að segja land á stærð við Sviss, þar sem þeir gátu verið í friði. Þrátt fyrir allt þetta hafa þeir svikið öll loforð um vopnahlé.

Í dag flaug Pastrana inná yfirráðasvæði FARC, tók niður FARC fána á aðaltorginu og henti honum í ruslatunnuna. Mjög táknrænt.

Vonandi að þessir 20.000 gömlu kommúnistar geti ekki haldið þessari ágætu þjóð í gíslingu lengur.

Líf síðustu daga

Það eru bara tvær vikur eftir af þessari önn, þannig að síðastu viku er búið að vera frekar mikið að gera. Ég er að vinna að BA ritgerðinni minni á fullu, og svo halda hagfræðikennararnir mínir mér við efnið með stanslausum verkefnum.

Allavegana, þá var síðasta helgi frekar viðburðalítil. Við Hildur fórum í partí á föstudeginum, sem var til styrktar Dance Marathon, sem er góðgerðarstarfsemi, sem Northwestern nemendur standa í einu sinni á ári. Þetta er reyndar þau góðgerðarsamtök, sem safna mestum pening af öllum samtökum tengdum háskólum í Bandaríkjunum. Allavegana, partíið var fínt, nóg af bjór, sem virtist aldrei ætla að klárast (og reyndar kláraðist ekki).

Ég var furðu daufur á laugardeginum, þannig að nánast gerðum við ekki neitt. Við fórum þó með vini mínum í bíó um kvöldið. Sáum In the Bedroom, sem mér fannst mjög góð. Nú vantar mér bara að sjá Gosford Park til að ég hafi séð allar myndirnar, sem eru tilnefndar til Óskarsverðlauna í ár.

Í vikunni gerðist nú ekki mikið. Jú, ég fór með Dan og Marie á körfuboltaleik, sáum Northwestern vinna Purdue. Þannig að draumurinn um “march madness” er ennþá lifandi í skólanum mínum. Þeir verða þó að vinna Illinois á morgun, þar sem ég verð á fremsta bekk, öskrandi einsog geðsjúklingur.

Rose og Chicago

Sjáið bara hvað Jalen Rose er ánægður með að vera fluttur til alvöru borgar.

Hann bjó í Indiana, sem mér finnst vera asnalegt ríki.

Ég hef reyndar ekki komið til Indianapolis, en vinkona mín sagði mér að það væri asnaleg borg.

Svo er ég líka þreyttur á að lesa um Notre Dame, sem lifir á fornri frægð.

Svo fengum við líka vondan mat á Denny’s í Indiana.

Þannig að Jalen Rose er bara heppinn að vera kominn til Chicago.

Svo týndi ég líka skónum mínum á einhverri brú í Indiana.