Takk fyrir það gamla og allt það.
Vonandi heldur maður áfram að nenna að skrifa á netið, því það er nokkuð spennandi ár framundan hjá mér. Vonandi útskrifast maður úr háskóla og fer svo á mikið ferðalag.
Takk fyrir það gamla og allt það.
Vonandi heldur maður áfram að nenna að skrifa á netið, því það er nokkuð spennandi ár framundan hjá mér. Vonandi útskrifast maður úr háskóla og fer svo á mikið ferðalag.
Á jóladag heimsóttu þrír síðuna mína. Það er nýtt met. Ég held að aldrei hafi jafn fáir komið á síðuna. Gott mál.
Annars var ég að djamma með vinum í gær. Drakk amerískan bjór í íbúð í stúdentagörðunum og endaði svo á Húsi Málarans, þar sem við drukkum tequila og kreistum sítrónu í augað. Hitti Tobba, sem bar einu sinni titilinn “næst besti ljósmyndari í Verzló”.
Konan í pulsuvagninum ætlaði að rukka Togga aukalega því hann bað um svo mikinn lauk á pylsuna. Það fannst mér ekki sanngjarnt.
Hitti svo Tomma Sölva, gamla hagfræðikennarann minn inná Húsi Málarans. Það var sniðugt. Enn sniðugara hefði verið ef ég hefði hitt Valdimar Hergeirs þar.
Það er gaman að djamma á Íslandi. Það er svo ótrúlega ólíkt öllu djammi í Bandaríkjunum þótt það sé vissulega mjög skemmtilegt líka.
Á föstudaginn fór ég í partí á Álftanesi. Leigubíll frá Álftanesinu inní Garðabæ kostaði þúsundkall. Það er dýrt
Veit einhver hvernig ég get sett leitarglugga (leit.is og google) inná vefsíðu, sem ég er að búa til???????????????????
Ég vil ekki bara hafa link, heldur vil ég bara geta stimplað beint inn leitarorð á minni síðu og smellt á takka og komist þá yfir á leitarniðurstöður. Þetta á að vera einfalt en ég er bara svona vitlaus.
Ég og Hildur fórum í gær á Kaffi Victor, þar sem við sáum Jón Baldvin tala fyrir fullum sal.
Að þessu sinni einbeitti hann sér að því að tala um bandaríska heilbrigðiskerfið og skort á almennum sjúkratryggingum í því kerfi. Þetta var nokkuð athyglisverður fyrirlestur fyrir mig, sérstaklega þar sem einn tíminn minn í skólanum á þessari önn fjallaði einmitt mikið um bandaríska kerfið. Stjórnmálafræðikennarinn minn, Peter Swenson, hefur einmitt búið í Svíþjóð og heillast svo mikið af kerfinu á Norðurlöndum að hann hefur skrifað um það margar bækur, auk þess að kenna þennan tíma. Á lokaprófinu mínu í þessum tíma skrifaði ég stutta ritgerð um þetta málefni og ætla ég aðeins að skrifa núna um hvað mér finnst um bæði íslensku og bandarísku kerfin.
Bandaríska kerfið er nefnilega, hvað sem þeir hjá Frelsi.is segja, meingallað. Ég trúi því að ríkið eigi að afnema öll höft og hætta í öllum rekstri. Hinsvegar trúi ég því að ríkið eigi að sjá fyrir sjúkratryggingum fyrir alla. Bandaríska leiðin, þar sem atvinnurekendur skaffa tryggingarnar er meingölluð. Þannig fá þeir, sem eru atvinnulausir litlar bætur og einnig þeir, sem vinna í verktakavinnu. Einnig þeir, sem vinna í láglaunavinnustörfum, svo sem á McDonald’s.
Bandaríkjamenn hafa líka ákveðið að stjórna ekkert framboði á heilbrigðisþjónustu. Þeir rökstyðja það sem svo að almenningur eigi að vera skynsamur neytandi á heilbrigðisþjónustu alveg einsog þeir eru skynsamir þegar þeir kaupa sér kaffi. Málið er bara ekki svo einfalt, því að almenningur hefur lítið vit á að bera saman heilbrigðisþjónustu og þegar fólk þarf á þjónustunni að halda hefur það oftast lítinn tíma til að velta því fyrir sér hvar best sé að beina viðskiptum sínum.
