I'm coo-coo for Cocoa Puffs

Morgunblaðið á netinu fer oft í taugarnar á mér, sérstaklega þegar þeir eru að flytja fréttir um ekki neitt og þegar þeir eru að birta fréttatilkynningar, sem eru í raun og veru bara auglýsing fyrir ákveðin fyrirtæki eða vörur.

Gott dæmi um þetta er frétt, sem birtist í dag, Íslendingar eiga heimsmet í neyslu Cocoa Puffs. Þarna hefur greinilega einhver markaðsmaður hjá Nathan og Olsen fengið einhvejrar upplýsingar frá General Mills um það hve marga gáma þeir hafa keypt af Cocoa Puffs undanfarið. Þeir hafa svo sent tilkynningu á Moggann og Mogginn birtir tilkynninguna fyrirvaralaust, þrátt fyrir að þeir hafi nú bætt einhverju næringarfræðidóti við.

Kannski ættu öll fyrirtæki að apa þetta upp eftir Nathan og Olsen. Þá gæti til birst fréttir á mbl.is um það að Íslendingar eigi heimsmet í neyslu á Appollo lakkrís, skyri, Prince Polo, Chupa sleikjóum, SS pulsum og fleiru.

Það er allt í lagi fyrir fyritæki að birta svona upplýsingar á þeirra eigin vefsvæðum eða tilkynna viðskiptavinum sínum þetta. Hins vegar er þetta alls ekki frétt, sem á að vera á mbl.is.

Hristo Stoichkov

Hristo Stoichkov var einn af mínum uppáhaldsleikmönnum, þegar hann lék með Barcelona. Hann leikur núna með Chicago Fire, sem er besta liðið í MLS, bandarísku atvinnudeildinni. Ég og Hildur fórum á leik með þeim fyrir nokkru, en fyrir leikinn gat fólk fengið að taka myndir með uppáhaldsleikmönnum sínum.

Ég náttúrulega fékk að taka mynd með Stoichkov, en hann var mjög sáttur þegar hann sá að ég var mættur í Barcelona búning.

Verslunarmannahelgi

Í fyrsta skipti síðan ég bjó í Mexíkó var ég ekki heima um verslunarmannahelgi. Þannig að í staðinn fyrir að horfa á Jet Black Joe með vinum mínum var ég staddur hérna í Chicago í 40 stiga hitabylgju.

Okkur Hildi fannst þó nauðsynlegt að gera eitthvað þessa helgi og halda hana hátíðlega. Við fórum því í útilegu með Kate og Ryan, vinum okkar. Við keyrðum í 3 tíma suð-vestur af Chicago í Kickaboo State Park. Þar vorum við með flott tjaldstæði, þar sem við grilluðum grænmetisborgara (já, grænmetisborgara), kveiktum varðeld, átum heil ósköp af S’mores, spiluðum domino’s og drukkum Budweiser.

Þetta var svona amerísk útgáfa af verslunarmannahelgi og var mjööög gaman.

Hitabylgja

Moggin fjallar um hitabylgjuna, sem hefur farið yfir Chicago og miðvesturríkin undanfarna daga. Ég held að hún hafi nú náð hámarki í gær, allavegana var alveg hrikalegt að sofa því við erum ekki með neina loftkælingu í íbúðinni okkar.

Við vorum að spá í að kaupa okkur loftkælingu fyrir nokkrum vikum, en ákváðum að hætta við. Við létum okkur nægja viftuna okkar, sem er á fullu útí glugga. Í þessari hitabylgju gerir hún hins vegar nákvæmlega ekkert gagn.

Þegar ég er í bílnum á leiðinni heim úr vinnunni horfi ég líka öft öfundsjúkur á fólkið í hinum bílunum, sem er með rúðurnar skrúfaðar upp og loftkælinguna á fullu. Ég er alltaf með rúðurnar niðri og reyni að keyra eins hratt og ég kemst til þess að það leiki einhver smá vindur um bílinn en það tekst sjaldan.

Annars er ég ekkert að kvarta, því við höfum geta notið þess að vera úti um helgar. Það er bókað að við förum á ströndina um næstu helgi.

Kvennafótbolti

Ég var að komast að því að það er búið að setja af stað atvinnu knattspyrnudeild fyrir konur hérna í Bandaríkjunum. Hins vegar myndi ég ekki hafa hugmynd um þessa deild ef ekki væri fyrir morgunblaðið á netinu. Þeir flytja reglulega fréttir af deildinni, þar sem einhverjar íslenskar stelpur leika í deildinni.

Ég hef hvorki heyrt, lesið né séð neitt um þessa deild í bandarískum fjölmiðlum, samt les ég daglega íþróttasíður Chicago Tribune og horfi á SportCenter. Fyndið hvað Morgunblaðið gerir mikið úr þessari deild, miðað við áhuga innfæddra.

Radiohead

Tónleikarnir í Grant Park í gær voru ótrúlegir.

Aðstæður voru frábærar. Veðrið var gott og um 25000 manns fylltu hluta af Grant Park, sem er stærsti almenningsgarðurinn í Chicago og liggur við Michigan vatn. Umhverfið er líka mjög skemmtilegt því í austur er vatnið en í vestri blasa við skýjakljúfar, þar sem Sears Tower rís hæst.

Radiohead tók mikið af efni af nýju plötunum og er ekkert nema gott um það að segja. Þeir byrjuðu á National Anthem, tóku svo Knives Out og svo Karma Police. Allt í allt held ég að þeir hafi tekið um 10 lög af nýju plötunum. Af þeim fannst mér án efa You and whose army? vera best. Það má í raun segja að í því lagi hafi Yorke notið sín best. Hann sat einn fyrir framan píanóið með andlitið alveg ofan í myndavélinni og rödd hans fékk alveg að njóta sín.

Ég held því fram, eftir þessa tónleika, að Tom Yourke sé besti rokksöngvari í heimi. Þvílíkur snillingur. Það er í raun lygilegt að hlusta á hann syngja lög einsog t.d. Fake Plastic Trees, sem þeir tóku eftir að þeir höfðu verið klappaðir upp.

Radiohead tóku, í viðbót við nýju login, flest af sínum þekktustu lögum, einsog Lucky, Airbag, Iron Lung, Fake Plastic Trees, No Surprises, Karma Police og Paranoid Android.

Alls voru þeir klappaðir upp þrisvar. Í fyrst skiptið tóku þeir fjögur lög, þar á meðal stórkostlega útgáfu af IDIOTEQUE. Í annað skiptið tóku þeir tvö lög, annað af Pablo Honey og hitt You and Whose army?, sem var ótrúlegt. Í síðasta skiptið tóku þeir svo Street Spirit (Fade away).

Ég var í raun orðlaus eftir tónleikana. Ég hef nú farið á talsvert mikið af tónleikum með flestum mínum uppáhaldssveitum, en ég man varla eftir betri tónleikum. Það er einna helst Roger Waters, sem stendur uppúr. Fyrir utan þá tónleika, þá hef ég ekki séð betri tónleika.