Það að Bandaríkjamenn stjórna ekki framboðinu hefur orðið til þess að það er gríðarlegt offramboð af rúmum á sjúkrahúsi. Mörg sjúkrahús ná sjaldan yfir 50% nýtingu á rúmum. Ekki það að það sé skortur á sjúklingum, heldur er mörgum sjúklingum neitaður aðgangur vegna þess að þeir eru ekki (eða illa) tryggðir. Þannig að mörg sjúkrahús kjósa að láta fremur rúm standa auð frekar en að hjálpa fólki.
Með bandaríska heilbrigðiskerfinu hefur ójöfnuður aukist gríðarlega. Þeir sem hafa efni á þjónustunni geta notið afbragðsþjónustu, sem er án efa sú besta sem gerist í heiminum. Það eru hins vegar aðeins þeir efnameiri, sem geta nýtt sér þessa þjónustu.
Vandamál heilbrigðiskerfisins snýst um þrjá hluti: Að þjónustan sé sem best, Að þjónustan sé sem ódýrust, Að sem flestir geti notað þjónustuna. Það er hinsvegar ómögulegt að sameina þessa hluti. Þetta snýst einfaldlega að finna kerfi, sem getur hámarkað þessa þrjá hluti.
Bandaríska kerfið stendur sig ömurlega varðandi hlutina þrjá. Reyndar er þjónustan sú besta í heimi. Hins vegar eyða Bandaríkjamenn langmest allra þjóða (sem hlutfall af landsframleiðslu) í heilbrigðiskerfið. Þrátt fyrir það, þá eru tugmilljónir manna, sem fá enga þjónustu.
Íslenska kerfið er mun betra. Þar er þjónustan á mjög háu stigi, hún er tiltölulega ódýr og allir Íslendingar geta nýtt sér þjónustuna, sama hvað þeir heita eða gera.
Sennilega mun reynast erfitt að breyta bandaríska kerfinu. Þegar Bill Clinton varð forseti hafði kostnaður fyrirtækja af heilbrigðistryggingum starfsmanna aukist gríðarlega. Þess vegna studdu mörg stórfyrirtæki það átak, sem Clinton ætlaði að gera í tryggingamálum. Þegar hins vegar stóru hagsmunaaðilarnir sáu þetta, þá gerðu þeir sitt besta í að lækka kostnaðinn við tryggingar. Þeim tókst það og því minnkaði stuðningur stórfyrirtækjanna við Clinton og umbætur hans urðu að engu. Síðan hefur komið á daginn að eftir að Clinton planið misheppnaðist hefur kostnaðurinn aftur byrjað að vaxa á gríðarlegum hraða.
Það þarf náttúrulega ekki að taka það fram að Jón Baldvin var á fundinum í gær mjög gagnrýninn á bandaríska kerfið. Reyndar var fyrirlestur hans mjög svipaður því, sem maður hefur fengið að heyra frá prófessorinum mínum.
Jón Baldvin benti réttilega á að það bandarískt þjóðfélag mun ekki endalaust sætta sig við það lýðræði, sem er í gangi í landinu. Sögunni er ekki lokið einsog margir halda.
Við Hildur komum heim á föstudagsmorgun. Allir búnir að spyrja okkur hvernig það sé að vera komin heim. Mér finnst það bara fínt.
Síðasta prófið var allt í lagi. Við flugum svo til Boston, þar sem við biðum í fjóra tíma (á leiðinlegasta flugvelli í heimi) og síðan flugum við heim.
Helgin var bara fín. Ég var reyndar svo þreyttur á föstudeginum að ég nennti ekki að gera neitt eða hringja í neinn. Ég var náttúrulega ekkert búinn að sofa síðustu daga vegna próflesturs. Á laugardag fórum við Hildur svo í nýju Kringluna, sem var bara fín. Um kvöldið fór ég svo með vinunum á djammið. Eftir að hafa drukkið jólabjór heima hjá Borgþóri og Björk fórum við á ball með Sálinni. Já, á ball með Sálinni enda er ég (einsog allir vita) gríðarlega mikill Sálaraðdáandi. Þetta var víst jólaball hjá RU…
Það er svo langt síðan ég skrifaði um eitthvað á Íslandi, þannig að ég veit ekki hversu mikið ég á að segja. Mér finnst það allt í lagi að vera að skrifa um vini mína í Bandaríkjunum, því það þekkja þá engir. En það er öðruvísi hér heima.
Þá er ég búinn í þremur prófum af fjórum. Vaknaði klukkan fimm í morgun til að renna yfir 15 blaðsíður af fjármála/stærðfærði formúlum. Tók síðan stærðfræðiprófið klukkan 9. Eftir próf kláraði ég svo félagsfræðiritgerðina mína um Procter & Gamble. Þér, lesandi góður, finnst kannski ekki gaman að lesa um próflestur minn… mér finnst líka ekki heldur gaman að læra stærðfræðisannanir, þannig að við erum jafnir.
Ég er svo búinn að vera að vesenast í ýmsu dóti. Fór m.a. og sótti um bílastæðaleyfi fyrir næsta ár. Nokkuð gaman að miðinn, sem er í framrúðinni hefur breyst. Áður var á miðanum teikning af lítilli götu hér í borg, en núna er í staðinn kominn bandaríski fáninn og frasinn “united in liberty – city of Evanston”. Menn þreytast seint á þessum fána.
Annars er það bara hagfræðipróf á fimmtudag (Industrial Organizations) og þá er ég búinn.
Ég skil ekki alveg hvernig Egill Helgason nennir yfir höfuð að fara í bíó.
Samkvæmt honum eru allar nýjar myndir ömurlegar. Að hans mati geta engir gert myndir nema gamlir eða dauðir snillingar einsog Welles, Fellini eða Bergman.
Afskaplega leiðinlegt að lesa þetta nöldur í honum út í allar nýjar kvikmyndir. Núna er hann til dæmis að gagnrýna barnamyndina um Harry Potter. Harry Potter er gerð fyrir 10 ára krakka…
Honum finnst líka Kubrick vera lélegur leikstjóri (ég fann ekki greinina). Ég er ósammála.
Sjá meira nöldur.
Síðustu dagar hafa ekki verið ýkja spennandi. Alveg einsog í dagurinn í dag, þá hafa síðustu dagar farið í lestur og ritgerðasmíð. Núna akkúrat er það stjórnmálafræðin, var að klára hina athyglisverðu The Mystery of Capital: Why Capitalism Triumphs in the West and Fails Everywhere Elseog þarf næst að lesa States and the Reemergence of Global Finance : From Bretton Woods to the 1990s.
Einu pásurnar, sem maður tekur eru vegna íþrótta í sjónvarpinu. Í morgun horfði ég á Liverpool-‘Boro, sem Liverpool vann frekar auðveldlega. Á morgun er það svo aðalleikurinn í NFL, Chicago Bears – Green Bay Packers. Annars ætti ég sennilega að sleppa því að horfa á þann leik, en ég efast um sjálfsaga minn.
Jú, svo fórum við Hildur á ‘s 11 í gær. Hún var góð. Mjög góð.
Það er nokkuð skrítið að það eru ekki nema fimm dagar þangað til að við Hildur förum heim. Við höfum verið hérna alveg síðan annan janúar. Ég hef lítið verið heima á Íslandi síðustu ár, en samt hef ég bara einu sinni áður verið svona lengi erlendis í einu.
Síðasta vikan hérna verður strembin. Ég er að fara í próf á mánudag, þriðjudag og fimmtudag, auk þess, sem ég á eftir að skila inn félagsfræðiritgerð. Síðasta prófið, sem er hagfræði er búið á fimmtudag klukkan 11. Þrem tímum síðar eigum við svo flug til Boston, þaðan sem við eigum flug til Keflavíkur.
Allavegnaa, þá er okkur farið að hlakka til að koma heim um jólin. Hildur ætlar að sofa og verlsla í fríinu, en ég verð sennilega að vinna eitthvað í vefmálum. Samt ætla ég að vinna minna heldur en um síðustu jól, en þá vann ég alla dagana frá 8-10 um kvöldið.
Athyglisverð grein á Múrnum um nýlega skoðanakönnun. Þar segir m.a. í lok greinarinnar:
Og þeim mun fjölga þegar kreppan skellur á.
Með öðrum orðum, fylgi VG mun aukast því meiri, sem kreppan er á Íslandi.
Mikið hlýtur það nú að vera óþægileg staða fyrir Vinstri Græna. Ætli þeir á Múrnum vonist til að kreppan aukist? Ef ástandið er bara nógu slæmt, þá hlýtur fylgi VG að rjúka uppúr öllu.
Ég man einhvern tímann að einhver stjórnmálaskýrandi var spurður hver hann héldi að yrði forseti Bandaríkjanna árið 2004. Hann sagði að þrátt fyrir að honum væri meinilla við George W Bush, þá vonaðist hann til að Bush yrði endurkjörinn, því að það hlyti að þýða að landinu hefði vegnað vel undir stjórn hans.
Ætli stjórnmálamenn, sem tapa kosningum, vilji innst inni að hagkerfinu gangi illa, bara til að þeir geti komið fjórum árum seinna og sagt: “Þið hefðuð átt að kjósa mig.”?